Hoppa yfir valmynd

Gerð kjörskrár

Þjóðskrá Íslands annast gerð kjörskrár og eru þær gerðar samkvæmt skráningu lögheimilis hvers kjósanda í þjóðskrá. Þjóðskrá Íslands auglýsir í Stjórnartíðindum og fjölmiðlum að gerðar hafi verið kjörskrár jafnskjótt og gerð þeirra er lokið, eigi síðar en 38 dögum fyrir kjördag.

Að lokinni birtingu auglýsingar sendir Þjóðskrá sveitarstjórnum kjörskrár með rafrænum hætti, án endurgjalds. Kjörskrár skulu aðgengilegar almenningi til skoðunar á skrifstofum sveitarstjórna eða öðrum hentugum stað tímanlega fyrir kosningar. 

Þjóðskrá Íslands getur gefið út leiðbeiningar um afhendingu kjörskrár til sveitarfélaga og rafrænan aðgang þeirra að kjörskrá og skal farið nákvæmlega eftir leiðbeiningum hennar. 

Á kjörskrá skal taka þá íbúa sveitarfélags sem uppfylla öll kosningarréttarskilyrði á viðmiðunardegi kjörskrár, sbr. 4. gr. kosningalaga. Í kjörskrá skal skrá nöfn kjósenda, kennitölu, lögheimili, kyn og ríkisfang. 

Athugasemdum við kjörskrá skal beina til Þjóðskrár Íslands sem tekur þær til meðferðar og gerir viðeigandi leiðréttingar ef við á. Leiðréttingar á kjörskrá eru gerðar skv. 32. gr. kosningalaga og er heimilt að leiðrétta kjörskrá í eftirfarandi tilvikum: 

  • Þjóðskrá Íslands hefur láðst að skrá lögheimili kjósanda til samræmis við tilkynningu hans um flutning, 
  • Þjóðskrá Íslands berst vitneskja um andlát kjósanda, 
  • Þjóðskrá Íslands berst vitneskja um að erlendur ríkisborgari hafi öðlast íslenskt ríkisfang eða að kjósandi hafi misst íslenskt ríkisfang, 
  • íslenskur ríkisborgari, sem aldrei hefur átt lögheimili hér á landi eða sem misst hefur kosningarrétt skv. 2. mgr. 3. gr. kosningalaga, flyst til landsins og skráir aftur lögheimili sitt hér á landi eftir viðmiðunardag kjörskrár, 
  • Þjóðskrá Íslands verður þess að öðru leyti áskynja að villa hafi verið gerð við skráningu kjósanda við kjörskrárgerðina. 

Þjóðskrá Íslands sendir hlutaðeigandi sveitarstjórnum og viðkomandi kjósanda, ef við á, tilkynningu um leiðréttingar sem hún gerir á kjörskrá og gefur út leiðbeiningar um hvernig leiðréttingar skuli færðar á prentuð kjörskráreintök sveitarstjórna. Sveitarstjórnum er óheimilt að færa á prentuð kjörskráreintök aðrar leiðréttingar en þær sem Þjóðskrá Íslands heimilar. 

Heimilt er að skjóta ákvörðun Þjóðskrár Íslands um leiðréttingar á kjörskrá til úrskurðarnefndar kosningamála, innan sólarhrings frá dagsetningu hennar. Úrskurðarnefndin veitir kæranda hæfilegan frest til að koma að frekari gögnum áður en hún fellir úrskurð í málinu. 

Þau stjórnmálasamtök sem bjóða fram lista við kosningar geta fengið kjörskrána í rafrænni útgáfu hjá Þjóðskrá Íslands. Heimilt er að nýta aðganginn í þágu eftirlits með framkvæmd kosninga, til að sannreyna hverjir séu kjósendur og koma upplýsingum á framfæri við þá í aðdraganda kosninga. Óheimilt er að birta kjörskrána eða einhverjar upplýsingar úr henni opinberlega eða miðla henni. Við vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt ákvæðinu skulu stjórnmálasamtök uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. 

Að fengnum tillögum landskjörstjórnar skal ráðherra í reglugerð kveða nánar á um heimildir stjórnmálasamtaka og frambjóðenda til nýtingar kjörskrárgagna skv. 1. mgr., meðferð þeirra á kjörskrá og lokun rafræns aðgangs að henni. 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum