Hoppa yfir valmynd
1. mars 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dómar uppkveðnir árið 2009

| Hæstiréttur - dómar | Héraðsdómstólar - dómar | Félagsdómur |

Á árinu 2009 voru kveðnir upp 15 dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess. Hér að neðan er að finna upptalningu á nefndum dómum ásamt atriðisorðum og reifunum:

1
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. janúar 2009 í máli nr. E-3899/2007: L gegn íslenska ríkinu.
KJARASAMNINGUR. RÁÐNINGARSAMNINGUR. STJÓRNSÝSLA. VALDMÖRK.
Í málinu krafði L íslenska ríkið um leiðréttingu á launum samkvæmt úrskurði samgönguráðuneytisins. Taldi dómurinn að telja yrði ótvírætt að úrskurður samgönguráðuneytisins snerist ekki um framkvæmd kjarasamnings heldur túlkun á kjarasamningi sem gekk gegn niðurstöðu sérstakrar aðlögunarnefndar sem var samkvæmt ákvæði í kjarasamningi falið að raða starfsmönnum í launaramma og launaflokka í nýju launakerfi. Taldi dómurinn því samgönguráðuneytið ekki bært til þess að taka ákvörðun um að L skyldi fá greidd laun samkvæmt öðrum launaflokki en honum var raðað í samkvæmt niðurstöðu aðlögunarnefndarinnar. Einnig taldi dómurinn að horfa verði til þess að samkvæmt stml. er mörkuð sú stefna að forstöðumenn stofnana fara með starfsmannamál svo og fjármál stofnana og í 49. gr. laganna segir að ákvörðunum stjórnvalda samkvæmt lögunum verði ekki skotið til æðri stjórnvalda, nema öðruvísi sé fyrir mælt í einstökum ákvæðum laganna. Úrskuður samgönguráðuneytisins var því ógiltur og gat L því ekki byggt á honum rétt og gat úrskurðurinn ekki verið bindandi fyrir stjórnvöld og skipti þá engu máli hvort um var að ræða hliðsett stjórnvöld eða lægra sett. L átti því ekki rétt á að fá greidd laun eftir öðrum launaflokki en þeim sem honum var skipað í og var Í því sýknað af kröfum hans. Sjá einnig dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. febrúar 2008 í máli nr. E-3899/2007 og dóm Hæstaréttar nr. 24/2009 í lið 9 hér neðar.

2
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. janúar 2009 í máli nr. E-2865/2008: R gegn Sýslumanninum á Húsavík og Ríkissjóði Íslands.
LAUNALEIÐRÉTTING. JAFNRÉTTI.
R krafðist launaleiðréttingar samkvæmt lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Vísaði R til markmiðs laganna skv. 1. gr. og 14. gr. um jöfn laun til karla og kvenna. Taldi R að með því að greiða henni lægri laun en karlmanni í sama starfi hefði sýslumaður brotið ákvæði jafnréttislaga og leiðrétta bæri kynbundinn launamun. Fram kom í niðurstöðu dómsins að sýslumanni bæri, eftir nefndum ákvæðum jafnræðislaga, að gæta þess að körlum og konum væru greidd jöfn laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Þótti dómnum R hafa sýnt fram á það að laun karlmannsins væri hærri á nokkrum tímabilum sem um var deilt. Taldi dómurinn því að sýslumaður hefði vanrækt við ákvörðun launakjara að gæta þess að kjör R væru jöfn kjörum karlmanns í sambærilegu starfi. Með þessu var brotið gegn 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000.

3
Dómur Félagsdóms frá 24. apríl 2009 í máli nr. 5/2009: Sjúkraliðafélag Íslands f.h. Þ gegn íslenska ríkinu vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
AKSTUR.
S gerði þá dómkröfu að viðurkennt yrði að ákvörðun H, sem tilkynnt var Þ um að hætta keyrslu hennar til og frá Víðihlíð í Grindavík á vegum stofnunarinnar auk greiðslna fyrir aksturstíma, væri andstæð grein 5.4.1 í kjarasamningi S og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs. Féllst dómurinn á að ákvörðun H um að hætta keyrslu Þ til og frá Víðihlíð á vegum stofnunarinnar auk greiðslna fyrir aksturstíma væri andstæð grein 5.4.1 í kjarasamningi S og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs og samrýmdist ekki heldur venjubundinni og áralangri framkvæmd þess hjá H.

4
Dómur Félagsdóms frá 12. maí 2009 í máli nr. 4/2009: Kennarasamband Íslands vegna
Félags framhaldsskólakennara gegn íslenska ríkinu.
LAUNAGREIÐSLUR. KENNSLUSTUND.
K krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi Félagsdóms, að félagsmenn Félags framhaldsskólakennara sem störfuðu við I á tímabilinu frá upphafi skólaárs 2004 til loka vorannar 2008 hafi uppfyllt kennsluskyldu sína samkvæmt kjarasamningi að fullu þegar þeir, samkvæmt ákvörðun vinnuveitandans, unnu tilskilinn fjölda kennslustunda með því fyrirkomulagi að slegið var saman hverju sinni tveim 40 mínútna kennslustundum í eina sem stóð í 75 mínútur án frímínútna og að óheimilt hafi verið að skerða launagreiðslur til þeirra vegna þessa fyrirkomulags í skólastarfinu. Féllst dómurinn á kröfu K.

5
Dómur Hæstaréttar frá 28. maí 2009 í máli nr. 520/2008: Ó gegn íslenska ríkinu.
EMBÆTTISMENN. FRÁVIKNING ÚR STARFI UM STUNDARSAGIR OG SÍÐAR AÐ FULLU.
Tollverðinum Ó var vikið frá embætti um stundarsakir og síðar að fullu. Áður höfðu fjórir menn, sem störfuðu hjá skipafélaginu S, verið handteknir fyrir að taka ófrjálsri hendi áfengi sem skyldi farga. Þeir kváðu Ó hafa verið í vitorði með þeim, en Ó neitaði því. Í sakamáli gegn þeim voru fjórmenningarnir sakfelldir en Ó var sýknaður þar sem ekki var talið sannað að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem ákært var fyrir. Krafðist Ó skaðabóta vegna fjártjóns og miska þar sem honum hafði með ólögmætum hætti verið vikið úr embætti tollvarðar. Ekki var talið að annmarkar hefðu verið á lausn Ó úr embætti um stundarsakir. Ó var vikið frá embætti að fullu áður en úrslit voru fengin í sakamálinu. Ó var sýknaður í sakamálinu og komu þær ástæður sem ákært var fyrir því ekki til neinna álita við úrlausn málsins fyrir dómi. Ráðagerð í lausnarbréfi um fleira en refsiverð brot sem hafi legið að baki stöðumissinum hafi verið almenn og óljós. Taldi dómurinn að þegar virtur væri sá grundvöllur að frávikningu Ó úr starfi að fullu, sem lagður hafi verið með bréfum tollstjóra, geti síðar gefnar ástæður ekki skipt máli til að réttlæta frávikninguna. Tókst ekki að sýna fram á að lagaskilyrði hafi verið til að víkja Ó að fullu úr embætti og voru honum dæmdar skaðbætur en ekki þótti efni til að taka til greina kröfu Ó um miskabætur.

6
Dómur Félagsdóms frá 11. júlí 2009 í máli nr. 10/2008: Félag íslenskra náttúrufræðinga gegn íslenska ríkinu.
STOFNANASAMNINGUR. ENDURSKOÐUNARÁKVÆÐI. LAUNAHÆKKUN.
F krafðist þess, að viðurkennt yrði með dómi Félagsdóms að allir félagsmenn þeirra sem starfa eða störfuðu hjá V og taka eða tóku laun samkvæmt A- eða B- ramma í 1. kafla kjarasamnings félagsins við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, hafi átt að fá 3,02% launahækkun frá og með 1. desember 2005, og að allir félagsmenn F sem starfa eða störfuðu hjá sömu stofnun og taka eða tóku laun samkvæmt C-ramma í sama kjarasamningi hafi átt að fá 4,56% launahækkun frá og með 1. desember 2005. Í stofnanasamningi félagsmanna F við V var ákvæði um að ef endurskoðun stofnanasamningsins hefði ekki farið fram fyrir 1. nóvember 2005 skyldu félagsmenn F fá eins launaflokks hækkun. Endurskoðun samningsins var ekki lokið fyrir umsaminn tíma. Sumir félagsmenn F sem þegar voru í efsta launaþrepi í viðkomandi launaramma fengu ekki þessa hækkun og hélt V því fram að þeir gætu ekki átt rétt til frekari launa en rúmuðust innan launatöflunar. Féllst dómurinn á kröfu F og taldi óhjákvæmilegt, miðað við orðalag samkomulagsins, að taka það sérstaklega fram ef gera átti undantekningar frá hækkun um einn launaflokk.

7
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. júní 2009 í máli nr. E-5391/2008: Á gegn íslenska ríkinu.
EINELTI. UPPSÖGN. MISKABÆTUR.
Á veðurfræðingur á V kvaðst hafa orðið fyrir miklu mótlæti af hálfu yfirmanns síns X síðasta árið áður en hún fékk launalaust leyfi í ágúst 2007. Óskaði Á aðstoðar stéttarfélags síns í febrúar 2007 og kom það á framfæri formlegri kvörtun til Vinnueftirlits ríkisins. Einnig átti framkvæmdastjóri félagsins fund með forstöðumanni V og afhenti honum bréf félagsins í mars 2007 þar sem m.a. var farið fram á að það við forstöðumann V að fenginn yrði aðili sem Vinnueftirlit ríkisins viðurkenndi til að greina það hvort einelti ætti við rök að styðjast gagnvart Á. Forstöðumaður V fékk viðurkenndan aðila til að greina það hvort einelti á vinnustaðnum ætti við rök að styðjast gagnvart Á. Skýrslu var skilað til V þar sem fram kom í samantekt að það væri mat skýrsluhöfundar að framkoma X í garð Á félli undir skilgreiningu á einelti á vinnustað. Einnig byggði Á körfur sínar á því að hún hefði með ólögmætum hætti verið flæmd úr opinberu starfi og við það orðið bæði fyrir fjártjóni og verulegum miska. Hélt Á því fram að forstöðumaður V hefði beitt Á þvingunum og látið undirmann sinn X komast upp með eineltisaðgerðir sem hefði gert viðveru Á á vinnustaðnum að hreinu kvalræði. Í málinu var því mótmælt að Á hefði með ólögmætum hætti verið flæmd úr opinberu starfi. Forstöðumaður V hefði brugðist við kvörtun um einelti með því að láta viðurkenndan aðila skoða það hvort einelti ætti við rök að styðjast og brugðist við með því að gefa gerandanum X áminningu þegar eineltið var staðfest. Frumkvæði að starfslokum Á hefði komið frá henni sjálfri. Ekkert í athöfnum forstöðumanns V hefði gefið Á tilefni til þess að hún mætti líta svo á að um uppsögn eða brottrekstur úr starfi væri að ræða og því síður að líta mætti svo á að forstöðumaður V hefði viljað flæma Á úr starfi. Féllst dómurinn ekki á að Á hefði sýnt fram á neina þá háttsemi forstöðumanns V sem jafna mætti til tilefnislausrar og ólögmætrar uppsagnar sem V bæri bótaábyrgð á. Var ríkið því sýknað af kröfu Á um bætur vegna fjártjóns. Hins vegar var það mat dómsins að síðbúin viðbrögð forstöðumanns V við umleitan Á hefði falið í sér vanrækslu af hans hálfu og verið til þess fallin að valda henni vanlíðan. Fól þetta saknæma athafnaleysi forstöðumanns V í sér meingerð gegn persónu Á, sem ríkið bar ábyrgð á. Var ríkið því dæmt til greiðslu miskabóta.

8
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. júní 2009 í máli nr. E-3982/2008: A gegn íslenska ríkinu.
LÍFEYRISGREIÐSLA. VIÐMIÐUNARFJÁRHÆÐ. VÍSITÖLUBINDING.
A starfaði hjá Útvegsbanka Íslands. Í upphafi starfaði A við almenn lögfræðistörf en varð síðan aðallögfræðingur bankans. Síðar var A ráðinn aðstoðarbankastjóri ásamt starfi aðallögfræðings en í tengslum við niðurlagningu Útvegsbanka Íslands var honum sagt upp störfum. A hóf töku eftirlauna í desember 1988. Ágreiningur kom upp um útreikning eftirlauna A. Krafðist A aðallega að viðurkennt yrði með dómi að viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna A, eins og hún var 1. janúar 1998, skyldi fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn, sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir, frá 1. janúar 1998 til 1. nóvember 2008 en frá og með 1. nóvember 2008 skyldi viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna A miðast við laun bankastjóra Nýja Landsbanka Íslands hf., eins og þau væru á hverjum tíma og taka breytingum í samræmi við þau. Niðurstaða héraðsdóms var sú að íslenska ríkið var sýknað af kröfu A þar sem dómurinn leit svo á að hann hefði sönnunarbyrðina fyrir því að honum bæri réttur til lífeyris í samræmi við kröfugerð sína. Gegn andmælum íslenska ríkisins hefði A ekki fært rök að því að honum bæri þau réttindi sem hann krafðis. Studdust kröfur A hvorki við samninga né ákvæði laga eða reglna og ekki hefði verið sýnt fram á annað en að eftirlaun A sæti sömu viðmiðum og annarra sem svipað eru settir, svo sem eftirlaun fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands, eins og að var stefnt af hálfu íslenska ríkisins. Féllst dómurinn því ekki á að ákvarðanir íslenska ríkisins varðandi eftirlaun A hafi verið ómálefnalegar eða andstæðar lögum eða stjórnarskrá. Dómi þessum hefur verið áfrýjað af A til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 441/2009.

9
Dómur Hæstaréttar Íslands frá 24. september 2009 í máli nr. 24/2009: L gegn íslenska ríkinu.
KJARASAMNINGUR. RÁÐNINGARSAMNINGUR. STJÓRNSÝSLA. VALDMÖRK.
L starfaði sem flugumferðarstjóri og í ráðningarsamningi hans var starfsheiti tilgreint „varðstjóri“. Samkvæmt eldri kjarasamningum fengu flugumferðarstjórar starfsheitið varðstjóri eftir 10 ára starf án þess að því fylgdu breytingar á störfum eða stjórnunarlegri ábyrgð og var starfsheitið því eingöngu starfsheiti til launa. Í kjarasamningi aðila sem tók gildi 1. desember 1995 var fellt út ákvæðið um að menn fengju starfsheitið varðstjóri vegna starfsaldurs. Nýr kjarasamningur tók gildi 1. desember 1997 en með honum voru gerðar grundvallarbreytingar á uppbyggingu og fyrirkomulagi kjaramála flugumferðarstjóra. Í nýjum samningi var flugumferðarstjórum raðað í launaflokka innan ramma A en varðstjórum/kennurum raðað í launaflokka innan ramma B. L var settur í launaflokk A, enda gegndi hann eftir sem áður starfi almenns flugumferðarstjóra. L ritaði í júlí 2004 bréf til flugmálastjóra og fór fram á leiðréttingu á því misræmi launa sem honum hefðu verið greidd frá desember 1997 og þeirra sem honum hefði borið þar sem starfsheiti hans var tilgreint „varðstjóri“ í ráðningarsamningi. Því var hafnað í ágúst 2004 og sendi L í kjölfarið „stjórnsýslukæru“ til samgönguráðherra. Með úrskurði samgönguráðuneytisins í nóvember 2004 var fallist á kröfu L. Fjármálaráðuneytið gerði verulegar athugasemdir við úrskurðinn, þar sem ráðuneytið taldi að samgönguráðuneytið hefði skort lagagrundvöll til að úrskurða í málinu. L leitaði til umboðsmanns Alþingis í mars 2005 og kvartaði yfir því að Flugmálastjórn hefði ekki framfylgt úrskurði samgönguráðuneytisins. Umboðsmaður taldi að úrskurður samgönguráðuneytisins hefði verið stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, sem L ætti að geta byggt rétt sinn á. Beindi hann þeim tilmælum til samgönguráðuneytisins og Flugmálastjórnar að launaútreikningar yrðu gerðir til að úrskurðurinn kæmi til framkvæmda án tafar. Ítrekaði umboðsmaður að hann hefði á þessu stigi ekki tekið afstöðu til aðkomu fjármálaráðuneytisins, valdmarka milli ráðuneyta og röksemda fjármálaráðuneytisins um valdþurrð samgönguráðuneytisins til þess að fjalla um launamál. Um röðun í launaflokk sagði Hæstiréttur að L gæti borið hana undir samstarfsnefnd samkvæmt 10. gr. kjarasamningsins og eftir atvikum Félagsdóm samkvæmt 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en gerði ekki. Þess í stað fór hann fram á leiðréttingu í bréfi til flugmálastjóra tæpum sjö árum síðar. Hæstiréttur taldi að svarbréf flugmálastjóra í ágúst 2004 hefði falið í sér túlkun á kjarasamningi og verið staðfesting á röðun í launaflokk. Sú niðurstaða hefði verið fengin á grundvelli vinnuréttar en ekki stjórnsýsluréttar og gæti því ekki talist stjórnsýsluákvörðun samkvæmt stjórnsýslulögum, sem kæra mætti til æðra stjórnvalds. Féllst Hæstiréttur á það með fjármálaráðuneytinu að með því að kveða upp úrskurð um kæru án kæruheimildar hefði úrskurður samgönguráðuneytisins orðið markleysa og gat L ekki reist á honum kröfu sína.

10
Dómur Hæstaréttar Íslands frá 24. september 2009 í máli nr. 596/2008: E gegn Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
YFIRLÆKNIR. STOFUREKSTUR. HELGUN.
E hóf störf á augndeild L árið 1989 sem yfirlæknir með stjórnunarskyldur. E rak eigin læknastofu samhliða yfirlæknisstarfi sínu. Fór E í launalaust leyfi frá störfum á árinu 2000. Þegar E hóf störf á ný í september 2002 tók hann aftur við stöðu yfirlæknis en annar yfirlæknir gegndi áfram stjórnunarskyldum við deildina. Árið 2001 ákvað framkvæmdastjórn sjúkrahússins að hefja undirbúning að breytingum á starfstilhögun yfirmanna þess þannig að þeir myndu framvegis vera í 100% starfi og ekki sinna störfum utan sjúkrahússins öðrum en kennslu á háskólastigi og setu í nefndum á vegum hins opinbera. E mun hafa tilkynnt L í ágúst 2006 að hann væri reiðubúinn að taka á ný við stjórnunarskyldum en L féllst ekki á að E tæki við þeim nema hann hætti rekstri læknastofu. Starf yfirlæknis með stjórnunarskyldur á augndeild var auglýst laust til umsóknar í kjölfar þess að E gat ekki sætt sig við skilyrði L. Engar umsóknir bárust um stöðuna og hófust viðræður milli E og L um að hann tæki að sér stöðuna á ný og lauk þeim með því að E féllst á skilyrði L og hætti rekstri læknastofu sinnar. E höfðaði síðar mál og gerði kröfu um vangoldin laun og dráttarvexti af þeim á þeim grunni að L hefði einhliða breytt starfshlutfalli hans úr 100% í 80% eftir að nýr kjarasamningur tók gildi 1. febrúar 2006. Þá krafðist hann viðurkenningar á því að L hefði verið óheimilt að banna sér haustið 2006 að stunda sjálfstæðan stofurekstur samhliða því að gegna stöðu yfirlæknis með stjórnunarskyldur. Fyrir lá að E þáði frá 1. september 2002 80% laun fyrir fullt starf hjá L á grundvelli bókunar í kjarasamningi aðila frá 2002, þar sem læknum, sem rækju læknastofu jafnhliða starfi sínu, var gert að lækka annaðhvort hlutfall starfa sinna eða taka fyrir þau 20% lægri laun. E valdi ekki á milli þeirra kosta sem í boði voru. Var þegar af þessari ástæðu talið að bókunin gæti efni sínu samkvæmt ekki haft áhrif á launakjör hans eftir að nýr kjarasamningur tók gildi á árinu 2006, en sambærilegt ákvæði var hvorki að finna í samningnum né bókunum sem honum fylgdu. Var því fallist á með E að L hefði verið óheimilt án samþykkis E að skerða laun hans frá og með 1. febrúar 2006, er nýr kjarasamningur tók gildi, til 30. júní 2007 er hann hætti rekstri læknastofu sinnar. Var krafa E um vangoldin laun á þessu tímabili því tekin til greina ásamt dráttarvöxtum. Þá var talið að með samkomulagi E og L í maí 2007, þar sem ákveðið var að E tæki við starfi yfirlæknis með stjórnunarskyldum á ný, hefði jafnframt verið mælt fyrir um starfskjör hans og því hefði samkomulagið falið efnislega í sér breytingar á ráðningarsamningi hans hjá L. Var því ekki litið svo á að ómálefnalegt hefði verið af L að setja E það skilyrði að hann léti af rekstri læknastofu samhliða því að hann tæki að sér aukin störf og ríkari ábyrgð fyrir L.

11
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. október 2009 í máli nr. E-1215/2009: S gegn íslenska ríkinu.
ÁMINNING. BÆTA RÁÐ SITT. UPPSÖGN.
S var starfsmaður V allt þar til henni var sagt upp starfi í júlí 2008. Með bréfi í maí 2008 tilkynnti forstjóri V S að ráðgert væri að áminna hana í starfi samkvæmt 21. gr. stml. vegna samskiptaerfiðleika á milli S og annarra starfsmanna þjónustuskrifstofunnar og óásættanlegrar framkomu S í þeirra garð. Í niðurstöðu héraðsdóms sagði að óumdeilt væri í málinu að S hefði borist boðunarbréf um áminningu í pósti, eftir að S hafði neitað að taka við bréfinu úr hendi forstjóra V. Í bréfinu voru talin tilvik um háttsemi S allt frá lokum ársins 2006 til mars 2008 og lutu þau öll með einum eða öðrum hætti að samstarfsörðugleikum S á vinnustað. Þá voru þar greind tilvik þar sem S lýsti því á fundum með starfsmannastjóra eða öðrum yfirmönnum V að samstarfskona S væri ekki starfi sínu vaxin og að ofnæmisköst sem S fékk væri að rekja til háttsemi samstarfskonu S. Með vísan til vitnisburðar þriggja starfsmanna V fyrir dómi taldi dómurinn sannað að S hefði haft uppi ávirðingar á hendur samstarfskonu sinni og yfirmönnum. Mat dómurinn það svo að þá háttsemi S, sem vitnin hefðu lýst, verði að telja samstarfsörðugleika sem gætu haft verulegt vægi við mat á starfsárangri. Háttsemin var alls ekki til þess fallin að ná þeim markmiðum sem þjónustuskrifstofu V er ætlað að ná eða þjóna hagsmunum þeirra er þjónustuna sækja. Var það því mat dómsins að skilyrði áminningar samkvæmt 21. gr. stml. hefðu verið fyrir hendi og engir þeir form- eða efnisannmarkar hafi verið á áminningu S að varðað gæti ógildingu hennar. Um uppsögn S sagði í dómnum að samkvæmt 44. gr. stml. skuli gefa starfsmanni færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum, en af hálfu S var því haldið fram að henni hafi ekki verið gefinn kostur á því, þar sem enginn hafi verið á vinnustaðnum til að meta hvort hún hefði bætt ráð sitt. Samkvæmt framburði K, forstöðumanns þjónustuskrifstofunnar, voru tveir starfsmenn við störf á vinnustað S, auk S og fulltrúa þess sem samskiptaörðugleikar sneru að, þann tíma sem S var gefið færi á að bæta ráð sitt, en forstöðumaðurinn, K, var í sumarleyfi. Kvaðst K hafa, eftir sumarleyfið rætt við starfsmennina, auk S og fulltrúans og sannreynt að ástandið á vinnustaðnum hefði ekki lagast og samskiptaörðugleikar væru enn fyrir hendi. Þegar litið er til þessa féllst dómurinn ekki á að S hafi ekki gefist kostur á að bæta ráð sitt. Óumdeilt var að S var ekki gefinn kostur á að tjá sig áður en ákvörðun um uppsögn var tekin. Andmæli S, sem fram komu við kröfu hennar um afturköllun uppsagnarinnar, komu hins vegar til skoðunar hjá V, og gafst S því kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um uppsögnina á uppsagnarfrestinum, sbr. 44. gr. stml. og athugasemdir með því ákvæði, sbr. og 13. gr. stjórnsýslulaga. Var íslenska ríkið sýknað af kröfu S.

12
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. október 2009 í máli nr. E-6012/2008: Ó gegn Fasteignaskrá Íslands.
SKIPULAGSBREYTINGAR. NIÐURLAGNING STARFS. UPPSÖGN.
Ó var ráðinn í starf matsfulltrúa hjá Fasteignamati ríkisins á Selfossi og voru verkefni Ó fólgin í því að meta fasteignir til fasteigna- og brunabótamats. Með bréfi í september 2004 var Ó tilkynnt að leggja ætti starf hans niður vegna hagræðingar í rekstri stofnunarinnar. Með hliðsjón af dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum E-8305/2007 og E-8306/2007 var fallist á að uppsögn í tilviki Ó hefði verið ólögmæt en öðrum málsástæðum í stefnu en dómar þessir voru reistir á var mótmælt. Taldi F samt sem áður að sýkna ætti í málinu þar sem ósannað væri með öllu að Ó hefði orðið fyrir tjóni vegna uppsagnarinnar. Niðurstaða héraðsdóms var sú að með vísan til þess hvernig Ó setti kröfu sína fram þá verði að líta til þess við mat á tjóni Ó hverjar tekjur hans voru fyrir og eftir uppsögnina. Í málinu láu frammi skattframtöl þar sem heildartekjur Ó komu fram. Taldi dómurinn af þeim skattframtölum yrði ekki annað ráðið en að Ó hefði haft hærri laun hjá nýjum vinnuveitanda eftir að hann lét af störfum hjá F. Við aðalmeðferð málsins kom og fram af hálfu Ó að laun hans hefðu verið lægri hjá hinum nýja vinnuveitanda þótt hann gæti ekki nefnt neinar tölur í því sambandi, en þar hafi hann verið á tímakaupi. Taldi dómurinn því að Ó hefði ekki lagt fram gögn sem hröktu það sem fram kæmi í skattframtölum hans um heildarlaun hans. Þótti Ó því ekki hafa sýnt fram á það með haldbærum gögnum að hann hafi orðið fyrir tjóni sem rakið yrði til þess að honum var með ólögmætum hætti sagt upp störfum vegna niðurlagningar á starfi hans hjá F. Varð Ó að bera hallann af þeim sönnunarskorti og var F sýknað af kröfu Ó.

13
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. október 2009 í máli nr. E-1453/2007: S gegn íslenska ríkinu.
BÆTUR VEGNA ÓLÖGMÆTRAR UPPSAGNAR.
L veitti S áminningu fyrir að óhlýðnast lögmætum fyrirmælum yfirmanna sinna. S bætti ekki ráð sitt að mati yfirmanna L og var S sagt upp störfum. S höfðaði mál til að fá áminningunni hnekkt. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7184/2005 var áminningin dæmd ólögmæt. S freistaði þess í kjölfar dómsins að fá hina ólögmætu uppsögn dregna til baka en yfirmenn L féllust ekki á það. S taldi að hin ólögmæta uppsögn hefði valdið honum bæði fjártjóni og miska og krafðist bóta vegna uppsagnarinnar. L fól embætti ríkislögmanns að bregðast við bótakröfunni sem hafnaði henni og því viðhorfi lýst að svo mikið bæri í milli hugmynda S og L að eðlilegast væri að leggja ágreininginn fyrir dómstóla til úrlausnar. S skaut ágreiningi aðila til úrlausnar dómstóla. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7184/2005 var áminningin sem L hafði veitt S dæmd ólögmæt. Með dómnum var þannig staðfest að brotinn hefði verið réttur á S og varðaði það L bótaskyldu eftir almennum sjónarmiðum skaðabótaréttar. Fyrir lá að S hafði frá því honum var gert að láta af störfum starfað við eigin læknastofu. Krafðist S bóta sem námu tekjumissi, sem yfirlæknir, í 10 ár frá því að launagreiðslum lauk, alls kr. 149.144.800.- auk miskabóta að fjárhæð kr. 10.000.000.- Fram kom í niðurstöðu dómsins að þessi kröfugerð S væri fjarri lagi og ætti sér enga stoð í dómvenju um bætur til handa þeim, er orðið hafa fyrir ólögmætri uppsögn. Dómvenjan væri að bætur væru ákveðnar að álitum að teknu tilliti til aðstæðna, starfsmöguleika og launa. Að öllu virtu mat dómurinn það svo að bætur væru hæfilega ákveðnar 3.000.000 króna auk þess sem dómurinn féllst ekki á miskabótakröfu S. Dómi þessum hefur verið áfrýjað af S til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 702/2009.

14
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. nóvember 2009 í máli nr. E-3127/2009: B gegn Geislavörnum ríkisins.
NIÐURLAGNING STARFS. BREYTTAR MENNTUNARKRÖFUR. BIÐLAUN. ROF Á ÞJÓNUSTUTÍMA.
B, tæknifræðingur, var ráðinn starfsmaður G með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Um G gilda lög nr. 44/2002, um geislavarnir. Með lögum nr. 28/2008 voru gerðar breytingar á lögum um geislavarnir. Við þessa lagabreytingu var ljóst að áherslur í starfsemi G breyttust verulega þar sem draga varð enn frekar úr tæknilegu eftirliti en leggja aukna áherslu á mat á geislaálagi sjúklinga, mælifræði og virk gæðakerfi. Yfirmenn G ræddu við B um breytingar á starfi hans hjá G með hliðsjón af breyttum áherslum í starfi G. Yfirmenn G ræddu síðan nánar um breyttar áherslur og skipulagsbreytingar vegna gildistöku laga nr. 28/2008. Niðurstaða þeirra varð sú að vegna lagabreytinganna hafi verið nauðsynlegt að segja B upp störfum og ráða í hans stað eðlisfræðing eða eðlisverkfræðing. B höfðaði mál vegna uppsagnar hjá G og laut ágreiningurinn að því hvort staða B hefði verið lögð niður og rétti B til skaðabóta af þeim sökum og að því hvort rof hefði orðið á ráðningu B í starf hjá ríkinu, frá 1. febrúar 2004 til 23. maí 2004. G taldi að það hefði orðið rof á ráðningu B hjá ríkinu og hafi hann ekki verið í þjónustu ríkisins á tímabilinu 1. febrúar til 23. maí 2004. Við starfslok B hjá L 31. janúar 2004 hafi því fallið niður sá skilyrti réttur B til biðlauna sem hann hafði átt á grundvelli ráðningar sinnar hjá ríkinu í gildistíð eldri laga. Réttarstaða B í starfi hjá G hafi því miðast við ráðningarsamning hans frá 1. júlí 2004, sem byggðist á lögum nr. 70/1996 og hafi B því engan biðlaunarétt átt í starfi sínu hjá G. Það var niðurstaða dómsins að af orðalagi bréfs forstjóra G verði glögglega ráðið að ástæður uppsagnar B væru þær að B átti þess ekki lengur kost, vegna breyttra áherslna í starfsemi G, að gegna starfi því sem hann hafði gegnt. Ástæður þess að B var sagt upp störfum voru því ekki að rekja til B sjálfs. Taldi dómurinn að með engu móti væri unnt að túlka breyttar áherslur í starfsemi G, og þær afleiðingar sem það hafði í för með sér fyrir B, á annan hátt en þann en að ekki væri lengur þörf fyrir þá stöðu sem B gegndi hjá G og væri hún því lögð niður. Um þá málsástæðu að rof hafi orðið á ráðningu B í þjónustu ríkisins frá 1. febrúar 2004 til 23. maí 2004 og að þá hafi fallið niður sá skilyrti réttur B til biðlauna sagði dómurinn að B hefði allan starfstíma sinn verið í þjónustu ríkisins og breytti engu í því sambandi þótt B hafi, á tímabilinu frá 1. febrúar 2004 til loka maí 2004, verið í stundakennarastarfi, en ekki í föstu starfi. B hafði, er honum var sagt upp störfum, starfað lengur en 15 ár í þjónustu ríkisins og átti hann því rétt til bóta samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða stml. Dómi þessum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu ríkisins.

15
Dómur Hæstaréttar Íslands frá 21. desember 2009 í máli nr. 147/2009: Félag íslenskra náttúrufræðinga gegn íslenska ríkinu.
VINNA MEÐ HÆTTULEG EFNI. LAUNAFLOKKUR. DÓMSTÓLAR. FRÁVÍSUN FRÁ HÉRAÐSDÓMI.
F krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að félagsmenn þess sem starfa á veirudeild á L og vinna með hreinræktir smitefna og/eða eiturefni, þ.m.t. krabbameinsvaldandi og stökkbreytandi efni (hættuleg), eigi rétt til eins launaflokks hækkunar samkvæmt samkomulagi milli F og L frá júlí 2001. Héraðsdómur taldi ósannað að röðun umræddra starfsmanna í launaflokka, eins og gert var af hálfu L, hafi falið í sér brot á stofnanasamningnum. Sagði í héraðsdómnum að þótt fram komi á fylgiskjali 2 að sérsök áhætta umfram það sem almennt gerðist skyldi metin 0, 1 eða 2 og að 2 ætti við þegar unnið væri að auki með hreinræktir smitefna og/eða eiturefni, þ.m.t. krabbameinsvaldandi og stökkbreytandi efni (hættuleg), varð ekki talið að með því hefði verið sýnt fram á að röðunin samkvæmt samkomulaginu og fylgiskjali 1 væri röng, enda hafði ekki verið lögð fram gögn af hálfu F sem veittu fullnægjandi sönnun um það. Féllst héraðsdómurinn því á það að umræddir starfsmenn ættu ekki rétt til eins launaflokks hækkunar samkvæmt samkomulaginu og varð Í því sýknað af kröfu F í málinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tækju þau lög til dómsmála, sem hvorki sættu sérstakri meðferð eftir ákvæðum annarra laga né ættu undir sérdómstóla lögum samkvæmt. Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna ætti ágreiningur um skilning á kjarasamningi eða gildi hans undir Félagsdóm. Málið varðaði skýringu á stofnanasamningi, sem samkvæmt 1. gr. hans væri hluti kjarasamningsins, sbr. 11. kafla kjarasamningsins, og umrædd fylgiskjöl í málinu væru hluti af stofnanasamningnum. Að þessu virtu þótti ágreiningsefnið heyra undir valdsvið Félagsdóms og var málinu því vísað frá héraðsdómi.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira