Hoppa yfir valmynd
1. mars 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dómar uppkveðnir árið 2007

| Hæstiréttur - dómar | Héraðsdómstólar - dómar | Félagsdómur |

Á árinu 2007 voru kveðnir upp níu dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess. Hér að neðan er að finna upptalningu á nefndum dómum ásamt atriðisorðum og reifunum:

1
Dómur Hæstaréttar frá 1. mars 2007 í máli nr. 438/2006: Sinfóníuhljómsveit Íslands gegn Þ.
UPPSÖGN. ANDMÆLARÉTTUR.
Þ var sagt upp störfum hjá SÍ og voru ástæður uppsagnarinnar sagðar vera langvarandi vandkvæði er fylgt hefðu störfum hans hjá SÍ. Höfðaði hann mál á hendur SÍ til greiðslu skaðabóta vegna uppsagnarinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af rekstrarformi SÍ leiddi að ekki teldist vera um ríkisstofnun að ræða í skilningi laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hins vegar var fallist á með Þ að SÍ teldist vera stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og af þeim sökum hafi borið að gæta form- og efnisreglna þeirra laga við uppsögn hans. Með vísan til þess að Þ var ekki gefinn kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun um uppsögn var tekin svo sem skylt var samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga var uppsögn hans talin hafa verið ólögmæt og af því leiddi réttur hans til skaðabóta úr hendi SÍ.

2
Dómur Hæstaréttar frá 8. mars 2007 í máli nr. 315/2006. Íslenska ríkið gegn H og gagnsök.
VINNUSJÚKDÓMUR.
H vann á speglunardeild Landakotsspítala frá 1988 til 1996 og á sömu deild Sjúkrahúss Reykjavíkur í Fossvogi frá þeim tíma til 13. nóvember 1997. Í starfi sínu þurfti H að nota sótthreinsiefnið glútaraldehýð til þess að hreinsa speglunartæki. H krafðist skaðabóta þar sem hún taldi að óvarleg meðferð glútaraldehýðs á spítölunum hefði ollið því að hún sýktist af astma sem gerði henni ókleift að sinna starfi sínu áfram. Dómkvaddir matsmenn og yfirmatsmenn töldu að H hefði hlotið atvinnusjúkdóm og að glútaraldehýðmengun væri líklegasta ástæða sjúkdómsins. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað til reglna nr. 401/1989 um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum, og talið að forráðamenn Landakotsspítala hefðu ekki leitt í ljós að þeir hefðu uppfyllt skyldur sínar samkvæmt reglunum. Þá var talið að forráðamönnum spítalans hefði borið að kynna hættulega eiginleika glútaraldehýðs fyrir þeim sem notuðu efnið í störfum sínum. Varðandi aðstöðuna á Sjúkrahúsi Reykjavíkur var vísað til reglna nr. 496/1996 um efnanotkun á vinnustöðum, sem tóku gildi 1. janúar 1997. Þær reglur lögðu enn ríkari skyldur á forráðamenn spítalans til að tryggja að mengunarvaldandi efni sem unnið var með stofnuðu ekki öryggi og heilsu starfsmanna í voða og að starfsmönnum væri kynntar nauðsynlegar verklagsreglur og öryggisleiðbeiningar. Af gögnum málsins var ekkert ráðið um að þessa hefði verið gætt á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Vegna alls þessa var lagt á Í að sanna að aðstaðan á speglunardeildum framangreindra spítala hefði verið fullnægjandi á þeim tíma sem H vann þar, að mengun af völdum glútaraldehýðs hefði verið undir leyfilegum mörkum og að meðferð efnisins á Sjúkrahúsi Reykjavíkur hefði uppfyllt kröfur reglna nr. 496/1996. Var talið að Í hefði ekki tekist sú sönnun og bæri hann því skaðabótaábyrgð á tjóni H.

3
Héraðsdómur Reykjaness miðvikudaginn frá 14. mars 2007 í máli nr. E-664/2006: S gegn Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi.
BREYTING Á STÖRFUM. LAUN Í VEIKINDUM OG UPPSAGNARFRESTI. ENDUR-GREIÐSLA.
S var ráðinn sem stuðningsfulltrúi á sambýlið M. S greindist með kæfisvefn og varð óvinnufær með öllu vegna sjúkdómsins frá september 2004 til janúar 2005. Er S kom aftur til starfa var honum sagt að færa ætti hann til í starfi og ætti hann að starfa á sambýlinu N. Einnig var S gert að afla sér starfshæfnisvottorðs. S sagði í framhaldinu upp störfum hjá R og tók uppsögnin gildi 1. apríl 2005 og þar sem uppsagnarfrestur S var þrír mánuðir átti ráðningarsambandinu að ljúka í lok júní 2005. S mætti í janúar 2005 með starfshæfnisvottorð og óskaði eftir að fá að sjá vaktaplan fyrir þann tíma sem eftir stæði af ráðningunni. R hafnaði því og var S sagt að hann ætti ekki að koma aftur til starfa á sambýlið M. R gerði kröfu um endurgreiðslu veikindalauna S þar sem hann hefði stundað nám við Kennaraháskóla Íslands þann tíma sem hann hafði verið í veikindaleyfi. Jafnframt var S boðið með vísan til 19. gr. stml. að taka til starfa á sambýlinu N með sama vaktafyrirkomulagi og áður til þess tíma að uppsagnarfrestur væri liðinn. S gerði athugasemdir við breytingar á störfum og kröfu R um endurgreiðslu veikindalauna. Jafnframt gerði S kröfu um að hann fengi greidd laun samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningi frá og með þeim tíma er hann hafi verið tekinn af launaskrá og út uppsagnarfrestinn. S lýsti því einnig yfir að hann væri tilbúinn að mæta til starfa á sambýlið M út uppsagnarfrestinn. Héraðsdómur hafnaði kröfu R um endurgreiðslu S á veikindalaunum en kvað breytingu á störfum S rúmast innan heimilda 19. gr. stml. og taldi S hafa sagt upp störfum einhliða og ætti því ekki rétt á launum frá því að breytingarnar áttu að taka gildi til loka uppsagnarfrests.

4
Héraðsdómur Reykjavíkur þriðjudaginn frá 24. apríl 2007 í máli nr. E-4351/2006: Einkaleyfastofan gegn Ó.
OFGREIDD LAUN. ENDURGREIÐSLA.
Ó var sumarstarfsmaður hjá E frá 17. maí 2004 til loka ágúst 2004. Eftir að Ó hætti störfum hjá E hélt hann áfram að fá greidd laun næstu átta mánuði eða þar til E uppgötvaði mistökin. E boðaði Ó á fund og óskaði eftir því að Ó endurgreiddi ofgreidd laun en hann hafnaði því. Í dómi héraðsdóms kemur fram að Ó hafi mátt vera það ljóst að um mistök var að ræða þar sem hann hefði fengið greidd full mánaðarlaun í átta mánuði eftir að hann hætti störfum sem sumarstarfsmaður. Var Ó því dæmdur til að endurgreiða E ofgreidd laun.

5
Dómur Hæstaréttar frá 10. maí 2007 í máli nr. 647/2006: S gegn Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
SKIPULAGSBREYTINGAR. NIÐURLAGNING STÖÐU. UPPSÖGN.
S starfaði sem tölvunarfræðingur hjá LSH þegar honum var tilkynnt að starf hans hefði verið lagt niður vegna skipulagsbreytinga. Í rökstuðningi fyrir uppsögninni vísað LSH einkum til þess að helstu verkefni S hefðu snúið að tilteknum tölvukerfum LSH og að stefnt væri að því að hætta notkun þeirra. S krafðist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun LSH um að segja honum upp störfum, en til vara viðurkenningar á því að ákvörðunin hefði verið ólögmæt. Hæstiréttur taldi að ákvörðun um hvaða starfsmanni skuli segja upp vegna hagræðingar í rekstri réðist að meginstefnu af mati LSH, en að því mati væru þó settar skorður af grunnreglum stjórnsýsluréttar, þar með talinni réttmætisreglunni. Hafi starfsmaður verið ráðinn til ákveðins starfs geti verið nægilegt í þessu sambandi að uppsögn hans sé reist á því að ekki sé talin þörf á að nokkur gegni því starfi lengur. Hafi starfsmaður á hinn bóginn sinnt ákveðnu verkefni á tilteknu tímabili dugi ekki að líta eingöngu til þess að það verkefni muni dragast saman eða leggjast af, heldur þurfi jafnframt að leggja frekara mat á hæfni hans í samanburði við aðra starfsmenn. Hvorki var talið að S hefði verið ráðinn til að starfa við né starf hans verið einskorðað við þau tölvukerfi sem LSH bar við í rökstuðningi fyrir uppsögninni að hætt yrði að nota. Taldi Hæstiréttur því að LSH hefði verið skylt að leggja frekara mat á hæfni S áður en tekin var ákvörðun um uppsögn hans. Þar sem slíkt mat fór ekki fram taldi Hæstiréttur að ekki hefði verið réttilega staðið að ákvörðuninni. Féllst Hæstiréttur ekki á aðalkröfu S þar sem ákvörðunin var þegar komin til framkvæmda, en viðurkenndi hins vegar að LSH hefði verið óheimilt að segja S upp störfum á þeim grunni sem gert var.

6
Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. maí 2007 í máli nr. E-7408/2006: D gegn Landspítala – háskólasjúkrahúsi. (sjá Hrd. 323/2007)
BREYTING Á STÖRFUM.
Talið var að málefnalegar ástæður hefðu ekki legið fyrir ákvörðun um tilfærslu stefnanda milli deilda á sjúkrahúsi stefnda. Þá var tilfærslan meira íþyngjandi fyrir hana en efni stóðu til. Var ákvörðunin til þess fallin að valda henni álitshnekki og andlegri vanlíðan. Kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar var vísað frá dómi en henni dæmdar 500.000 kr. í miskabætur.

7
Dómur Hæstaréttar frá 14. júní 2007 í máli nr. 5/2007: Íslenska ríkið gegn E.
GJALDDAGI LAUNA. DRÁTTARVEXTIR. FYRNING.
E, lögreglumaður, krafðist viðurkenningar á skyldu Í til greiðslu dráttarvaxta af vangoldnum launum. Ágreiningur hafði verið með túlkun á kjarasamningi og stofnanasamningi Í og Landsambands lögreglumanna, stéttarfélags E, en með dómum Hæstaréttar frá 18. mars 2004 var fallist á skilning Landsambands lögreglumanna á efni samningsins. Í leiðrétti laun E í samræmi við dóma Hæstaréttar en taldi sér ekki skylt að greiða dráttarvexti á hin vangoldnu laun þar sem réttmætur ágreiningur hafi verið um skyldu Í til greiðslu launa, sem ekki hafi verið skorið úr fyrr en með dómum Hæstaréttar frá 18. mars. 2004, sbr. 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Auk þess taldi Í hluta kröfu E fyrnda. Hæstiréttur taldi að undantekningarreglu 1. málsliðar 7. gr. laga nr. 38/2001 yrði ekki beitt í tilviki eins og því sem hér var til úrlausnar, þótt ágreiningur hafi verið um túlkun á ákvæðum kjarasamnings og stofnanasamnings. Hæstiréttur féllst hins vegar á það að hluti krafna E væri fyrndur.

8
Dómur Hæstaréttar frá 15. ágúst 2007 í máli nr. 323/2007: D gegn Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
BREYTING Á STÖRFUM.
Kröfu D um ógildingu ákvörðunar LSH um að flytja hana til í starfi milli tveggja deilda sjúkrahússins var vísað frá dómi (sjá héraðsdóm E-7408/2006 ). Var það reist á því að ekki yrði séð að D hefði lögvarða hagsmuni af því að hafa uppi sérstaka ógildingarkröfu í málinu. Hins vegar féllst héraðsdómur á kröfu D um greiðslu miskabóta. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að D reisti ógildingarkröfuna á því að ákvörðunin hefði verið íþyngjandi fyrir sig þar sem henni hafi verið gert að sækja vinnu á öðrum stað en fyrr. Fæli þessi krafa í sér meira en að vera aðeins forsenda fyrir kröfu D um miskabætur og hefði dómur um þetta sjálfstæða þýðingu fyrir sóknaraðila. Frávísunarþáttur héraðsdóms var því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka ógildingarkröfuna til efnislegrar meðferðar. Sjá nú dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7408/2006.

9
Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. október 2007 í máli nr. E-7408/2006: D gegn Landspítala – háskólasjúkrahúsi.
BREYTING Á STÖRFUM.
LSH tók þá ákvörðun að færa D af deild X yfir á deild Y í kjölfar atviks sem átti sér stað milli D og annars hjúkrunarfræðings A á heimili D. LSH taldi ákvörðunina rúmast innan 19. gr. stml. og tilfærsla D hafi ekki verið byggð á því að ásakanir A væru á rökum reistar, heldur því að ágreiningur þeirra myndi raska starfsemi deildar X og við því hafi LSH þurft að bregðast. Taldi héraðsdómur að tilfærsla starfsmanns við aðstæður sem þessar geti verið réttmætar enda væru málefnalegar ástæður fyrir því að starfsmaður sé færður en ekki gripið til annarra úrræða, s.s. að færa hinn starfsmanninn á aðra deild. Taldi héraðsdómur að LSH hefði ekki fært fram málefnalegar ástæður fyrir flutningi D milli deilda og að ákvörðunin hafi verið meira íþyngjandi fyrir D en efni stóðu til. Einnig taldi héraðsdómur ákvörðunina haldna verulegum annmörkum og hún falið í sér brot gegn æru og persónu D. Var ákvörðun LSH því ógild með dómi héraðsdóms en áður hafði héraðsdómur dæmt D miskabætur, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. maí 2007 í máli nr. E-7408/2006.

10
Héraðsdómur Reykjavíkur frá 25. október 2007 í máli nr. E-3907/2006: G gegn Lánasjóði íslenskra námsmanna.
BREYTING Á STÖRFUM. SKIPULAGSBREYTINGAR. UPPSÖGN. MÁLSMEÐFERÐAR-REGLUR.
G var deildarstjóri hjá LÍN. G hafði um nokkra ára skeið átt í vanskilum með afborganir af námslánum hjá LÍN sem endaði með því að vanskil hans voru send lögmanni til innheimtu. Í upphafi árs 2003 var G með bréfi framkvæmdastjóra LÍN veitt frí frá störfum um óákveðinn tíma til að koma fjármálum sínum í lag. Þar til annað yrði ákveðið hélt G fullum launum samkvæmt ráðningarsamningi. Vegna sameiningar fjármáladeildar og tölvudeildar var ákveðið að leggja niður starf G og var honum sagt upp störfum í febrúar 2003 og jafnframt leystur strax undan vinnuskyldu. G taldi að réttur hefði verið á sér brotinn og leitaði með mál sitt til umboðsmanns Alþingis og kemur niðurstaða hans fram í áliti nr. 3853/2003. Fram kemur í dómi héraðsdóms að hvergi sé að finna ákvæði sem beinlínis veitir forstöðumanni heimild til þess að ákveða einhliða að starfsmaður taki sér frí frá störfum til lengri eða skemmri tíma þá verði engu síður að telja að í stjórnunarrétti forstöðumanns felist slík heimild, enda geti atvik verið með þeim hætti að nauðsynlegt sé að grípa til slíks úrræðis, og liggi þá málefnaleg sjónarmið að baki. Í ljósi 19. gr. taldi héraðsdómur að heimildin væri bundin því skilyrði að starfsmaður héldi óbreyttum launakjörum og réttindum þann tíma sem leyfi hans varði. Leit héraðsdómur svo á að við undirbúning og töku einhliða ákvörðunar forstöðumanns um frí starfsmanns væri skylt að fylgja fyrirmælum stjórnsýslulaga, þ.á.m. 12., 13. og 14 gr. þeirra. Leit héraðsdómur sérstaklega til þess að ákvörðun LÍN var mjög íþyngjandi vegna skertra tekna G og engin gögn lágu frammi sem stutt gátu þá fullyrðingu LÍN að ákvörðunin hafi verið nauðsynleg til þess að endurheimta traust milli G og starfsmanna LÍN. Féllst héraðsdómur á það að ákvörðun LÍN hafi verið ólögmæt og ekki verið gætt málsmeðferðarreglna 12., 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga við undirbúning og töku ákvörðunar um frí G. Hvað uppsögn vegna skipulagsbreytinga varðaði sagði héraðsdómur að LÍN væri óumdeilanlega heimilt að ráðast í slíkar breytingar, að því tilskyldu að þær væru í samræmi við lög og meginreglur stjórnsýsluréttar. Á þeim forsendum gat LÍN sagt G upp störfum með lögboðnum uppsagnarfresti, óháð því hvort G var þá við störf eða ekki, og án þess að gefa G kost á að tjá sig um ástæður uppsagnarinnar, sbr. 2. málslið 1. mgr. 44. gr. stml. Féllst héraðsdómur því ekki á það að uppsögn G hafi verið ólögmæt.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira