Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skal hefjast svo fljótt sem kostur er eftir að framboðslistar hafa verið auglýstir, þó eigi síðar en 29 dögum fyrir kjördag. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar stendur til kl. 17 á kjördag, laugardaginn 14. maí 2022.
Kosning utan kjörfundar er því aðeins gild að notuð séu hin fyrirskipuðu kjörgögn, sjá einnig ákvæði X til bráðabirgða í kosningalögum, sbr. 9. gr. laga nr. 18/2022.
Hvorki bréfkosning né rafræn kosning er heimil. Samkvæmt kosningalögum þurfa allir kjósendur að gefa sig persónulega fram hjá kjörstjóra.
Kjörstaðir
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram á eftirfarandi stöðum:
Hjá sýslumönnum um allt land, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Þá getur sýslumaður einnig ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á sérstökum kjörstað í umdæminu. Sýslumenn auglýsa hvar og hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur farið fram. Upplýsingar frá öllum sýslumannsembættum landsins um kjörstaði og afgreiðslutíma vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar má nálgast á vefsíðu sýslumanna.
Erlendis:
Á skrifstofu sendiráðs, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur þó ákveðið að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram á öðrum stöðum erlendis. Utanríkisráðuneytið annast afgreiðslu kjörgagna til kjörstjóra erlendis og auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla geti farið fram.
Á sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum: Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, eða er heimilismaður á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlað fólk, er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Hið sama gildir um fangelsi og vistmenn þeirra. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Hún má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi 21 degi fyrir kjördag.
Í heimahúsi: Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, samanber framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi 21 desgi fyrir kjördag, en ósk um atkvæðagreiðslu í heimahúsi verður að bera fram við hlutaðeigandi kjörstjóra (sýslumann) eigi síðar en kl. 10 tveimur dögum fyrir kjördag.
Hvernig fer atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fram?
Kjósandi gerir grein fyrir sér með því að framvísa persónuskilríkjum eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Að því loknu fær hann afhent kjörgögn og ferð í kjörklefann.
Bundnar hlutfallskosningar: Kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðilinn bókstaf þess lista sem hann vill kjósa. Það má breyta röð frambjóðenda á listanum sem kjósandinn vill kjósa með því að rita nöfn frambjóðenda þess lista og setja tölustafinn 1 fyrir framan það nafn sem kjósandi vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni o.s.frv. Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs ritar hann nafn frambjóðandans á kjörseðilinn og strikar svo yfir það.
Óbundnar kosningar: Við óbundnar kosningar eru allir kjósendur í sveitarfélaginu í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því. Þá skrifar kjósandi á efri hluta kjörseðilsins nöfn og heimilisföng þeirra aðalmanna sem hann vill kjósa, allt að þeirri tölu sem kjósa á. Á neðri hluta kjörseðilsins skrifar hann nöfn varamanna og heimilisföng þeirra í þeirri töluröð sem hann vill að þeir taki sæti, allt að þeirri tölu sem kjósa á.
Að þessu búnu leggur kjósandinn kjörseðilinn í kjörseðilsumslagið og límir það aftur. Því næst fyllir hann út fylgibréfið og undirritar það í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna. Að því loknu leggur hann fylgibréfið og kjörseðilsumslagið í sendiumslagið, límir það aftur og áritar það til kjörstjórnarinnar í því umdæmi þar sem hann telur sig vera á kjörskrá. Að lokum ritar kjósandinn kennitölu sína greinilega á bakhlið sendiumslagsins.
Kjósandi á rétt til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna, án þess að tilgreina ástæðu. Ef kjósandi fær aðstoð skalþess getið á fylgibréfinu. Aðstoð skal veitt af kjörstjóra eða aðstoðarmanni sem fylgir kjósanda. Sá sem aðstoðar er bundinn þagnarskyldu um það sem honum og kjósanda fer á milli í kjörklefanum. Aðstoðarmaður kjósanda skal staðfesta með undirskrift sinni á upplýsingablað sem kjörstjóri lætur í té, að honum hafi verið leiðbeint um ábyrgð sína og skyldu sem aðstoðarmanns og að hann uppfylli hæfisskilyrði til þess að vera aðstoðarmaður. Kjörstjóri skal einnig undirrita staðfestinguna og varðveita hana. Aðstoðarmanni kjósanda, er óheimilt að gerast aðstoðarmaður fleiri en þriggja kjósenda við sömu kosningu.
Ef kjósandi greiðir atkvæði hjá sýslumanni í umdæmi þar sem hann er á kjörskrá leggur hann bréfið í atkvæðakassa þar. Ef kjósandi greiðir atkvæði utan þess umdæmis þar sem hann er á kjörskrá annast hann sendingu atkvæðabréfsins. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.
Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess sveitarfélags þar sem kjósandi er á kjörskrá. Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna.
Kjósanda er heimilt að greiða atkvæði á kjördag þótt hann hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og kemur utankjörfundaratkvæði hans þá ekki til greina við kosninguna.
Kjósendur - leiðbeiningar
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.