Hoppa yfir valmynd
1. mars 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dómar uppkveðnir árið 2011

| Hæstiréttur - dómar | Héraðsdómstólar - dómar | Félagsdómur |

Á árinu 2011 voru kveðnir upp sautján dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess, fimm hæstaréttardómar, sex héraðsdómar og sex félagsdómar.

Hér að neðan er að finna upptalningu á nefndum dómum ásamt atriðisorðum og reifunum:

1. Dómur Hæstaréttar frá 27. janúar 2011 í máli nr. 244/2010: Landspítali-háskólasjúkrahús gegn A.
RÁÐNINGARSAMNINGUR. FLUTNINGUR Á MILLI DEILDA. VEIKINDI.
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 430/2007 var fallist á kröfu A um að ógilt yrði ákvörðun sviðstjóra L frá því 17. október 2006 um að flytja hana úr starfi sem hjúkrunarfræðing milli deilda og L gert að greiða A miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur. Samkvæmt læknisvottorði var A fyrst á eftir óvinnufær vegna veikinda, en fékk greidd veikindalaun í sex mánuði. Í þessu máli krafðist A bóta vegna fjártjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir við að fá ekki greidd full laun frá því í nóvember 2006 til og með september 2007, er hún hóf störf hjá öðrum vinnuveitanda. Talið var að ákvörðunin frá 17. október 2006 hefði verið saknæm og L bæri skaðabótaábyrgð á fjártjóni A sem af henni leiddi. Veikindi A ættu rót sína að rekja til hinnar ólögmætu og saknæmu ákvörðunar og því fallist á að L bæri að greiða A skaðabætur. Sjá reifun héraðsdóms í dómareifnun 2010 mál nr. 1.

2. Dómur Félagsdóms frá 7. febrúar 2011 í máli nr. 10/2010: Læknafélag Íslands gegn íslenska ríkinu f.h. Landspítalans.
HÖFNUN NÁMSLEYFIS.
Í máli þessu var deilt um túlkun á ákvæði í grein 8.5.1 í kjarasamningi Læknafélags Íslands og íslenska ríkisins um greiðslu á ferða- og dvalarkostnaði á námsferðum lækna. H var deildarlæknir á svæfinga- og gjörgæsludeild LS og félagsmaður í L. H sótti um að fá að fara í 6 daga ferð á málþing svæfingarlækna í Bandaríkjunum. Umsókn H var hafnað af framkvæmdastjóra skurðlækningasviðs LS, og vísað til nýrra verklagsreglna. H óskaði eftir endurskoðun á þessari ákvörðun en LS hafnaði beiðni H og vísaði til þess að umsóknirnar uppfylltu ekki það skilyrði kjarasamninga að vera „tengd sérstökum rannsóknar- eða vísindaverkefnum sem hann vinnur að og tengist ennfremur starfssviði og verkefnum viðkomandi deildar“. Fram kom í niðurstöðu dómsins að í greindu kjarasamningsákvæði kæmi fram það skilyrði að námsferð væri tengd sérstökum rannsóknar- og vísindaverkefnum sem umsækjandi vinnur að. Í umsókn H væri rannsóknarverkefna í engu getið, enda lá ekki fyrir að þær rannsóknir sem H hafði unnið að tengdist sérstaklega því námskeiði sem sótt var um. Framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs LS, sem hafnaði umsókn H, kvaðst áður hafa ráðfært sig við S yfirlækni, K, lækni og framkvæmdastjóra vísinda, mennta- og gæðasviðs LS, og G, prófessor í svæfingalækningum. Mat dómurinn það svo að ekki yrði annað séð en lagt hefði verið faglegt mat á umsóknina áður en henni var hafnað endanlega og féllst ekki á að LS hefði brotið gegn ákvæði kjarasamningsins með því að hafna námsleyfisumsókn H.

3. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. febrúar 2011 í máli nr. E-3507/2010: M gegn Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
RÁÐNINGARSAMNINGUR. VEIKINDI. VEIKINDALAUN. LAUSNARLAUN.
M var með ótímabundin ráðningarsamning við LS en undirritaði í desember 2008 tilkynningu um breytingar á ráðningarsamningi, þar sem fram kom að starfshlutfall M skyldi vera 50 % og væri M ráðin tímabundið frá 1. janúar til 31. mars 2009. Með bréfi stéttarfélags M var skorað á LS að draga til baka ráðningarsamninginn frá því í desember 2008 og því haldið fram að löggerningurinn væri í andstöðu við lög og kjarasamningsbundin réttindi. LS hafnaði þeirri málaleitan með bréfi í mars 2009, þar sem fram kom að forsenda breytingar á starfskjörum M hefði verið að M hafi ætlað að leita sér vinnu annars staðar. Stéttarfélagið hafnaði skýringum LS á breytingum á ráðningarsamningi og krafði LS um greiðslu veikindalauna til M frá 1. janúar til 31. mars 2009. Þeirri kröfu hafnaði LS með bréfi í apríl 2009. Fram kom í niðurstöðu dómsins að hinn nýi ráðningarsamningur hafði í för með sér verulega skerðingu á launakjörum og réttindum M. Samkvæmt 19. gr. starfsmannalaga átti M rétt á að halda óbreyttum launakjörum og réttindum um jafnlangan tíma og nam rétti til uppsagnarfrests, eða í þrjá mánuði, sbr. ákvæði 17.1.2 kjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og ríkisins. M fékk greidd 50% laun frá 1. janúar til 31. mars 2009, en samkvæmt læknisvottorði gat M þá aðeins sinnt hálfu starfi. Var það mat dómsins að M ætti rétt til 50% veikindalauna á því tímabili, sbr. 12. gr. starfsmannalaga. Dómurinn taldi hins vegar að samkvæmt 19. gr. starfsmannalaga ætti M ekki rétt til launa vegna veikinda eftir lok uppsagnarfrests samkvæmt ákvæði 12.2.1 kjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og ríkisins. Þá féllst dómurinn ekki á það með M að M ætti rétt til lausnarlauna samkvæmt ákvæði 12.5.1 kjarasamningsins enda var ekki sýnt fram á það að M hefði verið veitt lausn frá störfum sökum óvinnufærni vegna veikinda svo sem greinir í ákvæði 12.4.2 kjarasamningsins.

4. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. mars 2011 í máli nr. E-4905/2010: K gegn Ríkissjóði Íslands.
RÁÐNINGARSAMNINGUR. FORSENDUR. UPPSÖGN. BARNSHAFANDI.
K réð sig til starfa sem læknir hjá G í september 2007. Í upphafi var K ráðin tímabundið, en í október 2009 var gerður við K samningur um fastráðningu. Var aðdragandi að ráðningu K sá að í árslok 2006 lét einn af barnalæknum G af störfum. Auglýst hafi verið eftir barnalækni til starfa, annaðhvort með sérhæfingu og reynslu á sviði fatlana eða með áhuga á að afla sér þekkingar á því sviði sem nýttist til sérfræðiviðurkenningar í fötlunum barna en ekki hafi tekist að finna barnalækni á þessum tíma með svo sérhæfða menntun. Forstöðumaður G bauð K að koma til starfa sem almennur læknir á meðan verið væri að finna sérfræðilækni til starfa. Í janúar 2010 var K tilkynnt að nýr sérfræðilæknir myndi koma til starfa og K yrði formlega sagt upp. Starfsmönnum G var sendur tölvupóstur þann 1. febrúar 2010 þar sem fram kom að K myndi hætta. K tilkynnti yfirmanni sínum að hún væri barnshafandi 17. febrúar 2010. Yfirmaður K tjáði K munnlega 28. apríl 2010 að henni yrði sagt upp frá 1. ágúst 2010 og sendi K síðar sama dag formlegt uppsagnarbréf. Í uppsagnarbréfinu var vísað til fyrri umræðna forstöðumanns G og K um að hún léti af störfum sem almennur læknir hjá stofnuninni þegar völ væri á sérfræðilækni til starfa. K leitaði til stéttarfélags síns og lögmanns þess, sem ritaði bréf og gerði kröfu til þess á grundvelli 30. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 að uppsögnin yrði dregin til baka en G hafnaði því. Að mati dómsins var ljóst að ástæða uppsagnarinnar var sú að G stóð til boða læknir með tilskilin sérfræðiréttindi og taldi dómurinn það vera fullnægjandi rökstuðning sérstaklega með hliðsjón af því að þessi mál höfðu áður borið á góma í samskiptum K og forstöðumanns G. Óumdeilt var í málinu að uppsögn K tengdist því ekki að K hafði tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs. Aðila greindi hins vegar á um hvort gildar ástæður hefðu búið að baki uppsögninni. G starfar á grundvelli laga nr. 83/2003 og samkvæmt þeim er G ætlað að tryggja það markmið laganna að börn með alvarlegar þroskaraskanir sem geta leitt til fötlunar fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem miði að því að draga úr afleiðingum röskunarinnar, enn fremur að tryggja öflun, viðhald og miðlun fræðilegrar þekkingar á þessu sviði. Er hlutverk G nánar tilgreint í 3. gr. laganna. Ljóst er að miklu skiptir fyrir G að til hennar ráðist starfsfólk með sérþekkingu á málefnum barna með alvarlegar þroskaraskanir til þess að umrædd markmið náist og G geti byggt upp faglega þekkingu. Ekki reynst unnt að manna stöðu læknis með sérfræðiþekkingu í fötlunum barna og því hafi K, sem var með almennt lækningaleyfi og hafði ekki hug á að afla sér slíkrar þekkingar, verið ráðin í stöðuna. Fyrir lá einnig að barnalæknir með sérfræðiviðurkenningu og reynslu í taugasjúkdómum barna og hæfingu hafði sambandi við forstöðumann G í ársbyrjun 2010 og lýsti yfir áhuga á að starfa hjá G. Var staða K því auglýst laus til umsóknar og K jafnframt sagt upp störfum. Reyndist læknirinn sem hafði haft samband við G vera eini umsækjandinn um stöðuna og var hann ráðinn til starfans. Með hliðsjón af markmiðum laga nr. 83/2003 og nauðsyn G til að byggja upp faglega þekkingu féllst dómurinn á það með G að gildar ástæður hefðu verið fyrir uppsögn K og því heimilt að segja K upp störfum þrátt fyrir ákvæði 30. gr. laga nr. 95/2000. Var ríkið því sýknaður af kröfum K í máli þessu. Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 257/2011. Sjá reifun dóms Hæstaréttar í lið 16.

5. Dómur Hæstaréttar frá 3. mars 2011 í máli nr. 472/2010: Háskólinn á Akureyri gegn S.
UPPSÖGN. SAMDRÁTTUR Í STARFSSEMI. SAMANBURÐUR Á STARFSMÖNNUM.
S starfaði sem dósent í stærðfræði og eðlisfræði við HA og var kennaradeild skólans síðasti starfsvettvangur hans. Með bréfi rektors í maí 2006, var S sagt upp störfum frá og með 1. júní það ár. Í bréfi rektors sagði meðal annars, að vegna viðvarandi fjárhagsvanda HA hafi verið gripið til umfangsmikilla skipulagsbreytinga sem miði að því, að rekstur HA verði framvegis innan ramma fjárlaga. Mikilvægur þáttur í breyttu skipulagi væri að sameina viðskipta-, upplýsingatækni- og auðlindadeild í eina deild, viðskipta- og raunvísindadeild. Kennsla átti að hefjast í nýrri sameiginlegri deild haustið 2006. Þá sagði að í nóvember 2005 hefði háskólaráð samþykkt að draga skyldi úr og einfalda námsframboð í félagsvísinda- og lagadeild og hefði ráðið jafnframt fjallað um sameiningu kennaradeildar við félagsvísinda- og lagadeild og falið rektor að gera áætlun um tímaramma og málsmeðferð. Sameining deilda hafi þegar leitt til breytinga á námsframboði einstakra deilda og væru frekari breytingar fyrirhugaðar, svo sem í þá veru að breyta skipulagi náms þannig að deildir sérkenni síður tilteknar fræðigreinar heldur sæki nemendur þess í stað sambærileg námskeið í aðrar deildir. Hafi þetta þegar dregið úr kennsluþörf. Sagði í bréfinu að vegna þessara breytinga og minni þarfa fyrir starfsfólk sé ráðningarsamningi S sagt upp og skuli starfslok, að loknum þriggja mánaða uppsagnarfresti, vera í lok ágúst 2006. S krafðist rökstuðnings fyrir uppsögninni og fékk hann með bréfi rektors í júní 2006. S höfðaði síðan mál og krafðist bóta fyrir ólögmæta uppsögn. Héraðsdómur taldi að HA hefði ekki staðið réttilega að uppsögninni. S hefði aðeins verið borinn saman við samkennara innan kennaradeildar en ekki við aðra kennara, í sömu fræðigreinum, í skólanum í heild. Taldist HA því hafa brotið rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, uppsögnin ólögmæt og skólinn dæmdur til að greiða S skaðabætur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem fyrir lá að kennaradeild og háskólaráð HA höfðu komist að þeirri niðurstöðu að draga ætti úr raungreinakennslu við deildina féllst Hæstiréttur ekki á með S að rektor HA hefði með uppsögninni farið gegn ákvörðunum deildarráðs eða háskólaráðs. Ekki var talið orka tvímælis að ráðning S hefði verið bundin við kennaradeild og að byggt hefði verið á því í starfsemi HA að einstakir kennarar væru ráðnir til ákveðinna deilda HA, störfuðu við þær og lytu í ýmsum atriðum boðvaldi deildarforseta eða deildarfundar. Við samanburð á kennurum þeirra greina sem S kenndi hefði rektor HA því ekki með réttu lagi getað litið út fyrir raðir þeirra sem störfuðu við kennaradeild H. Ekki voru efni til að hnekkja mati HA að kennari í þessum greinum, sem einn sat eftir í stöðu við kennaradeild, stæði framar í samanburði við S. Var HA því sýknaður af kröfu S.

6. Dómur Félagsdóms frá 21. mars 2011 í máli nr. 8/2010: Dýralæknafélag Íslands gegn íslenska ríkinu.
VAKTÞJÓNUSTA. UPPSÖGN SAMNINGS. EINKENNI KJARASAMNINGS.
D gerði þær dómkröfur að viðurkennt yrði að grein 1.6 um álagsgreiðslur - vaktaálag og 2. kafli um vinnutíma í kjarasamningi Dýralæknafélags Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, dagsettur 28. febrúar 2005, sem framlengdur var þann 28. júní 2008 til 31. mars 2009, gilti um héraðsdýralækna frá 1. janúar 2006. Málavextir voru þeir að D gerði samning um vaktaþjónustu við landbúnaðar- og fjármálaráðuneytið í ágúst 1999. Vaktþjónustusamningurinn var gerður samkvæmt fyrirmælum í IV. kafla laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr sem fjallar um skipan héraðsdýralæknisumdæma. Í 12. gr. laganna er mælt fyrir um að landið skuli skiptast í ákveðin vaktsvæði og að skipulagðar skuli vaktir í samráði við starfandi dýralækna innan hvers vaktsvæðis þannig að dýralæknir sé þar jafnan á vakt. Þá segir að fyrir vaktþjónustuna skuli greiða samkvæmt samningi D við landbúnaðar- og fjármálaráðuneytið. Vaktþjónustusamningnum var sagt upp í lok ágúst 2009 og tók sú uppsögn gildi 1. janúar 2010. Taldi dómurinn að vaktsamningurinn hefði á sér yfirbragð og einkenni kjarasamnings, sbr. ákvæði 3., 4., 9., 10. og 12. gr. laga nr. 94/1986 og taldi að um væri að ræða kjarasamning í skilningi þeirra laga og að eftir honum skyldi farið um greiðslur fyrir vaktþjónustu uns nýr samningur hefði verið gerður, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 94/1986.

7. Dómur Hæstaréttar frá 14. apríl 2011 í máli nr. 412/2010: Íslenska ríkið og Á gegn G og gagnsök.
STJÓRNSÝSLA. RANNSÓKNARREGLA. STÖÐUVEITING. SKAÐABÆTUR. MISKABÆTUR.
G höfðaði mál gegn Í og Á í kjölfar þess að G hlaut ekki skipun í embætti héraðsdómara. Í umsögn dómnefndar samkvæmt 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla kom fram að G og tveir aðrir umsækjendur hefðu staðið öðrum framar og verið mjög vel hæfir til að gegna embættinu. Á, sem þá var settur dóms- og kirkjumálaráðherra, skipaði aftur á móti umsækjanda sem nefndin taldi að stæði framangreindum umsækjendum að baki þrátt fyrir að sá teldist hæfur til að gegna embætti héraðsdómara. Þar sem ekkert lá fyrir um að G hefði staðið nær en aðrir umsækjendur sem taldir voru hæfastir til að hljóta embættið voru Í og Á sýknuð af kröfu G um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna fjártjóns hans. Þrátt fyrir að Á hefði ekki látið orð falla til að vega að persónu eða æru G taldi Hæstiréttur að ekki yrði litið fram hjá því að Á mátti vera ljóst að gerðir hans gætu að ófyrirsynju bitnað á orðspori G og orðið honum þannig að meini. Þrátt fyrir þetta hefði hann gengið fram án þess að skeyta nokkuð um þessa augljósu hættu. Skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 var því talið fullnægt og breytti engu að G hefði ekki átt lögvarinn rétt á að hljóta embættið. Þar sem ekki var talið að ákvæði laga girtu fyrir að ráðherra gæti orðið skaðabótaskyldur eftir almennum reglum vegna stjórnsýsluákvörðunar sinnar voru Í og Á í sameiningu dæmd til að greiða G miskabætur.

8. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. maí 2011 í máli nr. E-5840/2010: Fjársýsla ríkisins gegn B.
OFGREIDD LAUN. ENDURKRAFA.TÓMLÆTI.
B var ráðin sem kennari hjá L með ráðningarsamningi þann 1. september 2003 og var ráðningin ótímabundin. B hafði áður starfað hjá forverum L í meira en tvo áratugi. Í júní 2006 var L lagður niður og staða B þar með. Átti B rétt á biðlaunum á grundvelli starfsmannalaga. Vegna mistaka í launaafgreiðslu af hálfu F voru B ranglega greidd of há laun á árunum 2006 og 2007, þannig að hún fékk tvenn mánaðarlaun í stað einfaldra launa. F kvað mistök þessi ekki hafa komið í ljós fyrr en við endurskoðun og launaleiðréttingar hinn 1. júlí 2007. Í dómnum kom fram að samkvæmt íslenskum rétti gildir sú meginregla að þeir sem fá fyrir mistök greidda peninga sem þeir eiga ekki rétt til, skuli endurgreiða þá. Fram kom einnig að frá þessari reglu væru þó undantekningar eftir því hver atvik væru að ofgreiðslunni og endurkröfu hennar. Við mat á endurkröfu launa hefur þannig sérstaklega verið litið til þess hvort viðtakanda launanna hafi mátt vera ljóst að hann hafi fengið of háa greiðslu. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að B átti rétt til biðlauna í tólf mánuði. Samkvæmt fyrirliggjandi launaseðlum sem sendir voru B voru henni greidd tvöföld mánaðarlaun í ellefu mánuði. Skýringar fyrir greiðslum þessum á launaseðlunum voru annars vegar „mánaðarlaun biðlaun“ og hins vegar „mánaðarlaun“. Voru heildarlaun B því tvöfalt hærri en hún átti að venjast og útborguð laun þar af leiðandi umtalsvert hærri, þó svo B greiddi hlutfallslega hærri skatt af laununum. Í greinargerð B var því haldið fram að hún hafi fengið rétt sinn til greiðslna staðfestan í símtali við F. B gaf ekki aðilaskýrslu fyrir dómi né voru leidd fram vitni eða lögð fram gögn er gátu staðfest þessa fullyrðingu og var hún því metin ósönnuð. Að mati dómsins varð því að leggja til grundvallar að B hefði mátt vera ljóst að um mistök við útreikning launa var að ræða er B fékk greidd tvöföld mánaðarlaun án nokkurs vinnuframlags. Af hálfu F var því haldið fram að F hefði orðið mistakanna áskynja við endurskoðun og launaleiðréttingar 1. júlí 2007. Taldi fyrirsvarsmaður F, í skýrslu sinni fyrir dómi, að B hefði í kjölfar þess verið gerð grein fyrir mistökunum. Fyrsta bréf F til B var hins vegar dagsett 11. september 2008. Gegn andmælum B verður að leggja til grundvallar að ósannað sé að F hafi gert reka að endurgreiðslukröfu sinni úr hendi B fyrr en með framangreindu bréfi. Hins vegar liggur fyrir að B var hinn 1. júlí 2007 sendur launaseðill þar sem heildarlaun B vegna 1. júlí 2006 til 31. maí 2007 voru leiðrétt. Fékk B því ekki greidd biðlaun vegna júnímánaðar það ár. Féllst dómurinn á það með B að F hefði sýnt af sér tómlæti við endurheimtu kröfunnar en féllst ekki á að það væri slíkt að leiddi til réttindamissis. Þá sagði í dómnum að B hefði mátti vita að um mistök var að ræða og hlaut því að gera ráð fyrir því að þau yrðu leiðrétt fyrr eða síðar. Var endurgreiðslukrafa F á hendur B þvi tekin til greina.

9. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. júní 2011 í máli nr. E-6651/2010: H gegn Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi.
ÁMINNING.
H var framkvæmdastjóri lækninga á HSB en var í fæðingarorlofi frá 1. janúar 2010 til 1. júlí 2010 og síðan áfram í orlofi frá og með 1. júlí 2010 til og með 31. ágúst 2010. Í leyfi H gegndi S læknir stöðu framkvæmdastjóra lækninga hjá HSB. Í lok mars 2010 réð forstjóri HSB lækninn A til starfa og hóf hann störf í apríl 2010. Fljótlega eftir að A hóf störf fékk forstjóri HSB tilkynningar frá starfsfólki að komið hefði verið að A sofandi á skrifstofu sinni a.m.k. tvisvar sinnum. Ræddi forstjóri HSB þau tilvik við A sem kvaðst lítið hafa getað sofið þær nætur vegna höfuðverkja. Í maí 2010 fékk forstjóri HSB erindi í tölvupósti frá S, settum framkvæmdastjóra lækninga. Þar mæltist S til þess að A yrði sagt upp störfum að loknum reynslutíma. Taldi hann að ekki væri allt með felldu með störf læknisins og heilsufar hans. Á fyrstu 3 vikum hans í starfi hafi þrír starfsmenn komið að honum sofandi í vinnutíma á bekk á stofu hans. H hafi síðan komið að máli við forstjóra HSB í maí 2010 og óskað eftir því að A yrði látinn fara í lok reynslutíma, þ.e. í lok júní 2010. Í júlí 2010 hafi H komið aftur að máli við forstjóra HSB og ítrekað þá skoðun sína að A væri óhæfur til starfa hjá stofnuninni og að H treysti sér ekki til að vinna með honum. H hafi enn komið að máli við forstjóra HSB um miðjan ágúst 2010 og ítrekað fyrri beiðni og skoðanir á A og að hann yrði að fara frá störfum. H tók síðan sýni úr gosdrykkjarflösku A án vitundar hans og sendi til rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði í ágúst 2010 með beiðni um ávana- og fíkniefnaleit í vökva með áherslu á slævandi lyf. Niðurstaða barst HSB 7. september 2010, sem leiddi ekkert óeðlilegt í ljós. Forstjóri HSB upplýsti A um málið þann 9. september 2010 og tilkynnti það landlæknisembættinu með bréfi dags. 13. september 2010. Sama dag sagði A upp störfum hjá HSB og óskaði eftir því að verða leystur frá störfum tafarlaust. Með bréfi HSB, dags. 14. september 2010, var H sent bréf vegna fyrirhugaðrar áminningar á grundvelli 21. gr. starfsmannalaga vegna framangreindrar háttsemi. Var H gefinn andmælafrestur til 28. september 2010. Andmæli við boðaða áminningu komu frá lögmanni H með bréfi, dags. 12. október 2010. Með bréfi HSB, dags. 18. október 2010, var H síðan veitt áminning samkvæmt 21. gr. starfsmannalaga fyrir að hafa brotið starfsskyldur sínar með hegðun sem væri óhæfileg og ósamrýmanleg starfi hans sem læknis, með því að taka sýni úr drykk í eigu A og senda það til rannsóknar á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði og beðið um ávana- og fíkniefnaleit með áherslu á slævandi lyf, án vitundar viðkomandi læknis. A taldi að ekki hafi verið grundvöllur til þess að veita honum áminningu og höfðað mál gegn HSB til ógildingar áminningu. Um hegðun H segir í niðurstöðu dómsins að H hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að taka sýni úr drykk starfandi læknis hjá HSB og senda það til rannsóknar á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði. Gerði H þetta án vitundar viðkomandi læknis og án þess að láta forstjóra HSB, yfirmann sinn vita. Gerði H þetta þrátt fyrir að hann vissi eða mátti vita að framkvæmd slíkrar rannsóknar væri einungis á hendi landlæknis. Féllst dómurinn ekki á að þetta hafi verið réttlætanlegt vegna sjónarmiða um öryggi og velferð sjúklinga HSB eða að H hafi sem faglegum yfirstjórnanda borið að bregðast við með þessum hætti. Um tilefni áminningar sagði dómurinn að samkvæmt 21. gr. starfsmannalaga skal forstöðumaður stofnunar veita starfsmanni skriflega áminningu ef framkoma hans eða athafnir í starfi þykja ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. Mat dómurinn það svo að hegðun H, að taka með leynd sýni úr drykk hjá lækni sem starfaði hjá HSB og senda til rannsóknar á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, verði að telja óhæfilega og ósamrýmanlega starfi H og ekki í samræmi við starfsskyldur hans samkvæmt 14. gr. starfsmannalaga. Taldi dómurinn því þessa hegðun H ekki samrýmast starfi hans hjá HSB og forstjóra HSB hafi því borið að veita honum áminningu, eins og gert var. Taldi dómurinn að fullt tilefni hefði verið til þess að veita H áminningu vegna þessa. Féllst dómurinn ekki á þá málsástæðu H að áminning við þær aðstæður sem hér um ræddi hefði ekki þau varnaðaráhrif sem að var stefnt. Var HSB því sýknað af kröfu H. Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 505/2011.

10. Dómur Félagsdóms frá 8. júní 2011 í máli nr. 3/2011: BHM f.h. Félags lífeindafræðinga gegn íslenska ríkinu vegna Sjúkrahússins á Akureyri.
ÚTKALL. UPPSÖGN. VENJUBUNDIN FRAMKVÆMD.
Kröfur B vörðuðu túlkun og framkvæmd á ákvæðum 2.3.3.1 og 2.3.3.2 í kjarasamningi Félags lífeindafræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, dags. 28. febrúar 2005, sem endurnýjaður var með samkomulagi dags. 28. júní 2008. B byggði kröfur sína aðallega á því að SA gæti ekki einhliða breytt áralangri framkvæmd sem væri í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamninga. Með slíku greiðslufyrirkomulagi um langt skeið hafi tryggilega verið fest í sessi tiltekin túlkun á ákvæðum kjarasamnings aðila sem ekki yrði breytt einhliða enda um lögbundin lágmarkskjör að ræða. Taldi B að breyting á gildandi fyrirkomulagi yrði ekki náð fram nema með uppsögn kjarasamnings eða breytingu á viðeigandi ákvæðum við endurnýjun. B byggði kröfu sína og á því að áður en ákvörðun sú sem SA kynnti með bréfi í júní 2009 tók gildi hafi félagsmenn B fengið greitt fyrir hvert útkall og gilti þá einu hvort annað útkall fylgdi í kjölfarið. Var þessi framkvæmd viðhöfð um langt árabil í fullri sátt milli aðila og félagsmönnum B greitt í samræmi við hana. Með tilkynningu sinni hafi SA freistað þess að breyta þessari réttarstöðu einhliða félagsmönnum B til tjóns, án þess að færa rök fyrir því við hvaða heimild þessi framganga styddist. Ríkið mótmælti því að framkvæmd SA hefði verið í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamnings. Skilningur ríkisins á greinum 2.3.3.1 og 2.3.3.2 hafi ætíð verið sá að þegar útköll sem liggja nálægt í tíma, að lágmarksgreiðsla næsta útkalls á undan er ekki lokið, þegar hið næsta hefst gildi sú regla að greiða skuli fyrir samfelldan tíma frá upphafi fyrsta útkalls til loka þess síðasta. Þessi skilningur hafi komið skýrlega fram í málsástæðum og lagarökum ríkisins í dómi Félagsdóms í máli nr. 13/2002 og í skýringum með sumum sérútgáfum kjarasamninga fyrir hvert stéttarfélag innan BHM. Þetta ætti t.d. við um sérútgáfu á kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Í skýringum með þeim kjarasamningi kemur fram að sé um endurtekin útköll að ræða með stuttu millibili skuli greiða samfelldan tíma frá upphafi fyrra/fyrsta útkalls þangað til síðara/síðasta útkalli lýkur. Þó svo að þessi skýring væri ekki í öllum sérútgáfum fælist ekki í því viðurkenning af hálfu ríkisins á mismunandi túlkun á samhljóða ákvæðum samkomulagsins. Fram komi í niðurstöðu dómsins að óumdeilt væri að félagsmönnum B hjá SA hefði um langa hríð verið greitt fyrir hvert útkall óháð því hvenær fyrra útkalli lauk. Var jafnframt ljóst af gögnum málsins að sú framkvæmd var við lýði þar til 1. október 2009. Þegar venja hefur myndast um framkvæmd og túlkun kjarasamnings hefur hún svipað gildi og kjarasamningur og verður ekki breytt einhliða af öðrum samningsaðila. Það varð því niðurstaða dómsins að í ljósi efnis kjarasamningsins frá 2005 að þessu leyti og þeirrar venju, sem óumdeilt er að skapast hafði samkvæmt framansögðu um greiðslur vegna útkalla, mátti B treysta því að greitt yrði fyrir útöll til samræmis við þá venju. Féllst því dómurinn á það með B að slíkri venjubundinni framkvæmd yrði almennt ekki breytt nema með nýjum kjarasamningi milli aðila. Breyti engu um þá niðurstöðu þótt fjármálaráðuneytið hafi gengið út frá því að framkvæmdin væri með öðrum hætti en raunin var. Þá var ekki fallist á það að hin venjubundna framkvæmd SA teldist vera einhliða ákvörðun á sviði stjórnunarréttar vinnuveitanda sem segja mætti upp einhliða.

11. Dómur Félagsdóms frá 14. júlí 2011 í máli nr. 9/2011 (óbirtur): Félag prófessora við ríkisháskóla gegn íslenska ríkinu.
MARKMIÐSÁKVÆÐI KJARASAMNING. BREYTING Á STARFSSKYLDUM.
F krafðist þess m.a. að viðurkennt yrði að ákvörðun háskólaráðs HÍ sem tekin var þann 17. desember 2010, nr. 12/2010, um breytingar á stjórnunar- og kennsluskyldu prófessora, væri andstæð markmiðsákvæði í kjarsamningi F og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sem undirritaður var 21. desember 2009. Í kjarasamningnum var að finna markmiðsákvæði þar sem sagði m.a.: „Samningsaðilar eru einhuga um að stuðla áfram að bættum gæðum háskólastarfsins og standa vörð um frelsi prófessora til sjálfstæðra rannsókna. Rannsóknarþáttur starfs þeirra er lykilatriði í því sambandi. Samningsaðilar eru sammála um að skipting vinnutíma prófessora milli kennslu, stjórnunar og rannsókna sem í gildi er við undirritun, sbr. samþykkt háskólaráðs Háskóla Íslands frá 7. apríl 2006, sé forsenda samningsins og taki ekki breytingum á gildistíma hans nema með samkomulagi við aðila samnings þessa.“ Umrædd skipting vinnutíma var byggð á reglum HÍ um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við HÍ sem samþykktar voru í háskólaráði. Þar var mælt fyrir um að starfsskyldur prófessora skiptust í 48% kennslu, 40% rannsóknir og 12% stjórnun. Á fundi háskólaráðs hinn 17. desember 2010 var tekin sú ákvörðun að breyta stjórnunar- og kennsluskyldu lektora, dósenta og prófessora um sex prósentustig, úr 48% í 54% og átti hækkunin að taka gildi 1. júlí 2011 og endurskoðast eigi síðar en í árslok 2011. F mótmælti breytingunum m.a. á grundvelli þess að F taldi að þær stæðust ekki markmiðsákvæði gildandi kjarasamnings prófessora og HÍ gæti ekki tekið einhliða ákvörðun um breytinguna. Í taldi að þessum hluta markmiðskaflans hefði ekki verið ætlaður lengri líftími en fram kom í honum sjálfum, þ.e. til 30. nóvember 2010, sbr. grein 17.1.1 í kjarasamningnum. Háskólaráð hafi tekið ákvörðun um breytinguna eftir að samningstíminn var liðinn og hafi ákvörðun ráðsins því ekki farið gegn þeim afmarkaða hluta markmiðsákvæðis kjarasamningsins. Ákvörðunin hafi því ekki verið andstæð markmiðsákvæðinu. Í niðurstöðu dómsins kom fram að líta yrði svo á að kjarsamningurinn hefði runnið sitt skeið á enda, án uppsagnar, samkvæmt ákvæðum sínum sem jafngilti því að honum hefði réttilega verið sagt upp. Taldi dómurinn því að 11. gr. laga nr. 94/1986 ætti ekki við heldur yrði að líta til reglu 2. mgr. 12. gr. laganna og langrar dómvenju um að fara beri eftir kjarasamningi, sem runnin er út, þar til nýr samningur hefði verið gerður. Ekkert kom fram í málinu sem leiddi líkur að því að önnur regla ætti við að þessu leyti um markmiðsákvæði kjarasamningsins. Niðurstaða dómsins var því sú að hann taldi markmiðsákvæði samningsins hafa verið í gildi þegar hin umdeilda ákvörðun háskólaráðs var tekin og því um að ræða breytingu á kjarasamningsákvæði sem ekki varð breytt einhliða með þeim hætti sem gert var. Viðurkenningarkrafa F var því tekin til greina.

12. Dómur Héraðsdóms Vestfjarða frá 10. ágúst 2011 í máli nr. E-170/2009: H gegn íslenska ríkinu og Agar ehf.
LÍKAMSTJÓN. ATVINNUSJÚKDÓMUR.
Árið 1997 hóf H störf hjá útibúi R á Ísafirði. Útibúið var þá staðsett í austurenda hússins að Á 2-4 en þar mun útibúið hafa verið með starfsemi frá árinu 1975. Árið 1999 flutti R starfsemi sína í nýuppgert húsnæði Þ í vesturenda hússins að Á 2-4. H starfaði hjá R þar til í maí 2004 en þá hóf H störf hjá stefnda A. sem á þeim tímapunkti tók yfir hluta þeirra verkefna sem R hafði áður sinnt. Tók A á leigu hluta þess húsnæðis sem R hafði nýtt undir starfsemi sína, auk þess sem félagið leigði húsbúnað og tæki frá R. A hafði verið stofnað skömmu áður af þremur eigendum fisk- og rækjuverksmiðja í þeim tilgangi að reka rannsóknarþjónustu fyrir sjávarútvegsfyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum. Á árunum 1997 til 2000 leitaði H ítrekað til lækna vegna hósta og öndunareinkenna, og tvisvar árið 2000 vegna langvarandi höfuðverkja og ógleði, án þess að niðurstaða fengist um hvað að H amaði. Í september 2005 vísaði yfirlæknir FSÍ H til S, lungna- og atvinnusjúkdómalæknis, sem greindi H með astma og ofnæmiskvef. Í læknabréfi S frá 24. október 2005 segir meðal annars að greinileg tenging sé á milli einkenna H og vinnu. Þá lýsir læknirinn því áliti sínu „... að sagan renni mjög styrkum stoðum undir það að einkennin séu í raun tengd a.m.k. að einhverju leyti vinnustaðnum.“ Í matsgerð undirmatsmanna frá 21. desember 2007 segir meðal annars: „Sambandið milli vinnuaðstæðna matsbeiðanda og núverandi heilsufarseinkenna, það er vægs astmasjúkdóms, langvinnrar nefbólgu, nefkoksbólgu, og kokbólgu, langvinnrar barkakýlisbólgu og barkakýliskrampa (truflun á raddböndum), sem hún hefur virðist vera nokkuð skýrt.“ Var það niðurstaða matsmannanna að H væri haldin atvinnusjúkdómum. Fram kom m.a. í niðurstöðu dómsins að við mat á mögulegu saknæmi þess vinnufyrirkomulags R og A að láta starfsmenn vinna án persónuhlífa fyrir öndunarfæri við ætagerð þykir verða að líta til 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og 3, 5 og 8. gr reglna nr. 467/1994. Að fyrirmælum ákvæðanna og öðru sem fram kom heildstætt virtu var það álit dómsins að vinnuaðstæður H við ætagerð, sem sannað þykir með framburðum vitna að H hafi sinnt í nokkrum mæli í störfum sínum hjá R og A, hafi ekki verið forsvaranlegar. Með því að láta H vinna við ætagerð án persónuhlífa fyrir öndunarfæri, eða eftir atvikum á hluta starfstíma H hjá stefnda A án fullnægjandi persónuhlífa, í húsnæði sem ekki var nægjanlega vel lofræst, sýndu R og A bæði af sér saknæma og ólögmæta háttsemi í skilningi skaðabótaréttar. Taldi dómurinn nægar líkur til þess að veikindi H mætti rekja til hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi R og A og voru þeir því dæmdir til að greiða H skaðabætur vegna veikinda.

13. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. september 2011 í máli nr. E-7453/2010: V gegn íslenska ríkinu.
STARFSLOKASAMNINGUR.
V varðstjóri öryggisdeildar og J lögreglustjóri gerðu samkomulag um starfslok V við embætti lögreglu- og tollstjórans á Suðurnesjum. Þann 1. janúar 2009 tók Keflavíkurflugvöllur ohf. til starfa í samræmi við lög nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. V þáði laun hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum til ársloka 2008. Þann 1. janúar 2009 hóf samgönguráðuneytið að greiða V biðlaun og greiddi V föst mánaðarlaun auk greiðslna fyrir 18 yfirvinnustundir á mánuði fyrstu 6 mánuði ársins. Með bréfi í júlí 2009 tilkynnti Fjársýsla ríkisins V að Samgönguráðuneytið hefði falið Fjársýslunni að stöðva greiðslur til V þar sem ráðuneytið teldi sig fyrir misskilning hafa tekist þær á hendur og yrði því ekki um frekari launagreiðslur að ræða. Lögmaður V ritaði Lögreglustjóranum á Suðurnesjum bréf í apríl 2010 og krafðist þess að embættið lyki við uppgjör starfslokasamnings V í samræmi við efni hans. Embættið varð ekki við kröfu V og höfðaði V því mál á til greiðslu kröfunnar. Í niðurstöðu dómsins var fallist á það með V að samkomulagið hafi verið „starfslokasamningur“. Fram kom í dómnum að í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins væru ekki ákvæði um starfslokasamninga. Þeir væru þar hvorki heimilaðir eða bannaðir og skipti ekki máli í því sambandi þótt starfsmanni kunni við starfslok að vera ákveðin betri starfslokakjör en lög nr. 70/1996 mæla almennt fyrir um. Taldi dómurinn að ekki hefði af hálfu Í verið sýnt framá að neitt í ráðningarsambandi V stæði í vegi fyrir samningi af þessu tagi þ.m.t. ákvæði kjarasamnings. Starfslokasamningar hafi verið tíðkaðir um árabil og orðið andlag fyrirspurna og umræðna á Alþingi, sbr. 118. löggjafarþingið 1994, þingskjal 263 og 122. löggjafarþingið 1997-1998, þingskjal 1401. Þá hafi samningar af þessu tagi ítrekað komið til opinberrar umræðu á vettvangi fjölmiðla og orðið andlag álits Umboðsmanns Alþingis, sbr. mál nr. 4962/2007. Þrátt fyrir að samningar af þessu tagi hafi oft á tíðum verið gagnrýndir m.a. á Alþingi hefði löggjafinn ekki séð ástæðu til að setja umræddum samningum t.d. hvað ríkisstarfmenn varðar efnisleg takmörk eða skilyrði. Taldi dómurinn að Í yrði að bera sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu að samningurinn hefði hvað efni varðar brotið í bága við lög nr. 70/1996 eða aðrar bindandi reglur um starfslok ríkisstarfsmanna og uppgjör greiðslna þeim samfara eða ráðningarsamning V eins og Í hélt fram. Engin slík sönnun lá fyrir í málinu að mati dómsins og varð Í að bera hallann af því. Einnig var því haldið fram af Í að samningurinn væri ekki skuldbindandi fyrir Í þar sem ekki hafi verið aflað heimildar í fjárlögum eða fjáraukalögum til gerðar hans, sbr. ákvæði laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins. Um þetta sagði í niðurstöðu dómsins að ekki hefi verið sýnt framá af hálfu Í að greiðslur til V samkvæmt umræddu samkomulagi hefðu ekki rúmast innan þeirra fjárheimilda sem Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafði samkvæmt fjárlögum á árinu 2008 eða 2009 eða V eigi samkvæmt lögum eða öðrum réttarheimildum að bera hallann af að slík heimild hafi ekki verið til staðar eða hennar ekki aflað enda enginn fyrirvari um slíkt í samkomulaginu. Féllst dómurinn því ekki á umrædda málsástæðu Í. Í hélt því einnig fram að samningurinn hefði ekki verið skuldbindandi þar sem hann hefði ekki verið staðfestur af dómsmála- eða fjármálaráðuneyti. Um þessa málsástæðu sagði dómurinn að Í hefði ekki sýnt framá að slíkrar staðfestingar hefði verið þörf samkvæmt lögum eða öðrum bindandi réttarheimildum og hafnaði dómurinn því þessari málsástæðu. Niðurstaða dómsins var því sú að Í var dæmt til að greiða kröfu V. Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 655/2011.

14. Dómur Félagsdóms frá 3. nóvember 2011 í máli nr. 12/2011 (óbirtur): Íslenska ríkið gegn Starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
BOÐUN VERKFALLS. ATKVÆÐAGREIÐSLA.
S tilkynnti Í um boðun vinnustöðvana í nóvember og desember 2011. Í lýsti því yfir að framkvæmd atkvæðagreiðslu um boðaðar vinnustöðvanir hefði ekki farið fram réttan hátt og yrði vinnustöðvun samkvæmt henni ólögmæt ef til hennar kæmi. S mótmælti þessum skilningi Í og lýsti því yfir að boðuð vinnustöðvun myndi koma til framkvæmda. Fyrir Félagsdóm hélt Í því fram að við framkæmd atkvæðagreiðslu hefði ekki verið fylgt þeim reglum sem mæla fyrir um hvernig staðið skyldi að löglegri vinnustöðvun til að stuðla að framgangi krafna í deilu um kjarasamning skv. 14. gr. lag nr. 94/1986. Hélt Í því fram að í 15. gr. laga nr. 94/1986 væri boðun verkfalls í eintölu en vinnustöðvun S nái til fjölda sjálfstæðra vinnustöðvana. Leit Í því svo á að samkvæmt orðanna hljóðan hefðu félagsmenn S átt að kjósa um hverja vinnustöðvun fyrir sig en ekki í einu lagi, eins og framkvæmd S var og atkvæðaseðill bar með sér. Fram kom í niðurstöðu dómsins að í lögum nr. 94/1986 væri ekki til að dreifa neinum nánari ákvæðum um atkvæðagreiðslu félagsmanna um verkfallsboðun en greinir í 15. gr. laganna og samkvæmt lögskýringargögnum um forsögu þessa ákvæðis var ekki gerð krafa um ákveðið form við atkvæðagreiðslu vegna verkfallsboðunar. Í dómnum sagði jafnframt að samkvæmt vinnurétti væri almenn regla að stéttarfélög hefðu nokkuð frjálsar hendur um að ákveða hve víðtæk vinnustöðvun væri og um framkvæmd hennar að öðru leyti. Ljóst væri að lögboðin atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun yrði að vera fullnægjandi þannig að tryggt væri að afstaða viðkomandi félagsmanna lægi fyrir með skýrum og ótvíræðum hætti. Boðað verkfall S fæli í sér að félagsmenn S, leggðu niður venjuleg störf sín að hluta til á því tímabili sem tiltekið var í verkfallsoðuninni en gengu að öðru leyti til verka á tímabilinu. Þótti dómnum því eðlilegt að virða hina boðuðu verkfallsaðgerð heildstætt sem eina vinnustöðvun en ekki sem fleiri sjálfstæðar vinnustöðvanir og féllst ekki á að þeir ágallar hafi verið á atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem Í hélt fram, enda bar þá engin nauðsyn til þess að fram færi sérstöð atkvæðagreiðsla um hverja verkfallslotu samkvæmt verkfallsboðuninni. Var S því sýknað af kröfu Í.

15. Dómur Hæstaréttar frá 10. nóvember 2011 í máli nr. 700/2010: F gegn Landsspítala og gagnsök.
LÆKKAÐ STARFSHLUTFALL.
F starfaði sem yfirlæknir á L. Samkvæmt ráðningarsamningi var starfshlutfall hans 70%. Þetta starfshlutfalla var hækkað í 100% með skriflegu samkomulagi í nóvember 2000. Samhliða starfi sínu á spítalanum rak F eigin læknastofu. Ekki var um það deilt í málinu að þegar starfshlutfall F hækkaði í 100% í nóvember 2000 dró hann jafnframt úr eigin rekstri. Upplýst var við skýrslutökur fyrir dómi að á tímabilinu frá 1. júní 2006 hafi F sinnt störfum á eigin stofu fyrir hádegi tvo daga vikunnar. Í kjarasamningi milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og St. Franciskuspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar, sem undirritaður var 2. maí 2002 með gildistímann frá 1. apríl 2002 til 31. desember 2005, var gerð sérstök bókun, bókun 2, er tók til þeirra lækna sem ráku læknastofur jafnhliða starfi sínu. Skyldu þeir eiga val um hvort þeir lækkuðu starfshlutfall sitt um fimmtung eða tækju laun samkvæmt launatöflu sem væri 20% lægri en launatafla í grein 3.1.1. Ef læknir veldi að lækka starfshlutfall sitt átti sú ákvörðun að taka gildi frá og með næstu mánaðamótum eftir að tilkynning um það bærist yfirmanni hans. F óskaði ekki eftir að starfshlutfall hans lækkaði. Í samræmi við bókun 2 fékk hann því greidd laun er tóku mið af 80% starfshlutfalli eftir gildistöku kjarasamningsins 2002. Nýr kjarasamningur milli sömu aðila var undirritaður í mars 2006 með gildistöku frá 1. febrúar sama ár til 30. apríl 2008. Þar var ekki fjallað sérstaklega um launagreiðslur eða starfshlutfall lækna sem ráku eigin læknastofur samhliða starfi hjá L. Frá 1. júní 2006 var starfshlutfalli F breytt í tímaskráningakerfi Landspítalans (Vinnustund) úr 100% í 80%. og hafi launagreiðslur til F frá og með þeim degi tekið mið af þessu starfshlutfalli. F krafði L um leiðréttingu á launum sínum en L hafnaði alfarið kröfu F. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að af gögnum málsins, einkum ráðningarsamningi og framlögðum launaseðlum, og framburði aðila og vitnis, verði ráðið að F hafi verið ráðinn í fast starf hjá L með þeim skilmálum að F ætti rétt á fullum launum fyrir dagvinnu er tækju mið af starfshlutfalli án tillits til tímamælinga á viðverustundum hans. Í ráðningarsamningi aðila var kveðið á um að starfshlutfall stefnanda væri 100%, sbr. breytingu á samningnum 7. nóvember 2000, en engar breytingar voru gerðar á samningi þessum í kjölfar kjarasamnings Læknafélags Íslands við fjármálaráðherra sem undirritaður var 2. maí 2002. Ráðningarsamningurinn hefur að geyma ákvæði þess efnis að hann sé uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara. Í samræmi við almennar reglur samninga- og vinnuréttar, sem og 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 4. gr. reglna nr. 351/1996 um form ráðningarsamninga og um skyldu til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör taldi dómurinn að L hafi ekki getað breytt einhliða þessu umsamda starfshlutfalli nema með því að segja upp þeim þætti ráðningarsamningsins enda leiddi hún til skerðingar á launum eða öðrum starfskjörum F. Slíka breytingu mátti einnig gera með samkomulagi milli samningsaðila. Fram kemur í héraðsdómi að framlagðir launaseðlar gefi til kynna að F hafi fengið greidd laun fyrir 100% starf frá gildistöku nýs kjarasamnings milli Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra 1. febrúar 2006 til 1. júní sama ár. Þetta hlutfall var lækkað í tímaskráningarkerfi stefnda frá 1. júní 2006 og eftir það hafi laun F tekið mið af 80% starfshlutfalli. Ekki liggur fyrir að F hafi veitt samþykki sitt fyrir þessari lækkun áður en hún tók gildi. Þá verður ekki séð að L hafi sagt upp starfshlutfalli F samkvæmt ráðningarsamningi, en slíka breytingu varð að tilkynna með skriflegum hætti og með þeim fyrirvara sem gilti um uppsögn viðkomandi ráðningarsamnings þar sem hún leiddi til skerðingar á launakjörum F. Með hliðsjón af framangreindu taldi héraðsdómur að einhliða breyting á skráðu starfshlutfalli F í tímaskráningarkerfi stefnda, er tók gildi 1. júní 2006, hafi ekki verið lögmætur grundvöllur skerðingar á launum F. Í málinu lá einnig fyrir að F undirritaði samkomulag við L 5. júní 2007 um leyfi frá störfum frá 1. júlí 2007 til 31. desember 2007. Leit héraðsdómur svo á að rétt væri að líta svo á að F hafi með undirritun samkomulagsins 5. júní 2007 samþykkt að vinnuskylda hans skyldi ekki vera 100% frá 1. júlí 2007 heldur 80%. Í því ljósi var ekki unnt að fallast á að F ætti kröfu um laun fyrir 100% starf frá 1. júlí 2007 til ársloka 2009 eins og krafist var í fyrsta lið kröfugerðar F. Með sömu rökum kom annar liður kröfugerðar F heldur ekki til álita og var L sýknað af þeirri kröfu í héraðsdómi. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

16. Dómur Hæstaréttar frá 24. nóvember 2011 í máli nr. 257/2011: K gegn íslenska ríkinu.
RÁÐNINGARSAMNINGUR. FORSENDUR. UPPSÖGN. BARNSHAFANDI.
Sjá reifun héraðsdóms í lið nr. 4 hér á undan. Fram kom í dómi Hæstiréttar að K hefði reist kröfu sína á hendur stefnda á því að G hefði verið óheimilt að segja henni upp störfum vegna ákvæða 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Óumdeilt var að uppsögn K tengdist því ekki að hún hefði tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs, heldur greindi aðila á um hvort gildar ástæður hefðu búið að baki uppsögninni í skilningi lagagreinarinnar. K hafði ekki sérmenntun á því sviði sem starf hennar hjá G laut að og kvað K að í byrjun janúar 2010 hafi sér verið gerð grein fyrir að til stæði að ráða í sinn stað starfsmann með slíka sérþekkingu. Var sú ákvörðun einnig kynnt starfsmönnum G með tölvubréfi 1. febrúar 2010. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms varð uppsögn K ekki talin hafa verið andstæð 30. gr. laga nr. 95/2000 og var héraðsdómur þar sem Í var skýknað af kröfu K staðfestur.

17. Dómur Félagsdóms frá 19. desember 2011 í máli nr. 10/2011 (óbirtur): Félag háskólakennara gegn íslenska ríkinu vegna Háskóla Íslands.
YFIRVINNULAUN. KENNSLUSKYLDA. STUNDAKENNARATAXTI.
F krafðist þess að viðurkennt yrði að HÍ hefði brotið grein 1.5.6 í kjarasamningi Félags háskólakennar og Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs með því að greiða ekki akademískum starfsmönnum Raunvísindastofnunar HÍ yfirvinnulaun fyrir kennslu umfram vinnuskyldu. Málavextir voru þeir að svonefndir akademískir starfsmenn sem ráðnir voru til rannsókna- og fræðistarfa hafa ekki kennsluskyldu við háskólann en einstakar deildir HÍ hafa þó frá upphafi leitað til þeirra um að taka að sér kennslu. Til að byrja með hafi umfang slíkrar kennslu hjá hverjum og einum verið nánast án takmarka en snemma hafi verið sett mörk á fjölda þeirra kennslustunda, sem hverjum starfsmanni var heimilað að taka að sér, með vísan til þess að slík vinna hlyti að koma niður á öðrum starfsskyldum ef í óhófi væri. Á árinu 2001 hafi verið sett þak á leyfilegar yfirvinnustundir og laun fyrir þá yfirvinnu fastsett við tiltekinn launaflokk. Um kennslu hvers og eins akademísks starfsmanns hafi svo verið gert sérstakt samkomulag fyrir hvert skólaár eða misseri. Í febrúar 2010 ákvað háskólaráð að frá og með 1. júlí 2010 skyldi greitt fyrir kennslu akademískra starfsmanna samkvæmt svokölluðum stundakennarataxta. F mótmælti þessu og taldi að HÍ færi gegn kjarasamningum félagsins og skoraði á HÍ að draga ákvörðun sína til baka. Fyrir Félagsdómi byggði F kröfu sína í fyrsta lagi á því að umræddur kjarsamnigur frá 30. apríl 2001 gilti fullum fetum, þar á meðal ákvæði hans í grein 1.5.6, enda skyldu áður gerðir kjarasamningar halda gildi sínu samkvæmt ákvæði kjarsamnings frá 28. febrúar 2005, í öðru lagi hafi HÍ um áratugaskeið virt í verki þau kjör að miða við tiltekinn launaflokk og einhliða ákvörðun um að hverfa frá því fái ekki staðist, í þriðja lagi á því að skapast hefði venja um túlkun á ákvæðum samninga um kaup og kjör akademískra starfsmanna og í fjórða lagi á því að HÍ hefði í raun fallið frá ákvörðun sinni að hluta eða viðurkennt ólögmæti kauplækkunarinnar með því að gauka að starfsmönnunum viðbótargreiðslu sem þóknun samkvæmt eigin ákvörðun. Af hálfu Í var sýknukrafa fyrst og fremst byggð á því að umrætt ákvæði í grein 1.5.6 væri ekki lengur til staðar, enda hefði ákvæðið fallið niður með kjarsamningnum frá 28. febrúar 2005. Vísaði Í í því sambandi til heildarútgáfu samningsins frá maí 2007, sem báðir aðilar höfðu unnið að, en þar sé umrætt ákvæði ekki að finna. Þá mótmælti Í því að kjarsamningur aðila gæti tekið til aukastarfa starfsmanna, sbr. ákvæði laga nr. 94/1986, en ákvæði um yfirvinnu í kjarasamningum eigi eingöngu við um aðalstarf. Þá mótmælti Í því að venja um framkvæmd hefði myndast eða að umrædd kjör hefðu um langa hríð verið virt í verki auk þess sem ekki gæti skipt máli þótt HÍ hefði í einhverjum tilvikum greitt þóknun ofan á stundakennarataxta. Félagsdómur féllst á það með Í að ákvæði 1.5.6 hefði verið fellt úr gildi og dómkrafa F ekki tekin til greina á þeim grundvelli að umrætt ákvæði væri gildandi samkvæmt kjarasamningi. Um rök F að venja hefði skapast um framkvæmdina sagði Félagsdómur að við slíkar aðstæður verði að gera nokkuð strangar kröfur til myndunar venju sama efnis og hið niðurfellda ákvæði, enda er þá ekki um að ræða venju til skýringar og fyllingar á kjarsamningsákvæði. Að þessu athuguðu taldi Félagsdómur að ekki yrði talið að F hefði sýnt fram á að venja hefði skapast í þessa veru og var dómkrafan ekki tekin til greina á þessum grundvelli. Einnig taldi Félagsdómur að dómkrafa F gæti ekki náð fram að ganga á þeim grundvelli að HÍ hefði virt í verki umrædd kjör eða greitt umfram taxta. Var Í því sýknað af kröfu F.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira