Hoppa yfir valmynd

Dreifibréf 6/2001 - Vinnuvernd

Fjármálaráðuneytið
Starfsmannaskrifstofa
Nóvember 2001/smh
Dreifibréf 6/2001

VINNUVERND

Upplýsingar um vinnu barna og unglinga samkvæmt X. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Um vinnu barna og unglinga, svo sem aldursskilyrði, vinnutíma og hvíld.

*Uppfært

Kveðið er á um almenn skilyrði þess að fá skipun eða ráðningu í starf á vegum ríkisins í 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar á meðal er kveðið á um aldurslágmark, sbr. 1. tölul. 1. mgr. sem hljóðar svo: "Átján ára aldur. Þó má víkja frá þessu aldurslágmarki um störf samkvæmt námssamningi, ræstingastörf, sendilstörf eða önnur svipuð störf. Einstök ákvæði í lögum, þar sem annað aldurtakmark er sett, skulu haldast."

Ef vikið er frá 18 ára aldurslágmarkinu ber að hafa í huga ákvæði um vinnu barna og unglinga í X. kafla laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

I. Meginatriði X. kafla laga nr. 46/1980.
1. Heimilt er að ráða unglinga til vinnu, þ.e. 15 - 18 ára.
2. Óheimilt er að ráða börn (þ.e. undir 15 ára aldri eða sem eru í skyldunámi) til vinnu.
Undantekningar frá þeirri meginreglu eru eftirfarandi:
a) Heimilt er að ráða börn, 14 ára og eldri, til vinnu enda sé vinnan hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
b) Heimilt er að ráða börn, 13 ára og eldri, til að vinna störf af léttara tagi, s.s. til léttra garðyrkju- og þjónustustarfa.
c) Sérstakar reglur gilda um vinnu barna sem tengist menningarstarfsemi, listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi.
3. Skýrar reglur um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma barna og unglinga.
4. Kveðið er á um skyldur atvinnurekenda til að gera ráðstafanir sem tryggja öryggi og heilbrigði barna og unglinga sem hjá þeim starfa.

II. Hvenær er óheimilt að ráða börn/unglinga til vinnu.
Óheimilt er að ráð börn og unglinga til vinnu, sem unnin er við eftirfarandi aðstæður:
1. Vinnu sem líklega er ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra.
2. Vinnu sem líklega veldur varanlegu heilsutjóni.
3. Vinnu þar sem hætta er á skaðlegri geislun.
4. Vinnu þar sem fyrir hendi er slysahætta sem gera má ráð fyrir að börn og unglingar geti átt í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast vegna andvaraleysis eða skorts á reynslu eða þjálfun.
5. Vinnu sem felur í sér hættu fyrir heilsu þeirra vegna óvenjumikils kulda, hita, hávaða eða titrings.

Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði þegar það er nauðsynlegt vegna starfsnáms unglinga.

III. Vinnutími barna og unglinga sem heimilt er að ráða til vinnu.
Virkur vinnutími barna er takmarkaður með eftirfarandi hætti:
1. 8 klst. á dag og 40 klst. á viku ef vinnan er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
2. 2 klst. á skóladegi og 12 klst. á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á starfstíma skóla en utan skipulegs skólatíma. Daglegur vinnutími má þó aldrei vera lengri en sjö klst. Þó má daglegur vinnutími barns sem náð hefur 15 ára aldri vera 8 klst.
3. 7 klst. á dag og 35 klst. á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á tíma sem skólinn starfar ekki. Daglegur vinnutími barns sem náð hefur 15 ára aldri má þó vera 8 klst. á dag og 40 klst. á viku.
4. 7 klst. á dag og 35 klst. á viku þegar um er að ræða vinnu af léttara tagi sem unnin er af börnum sem eru ekki lengur í skyldunámi.

Virkur vinnutími unglinga er takmarkaður við 8 klst. á dag og 40 klst. á viku.

Heimilt er að víkja frá takmörkuðum vinnutíma unglinga í sérstökum tilvikum eða ef réttmætar ástæður leyfa.

Barn og unglingur á rétt til að fá minnst 30 mínútna hlé þegar daglegur vinnutími er lengri en 4 tímar. Hléið skal vera samfellt ef kostur er.

IV. Næturvinna.
Óheimilt er að láta börn vinna á tímabilinu frá kl. 20 til kl. 6. Óheimilt er að láta unglinga vinna á tímabilinu frá kl. 22 til kl. 6.

Heimilt að láta unglinga vinna á fyrrgreindu tímabili á sérstökum starfssviðum, enda skal þá fullorðinn einstaklingur hafa umsjón með unglingnum ef þörf er á slíkri umsjón til verndar honum. Þó er óheimilt að láta ungling vinna á tímabilinu frá kl. 24 til kl. 4. Þegar réttmætar ástæður eru fyrir hendi er þó heimilt að láta unglinga vinna á tímabilinu frá kl. 22 til kl. 6 og jafnvel á tímabilinu frá kl. 24 til kl. 4, að því tilskildu að unglingarnir fái hæfilegan uppbótarhvíldartíma. Þessi undanþága á við þegar um er að ræða vinnu á sjúkrastofnunum eða sambærilegum stofnunum og störf á sviði menningarmála, lista, íþrótta eða auglýsinga.

Unglingar eiga, áður en þeir hefja næturvinnu og með reglulegu millibili eftir það, rétt á heilbrigðisskoðun og athugun á vinnuhæfni sinni sér að kostnaðarlausu, nema þeir vinni einungis í undantekningartilvikum á þeim tíma sem vinna er bönnuð. Atvinnurekandi skal sjá til þess að slík skoðun fari fram.

V. Hvíld.
Börn skulu fá minnst 14 klst. samfellda hvíld á hverjum sólarhring. Unglingar skulu fá minnst 12 klst. samfellda hvíld á hverjum sólarhring. Á hverju 7 daga tímabili skulu börn og unglingar fá minnst 2 daga hvíldartímabil sem skal vera samfellt ef kostur er. Lágmarkshvíldartími þessi skal að jafnaði taka til sunnudags.

Heimilt er að víkja frá fyrrgreindum hvíldartíma barna og unglinga þegar um er að ræða vinnu sem er skipt upp yfir daginn eða varir í stuttan tíma hverju sinni.

VI. Öryggi og heilbrigði tryggt.
Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi og heilbrigði barna og unglinga með gerð mats á áhættu sem starf getur skapað þeim. Þetta mat skal fara fram áður en ungmenni hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum. Sýni matið að öryggi, líkamlegri eða andlegri heilsu eða þroska barns eða unglings geti verið stofnað í hættu, skal atvinnurekandi sjá til þess að reglulega fari fram viðeigandi skoðun og eftirlit með heilsu ungmennanna þeim að kostnaðarlausu.* Dreifibréf þetta kemur í stað upplýsinga nr. 5/1997, dags. 3. október 1997.

------------------------------------------
Síðast uppfært: 15.3.2017
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum