Hoppa yfir valmynd

Dreifibréf 6/2002 - Tryggingar

Fjármálaráðuneytið
Starfsmannaskrifstofa
Desember 2002/gós
Dreifibréf 6/2002

TRYGGINGAR
Framkvæmd og túlkun á grein 7.3 í kjarsamningum fjármálaráðherra og stéttarfélaga opinberra starfsmanna.
Tjón á persónulegum munum starfsmanns vegna óhapps á vinnustað.

uppfært*

Í flestum kjarasamningum fjármálaráðherra og stéttarfélaga opinberra starfsmanna, þ.e. stéttarfélaga sem semja á grundvelli laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er sérstakur kafli um tryggingar (yfirleitt 7. kafli). Þar er meðal annars kveðið á um bætur vegna tjóns á persónulegum munum**. Grein 7.3 í kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra er svohljóðandi:

"Verði starfsmaður sannanlega fyrir tjóni á algengum nauðsynlegum fatnaði og munum við vinnu, svo sem úrum, gleraugum o.s.frv., skal það bætt skv. mati. Náist ekki samkomulag, skal tjónið metið af einum fulltrúa frá hvorum aðila.

Slík tjón verða einungis bætt ef þau verða vegna óhapps á vinnustað. Eigi skal bæta slík tjón ef þau verða sannanlega vegna gáleysis eða hirðuleysis starfsmanns."

Samkvæmt orðanna hljóðan á starfsmaður rétt á að fá tjón sitt bætt að þremur skilyrðum uppfylltum.

Í fyrsta lagi er skilyrði að starfsmaður verði sannanlega fyrir tjóni á algengum nauðsynlegum fatnaði og/eða munum, svo sem úrum og gleraugum, sem hann notar í vinnunni. Reiðufé, ávísanahefti og debet- eða kreditkort teljast ekki til muna sem starfsmaður notar í vinnunni. Það sama á almennt við um einkabifreið.

Í öðru lagi er skilyrði að tjónið/óhappið hafi átt sér stað á vinnustað. Til vinnustaðar starfsmanns telst hans fasta starfsstöð sem og aðrar þær starfsstöðvar eða aðstæður sem hann dvelur í við störf sín, þar á meðal í erindagjörðum á vegum stofnunar***.

Í þriðja lagi er skilyrði að tjónið hafi ekki sannanlega átt sér stað vegna gáleysis eða hirðuleysis viðkomandi starfsmanns. Aftur á móti fellur hér undir tjón vegna gáleysis/hirðuleysis annarra, svo sem samstarfsmanna eða viðskiptavina/skjólstæðinga. Tjón sem unnin eru af ásetningi, þ.e. skemmdarverk eða þjófnaður, teljast ekki til óhappa.

Greiðslur vegna tjóna á persónulegum munum starfsmanns er hægt að afgreiða í gegnum launavinnslukerfi ríkisins. Fjársýsla ríkisins (áður Ríkisbókhald) annast þær nema hlutaðeigandi stofnun fari sjálf með launaafgreiðslu starfsmanna sinna.

Áður en ákveðið er hvort tjón á persónulegum munum verði bætt, er rétt að kalla eftir ítarlegri atvikalýsingu frá starfsmanni og staðfestingu næsta yfirmanns. Þegar staðfest atvikalýsing liggur fyrir, skal meta hvort skilyrðin þrjú séu uppfyllt.

Hvað varðar fjárhæð bóta er rétt að afla upplýsinga um hvað sambærilegur fatnaður eða munur (hlutur) kostar nýr. Í því sambandi þarf eftir atvikum að leita upplýsinga hjá fleiri verslunum en einni séu ástæður taldar til verðsamanburðar. Þegar þannig hefur fengist nokkuð öruggur bótagrunnur hefur þótt rétt að lækka fjárhæðina um 20% eða meira, þ.e. í þeim tilvikum þegar um mjög dýran fatnað eða hlut er að ræða.


* Dreifibréf þetta kemur í stað vinnureglna frá 18. nóvember 1988.

** Það er einnig kveðið á um bætur vegna tjóns á persónulegum munum í flestum kjarasamningum annarra stéttarfélaga en opinberra starfsmanna, þ.e. stéttarfélaga sem semja á grundvelli laga nr. 80/1938. Ákvæðin eru svipuð en þó ekki alveg sambærileg. Slíkt ákvæði er t.d. að finna í grein 11.8 í kjarasamningi fjármálaráðherra og Eflingar - stéttarfélags. 

*** Tjón á farangri sem starfsmaður verður fyrir á ferðalögum á vegum vinnuveitanda er bætt samkvæmt reglum nr. 281/1988, um farangurstryggingar starfsmanna á ferðalögum á vegum ríkisins, eða eftir atvikum samkvæmt ferðatryggingu sem fylgir kortalausum viðskiptum á vegum Greiðslumiðlunar hf. (VISA) og EUROPAY Ísland. Sjá nánar umburðarbréf fjármálaráðuneytis nr. 1/1999 og 2/2000.Síðast uppfært: 5.2.2018 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira