Dreifibréf 1/2007 - Veikindaréttur
Fjármálaráðuneytið Starfsmannaskrifstofa Nóvember 2007 Dreifibréf 1/2007 | |
Túlkun og framkvæmd veikindaréttar starfsmanna sem ráðnir eru á mánaðarlaunum til tveggja mánaða eða lengur. | Uppfært |
1. Inngangur
Dreifibréfi þessu er ætlað að skýra almennar réttarreglur og kjarasamningsákvæði sem varða veikindarétt starfsmanna sem ráðnir eru á mánaðarlaunum til tveggja mánaða eða lengur. Fjallað er um helstu atriði sem reynir á við veikindi starfsmanna og grunnhugtök skýrð. Þegar vitnað er í dreifibréfinu til tiltekinnar greinar í kjarasamningi er átt við kjarasamning SFR og sambærilegar greinar í öðrum kjarasamningum nema annað sé tekið fram. Um veikindarétt vaktavinnufólks og kennara geta gilt sérstök viðbótarákvæði sem ekki er fjallað um í dreifibréfinu.
2. Um grundvöll veikindaréttarins
Starfsmenn eiga almennt rétt á launum í veikindum eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samið er um í kjarasamningi, sbr. 12. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996 (stml.). Í kjarasamningum er sérstakur kafli um rétt starfsmanna vegna veikinda og slysa, þ.e. yfirleitt 12. kafli.
Ákvæði kjarasamninga BHM, BSRB og KÍ um veikindarétt gilda einnig eftir því sem við á um réttarstöðu embættismanna sem kjararáð ákvarðar laun, sbr. reglur kjararáðs. Um lausn embættismanna vegna heilsubrests er fjallað í 30. gr. stml.
Upplýsingar um rétt til greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaganna er að finna hjá þeim eða á heimasíðu viðkomandi stéttarfélags.
3. Skilyrði veikindaréttar
3.1 Óvinnufærni
Til að eiga rétt á greiðslu launa í veikindum þarf starfsmaður að vera óvinnufær. Starfsmaður er óvinnufær þegar hann er ófær til vinnu af heilsufarslegum orsökum. Óvinnufærnin þarf að stafa af sjúkdómi eða slysi og hafa slík áhrif á líkamlegt eða andlegt ástand starfsmanns að það hindri hann í að vinna starfið sem hann er ráðinn til eða sambærilegt starf í þágu vinnuveitanda.
Sjúkdómur eða áverki þarf ekki að leiða til óvinnufærni. Margir sjúkdómar og áverkar hafa engin eða mjög lítil áhrif á starfsgetu. Starfsmaður getur því verið óvinnufær til vissra starfa en ekki annarra. Starfsmaður er ekki óvinnufær ef sjúkdómur eða meiðsli eru því ekki til fyrirstöðu að hann leysi af hendi annað sambærilegt starf. Starfsmanni getur því borið skylda til að vinna ef hann er fær til þess og það hamlar ekki bata. Dómstólar eiga þó alltaf síðasta orðið ef um ágreining er að ræða og hafa t.d. dæmt að áfengis- og lyfjafíkn falli ekki undir sjúkdómshugtakið þótt um sé að ræða viðurkennda sjúkdóma í læknisfræðinni.
Af dómum má einnig ráða að forföll skapa ekki rétt til veikindalauna þegar starfsmaður er ekki óvinnufær við upphaf aðgerðar. Í slíkum tilvikum vegur jafnan þungt hvort viðkomandi hafi verið vinnufær eða ekki þegar hann gekkst undir aðgerð. Sem dæmi má nefna forföll vegna minniháttar læknisaðgerða, rannsókna, lýta- og fegrunaraðgerða.
3.2 Atvinnusjúkdómar
Með atvinnusjúkdómi er átt við sjúkdóm sem á rætur að rekja til þess starfs sem starfsmaður stundar. Forföll vegna atvinnusjúkdóma veita í vissum tilvikum aukinn veikindarétt (sjá kafla 7.2).
Starfsmaður sem krefst aukins veikindaréttar á grundvelli atvinnusjúkdóms verður að sanna orsakatengsl sjúkdóms og starfs en meta verður hvert tilvik fyrir sig, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 315/2006 sem varðar svokallaðan atvinnuastma vegna notkunar á sótthreinsiefni á speglunardeild Landspítala - háskólasjúkrahúss og dóm Hæstaréttar frá 1996 þar sem starfsmaður varð fyrir heyrnarskaða af völdum hávaða, sjá bls. 4139 í dómasafni Hæstaréttar það ár.
3.3 Slys
3.3.1 Almennt
Slys er skilgreint sem óvæntur, utanaðkomandi atburður sem veldur meiðslum á líkama. Sé ekki um að ræða ásetning eða stórfellt gáleysi starfsmanns skiptir ekki máli hvernig slys verður, t.d. við íþróttaæfingar eða tómstundaiðkun.
Starfsmenn ríksins eru slysatryggðir allan sólarhringinn fyrir dauða eða varanlegri örorku vegna slysa. Í kjarasamningum er kveðið á um tryggingar í 7. kafla. Þar er vísað til sérstakra reglna fjármálaráðherra að því er varðar skilmála slysatrygginga. Um slys í starfi gilda skilmálar samkvæmt reglum nr. 30/1990 en um slys utan starfs gilda skilmálar samkvæmt reglum nr. 31/1990. Um fáeinar stéttir gilda þó sérstakar reglur.
3.3.2 Vinnuslys
Verði starfsmaður óvinnufær af völdum slyss á vinnustað eða á eðlilegri leið til eða frá vinnu greiðast laun skv. gr. 12.2.7 frá upphafi fjarvistanna.
Hljótist slys af athöfnum starfsmanns sjálfs sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna telst það ekki vinnuslys, t.d. ef slys sem hlýst af áflogum starfsmanna eða stríðni.
3.3.3 Eðlileg leið til og frá vinnu
Með orðalaginu „eðlileg leið til eða frá vinnu“ er átt við beina eða greiðustu leið frá heimili til vinnustaðar og frá vinnustað til heimilis. Sinni starfsmaður hins vegar eigin erindagjörðum á leiðinni og verði þá fyrir slysi telst það ekki vinnuslys.
3.3.4
Greiðsla kostnaðar vegna vinnuslyss
Vinnuveitandi greiðir starfsmanni þau útgjöld sem hann hefur orðið fyrir af völdum slyss á vinnustað og slysatryggingar almannatrygginga bæta ekki skv. 27. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.
3.3.5 Tilkynningarskylda til Vinnueftirlits ríkisins og Tryggingastofnunar ríkisins
Vinnuslys eru tilkynningarskyld til Vinnueftirlits ríkisins og Tryggingastofnunar ríkisins. Tilkynningarskylda hvílir á hlutaðeigandi stofnun. Sjá nánar á vinnueftirlit.is og tr.is.
3.3.6 Slys utan vinnu
Starfsmaður á rétt á veikindalaunum vegna óvinnufærni af völdum slyss utan vinnu. Ekki skiptir máli hvernig slys verður, t.d. við íþróttaæfingar og tómstundaiðkun, svo framarlega sem ekki er til að dreifa ásetningi eða stórfelldu gáleysi hins slasaða.
4. Tilkynningarskylda starfsmanns
Starfsmaður sem verður óvinnufær vegna veikinda eða slyss skal þegar tilkynna það yfirmanni sínum. Vanræki starfsmaður þessa skyldu sína geta lögmætar fjarvistir orðið ólögmætar og getur þá verið heimilt að draga af launum starfsmanns vegna fjarvista fram að þeim tíma sem hann tilkynnir veikindin.
5. Læknisvottorð
5.1 Ákvörðun yfirmanns
Þegar starfsmaður tilkynnir óvinnufærni vegna veikinda eða slyss til yfirmanns ákveður yfirmaður hvort læknisvottorðs skuli krafist og hvort það skuli vera frá trúnaðarlækni hlutaðeigandi stofnunar. Forstöðumaður getur krafist læknisvottorðs af starfsmanni hvenær sem honum þykir þörf á.
5.2 Óvinnufærni lengur en fimm vinnudaga
Ef starfsmaður kemur ekki til starfa vegna veikinda eða slyss í meira en fimm vinnudaga samfleytt skal hann sanna óvinnufærni sína með læknisvottorði. Ef um endurteknar fjarvistir er að ræða á þetta einnig við, eftir nánari ákvörðun yfirmanns.
5.3 Óvinnufærni um langan tíma
Ef starfsmaður er óvinnufær um langan tíma skal hann endurnýja læknisvottorð sitt eftir nánari ákvörðun yfirmanns, en þó ekki sjaldnar en mánaðarlega. Frá þessu má veita undanþágu eftir tillögu trúnaðarlæknis ef hann telur auðsætt að um lengri veikindafjarvist verði að ræða.
5.4 Skylda til að gangast undir læknisrannsókn
Óvinnufærum starfsmanni er skylt að gangast undir hverja þá venjulegu og viðurkenndu læknisrannsókn sem trúnaðarlæknir kann að telja nauðsynlega til þess að staðfesta að forföll séu lögmæt.
5.5 Endurgreiðsla á kostnaði
Endurgreiða skal starfsmanni gjald fyrir læknisvottorð, viðtal hjá lækni og nauðsynlegar læknisrannsóknir vegna útgáfu vottorðs.
6. Fjárhæð veikindalauna
Í gr. 12.2.6 og 12.2.7 er gerð grein fyrir þeim launum sem greidd skulu í veikindum. Er þar annars vegar greint á milli fastra launagreiðslna sem greiðast frá upphafi veikinda og hins vegar meðaltals annarrar yfirvinnu sem bætist við eftir fyrstu viku veikinda. Sjá bréf um túlkun og útfærslu kjarasamningsákvæða um veikindarétt.
6.1 Fastar greiðslur í fyrstu viku
Ákvæði gr. 12.2.6 er ætlað að tryggja að reglulegar, fastar greiðslur til viðbótar föstum mánaðarlaunum haldist.
Til þess að greiðslur geti talist til fastra greiðslna þarf að vera um vinnuframlag eða vinnutíma að ræða sem er fyrirfram ákveðinn vinnutími samkvæmt reglubundnum vöktum eða reglubundinni vinnu sem staðið hefur í tólf mánuði eða lengur eða er ætlað að standa a.m.k. svo lengi.
6.2 Tilfallandi yfirvinna eftir fyrstu viku
Yfirvinna sem ekki telst til fastrar yfirvinnu skv. gr. 12.2.6 telst vera tilfallandi yfirvinna. Um hana gilda ákvæði gr. 12.2.7 sem verður virk þegar veikindi hafa varað samfellt lengur en svarar til einnar viku vinnuskyldu.
Yfirvinnugreiðslur fyrir vinnu á sérstökum frídögum sem og vaktafrí (bæting) á sérstökum frídögum falla innan gr. 12.2.7 og skulu teknar með í meðaltalsútreikning á tilfallandi yfirvinnu eftir fyrstu viku veikinda.
Greiðslur skv. gr. 12.2.7 koma því til viðbótar en ekki í stað greiðslna skv. gr. 12.2.6.
Orlof starfsmanns á viðmiðunartímabili skv. gr. 12.2.7 kemur ekki til lækkunar á meðaltalsútreikningi tilfallandi yfirvinnu, sjá gr. 12.2.8.
7. Tímalengd veikindaréttar
7.1 Lok greiðslu vegna veikinda
Greiðslu veikindalauna lýkur þegar starfsmaður verður aftur vinnufær, enda sé veikindaréttur ekki fullnýttur áður.
Laun í veikindum eru ekki greidd lengur en ráðningu er ætlað að standa þannig að ef ráðningarsamningur er tímabundinn þá greiðast þau ekki lengur en út ráðningartímann.
7.2 Almanaksdagar
Í veikindum teljast allir almanaksdagar til fjarvistadaga en ekki einungis virkir dagar eða væntanlegir vinnudagar samkvæmt vinnuskipulagi.
Starfsmaður heldur launum, sbr. 6. kafla, svo lengi sem veikindadagar hans, taldir í almanaksdögum, verða ekki fleiri á hverjum tólf mánuðum en hér segir:
Starfstími | Fjöldi daga |
---|---|
0-3 mánuði | 14 dagar* |
Næstu 3 mánuði | 35 dagar* |
Eftir 6 mánuði | 119 dagar* |
Eftir 1 ár | 133 dagar* |
Eftir 7 ár | 175 dagar* |
Eftir 12 ár | 273 dagar |
Eftir 18 ár | 360 dagar |
*Viðbótarréttur vegna vinnuslysa eða atvinnusjúkdóma
Sérstakur viðbótarréttur er vegna vinnuslysa, slysa á beinni leið til og frá vinnu eða atvinnusjúkdóma. Viðbótarrétturinn er eingöngu bundinn við dagvinnulaun skv. gr. 1.1.1 í allt að þrjá mánuði (13 vikur eða 91 dag). Rétturinn nær ekki til starfsmanna sem hafa 273 og 360 daga í veikindarétt.
Dæmi um útreikning á veikindadögum:
- Endurnýjun veikindaréttar starfsmanns sem tæmt hefur veikindarétt sinn ef hann á rétt á 360 dögum.
- Talning veikindadaga þegar um er að ræða endurtekin veikindi.
7.3 Ávinnsla veikindaréttar
Réttur ríkisstarfsmanna til launa í veikindum er áunninn réttur og ræðst fyrst og fremst af lengd starfstíma hjá ríki. Við mat á ávinnslurétti skal auk starfsaldurs hjá launagreiðanda einnig telja starfstíma hjá stofnunum ríkis, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé.
Á fyrstu þremur mánuðum samfelldrar ráðningar skal þó fyrri þjónustualdur ekki metinn nema viðkomandi starfsmaður hafi samfelldan þjónustualdur hjá framangreindum launagreiðendum í tólf mánuði eða meira.
Dæmi: Starfsmaður ræður sig til ríkisstofnunar A. Áður starfaði hann í sex mánuði hjá ríkisstofnun B og þar áður átta mánuði hjá sveitarfélaginu C. Samfelldur þjónustualdur hans er því fjórtán mánuðir og veikindaréttur hans 133 dagar.Hafi hins vegar orðið rof á starfstíma hans, sem nemur meira en mánuði, hjá fyrrnefndum launagreiðendum á síðustu tólf mánuðum er veikindaréttur hans 14 dagar á fyrstu þremur mánuðum samfelldrar ráðningar hjá ríkisstofnun A. Eftir það miðast veikindaréttur hans við samanlagðan þjónustualdur.
Til starfsaldurs til veikinda skal telja þann starfstíma sem starfsmaður hefur verið ráðinn til lengri tíma en eins mánaðar og starf hans talið aðalstarf. Ekki skiptir máli hvert starfshlutfallið er ef starfið er talið aðalstarf. Sama gildir um starfsmann á tímakaupi teljist starfið aðalstarf.
8. Veikindi og orlof
8.1 Veikindi í orlofi
Veikist starfsmaður í orlofi það alvarlega að hann geti ekki notið orlofsins telst sá tími sem veikindunum nemur ekki til orlofs, enda sanni starfsmaður með læknisvottorði að hann geti ekki notið orlofsins.
Um veikindi barna í orlofi foreldra sjá 16. kafla.
8.2 Tilkynningarskylda
Tilkynna skal yfirmanni án tafar með sannanlegum hætti um veikindi ef um veikindi eða slys í orlofi er að ræða og þau síðan staðfest með læknisvottorði.
8.3 Veikindi hamla orlofstöku
Komist starfsmaður ekki í orlof vegna veikinda á hann rétt á að taka orlofið síðar, eftir atvikum utan sumarorlofstímabils. Geti starfsmaður ekki vegna veikinda lokið orlofstöku fyrir 31. maí næstan á eftir á hann rétt á að fá orlofslaunin greidd. Sjá 6. gr. orlofslaga, nr. 30/1987.
9. Starfshæfnisvottorð
Starfshæfnisvottorð er vottorð sem starfsmaður verður að skila inn áður en hann hefur störf að nýju eftir að hann hefur verið veikur í samfellt mánuð eða lengur. Í vottorðinu vottar læknir að heilsa starfsmannsins leyfi að hann hefji starf að nýju. Starfshæfnisvottorði er ætlað að fyrirbyggja að starfsmaður hefji störf áður en heilsa hans leyfir.
10. Skert starf samkvæmt læknisráði og með leyfi forstöðumanns („hlutaveikindi“)
Skert starf („hlutaveikindi“) byggist á heimildarákvæði í kjarasamningi og getur því aðeins nýst starfsmanni ef forstöðumaður samþykkir það. Aðstæður á vinnustað geta þó verið þannig að slíku verði ekki við komið.
Heimildin er hugsuð til þess að starfsmaður sem verið hefur frá starfi vegna veikinda eða slyss fái aðlögunartíma þegar hann kemur aftur til starfa. Þannig geti hann tekið upp fullt starf að nýju í áföngum, t.d. með því að vinna hálft starf fyrstu vikurnar. Heimildin skal aðeins notuð sem hluti af endurhæfingu og alltaf tímabundið.
Hafa þarf í huga við veitingu orlofs að starfsmaður getur ekki talist að hálfu veikur og að hálfu frískur í orlofi. Fari starfsmaður sem verið hefur í „hlutaveikindum“ í frí telst það að fullu til orlofstöku nema læknir votti að starfsmaður geti ekki notið orlofs en þá telst fríið að fullu til veikinda.
Ákvæðið á ekki við ef starfsmaður er orðinn varanlega ófær um að gegna að fullu því starfshlutfalli er hann var ráðinn til, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. stml. Slíkt hefur í för með sér lausn samkvæmt kafla 12.4 í kjarasamningi.
Sjá umfjöllun um hvernig á að telja veikindadaga í „hlutaveikindum?“ á vef fjármálaráðuneytisins.
11. Lausn frá störfum vegna heilsubrests eða slysa
Fullnægi starfsmaður ekki lengur skilyrðum um nauðsynlegt heilbrigði getur það leitt til starfsloka hans. Er þá talað um að starfsmanni sé veitt lausn frá störfum vegna heilsubrests. Lausn frá störfum vegna heilsubrests getur orðið með þrennum hætti. Í fyrsta lagi vegna langvarandi óvinnufærni, í öðru lagi vegna endurtekinnar óvinnufærni og í þriðja lagi ef starfsmaður óskar sjálfur eftir lausn frá störfum. Um lausn embættismanna vegna heilsubrests er fjallað í 30. gr. stml.
11.1 Lausn frá störfum vegna langvarandi óvinnufærni vegna veikinda eða slysa
Ef starfsmaður hefur verið samfellt frá störfum vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Hér er við það miðað að þegar starfsmaður hefur tæmt rétt sinn til launa í fjarvistum og hefur til viðbótar verið fjarverandi í jafnlangan tíma án launa má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests.
Ekki er þó alltaf þörf á að bíða með lausn þar til starfsmaður hefur verið fjarverandi launalaust í jafnlangan tíma og hann átti rétt til að halda launum. Þannig geta veikindi verið þannig að þegar er ljóst, t.d. með vottorði læknis, að starfsmaður fullnægir ekki lengur kröfum um nauðsynlegt heilbrigði, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. stml.
11.2 Lausn frá störfum vegna endurtekinnar óvinnufærni vegna veikinda eða slysa
Ef starfsmaður er óvinnufær vegna veikinda eða slysa svo mánuðum skiptir á hverju ári um fimm ára tímabil og ekki er skýlaust vottað að hann hafi fengið heilsubót sem ætla megi varanlega má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests.
Með orðalaginu „svo mánuðum skiptir á hverju ári um fimm ára tímabil“ hefur í framkvæmd verið miðað við að fjarvistir séu a.m.k. tveir mánuðir á ári. Ekki er skilyrði að fjarvistirnar hafi verið samfelldar á árinu.
Til þess að tryggja að réttar upplýsingar liggi fyrir er starfsmanni tilkynnt áður að til standi að veita honum lausn frá störfum vegna langvarandi veikinda. Nauðsynlegt er að fram komi hvaða daga starfsmaður hafi verið fjarverandi á umræddu fimm ára tímabili og gefa honum frest (3-5 daga) til þess að gera athugasemdir. Hafi engar nýjar upplýsingar komið fram er starfsmanni veitt lausn með tilvísun í 43. gr. stml. og gr. 12.4.1. Ekki er skilyrði að lausn sé miðuð við mánaðamót.
11.3 Starfsmaður óskar sjálfur eftir lausn
Starfsmaður getur hvenær sem er óskað eftir lausn vegna heilsubrests ef hann er varanlega ófær (sjá 3. kafla) um að gegna starfinu vegna vanheilsu. Starfsmaðurinn tilkynnir sjálfur um ósk sína og leggur fram vottorð læknis um óvinnufærni sína. Ekki er skilyrði að fyrir liggi vottorð trúnaðarlæknis en krefjast má þess ef forstöðumaður stofnunar telur slíkt nauðsynlegt.
Hafi starfsmaður einungis lagt fram læknisvottorð um varanlega óvinnufærni sína og ósk hans um lausn liggur ekki skýrt fyrir er rétt að staðfesta móttöku vottorðsins og ganga úr skugga um vilja starfsmannsins ef slíkt er unnt. Fallist forstöðumaður á framkomna lausnarbeiðni sendir hann starfsmanninum staðfestingu sína þar sem fram kemur frá hvaða tíma hún taki gildi.
12. Lausnarlaun
Þegar starfsmaður er leystur frá störfum vegna langvarandi eða endurtekinnar óvinnufærni vegna veikinda eða slysa skal hann halda föstum launum í þrjá mánuði skv. gr. 12.2.6 (sjá kafla 6.1).
13. Laun til maka látins starfsmanns
Ef starfsmaður sem andast var í hjúskap, staðfestri samvist, skráðri sambúð eða sambúð sem að öðru leyti má jafna til hjúskapar í merkingu 49. gr. almannatryggingalaga, nr. 100/2007, skal greiða eftirlifandi maka laun sem svarar til fastra launa hins látna í þrjá mánuði skv. gr. 12.2.6 (sjá kafla 6.1). Ákvæðið hefur verið skýrt svo að þriggja mánaða laun til eftirlifandi maka reiknist frá næstu mánaðamótum eftir andlát starfsmannsins.
14. Launalaust leyfi
Starfsmaður í launalausu leyfi á ekki rétt til launagreiðslna vegna veikinda eða slyss meðan á leyfinu stendur. Ef starfsmaður er veikur þegar launalausa leyfinu lýkur og hann hyggst koma til starfa á ný á hann rétt á veikindalaunum hafi hann áunnið sér þau áður en hann fór í leyfið. Sé starfsmaður veikur þegar kemur að launalausu leyfi falla launagreiðslur niður. Launalaust leyfi telst ekki til starfstíma við mat á veikindarétti.
15. Veikindi og slysaforföll í fæðingarorlofi
Veikindatími starfsmanns í fæðingarorlofi telst ekki til veikindaforfalla og á starfsmaður ekki rétt til veikindalauna þann tíma. Fæðingarorlof telst til starfstíma við mat á veikindarétti.
16. Veikindi barna yngri en þrettán ára
Samkvæmt kjarasamningum nýtur starfsmaður sérstaks og sjálfstæðs réttar vegna veikinda barna sinna. Skv. gr. 12.8.1 á annað foreldri rétt á að vera frá vinnu í samtals tólf vinnudaga (96 vinnuskyldustundir miðað við fullt starf) á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir þrettán ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Greiða skal starfsmanni dagvinnulaun og vaktaálag samkvæmt reglubundinni vaktskrá.
Greinin tekur ekki til veikinda barna í orlofi foreldra þar sem í henni segir að foreldri eigi rétt á að vera frá vinnu.
17. Veikindi maka
Í lögum eða kjarasamningum eru ekki ákvæði um rétt til að vera frá vinnu vegna veikinda maka og á því starfsmaður ekki rétt til launa þegar hann er frá vinnu vegna veikinda maka.
18. Brottfall veikindaréttar
Réttur til veikindalauna fellur niður þegar starfsmaður hefur fullnýtt veikindarétt sinn en rétturinn getur einnig fallið niður af eftirfarandi ástæðum:
Uppsögn ráðningarsamnings
Veikindaréttur fellur niður við starfslok hvort heldur starfsmaður segir upp starfi eða honum er sagt upp störfum.
Niðurlagning starfs eða stofnunar
Starfsmaður á veikindalaunum nýtur ekki betri réttar en aðrir starfsmenn þegar kemur að niðurlagningu stofnunar. Hann á t.d. ekki rétt á að tæma rétt sinn til greiðslna í veikindum. Ef starf eða stofnun er lögð niður falla greiðslur veikindalauna niður að loknum uppsagnarfresti og við upphaf biðlaunatöku ef við á.
Tímabundin ráðning
Ef ráðning er tímabundin fellur réttur til veikindalauna niður við lok þess tíma sem ráðningu er ætlað að standa.
Vinnuslys eða atvinnusjúkdómur
Verði starfsmaður fyrir vinnuslysi eða er haldinn atvinnusjúkdómi ber að greiða veikindalaun svo lengi sem starfsmaður á rétt á slíku (sjá kafla 7.2 um viðbótarrétt). Starfslok verða þá ekki fyrr en réttur til veikindalauna tæmist.
Andlát
Við andlát fellur réttur til veikindalauna niður. Maki látins starfsmanns fær greidd þriggja mánaða föst laun hans (sjá 13. kafla um rétt maka).
Annað
Sök starfsmanns, ásetningur eða stórkostlegt gáleysi geta orðið til þess að veikindaréttur hans fellur niður.
19. Samráðsnefnd um veikindarétt
Sérstök samráðsnefnd skal fjalla um túlkun og útfærslu einstakra ákvæða um veikindarétt. Nefndin er skipuð fulltrúum samningsaðila að samkomulagi BHM, BSRB og KÍ annars vegar við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborg og launanefnd sveitarfélaga hins vegar.
- - -
Kafli 7.3, um ávinnslurétt veikindaréttar, er uppfærður. Ekki er skilyrði að um starfstíma á kjörum samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, sé að ræða.
Kafli 16, um veikindi barna yngri en þrettán ára, er uppfærður. Fjöldi vinnudaga eru tólf í stað tíu áður (96 vinnuskyldustundir í stað 80 vinnuskyldustunda).
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.