Landskjörstjórn
Með nýjum kosningalögum, nr. 112/2021, sem tóku gildi 1. janúar 2022, var landskjörstjórn sett á fót sem sjálfstæð stjórnsýslunefnd til þess að hafa yfirumsjón með framkvæmd kosninga og til að annast framkvæmd kosningalaga. Landskjörstjórn heyrir stjórnarfarslega undir ráðherra sem fer með málefni kosninga.
Skipunartími í landskjörstjórn er fimm ár en þó þannig að hvert ár renni út skipunartími eins stjórnarmanns. Þrír stjórnarmenn skulu kosnir af Alþingi, þar á meðal formaður landskjörstjórnar, og tveir skulu tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Varamenn skulu valdir með sama hætti. Stjórnarmenn og varamenn þeirra skulu hafa reynslu og þekkingu á málefnum sem tengjast kosningum.
Í landskjörstjórn eru:
- Kristín Edwald formaður. Kosin af Alþingi. Skipuð til fimm ára.
- Arnar Kristinsson. Kosinn af Alþingi. Skipaður til eins árs.
- Hulda Katrín Stefánsdóttir. Kosin af Alþingi. Skipuð til þriggja ára.
- Birgir Björn Sigurjónsson. Tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, við sveitarstjórnarkosninga 2022.
- Valgerður Rún Benediktsdóttir. Tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, við sveitarstjórnarkosninga 2022.
- Magnús Karel Hannesson. Tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Skipaður til tveggja ára. Víkur sæti við sveitarstjórnarkosningar 2022.
- Ebba Schram. Tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Skipuð til tveggja ára. Víkur sæti við sveitarstjórnarkosningar 2022.
Varamenn í landskjörstjórn eru:
- Iðunn Garðarsdóttir. Kosin af Alþingi. Skipuð til fimm ára.
- Ólafía Ingólfsdóttir. Kosin af Alþingi. Skipuð til eins árs.
- Björn Þór Jóhannesson. Kosinn af Alþingi. Skipaður til þriggja ára.
- Ágúst Sigurður Óskarsson. Tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Skipaður til tveggja ára. Víkur sæti við sveitarstjórnarkosningar 2022.
- Elín Ósk Helgadóttir. Tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Skipuð til fjögurra ára. Víkur sæti við sveitarstjórnarkosningar 2022.
Framkvæmdastjóri landskjörstjórnar er Ástríður Jóhannesdóttir. Netfang landskjörstjórnar er [email protected]
Landskjörstjórn annast framkvæmd kosningalaga nr. 112/2021 og eru helstu verkefni hennar að:
- Birta auglýsingar um undirbúning, framkvæmd og tímasetningu kosninga.
- Útbúa kjörgögn.
- Veita almenningi, frambjóðendum, fjölmiðlum, kjörstjórnum og öðrum sem annast framkvæmd kosninga upplýsingar, fræðslu og leiðbeiningar.
- Hafa samvinnu og samráð við viðeigandi aðila, félagasamtök og stofnanir við undirbúning og framkvæmd kosninga.
- Birta niðurstöður kosninga opinberlega.
- Stuðla að kosningarannsóknum og framþróun kosningaframkvæmdar.
- Veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum ráðgjöf um kosningar og gera tillögur til ráðherra um útgáfu reglugerða um nánari framkvæmd einstakra ákvæða laga þessara.
- Taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði kosningamála.
- Vinna önnur verkefni sem tengjast stjórnsýslu kosninga samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, kosningalaga nr. 112/2021 eða annarra laga.
Við sveitarstjórnarkosningar annast yfirkjörstjórn sveitarfélags, verkefni skv. töluliðum 1, 2 og 5 hér að framan. Auk landskjörstjórnar sinnir yfirkjörstjórn sveitarfélags einnig verkefnum skv. tölulið 3 við sveitarstjórnarkosningar.
Landskjörstjórn skal gefa út ársskýrslu um starfsemi sína. Landskjörstjórn skal skila ráðherra skýrslu eftir hverjar kosningar um undirbúning og framkvæmd þeirra og skal ráðherra leggja skýrsluna fyrir Alþingi.
Landskjörstjórn getur gefið öðrum kjörstjórnum almenn fyrirmæli um undirbúning og framkvæmd kosninga. Landskjörstjórn getur ákveðið að slík fyrirmæli skuli birt í Stjórnartíðindum.
Landskjörstjórn ákveður gerð, merkingar og notkun embættisinnsigla sem notuð skulu við kosningar og lætur öðrum kjörstjórnum í té. Reglurnar skulu birtar í Stjórnartíðindum.
Hlutverk landskjörstjórnar er m.a. að ákveða mörk Reykjavíkurkjördæmanna. Jafnframt að ákveða í hvoru Reykjavíkurkjördæminu kjósendur sem búsettir eru erlendis og taka ber á kjörskrá, skulu greiða atkvæði. Sama gildir um þá sem skráðir eru með ótilgreint lögheimili í Reykjavík.
Þá gerir landskjörstjórn tillögur til ráðherra um gerð reglna og reglugerða skv. kosningalögum nr. 112/2021.
Allar kjörstjórnir skulu halda gerðabækur og bóka gerðir sínar.
Framkvæmd sveitarstjórnarkosninga 2022
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.