Hoppa yfir valmynd
1. mars 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dómar uppkveðnir árið 2005

| Hæstiréttur - dómar | Héraðsdómstólar - dómar | Félagsdómur |

Á árinu 2005 kváðu dómstólar upp a.m.k. 26 dóma og úrskurði sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess. Langflest þeirra eru einkamál en þó eru stöku opinber mál þar sem ákært er fyrir brot í opinberu starfi skv. 14. kafla almennra hegningarlaga.

Félagsdómur kvað upp þrjá dóma og þrjá frávísunarúrskurði. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp sjö dóma og tvo frávísunarúrskurði. Hæstiréttur Íslands kvað upp ellefu dóma, þar af tvo sambærilega vegna krafna um slysatryggingar.

Hér að neðan er að finna yfirlit yfir flesta af nefndum dóma og úrskurða ásamt atriðisorðum og stuttum reifunum. Málin eru af ýmsum toga en þó má segja að þau snústi ýmist um ágreining vegna starfsloka eða ágreining á starfsævinni, þar á meðal atriði sem snerta starfkjör stórra hópa eða jafnvel starfsstétta.

1
Dómar Hæstaréttar frá 27. janúar 2005 í máli nr. 329/2004: JS gegn íslenska ríkinu, og máli nr.330/2004: HP gegn íslenska ríkinu. Áfrýjun á dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. maí 2004 í málum nr. E-7516/2003 og E-7517/2003.

Starfsævin, kjarasamningur, slysatryggingar
Íslenska ríkið var sýknað af kröfum tveggja lögreglumanna (karla) um greiðslu bóta skv. ákvæðum kjarasamnings sem svöruðu til slysabóta frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) vegna meiðsla/líkamstjóns sem þeir urðu fyrir í kappleikjum tengdum störfum sínum. Áður hafði TR hafnað umsóknum þeirra um slysabætur enda taka slysatryggingar almannatrygginga ekki til slysa við íþróttaæfingar, íþróttasýningu eða íþróttakeppni nema þær séu á vegum viðurkennds íþróttafélags og undir stjórn þjálfara.

2
Dómur Hæstaréttar frá 27. janúar 2005 í máli nr. 350/2004: ÞG gegn íslenska ríkinu. Áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. maí 2004 í máli nr. E-12192/2003.
Starfslok & upphaf starfs, jafnrétti
Íslenska ríkið var sýknað af skaðabótakröfum konunnar Þ, fyrrum starfsmanns Garðyrkjuskóla ríkisins. Í framhaldi af starfslokum Þ við skólann og árangurslausri umsókn hennar um auglýst starf hjá skólanum, höfðaði hún skaðabótmál. Annars vegar krafðist Þ bóta vegna einhliða riftunar loforðsskuldbindingar um að verkefni/vinna hennar leiddi til doktorsgráðu við erlendan háskóla. Hins vegar krafðist hún bóta þar sem hún taldi að sér hefði verið mismunað vegna kynferðis við ráðingu í starfið.

3
Dómur Hæstaréttar frá 10. mars 2005 í máli nr. 378/2004: Heilbrigðisstofnun Austurlands gegn ÞÞ og gagnsök. Áfrýjun á dómi Héraðsdóms Austurlands frá 11. júní 2004 í máli nr. E-8/2004.
Starfslok, uppsögn, reynslutími
Heilbrigðisstofnun Austurlands var sýknuð af skaðabótakröfu karlsins Þ, fyrrum starfsmanns stofnunarinnar. Þ var sagt upp störfum á reynslutíma. Hann taldi uppsögnina ólögmæta þar sem honum var hvorki veitt áminning og gefinn kostur á að bæta ráð sitt né gefinn kostur á að tjá sig um uppsögnina. Dómurinn hafnaði þessu og sagði að eðli máls samkvæmt væri hvorum aðila um sig heimilt að segja ráðningarsamningi upp með samningsbundnum uppsagnarfresti á reynslutíma án þess að tilgreina ástæður. Engu breytti þó stofnunin hefði tiltekið sérstakar ástæður fyrir uppsögninni sem að loknum reynslutíma kynnu að hafa fallið undir áminningarákvæði 21. gr. starfsmannalaga.

