Hoppa yfir valmynd

Kjósendur - leiðbeiningar

Kosningarrétt eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag, 14. maí 2022, og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi 36 dögum fyrir kjördag, þ.e. kl. 12 á hádegi 6. apríl 2022. Sama á við um danska,  finnska, norska og sænska ríkisborgara sem eiga lögheimili á Íslandi. Aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag, eiga einnig kosningarrétt, enda fullnægi þeir að öðru leyti framangreindum skilyrðum.

Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á því að með kosningalögum sem samþykkt voru á Alþingi í lok árs 2021 var réttur erlendra ríkisborgara til að kjósa og bjóða sig fram í sveitarstjórnarkosningum aukinn umtalsvert frá eldri lögum.

Þjóðskrá Íslands hefur tekið upp nýtt umsóknarferli varðandi skráningu námsmanna á Norðurlöndunum á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningar. Breytingarnar felast í því að umræddir námsmenn þurfa nú að tilkynna það rafrænt til Þjóðskrár Íslands að þeir séu námsmenn til þess að vera teknir á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í því sveitarfélagi sem námsmaður átti síðast lögheimili í á Íslandi. 

Tilkynninguna skal senda rafrænt á eyðublaði K-101 sem er að finna á vef Þjóðskrár Íslands. Tilskilið er að framvísa staðfestingu á námsvist. Gert er ráð fyrir því að makar, sambúðarmakar og börn námsmanna tilkynni sig á sama hátt með tilvísun í viðkomandi námsmann. Senda þarf inn nýja tilkynningu fyrir hverjar sveitarstjórnarkosningar.

Síðast uppfært: 13.4.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum