Hoppa yfir valmynd

Dreifibréf 1/2002 - Fæðingarorlof

Fjármálaráðuneytið
Starfsmannaskrifstofa
Janúar 2002/gós. Uppfært í júlí 2010/skj
Dreifibréf 1/2002

FÆÐINGARORLOF
Framkvæmd og túlkun á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, reglugerð nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, og ákvæðum kjarasamninga um tilhögun fæðingarorlofs o.fl.
Algengar spurningar og svör.


Reglur um fæðingarorlof er annars vegar að finna í ákvæðum laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, og reglugerð nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, með síðari breytingum. Hins vegar eru þær í samningsákvæðum um tilhögun fæðingarorlofs og Fjölskyldu- og styrktarsjóð, sbr. samkomulag BHM, BSRB, KÍ við fjármálaráðherra (Word 49K) f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborg og Launanefnd sveitarfélaga frá 24. október 2000. Svipuð eða sambærileg samningsákvæði er varða fæðingarorlof er einnig að finna í kjarasamningum fjármálaráðherra við stéttarfélög opinberra starfsmanna sem standa utan nefndra samtaka.

Eftirfarandi listi er samantekt á algengum spurningum um fæðingarorlof og svörum við þeim:

1) Spurt er um greiðslur í fæðingarorlofi, þ.e. hvaðan þær koma og hver eigi að sækja um þær.

Greiðslur í fæðingarorlofi koma úr Fæðingarorlofssjóði sem er í vörslu Vinnumálastofnunar. Starfsmaður á yfirleitt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en þær taka mið af þeim tekjum sem viðkomandi hefur haft. Ellegar á starfsmaður rétt á fæðingarstyrk. Starfsmaður sækir sjálfur um þessar greiðslur, fyllir út sérstakt eyðublað.

Auk greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði kann starfsmaður að eiga rétt á fæðingarstyrk úr sjúkra- eða styrktarsjóðum BHM, BSRB eða KÍ.

Þá kann starfsmaður að eiga réttindi til greiðslna/ávinnslu orlofslauna, persónuuppbótar og orlofsuppbótar, þ.e. skv. ákvæðum í kjarasamningi. Sjá nánar dreifibréf 2/2001.


2) Spurt er um upphafsdag fæðingarorlofs, þ.e. hvort ekki sé hægt að hefja fæðingarorlof á fæðingardegi þrátt fyrir að hann beri upp á annan dag en áætlað var, hvort heldur fyrir eða eftir.

Þegar um fæðingu fyrir tímann er að ræða, á móðir að sjálfsögðu rétt á að hefja fæðingarorlof þann dag. Í öðrum tilvikum er einnig hægt að hefja fæðingarorlof á raunverulegum fæðingardegi, svo fremi sem launagreiðandi hefur samþykkt tilkynningu starfsmanns þess efnis. Þá er mikilvægt að starfsmaður taki fram í umsókn til Fæðingarorlofssjóðs að hann óski eftir því að greiðslur hefjist á raunverulegum fæðingardegi.

3) Spurt er um ráðningarsambandið með tilliti til fæðingarorlofs, þ.e. hvort ráðning sé skilyrði fyrir greiðslum í fæðingarorlofi og hvort fæðingarorlof seinki starfslokum þegar um tímabundna ráðningu er að ræða.

Það er ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að viðkomandi sé með gilda ráðningu út fæðingarorlofið. Gild ráðning út fæðingarorlof var meðal skilyrða fyrir greiðslum skv. reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, og ætti því að vera skilyrði fyrir mismunagreiðslum frá fjölskyldu- og styrktarsjóði stéttarfélags. Ákvarðanir þar að lútandi eru þó alfarið á valdi viðkomandi sjóðstjórnar.

Fæðingarorlof starfsmanns hefur engin áhrif á tímabundna ráðningarsamninga. Þeir renna sitt skeið á enda með sama hætti og endranær. Það breytir engu þó að starfsmaður sé í fæðingarorlofi eða hafi verið frá vinnu vegna fæðingarorlofs.

4) Spurt er um veikindi starfsmanns í fæðingarorlofi, þ.e. hvort þau veiti honum rétt á lengra fæðingarorlofi.

Starfsmaður á ekki rétt á lengra fæðingarorlofi þó að hann veikist í fæðingarorlofi. Það er þó heimilt að lengja fæðingarorlof móður um tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Í slíkum tilvikum þarf að liggja fyrir læknisvottorð og starfsmaður þarf að bera ósk um lengingu undir tryggingayfirlækni.

5) Spurt er hvort fæðingarorlof reiknist til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum.

Fæðingarorlof telst yfirleitt til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, enda sé um gilda ráðningu að ræða. Það á t.d. við rétt hans til töku orlofs, veikindaréttar og uppsagnarfrests.

Það sama á almennt við um réttindi til greiðslna orlofslauna, orlofsuppbótar og desemberuppbótar. Hjá stærstum hluta ríkisstarfsmanna ber að reikna fæðingarorlof til starfstíma við útreikning þessara greiðslna. Sjá nánar dreifibréf 2/2001. Athygli er vakin á því að greiðslurnar eiga að vera hlutfallslegar þegar starfsmenn haga töku fæðingarorlofs með sérstökum hætti og dreifa henni á lengri tíma. Dæmi: sé sex mánaða rétti til fæðingarorlofs frá fullu starfi dreift á 12 mánuði ber að haga útreikningum eins og um 50% starf væri að ræða.

6) Spurt er um samspil fæðingarstyrks og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, þ.e. þegar annað foreldrið á rétt á styrknum en hitt á greiðslum úr sjóðnum.

Verðandi foreldrar fylla bæði út sama umsóknareyðublaðið til Fæðingarorlofssjóðs, jafnvel þó að annað sæki um fæðingarstyrk en hitt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Ef annað foreldrið notar hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs og nýtur fæðingarorlofssjóðsgreiðslna, styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks hins foreldrisins sem því nemur og öfugt.

7) Spurt er hvaða áhrif það hafi á rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi starfsmaður skömmu áður verið í fæðingarorlofi vegna fæðingar eldra barns.

Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði telst starfsmaður vera á vinnumarkaði þann tíma sem hann er í fæðingarorlofi og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Litið er á greiðslurnar úr Fæðingarorlofssjóði sem launagreiðslur. Þær eru því lagðar til grundvallar við útreikning á greiðslum í næsta fæðingarorlofi ef þær lenda inn á viðmiðunartímanum.

------------------------------------------
Síðast uppfært: 29.9.2017
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira