Ný lög um kosningar
Ný kosningalög nr. 112/2021 tóku gildi 1. janúar 2022 og féllu þá úr gildi eldri lög um kosningar. Almennar sveitarstjórnarkosningar fara fram annan laugardag í maímánuði sem ekki ber upp á laugardag fyrir hvítasunnu og ber kjördag í sveitarstjórnarkosningum því upp á 14. maí 2022. Helstu breytingar sem nýju lögin hafa í för með sér varðandi komandi sveitarstjórnarkosningar eru:
Stjórnsýsla
Einn lagabálkur gildir um kosningar í stað fjögurra áður. Lög um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, og lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010 hafa fallið brott.
Landskjörstjórn
Landskjörstjórn er sett á fót sem sjálfstæð stjórnsýslunefnd til þess að hafa yfirumsjón með framkvæmd kosninga og til að annast framkvæmd kosningalaga, sbr. 12. gr. kosningalaga.
Úrskurðarnefnd kosningamála
Úrskurðarnefnd kosningamála tekur til úrskurðar ýmsar kærur er varða kosningar og kosningaframkvæmd, sbr. 22. gr. kosningalaga. Til nefndarinnar má m.a. skjóta eftirtöldum ákvörðunum:
- Synjun Þjóðskrár Íslands um að taka kjósanda á kjörskrá og um leiðréttingar á kjörskrá.
- Ákvörðun landskjörstjórnar og yfirkjörstjórnar sveitarfélags um gildi framboðslista og önnur atriði er þau varða.
- Ákvörðun yfirkjörstjórnar um kjörgengi frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningum.
- Kæru vegna ólögmætis sveitarstjórnarkosninga.
- Ákvörðunum sem landskjörstjórn tekur samkvæmt öðrum lögum.
Yfirkjörstjórnir sveitarfélaga
Yfirkjörstjórnir sveitarfélaga skulu ásamt landskjörstjórn veita almenningi, frambjóðendum, fjölmiðlum, kjörstjórnum og öðrum sem annast framkvæmd kosninga upplýsingar, fræðslu og leiðbeiningar. Bætt hefur verið inn ákvæði um að yfirkjörstjórn tilkynni úrslit kosninga.
Sveitarstjórn
Sveitarstjórn ræður starfsfólk sér til aðstoðar við kosningar, sbr. 6. mgr. 17. gr. Ekki er skylt að auglýsa slík störf. Yfirkjörstjórn sveitarfélags getur falið starfsfólki sveitarfélaga störf í tengslum við framkvæmd kosninga. Er það fyrirkomulag sem hefur verið tíðkað en hefur ekki verið áður í kosningalögum.
Kosningarréttur og kjörgengi – rýmkun frá eldri lögum
Kosningarréttur erlendra ríkisborgara búsettra á Íslandi er rýmkaður verulega. Norrænir ríkisborgarar öðlast kosningarrétt og kjörgengi þegar þeir skrá búsetu í sveitarfélagi. Aðrir erlendir ríkisborgarar öðlast kosningarrétt og kjörgengi eftir þriggja ára samfellda búsetu á Íslandi, að öðrum skilyrðum um kosningarétt uppfylltum, sbr. 4. gr. kosningalaga.
Íslenskir námsmenn búsettir á Norðurlöndum þurfa að sækja um að vera teknir á kjörskrá í því sveitarfélagi sem þeir áttu síðast skráð lögheimili. Umsóknum skal beina til Þjóðskrár Íslands og þurfa umsóknir að hafa borist 40 dögum fyrir kjördag.
Skilyrði um lögræði fyrir kjörgengi í sveitarstjórn hefur verið fellt brott í samræmi við kjörgengisskilyrði við alþingiskosningar. Kjörgengur í sveitarstjórn er hver sá sem á kosningarrétt í sveitarfélagi og hefur óflekkað mannorð, sbr. 6. gr. kosningalaga.
Kjörskrá
Miðlæg vinnsla kjörskrár mun fara fram hjá Þjóðskrá Íslands, sbr. 1. mgr. 27. gr. Kosningalaga. Samkvæmt kosninglögum verður rafræn kjörskrá meginregla en í sveitarstjórnarkosningunum í vor verður þó ekki notast við rafræna kjörskrá. Þjóðskrá Íslands auglýsir að gerðar hafi verið kjörskrár og hvenær og hvernig þær eru aðgengilegar. Kjörskrár eru afhentar með rafrænum hætti sem þýðir að sveitarfélögin sjá sjálf um prentun þeirra. Kjörskrár verða auglýstar eigi síðar en 36 dögum fyrir kjördag.
Viðmiðunardagur kjörskrár
Viðmiðunardagur kjörskrár verður kl. 12 á hádegi 38 dögum fyrir kjördag. Skráning kjósanda á kjörskrá miðast við skráningu lögheimilis kjósanda á viðmiðunardegi.
Leiðréttingar á kjörskrá
Þjóðskrá Íslands gerir leiðréttingar á kjörskrá, sbr. 32. gr. og skal beina athugasemdum við kjörskrána til Þjóðskrár Íslands. Ákvörðun hennar má skjóta til Úrskurðarnefndar kosningamála.
Aðgangur að kjörskrá
Sett verður reglugerð um heimild stjórnmálasamtaka og frambjóðanda til nýtingar kjörskrárgagna og Þjóðskrá Íslands skal setja leiðbeiningar um afhendingu kjörskrár til sveitarfélaga og rafrænan aðgang þeirra að skránni.
Atkvæðagreiðsla
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skal hefja svo fljótt sem kostur er eftir að framboðslistar hafa verið auglýstir en þó eigi síðar en 29 dögum fyrir kjördag. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skal standa til kl. 17 á kjördag, en erlendis skal henni ljúka daginn fyrir kjördag.
Nýtt ákvæði er að finna í 6. mgr. 69. gr. um að sé kjósandi haldinn alvarlegum smitsjúkdómi skal kjörstjóri skipuleggja atkvæðagreiðslu utan kjörfundar í samráði við sóttvarnayfirvöld. Synja má um atkvæðagreiðslu telji sóttvarnayfirvöld að henni verði ekki komið við án þess að tefla heilsu kjörstjóra eða almennings í hættu. Þetta verður nánar útfært í reglugerð.
Nýmæli í lögunum um að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar megi ekki fara fram á heimili frambjóðanda, sbr. 5. mgr. 72. gr.
Aðstoð við atkvæðagreiðslu
Öllum sem þess þurfa verður heimilað að fá aðstoð við kosningu hvort sem er vegna fötlunar, veikinda, elli eða af öðrum ástæðum. Aðstoð skal veitt af kjörstjóra eða aðstoðarmanni sem fylgir kjósanda á kjörstað. Aðeins má veita aðstoð ef kjósandi getur sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir frá því hvernig hann vill greiða atkvæði. Aðstoðarmanni kjósanda er skylt að fara að fyrirmælum kjósanda og hann er bundinn þagnarskyldu um það sem honum og kjósanda fer á milli í kjörklefanum. Frambjóðandi, maki hans, börn, systkini og foreldrar mega ekki veita aðstoð við atkvæðagreiðslu. Aðstoðarmanni kjósanda er óheimilt að gerast aðstoðarmaður fleiri en þriggja kjósenda við sömu kosningu.
Vægi útstrikana/breytinga á röð frambjóðenda, sbr. 1. mgr. 117. gr.
Með tilkomu nýju kosningalaganna gilda sömu reglur um áhrif breytinga kjósanda á framboðslista í alþingiskosningum og sveitarstjórnarkosningum.
Framboð
Yfirkjörstjórn sveitarfélags boðar umboðsmenn framboðslista til fundar eigi síðar en þremur sólarhringum og fjórum stundum eftir að framboðsfrestur rennur út til að greina frá meðferð sinni á einstökum framboðslistum og tilkynna um ákvarðanir sínar, sbr. 46. gr.
Yfirkjörstjórn sveitarfélags úrskurðar um kjörgengi frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningum. Úrskurði hennar má skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála sem skal úrskurða eins fljótt og verða má og eigi síðar en sjö dögum frá því að kæra berst, sbr. 2. mgr. 48. gr.
Hverjum framboðslista skal fylgja staðfesting á skráðu heiti og listabókstaf nýrra stjórnmálasamtaka. Sjá upplýsingar um stjórnmálasamtakaskrá í lögum nr. 162/2006.
Um skil á framboðslistum og söfnun meðmælenda verður sett reglugerð. Nýmæli er t.d. að frambjóðandi má ekki vera meðmælandi og kjörstjórnarfulltrúar geta ekki mælt með lista. Yfirlýsing frambjóðanda getur verið með rafrænni undirskrift. Tilkynning um framboð getur líka verið undirrituð rafrænt eða eigin hendi.
Umboðsmenn
Oddviti framboðslista tilkynnir hverjir séu umboðsmenn hans og þarf samþykki þeirra að fylgja. Tilkynna skal um aðstoðarmenn umboðsmanna. Yfirkjörstjórn sveitarfélags útbýr sérstök skilríki fyrir umboðsmenn og aðstoðarmenn, samkvæmt nánari fyrirmælum landskjörstjórnar. Skilríki þessi skulu umboðsmenn bera við athafnir sínar samkvæmt lögum þessum.
Í nýju lögunum er tekið fram að umboðsmenn eigi rétt á að vera viðstaddir undirbúning talningar, svo sem þegar tekið er á móti atkvæðakössum og þeir opnaðir, þegar tekið er á móti öðrum kjörgögnum eða við flokkun atkvæða.
Ýmis atriði
Hæfi kjörstjórnarmanna, 18. gr.
Sú breyting felst í nýju lögunum í því að nú skal kjörstjórnarmaður víkja úr kjörstjórn ef einstaklingur er í kjöri sem er eða hefur verið maki hans, sambúðarmaki, fyrrverandi sambúðarmaki eða skyldur eða mægður honum í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðingar. Í eldri lögunum skyldi hann einungis víkja sæti ef til úrskurðar væri mál er varðaði maka hans eða þann sem væri skyldur honum eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðingar.
Skipun varamanna í kjörstjórn, 19. gr.
Varamenn taka sæti í kjörstjórn í forföllum aðalmanna eftir venjulegum reglum þegar hlutfallskosningar eru viðhafðar en annars eftir þeirri röð sem þeir eru kosnir eða skipaðir. Ef kjörstjórn verður ekki á þennan hátt fullskipuð boðar oddviti kjörstjórnarmenn í þeirra stað eftir tillögu þeirra samtaka sem kusu þá, þar til hún er fullskipuð. Annars boðar kjörstjórn sjálf þann eða þá sem þarf til þess að talan verði fyllt. Það feitletraða er nýmæli.
Gerðabækur, 20. gr.
Ráðherra staðfestir reglur landskjörstjórnar um hvað kjörstjórnum er skylt að bóka í gerðabók og um form, efni og löggildingu gerðabóka. Reglur landskjörstjórnar skulu birtar í Stjórnartíðindum.
Kjörseðill
Nýtt ákvæði um að merkja skuli í ferning fyrir bókstaf á atkvæðaseðli. Í eldri lögum var ekki gert ráð fyrir ferningi. Sett verður reglugerð um kjörgögn.
Sveitarstjórnarkosningar 2022
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.