Hoppa yfir valmynd

Ríkið sem vinnuveitandi

Vinnuveitendahlutverk

Samkvæmt lögum og forsetaúrskurði um Stjórnarráð heyra málefni ríkisstarfsmanna undir fjármála- og efnahagsráðuneyti, það er launa-, kjara- og lífeyrismál starfsmanna ríkisins og réttindi þeirra og skyldur. Samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna fer fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs einnig með fyrirsvar við gerð kjarasamninga. Hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu fara Kjara- og mannauðssýsla og Skrifstofa stjórnunar og umbóta með stefnumörkun varðandi mannauðsmál ríkisins. Kjara og mannauðssýslan fer með fyrirsvar fyrir almennum málefnum ríkisstarfsmanna, svo sem gerð kjarasamninga með samninganefnd ríkisins og túlkun þeirra sem og túlkun laga er varða starfsmenn ríkisins í heild. Samstarf ríkisins og stéttarfélaga er í höndum Kjara- og mannauðssýslu.

Forstöðumenn stofnana ríkisins fara með fyrirsvar um réttindi og skyldur starfsmanna sinna. Almennt verður ákvörðunum þeirra í starfsmannamálum hvorki skotið til hlutaðeigandi fagráðuneytis né fjármála- og efnahagsráðuneytis. Framkvæmd kjarasamninga er í höndum Fjársýslu ríkisins, þ.e. launaafgreiðsla og samskipti við stéttarfélög í samstarfsnefndum að því marki sem stofnanir sinna því ekki sjálfar.

Almennt um starfsævina

Starfssambandi fylgja réttindi og skyldur fyrir báða aðila, þ.e. starfsmann og hlutaðeigandi stofnun. Almenn ákvæði um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru í III. og IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Ákvæði þessara kafla gilda jafnt um embættismenn sem aðra ríkisstarfsmenn. Um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildir jafnframt hin almenna löggjöf á sviði vinnumála, svo sem lög um fæðingar- og foreldraorlof og lög um orlof. Í mörgum tilvikum gilda einnig sérákvæði laga um hlutaðeigandi stofnun, starfsemi eða starfsstétt, t.d. lögreglulög og læknalög. Þá hafa flestar stofnanir markað sér stefnu í eigin starfsmannamálum og eftir atvikum sett sér reglur í þeim málum, t.d. um framkvæmd vinnunar og starfsþróun. Nánari umfjöllun um stefnumörkun er að finna á vefnum undir kaflanum Starfsumhverfi.

Í IV. kafla starfsmannalaga er kveðið á um skyldur starfsmanna og áminningu vegna brota á starfsskyldum. Umfjöllun um þetta er á vefnun undir kaflanum Starfsþróun og frammistaða - Brot á starfsskyldum - áminning.

Í III. kafla starfsmannalaga er kveðið á um rétt starfsmanna til ýmissa atriði, svo sem upplýsinga um launakjör (skipunar- eða ráðningarkjör), launa og greiðslu launa, orlofs, launa í veikindaforföllum og fæðingarorlofi og loks sveigjanlegs vinnutíma. Umfjöllun um orlof, laun í veikindaforföllum og greiðslur í fæðingarorlofi er að finna hér á vefnum undir Vinnutími og fjarvera - Orlof, Veikindi og slys og Fæðingar- og foreldraorlof. Umfjöllun um skyldu stofnana til að upplýsa starfsmann um skipunar- eða ráðningarkjör er að finna á vefnum um Upphaf starfs á ráðning í starf og skipun/setning í embætti. Þá er fjallað um kjarasamninga og annað kjaratengt efni undir kaflanum Kjarasamningar, laun og starfskjör.

Áréttað skal að ofangreind atriði um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru ekki tæmandi.

Ríkið sem þekkingarvinnustaður

Ríkið er stærsti þekkingarvinnustaður landsins, starfsemi þess byggir fyrst og fremst á mannauð og þar bjóðast fjölbreytt og krefjandi störf. Starfssemi ríkisins er margvísleg að eðli og umfangi. Stofnanir ríkisins eru um 200 talsins.

Hjá ríkinu vinnur starfsfólk með þekkingu úr öllum háskólagreinum og flestum öðrum starfsgreinum. Rúmur helmingur starfsmanna ríkisins er með háskólamenntun og þriðjungur er með starfs- og/eða framhaldsmenntun. Sérhæfing er oft mikil í störfum hjá ríkinu þar sem hæfileikar og þekking starfsmanna fá að njóta sín. Áhersla er lögð á nýsköpun, samvinnu, gagnsæi, samhæfingu og sveigjanleika og möguleikar á sí- og endurmenntun eru miklir, gjarnan í góðu samstarfi við stéttarfélög starfsmanna. Flestir eiga kost á greiðslu úr starfsmenntunarsjóðum stéttarfélaga sinna vegna ýmis konar menntunar og þjálfunar. Lögð er áhersla á jöfn tækifæri kynjanna á starfsframa og starfsþróun hjá ríkinu og að starfsmenn séu metnir á eigin forsendum. Kynbundin mismunun er óheimil í hvaða formi sem hún birtist.

Ríkisstarfsmenn eiga kost á tímabundnum vistaskiptum innanlands og á Norðurlöndum. Þannig geta starfsmenn skipt tímabundið um starfsvettvang til dæmis með því að starfa tímabundið hjá annarri ríkisstofnun eða „systurstofnunum“ á Norðurlöndum. Einnig er kostur á varanlegum flutningi milli stofnana eða stjórnvalda skv. starfsmannalögum. Sjá nánar um starfs- og vistaskipti undir kaflanum Starfsþróun og frammistaða.Vinnufyrirkomulag er fjölbreytt. Hlutastörf eru víða í boði ásamt sveigjanlegum vinnutíma og fjarvinnu þar sem því verður við komið. Víða er unnið samkvæmt vaktaskipulagi, sem hentar mörgum vel. Leitast er við að skapa starfsmönnum aðstæður til að samræma kröfur starfs- og fjölskylduábyrgðar

Réttarheimildir

Um störf ríkisstarfsmanna og starfsumhverfi þeirra er fjallað í ýmsum lögum og reglum (réttarreglum). Réttarreglum þessum má skipta í þrennt. 

  • Í fyrsta lagi þær sem gilda almennt um starfsmenn ríkisins og heyra oftast nær undir fjármálaráðuneyti. 
  • Í öðru lagi þær sem taka til sérstakra hópa ríkisstarfsmanna og heyra undir viðkomandi ráðuneyti. 
  • Í þriðja lagi þær sem eiga við um alla starfsmenn án tillits til þess hvort þeir starfa hjá ríkinu eða öðrum vinnuveitendum. Síðastnefndu réttarreglurnar heyra flestar undir félagsmálaráðuneytið.

Sjá lista yfir réttarheimildir og dóma. Lögin eru með krækju í lagasafn Alþingis en reglur/reglugerðir eru flestar hér á vefnum. Komi fram misræmi milli reglugerðartexta hér á vefnum og reglugerðarútgáfu B-deildar Stjórnartíðinda gildir hin síðarnefnda. 

Nefnd vegna lausnar um stundarsakir

Sérstök nefnd sérfróðra manna um stjórnsýslu hefur það hlutverk að fjalla um mál embættismanna sem vikið er frá störfum um stundarsakir. Meginreglan er sú að embættismanni verður ekki vikið frá að fullu nema því aðeins að honum hafi fyrst verið veitt lausn um stundarsakir og mál hans verið afgreitt hjá nefndinni. Nefnd þessi starfar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hún er oft kölluð nefnd samkvæmt 27. gr. stml.

Fjármálaráðherra skipar nefndina, þar af formann og varaformann til fjögurra ára í senn. Aðrir nefndarmenn eru skipaðir í nefndina í hvert sinn sem mál kemur upp. Annar þeirra samkvæmt tilnefningu þess ráðherra sem í hlut á en hinn af samtökum ríkisstarfsmanna sameiginlega.

Fjármálaráðherra hefur skipað Kristínu Benediktdsóttur, hdl. formann nefndarinnar. Skipunin gildir til 30. nóvember 2018.

Starfsreglur nefndar skv. 27. gr. laga nr. 70/1996 

Frekari upplýsingar um nefndina, þ.á m. álitsgerðir er hægt að nálgast á vefsíðu hennar.

Dómar

Á ári hverju kemur nokkur fjöldi ágreingsmála upp í tengslum við starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess sem leiða þarf til lykta fyrir dómstólum.

Embætti ríkislögmanns sér jafnan um rekstur þessara dómsmála en undirbúningur þeirra er yfirleitt í höndum starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Þá er oft leitað til hlutaðeigandi stofnunar eftir frekari skýringum, einkum varðandi atvik máls, og stundunum hlutaðeigandi ráðuneytis, svo sem varðandi túlkun á sérákvæðum laga og annarra settra reglna.

Fjármálaráðherra fer jafnan með aðild að starfsmannamálum sem fara fyrir dómstóla, enda er honum yfirleitt stefnt fyrir hönd íslenska ríkisins. Frá því eru þó undantekningar, t.d. þegar mál eru höfðuð til ógildingar á áminningu en þá er forstöðumanni hlutaðeigandi stofnunar stefnt. Í slíkum tilvikum er hægt að leita eftir aðstoð frá embætti ríkislögmanns en með milligöngu Kjara- og mannauðssýslunnar.

Stöku dæmi eru um opinbermál þar sem ákært er fyrir brot sem tengjast starfi viðkomandi í þjónustu ríkisins og eftir atvikum ákært fyrir brot í opinberu starfi skv. 14. kafla almennra hegningarlaga. Rekstur slíkra mála heyrir undir embætti ríkissaksóknara eða aðra hafndhafa ákæruvalds. Sjá dóma uppkveðna eftir árum.

Starfatorg

Á Starfatorgi er að finna upplýsingar um laus störf hjá ríkinu. Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hefur umsjón með Starfatorginu en leita verður til þeirrar stofnunar eða ráðningarstofu sem vísað er á í viðkomandi auglýsingu vegna umsóknar eða frekari upplýsinga um starf.

Netfang vefsins er [email protected].

Nánari upplýsingar um Starfatorg.
 

 

Mannauðsmál ríkisins

Síðast uppfært: 19.8.2021
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira