Kærur
Til úrskurðarnefndar kosningamála er unnt að skjóta tilgreindum ákvörðunum landskjörstjórnar, yfirkjörstjórna sveitarfélaga og Þjóðskrár Íslands um undirbúning og framkvæmd kosninga, sbr. kosningalög.
Til nefndarinnar má skjóta:
- Ákvörðun Þjóðskrár Íslands um leiðréttingar á kjörskrá skv. 32. gr. kosningalaga til úrskurðarnefndar kosningamála, sbr. 22. gr. laganna, innan sólarhrings frá dagsetningu hennar.
- Synjun Þjóðskrár Íslands á grundvelli 2. mgr. 4. gr. kosningalaga til úrskurðarnefndar kosningamála.
- Ákvörðun yfirkjörstjórnar sveitarfélags varðandi gildi framboðslista og önnur atriði er þá varða má skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála, sbr. 22. gr. kosningalaga.
- Úrskurði yfirkjörstjórnar sveitarfélags um kjörgengi frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningum, sbr. 22. gr. kosningalaga.
- Ágreiningi um hæfi kjörstjóra eða annarra sem gegna störfum hans, sbr. 3. mgr. 72. gr. kosningalaga.
- Ákvörðun sem landskjörstjórn tekur samkvæmt öðrum lögum.
- Kæru vegna ólögmætis sveitarstjórnarkosninga, sbr. 128. gr. kosningalaga.
Um frest til þess að kæra einstakar ákvarðanir fer samkvæmt fyrirmælum kosningalaga.
Ákvörðun málsaðila um að bera ákvarðanir úrskurðarnefndar kosningamála undir dómstóla frestar ekki réttaráhrifum þeirra.
Úrskurði úrskurðarnefndar kosningamála verður ekki skotið til annars stjórnvalds.
Kærur vegna sveitarstjórnarkosninga á grundvelli 128. gr. kosningalaga, skal senda úrskurðarnefnd kosningamála innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga.
Úrskurðarnefnd kosningamála skal úrskurða innan fjögurra vikna frá því að kæra berst nema mál sé mjög umfangsmikið og skal þá úrskurða innan sex vikna.
Ef úrskurðarnefnd kosningamála úrskurðar kosningar ógildar eftir að nýkjörin sveitarstjórn hefur tekið við störfum skal hún sitja þar til nýjar kosningar hafa farið fram og úrskurðað hefur verið um kærur sem fram kunna að koma vegna uppkosningarinnar.
Ef kosning er úrskurðuð ógild skal boðað til nýrra kosninga og ákveða kjördag svo fljótt sem því verður við komið og eigi síðar en innan mánaðar.
Í 130. gr. kosningalaga er tekið fram að gallar á framboði eða kosningu leiði ekki til ógildis kosninga nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.
Framkvæmd sveitarstjórnarkosninga 2022
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.