4
Frávísunarúrskurður Félagsdóms frá 14. mars 2005 í máli nr. F-17/2004: Landssamband lögreglumanna gegn íslenska ríkinu vegna embættis ríkislögreglustjóra.
Starfsævin, stofnanasamningur, launasetning
Kröfugerð Landssambands lögreglumanna (LL) var vísað frá dómi þar sem hún þótti ekki svo skýr að unnt væri að leggja dóm á málið. LL krafðist viðurkenningar á skyldu íslenska ríkisins til að úthluta lögreglumönnum við embætti ríkislögreglustjóra 11,55 launaflokkum og vísaði til stofnanasamnings í því efni sem og "sameiginlegs" skilnings samningsaðila kjarasamnings um að samningurinn fæli í sér 14% meðaltalshækkun launa hjá hverju embætti fyrir sig.

5
Frávísun frá héraðsdómi að hluta með dómi Hæstaréttar frá 4. maí 2005 í máli nr. 146/2005: AJ gegn íslenska ríkinu. Kæra á frávísunarúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. mars 2005 í máli nr. E-6728/2004.
Starfslok, niðurlagning starfs, miskabætur
Kröfum konunnar A, fyrrum starfsmanns Landsbókasafns – Háskólabókasafns, á hendur íslenska ríkinu var vísað frá dómi að hluta. Starf A við bókasafnið hafði verið lagt niður. Hún taldi að um málamyndagerning hefði verið að ræða og höfðaði dómsmál. Kröfum hennar um viðurkenningu á því að niðurlagningin hefði verið ólögmæt og að íslenska ríkið yrði dæmt bótaskylt, var vísað frá héraðsdómi af réttarfarslegum ástæðum. Aftur á móti var lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar varðandi kröfu hennar um miskabætur þar sem ekki var talin næg ástæða til þess að vísa þeirri kröfu frá dómi.

6
Dómur Hæstaréttar frá 4. maí 2005 í máli nr. 475/2004: JS gegn Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. október 2004 í máli nr. E-10230/2002.
Starfsævin, breytingar á störfum og verksviði, nýtt launakerfi (skerðing á yfirvinnu)
Landspítala – háskólasjúkrahúsi (LSH) var gert að greiða konunni J, fyrrum hjúkrunarfræðingi við sjúkrahúsið, lítinn hluta af fjárkröfu. Fjárkrafa J var samsett. Annars vegar fól hún í sér kröfu um greiðslu launa eftir að J hafði hætt störfum í framhaldi af ákvörðun LSH um breytingar á störfum hennar og verksviði. Hins vegar fól hún í sér kröfu um launaleiðréttingu í tengslum við launasetningu í nýtt launakerfi og skerta yfirvinnu. Fallist var á þann hluta fjárkröfunnar sem varðaði skerðingu á föstum yfirvinnugreiðslum. Þá var vísað frá héraðsdómi viðurkenningarkröfu þess efnis að ákvörðun LSH um niðurlagningu á starfi J væri ógild. Dómurinn taldi að breytingar þær sem gerðar voru á störfum og verksviði J hefðu rúmast innan heimilda 19. gr. starfsmannalaga og að í þeim hefði ekki falist niðurlagning á starfi hennar.

7
Frávísun frá Félagsdómi staðfest með dómi Hæstaréttar frá 9. maí 2005 í máli nr. 170/2005: Læknafélag Íslands gegn íslenska ríkinu vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Kæra á frávísunarúrskurði Félagsdóms frá 15. apríl 2005 í máli nr. F-2/2005.
Starfsævin, kjaranefnd, launasetning lækna
Kröfugerð Læknafélags Íslands (LÍ) gegn íslenska ríkinu f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands var vísað frá dómi þar sem ágreiningur aðila þótti falla utan valdsviðs Félagsdóms. LÍ krafðist viðurkenningar á því að heilsugæslulæknar hefðu sjálfir val um það hvort þeir tækju föst laun eða samsett laun skv. úrskurði/ákvörðun kjaranefndar frá 15. október 2002 en með lögum nr. 71/2003 var sú breyting gerð að heilsugæslulæknar voru teknir undan valdsviði kjaranefndar.

8
Dómur Hæstaréttar frá 12. maí 2005 í máli nr. 523/2004: Ákæruvaldið gegn X. Áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. nóvember 2004.
Starfsævin, starfsskyldur, brot í opinberu starfi, sönnun
Karlmaðurinn X var sýknaður af ákæru um fjárdrátt og brot í opinberu starfi með því að hafa í starfi sínu sem lögreglufulltrúi dregið sér haldlagt fé sem hann hafði fengið til varðveislu í kjölfar leitar og haldlagningar lögreglumanna hjá einum sakborningi. Gegn neitun X var ákæruvaldið ekki talið hafa sannað sekt hans og var hann því sýknaður af kröfum þess.


9
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. maí 2005 í máli nr. E-9175/2004: GRS gegn íslenska ríkinu.
Starfslok, uppsögn, starfsgengisskilyrði, nauðsynlegt heilbrigði, kjarasamningur, rökstuðningur
Íslenska ríkið var dæmt til að greiða konunni G, fyrrum starfsmanni við Sýslumannsembættið á Patreksfirði, 800.000 kr. vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi. Ástæða uppsagnarinnar voru veikindi G en frásögn sýslumanns og hennar um aðdraganda uppsagnarinnar bar ekki saman. Gegn mótmælum G þótti ósönnuð sú fullyrðing sýslumanns að hún hefði sjálf lýst því yfir að hún væri ófær um að sinna starfi sínu til frambúðar. Þá var ekki sýnt fram á að staðið hefði verið að uppsögninni í samræmi við ákvæði kjarasamnings um lausn frá störfum vegna heilsubrests.

10
Dómur Hæstaréttar frá 26. maí 2005 í máli nr. 501/2004: JS gegn íslenska ríkinu. Áfrýjun á dómi Héraðdsóms Reykjavíkur frá 13. ágúst 2004 í máli nr. E-1126/2003.
Starfsævin, kjaranefnd, úthlutun úr ritlauna- og rannsóknasjóði prófessora, launatengd gjöld
Íslenska ríkinu og Háskóla Íslands var gert að greiða karlinum J, prófessor við háskólann, tiltekna fjárkröfu vegna frádráttar/skerðingar sem hann sætti við úthlutun kjaranefndar úr Ritlauna- og rannsóknasjóði prófessora. Úthlutunin var skert um þá fjárhæð sem nam launatengdum gjöldum en sjóðurinn nýtur framlaga frá ríkissjóði sem nemur tilteknu hlutfalli af föstum launum prófessora. Þá var viðurkennt að óheimilt væri að draga launatengd gjöld frá úthlutunum til J samkvæmt úrskurðum kjaranefndar um laun og önnur starfskjör prófessora af heildarframlagi sjóðsins. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að miðað við hið lögbundna hlutverk sjóðsins yrði að telja að orðið hefði að taka fram [í formlegri ákvörðun kjaranefndar] með skýrum hætti ef ætlunin væri að draga launatengd gjöld frá úthlutunum úr sjóðnum.

11
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. maí 2005 í máli nr. E-8800/2004: RBBU gegn íslenska ríkinu. RBBU áfrýjaði til Hæstaréttar Íslands og íslenska ríkið gagnáfrýjaði.
Starfslok & starfsævin, uppsögn, áminning, samstarfs-örðugleikar, trúnaðarbrestur, miskabætur
Íslenska ríkið var dæmt til að greiða karlinum R, fyrrum starfsmanni hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Norðurlandi vestra, skaðabætur að fjárhæð 800.000 kr vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi. Fyrirliggjandi áminningar þóttu ófullnægjandi grundvöllur uppsagnarinnar auk þess sem ekki var fallist á þau rök að uppsögn án undangenginnar áminningar hefði verið heimil vegna alvarlegra brota R á ábyrgðar- og trúnaðarskyldum sínum. Þá voru áminningarnar tvær sem R höfðu verið veittar, felldar úr gildi. Ósannað þótti að tilefni hefði verið til að veita þær. Þá þótti ósannað að andmælaréttar hafi verið gætt með fullnægjandi hætti. Að teknu tilliti til ástæðna uppsagnarinnar hafnaði dómurinn miskabóta- kröfum R.

12
Dómur Félagsdóms frá 30. maí 2005 í máli nr. F-8/2005: Félag íslenskra atvinnuflugmanna gegn íslenska ríkinu og Landhelgisgæslu Íslands.
Starfsævin, kjarasamningur, ferðatilhögun flugmanna
Viðurkennt var að tiltekin ákvæði í kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna við Flugleiðir hf./Icelandair ehf. um ferðatilhögun flugmanna á vegum félaganna gildi um kjör flugmanna hjá Landhelgisgæslu Íslands, þ.e. þegar þeir þurfa að ferðast á vegum stofnunarinnar.

13
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. júní 2005 í máli nr. E-4957/2004: RS gegn sýslumanninum í Keflavík og íslenska ríkinu.
Starfsævin, stofnanasamningur, nýtt launakerfi, launasetning
Viðurkennt var að sýslumannsembættinu í Keflavík og íslenska ríkinu bæri að greiða karlinum R, lögreglumanni hjá embættinu, laun samkvæmt tilteknum launaflokki í kjarsamningi. Þá voru embættið og íslenska ríkið dæmd til að greiða R vangoldin laun, þ.e. til samræmis við umræddan launaflokk. Í málinu reyndi á túlkun bókunar með stofnanasamningi um yfirfærslu/vörpun lögreglumanna í sérhæfðum störfum yfir í nýtt launakerfi. Fallist var á það með R að um bindandi röðun í launaflokk hafi verið að ræða við launayfirfærsluna, óháð því hvernig sérhæfðum störfum hans yrði háttað til frambúðar.

14
Dómur Hæstaréttar frá 22. september 2005 í máli nr. 33/2005: SBÁ gegn íslenska ríkinu og gagnsök. Áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. október 2004 í máli nr. E – 3471/2004.
Starfslok, frávikning úr embætti, grunur um refsiverða háttsemi í starfi
Íslenska ríkið var sýknað af skaða- og miskabótakröfu karlsins S, fyrrum tollvarðar við embætti sýslumannsins á Selfossi. S hafði verið vikið úr embætti vegna gruns um refsiverða háttsemi í tengslum við tollafgreiðslu bifreiða. Áður hafði honum verið veitt lausn um stundarsakir og mál hans verið afgreitt af hálfu nefndar skv. 27. gr. starfsmannalaga. Síðar var S sýknaður í hérðasdómi af ákæru um refsiverða háttsemi. Í dómi Hæstaréttar vegna skaða- og miskabótakröfu S var tekið fram að ákæran í refsimálinu hefði einungis tekið til hluta þeirra sakargifta sem var grundvöllurinn að frávikningu S úr embætti. Hæstiréttur taldi að með þeirri háttsemi sem ekki var ákært fyrir, hefði S virt að vettugi skýrar reglur sem giltu um tollafgreiðslu á innfluttum vörum eða sendingum. Var um margítrekuð afglöp af sama toga að ræða sem ekki var unnt að rekja til reynsluleysis S. Varð hann með þessu uppvís að stórfelldri og ítrekaðri vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu og brást því trausti, sem honum var sýnt. Að þessu virtu var á það fallist að heimilt hafi verið að víkja S úr embætti að fullu.

15
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. september 2005 í máli nr. E-10056/2004: HA gegn Lánasýslu ríkisins.
Starfslok, samningur við starfslok, lífeyrismál
Lánasýsla ríkisins var sýknuð af öllum kröfum karlsins HA, fyrrum starfsmanns sem hafði látið af störfum og hafið töku lífeyris. Hann hafði áunnið sér fullan lífeyrissrétt hjá Lífeyrissjóði bankamanna en samkvæmt úrskurði stjórnar sjóðsins voru greiðslur hans skertar. Vegna þessa taldi HA sig eiga rétt til mánaðarlegra greiðslna frá lánasýslunni til æviloka sem bættu honum mismuninn á greiddum lífeyri og óskertum lífeyri. Kröfur sínar byggði HA á ákvæði í minnisblaði sem hann og forstjóri lánasýslunar gerðu í tengslum við starfslok hans. Dómurinn sagði að óheimilt hefði verið að skuldbinda stofnunina með þeim hætti sem gert var í ákvæðinu og yrði að telja það andstætt lögum. Það hefði þar af leiðandi ekkert skuldbindingargildi gagnvart stofnuninni. Í forsendum dómsins var m.a. vísað til þess að lagaheimild þurfi fyrir ábyrgðarskuldbindingum ríkissjóðs. Þá var tekið fram að umrætt ákvæði væri andstætt því fyrirkomulagi sem gildi um lífeyrisréttindi launþega skv. lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og að það hefði enga stoð í starfsmannalögum.

16
Dómur Félagsdóms frá 11. október 2005 í máli nr. F-11/2005: Læknafélag Íslands gegn íslenska ríkinu.
Starfsævin, kjarasamningur, dagvinnulaun, frítökuréttur
Viðurkennt var að með dagvinnulaunum samkvæmt ákvæði kjarasamnings um frítökurétt (2. mgr. 4.7.2 gr.) sé einnig átt við viðbótarþætti kjarsamnings. Í forsendum dómsins kom fram að ákvæðið yrði ekki skilið á annan veg en þann að þar sé átt við öll laun sem viðkomandi lækni séu greidd fyrir dagvinnu. Ákvæðið vísi því bæði til dagvinnulauna skv. röðun læknis í launaflokk og [eftir atvikum] dagvinnulauna samkvæmt viðbótarþáttum kjarasamnings. Ágreiningur um þetta hafði komið upp í tengslum við þau tilvik þegar 1/3 af frítökurétti er greiddur út skv. beiðni læknis.

17
Frávísunarúrskurður Félagsdóms frá 21. október 2005 í máli nr. F-10/2005: Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gegn Heilsugæslunni í Reykjavík.
Starfsævin, lög um stéttarélög og vinnudeilur (skoðanafrelsi), aðild að dómsmálum fyrir félagsdómi og valdsvið hans
Kröfugerð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) gegn Heilsugæslunni í Reykjavík (HR) var vísað frá dómi. Ástæður frávísunarinnar voru þríþættar. Í fyrsta lagi gat stefndi ekki verið málsaðili fyrir Félgasdómi á grundvelli laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þar sem hann er ekki sjálfstæður samningsaðili skv. þeim lögum. Í öðru lagi gat hvorugur málsaðila verið aðili að dómsmáli fyrir Félagsdómi á grundvelli laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Í þriðja lagi þótti málið ekki eiga undir valdsvið Félgsdóms, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa FÍH hljóðaði upp á viðurkenningu á því að stefndi hefði brotið gegn 4. gr. laga nr. 80/1938 með því að veita 13 hjúkrunarfræðingum þakklætisvott að fjárgildi 13.900 kr. „fyrir þá trúmennsku og ósérhlífni sem þú sýndir í þeim erfiðleikum sem steðjuðu að Miðstöð Heimahjúkrunar í mars sl. þegar stór hluti starfsmanna sagði upp störfum".

18
Frávísunarúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. nóvember 2005 í máli nr. E-2583/2005: Læknafélag Íslands gegn Landspítala – háskólasjúkrahúsi.
Starfsævin, vinnutími, lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, unglæknar
Læknafélag Íslands (LÍ) krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að ákvæði 53. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eins og því ákvæði var breytt með 19. gr. laga nr. 68/2003 með gildistöku 7. apríl 2003, nái til þeirra félagsmanna stefnanda sem eru í aðildarfélagi þess, Félagi ungra lækna, og vinna hjá stefnda (LSH). Dómurinn taldi að krafa LÍ væri í raun krafa um lögfræðilegt álit eða túlkun dómsins á umræddri grein án þess að séð yrði hvort eða hvaða ágreiningur lægi þar að baki. Því bæri með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 að vísa málinu frá dómi.

19
Dómur Hæstaréttar frá 8. desember 2005 í máli nr. 175/2005: VHB gegn íslenska ríkinu. Áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. apríl 2005 í máli nr. E-9508/2004.
Starfslok, embættismenn, meðalhóf
Íslenska ríkinu var gert að greiða konunni V, fyrrum framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, 6 mkr. í skaða- og miskabætur vegna starfsloka hennar. Starfslokin báru að með þeim hætti að V féllst á að láta af störfum á fundi með ráðherra þar sem fram kom að hún nyti ekki trausts hans vegna aðkomu hennar sem stjórnarformanns Leikfélags Akureyrar að umdeildri ráðningu leikhússtjóra. Ráðningin var að áliti kærunefndar jafnréttismála og héraðsdóms andstæð ákvæðum jafnréttislaga nr. 96/2000. Hálfu ári síðar féll dómur Hæstaréttar í nefndu ráðningarmáli með öndverðri niðurstöðu. Í kjölfarið fór V í bótamál vegna starfsloka sinna hjá ríkinu. Hæstiréttur féllst á skaðabótaskyldu ríkisins þar sem regla um meðalhóf þótti ekki hafa verið virt þegar ráðherra tók afstöðu til þeirra kosta/leiða sem voru fyrir hendi. Jafnframt var talið að val ráðherra á leið til að leysa málið hafi verið ósamrýmanlegt þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að óheimilt sé að undirbúningur og úrlausn máls miði að því að komast hjá að fylgja lögboðinni málsmeðferð sem ætlað er að tryggja réttaöryggi aðila.

20
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. desember 2005 í máli nr. E-6728/2004: AJ gegn Landsbókasafni – háskólabókasafni. Endurupptaka á hluta máls. Sjá nánar 5. tölulið hér að framan.
Starfslok, niðurlagning starfs, miskabætur
Landsbókasafn – háskólasafn var dæmt til að greiða fyrrum starfmanni, konunni A, 500 þkr. í miskabætur vegna starfsloka hennar við safnið. Talið var að í ákvörðuninni um starfslokin fælist ólögmæt meingerð gegn starfsheiðri og þar með æru A. A var í launalausu leyfi frá safninu þegar henni var tilkynnt með eins dags fyrirvara um niðurlagningu á starfi hennar þar. Dómurinn taldi að með þessari fyrirvaralausu ákvörðun um niðurlagningu starfs A hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Í því sambandi var m.a. vísað til þess að ekki hafi verið skýrt af hálfu safnsins af hvaða ástæðu niðurlagningu starfsins bar svo brátt að sem raunin var. Jafnframt var vísað til þess að A hefði ekki verið gefinn kostur á að starfa áfram á safninu í öðru starfi að leyfi loknu.

21
Dómur Félagsdóms frá 29. desember 2005 í máli nr. F-12/2005: Skurðlæknafélag Íslands gegn íslenska ríkinu og til réttargæslu Læknafélagi Íslands.
Starfsævin, samningsaðild – kjarasamningsumboð
Viðurkennt var að Skurðlæknafélag Íslands fari með samningsumboð fyrir félagsmenn sína við gerð kjarasamninga við íslenska ríkið, vegna starfa þeirra sem skurðlækna í þjónustu ríkisins. Vísað var til þess að skv. félagslögum væri tilgangur Skurðlæknafélags Íslands sá að gæta hagsmuna félagsmanna sinna, m.a. með því að koma fram fyrir þeirra hönd við gerð kjarasamninga við íslenska ríkið og aðra atvinnurekendur. Félagið væri því stéttarfélag sem gæti öðlast rétt til samningsaðildar skv. 5. gr. laga nr. 94/1986 að uppfylltum skilyrðum þeirrar lagagreinar. Talið var að félagið uppfyllti skilyrði 3. tölul. nefndrar 5. gr., þar á meðal um lögformleg starfsréttindi, og tekið fram að 1. mgr. 6. gr. laganna stæði ekki í vegi fyrir þessari niðurstöðu.

22
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. desember 2005 í máli nr. E-3536/2005: TZ gegn Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Dóminum verður áfrýjað.
Starfsævin, breytingar á starfi og verksviði
Felld var úr gildi ákvörðun Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) um að breyta störfum og verksviði karlsins T úr því að gegna starfi yfirlæknis á geðsviði í það að hann gegndi starfi sérfræðilæknis á geðsviði. Aðdragandi þessarar ákvörðunar var almenn stefnumörkun LSH varðandi aukastörf yfirmanna en T neitaði að hlíta henni. Dómurinn taldi að í ákvörðuninni fælist að T hefði í reynd verið vikið úr starfi yfirlæknis og þess í stað falið starf sérfræðilæknis. Hann taldi breytinguna ekki rúmast innan marka 19. gr. starfsmannalaga og að ákvarðanatakan hefði verið ósamrýmanleg þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að óheimilt sé að undirbúningur og úrlausn máls miðist við komast hjá því að fylgja lögboðinni málsmeðferð sem ætlað er að tryggja réttaröryggi starfsmanns. Dómurinn áréttaði jafnframt að með þessari niðurstöðu væri engin afstaða tekin til þess álitaefnis hvort og með hvaða nánari hætti heimilt sé að áskilja að starfandi yfirlæknar LSH gegni ekki tilteknum aukastörfum samhliða fullu starfi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira