Hoppa yfir valmynd

Sýslumenn

Sýslumenn eru kjörstjórar, hver í sínu umdæmi. Sýslumenn ákveða hverjir skulu vera kjörstjórar og ráða aðra trúnaðarmenn til starfa í umboði þeirra. Sýslumenn skulu tilkynna landskjörstjórn hverju sinni hverjir eru kjörstjórar í umboði þeirra.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur farið fram:

  1. Á aðalskrifstofu sýslumanns, skrifstofu hans eða í útibúi. Sýslumaður getur ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á sérstökum kjörstað utan aðalskrifstofu, svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum í umdæmi hans. Sýslumaður getur ákveðið að kjörstaður sé hreyfanlegur, enda sé jafnræðis gætt við veitingu þeirrar þjónustu.
  2. Í húsnæði á vegum sveitarfélags, enda skal sýslumaður að ósk sveitarstjórnar skipa kjörstjóra, sem getur verið starfsmaður sveitarfélags, til þess að annast atkvæðagreiðslu. Heimilt er að ósk sveitarfélags að slíkur kjörstaður sé hreyfanlegur, enda sé jafnræðis gætt við veitingu þeirrar þjónustu.
  3. Á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum fyrir kjósendur sem dveljast þar.
  4. Í heimahúsi ef kjósandi getur ekki sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun skv. 3. tölul. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans og hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en kl. 10 tveimur dögum fyrir kjördag.

Kjörstjóri auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram og á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar. Skal haga framkvæmd og afgreiðslutíma þannig að kosning geti gengið sem greiðast fyrir sig. Atkvæðagreiðsla skv. 3. tölul. 2. mgr. skal fara fram sem næst kjördegi í samráði við fyrirsvarsmann viðkomandi stofnunar eða heimilis. Atkvæðagreiðsla skv. 4. tölul. 2. mgr. skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður.

Kjörstjóri skal sjá til þess að á kjörstað og í næsta nágrenni hans fari hvorki fram óleyfilegur kosningaáróður eða kosningaspjöll né önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga.

Sé kjósandi haldinn alvarlegum smitsjúkdómi skal kjörstjóri skipuleggja atkvæðagreiðslu utan kjörfundar í samráði við sóttvarnayfirvöld. Synja má um atkvæðagreiðslu telji sóttvarnayfirvöld að henni verði ekki komið við án þess að tefla heilsu kjörstjóra eða almennings í hættu.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum