Atkvæðagreiðsla á kjördag
Hvar og hvenær á að kjósa?
Kjósandi kýs í því sveitarfélagi þar sem hann á skráð lögheimili á viðmiðunardegi kjörskrár sem er kl. 12 á hádegi 38 dögum fyrir kjördag. Eftir viðmiðunardag kjörskrár munu kjósendur geta kynnt sér hér á vefnum hvar þeir eru skráðir á kjörskrá.
Sveitarfélög auglýsa kjörstaði og mörg þeirra birta einnig aðrar kjörfundarupplýsingar á vefjum sínum.
Kjörstaðir skulu opnaðir á bilinu kl. 9-12 og skal sveitarstjórn auglýsa nákvæma tímasetningu með nægum fyrirvara. Meginreglan er að atkvæðagreiðslu megi ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Frá þessari meginreglu er þó sú undantekning að atkvæðagreiðslu megi slíta ef allir sem eru á kjörskrá hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Kjörfundi skal þó slitið eigi síðar en kl. 22 á kjördag.
Hvernig fer atkvæðagreiðslan fram?
Kjósandi gerir grein fyrir sér í sinni kjördeild með því að framvísa persónuskilríki eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjórnar. Ef kjósandi á rétt á að greiða atkvæði fær hann afhentan kjörseðil sem hann tekur með sér í kjörklefann.
Í kjörklefanum er skriffæri sem kjósandi notar til þess að setja kross (X) í ferninginn á kjörseðlinum fyrir framan bókstaf þess lista sem hann vill kjósa. Vilji kjósnadi breyta röð frambjóðenda á þeim lista sem hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni o.s.frv. Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.
Athugið að þá má hvorki nota önnur tákn, rita annað á kjörseðilinn né gera breytingar á öðrum listum en þeim sem kjósandi kýs þar sem slíkt getur valdið ógildingu atkvæðisins.
Í kjördeildinni er hægt að fá spjald með blindraletri framboðslista.
Kjósandi á rétt til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna, án þess að tilgreina ástæðu. Aðstoð skal veitt af þeim úr kjörstjórninni sem kjósandi tilnefnir eða aðstoðarmanni sem fylgir kjósanda á kjörstað. Sá sem aðstoðar er bundinn þagnarskyldu um það sem honum og kjósanda fer á milli í kjörklefanum. Aðstoðarmaður kjósanda skal staðfesta með undirskrift sinni á upplýsingablað sem kjörstjórn lætur í té, að honum hafi verið leiðbeint um ábyrgð sína og skyldu sem aðstoðarmanns og að hann uppfylli hæfisskilyrði til þess að vera aðstoðarmaður. Kjörstjórnarmaður skal einnig undirrita staðfestinguna og skal kjörstjórn varðveita hana. Aðstoðarmanni kjósanda, er óheimilt að gerast aðstoðarmaður fleiri en þriggja kjósenda við sömu kosningu.
Ef kjósandi merkir við annað en hann ætlaði eða kjörseðillinn eyðileggst af öðrum ástæðum skal kjósandi afhenda hann kjörstjórninni og fá nýjan.
Þegar kjósandi hefur greitt atkvæði brýtur hann seðilinn í sama brot og hann var í þegar hann tók við honum og setur hann í atkvæðakassann. Kjósandi þarf að gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði. Ef það gerist er seðillinn ónýtur og kjósandi má ekki setja hann í atkvæðakassann. Því næst gengur hann út úr kjörfundarstofunni.
Heimild til að kjósa á öðrum kjörstað
Heimilt er að kjósa á öðrum kjörstað en þar sem kjósandi er á kjörskrá ef kjörstaðurinn er innan sama sveitarfélags. Í því tilviki skal kjósandi gefa sig fram við kjörstjórn/hverfiskjörstjórn þar sem kjósandi ætlar að kjósa, óska eftir á sérstöku eyðublaði að fá að kjósa á þeim kjörstað og afsala sér jafnframt kosningarrétti á þeim stað sem hann er skráður á kjörskrá. Kjörstjórnin á þeim kjörstað þar sem kjósandi kýs staðfestir afsalið og tilkynnir kjörstjórninni þar sem kjósandi er á kjörskrá.
Eyðublað:
Kjósendur - leiðbeiningar
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.