Hoppa yfir valmynd

Landsréttur - umfjöllun og aðdragandi

Landsréttur tekur til starfa þann 1. janúar nk. en tilkoma réttarins hefur í för með sér einar mestu breytingar sem orðið hafa á íslensku réttarkerfi.

Við Landsrétt munu starfa 15 dómarar. Forseti Landsréttar, Hervör Þorvaldsdóttir, var skipuð dómari við réttinn 1. ágúst 2017, og hefur frá þeim  tíma unnið að undirbúningi að starfsemi Landsréttar ásamt Birni Bergssyni, skrifstofustjóra Landsréttar. Auk dómara munu 10 manns starfa við réttinn fyrst um sinn, þar af fimm aðstoðarmenn dómara. Landsréttur mun fyrst um sinn sitja í Kópavogi að Vesturvör 2.

Þann 1. janúar 2018 munu öll sakamál sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar fyrir þann tíma færast til Landsréttar sem mun ljúka meðferð þeirra en Hæstiréttur mun hins vegar ljúka meðferð þeirra einkamála sem hann hefur þegar fengið til meðferðar.

Stofnun millidómstigs – aðdragandi og undirbúningur

Lengi hefur verið rætt um nauðsyn þess að setja á fót millidómstig á Íslandi og að dómskerfið yrði þar með á þremur stigum í stað tveggja. Árið 1972 skipaði þáverandi dómsmálaráðherra sérstaka réttarfarsnefnd og á grundvelli tillagna hennar var lagt fram á 97. löggjafarþingi, 1975–1976, frumvarp um millidómstig (frumvarp til lögréttulaga) sem síðan hefur gengið undir nafninu Lögréttufrumvarpið. Meginmarkmið frumvarpsins voru hraðari meðferð dómsmála og aukinn aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdarvalds. Þetta frumvarp var lagt fram á Alþingi með ýmsum breytingum alls fimm sinnum á árunum þar á eftir en náði ekki fram að ganga. Hugmyndin um millidómstig lá eftir það í dvala og var ekki hluti af þeim breytingum á dómstólaskipan og réttarfarsumbótum sem innleiddar voru hér á landi á árinu 1992

Í desember árið 2006 ritaði dómstólaráð bréf til dómsmálaráðherra í tilefni þess að til meðferðar var frumvarp til nýrra laga um meðferð sakamála. Þar var lagt til að komið yrði á fót millidómstigi í sakamálum til að koma til móts við sjónarmið um réttláta málsmeðferð þannig að fullnægt yrði kröfum mannréttindasáttmála Evrópu um áfrýjun dóma í sakamálum. Síðar skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að fjalla um hvernig best mætti tryggja milliliðalausa sönnunarfærslu í meðferð sakamála og skilaði hún skýrslu um málið 1. október 2008. Taldi nefndin margt benda til þess að gildandi fyrirkomulag um sönnunarfærslu fyrir Hæstarétti Íslands bryti gegn meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu og gengi í berhögg við 2. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki hefði tíðkast í framkvæmd að rétturinn endurmæti niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi framburðar með því að taka skýrslur af ákærða eða vitnum þar fyrir dómi. Þess í stað hefði rétturinn oftast gripið til þess ráðs að ómerkja dóm og vísa málum aftur heim í hérað. Beiting úrræðisins ylli oft töfum á meðferð máls, auk þess sem ekki væri unnt að beita því nema einu sinni í hverju máli. Lagði nefndin til að stofnaður yrði dómstóll á millidómstigi.

Þann 8. október 2010 héldu Ákærendafélag Íslands, Dómarafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands málþing um stofnun millidómstigs hér á landi. Þar kom fram mikill einhugur um stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum. Þessi félög sendu í kjölfarið erindi til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins þar sem skorað var á dómsmálaráðherra að beita sér fyrir stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum. Ráðuneytið ákvað 13. desember 2010 að skipa vinnuhóp til að fylgja þessu erindi eftir. Fékk vinnuhópurinn þau fyrirmæli „að taka til skoðunar þörfina á að setja á fót hér á landi millidómstig sem taki bæði til sakamála og einkamála, kosti þess og galla og hvernig slíku millidómstigi væri best fyrir komið auk þess að leggja mat á þann kostnað sem slíku væri samfara.“ Þá skyldi hópurinn hafa samráð við fulltrúa framangreindra félaga við vinnu sína. Vinnuhópurinn skilaði innanríkisráðuneytinu skýrslu í júní 2011 þar sem fjallað var ítarlega um stofnun millidómstigs og kostir og gallar hinna ýmsu leiða raktir.

Árið 2013 skipaði innanríkisráðherra nefnd til að vinna frumvarp til að setja á fót millidómstig. Skilaði nefndin frumvarpi sínu í mars 2015. Í framhaldi af því var að tilstuðan þáverandi innanríkisráðherra unnið að frekari útfærslu frumvarpsins auk þess sem tilhögun stjórnsýslu dómstóla var tekin til nánari athugunar. Í kjölfarið, eða í mars 2016, lagði innanríkisráðherra fram tvö lagafrumvörp á Alþingi um stofnun millidómstigs hér á landi, annar vegar frumvarp til nýrra laga um dómstóla og hins vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Bæði frumvörpin voru samþykkt á Alþingi þann 26. maí 2016. Síðan þá hafa nauðsynlegar lagabreytingar jafnframt verið gerðar ýmsum öðrum lögum.

Helstu nýmæli 

Þær lagabreytingar sem samþykktar voru á Alþingi þann 26. maí 2016 hafa eðli málsins samkvæmt umfangsmiklar breytingar í för með sér á íslensku réttarkerfi. Helstu nýmæli sem í þeim felast eru eftirfarandi:

Stofnun Landsréttar

Til starfa tekur nýr áfrýjunardómstóll, Landsréttur, sem skipað verður á milli héraðsdómstólanna og Hæstaréttar Íslands. Hæstiréttur verður eftir sem áður æðsti dómstóll ríkisins. Við Landsrétt mun sitja 15 dómarar og munu að meginreglu þrír dómarar taki þátt í meðferð hvers máls fyrir dómi. Að öðru leyti er að mestu ráðgert að sömu reglur gildi að breyttu breytanda um Landsrétt og um Hæstarétt nú, þar á meðal um yfirstjórn réttarins, forseta og varaforseta, starfsmenn, varadómara og svo framvegis.

Fjöldi héraðsdómara og dómara við Hæstarétt Íslands

Samhliða stofnun Landsréttar er ráðgert að dómurum við Hæstarétt Íslands fækki úr níu í sjö og að fimm dómarar taki hverju sinni þátt í meðferð máls en þó sjö í sérlega mikilvægum málum. Þrír dómarar taki þó að jafnaði ákvörðun um áfrýjunarleyfi og um hvort kæra verði tekin til meðferðar. Þá verða héraðsdómarar 42 frá 1. janúar 2018.

Setning dómara og varadómara

Með nýjum dómstólalögum breytist fyrirkomulag við setningu í embætti dómara umtalsvert, einkum er varðar Landsrétt og Hæstarétt. Þannig verður ekki sett í embætti dómara við þessa dómstóla nema í undantekningartilvikum og þá fyrst og fremst þegar rétturinn yrði annars óstarfhæfur vegna forfalla fleiri en eins dómara. Þegar nauðsynlegt reynist að setja dómara verður það hlutverk dómnefndar skv. II. kafla dómstólalaga að gera tillögu til ráðherra um mann til að setja í embættið og gildir þá einu á hvaða dómstigi það er. Þá munu settir dómarar og varadómarar á öllum dómstigum koma úr röðum fyrrverandi dómara, en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til hljóta skipun í embætti dómara.

Sérfróðir meðdómendur

Fram til þessa hefur það fyrst og fremst verið í höndum og á ábyrgð einstakra dómara að finna menn til að gegna hlutverki sérfróðra meðdómsmanna í málum sem þeir hafa til meðferðar en ekki hafa gilt neinar formlegar reglur í þessum efnum. Með nýjum dómstólalögum verður horfið frá þessu fyrirkomulagi en í stað þess mun dómstólasýslan tilnefna hæfilegan fjölda manna með sérkunnáttu, til fimm ára í senn, til að gegna störfum sérfróðra meðdómsmanna og að dómarar kveðji sérfróða meðdómendur til starfa úr þeim hópi.

Milliliðalaus sönnunarfærsla

Með nýrri dómstólaskipan verður meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu fylgt betur, bæði í einkamálum og sakamálum, en unnt er samkvæmt gildandi lögum fyrir Hæstarétti í tveggja þrepa dómskerfi. Sönnunarfærslu fyrir Landsrétti verður hagað þannig að mögulegt verður að leiða ný vitni við aðalmeðferð og sömuleiðis að taka viðbótarskýrslur af þeim sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Málsaðilar þurfa þó að rökstyðja þörf fyrir slíka skýrslugjöf og Landsréttur að heimila það en við það mat verður t.d. að huga að því hvort skýrslutakan varði atriði sem enn er ágreiningur um. Þá geta málsaðilar farið fram á að upptökur af einstökum framburðum sem teknar voru í héraði eða hluti af þeim verði spilaðar fyrir Landsrétti.

Áfrýjanir

Áfrýjun á dómum Landsréttar til Hæstaréttar verður í öllum tilvikum háð leyfi Hæstaréttar bæði í einkamálum og sakamálum. Áfrýjun til Landsréttar verður aftur á móti með sambærilegu sniði og nú gildir um áfrýjun til Hæstaréttar, en þó er rétt að árétta að áfrýjunarfrestur í einkamálum styttist úr þremur mánuðum í fjórar vikur. Tiltölulega þröng heimild verður til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar ef þörf er á skjótri niðurstöðu í máli og að uppfylltum fleiri skilyrðum, m.a. að ekki sé ágreiningur um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar.

Hafi áfrýjunarfrestur samkvæmt eldri lögum ekki liðið þann 1. janúar 2018 þá verður heimilt að áfrýja máli til Landsréttar eða Hæstaréttar innan þess frests að fengnu áfrýjunarleyfi Hæstaréttar. Hafi einn málsaðila áfrýjað héraðsdómi til Hæstaréttar fyrir 1. janúar 2018 þá verður dómnum einungis áfrýjað, eða eftir atvikum gagnáfrýjað, af öðrum málsaðilum til Hæstaréttar. Gildir þá áfrýjunarfrestur samkvæmt eldri lögum.

Gjafsókn

Reglur um veitingu gjafsóknar verða óbreyttar.

Lögmannsréttindi

Skilyrði fyrir leyfi til málflutnings fyrir Landsrétti verða í flestum atriðum hin sömu og nú gilda um öflun málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti, enda mun ljóst að flestum málum á áfrýjunarstigi mun ljúka fyrir hinum nýja dómstól. Þó eru gerðar nokkrar breytingar. Þannig er gert ráð fyrir að mál sem lögmaður þarf að hafa flutt fyrir héraðsdómstólum verði færri en nú gildir um öflun málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti. Þannig þurfi lögmaður að hafa munnlega flutt þar 25 mál í stað 30 mála nú. Aftur á móti er hlutfall einkamála aukið úr 10 málum í 15. Þá er lagt til að lögmaður þurfi til viðbótar að flytja fjögur prófmál fyrir Landsrétti til að geta fengið málflutningsréttindi á því dómstigi. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að munnlega flutt mál þurfi að uppfylla sérstök skilyrði að öðru leyti til að geta talist prófmál.

Til þess lögmaður geti öðlast málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti þarf hann, til viðbótar við að uppfylla almenn hæfisskilyrði lögmanna, að hafa haft málflutningsréttindi fyrir Landsrétti í þrjú ár og hafa flutt þar munnlega ekki færri en 15 mál, þar af a.m.k. 10 einkamál. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að lögmaður þurfi að flytja sérstök prófmál fyrir Hæstarétti heldur öðlist hann rétt til málflutnings þar að uppfylltum framangreindum skilyrðum og skilyrðum laga um lögmenn að öðru leyti.

Áætlað er að um 260 einkamál sem áfrýjað er fyrir 1. janúar 2018 verði áfram til meðferðar hjá Hæstarétti og má gera ráð fyrir að nokkur hluti þeirra mála uppfylli skilyrði prófmáls samkvæmt gildandi lögum. Þau mál munu áfram nýtast lögmönnum, sem þegar hafa flutt a.m.k. eitt prófmál fyrir Hæstarétti, til öflunar málflutningsréttinda kjósi þeir svo. Einungis mál sem áfrýjað hefur verið fyrir 1. janúar 2018 geta nýst lögmönnum sem prófmál til öflunar málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti samkvæmt þessu ákvæði en gert er ráð fyrir að þessum málum verði lokið fyrir Hæstarétti í byrjun árs 2019. Lögmaður sem hefur lokið einu prófmáli fyrir Hæstarétti þann 1. janúar 2018 hefur þannig  val um hvort hann lýkur öflun réttinda fyrir því dómstigi eftir eldri reglum. Þetta má skýra nánar með dæmum:

 Í fyrsta lagi getur sú aðstaða verið uppi að lögmaður hafi lokið flutningi þriggja prófmála þann 1. janúar 2018, og verða honum þá þegar veitt réttindi fyrir málflutningi fyrir Landsrétti. Hefur lögmaður þá val um hvort hann flytur fjórða og síðasta prófmál sitt fyrir Hæstarétti, og öðlist þá málflutningsréttindi fyrir því dómstigi samkvæmt eldri reglum eða hvort hann flytur fjögur mál fyrir Landsrétti, þar af þrjú einkamál, og hljóti eftir það málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti.

Í öðru lagi má hugsa sér að lögmaður hafi lokið tveimur prófmálum fyrir Hæstarétti þann 1. janúar 2018 og má þá veita honum málflutningsréttindi fyrir Landsrétti þegar hann hefur flutt þar eitt prófmál. Hefur lögmaður þá val um hvort hann flytji tvö prófmál til viðbótar fyrir Hæstarétti, og öðlist þá málflutningsréttindi fyrir því dómstigi samkvæmt eldri reglum, eða hvort hann flytji átta mál fyrir Landsrétti, þar af fimm einkamál, og hljóti eftir það málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti.

Í þriðja lagi getur staðan verið sú að lögmaður hafi lokið einu prófmáli fyrir Hæstarétti þann 1. janúar 2018 og má þá veita honum málflutningsréttindi fyrir Landsrétti þegar hann hefur flutt þar tvö prófmál. Hefur lögmaður þá val um hvort hann flytur þrjú prófmál til viðbótar fyrir Hæstarétti, og öðlist þá málflutningsréttindi fyrir því dómstigi samkvæmt eldri reglum, eða hvort hann flytur tólf mál fyrir Landsrétti, þar af átta einkamál, og hljóti eftir það málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti.

Rétt er að taka fram að ekki er ráðgert að lögmaður þurfi að taka ákvörðun í eitt skipti fyrir öll um hvora leiðina hann kýs að fara heldur geti hann hvenær sem er ákveðið að færa sig í nýrra kerfi telji hann útséð um að hann geti flutt fleiri prófmál fyrir Hæstarétti eftir eldri reglum.

Stjórnsýsla dómstólanna

Þann 1. janúar 2018 tekur til starfa ný og sjálfstæð stjórnsýslustofnun er ber heitið dómstólasýslan. Dómstólasýslan mun hafa það hlutverk að vera í fyrirsvari fyrir sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna og koma fram gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum og öðrum í þágu dómstólanna, að ákveða fjölda héraðsdómara við hvern dómstól, setja reglur um og veita dómurum leyfi frá störfum, skipuleggja símenntun dómara, að safna saman og birta upplýsingar um fjölda afgreiðslu mála við dómstóla, að stuðla að samræmingu og hafa eftirlit með framkvæmd reglna um málaskrár dómstóla, þingbækur, atkvæðabækur og búnað til upptöku á hljóði og mynd í þinghöldum o.fl. Hér er ekki um tæmandi upptalningu að ræða.


Aðdragandi að stofnun millidómstigs

Lög:

31. ágúst 2016:

26. maí 2016:

18. mars 2016:

9. mars 2016: 

15. janúar 2016:

  • Drög að frumvarpi til nýrra laga um dómstóla og frumvarpi til breytinga á lögum um meðferð einkamála og meðferð sakamála eru nú til umsagnar, sjá nánar í frétt .

Umsagnir um drög að lagafrumvörpum um dómstóla og breytingar á lögum um meðferð einkamála og sakamála, apríl/maí 2015:

Tillögur nefndar um millidómstig, drög að lagafrumvörpum er lúta að upptöku millidómstigs, mars 2015

Skýrsla vinnuhóps um millidómstig, júní 2011

- Frétt um skýrsluna

Álit nefndar um milliliðalausa sönnunarfærslu í sakamálum - skýrsla, október 2008

- Frétt um skýrsluna

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira