Hoppa yfir valmynd
1. mars 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dómar uppkveðnir árið 2012

| Hæstiréttur - dómar | Héraðsdómstólar - dómar | Félagsdómur |

Á árinu 2012 voru kveðnir upp tuttugu dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess, fjórir hæstaréttardómar, tólf héraðsdómar og fjórir félagsdómar.

Hér að neðan er að finna upptalningu á nefndum dómum ásamt atriðisorðum og reifunum:

1. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. janúar 2012 í máli nr. E-2961/2010: S gegn Fangelsismálastofnun
LAUSN EMBÆTTISMANNS VEGNA HEILSUBRESTS.

Sjá dóm Hæstaréttar frá 20. desember 2012 í máli nr. 236/2012, sbr. lið nr. 20 hér að neðan.

2. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. janúar 2012 í máli nr E-2019/2011: S gegn Landspítala.
SKAÐABÆTUR VEGNA UPPSAGNAR.

S var starfsmaður í tölvudeild Sjúkrahúss Reykjavíkur frá 1996. Er sjúkrahúsin í Reykjavík voru sameinuð á árinu 2001 varð S verkefnastjóri á upplýsingatæknisviði hins sameinaða sjúkrahúss. Fundur var haldinn með starfsmönnum sviðsins 6. september 2006 þar sem kynnt var greinargerð um stefnumótun og nýtt skipulag sviðsins. Með bréfi 28. sama mánaðar var S tilkynnt að starf hans yrði lagt niður við skipulagsbreytingarnar. S krafðist rökstuðnings fyrir ákvörðuninni og þá kom fram að hagræðing og skipulagsbreytingar í rekstri upplýsingatæknisviðsins hefðu leitt til þess að leggja yrði starf hans niður. S sætti sig ekki við þessa ákvörðun og höfðaði mál á hendur stefnda í október 2006. Þar krafðist S þess að ákvörðun um uppsögn yrði felld úr gildi, til vara að viðurkennt yrði að ákvörðunin hefði verið ólögmæt. Dómur gekk í málinu í héraði 14. desember 2006 og var ekki fallist á kröfur S. S áfrýjaði og með dómi Hæstaréttar 10. maí 2007 var viðurkennt að Landspítalanum hefði verið óheimilt að segja S upp störfum, „á þeim grunni, sem gert var með bréfi stefnda 28. september 2006“. Í dómi Hæstaréttar er fallist á með héraðsdómi að ekki hafi annað verið leitt í ljós en að uppsögn S hafi stafað af fækkun starfsmanna vegna hagræðingar í rekstri. Vísar Hæstiréttur til 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996. Síðan er talið að S hafi ekki einungis verið ráðinn til, eða starfað eingöngu við tiltekin tölvukerfi sem hætt hafði verið að nota. Því hefði verið skylt að leggja mat á hæfni S áður en ákveðið yrði að segja honum upp störfum. Þar sem slíkt mat hefði ekki farið fram hefði ekki verið staðið réttilega að ákvörðun um að segja S upp störfum. Í kjölfar dóms Hæstaréttar hafi S krafist þess að verða kallaður til starfa á ný. Þeirri kröfu S var hafnað. Aðilar gerðu einhverjar tilraunir til að ná sáttum, en það tókst ekki. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að staðfest var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 647/2006 að ekki hefði verið staðið rétt að uppsögn S. Í því fólst að S var vikið úr starfi á ólögmætan hátt sem leiddi til þess að hann átti rétt á bótum úr hendi L, hafi hann orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Réttur til miskabóta er háður frekari skilyrðum. Jafnframt segir í dómnum að um fjárhæð bóta vegna ólögmætrar uppsagnar ríkisstarfsmanns hefur Hæstiréttur fjallað í fjölmörgum dómum. Bætur eru metnar að álitum hverju sinni og þær eru almennt ákveðnar í heilum hundruðum þúsunda króna. Má heita regla að miðað sé við tap á allt að 12 mánaða tímabili. Engin heimild er til þess, hvorki í lögum né dómafordæmum, að miða bætur til S við þau laun sem hann hefði fengið frá L, ef ekki hefði komið til uppsagnarinnar, til þess er hann næði lífeyrisaldri. Mat dómurinn það svo að fjártjón S væri hæfilega ákveðnar kr. 2.500.000.- en S hafði metið tjón sitt á kr. 34.882.360.-. Héraðsdómur taldi hins vegar ekki uppfyllt skilyrði 26. gr. skaðabótalaga til að ákveða S miskabætur eins og hann hafði krafist.

3. Dómur Hæstaréttar frá 8.mars 2012 í máli nr. 505/2011: H gegn Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi.
ÁMINNING.

H var framkvæmdastjóri lækninga á HSB en var í fæðingarorlofi frá 1. janúar 2010 til 1. júlí 2010 og síðan áfram í orlofi frá og með 1. júlí 2010 til og með 31. ágúst 2010. Í leyfi H gegndi S læknir stöðu framkvæmdastjóra lækninga hjá HSB. Í lok mars 2010 réð forstjóri HSB lækninn A til starfa og hóf hann störf í apríl 2010. Fljótlega eftir að A hóf störf fékk forstjóri HSB tilkynningar frá starfsfólki að komið hefði verið að A sofandi á skrifstofu sinni a.m.k. tvisvar sinnum. Ræddi forstjóri HSB þau tilvik við A sem kvaðst lítið hafa getað sofið þær nætur vegna höfuðverkja. Í maí 2010 fékk forstjóri HSB erindi í tölvupósti frá S, settum framkvæmdastjóra lækninga. Þar mæltist S til þess að A yrði sagt upp störfum að loknum reynslutíma. Taldi hann að ekki væri allt með felldu með störf læknisins og heilsufar hans. Á fyrstu 3 vikum hans í starfi hafi þrír starfsmenn komið að honum sofandi í vinnutíma á bekk á stofu hans. H hafi síðan komið að máli við forstjóra HSB í maí 2010 og óskað eftir því að A yrði látinn fara í lok reynslutíma, þ.e. í lok júní 2010. Í júlí 2010 hafi H komið aftur að máli við forstjóra HSB og ítrekað þá skoðun sína að A væri óhæfur til starfa hjá stofnuninni og að H treysti sér ekki til að vinna með honum. H hafi enn komið að máli við forstjóra HSB um miðjan ágúst 2010 og ítrekað fyrri beiðni og skoðanir á A og að hann yrði að fara frá störfum. H tók síðan sýni úr gosdrykkjarflösku A án vitundar hans og sendi til rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði í ágúst 2010 með beiðni um ávana- og fíkniefnaleit í vökva með áherslu á slævandi lyf. Niðurstaða barst HSB 7. september 2010, sem leiddi ekkert óeðlilegt í ljós. Forstjóri HSB upplýsti A um málið þann 9. september 2010 og tilkynnti það landlæknisembættinu með bréfi dags. 13. september 2010. Sama dag sagði A upp störfum hjá HSB og óskaði eftir því að verða leystur frá störfum tafarlaust. Með bréfi HSB, dags. 14. september 2010, var H sent bréf vegna fyrirhugaðrar áminningar á grundvelli 21. gr. starfsmannalaga vegna framangreindrar háttsemi. Var H gefinn andmælafrestur til 28. september 2010. Andmæli við boðaða áminningu komu frá lögmanni H með bréfi, dags. 12. október 2010. Með bréfi HSB, dags. 18. október 2010, var H síðan veitt áminning samkvæmt 21. gr. starfsmannalaga fyrir að hafa brotið starfsskyldur sínar með hegðun sem væri óhæfileg og ósamrýmanleg starfi hans sem læknis, með því að taka sýni úr drykk í eigu A og senda það til rannsóknar á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði og beðið um ávana- og fíkniefnaleit með áherslu á slævandi lyf, án vitundar viðkomandi læknis. A taldi að ekki hafi verið grundvöllur til þess að veita honum áminningu og höfðað mál gegn HSB til ógildingar áminningu. Um hegðun H segir í niðurstöðu dómsins að H hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að taka sýni úr drykk starfandi læknis hjá HSB og senda það til rannsóknar á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði. Gerði H þetta án vitundar viðkomandi læknis og án þess að láta forstjóra HSB, yfirmann sinn vita. Gerði H þetta þrátt fyrir að hann vissi eða mátti vita að framkvæmd slíkrar rannsóknar væri einungis á hendi landlæknis. Féllst dómurinn ekki á að þetta hafi verið réttlætanlegt vegna sjónarmiða um öryggi og velferð sjúklinga HSB eða að H hafi sem faglegum yfirstjórnanda borið að bregðast við með þessum hætti. Um tilefni áminningar sagði dómurinn að samkvæmt 21. gr. starfsmannalaga skal forstöðumaður stofnunar veita starfsmanni skriflega áminningu ef framkoma hans eða athafnir í starfi þykja ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. Mat dómurinn það svo að hegðun H, að taka með leynd sýni úr drykk hjá lækni sem starfaði hjá HSB og senda til rannsóknar á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, verði að telja óhæfilega og ósamrýmanlega starfi H og ekki í samræmi við starfsskyldur hans samkvæmt 14. gr. starfsmannalaga. Taldi dómurinn því þessa hegðun H ekki samrýmast starfi hans hjá HSB og forstjóra HSB hafi því borið að veita honum áminningu, eins og gert var. Taldi dómurinn að fullt tilefni hefði verið til þess að veita H áminningu vegna þessa. Féllst dómurinn ekki á þá málsástæðu H að áminning við þær aðstæður sem hér um ræddi hefði ekki þau varnaðaráhrif sem að var stefnt. Var HSB því sýknað af kröfu H. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

4. Dómur Hæstaréttar frá 31. maí 2012 í máli nr. 598/2011: Íslenska ríkið gegn H.
LÍKAMSTJÓN. ATVINNUSJÚKDÓMUR.

Árið 1997 hóf H störf hjá útibúi R á Ísafirði. Útibúið var þá staðsett í austurenda hússins að Á 2-4 en þar mun útibúið hafa verið með starfsemi frá árinu 1975. Árið 1999 flutti R starfsemi sína í nýuppgert húsnæði Þ í vesturenda hússins að Á 2-4. H starfaði hjá R þar til í maí 2004 en þá hóf H störf hjá A. sem á þeim tímapunkti tók yfir hluta þeirra verkefna sem R hafði áður sinnt. Tók A á leigu hluta þess húsnæðis sem R hafði nýtt undir starfsemi sína, auk þess sem félagið leigði húsbúnað og tæki frá R. A hafði verið stofnað skömmu áður af þremur eigendum fisk- og rækjuverksmiðja í þeim tilgangi að reka rannsóknarþjónustu fyrir sjávarútvegsfyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum. Á árunum 1997 til 2000 leitaði H ítrekað til lækna vegna hósta og öndunareinkenna, og tvisvar árið 2000 vegna langvarandi höfuðverkja og ógleði, án þess að niðurstaða fengist um hvað að H amaði. Í september 2005 vísaði yfirlæknir FSÍ H til S, lungna- og atvinnusjúkdómalæknis, sem greindi H með astma og ofnæmiskvef. Í læknabréfi S frá 24. október 2005 segir meðal annars að greinileg tenging sé á milli einkenna H og vinnu. Þá lýsir læknirinn því áliti sínu „... að sagan renni mjög styrkum stoðum undir það að einkennin séu í raun tengd a.m.k. að einhverju leyti vinnustaðnum.“ Í matsgerð undirmatsmanna frá 21. desember 2007 segir meðal annars: „Sambandið milli vinnuaðstæðna matsbeiðanda og núverandi heilsufarseinkenna, það er vægs astmasjúkdóms, langvinnrar nefbólgu, nefkoksbólgu, og kokbólgu, langvinnrar barkakýlisbólgu og barkakýliskrampa (truflun á raddböndum), sem hún hefur virðist vera nokkuð skýrt.“ Var það niðurstaða matsmannanna að H væri haldin atvinnusjúkdómum. Fram kom m.a. í niðurstöðu dómsins að við mat á mögulegu saknæmi þess vinnufyrirkomulags R og A að láta starfsmenn vinna án persónuhlífa fyrir öndunarfæri við ætagerð þykir verða að líta til 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og 3, 5 og 8. gr. reglna nr. 467/1994. Af fyrirmælum ákvæðanna og öðru sem fram kom var það álit dómsins að vinnuaðstæður H við ætagerð, sem sannað þykir með framburðum vitna að H hafi sinnt í nokkrum mæli í störfum sínum hjá R og A, hafi ekki verið forsvaranlegar. Með því að láta H vinna við ætagerð án persónuhlífa fyrir öndunarfæri, eða eftir atvikum á hluta starfstíma H hjá stefnda A án fullnægjandi persónuhlífa, í húsnæði sem ekki var nægjanlega vel lofræst, sýndu R og A bæði af sér saknæma og ólögmæta háttsemi í skilningi skaðabótaréttar. Taldi dómurinn nægar líkur til þess að veikindi H mætti rekja til hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi R og A og voru þeir því dæmdir til að greiða H skaðabætur vegna veikinda. Í áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar. Fyrir Hæstarétti kom því einungis til endurskoðunar krafa H á hendur Í. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að fallist væri á það með héraðsdómi að Í hefði sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að láta H vinna við svokallaða ætagerð án persónuhlífa fyrir öndunarfæri í húsnæði sem ekki hefði verið nægjanlega loftræst. Taldi Hæstiréttur að Í bæri óskipta ábyrgð með A á tjóni H þrátt fyrir að starfstími H hjá hvorum aðila um sig hefði verið mismunandi. Var Í því gert að greiða H skaðabætur.

5. Dómur Hæstaréttar frá 31. maí 2012 í máli nr. 655/2011: Íslenska ríkið gegn V.
STARFSLOKASAMNINGUR.

V, varðstjóri öryggisdeildar, og J, lögreglustjóri, gerðu samkomulag um starfslok V við embætti lögreglu- og tollstjórans á Suðurnesjum. Þann 1. janúar 2009 tók Keflavíkurflugvöllur ohf. til starfa í samræmi við lög nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. V þáði laun hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum til ársloka 2008. Þann 1. janúar 2009 hóf samgönguráðuneytið að greiða V biðlaun og greiddi V föst mánaðarlaun auk greiðslna fyrir 18 yfirvinnustundir á mánuði fyrstu 6 mánuði ársins. Með bréfi í júlí 2009 tilkynnti Fjársýsla ríkisins V að Samgönguráðuneytið hefði falið Fjársýslunni að stöðva greiðslur til V þar sem ráðuneytið teldi sig fyrir misskilning hafa tekist þær á hendur og yrði því ekki um frekari launagreiðslur að ræða. Lögmaður V ritaði Lögreglustjóranum á Suðurnesjum bréf í apríl 2010 og krafðist þess að embættið lyki við uppgjör starfslokasamnings V í samræmi við efni hans. Embættið varð ekki við kröfu V og höfðaði V því mál á til greiðslu kröfunnar. Í niðurstöðu héraðsdóms var fallist á það með V að samkomulagið hafi verið „starfslokasamningur“. Fram kom í héraðsdómnum að í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins væru ekki ákvæði um starfslokasamninga. Þeir væru þar hvorki heimilaðir eða bannaðir og skipti ekki máli í því sambandi þótt starfsmanni kunni við starfslok að vera ákveðin betri starfslokakjör en lög nr. 70/1996 mæla almennt fyrir um. Taldi héraðsdómur að ekki hefði af hálfu Í verið sýnt framá að neitt í ráðningarsambandi V stæði í vegi fyrir samningi af þessu tagi þ.m.t. ákvæði kjarasamnings. Starfslokasamningar hafi verið tíðkaðir um árabil og orðið andlag fyrirspurna og umræðna á Alþingi, sbr. 118. löggjafarþingið 1994, þingskjal 263 og 122. löggjafarþingið 1997-1998, þingskjal 1401. Þá hafi samningar af þessu tagi ítrekað komið til opinberrar umræðu á vettvangi fjölmiðla og orðið andlag álits Umboðsmanns Alþingis, sbr. mál nr. 4962/2007. Þrátt fyrir að samningar af þessu tagi hafi oft á tíðum verið gagnrýndir m.a. á Alþingi hefði löggjafinn ekki séð ástæðu til að setja umræddum samningum t.d. hvað ríkisstarfsmenn varðar efnisleg takmörk eða skilyrði. Taldi héraðsdómur að Í yrði að bera sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu að samningurinn hefði hvað efni varðar brotið í bága við lög nr. 70/1996 eða aðrar bindandi reglur um starfslok ríkisstarfsmanna og uppgjör greiðslna þeim samfara eða ráðningarsamning V eins og Í hélt fram. Engin slík sönnun lá fyrir í málinu að mati héraðsdóms og varð Í að bera hallann af því. Einnig var því haldið fram af Í að samningurinn væri ekki skuldbindandi fyrir Í þar sem ekki hafi verið aflað heimildar í fjárlögum eða fjáraukalögum til gerðar hans, sbr. ákvæði laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins. Um þetta sagði í niðurstöðu héraðsdóms að ekki hefi verið sýnt framá af hálfu Í að greiðslur til V samkvæmt umræddu samkomulagi hefðu ekki rúmast innan þeirra fjárheimilda sem Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafði samkvæmt fjárlögum á árinu 2008 eða 2009 eða V eigi samkvæmt lögum eða öðrum réttarheimildum að bera hallann af að slík heimild hafi ekki verið til staðar eða hennar ekki aflað enda enginn fyrirvari um slíkt í samkomulaginu. Féllst héraðsdómur því ekki á umrædda málsástæðu Í. Í hélt því einnig fram að samningurinn hefði ekki verið skuldbindandi þar sem hann hefði ekki verið staðfestur af dómsmála- eða fjármálaráðuneyti. Um þessa málsástæðu sagði héraðsdómur að Í hefði ekki sýnt framá að slíkrar staðfestingar hefði verið þörf samkvæmt lögum eða öðrum bindandi réttarheimildum og hafnaði dómurinn því þessari málsástæðu. Niðurstaða héraðsdóms var því sú að Í var dæmt til að greiða kröfu V. Í áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóm um greiðsluskyldu Í. Vísaði Hæstiréttur m.a. til þess að við niðurlagningu starfs V hjá embættinu hefði honum, samkvæmt lögum, ekki verið ætlað að flytjast til nýs hlutafélags er tók við starfseminni og hefði hann því átt rétt til biðlauna á grundvelli laga nr. 70/1996. Fram kom í dómi Hæstaréttar að í samningnum fælust ekki bótagreiðslur eða greiðslur til V sem talist gátu umfram það sem hann hefði fyrirsjáanlega átt rétt til. Þá hefði forstöðumaður embættisins verið bær að lögum til þess að gera samning við V um starfslok og Í ekki sýnt fram á að honum hefði verið skylt að leita sérstakrar heimildar á fjárlögum til þess að gera samninginn.

6. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. júní 2012 í máli nr. E-183/2012: S gegn íslenska ríkinu.
BAKVAKTIR.

Ágreiningur málsins laut að því að S taldi að þar sem allir þrír starfsmenn í tölvudeild hjá Þjóðskrá Íslands hafi verið hættir störfum í desember 2010 og þá hafi S borið að taka allar bakvaktirnar á árinu 2011, þar til hann hætti störfum í maí 2011. Þ hafnaði þessu og taldi ekki fót fyrir þessari fullyrðingu S og að þetta fyrirkomulag bryti auk þess gegn lögum nr. 88/1971 um 40 stunda vinnuviku og IX. kafla laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en í þeim kafla er fjallað um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma. Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að þessi skilningur S fengi ekki stoð í gögnum málsins og fyrir dómi upplýsti S að honum og samstarfsmönnum hans hafi verið tilkynnt munnlega í nóvember 2010 að þeir myndu ekki sinna bakvöktum eftir áramótin 2010/2011, þar sem A væri að taka yfir hluta af starfsemi tölvudeildarinnar. S taldi að F, yfirmaður hans, hefði sagt honum að bakvaktirnar yrðu óbreyttar hjá honum fram í apríl 2011, það er þar til að A hefði náð fullum tökum á rekstrinum. Þessu var mótmælt af hálfu Þ. F, yfirmaður S, gaf ekki skýrslu fyrir dómi og var þessi fullyrðing S því ósönnuð. S lagði ekki fram bakvaktaplan yfirmanna sinna fyrir árið 2011 samsvarandi því er liggur fyrir vegna ársins 2010. Taldi dómurinn því að S hefði ekki með öðrum hætti fært fram sönnur þess að yfirmenn hans hefðu óskað eftir því að hann sinnti bakvöktum á árinu 2011. Gögn málsins bentu aftur á móti til þess að bakvaktir myndu falla niður frá og með áramótunum 2010/2011 vegna skipulagsbreytinga og yfirtöku A á þessari þjónustu. Taldi dómurinn því engum vafa undirorpið að S vissi að það yrðu ekki bakvaktir eftir áramótin, samanber yfirlýsingu S fyrir dómi. Hafi S tekið einhverjar bakvaktir eftir áramótin 2010/2011 gerði hann það í sjálfboðavinnu, samanber tölvupóst S, og ber Í ekki að greiða fyrir það.

7. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. júní 2012 í máli nr. E-2870/2011: A gegn íslenska ríkinu.
STÖÐUVEITING. JAFNRÉTTI. MISKABÆTUR.

A krafðist skaða- og miskabóta úr hendi Í vegna þess að annmarkar hafi verið á veitingu embættis skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu. Embættisveitingin hafi verið ólögmæt. Hélt A því fram að hún hefði verið hæfasti umsækjandinn, eða að minnsta kosti jafnhæf og M, sem hlaut starfið. Með skipuninni hafi því jafnréttislög verið brotin. A kærði skipun M í embætti skrifstofustjóra til kærunefndar jafnréttismála. Með úrskurði 22. mars 2011 komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að forsætisráðherra hefði brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, við skipun í embættið. Taldi nefndin að sá sem skipaður hafi verið í embættið hafi hvorki haft menntun eða starfsreynslu umfram A, né sérþekkingu eða aðra þá hæfileika sem hafi átt að ráða úrslitum um skipun hans í embættið. Forsætisráðuneytið hafi ekki sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið því að sá sem embættið hafi hlotið hafi verið skipaður, en ekki A. Þegar menntun, starfsreynsla og hæfni A í þeim sérstöku hæfnisþáttum sem sérstaklega hafi verið óskað eftir sé borin saman við sambærilega kosti þess sem embættið hafi hlotið verði vart önnur ályktun dregin en að A hafi í það minnsta verið jafn hæf og sá sem hlotið hafi embættið. Þá hafi allir fjórir skrifstofustjórar forsætisráðuneytisins verið karlar og af 54 skrifstofustjórum Stjórnarráðsins, utan utanríkisráðuneytisins, hafi, eftir því sem næst verði komist, verið 38 karlar og 16 konur. Að þessu öllu virtu hafi ekki verið sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar því að gengið hafi verið fram hjá A við skipun í embætti skrifstofustjóra, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Héraðsdómur lagði til grundvallar í málinu að við skipun í embætti skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu hafi forsætisráðherra brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Að því er skaðabótakröfu A varðaði leit héraðsdómur til þess að A var ein fimm umsækjenda sem metnir voru hæfastir til að gegna embætti skrifstofustjóra. Samkvæmt hæfnismati stjórnunar- og mannauðsráðgjafa var A raðað neðst þeirra fimm. A ber sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi átt lögvarinn rétt til stöðunnar umfram aðra umsækjendur. Í málinu liggja fyrir umsóknir þeirra þriggja umsækjenda sem raðað var í annað til fjórða sæti samkvæmt framangreindu hæfnismati. Eru þeir umsækjendur allir konur. Þá liggja fyrir niðurstöður viðtala allra þeirra fimm umsækjanda sem taldir voru hæfastir. A byggir kröfu sína um skaðabætur á því að ljóst hafi verið að hún hafi í raun verið metin næst M að hæfni þar sem haft hafi verið samband við umsagnaraðila hennar, þó ekki alla, ásamt umsagnaraðilum M, en ekki hafi verið haft samband við umsagnaraðila annarra umsækjenda. Þá hafi verið gerður samanburður á hæfni þeirra tveggja, en að því loknu hafi verið gerður samanburður á hæfni M og þess sem var í öðru sæti í hæfnismatinu, eins og fram kom við skýrslugjöf fyrir dóminum. R, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, skýrði frá því fyrir dóminum að ástæða þess að haft hefði verið samband við umsagnaraðila A hefði verið sú að hún hefði viljað hafa sem fyllstar upplýsingar um umsækjendur til þess að leggja fyrir ráðherra fyrir skipun í starfið. Hún hefði talið óþarft að leita til umsagnaraðila annarra umsækjenda en A og M þar sem hún hefði þekkt vel til þeirra. Í ljósi þessa þykir það að haft hafi verið samband við umsagnaraðila A ekki sanna að hún hafi í raun verið metin næst þeim sem starfið hlaut að hæfni. Samanburður á hæfni A og M þykir heldur ekki veita sönnun þess, enda var einnig gerður samanburður á hæfni M og þess umsækjanda sem næst kom honum að stigum í hæfnismatinu. Þykir ekki verða fullyrt að A hafi borið starfið umfram þá þrjá umsækjendur sem raðað var framar henni í hæfnismatinu og verður Í því sýknaður af skaðabótakröfu A. Krafa A um miskabætur byggist á því að henni hafi af hálfu forsætisráðherra verið sýnd lítilsvirðing, hún hafi verið niðurlægð á opinberum vettvangi og vegið hafi verið að starfsheiðri hennar, reynslu og hæfni, en í því hafi falist meingerð gegn æru hennar og persónu, sbr. 31. gr. laga nr. 10/2008 og b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Sú staðreynd að A hafi ekki fengið embætti skrifstofustjóra þykir ein og sér ekki valda því að hún eigi rétt til miskabóta. Hins vegar þykir yfirlýsing sú sem birt var á vef forsætisráðuneytisins í tilefni af úrskurði kærunefndar jafnréttismála í máli A, þar sem því er meðal annars hafnað að hún hafi verið jafn hæf og sá sem embættið hlaut og sérstaklega bent á að stefnandi hafi verið fimmti umsækjandi í hæfnismati, ásamt skipun rýnihóps til þess að fara yfir ferli undirbúnings skipunar í embætti skrifstofustjóra í kjölfar úrskurðarins, þess eðlis að bitnað gæti á orðspori A. Í ljósi þessa verður talið að uppfyllt séu skilyrði 31. gr. laga nr. 10/2008 og b-liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 til þess að dæma A miskabætur. A krafðist 500.000 króna í miskabætur. Þótti sú krafa hæfileg og féllst dómurinn á hana.

8. Dómur Félagsdóms frá 12. júlí 2012 í máli nr. 3/2012 (óbirtur): Tollvarðafélag Íslands f.h. I og G gegn íslenska ríkinu.
FRÍTÖKURÉTTUR. FRÁVÍSUN.

T krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að I og G hefðu áunnið sér frítökurétt samkvæmt ákvæðum kafla 2.4 í kjarasamningi T við ríkið vegna starfa þeirra hjá sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli og Tollstjóra. Einnig krafðist T þess að tilgreina bæri frítökurétt G á launaseðli hans frá því að slíkur frítökuréttur stofnaðist fyrst samkvæmt kjarasamningi aðila vegna starfa hans hjá embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli og Tollstjóra allt frá 1. september 1997. Íslenska ríkið krafðist í fyrsta lagi frávísunar vegna þess að það væri óljóst og á reiki á hvaða lagagrundvelli T höfðaði málið fyrir Félagsdómi og í öðru lagi að dómkröfur T í málinu væru óljósar og ekki í samræmi við meginreglur réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. T krafðist þess að frávísunarkörfu yrði hafnað. Dómurinn taldi að líta yrði svo á að mál þetta varðaði í raun ágreining um sönnun starfskjara tiltekinna félagsmanna T og uppgjör réttinda þeirra en ekki ágreining aðila um túlkun á ákvæðum kjarasamnings. Taldi dómurinn að eins og kröfur T voru settar fram í stefnu þá sýndist því ekki einungis reyna á túlkun umrædds kjarasamnings, heldur kæmu til skoðunar önnur atriði, sem almennum dómstólum bæri með réttu að dæma um. Taldi dómurinn að þar sem Félagsdómur væri sérdómstóll bæri að túlka valdsvið hans þröngt og var málinu því vísað frá Félagsdómi.

9. Dómur Félagsdóms frá 12. júlí 2012 í máli nr. 6/2012 (óbirtur): Fræðagarður gegn íslenska ríkinu og Vinnumálastofnun.
STOFNANASAMNINGUR. ÁLAGSÞÆTTIR. STARFSALDUR.

F gerði þá kröfu að viðurkennt yrði að V hefði brotið í bága við greinar 5.1 og 5.2 í stofnanasamningi V og F með því að hafa ekki úthlutað Þ einum álagsþætti eftir eitt ár í starfi hjá V og öðrum álagsþætti eftir þrjú ár í starfi hjá V. Í stofnanasamningi F við V var gert ráð fyrir álagi á laun vegna starfsreynslu starfsmanns hjá V. Gert var ráð fyrir því að eftir 1 ár kæmi einn álagsþáttur, eftir 3 tveir álagsþættir, eftir 5 ár þrír álagsþættir og eftir 8 ár fjórir álagsþættir. F lagði þann skilning í framangreint ákvæði að ef V hefði samið við starfsmann sinn um úthlutun álagsþátta vegna starfsreynslu annars staðar frá við upphaf starfs hjá V bæri að úthluta sama starfsmanni áframhaldandi álagsþáttum í samræmi við starfsreynslu eins og grein 5.1. mælti fyrir um. Taldi F að þegar samið hefði verið við starfsmann V við upphaf starfs hans hjá V um að hann skyldi fá í byrjun tvo álagsþætti greidda vegna starfsreynslu annars staðar frá, bæri að greiða starfsmanninum einn álagsþátt eftir eitt ár í starfi, tvo álagsþætti eftir þrjú ár frá upphafi starfs og síðan koll af kolli í samræmi við grein 5.1 í stofnanasamningnum. Í byggði á því að sérstaklega hefði verið samið um launakjör við upphaf ráðningar Þ og tveimur álagsþáttum á grundvelli greinar 5.1 bætt við fyrirfram. Það hefði ekki verið gert á grundvelli starfsreynslu annars staðar frá, heldur hefði verið vísað til þessa ákvæðis, sem varði aðeins starfsreynslu hjá V. Í niðurstöðu Félagsdóms kemur m.a. fram að í ráðningarsamningi Þ var vísað til greinar 5.1 í stofnanasamningnum hvaða varðaði álagþætti vegna starfsreynslu. Sú grein væri einskorðuð við starfsreynslu starfsmanns hjá V. Mátti því ljóst vera að þarna var ekki verið að vísa til starfsreynslu annars staðar frá og mátti Þ ekki velkjast í vafa um þetta og breyti engu þótt Þ hefði ekki kynnt sér stofnanasamninginn svo sem fram kom í framburði hennar eða leitað skýringa. Í niðurstöðu dómsins sagði og að skilja mætti málatilbúnað F svo að ekki skipti máli á hvað grundvelli álagsþættir vegna starfsreynslu væru ákvarðaðir eða eftir atvikum að virða bæri þá sem starfsreynslu annars staðar frá og allt að einu stæði réttur til álagsþátta í samræmi við grein 5.1 í stofnanasamningnum. Félagsdómur féllst ekki á þennan skilning F enda myndi slíkt leiða til þess að launahækkun vegna álagsþátta vegna starfsreynslu hjá V yrði þá tvítekin. Var Í sýknað af kröfum F.

10. Dómur Héraðsdóms Vesturlands frá 20. júlí 2012 í máli S-228/2011: Ríkissaksóknari gegn G.
BROT Í OPINBERU STARFI. FJÁRDRÁTTUR.

Fangelsismálastofnun kærði G, forstöðumann Fangelsins Kvíabryggju, til ríkissaksóknara vegna ætlaðra brota hans í opinberu starfi. Var G grunaður um auðgunarbrot með því að hafa sem forstöðumaður Fangelsisins Kvíabryggju dregið sér ýmis verðmæti sem hann var ekki eigandi að og misnota aðstöðu sína sem forstöðumaður fangelsisins með saknæmum og ólögmætum hætti sér til ávinnings. Ríkissaksóknari ákærði G fyrir fjárdrátt í opinberu starfi. Í niðurstöðu dómsins segir að með þessari háttsemi sinni hefði G misnotað sér alvarlega þann trúnað, sem honum var sýndur sem forstöðumanni ríkisstofnunar. Var refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði en fimm mánuðir af refsingu hans voru bundnir skilorði.

11. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. september 2012 í máli nr. E-4867/2011: Þ gegn íslenska ríkinu.
LAUN. LEIÐRÉTTING. DRÁTTARVEXTIR.

Deilt var um dráttarvexti á leiðrétt laun lögreglumanns vegna starfsaldurs. Ágreiningslaust var að Þ var raðað í rangan launaflokk vegna rangs starfsaldurs. Í leiðrétti laun hans í samræmi við réttan starfsaldur. Ágreiningur málsins laut að kröfum Þ um dráttarvexti samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu á hin vangoldnu laun. Í niðurstöðu héraðsdóms sagði að um gjalddaga launagreiðslna til Þ vegna starfa hans hjá Í gilti 10. gr. laga nr. 70/1996, en samkvæmt henni skulu laun hans greidd eftir á fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Sé gjalddagi peningakrafna fyrir fram ákveðinn er mælt fyrir um í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, að kröfuhafa sé heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti, sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Í hélt því fram að ekki væri skylt að greiða dráttarvexti á hin vangoldnu laun. Í byggði á því að þegar um væri að ræða hefðbundna leiðréttingu á röngum starfsaldri starfsmanns, sem ekki væri að rekja til augljósra mistaka vinnuveitenda, hefði Í ekki fallist á að greiða bæri vexti/dráttarvexti af leiðréttingunni. Um þetta sagði í dómnum að hér væri til þess að líta að túlkun Í hefði ekki stoð í ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum. Til þess væri einnig að líta að Í hefði allar upplýsingar um Þ og Í gerði mistök. Launaseðlar Þ bæru ekki með sér við hvaða starfsaldur væri miðað og ekki væri að sjá að Í hefði kynnt Þ sérstaklega, hvernig honum var raðað í launaflokk eða launaþrep. Því voru málsaðilar ekki jafnsettir og ábyrgðinni yrði ekki varpað yfir á Þ, enda um mistök að ræða hjá Í. Þá höfðu sjónarmið Í um að það væri andstætt hlutverki og tilgangi dráttarvaxta að Í greiddi þá í þessu tilviki ekki þýðingu í málinu. Sagði í dómnum að Í bæri að greiða dráttarvexti sem og öðrum er vanefnir skuldbindingar sínar og einnig bæri að líta til þess að Í hefði, sbr. framlögð gögn í málinu, greitt dráttarvexti til annarra vegna vangoldinna launa. Engin efni þóttu standa til annars en að Þ sæti við sama borð.

12. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. október 2012 í máli nr. E-4668/2011: M gegn Seðlabanka Íslands.
EMBÆTTISMAÐUR. LAUN OG STARFSKJÖR. ÚRSKURÐUR KJARARÁÐS.

M krafðist þess að úrskurður kjararáðs um laun og starfskjör hans yrði felldur úr gildi. M reisti kröfu sína á því að kjararáð hefði ekki haft heimild til að skerða laun og starfskjör eftir skipun hans í embætti, enda yrðu lög nr. 87/2009 ekki túlkuð svo að þeim verði beitt afturvirkt um það réttarsamband sem stofnast hefði með skipuninni áður en fyrrgreind lög tóku gildi. M kvaðst líta svo á að vinnuréttarlegt samband hans við S hefði stofnast þann dag sem hann var skipaður í embættið og að réttarstaða hans ætti að miðist við það tímamark. Í niðurstöðu héraðsdóms segir að með 2. gr. laga nr. 87/2009 var heimildum kjararáðs sett afdráttarlaus mörk um hámark fastra launa fyrir dagvinnu þeirra starfsmanna ríkisins sem falla undir ákvörðunarvald ráðsins. Ekki eru í lögunum fyrirmæli um hvaða áhrif þessi nýja regla eigi að hafa á ákvörðun launa þeirra sem skipaðir höfðu verið í embætti fyrir gildistöku hennar. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 87/2009 er heldur ekki tekið afdráttarlaust af skarið um þetta atriði. Þar er þó vísað til 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar til útskýringar á því að hámarkið taki ekki til forseta Íslands, en í stjórnarskrárákvæðinu segir að óheimilt sé að lækka greiðslur af ríkisfé til forseta á kjörtímabili hans. Engin ástæða hefði verið að taka þetta fram af hálfu löggafans ef ganga átti út frá því að fyrirmæli 2. gr. 87/2009 hreyfðu ekki við launum á kjör- eða skipunartíma viðkomandi. Þá er ljóst af almennum athugasemdum með frumvarpinu að þessi nýja regla var hluti af aðgerðum sem var ætlað að laga rekstur ríkisins að „gjörbreyttum efnahagslegum raunveruleika“. Þessi atriði gefa til kynna að við setningu laganna hafi verið við það miðað að við gildistöku þeirra yrði fylgt almennum meginreglum um lagaskil þannig að nýju reglunni yrði framvegis fylgt við töku ákvarðana um laun og starfskjör embættismanna óháð því hvort þeir hefðu verið skipaðir í embætti fyrir gildistöku laganna. Ekki verður séð að ummæli í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar Alþingis um frumvarpið breyti þessari ályktun. M byggði meðal annars á því að ákvæði laga nr. 70/1996 veiti embættismönnum ríka réttarvernd á skipunartíma þeirra. Af lögunum dró M þá ályktun að laun embættismanna og önnur starfskjör verði jafnan ekki skert eftir að þeir hafa verið skipaðir í embætti. Um þetta vísaði M meðal annars til þess að þeir séu að jafnaði skipaðir tímabundið í embætti til fimm ára í senn auk þess sem M taldi að fyrirmæli 19. gr. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 70/1996 væri til marks um að í gildi væri meginregla þess efnis að embættismenn haldi óbreyttum launakjörum út skipunartíma sinn. M taldi að kjararáði hefði borið að taka mið af þessari meginreglu þegar afstaða var tekin til þess hvenær breytingin á launakjörum M átti að taka gildi, enda engin fyrirmæli um annað í lögum nr. 87/2009. Um þessa röksemd M segir í niðurstöðu héraðsdóms að ekki er gerður gagnkvæmur ráðningarsamningur við embættismenn eins og almennt tíðkast við ráðningar í störf. Starfssamband þeirra við íslenska ríkið byggist því ekki á samningi heldur á stjórnvaldsákvörðun. Um réttindi og skyldur aðila þessa starfssambands fer í meginatriðum eftir lögum nr. 70/1996. Þar er í 23. gr. mælt fyrir um að embættismenn skuli almennt skipaðir til fimm ára í senn, en skipun þeirra framlengist þó sjálfkrafa til næstu fimm ára sé embættið ekki auglýst laust til umsóknar sex mánuðum áður en skipunartíminn rennur út. Skal embættismaður gegna embætti sínu þar til eitthvert þeirra atriða sem talin eru upp í 25. gr. laganna koma til. Hins vegar er ekki við það miðað að skipun hans verði slitið með uppsögn á samningi, enda engum samningi til að dreifa. Þá njóta embættismenn almennt ekki samningsréttar um launakjör sín heldur eru þau ákveðin einhliða af sérstöku stjórnvaldi, kjararáði, sbr. fyrrgreinda 39. gr. laganna. Réttarstaða embættismanna er að þessu leyti önnur en starfsmanna sem ráðnir eru til starfa með gagnkvæmum, samningsbundnum uppsagnarfresti. Í hefðbundnu samningssambandi um vinnu er almennt unnt að skerða umsamin starfskjör að virtum uppsagnarfresti enda stangist það ekki á við viðeigandi kjarasamning. Fékk dómurinn ekki séð að tímabundinn skipunartími embættismanna verði lagður að jöfnu við samningsbundinn uppsagnarfrest að þessu leyti. Þá verður ekki lögð víðtækari merking í 19. gr. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 70/1996 en að breytingar á störfum og verkefnum eða tilflutningur embættismanna milli embætta megi ekki valda skerðingu á starfskjörum hans fyrr en að liðnum skipunartíma. Því til stuðnings má benda á að ákvæði, sem var hliðstætt 19. gr. laganna, var í eldri lögum nr. 38/1954 á sama tíma og þar var mælt fyrir um að starfsmönnum væri almennt skylt að hlíta breytingum á launakjörum sínum samkvæmt lögum eða reglugerðum, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna. Ákvæði þessi, önnur fyrirmæli laga nr. 70/1996 eða ákvæði 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar voru því að mati dómsins ekki til marks um að í gildi sé almenn meginregla þess efnis að óheimilt sé að skerða laun og starfskjör embættismanna á skipunartíma þeirra. Hins vegar yrði skerðing á kjörum embættismanna, sem ekki hafa samningsrétt um laun og starfskjör sín, að eiga viðhlítandi lagastoð. Í niðurstöðu héraðsdóms kom einnig fra að kjararáð væri bundið af fyrirmælum laga nr. 47/2006 þegar það tæki slíkar ákvarðanir sem og af almennum stjórnsýslureglum. Kjararáði ber að taka mál til meðferðar þegar því þykir þurfa og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu sem höfð skulu til viðmiðunar eða á störfum þeirra sem heyra undir ákvörðunarvald ráðsins, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Eins og segir í 2. mgr. sömu greinar ber ráðinu þó ekki sjaldnar er árlega að meta hvort tilefni sé til breytinga á starfskjörum sem úrskurðarvald þess tekur til. Með lögfestingu laga nr. 87/2009 var kjararáði falið að ákveða laun og starfskjör M. Í kjölfar lagasetningarinnar varð það að taka launakjör er fylgdu embættinu til viðeigandi stjórnsýslumeðferðar. Á sama tíma var fyrrgreint hámark sett á föst laun embættismanna sem kjararáð ákveður. Þegar kjararáð tók ákvörðun um launakjör M, eins og því bar lagaskylda til, varð kjararáð að taka mið af þessu hámarki. Eins og lög nr. 47/2006 um kjararáð, sbr. lög nr. 87/2009, var háttað, og að teknu tilliti til réttarstöðu embættismanna gat ráðið ekki beðið með að breyting sú, sem gera þurfti á launum M, tæki gildi eins og M telur að skylt hafi verið að gera. M hefur ekki borið því við að 2. gr. laga nr. 87/2009 brjóti í bága við 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar eða aðrar stjórnskipunarreglur. Verður ekki séð að fyrrgreint ákvæði stjórnarskrárinnar breyti þeirri túlkun sem að framan greinir. Krafa M um ógildingu úrskurðar kjararáð var því ekki tekin til greina og S sýknaður af öllum kröfum M. M áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 695/2012.

13. Dómur Félagsdóms frá 5. október 2012 í máli nr. 7/2011: BHM f.h. Félags lífeindafræðinga gegn íslenska ríkinu vegna Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.
ÚTKALL. VENJUBUNDIN FRAMKVÆMD.

Kröfur B vörðuðu túlkun og framkvæmd á ákvæðum 2.3.3.1 og 2.3.3.2 í kjarasamningi Félags lífeindafræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. B byggði kröfur sína aðallega á því að HSV gæti ekki einhliða breytt áralangri framkvæmd sem væri í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamninga. Með slíku greiðslufyrirkomulagi um langt skeið hafi tryggilega verið fest í sessi tiltekin túlkun á ákvæðum kjarasamnings aðila sem ekki yrði breytt einhliða enda um lögbundin lágmarkskjör að ræða. Taldi B að breyting á gildandi fyrirkomulagi yrði ekki náð fram nema með uppsögn kjarasamnings eða breytingu á viðeigandi ákvæðum við endurnýjun. B byggði kröfu sína og á því að áður en ákvörðun sú sem HSV kynnti félagsmönnum B hefðu þeir fengið greitt fyrir hvert útkall og gilti þá einu hvort annað útkall fylgdi í kjölfarið. Var þessi framkvæmd viðhöfð um langt árabil í fullri sátt milli aðila og félagsmönnum B greitt í samræmi við hana. Með ákvörðun sinni hafi HSV freistað þess að breyta þessari réttarstöðu einhliða félagsmönnum B til tjóns, án þess að færa rök fyrir því við hvaða heimild þessi framganga styddist. Ríkið mótmælti því að framkvæmd HSV hefði verið í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamnings. Skilningur ríkisins á greinum 2.3.3.1 og 2.3.3.2 hafi ætíð verið sá að þegar útköll sem liggja nálægt í tíma, að lágmarksgreiðsla næsta útkalls á undan er ekki lokið, þegar hið næsta hefst gildi sú regla að greiða skuli fyrir samfelldan tíma frá upphafi fyrsta útkalls til loka þess síðasta. Þessi skilningur hafi komið skýrlega fram í málsástæðum og lagarökum ríkisins í dómi Félagsdóms í máli nr. 13/2002 og í skýringum með sumum sérútgáfum kjarasamninga fyrir hvert stéttarfélag innan BHM. Fram komi í niðurstöðu dómsins að óumdeilt væri að félagsmönnum B hjá HSV hefði um langa hríð verið greitt fyrir hvert útkall óháð því hvenær fyrra útkalli lauk. Var jafnframt ljóst af gögnum málsins að sú framkvæmd var við lýði þar til ákvörðun HSV var tekin. Þegar venja hefur myndast um framkvæmd og túlkun kjarasamnings hefur hún svipað gildi og kjarasamningur og verður ekki breytt einhliða af öðrum samningsaðila. Það varð því niðurstaða dómsins að í ljósi efnis kjarasamningsins og þeirrar venju, sem óumdeilt er að skapast hafði um greiðslur vegna útkalla, mátti B treysta því að greitt yrði fyrir útköll til samræmis við þá venju. Féllst því dómurinn á það með B að slíkri venjubundinni framkvæmd yrði almennt ekki breytt nema með nýjum kjarasamningi milli aðila. Breyti engu um þá niðurstöðu þótt fjármálaráðuneytið hafi gengið út frá því að framkvæmdin væri með öðrum hætti en raunin var.

14. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. október 2012 í máli nr. E-275/2012: S gegn Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
VEIKINDI. ÓLÖGMÆT UPPSÖGN. SKAÐABÆTUR.

S var aðstoðarverslunarstjóri í vínbúð Á. Í ráðningarsamningi málsaðila var tiltekið sérstaklega að um réttindi og skyldur starfsmanns færi eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Voru þau lög lögð til grundvallar við gerð ráðningarsamnings auk kjarasamnings þess stéttarfélags sem tilgreint var í ráðningarsamningi. S þjáðist af bakverkjum snemmsumars 2010 en í byrjun júní skilaði S læknisvottorði frá bæklunarlækni. Í vottorðinu kom fram að S væri með brjósklos í baki og mætti því ekki lyfta neinu þungu meðan S væri í meðferð vegna brjósklossins hjá sjúkraþjálfara, fram til 30. nóvember 2010. Með bréfi í október 2010 var S sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara miðað við mánaðamótin október/nóvember og tiltekið að uppsögnin væri í samræmi við 43. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi stefnanda í uppsagnarfresti. Stéttarfélag S óskaði eftir rökstuðningi fyrir uppsögninni. Í rökstuðningi Á kom fram að S hefði verið sagt upp störfum þar sem S væri „...ófær um að sinna núverandi starfi með fullnægjandi hætti“. Ákvörðunin var rökstudd nánar með vísan til samtals S við trúnaðarlækni Á en í samtalinu átti S að hafa rætt um bakverki sem hafi hrjáð S vegna brjóskloss í baki og að S vonaðist til að fá lyftara til að létta undir með sér í starfi, að öðrum kosti myndi S beita „vinnuhagræðingu“, meðan S væri að jafna sig á bakverkjunum, s.s. með því að lyfta ekki heilu kössunum heldur taka upp eina og eina flösku, setjast við að raða í hillur o.s.frv. Að mati Á hafi það verið „fullkomlega óraunhæft“ að S gæti uppfyllt starfsskyldur sínar með þeirri vinnuhagræðinu sem S hafi stungið upp á. Annars vegar vegna þess að ekki hafi staðið til að kaupa lyftara eins og S vonaðist eftir. Hins vegar vegna þess að það hafi ekki verið raunhæft fyrir S að ætla að taka eina flösku í einu þegar tekið væri af vörubrettum og fært í hillur verslunarinnar, auk þess sem slíkt væri alls ekki kleift í öllum tilvikum. Fram kom í niðurstöðu héraðsdóms að samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 hafi forstöðumaður stofnunar rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi, án þess að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996, ef uppsögnin á ekki rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Með því að uppsögn S var grundvölluð á því að S gæti ekki rækt starfann sökum heilsubrests var ekki þörf á að veita S áminningu áður en til uppsagnarinnar kom. Hins vegar bar að líta til þess að er ákvörðun um uppsögn S var tekin lá ekki fyrir læknisvottorð um að S gæti ekki rækt starfann sökum heilsubrests heldur aðeins tölvupóstskeyti trúnaðarlæknis Á, þar sem fram kemur að læknirinn hafi talað við S um tilhögun vinnu S. S hélt því fram að hún hafi verið orðin heil heilsu er henni var sagt upp störfum. Gegn mótmælum S taldi dómurinn að Á hefði ekki sýnt fram á það að S hafi ekki verið fær um að rækja starfann á fullnægjandi hátt, er henni var sagt upp störfum. Þar með hafi ekki verið heimilt að segja S upp störfum með vísan til heilsufars S. Var uppsögn S samkvæmt niðurstöðu dómsins grundvölluð á ómálefnalegu sjónarmiði og því ólögmæt. Var Á skaðabótaskyldur af þessum sökum gagnvart S samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins.

15. Dómur Héraðsdóms Austurlands frá 7. nóvember 2012 í máli nr. E-202/2010: H gegn Heilbrigðisstofnun Austurlands og E.
MISKA- OG SKAÐABÓTAKRAFA VEGNA UPPSAGNAR. ENDURGREIÐSLUKRAFA.

Skaðabótakröfu H, fyrrverandi yfirlæknis hjá HSA, vísað frá dómi en H dæmdar miskabætur úr hendi stofnunarinnar og E, forstjóra hennar. Í gagnsök krafði stofnunin H um endurgreiðslu vegna oftekinna þóknana fyrir læknisverk á grundvelli úttektar sem stofnunin hafði látið vinna. Ekki var fallist á aðalkröfu HSA, en varakrafa sem byggðist á viðurkenningu H var tekin til greina.

16. Dómur Félagsdóms frá 12. nóvember 2012 í máli nr. 9/2012 (óbirtur): Alþýðusamband Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Verkalýðsfélags Akraness gegn íslenska ríkinu vegna Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.
VAKTAÁLAG Í HELGIDAGAFRÍUM.

VFLA krafðist þess að í fyrsta lagi viðurkennt yrði að ákvörðun HVE um að hætta greiðslum vaktaálags í helgidagafríum til félagsmanna VFLA, sem starfa á HVE á Akranesi, feli í sér brot á framkvæmd greinar 2.6.7 í aðalkjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og SGS f.h. VLFA gagnvart félagsmönnum VLFA sem starfa við HVE á Akranesi, í öðru lagi að viðurkennt yrði að HVE sé skylt að greiða félagsmönnum VLFA sem starfa við HVE á Akranesi vaktaálag á helgidagafríum frá 1. janúar 2011 og í þriðja lagi að viðurkennt yrði að vaktaálag á greiðslur í helgidagafríum sé hluti af föstum launum félagsmanna VLFA sem starfa hjá HVE á Akranesi. VFLA byggði kröfur sínar á því að áralöng og athugasemdalaus framkvæmd á kjarasamningi milli aðila, þar sem vaktaálag hafði verið greitt á helgidagafríum allt fram til 31 desember 2010, feli í sér svo sterka venju að henni verði ekki vikið til hliðar nema með því að taka ákvæðið sérstaklega upp í kjarasamningi og semja um það upp á nýtt milli aðila. Ríkið vísaði því á bug að venja hefði skapast sem viki ákvæði greinar 2.6.7 til hliðar. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þar sem félagsmenn VLFA hefðu um langa hríð verið greitt vaktaálag í helgidagafríum hefði myndast venja um framkvæmd og túlkun greinarinnar hefði hún svipað gildi og kjarasamningur og yrði ekki breytt einhliða af öðrum samningsaðila. Féllst dómurinn á viðurkenningarkröfur VLFA.

17. Dómur Héraðsdóms Vesturlands frá 26. nóvember 2012 í máli nr. E-1/2012: Á gegn Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
UPPSÖGN. FORSENDUR AÐ BAKI RÁÐNINGAR.

Á, hjúkrunarfræðingur, var sagt upp störfum. HSV hélt því fram að tilefni starfsloka Á mætti rekja til þeirrar forsendu sem legið hefði til grundvallar ráðningu Á sem deildarstjóra starfsmannaheilsuverndar, vegna verksamnings HSV og N, og uppbyggingu faglegrar öryggis- og starfsmannaheilsuverndar hjá N. Við stofnun ráðningarsambands Á við HSV hafi Á verið gert það ljóst að ein af meginforsendum ráðningar Á væri sú að Á ætti að sinna starfsmannaheilsuvernd hjá N á grundvelli samnings HSV við N. Í auglýsingu um starfið hafi komið fram að óskað væri eftir hjúkrunarfræðingi til að sinna starfsmannaheilsuvernd á starfssvæði HSV. Í viðræðum aðila í aðdraganda ráðningar Á í starfið hafi komið skýrt og ótvírætt fram að um væri að ræða starf við starfsmannaheilsuvernd hjá N til að uppfylla samningsskyldur HSV samkvæmt verksamningi. Grundvöllur ráðningar Á hafi verið skýr og ótvíræður og því ekki nauðsynlegt að geta þess sérstaklega í ráðningarsamningi að þjónustusamningur HSV við N væri grundvöllur ráðningar Á. Er N ráðgerði að segja upp þjónustusamningi var Á tilkynnt að ekki yrði hjá því komist að segja Á upp störfum. Var uppsögn Á byggð á 43. gr. stml. Á taldi að uppsögnin væri ólögmæt þar sem HSV hefði borið að fara eftir 1. mgr. 44. gr. stml. og veita henni áminningu áður en til uppsagnar kæmi. Héraðsdómur féllst ekki á að 44. gr. stml. ætti við um í tilviki Á. Í niðurstöðu héraðsdóms sagði að líta yrði til þess að samkvæmt samningi HSV og N skyldi Á vera í fullu starfi hjá N. Verður á því að byggja hér að þegar litið er til aðdaganda ráðningar Á og samnings þess sem gerður var við N að Á hafi verið ráðin til þess að sinna ákveðnu verkefni sem byggst hafi á samningi HSV við einkaaðila sem með því vildi efna skyldur sínar samkvæmt kjarasamningum starfsmanna sinna. Þegar síðan var ljóst að N vildi segja upp samningi við HSV voru brostnar forsendur fyrir áframhaldandi starfi Á. Á gat því ekki gert sér væntingar um að hún yrði áfram við störf hjá HSV eins og háttaði til um ráðningu hennar og starfsskyldur. Féllst dómurinn því ekki á að uppsögnin hefði verið ólögmæt og sýknaði HSV.

18. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. desember í máli nr. E-4607/2012: H gegn íslenska ríkinu.
BREYTING Á STÖRFUM. NIÐURLAGNING. BIÐLAUN.

H, deildarstjóri mæðraverndar, krafðist þess að viðurkennt yrði að hún ætti, samkvæmt 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis í stml., rétt til skaðabóta úr hendi HSS er næmi launum í tólf mánuði vegna niðurfellingar stöðu hennar. Í hélt því fram að staða H hefði ekki verið lögð niður heldur hefði HSS nýtt sér rétt til breytinga á starfi og verksvið H skv. 19. gr. stml. og hefði tilkynnt H fyrirhugaðar breytingar á stöfum með hæfilegum fyrirvara, að gættum fresti til handa H til að tjá sig um þær. HSS hafi einungis ætlað að gera breytingar á störfum og verksviði H vegna skipulagsbreytinga hjá HSS. Áherslur í starfsemi stofnunarinnar hefðu breyst þegar hagræða hafi þurft í starfsemi HSS m.a. vegna niðurskurðar almennt í heilbrigðisþjónustu, lokunar skurðstofu og þess að fæðingum hefði fækkað á sjúkrahúsinu. Fólust breytingarnar í því að sett hafi verið á fót ný sameinuð deild mæðravendar og fæðinga. Forráðamenn HSS tóku þá ákvörðun við skipulagsbreytingarnar að ráða nýjan starfsmann til að gegna starfi deildarstjóra á nýrri deild og hafi nýtt starf deildarstjóra á sameinaðri deild verið auglýst. H lét af störfum hjá HSS þegar nýr deildarstjóri sameinaðrar deildar tók til starfa. Héraðsdómur féllst á það með H að fyrirhugaðar breytingar og sú staða sem henni hafi verið boðin hafi verið verulega frábrugðin fyrra starfi hennar og breytingar á verksviði hennar og vinnufyrirkomulagi hafi orðið verulega íþyngjandi þó svo að ekki lægi fyrir að breyting yrði á heildarlaunakjörum H. Að því virtu féllst héraðsdómur á það að starf H hefði verið lagt niður og svo umtalsverð breyting hefði orðið á starfi H við þá breytingu að líta bæri svo á að henni hafi ekki boðist sambærilegt starf. Féllst dómurinn á viðurkenningarkröfu H eins og hún var fram sett.

19. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. desember í máli nr. E-4608/2012: G gegn íslenska ríkinu.
BREYTING Á STÖRFUM. NIÐURLAGNING. BIÐLAUN.

G, deildarstjóri fæðingardeildar í 60% starfshlutfalli, krafðist þess að viðurkennt yrði að hún ætti, samkvæmt 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis í stml., rétt til skaðabóta úr hendi HSS er næmi launum í tólf mánuði vegna niðurfellingar stöðu hennar. Í hélt því fram að staða G hefði ekki verið lögð niður heldur hefði HSS nýtt sér rétt til breytinga á starfi og verksvið G skv. 19. gr. stml. og hefði tilkynnt G fyrirhugaðar breytingar á stöfum með hæfilegum fyrirvara, að gættum fresti til handa G til að tjá sig um þær. HSS hafi einungis ætlað að gera breytingar á störfum og verksviði G vegna skipulagsbreytinga hjá HSS. Áherslur í starfsemi stofnunarinnar hefðu bretst þegar hagræða hafi þurft í starfsemi HSS m.a. vegna niðurskurðar almennt í heilbrigðisþjónustu, lokunar skurðstofu og þess að fæðingum hefði fækkað á sjúkrahúsinu. Fólust breytingarnar í því að sett hafi verið á fót ný sameinuð deild mæðravendar og fæðinga. Forráðamenn HSS tóku þá ákvörðun við skipulagsbreytingarnar að ráða nýjan starfsmann til að gegna starfi deildarstjóra á nýrri deild og hafi nýtt starf deildarstjóra á sameinaðri deild verið auglýst. G hélt áfram störfum hjá HSS þegar nýr deildarstjóri sameinaðrar deildar tók til starfa. Héraðsdómur féllst á það með G að fyrirhugaðar breytingar og sú staða sem henni hafi verið boðin hafi verið verulega frábrugðin fyrra starfi hennar og breytingar á verksviði hennar og vinnufyrirkomulagi hafi orðið verulega íþyngjandi þó svo að ekki lægi fyrir að breyting yrði á heildarlaunakjörum G. Að því virtu féllst héraðsdómur á það að svo umtalsverð breyting hefði orðið á starfi og verksviði G og hún jafnframt sett undir boðvald annars sem tók við deildarstjórastarfi sameinaðrar deildar, að starf hennar hafi verið lagt niður, og varð ekki talið að það breyti nokkru um að G var aðeins í 60% starfi sem deildarstjóri. Var niðurstaða dómsins sú að G átti rétt til skaðabóta og ekki var fallist á að með því að taka við starfi almennrar ljósmóður hafi G fyrirgert þeim rétti sínum. Féllst dómurinn á viðurkenningarkröfu G eins og hún var fram sett.

20. Dómur Hæstaréttar frá 20. desember 2012 í máli nr. 236/2012: S gegn íslenska ríkinu.
LAUSN EMBÆTTISMANNS VEGNA HEILSUBRESTS.
S krafðist bóta vegna starfsloka sem fangavörður. S hafði verið í veikindaleyfi í kjölfar aðgerðar og er veikindaréttur var að renna út var S tilkynnt bréflega að meðan hún hefði ekki heilsu til að gegna starfi fangavarðar yrði ekki um endurkomu hennar í það starf að ræða. Var í bréfinu vísað til vottorðs trúnaðarlæknis F um starfshæfni S. Tæplega ári síðar var S tilkynnt að henni væri veitt lausn frá störfum. Í dómnum kom fram að S hafi verið embættismaður í merkingu laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og um lausn hennar frá embætti færi eftir VI. kafla laganna. Taldi dómurinn að með fyrrgreindu bréfi hafi verið lagður grunnur að þeirri ákvörðun að veita S lausn frá embætti með stoð í áliti trúnaðarlæknis F. Slík ákvörðun væri stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi F borið að veita S færi á að kynna sér umrædd gögn og tjá sig um efni málsins áður en því hafi endanlega verið ráðið til lykta. Meðferð málsins hafi því ekki verið í samræmi við andmælareglu 13. gr. laga nr. 37/1993 og 1. mgr. 15. gr. laganna um aðgang að gögnum. Þá hafi málsmeðferðin einnig brotið í bága við 10. gr. sömu laga um rannsókn máls. Embættismissir S hafi því verið ólögmætur og bæri Í ábyrgð á honum eftir almennum reglum skaðabótaréttar. Voru S dæmdar bætur að álitum en ekki voru talin lagaskilyrði til greiðslu miskabóta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira