Hoppa yfir valmynd

Ríkið sem vinnuveitandi

Vinnuveitendahlutverk

Samkvæmt lögum og forsetaúrskurði um Stjórnarráð heyra málefni ríkisstarfsmanna undir fjármála- og efnahagsráðuneyti, það er launa-, kjara- og lífeyrismál starfsmanna ríkisins og réttindi þeirra og skyldur. Samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna fer fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs einnig með fyrirsvar við gerð kjarasamninga. Hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu fara Kjara- og mannauðssýsla og Skrifstofa stjórnunar og umbóta með stefnumörkun varðandi mannauðsmál ríkisins. Kjara og mannauðssýslan fer með fyrirsvar fyrir almennum málefnum ríkisstarfsmanna, svo sem gerð kjarasamninga með samninganefnd ríkisins og túlkun þeirra sem og túlkun laga er varða starfsmenn ríkisins í heild. Samstarf ríkisins og stéttarfélaga er í höndum Kjara- og mannauðssýslu.

Forstöðumenn stofnana ríkisins fara með fyrirsvar um réttindi og skyldur starfsmanna sinna. Almennt verður ákvörðunum þeirra í starfsmannamálum hvorki skotið til hlutaðeigandi fagráðuneytis né fjármála- og efnahagsráðuneytis. Framkvæmd kjarasamninga er í höndum Fjársýslu ríkisins, þ.e. launaafgreiðsla og samskipti við stéttarfélög í samstarfsnefndum að því marki sem stofnanir sinna því ekki sjálfar.

Almennt um starfsævina

Starfssambandi fylgja réttindi og skyldur fyrir báða aðila, þ.e. starfsmann og hlutaðeigandi stofnun. Almenn ákvæði um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru í III. og IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Ákvæði þessara kafla gilda jafnt um embættismenn sem aðra ríkisstarfsmenn. Um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildir jafnframt hin almenna löggjöf á sviði vinnumála, svo sem lög um fæðingar- og foreldraorlof og lög um orlof. Í mörgum tilvikum gilda einnig sérákvæði laga um hlutaðeigandi stofnun, starfsemi eða starfsstétt, t.d. lögreglulög og læknalög. Þá hafa flestar stofnanir markað sér stefnu í eigin starfsmannamálum og eftir atvikum sett sér reglur í þeim málum, t.d. um framkvæmd vinnunar og starfsþróun. Nánari umfjöllun um stefnumörkun er að finna á vefnum undir kaflanum Starfsumhverfi.

Í IV. kafla starfsmannalaga er kveðið á um skyldur starfsmanna og áminningu vegna brota á starfsskyldum. Umfjöllun um þetta er á vefnun undir kaflanum Starfsþróun og frammistaða - Brot á starfsskyldum - áminning.

Í III. kafla starfsmannalaga er kveðið á um rétt starfsmanna til ýmissa atriði, svo sem upplýsinga um launakjör (skipunar- eða ráðningarkjör), launa og greiðslu launa, orlofs, launa í veikindaforföllum og fæðingarorlofi og loks sveigjanlegs vinnutíma. Umfjöllun um orlof, laun í veikindaforföllum og greiðslur í fæðingarorlofi er að finna hér á vefnum undir Vinnutími og fjarvera - Orlof, Veikindi og slys og Fæðingar- og foreldraorlof. Umfjöllun um skyldu stofnana til að upplýsa starfsmann um skipunar- eða ráðningarkjör er að finna á vefnum um Upphaf starfs á ráðning í starf og skipun/setning í embætti. Þá er fjallað um kjarasamninga og annað kjaratengt efni undir kaflanum Kjarasamningar, laun og starfskjör.

Áréttað skal að ofangreind atriði um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru ekki tæmandi.

Ríkið sem þekkingarvinnustaður

Ríkið er stærsti þekkingarvinnustaður landsins, starfsemi þess byggir fyrst og fremst á mannauð og þar bjóðast fjölbreytt og krefjandi störf. Starfssemi ríkisins er margvísleg að eðli og umfangi. Stofnanir ríkisins eru um 200 talsins.

Hjá ríkinu vinnur starfsfólk með þekkingu úr öllum háskólagreinum og flestum öðrum starfsgreinum. Rúmur helmingur starfsmanna ríkisins er með háskólamenntun og þriðjungur er með starfs- og/eða framhaldsmenntun. Sérhæfing er oft mikil í störfum hjá ríkinu þar sem hæfileikar og þekking starfsmanna fá að njóta sín. Áhersla er lögð á nýsköpun, samvinnu, gagnsæi, samhæfingu og sveigjanleika og möguleikar á sí- og endurmenntun eru miklir, gjarnan í góðu samstarfi við stéttarfélög starfsmanna. Flestir eiga kost á greiðslu úr starfsmenntunarsjóðum stéttarfélaga sinna vegna ýmis konar menntunar og þjálfunar. Lögð er áhersla á jöfn tækifæri kynjanna á starfsframa og starfsþróun hjá ríkinu og að starfsmenn séu metnir á eigin forsendum. Kynbundin mismunun er óheimil í hvaða formi sem hún birtist.

Ríkisstarfsmenn eiga kost á tímabundnum vistaskiptum innanlands og á Norðurlöndum. Þannig geta starfsmenn skipt tímabundið um starfsvettvang til dæmis með því að starfa tímabundið hjá annarri ríkisstofnun eða „systurstofnunum“ á Norðurlöndum. Einnig er kostur á varanlegum flutningi milli stofnana eða stjórnvalda skv. starfsmannalögum. Sjá nánar um starfs- og vistaskipti undir kaflanum Starfsþróun og frammistaða.Vinnufyrirkomulag er fjölbreytt. Hlutastörf eru víða í boði ásamt sveigjanlegum vinnutíma og fjarvinnu þar sem því verður við komið. Víða er unnið samkvæmt vaktaskipulagi, sem hentar mörgum vel. Leitast er við að skapa starfsmönnum aðstæður til að samræma kröfur starfs- og fjölskylduábyrgðar

Réttarheimildir

Um störf ríkisstarfsmanna og starfsumhverfi þeirra er fjallað í ýmsum lögum og reglum (réttarreglum). Réttarreglum þessum má skipta í þrennt. 

 • Í fyrsta lagi þær sem gilda almennt um starfsmenn ríkisins og heyra oftast nær undir fjármálaráðuneyti. 
 • Í öðru lagi þær sem taka til sérstakra hópa ríkisstarfsmanna og heyra undir viðkomandi ráðuneyti. 
 • Í þriðja lagi þær sem eiga við um alla starfsmenn án tillits til þess hvort þeir starfa hjá ríkinu eða öðrum vinnuveitendum. Síðastnefndu réttarreglurnar heyra flestar undir velferðarráðuneyti.

Sjá lista yfir réttarheimildir og dóma. Lögin eru með krækju í lagasafn Alþingis en reglur/reglugerðir eru flestar hér á vefnum. Komi fram misræmi milli reglugerðartexta hér á vefnum og reglugerðarútgáfu B-deildar Stjórnartíðinda gildir hin síðarnefnda. 

Nefnd vegna lausnar um stundarsakir

Sérstök nefnd sérfróðra manna um stjórnsýslu hefur það hlutverk að fjalla um mál embættismanna sem vikið er frá störfum um stundarsakir. Meginreglan er sú að embættismanni verður ekki vikið frá að fullu nema því aðeins að honum hafi fyrst verið veitt lausn um stundarsakir og mál hans verið afgreitt hjá nefndinni. Nefnd þessi starfar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hún er oft kölluð nefnd samkvæmt 27. gr. stml.

Fjármálaráðherra skipar nefndina, þar af formann og varaformann til fjögurra ára í senn. Aðrir nefndarmenn eru skipaðir í nefndina í hvert sinn sem mál kemur upp. Annar þeirra samkvæmt tilnefningu þess ráðherra sem í hlut á en hinn af samtökum ríkisstarfsmanna sameiginlega.

Fjármálaráðherra hefur skipað Kristínu Benediktdsóttur, hdl. formann nefndarinnar. Skipunin gildir til 30. nóvember 2018.

Starfsreglur nefndar skv. 27. gr. laga nr. 70/1996 

Frekari upplýsingar um nefndina, þ.á m. álitsgerðir er hægt að nálgast á vefsíðu hennar.

Dómar

Á ári hverju kemur nokkur fjöldi ágreingsmála upp í tengslum við starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess sem leiða þarf til lykta fyrir dómstólum.

Embætti ríkislögmanns sér jafnan um rekstur þessara dómsmála en undirbúningur þeirra er yfirleitt í höndum starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Þá er oft leitað til hlutaðeigandi stofnunar eftir frekari skýringum, einkum varðandi atvik máls, og stundunum hlutaðeigandi ráðuneytis, svo sem varðandi túlkun á sérákvæðum laga og annarra settra reglna.

Fjármálaráðherra fer jafnan með aðild að starfsmannamálum sem fara fyrir dómstóla, enda er honum yfirleitt stefnt fyrir hönd íslenska ríkisins. Frá því eru þó undantekningar, t.d. þegar mál eru höfðuð til ógildingar á áminningu en þá er forstöðumanni hlutaðeigandi stofnunar stefnt. Í slíkum tilvikum er hægt að leita eftir aðstoð frá embætti ríkislögmanns en með milligöngu Kjara- og mannauðssýslunnar.

Stöku dæmi eru um opinbermál þar sem ákært er fyrir brot sem tengjast starfi viðkomandi í þjónustu ríkisins og eftir atvikum ákært fyrir brot í opinberu starfi skv. 14. kafla almennra hegningarlaga. Rekstur slíkra mála heyrir undir embætti ríkissaksóknara eða aðra hafndhafa ákæruvalds. Sjá dóma uppkveðna eftir árum hér.

Starfatorg

Á Starfatorgi er að finna upplýsingar um laus störf hjá ríkinu. Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hefur umsjón með Starfatorginu en leita verður til þeirrar stofnunar eða ráðningarstofu sem vísað er á í viðkomandi auglýsingu vegna umsóknar eða frekari upplýsinga um starf. Auk auglýsinga um laus störf er að finna á Starfatorginu ýmsar upplýsingar er varða starfsmenn ríkisins, lög, kjarasamninga, ýmis réttindi ríkisstarfsmanna ofl. Auglýsingar um laus störf hjá ríkinu birtast í dagblaði þar sem jafnframt er vísað á Starfatorgið til frekari upplýsinga.

Netfang vefsins er [email protected]

Verklagsreglur um auglýsingar

1. Tilgangur og gildissvið

Leiðbeiningar þessar eru fyrir stjórnendur ráðuneyta og stofnana og aðra þá sem koma að auglýsingum um laus störf hjá ríkinu. Þeim er ætlað að lýsa því hvernig haga skuli skilum á auglýsingum um laus störf til Starfatorgsins.

2. Umsjón

Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hefur umsjón með Starfatorginu og annast m.a. móttöku auglýsinga, birtingu auglýsinga á vefnum og gerð yfirlits yfir auglýsingar um laus störf á Starfatorgi til birtingar í dagblaði.
Stjórnendur ráðuneyta og stofnana eða starfsmenn í umboði þeirra annast gerð auglýsinga og ákveða inntak þeirra og sjá til þess að senda auglýsinguna til umsjónarmanns Starfatorgsins með tölvupósti.

3. Framkvæmd

Þegar stofnun auglýsir starf laust til umsóknar, skal senda auglýsingu á netfang Starfatorgsins ([email protected]) og Kjara- og mannauðssýslan setur síðan auglýsinguna á Starfatorgið, gætir að gildistíma auglýsingar og tekur hana út í samræmi við það (umsóknarfrestur miðast við fyrstu birtingu yfirlits í dagblaði). Vilji stofnun gefa upp heimasíðu sína og/eða tölvupóstfang sem tilvísun í auglýsingu er rétt að taka það fram.

4. Inntak auglýsinga

Í auglýsingu er nauðsynlegt að fram komi eftirfarandi upplýsingar: 

 • Hver veitir nánari upplýsingar um starf, nafn fyrirtækis, tengiliðs og símanúmer
 • Hvert umsókn á að berast.
 • Hvort hún eigi að vera á sérstökum eyðublöðum og ef svo er hvar sé hægt að fá þau.
 • Umsóknarfrestur.
 • Hvaða starf/starfssvið er um að ræða. Þar komi fram lýsing sem sé nægjanlega greinargóð til þess að væntanlegur umsækjandi geti gert sér glögga grein fyrir því í hverju starfið felst.
 • Starfshlutfall.
 • Hvaða menntunar- og/eða hæfniskröfur gerðar eru til starfmanns.
 • Hvaða starfskjör eru í boði.
 • Stjórnunarleg staða starfsins innan stofnunar/ríkisfyrirtækis.
 • Hvenær starfsmaður skuli hefja störf.
 • Að öllum umsóknum verði svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.
 • Hvar starfstöð starfsmanns er staðsett á landinu.

5. Tímasetningar

Auglýsing sem send er með tölvupósti fyrir kl. 12.00 á fimmtudegi birtist í yfirliti um laus störf hjá ríkinu í dagblaði næstu helgi þar á eftir. Ef auglýsing berst seinna en það birtist hún í dagblaði viku seinna. Auglýsingin birtist á vef Starfatorgsins innan sólarhrings frá því hún berst umsjónarmanni. Gæta skal þess að tilgreindur umsóknarfrestur sé a.m.k. tvær vikur frá því að auglýsing birtist í dagblaði.

6. Form auglýsinga

Til þess að auðvelda framkvæmd og lágmarka villur við skráningu skal senda auglýsingar á textaformi, svo sem Word, Rich text, html eða einhverju formi sem hægt er meðhöndla með tölvutækum hætti.

Hverjir geta auglýst á Starfatorgi

Æðsta yfirstjórn 
      Alþingi Íslendinga
      Ríkisendurskoðun
      Umboðsmaður Alþingis

Forsætisráðuneytið
      Ríkislögmaður
      Umboðsmaður barna

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
      Byggðastofnun
      Einkaleyfastofan
      Ferðamálastofa
      Fiskistofa
      Fjármálaeftirlitið
      Hafrannsóknastofnun
      Matvælastofnun
      Nýsköpunarmiðstöð Íslands
      Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins
      Orkustofnun
      Samkeppniseftirlitið
      Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna

Fjármála- og efnahagsráðuneytið
      Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins
      Bankasýsla ríkisins
      Fasteignir ríkissjóðs
      Fjársýsla ríkisins
      Framkvæmdasýsla ríkisins
      Hagstofa Íslands
      Ríkiskaup
      Ríkisskattstjóri
      Seðlabanki Íslands
      Skattrannsóknarstjóri ríkisins
      Tollstjóri
      Yfirskattanefnd

Innanríkisráðuneytið
      Fangelsismálastofnun ríkisins
      Flugmálastjórn Íslands
      Héraðsdómur Austurlands
      Héraðsdómur Norðurlands eystra
      Héraðsdómur Norðurlands vestra
      Héraðsdómur Reykjaness
      Héraðsdómur Reykjavíkur
      Héraðsdómur Suðurlands
      Héraðsdómur Vestfjarða
      Héraðsdómur Vesturlands
      Héraðssaksóknari
      Hæstiréttur Íslands
      Landhelgisgæsla Íslands
      Lögregluskóli ríkisins
      Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
      Lögreglustjórinn á Suðurnesjum
      Neytendastofa
      Persónuvernd
      Póst- og fjarskiptastofnun
      Rannsóknarnefnd flugslysa
      Rannsóknarnefnd sjóslysa
      Rannsóknarnefnd umferðarslysa
      Ríkislögreglustjóri
      Ríkissaksóknari
      Siglingastofnun Íslands
      Sýslumaður Snæfellinga
      Sýslumaðurinn á Akranesi
      Sýslumaðurinn á Akureyri
      Sýslumaðurinn á Blönduósi
      Sýslumaðurinn á Eskifirði
      Sýslumaðurinn á Hólmavík
      Sýslumaðurinn á Húsavík
      Sýslumaðurinn á Hvolsvelli
      Sýslumaðurinn á Höfn í Hornafirði
      Sýslumaðurinn á Ísafirði
      Sýslumaðurinn á Patreksfirði
      Sýslumaðurinn á Sauðárkróki
      Sýslumaðurinn á Selfossi
      Sýslumaðurinn á Seyðisfirði
      Sýslumaðurinn á Siglufirði
      Sýslumaðurinn í Bolungarvík
      Sýslumaðurinn í Borgarnesi
      Sýslumaðurinn í Búðardal
      Sýslumaðurinn í Hafnarfirði
      Sýslumaðurinn í Kópavogi
      Sýslumaðurinn í Reykjanesbæ
      Sýslumaðurinn í Reykjavík
      Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum
      Sýslumaðurinn í Vík í Mýrdal
      Talsmaður neytenda
      Umferðarstofa
      Útlendingastofnun
      Vegagerðin
      Þjóðkirkjan
      Þjóðskrá Íslands

Mennta- og menningarmálaráðuneytið
      Blindrabókasafn Íslands
      Borgarholtsskóli
      Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra
      Fjölbrautaskóli Snæfellinga
      Fjölbrautaskóli Suðurlands
      Fjölbrautaskóli Suðurnesja
      Fjölbrautaskóli Vesturlands
      Fjölbrautaskólinn Ármúla
      Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
      Fjölbrautaskólinn í Garðabæ
      Fjölmiðlanefnd
      Flensborgarskólinn í Hafnarfirði
      Framhaldsskólinn á Húsavík
      Framhaldsskólinn á Laugum
      Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu
      Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ
      Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum
      Háskóli Íslands
      Háskólinn á Akureyri
      Hljóðbókasafn Íslands
      Hólaskóli - Háskólinn á Hólum
      Iðnskólinn Hafnarfirði
      Íslenski dansflokkurinn
      Kvennaskólinn í Reykjavík
      Kvikmyndamiðstöð Íslands
      Kvikmyndasafn Íslands
      Landbúnaðarháskóli Íslands
      Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn
      Lánasjóður íslenskra námsmanna
      Listasafn Einars Jónssonar
      Listasafn Íslands
      Menntaskólinn að Laugarvatni                  
      Menntaskólinn á Akureyri
      Menntaskólinn á Egilsstöðum
      Menntaskólinn á Ísafirði
      Menntaskólinn á Tröllaskaga
      Menntaskólinn í Kópavogi
      Menntaskólinn í Reykjavík
      Menntaskólinn við Hamrahlíð
      Menntaskólinn við Sund
      Minjastofnun Íslands
      Námsgagnastofnun
      Námsmatsstofnun
      Náttúruminjasafn Íslands
      Rannsóknamiðstöð Íslands
      Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra
      Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
      Tilraunastöð Háskólans að Keldum
      Verkmenntaskóli Austurlands
      Verkmenntaskólinn á Akureyri
      Þjóðleikhúsið
      Þjóðmenningarhúsið
      Þjóðminjasafn Íslands
      Þjóðskjalasafn Íslands

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
      Íslenskar orkurannsóknir
      Landgræðsla ríkisins
      Landmælingar Íslands
      Mannvirkjastofnun
      Náttúrufræðistofnun Íslands
      Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn
      Skipulagsstofnun
      Skógrækt ríkisins
      Stofnun Vilhjálms Stefánssonar
      Umhverfisstofnun
      Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
      Úrvinnslusjóður
      Vatnajökulsþjóðgarður
      Veðurstofa Íslands
      Veiðimálastofnun

Utanríkisráðuneytið
Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Velferðarráðuneytið
      Barnaverndarstofa
      Fjölmenningarsetur
      Geislavarnir ríkisins
      Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins
      Heilbrigðisstofnun Austurlands
      Heilbrigðisstofnun Suðurlands
      Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
      Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
      Heilbrigðisstofnun Vesturlands
      Heilbrigðisstofnun Þingeyinga
      Heilbrigðisstofnunin Blönduósi
      Heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð
      Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði
      Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki
      Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum
      Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu
      Heilsugæslustöðin Dalvík
      Heyrnar- og talmeinastöð Íslands
      Íbúðalánasjóður
      Jafnréttisstofa
      Landlæknisembættið
      Landspítali
      Lyfjastofnun
      Ríkissáttasemjari
      Sjúkrahúsið Akureyri
      Sjúkratryggingar Íslands
      Sólvangur, hjúkrunarheimili
      Tryggingastofnun ríkisins
      Umboðsmaður skuldara
      Vinnueftirlit ríkisins
      Vinnumálastofnun
      Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda

Mannauðsmál ríkisins

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira