Hoppa yfir valmynd

Talning og úrslit kosninga

Sjá eyðublöð og form samkvæmt reglugerð um talningu atkvæða nr. 431/2022 sem ætluð eru kjörstjórnum. 

Bundnar hlutfallskosningar

Fyrst eru talin öll atkvæði sem hver listi hefur hlotið og er þá fundin atkvæðatala hvers lista skv. 116. gr. kosningalaga.

Þá þarf að finna hve margir frambjóðendur hafa náð kosningu sem aðalmenn af hverjum lista og er það gert með eftirfarandi aðferð í samræmi við 116. gr. kosningalaga (óbreytt í nýjum lögum)

 1. Deila skal í atkvæðatölur listanna með tölunum 1, 2, 3, 4 o.s.frv. Útkomutölur eru skráðar fyrir hvern lista.
 2. Fyrsta fulltrúa fær sá listi kjörinn sem hæstu útkomutölu hefur. Sú tala er síðan felld niður. Annan fulltrúa fær sá listi sem nú hefur hæstu útkomutölu. Þessu skal fram haldið uns úthlutað hefur verið jafnmörgum fulltrúum og kjósa á.
 3. Nú eru of fá nöfn á lista þegar til úthlutunar kemur skv. 2. tölul. og skal þá ganga fram hjá þeim lista við frekari úthlutun.
 4. Nú eru tvær eða fleiri útkomutölur jafnháar þegar að þeim kemur skv. 2. tölul. og skal þá varpa hlutkesti um röð þeirra.

Til þess að finna hvaða frambjóðendur hafa náð kosningu á hverjum lista skal kjörstjórn reikna frambjóðendum atkvæðatölu en skv. 117. gr. kosningalaga skal um það fara  skv. 112. gr. kosningalaga á eftirfarandi hátt:

 1. Þeir frambjóðendur einir koma til álita sem aðalmenn og varamenn hvers framboðslista sem skipa efstu sæti hans, tvöfalt fleiri en komu í hlut listans samkvæmt kosningaúrslitum, 115. gr., þó aldrei færri en þrír. Þessi tala frambjóðenda kallast röðunartala listans.  Reikna þarf röðunartölu fyrir þessa einstaklinga en ekki þá sem neðar eru á listanum.
 2. Til þess að finna hverjir þessara frambjóðenda hafa náð kosningu skal reikna þeim frambjóðendum sem til álita koma skv. 1. mgr. atkvæðatölu.
 3. Frambjóðandi sem skipar 1. sæti á óbreyttum atkvæðaseðli eða er raðað í það sæti á breyttum seðli fær eitt atkvæði. Sá sem lendir með sama hætti í 2. sæti fær það brot úr atkvæði að í nefnara sé röðunartala en í teljara sú tala að frádregnum einum. Síðan lækkar teljarinn um einn við hvert sæti.
 4.  Sá frambjóðandi á hverjum lista, sem fær hæsta atkvæðatölu skv. 2. mgr. 112. gr., hlýtur 1. sæti listans. Sá frambjóðandi, sem fær næsthæsta atkvæðatölu, hlýtur 2. sætið og þannig koll af kolli uns lokið er úthlutun sæta aðalmanna og sæta varamanna. Nú fá tveir eða fleiri frambjóðendur jafnháa atkvæðatölu og skal þá hluta um röð þeirra á listanum.
 5.  Aðrir frambjóðendur en þeir sem koma til greina sem aðalmenn og varamenn skv. 1. mgr. halda þeim sætum sem þeir skipa á framboðslista án tillits til breytinga sem gerðar hafa verið á kjörseðlum, þ.e. þeir sem eru neðar á lista en tvöfaldur fjöldi kjörinna fulltrúa, að lágmarki þó þrír af hverjum lista.

Í samræmi við 2. mgr. 117. gr. skulu þeir einstaklingar sem ekki hafa náð kjöri sem aðalmenn af framboðslista teljast varamenn í réttri röð og hafa breytingar á atkvæðaseðli ekki áhrif á röð þeirra.

Óbundnar kosningar

Um úrslit fer skv. 118. gr. kosningalaganna.

Talin eru atkvæði sem hver einstaklingur fær.

Þeir sem flest atkvæði fá sem aðalmenn eru réttkjörnir aðalmenn.

Hafi tveir eða fleiri hlotið jafnmörg atkvæði sem aðalmenn og geta ekki báðir eða allir náð kjöri skal varpa hlutkesti.

Varamenn, þar sem kosning er óbundin, skulu vera jafnmargir og aðalmenn. Varamenn eru þeir sem hljóta atkvæðamagn þannig:

 1. varamaður er sá sem flest atkvæði hlýtur samanlagt í 1. sæti á lista yfir varamenn að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns.
 2. varamaður er kosinn sá sem flest atkvæði hlýtur í 2. sæti lista varamanna að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns og í 1. sæti á lista varamanna.

Kosning annarra varamanna ákvarðast á sama hátt uns fyllt er í sæti þau sem kjósa skal í. Nú fá tveir menn jafnmörg atkvæði samanlagt í sæti varamanns og skal þá hlutkesti ráða hvor hlýtur sætið. Sá sem ekki hlýtur sætið tekur sæti næsta varamanns og færast þá þeir varamenn sem á eftir koma um set.

Hvenær tekur ný sveitarstjórn við störfum?

Tilkynning til nýrra sveitarstjórnarfulltrúa

Ekki eru lengur ákvæði í lögum um útgáfu kjörbréfa til aðalmanna og jafnmargra varamanna.

Þess í stað skal yfirkjörstjórn sveitarfélags tilkynna hinum kjörnu aðalfulltrúum og varamönnum, þ.e. þeim sem eftir koma á framboðslista um úrslit kosninganna og að þeir hafi hlotið kosningu til setu í sveitarstjórn. Jafnframt skal yfirkjörstjórn senda nýkjörinni sveitarstjórn greinargerð um úrslit kosninganna.

Ný sveitarstjórn tekur við

Nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kjördag og jafnskjótt lætur fráfarandi sveitarstjórn af störfum, sbr. 133 gr. kosningalaga.

Umboð fráfarandi sveitarstjórnar til ákvarðana er takmarkað að því leyti að fulltrúi í sveitarstjórn getur krafist frestunar á framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar sem teknar eru frá kjördegi og þar til nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum og skal þá leggja mál að nýju fyrir hana á fyrsta fundi hennar. Ef mál er þannig vaxið að framkvæmd ákvörðunar þolir enga bið verður þessa úrræðis þó ekki neytt, enda sé heimild til afgreiðslu málsins í fjárhagsáætlun, lögum, almennum fyrirmælum stjórnvalda eða með leyfi ráðuneytis sem fer með sveitarstjórnarmál.

Hvað gerist ef kosningaúrslit eru ógilt? 

Ef úrskurðarnefnd kosningamála ógildir kosningar eftir að nýkjörin sveitarstjórn hefur tekið við störfum skal hún sitja þar til nýjar kosningar hafa farið fram og kærur sem fram kunna að koma vegna uppkosningar hafa verið úrskurðaðar, sbr. 134. gr. kosningalaga.

Eftir að kjörtímabili fráfarandi sveitarstjórnar er lokið og þar til löglega kjörin sveitarstjórn tekur við störfum samkvæmt ákvæðum greinar þessarar getur starfandi sveitarstjórn ekki innt af hendi neinar greiðslur eða gengist undir nokkrar skuldbindingar fyrir hönd sveitarfélagsins nema samkvæmt heimild í fjárhagsáætlun, lögum, almennum fyrirmælum stjórnvalda eða með leyfi ráðuneytis sem fer með sveitarstjórnarmál.

Síðast uppfært: 12.5.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum