Hoppa yfir valmynd

Norræn starfsmannaskipti

Með það að markmiði að auka norræna samvinnu hefur Norræna ráðherranefndin haft forgöngu um að gera ríkisstarfsmönnum á Norðurlöndum kleift að stunda tímabundið störf eða nám á starfsvettvangi sínum í ríkisstofnunum annars staðar á Norðurlöndum. Tilgangurinn er að gefa ríkisstarfsmönnum tækifæri til að auka þekkingu sína á stjórnun, stjórnsýslu og löggjöf og auka nýsköpun á starfssviði starfsmannsins. 

Hægt er að sækja um starfsmannaskipti haustið 2022 í sumar, en umsóknarfrestur um styrk til dvalar á næsta ári er til 30. nóvember. Umsóknum og fyrirspurnum skal beina til:

Stefanía S. Bjarnadóttir Kjara- og mannauðssýslu ríkisins
    Fjármála- og efnahagsráðuneytinu
    Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík    
    Sími: 545-9344    
    Tölvupóstur: Stefanía S. Bjarnadóttir 

Almenn skilyrði

Skiptin eru ekki bundin við sérstök störf eða starfshópa. Starfið eða námið verður þó að vera í faglegum tengslum við verksvið umsækjanda og teljast bæði stofnun og starfsmanni til gagns. Dvölin skal skemmst vera 2 vikur og lengst 6 mánuðir.

Árleg fjárveiting ráðherranefndarinnar, sem skiptist á milli einstakra landa, er veitt til að greiða ferðakostnað, kostnað vegna húsnæðis o.fl. Þeirri fjárhæð sem til ráðstöfunar er fyrir Ísland er skipt niður á styrkþega. Vegna takmarkaðrar fjárveitingar getur þurft að velja úr umsóknum eða takmarka dvalartíma hvers og eins.

Á dvalartímanum nýtur starfsmaður venjulegra mánaðarlauna frá ráðuneyti/stofnun í heimalandinu og annarra starfstengdra réttinda eins og um órofinn starfstíma væri að ræða. Þetta er ein af forsendum þess að starfsmaðurinn hljóti styrk. Gert er ráð fyrir að stofnað sé til skiptidvalar með fulltingi ráðuneytis/stofnunar umsækjenda og að stofnun veiti starfsmanni aðstoð og leiðbeiningar eins og kostur er varðandi skiptin og dvölina. Gert er ráð fyrir að samkomulag hafi náðst við væntanlega dvalarstofnun áður en umsókn er send til fjármálaráðuneytisins.

Sé dvölin rofin skal fjármálaráðuneytinu tafarlaust tilkynnt um það.

Styrkur

Á vegum ráðherranefndarinnar er greiddur styrkur og er hann nú jafngildi 14.000 danskra króna á mánuði.

Ráðherranefndin greiðir ennfremur ferðakostnað til og frá dvalarstað. Lögð er áhersla á að leitað sé ódýrasta fargjalds sem kostur er á. Velji styrkþegi að notfæra sér dýrara fargjald greiðir hann sjálfur mismuninn.

Skiptidvöl styrkþega getur staðið yfir í 2 vikur eða lengur, allt eftir samkomulagi, en hámarkið er 6 mánaða dvöl.

Endurgreiðsla útgjalda

Gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi ráðuneyti/stofnun greiði til bráðabirgða öll útgjöld vegna styrkveitingarinnar þar með talið dvalarstyrk og ferðakostnað. Gögn vegna endurgreiðslna skal senda til fjármála- og efnahagsráðuneytisins um leið og dvöl er lokið.

Umsóknir

Umsókn um styrk sendist til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, tölvupóstur: [email protected]

Í umsókn skal eftirfarandi koma fram:

  1. Nafn, kennitala og heimili umsækjanda.
  2. Starfsheiti, vinnustaður og starfstími hjá þeirri stofnun sem starfsmaður starfar hjá.
  3. Starfs- eða verksvið.
  4. Menntun og fyrri störf.
  5. Heiti stofnunar sem samkomulag hefur verið gert við um skiptidvöl, hvenær áætlað er að fara og til hve langs tíma sótt er um.
  6. Hverjir umsækjandi áætlar að fari með honum úr fjölskyldu hans ef um lengri dvöl er að ræða.
  7. Hvernig dvölin er skipulögð.
  8. Hvort umsækjandi hafi fengið eða eigi von á öðrum styrkjum eða aðstoð í sama skyni og um hve háa fjárhæð er að ræða.
  9. Aðrar upplýsingar sem máli skipta.

Umsókn skal fylgja umsögn ráðuneytis/stofnunar þar sem m.a. þess sé getið að um launað leyfi sé að ræða.

Skyldur styrkþegans

Styrkþeginn hefur vinnuskyldu á meðan á skiptidvölinni stendur. Jafnframt verður hann að fylgja reglum þeirrar stofnunar sem dvalið er hjá um vinnutíma og sinna þeirri vinnu sem honum er falin. Þetta gildir jafnframt um allar þær reglur sem gilda á staðnum svo sem þagnarskyldu o.fl. Sé þess krafist, skal styrkþeginn undirrita reglur þeirrar stofnunar, sem dvalið er hjá, um þagnarskyldu o.fl.

Innan tveggja mánaða eftir heimkomuna skal styrkþegi senda skýrslu til fjármála- og efnahagsráðuneytisins um dvölina. Úrdráttur úr skýrslum styrkþega er sendur til Norrænu ráðherranefndarinnar en þar er safnað saman upplýsingum frá öllum styrkþegum og lagt sameiginlegt mat á ávinninginn af starfsmannaskiptunum. Vegna þessa þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram í inngangi að skýrslum styrkþega. Hér er eyðublað fyrir skýrslugerðina.

Í skýrslunum skulu ennfremur vera lýsingar á þeirri reynslu sem styrkþeginn öðlaðist. 

Frekari upplýsingar

Á ári hverju fara að jafnaði um tíu ríkisstarfsmenn frá Íslandi til skiptidvalar á Norðurlöndunum, algengast er að skiptidvöl standi yfir í einn mánuð en einnig þekkist að dvöl sé skipulögð í þrjá eða fjóra mánuði. Til Íslands koma einnig starfsmenn frá Norðurlöndunum til skiptidvalar og þá erum við í hlutverki móttökulandsins og eru ríkisstofnanir hvattar til þess að taka vel undir óskir um skiptidvöl á vegum norrænna starfsmannaskipta.

Frekari upplýsingar um skiptidvöl norrænna ríkisstarfsmanna er að finna á vef Norrænu ráðherranefndarinnar. 

Síðast uppfært: 5.5.2022 1
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira