Dreifibréf 1/2001 - Foreldraorlof
Fjármálaráðuneytið Starfsmannaskrifstofa Nóvember 2001/gós. Uppfært í júlí 2010/skj Dreifibréf 1/2001 | Foreldraorlof |
Túlkun og framkvæmd laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. | Réttur til orlofstöku, en ekki til orlofslauna. |
Laun frá launagreiðanda falla niður meðan á foreldraorlofi stendur. Fjármálaráðuneytið hefur talið að foreldraorlof væri eins og hvert annað launalaust leyfi og teldist því ekki til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta. Þessi afstaða hefur meðal annars verið kynnt á námskeiði ráðuneytisins um fæðingar- og foreldraorlof og veikindarétt.
Samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ber vinnuveitanda við mat á rétti starfsmanns til orlofstöku að reikna foreldraorlof til starfstíma. Í úrskurðinum var eingöngu fjallað um rétt til orlofstöku en ekki til orlofslauna. Fjármálaráðuneytið telur því eftir sem áður að foreldraorlof teljist ekki til starfstíma við mat á rétti starfsmanns til orlofslauna. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að um ávinnslu orlofslauna meðan á foreldraorlofi stendur hefur ekki verið samið í kjarasamningum.
Úrskurðir úrskurðarnefndarinnar eru birtir á úrskurðarvef. Umræddur úrskurður var kveðinn upp þann 17. september 2001 (mál nr. 8/2001).
Samkvæmt framansögðu ávinnur ríkisstarfsmaður sér rétt til orlofstöku meðan á foreldraorlofi stendur. Hann ávinnur sér aftur á móti ekki rétt til orlofslauna.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.