Hoppa yfir valmynd

Kjörstjórnir

Í hverju sveitarfélagi skal vera yfirkjörstjórn sveitarfélags sem kosin er af sveitarstjórn eins fljótt og unnt er eftir sveitarstjórnarkosningar. Kjörtímabil yfirkjörstjórnar skal vera hið sama og sveitarstjórnar.

Skipun kjörstjórna

Í sveitarfélagi sem skipt er í kjördeildir skal sveitarstjórn kjósa jafnmargar undirkjörstjórnir og fjöldi kjördeilda er. Þar sem kjördeildir eru fleiri en ein á sama kjörstað getur sveitarstjórn jafnframt kosið hverfiskjörstjórn til að hafa umsjón með kosningastarfi á kjörstaðnum í umboði yfirkjörstjórnar sveitarfélags. Í sveitarfélagi sem er ekki skipt í kjördeildir gegnir kjörstjórn störfum yfir- og undirkjörstjórna.

Hver yfirkjörstjórn skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Hver undirkjörstjórn og hverfiskjörstjórn skal skipuð þremur mönnum og nægilegum fjölda varamanna. Kjörstjórnarmenn skulu eiga kosningarrétt í sveitarfélaginu. Kjörstjórnir kjósa sér oddvita og skipta að öðru leyti með sér verkum.

Nú fær framboð sem fulltrúa á í sveitarstjórn ekki kjörinn fulltrúa í yfirkjörstjórn sveitarfélags og skal því þá heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í kjörstjórninni og annan til vara. Áheyrnarfulltrúi hefur sama rétt og kjörinn fulltrúi annan en atkvæðisrétt.

Kjörstjórnir eru í störfum sínum óháðar ákvörðunarvaldi sveitarstjórnar.

Verkefni kjörstjórna

Yfirkjörstjórn hefur yfirumsjón með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í viðkomandi sveitarfélagi en þar sem sveitarfélagi er ekki skipt upp í kjördeildir gegnir hún jafnframt hlutverki undirkjörstjórnar. Meðal verkefna yfirkjörstjórnar eru móttaka framboðslista og ákvarðanir um gildi þeirra, gerð kjörseðla sem notaðir eru við atkvæðagreiðslu á kjörfundi og dreifing þeirra til undirkjörstjórna, talning atkvæða og uppgjör kosninga.

Allar kjörstjórnir skulu halda gerðabækur og bóka gerðir sínar.

Móttaka framboðslista

Yfirkjörstjórn sveitarfélags tekur á móti framboðum vegna kosninga til sveitarstjórna eigi síðar en kl. 12 á hádegi 36 dögum fyrir kjördag. Tilkynning um framboð getur hvort sem er verið undirrituð eigin hendi á pappír eða undirrituð með fullgildri rafrænni undirritun á rafrænt skjal sem sent er sem viðhengi í tölvupósti til viðkomandi yfirkjörstjórnar.

Yfirkjörstjórn skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt þar sem hún veitir viðtöku framboðslistum og þar sem hún dvelst meðan kosning fer fram.

Merking listabókstafs á framboðslista

Á tilkynningu um framboð skal koma fram heiti framboðslistans og upplýsingar um listabókstaf. Sé stjórnmálaflokkurinn á skrá ráðuneytisins, sbr. auglýsingu nr. 225/2022, https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=f9e7b74a-ebc8-428d-83a4-64608bed1a35 er framboðslistinn merktur með hliðsjón af skránni.  Sé framboðslistinn ekki á fyrrgreindri skrá ráðuneytisins  merkir yfirkjörstjórn sveitarfélags listana í stafrófsröð eftir því sem þeir hafa borist henni eða eftir samkomulagi við umboðsmenn listanna.

Könnun á framboðslistum

Þegar yfirkjörstjórn hefur móttekið framboðslista kannar hún hvort uppfyllt séu skilyrði kosningalaga.

Ef yfirkjörstjórn berst listi með fleiri nöfnum en tilskilið er, þá nemur hún burt af listanum öftustu nöfnin sem eru umfram tilskilda tölu. Sama gildir ef yfirkjörstjórn berst framboðslisti þar sem nafn manns stendur án þess að leyfi hans fylgi með eða ef maður hefur leyft nafn sitt á fleiri en einum lista. Ef yfirkjörstjórn verður vör við að sami kjósandi er meðmælandi með fleiri en einu framboði, skal hún ekki telja hann meðmælanda neins þeirra. Niðurstöður athugana á skilyrðum framboðs og framkomin mótmæli skulu færð í gerðabók.

Þegar framboðsfrestur er liðinn skv. kosningalögum, heldur yfirkjörstjórn fund þar sem umboðsmönnum framboðslista skal veittur kostur á að vera viðstaddir. Finnist þá gallar á framboðslista skal hlutaðeigandi umboðsmönnum gefinn kostur á að leiðrétta þá og má veita frest í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa, að jafnaði sólarhring.

Gallar á framboðslista sem yfirkjörstjórn hefur bent á en hafa ekki verið leiðréttir innan tilsetts frests koma til ákvörðunar yfirkjörstjórnar.

Jafnskjótt og yfirkjörstjórn sveitarfélags hefur lokið könnun sinni á framboðslistum stjórnmálasamtaka og eigi síðar en sólarhring eftir að framboðsfrestur rennur út, skal hún taka þá til meðferðar og:

  1. skera úr um hvort stjórnmálasamtök hafi bætt úr göllum á framboðslista, sbr. 44. gr. kosningalaga og um gildi hans að öðru leyti,
  2. ákveða, ef þörf krefur, hverjum stjórnmálasamtökum skuli telja þá framboðslista sem í kjöri verða við kosningarnar,
  3. merkja lista stjórnmálasamtaka með hliðsjón af auglýsingu um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu alþingiskosningar, en ef framboðslistar eru ekki bornir fram af stjórnmálasamtökum merkir yfirkjörstjórn sveitarfélags þá í stafrófsröð eftir því sem þeir hafa borist henni eða eftir samkomulagi við umboðsmenn listanna,
  4. kanna hvort samræmis gæti um framsetningu og frágang framboðslista, þar á meðal um ritun nafna frambjóðenda, sbr. 2. og 3. mgr. 37. gr. kosningalaga. 

Á fundi sem yfirkjörstjórn sveitarfélags boðar umboðsmenn framboðslista til, sbr. 1. mgr. 39. gr. kosningalaga, eigi síðar en þremur sólarhringum og fjórum stundum eftir að framboðsfrestur rennur út, skal hún greina frá meðferð sinni á einstökum framboðslistum og tilkynna um ákvarðanir sínar, sbr. 1. mgr.

Ákvörðun yfirkjörstjórnar sveitarfélags má umboðsmaður skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála, sbr. 22. gr. kosningalaga, innan 20 stunda frá því að hún var afhent honum. Úrskurður nefndarinnar skal liggja fyrir innan tveggja sólarhringa eftir að kærufrestur rennur út.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags úrskurðar um kjörgengi frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningum. Úrskurði hennar má skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála sem skal úrskurða eins fljótt og verða má og eigi síðar en sjö dögum frá því að kæra berst.

Aðeins einn framboðslisti kemur fram

Nú kemur aðeins fram einn framboðslisti við sveitarstjórnarkosningar og skal þá yfirkjörstjórn sveitarfélags framlengja framboðsfrest um tvo sólarhringa. Komi fram nýr framboðslisti innan þess frests er heimilt að veita honum fjögurra daga frest til að uppfylla skilyrði skv. 39. gr. kosningalaga. Komi ekki fram nýr framboðslisti áður en sá frestur er úti verður framkominn framboðslisti sjálfkjörinn.

Auglýsing framboðslista

Yfirkjörstjórn sveitarfélags auglýsir framboðslista eigi síðar en 30 dögum fyrir kjördag.

Óbundin kosning

Komi enginn framboðslisti fram áður en framboðsfrestur rennur út eða svo fá nöfn eru á framboðslistum að sveitarstjórn verður ekki fullskipuð í bundinni kosningu skal kosning verða óbundin.

Kjörgögn

Yfirkjörstjórn sveitarfélags lætur gera kjörseðla sem notaðir verða við atkvæðagreiðslu á kjörfundi við sveitarstjórnarkosningar.

Kjörseðlar skulu vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum samkvæmt nánari reglum sem ráðuneytið setur að fengnum tillögum landskjörstjórnar.

Ráðherra setur að fenginni tillögu landskjörstjórnar, reglugerð þar sem nánari er kveðið á um gerð kjörseðla, umslög, atkvæðakassa, blindraspjöld, kosningaleiðbeiningar, gerðabækur og önnur kjörgögn.

Talning

Eftir að kjörfundi er slitið skal kjörstjórn ganga frá kjörgögnum og hefja talningu atkvæða.

Talning atkvæða í sveitarstjórnarkosningum er á ábyrgð yfirkjörstjórnar sveitarfélags.

Yfirkjörstjórnir skv. 1. mgr. auglýsa með nægum fyrirvara á undan kosningum hvar og hvenær talning atkvæða fer fram.

Talningu atkvæða má ekki hefja fyrr en eftir kl. 22 að kvöldi kjördags, sbr. þó 2. mgr. 99. gr. kosningalaga.

Sé kosningu frestað skv. 124. gr. kosningalaga má talning atkvæða aldrei fara fram fyrr en kosningu er hvarvetna lokið.

Talning hefst svo fljótt sem verða má að loknum kjörfundi.

Heimilt er að hefja flokkun atkvæða og undirbúa talningu þeirra áður en kjörfundi lýkur. Flokkun atkvæða og undirbúningur talningar þeirra skal fara fram fyrir luktum dyrum þar sem talið er. Skal rýmið lokað og vaktað af hálfu yfirkjörstjórnar þar til kjörfundi er lokið.

Verði ágreiningur milli yfirkjörstjórnar og einhvers umboðsmanna um það hvort kjörseðill sé gildur eða ógildur sker yfirkjörstjórn úr. Ágreiningsseðlum skal haldið aðgreindum frá gildum og ógildum kjörseðlum.

Ráðherra setur reglugerð, að fenginni tillögu landskjörstjórnar, m.a. um framkvæmd talningar við almennar kosningar, meðferð ágreiningsseðla, meðhöndlun kjörgagna og kjörskráa og um frágang að lokinni talningu, þ.m.t. um eyðingu kjörseðla og annarra gagna og um mat á gildi atkvæðaseðla.

Talning atkvæða skal fara fram fyrir opnum dyrum svo að almenningi gefist kostur á að vera viðstaddur eftir því sem húsrúm leyfir.

Umboðsmenn skv. X. kafla kosningalaga eiga rétt á að vera viðstaddir talningu atkvæða og fylgjast með framkvæmd hennar og uppgjöri. Nú eru umboðsmenn ekki viðstaddir talningu og skal yfirkjörstjórn þá boða fólk úr sama framboði, ef unnt er, til að gæta réttar fyrir hönd framboðsins.

Við lok talningar skal yfirkjörstjórn sveitarfélags við sveitarstjórnarkosningar tilkynna niðurstöðu talningar. Þess skal getið sérstaklega hve margir atkvæðaseðlar eru auðir og hve margir ógildir af öðrum ástæðum.

Atkvæðagreiðsla á kjörfundi

Kjörstað fyrir hverja kjördeild ákveður sveitarstjórn. Á sama kjörstað mega vera fleiri en ein kjördeild.

Kjörfund skal setja á kjörstað kl. 9 árdegis, en yfirkjörstjórn getur þó ákveðið að kjörfundur skuli hefjast síðar, þó eigi síðar en kl. 12 á hádegi

Kjörstað skal auglýsa almenningi á undan kjörfundi með nægum fyrirvara.

Útbúnaður í kjördeild

Í hverri kjördeild skal vera hæfilegur fjöldi kjörklefa sem skulu þannig búnir að þar megi greiða atkvæði án þess að aðrir geti séð hvernig kjósandi greiðir atkvæði.

Í kjörfundarstofu skal vera atkvæðakassi. Hann skal þannig búinn að ekki sé unnt að ná kjörseðli úr honum án þess að opna hann. Atkvæðakassar skulu innsiglaðir þannig að þess sjáist merki séu þeir opnaðir.

Í upphafi kjörfundar skal kjörstjórn ganga úr skugga um að atkvæðakassar séu tómir og innsigla síðan með innsigli sem landskjörstjórn lætur í té. Landskjörstjórn setur nánari reglur um tilhögun í kjörfundarstofu, stærð og gerð atkvæðakassa og innsigli.

Yfirkjörstjórn skal gæta þess að jafnan séu til nægir atkvæðakassar til afnota á kjörstöðum.

Fullskipuð kjörstjórn viðstödd setningu

Fullskipuð kjörstjórn skal viðstödd er kjörfundur er settur. Sé hún ekki öll viðstödd taka varamenn sæti, en séu þeir ekki heldur viðstaddir boðar sá eða þeir sem við eru úr kjörstjórninni kjósendur til að taka sæti í kjörstjórninni og halda þeir sæti sínu uns hinir koma.

Hlutverk kjörstjórna við kosningaathöfnina

Kjörstjórn skal sjá til þess að á kjörstað og í næsta nágrenni hans fari hvorki fram óleyfilegur kosningaáróður eða kosningaspjöll né önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga.

Meðan á kosningarathöfninni stendur skal kjörstjórnin sitja við borð í kjörfundarstofunni. Aldrei má nema einn úr kjörstjórn ganga út í senn og felur hann öðrum úr kjörstjórninni verk sitt á meðan nema varamaður sé tiltækur.

Þegar kjósandi mætir á kjörstað gerir hann kjörstjóra grein fyrir sér, til dæmis með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjórnar.  Ef hann á rétt á að greiða atkvæði afhendir kjörstjórn honum einn kjörseðil.

Kjósendur skulu greiða atkvæði í þeirri röð sem þeir gefa sig fram. Kjósandi skal vera einn í kjörklefanum, sbr. þó 89. gr. kosningalaga. Þó getur kjörstjórn veitt kjósanda með ósjálfbjarga barn undanþágu frá þessu skilyrði enda liggur fyrir að annars gæti kjósandi ekki greitt atkvæði.

 Kjörstjórn getur ákveðið, þrátt fyrir 55. gr. kosningalaga, að í kjörfundarstofu séu ekki, auk þeirra sem starfa við framkvæmd kosninganna, aðrir en kjósendur sem ætla að greiða atkvæði. Kjörstjórnin getur auk þess takmarkað fjölda kjósenda í kjörfundarstofu ef þörf þykir til að halda uppi reglu.

Kjörstjórn skal merkja við nafn kjósanda í kjörskrá áður en hann neytir kosningarréttar síns. Samtímis og merkt er við nafn kjósanda í kjörskrá skal annar kjörstjórnarmaður gæta að því að merkingin sé rétt. Eigi kjósandi rétt á að greiða atkvæði samkvæmt kjörskránni skal kjörstjórn eða fulltrúi hennar afhenda kjósanda kjörseðil. Þá er kjósandi hefur tekið við kjörseðlinum fer kjósandi með hann inn í kjörklefann, þar sem hann ritar atkvæði sitt á kjörseðilinn.

Nú er kjörskrá prentuð og skulu þá oddviti kjörstjórnar og annar meðkjörstjórnarmanna hafa fyrir sér hvor sitt eintak kjörskrárinnar. Skulu þeir báðir gera merki við nafn hvers kjósanda um leið og hann hefur neytt kosningarréttar síns.

Kjörstjórn má ekki meina neinum sem er á kjörskrá að greiða atkvæði nema hann hafi afsalað sér atkvæðisrétti í þeirri kjördeild og greitt atkvæði annars staðar. Þá gildir sömuleiðis að engum sem ekki er á kjörskrá má kjörstjórn leyfa að greiða atkvæði nema hann sanni með vottorði að nafn hans standi á kjörskrá í annarri kjördeild innan sama kjördæmis og hann hafi afsalað sér þar atkvæðisrétti, enda sé vottorðið gefið út af kjörstjórn viðkomandi kjördeildar.

Ráðherra skal, að fenginni tillögu landskjörstjórnar, setja reglugerð um móttöku og meðferð kjörstjórna á atkvæðum greiddum utan kjörfundar, atkvæðakassa, aðföng sem eiga að vera til staðar á kjörstað og í kjörklefa, verklag kjörstjórna við afstemmingu atkvæða og önnur atriði um atkvæðagreiðslu á kjörfundi.

Aðstoð kjörstjórnar til kjósanda

Kjósandi á rétt til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. Aðstoð skal veitt af þeim úr kjörstjórninni sem kjósandi tilnefnir eða aðstoðarmanni sem fylgir kjósanda á kjörstað. Aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir frá því hvernig hann vill greiða atkvæði.

Aðstoðarmanni kjósanda er skylt að fara að fyrirmælum kjósanda og hann er bundinn þagnarskyldu um það sem honum og kjósanda fer á milli í kjörklefanum.

Frambjóðandi, maki hans, börn, systkini og foreldrar mega ekki veita aðstoð við atkvæðagreiðslu.

Aðstoðarmanni kjósanda er óheimilt að gerast aðstoðarmaður fleiri en þriggja kjósenda við sömu kosningu.

Að fengnum tillögum landskjörstjórnar skal ráðherra í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd aðstoðar við atkvæðagreiðslu, svo sem um fræðslu kjörstjórna til aðstoðarmanna, hvernig skuli bóka um veitta aðstoð í gerðabók o.fl.

Kjörfundi slitið

Kjörfundi má ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að hann hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Kjörfundi má þó slíta er allir sem á kjörskrá standa hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.

Kjörfundi skal þó slíta eigi síðar en kl. 22 á kjördag. Þeir kjósendur sem hafa gefið sig fram fyrir þann tíma eiga þó rétt á að greiða atkvæði.

Eftir að kjörfundi er slitið skal kjörstjórn ganga frá kjörgögnum og hefja talningu atkvæða.

Að fengnum tillögum landskjörstjórnar skal ráðherra í reglugerð setja nánari reglur um frágang kjörgagna eftir slit atkvæðagreiðslu, frágang og innsiglun kjörgagna ef senda á þau á annan stað til talningar og önnur atriði er snerta störf kjörstjórna að þessu leyti.

Meðferð utankjörfundaratkvæða

Berist kjörstjórn atkvæðakassi með atkvæðum greiddum utan kjörfundar, sbr. 77. gr., kosningalaga, skal athuga hvort innsigli kassans séu heil og ósködduð. Kjörstjórnarmaður opnar atkvæðakassann í viðurvist umboðsmanna lista. Nú eru umboðsmenn ekki viðstaddir og skal yfirkjörstjórn þá boða fólk úr sama framboði, ef unnt er, til að gæta réttar fyrir hönd framboðsins. Telja skal bréfin og bera þau saman við skráningu kjörstjóra um atkvæðagreiðsluna, sbr. 1. og 2. mgr. 77. gr. kosningalaga. Kjörstjórnin opnar síðan atkvæðisbréfin og kannar hvort taka skuli atkvæðið til greina, sbr. 94. gr. kosningalaga. Ef taka skal atkvæðið til greina skal setja sérstakt merki til bráðabirgða við nafn kjósandans í kjörskránni, en kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfinu skal lagt á ný í sendiumslagið og það lagt til hliðar og varðveitt meðan atkvæðagreiðslan fer fram. Ef ekki skal taka atkvæðið til greina skal ganga frá kjörseðilsumslaginu og fylgibréfinu og varðveita á sama hátt, en rita skal ástæðu þess að atkvæðið verður ekki tekið til greina á sendiumslagið.

Atkvæðisbréfa, sem kjörstjórn kunna að hafa borist eða berast meðan á atkvæðagreiðslu stendur, skal getið í gerðabók. Skal fara með þau atkvæði svo sem segir í 1. mgr. 92. gr. kosningalaga. Ef kjósandi er ekki á kjörskrá í kjördeildinni (sveitarfélaginu) skal kjörstjórnin kanna hvar kjósandi er á kjörskrá og ef unnt er koma atkvæðisbréfinu í rétta kjördeild en ella skal bréfið varðveitt þar til atkvæðagreiðslu lýkur.

Yfirkjörstjórn er heimilt að hefja flokkun atkvæðisbréfa skv. 1. mgr. 92. gr. kosningalaga tímanlega fyrir kjördag þannig að þau verði afhent í rétta kjördeild á kjördag.

Rannsókn utankjörfundaratkvæða að kjörfundi loknum

Að atkvæðagreiðslu lokinni kannar kjörstjórnin á ný, í viðurvist umboðsmanna lista, þau utankjörfundaratkvæði sem kjörstjórninni hafa borist og ekki hafa verið aftur heimt, sbr. 77. gr. kosningalaga.

Ef sá sem atkvæðið er frá stendur á kjörskrá og á rétt á að greiða atkvæði og hefur ekki greitt atkvæði á kjörfundi skal kjörstjórnin setja merki við nafn kjósandans á kjörskránni og setja kjörseðilsumslagið óopnað í atkvæðakassann.

Ef atkvæðisbréf verður ekki tekið til greina, sbr. 94. gr., kosningalaga skal það áritað eins og segir í 1. mgr. 92. gr. laganna. Kjörstjórn skal skrá fjölda utankjörfundaratkvæða sem ekki verða tekin til greina.

Ef kjósandi, sem sent hefur frá sér utankjörfundaratkvæði, er ekki á kjörskrá í kjördeildinni skal kjörstjórnin geta þess sérstaklega í gerðabókinni og senda slík atkvæðisbréf aðskilin til yfirkjörstjórnar.

Nú verður ágreiningur innan kjörstjórnar eða milli kjörstjórnar og umboðsmanns lista um hvort utankjörfundaratkvæði sé gilt eða ógilt og skal þá bóka nákvæmlega í gerðabókina í hverju ágreiningurinn er fólginn og leggja kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfi aftur í sendiumslagið og senda það til úrskurðar yfirkjörstjórnar.

Kosningum frestað og uppkosningar

Nú ferst kosning fyrir í einhverri kjördeild á boðuðum kjördegi af óviðráðanlegum orsökum, og boðar yfirkjörstjórn þá til kjörfundar að nýju innan viku.

Yfirkjörstjórn getur frestað kosningu í kjördeild eftir að hún er hafin ef hún telur að óviðráðanlegar orsakir hindri að kosning geti fram haldið og allir kjörstjórnarmenn eru sammála um frestunina. Hafi kosningu verið frestað ber að boða til kjörfundar að nýju á sama hátt og segir í 1. mgr. 124. gr. kosningalaga.

Um hinn síðari kjördag gilda ákvæði XIV. kafla kosningalaga, eftir því sem við á.

Nú er kosning úrskurðuð ógild, og skal þá boðað til nýrra kosninga og ákveða kjördag svo fljótt sem því verður við komið og eigi síðar en innan mánaðar.

Skýrslur til Hagstofu Íslands

Hafi sveitarstjórn fengið undanþágu til notkunar prentaðrar kjörskrár skal yfirkjörstjórn sveitarfélags senda Hagstofu Íslands skýrslu um kosninguna ritaða á eyðublöð sem stofnunin lætur í té og vinna sérstaklega þær upplýsingar sem Hagstofa Íslands þarfnast.

Við vinnslu upplýsinga skv. 1. og 2. mgr. 126. gr. kosningalaga skulu yfirkjörstjórnir og Hagstofa Íslands gæta ákvæða laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Reglugerðir

Síðast uppfært: 6.5.2022 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum