Hoppa yfir valmynd

Dreifibréf 8/2002 - Upphaf starfs - embættismenn

Fjármálaráðuneytið
Starfsmannaskrifstofa
Desember 2002/þv
Dreifibréf 8/2002
UPPHAF STARF Sembættismenn
Framkvæmd og túlkun á 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stml.Auglýsingar á lausum embættum.

Uppfært*
Auglýsingaskylda

Skylt er að auglýsa laus störf hjá ríkinu. Auglýsingaskyldan nær bæði til lausra embætta og annarra starfa hjá ríkinu. Til grundvallar auglýsingaskyldunni liggja tvenns konar sjónarmið. Annars vegar það sjónarmið að veita beri öllum tækifæri til að sækja um laus störf hjá ríkinu og hins vegar það sjónarmið að stuðla að því að ríkið eigi kost á færum og hæfum starfsmönnum í þjónustu sinni.

Um auglýsingar á lausum embættum er fjallað í 1. mgr. 7. gr. stml.

7. gr.

Laust embætti skal auglýsa í Lögbirtingablaði og skal umsóknarfrestur ekki vera skemmri en tvær vikur frá útgáfudegi blaðsins. Þó er heimilt að skipa mann eða setja í embætti skv. 2. mgr. 23. gr. eða setja í forföllum skv. 1. málsl. 24. gr. eða flytja hann til í embætti skv. 36. gr. án þess að embættið sé auglýst laust til umsóknar.

Önnur störf skulu auglýst opinberlega samkvæmt reglum sem settar skulu af fjármálaráðherra. ...
Skylt er, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn.

Með hugtakinu "embætti" er samkvæmt 3. mgr. 1. gr. stml. einungis átt við starf sem maður er skipaður til að gegna, sbr. 22. gr. laganna. Samkvæmt orðanna hljóðan er skylt að auglýsa öll laus embætti í Lögbirtingablaði.

Undantekningar frá auglýsingaskyldu

Frá auglýsingaskyldunni eru eftirfarandi undantekningar (sbr. 2. ml. 1. mgr. 7. gr. stml.) :

  1. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. stml. skal embættismanni sem skipaður er tímabundið í embætti til fimm ára í senn tilkynnt um það með sex mánaða fyrirvara áður en skipunartími hans rennur út hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar eða ekki. Sé það ekki gert framlengist skipunartími hans í embætti sjálfkrafa og án auglýsingar um fimm ár.
  2. Setning í forföllum. Samkvæmt 1. málslið 24. gr. stml. er heimilt að setja embættismann tímabundið í embætti án auglýsingar ef embættismaður sá sem skipaður var í embættið fellur frá eða er fjarverandi um lengri tíma vegna veikinda eða af öðrum ástæðum. Ákvæðið segir að setning geti aldrei varað lengur en eitt ár. Setningu í forföllum verður að greina frá setningu til reynslu, sbr. 2. málslið 24. gr. stml. og 7. gr. laga nr. 150/1996. Setningu til reynslu verður að auglýsa í samræmi við 1. mgr. 7. gr. stml. Hún er til eins árs í senn þó aldrei lengur en til tveggja ára.
  3. Samkvæmt 36. gr. stml. er heimilt að flytja embættismann milli embætta án þess að embættið sé auglýst laust til umsóknar.

Birting auglýsingar
Laust embætti skal auglýst í Lögbirtingablaði og skal umsóknarfrestur ekki vera skemmri en tvær vikur frá útgáfudegi blaðsins. Samkvæmt þessu nægir ekki að auglýsing sé birt á netinu, Starfatorg.is, eingöngu. Upphaf umsóknarfrests er talið frá næsta degi á eftir birtingu, þ.e. útgáfudegi blaðs. Ef lokadag umsóknarfrests ber upp á almennan frídag lengist fresturinn til og með næsta opnunardags. Sjá nánar um útreikningu frests í 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Efni auglýsingar
Hvergi er mælt fyrir um það hvað skuli að lágmarki koma fram í auglýsingu um laust embætti. Í þessu sambandi má þó hafa hliðsjón af reglum um auglýsingar um laus störf, sem eiga við um almenn störf hjá ríkinu, sbr. dreifibréf nr. 7/2002. Í 4. gr. reglnanna eru þau atriði talin, sem þurfa að lágmarki að koma fram í auglýsingu. Einnig má hafa hliðsjón af 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. stml., sem fjallar um það að starfsmaður verði að hafa þá almennu menntun og að auki þá sérmenntun sem lögum samkvæmt er nauðsynleg til þess að sinna starfinu óaðfinnanlega.

Samkvæmt 4. gr. nefndra reglna er gerð sú krafa að í auglýsingu skuli a.m.k. koma fram upplýsingar um eftirfarandi atriði:

  1. Hver veitir nánari upplýsingar um starf.
  2. Hvert á umsókn að berast.
  3. Hvort hún eigi að vera á sérstökum eyðublöðum og ef svo er hvar sé hægt að fá þau.
  4. Umsóknarfrestur.
  5. Hvaða starf/starfssvið um er að ræða. Þar komi fram lýsing sem sé nægjanlega greinargóð til þess að væntanlegur umsækjandi geti gert sér glögga grein fyrir því í hverju starfið felst.
  6. Starfshlutfall.
  7. Hvaða menntunar- og/eða hæfniskröfur gerðar eru til starfsmann.
  8. Hvaða starfskjör eru í boði.
  9. Stjórnunarleg staða starfsins innan stofnunar.
  10. Hvenær starfsmaður skuli hefja störf.
  11. Að öllum umsóknum verði svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Í sérlögum um einstakar starfsstéttir, t.d. hjá lögreglumönnum, eru oft gerðar kröfur um tiltekna menntun. Séu engin slík fyrirmæli í lögum, er það sá sem veitir embætti sem ákveður hvort krefjast skuli ákveðinnar menntunar eða hæfni. Í því sambandi er gert ráð fyrir því að ákveðið samhengi sé á milli starfsins og krafna sem gerðar eru til umsækjenda. Leiði eðli starfsins á hinn bóginn til þess að óhjákvæmilegt er að krefjast tiltekinnar menntunar, hæfni eða reynslu til þess að sinna starfinu óaðfinnanlega ber að taka slíkt fram í auglýsingu. Hvað varðar upplýsingar um starfskjör, sbr. 8. tl., ætti að nefna eftir atvikum Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga. Glögg lýsing á innihaldi starfs getur ennfremur einfaldað til muna val á umsækjendum og rökstuðning slíkrar ákvörðunar síðar.

Af ofangreindum atriðum leiðir að í auglýsingu um laust embætti verður stofnun að auglýsa undir nafni.

Auk ofangreindra reglna getur einnig þurft að líta til fyrirmæla 3. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem leggur m.a. bann við því að gefið sé í skyn í auglýsingu að fremur sé óskað starfsmanna af öðru kyninu en hinu, nema ef tilgangur auglýsandans sé sá að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar, en slíkt skal þá taka fram í auglýsingunni. Sama á einnig við ef gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir öðru kyninu.

Í auglýsingu um laust embætti er óheimilt að heita umsækjendum því að farið verði með umsóknir þeirra sem trúnaðarmál. Í því sambandi gildir lokamálsgrein 7. gr. stml. sem kveður á um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn. Sambærilega reglu er einnig að finna í 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Þá er óheimilt að taka umsókn til greina sem berst að liðnum auglýstum umsóknarfresti. Rétt er að miða við dagsetningu póststimpils við mat á því hvort umsókn hefur borist innan umsóknarfrests. Víkja má þó frá þeirri reglu að óheimilt sé að taka umsókn til greina sem berst að liðnum auglýstum umsóknarfresti ef afsakanlegar ástæður eru fyrir því að umsókn barst of seint. Þá er heimilt að víkja frá þessari reglu ef embættið er auglýst laust til umsóknar á ný með framlengdum umsóknarfresti. Orðalag slíkrar endurauglýsingar gæti t.d. verið með eftirfarandi hætti: "Með auglýsingu þessari er framlengdur áður auglýstur umsóknarfrestur um stöðu xxxx sem birtist í Lögbirtingarblaði þann xxxx."

* Minniháttar lagfæringar og efnisleg viðbót varðandi útreikning umsóknarfrests gerðar í byrjun mars 2004.

Síðast uppfært: 15.8.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum