Hoppa yfir valmynd

Dreifibréf 1/2006 - Viðmið um góða starfshætti ríkisstarfsmanna

Fjármálaráðuneytið
Starfsmannaskrifstofa
Febrúar 2006, dreifibréf nr. 1/2006

Viðmið fyrir góða starfshætti ríkisstarfsmanna.

Ákvæði 14. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Leiðbeiningar um þau viðmið og gildi sem ríkisstarfsmönnum ber að fylgja í daglegum störfum sínum.

Með dreifibréfi þessu eru settar fram almennar leiðbeiningar um þau viðmið sem ríkisstarfsmanni ber daglega að gæta í störfum sínum. Í því sambandi er lögð áhersla á að ríkisstarfsmaður starfar í þjónustu ríkisins og honum ber að haga störfum sínum í samræmi við það. Í því felst fyrst og fremst að hann skal virða lög og stjórnarskrá og hafa grunnreglur lýðræðis og mannréttinda í heiðri. Hann skal ennfremur leggja sig fram um að sinna starfi sínu af alúð, trúmennsku, heiðarleika og ábyrgð.

Dreifibréfið sækir grundvöll sinn í skráðar og óskráðar réttarreglur um störf og starfshætti ríkisstarfsmanna en þ. á m. eru ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ákvæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga og ákvæði laga um fjárreiður ríkisins.

Leiðbeiningunum er ekki ætlað að vera tæmandi eða koma í stað lagareglna sem að öðru leyti gilda um störf og starfshætti ríkisstarfsmanna. Þær eru aftur á móti hugsaðar sem nánari útlistun á þeim kröfum sem almennt eru gerðar til framkomu og háttsemi ríkisstarfsmanna og varpa þannig frekara ljósi á starfsskyldur þeirra.
Ríkisstarfsmaður skal leitast við að haga orðum sínum og athöfnum í samræmi við eftirfarandi leiðbeiningar:

1. Ríkisstarfsmaður gætir þess að fara vel með það vald sem honum er falið og beita því í þágu almannahagsmuna, gæta sanngirnis og meðalhófs en ekki nýta það í eigin þágu.

2. Beiti ríkisstarfsmaður mati við meðferð valds, sem honum er fengið, þar sem velja þarf á milli einstaklinga, t.d. við ráðningu í störf, úthlutun styrkja eða annarra gæða eða gerð samninga um verktöku, skal hann byggja ákvörðun sína á málefnalegum sjónarmiðum, s.s. verðleikum og hæfni. Óheimilt er að mismuna málsaðilum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, s.s. kynferðis, kynþáttar, kynhneigðar eða samfélagslegrar stöðu að öðru leyti.

3. Ríkisstarfsmaður gætir þess að persónulegir og fjárhagslegir hagsmunir hans, fjölskyldu hans eða vina fari ekki í bága við starfsskyldur hans. Þannig skal hann t.d. ekki taka þátt í ákvörðunum ef hann tengist málsaðilum fjölskylduböndum, ef hann á sjálfur aðild að málinu eða ef það varðar vini hans eða fyrrverandi maka.

4. Ríkisstarfsmaður skal ekki þiggja eða sækjast eftir gjöfum eða fjármunum frá einstaklingum, fyrirtækjum eða öðrum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi hans ef almennt má líta á það sem endurgjald fyrir greiða eða sérstaka þjónustu. Sanngjarnt er að víkja frá þessu ef um afmælisgjafir eða annars konar tækifærisgjafir er að ræða enda séu verðmæti þeirra innan hóflegra marka. Hafa skal samráð við yfirmann ef vafi leikur á hvort starfsmanni er heimilt að taka við gjöf.

5. Ríkisstarfsmaður skal stuðla að því að upplýsingar um ákvarðanir og starfsemi þess stjórnvalds, stofnunar eða fyrirtækis sem hann starfar hjá séu aðgengilegar almenningi enda sé ekki um upplýsingar að ræða sem leynt þurfa að fara samkvæmt lögum.

6. Ríkisstarfsmaður gætir þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara. Honum er óheimilt að afla sér trúnaðarupplýsinga í starfi sínu sem ekki hafa þýðingu fyrir starfið. Hann skal ekki hagnýta sér upplýsingar sem hann hefur fengið í starfi sínu og ekki hafa verið kynntar eða gerðar almennar, til þess að skapa sjálfum sér eða öðrum ávinning, þ. á m. fjárhagslegan, enda þótt ekki sé um trúnaðarupplýsingar að ræða. Ríkistarfsmaður gætir þagnarskyldu sinnar þótt hann hafi látið af starfi sínu.

7. Ríkisstarfsmanni ber að fara vel með almannafé, gæta þess að það sé vel nýtt og sé ekki notað á annan hátt en ætlast er til lögum samkvæmt.

8. Ríkisstarfsmaður sem verður var við spillingu, ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi, skal koma upplýsingum um slíka háttsemi til réttra aðila. Til réttra aðila geta m.a. talist stjórnendur stofnunar, hlutaðeigandi fagráðuneyti og eftir atvikum Ríkisendurskoðun eða lögregla. Ríkisstarfsmaður sem í góðri trú greinir á réttmætan hátt frá upplýsingum samkvæmt þessum lið, skal á engan hátt gjalda þess.

Leiðbeiningar um þau viðmið sem hér eru sett fram verða jafnan að taka mið af aðstæðum starfsmanna á hverju sviði stjórnsýslunnar. Er því lagt fyrir stjórnendur að meta það sjálfstætt hvenær og í hvaða tilfellum sé rétt að setja frekari viðmið í formi leiðbeinandi reglna eða sérstakra siðareglna. Slíkar reglur skulu fela í sér nánari útlistun á því hvernig æskilegt sé að starfsmaður bregðist við þegar siðferðileg álitamál koma upp í starfinu. Jafnframt er í sama tilgangi lagt til að stjórnendur yfirfari og eftir atvikum endurskoði sérstaklega þau viðmið eða siðareglur sem settar hafa verið.

Stjórnendur ríkisstofnana skulu tryggja að þær leiðbeiningar sem settar eru fram í dreifibréfi þessu séu ávallt aðgengilegar starfsmönnum. Við ráðningu starfsmanna skulu leiðbeiningarnar kynntar þeim sérstaklega.

:: Bréf til ráðuneyta og forstöðumanna ríkisstofnana 15. febrúar 2006

Síðast uppfært: 16.3.2017
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira