Hoppa yfir valmynd
1. mars 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dómar uppkveðnir árið 2014

| Hæstiréttur - dómar | Héraðsdómstólar - dómar | Félagsdómur |

Á árinu 2014 voru kveðnir upp 22 dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess, fjórir hæstaréttardómar, fimmtán héraðsdómar og þrír félagsdómar.

Hér að neðan er að finna upptalningu á nefndum dómum ásamt atriðisorðum og reifunum:

1. Dómur Hæstaréttar frá 16. janúar 2014 í máli nr. 528/2013: Ó gegn Alþingi.

UPPSÖGN VEGNA HEILSUBRESTS.

Ó höfðaði mál gegn A og krafðist skaðabóta eftir að Ó var sagt upp störfum haustið 2009. Þegar Ó var sagt upp störfum hafði Ó verið í veikindaleyfi í 360 daga og var réttur Ó til launa samkvæmt kjarasamningi þá fallinn niður. Í dómnum kom fram að Ó hefði þá ekki verið fær sökum líkamlegrar vanheilsu að hefja að nýju vinnu hjá A í fullu starfi. Þótt Ó hefði verið búin að glata rétti sínum til launa hefði A ekki verið heimilt samkvæmt kjarasamningi að leysa Ó frá störfum vegna umrædds heilsubrests fyrr en í ágúst 2010, nema Ó hefði sjálf óskað þess. Eins og atvikum var háttað hefði A borið að ganga úr skugga um hvort líkamleg heilsa Ó hefði þá enn staðið í vegi fyrir að Ó gæti tekið við fyrra starfi sínu hjá A. Einnig hefði átt að gefa Ó kost á að tjá sig um fyrirhuguð starfslok á þeim tíma. Þótt Ó hefði ekki verið metin hæf til að hefja störf haustið 2009 af trúnaðarlækni A varð ekki talið ljóst af gögnum málsins að niðurstaðan hefði orðið sú sama í ágúst 2010. Þegar litið væri til ágalla á meðferð málsins af hálfu A yrði það að bera hallann af sönnunarskorti um þetta atriði. A var því dæmt til að greiða Ó skaðabætur.

2. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. janúar 2014 í máli nr. E-2487/2013: A gegn íslenska ríkinu vegna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

SKIPUN Í EMBÆTTI. HÆFNISNEFND. NÝTT MAT RÁÐHERRA.

Í september 2012 var auglýst á Starfatorgi staða skrifstofustjóra landgæða í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í auglýsingunni kom fram að skrifstofustjóra skrifstofu landgæða væri ætlað að leiða starf skrifstofunnar undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra, framfylgja stefnu og markmiðum, sem og áherslum og gildum ráðuneytisins. Í auglýsingunni voru nánar tilgreindar kröfur gerðar til menntunar og hæfni umsækjanda. A sótti um embættið og var einn 25 umsækjenda. Í samræmi við reglur um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands nr. 393/2012, setti ráðherra á fót sérstaka nefnd í þeim tilgangi að meta hæfni umsækjenda. Í samræmi við 2. mgr. 5. gr. reglnanna gerði nefndin áætlun um ráðningarferli. Í áætluninni kom meðal annars fram til hvaða atriða nefndinni væri skylt eða heimilt að líta við mat á einstökum þáttum og hverjar væru áherslur hennar. Var greint frá því að við mat á færni og öðrum eiginleikum væri lögð áhersla á mótun stefnu, lausna og hugmynda, samstarfshæfileika og skýra sannfærandi tjáningu og boðskipti. Þá kom enn fremur fram í áætlun nefndarinnar hvenær verki nefndarinnar yrði lokið. Staðfesti ráðherra áætlunina. Á fundi nefndarinnar í lok október 2012 lauk hæfnisnefndin störfum og afhenti ráðherra skýrslu sína og kynnti niðurstöðu sína sem var sú, að A og B væru hæfastir. Í lok október 2012 var A tilkynnt sú ákvörðun ráðherra að þeir tveir sem nefndin taldi hæfasta til starfans, skyldu þreyta frekari próf hjá F og fara í viðtal í ráðuneytinu þar sem þeir skyldu kynna framtíðarsýn sína fyrir þessa skrifstofu. Í byrjun nóvember 2012 var A tilkynnt að ákveðið hefði verið að ráða B sem skrifstofustjóra. A var ósáttur við þessi málalok og tjáði sig um það við ráðuneytið með tölvupósti. Í framhaldi af því hafði A símsamband við H hjá F og hittust þeir á skrifstofu F þar sem H fór yfir niðurstöður prófanna sem A hafði þreytt á vegum fyrirtækisins. A óskaði síðan eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun ráðherra og var sá rökstuðningur veittur með bréfi í byrjun desember 2012. Um miðjan desember 2012 óskaði síðan stéttarfélag A eftir fundi með ráðherra til þess að koma að athugasemdum við málsmeðferðina og ráðningu í stöðuna í umboði A. Þeirri beiðni var hafnað í byrjun janúar 2013 en félaginu boðið að senda skriflegar athugasemdir við ráðningarferlið teldi það ástæðu til þess. Í forsendum dómsins kemur fram að niðurstaða hæfnisnefndarinnar hafi komið fram í skýrslu hennar þar sem fram kom að það væri einróma sameiginleg niðurstaða hennar að loknu heildstæðu mati á einstökum liðum í ráðningarferlinu að A og B teldust hæfastir miðað við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við skipun í embættið. Fram kemur í forsendum dómsins að niðurstaða nefndarinnar sé einungis ráðgefandi og gat ráðherra því skipað hvorn þann í starfið er hann kaus. Ráðherra ákvað að leita aðstoðar F. Lögð voru fyrir A og B tvö próf. Annars vegar var hæfnispróf og hins vegar persónuleikapróf. Prófin þreyttu umsækjendurnir heima hjá sér í gegnum tölvu. Síðan var fulltrúi frá F viðstaddur kynningu umsækjendanna tveggja á framtíðarsýn þeirra vegna hinnar nýju skrifstofu, ásamt ráðuneytisstjóra og settum skrifstofustjóra skrifstofu landgæða. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að niðurstaðan úr prófunum væri sú að ekki væri marktækur munur á niðurstöðunni úr hæfnisprófinu. Ótrúlega mikill munur var hins vegar á niðurstöðu úr persónuleikamatinu, sérstaklega í ljósi þess að A og B höfðu verið metnir hæfastir hjá hæfnisnefndinni. Um próf þetta lá ekki annað fyrir í málinu en að í því væri verið að kanna sjö þætti, þ.e. ákvarðanatöku og frumkvæði, forystu og stjórnun, samvinnu, tengslamyndun, frumleika og sköpun, skipulag og áætlanir og álags og streituþol. Taldi dómurinn að svo virtist sem um væri að ræða sambærileg atriði og lögð voru til grundvallar í mati hæfnisnefndarinnar. Dómurinn taldi niðurstöðuna í tölvuprófinu ekki trúverðuga þegar til samanburðar var fagleg vinna sem unnin var af hæfnisnefndinni sem skipuð var þremur sérfræðingum. Þá segir í niðurstöðum F að í kynningu A á framtíðarsýn fyrir skrifstofuna vanti raunsæjar tillögur um framkvæmd og fyrstu skref að framtíðarsýninni og ekki hafi verið tilgreind nýleg dæmi. Fram kemur í dómnum að um þetta að hér sé til þess að líta að B starfaði frá árinu 2008 sem sérfræðingur á skrifstofu landgæða. Hafði hann því augljóslega forskot hvað þetta varðar fram yfir A og stóðu þeir ekki jafnfætis við kynningu þessa. Auk þess fór kynningin fram á starfsstöð B fyrir nánum samstarfsmönnum hans. Í skýrslu hæfnisnefndar kemur hins vegar fram að nefndin gerði ekki mun á A og B varðandi kynningu þeirra á framtíðarsýn fyrir ráðuneytið og á verkefninu, en í nefndinni sat m.a. varaforseti líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að hér sé til þess að líta að á grundvelli niðurstöðu hæfnisnefndarinnar frá október 2012 voru A og B taldir hæfastir. Ráðherra gat því skipað annan hvorn þeirra til starfsins. Ráðherra ákvað hins vegar að fá F til aðstoðar. Dómurinn taldi niðurstöðu mats F ótrúverðuga. Matið var lítið sem ekkert rökstutt og í miklu ósamræmi við rökstudda niðurstöðu hæfnisnefndarinnar. Þá hafi ekki verið gætt að því að hafa jafnræði aðila í heiðri við kynninguna um framtíðarsýnina sem fram fór í ráðuneytinu. Framsetning mats F á frammistöðu A sé í eðli sínu meiðandi fyrir hann í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og til þess fallin að varpa rýrð á faglega og persónulega hæfni hans. Engu skiptir þótt matið hafi verið sent sem trúnaðarmál. Ráðherra byggði ákvörðun sína á skipun B í starfið meðal annars á umsögn og niðurstöðu F. Ber því að greiða A miskabætur. Í ljósi niðurstöðu hæfnisnefndarinnar, um að A og B teldust jafnhæfir, er íslenska ríkið sýknað af kröfum A um fjártjón.

3. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2014 í máli nr. E-332/2013. A gegn Ríkislögreglustjóra, Lögreglustjóranum á X og íslenska ríkinu.

RÉTTUR TIL AÐ TAKA VIÐ EMBÆTTI Á NÝ. FRÁVÍSUN.

A, sem ákærður hafði verið fyrir hegningalagabrot, var veitt lausn frá embætti sínu, sem varðstjóri við embætti lögreglustjórans á X, um stundarsakir í október 2010. A var veitt lausn frá störfum að fullu í júní 2012, eftir sakfellingu hans í héraðsdómi en sýknudómi sama dómstóls í sakamálinu hafði Hæstiréttur áður heimvísað. Seinni dóminum var einnig áfrýjað og var A loks sýknaður með dómi Hæstaréttar í nóvember 2012. Með bréfi frá embætti ríkislögreglustjóra í byrjun desember 2012 var A boðið að taka aftur við starfi lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á X. Það var afstaða starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að engin lagaheimild stæði til þess að bjóða embættismanni aftur embætti sem honum hafi verið vikið úr að fullu og því væri lögreglustjóranum rétt að hafna því að A kæmi aftur til starfa. A höfðaði mál til viðurkenningar á rétti sínum til að taka á ný við embætti lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á X. Í þinghaldi til undirbúnings aðalmeðferðar málsins í janúar 2014 upplýsti lögmaður A að gefið hefði verið út skipunarbréf til A í nóvember 2013, sem lagt yrði fram við aðalmeðferð málsins. A hafi þar verið skipaður lögreglumaður eins og krafist sé viðurkenningar á rétti hans til í stefnu. Lögmaður A boðaði þá breytta kröfugerð í málinu af hálfu A, sem hann lagði svo fram við aðalmeðferð málsins. Breyttri kröfugerð A var mótmælt sem of seint fram kominni. A hélt fast við kröfu sína um viðurkenningardóm. Við þá kröfu sem gerð er í stefnu málsins, um viðurkenningu á rétti A til að taka við embætti lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á X var í nýrri kröfugerð bætt áskilnaði um að hann hafi starfsstigið varðstjóri. Í niðurstöðu dómsins kom fram að samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 91/1991, skal kröfu, sem ekki kemur fram í stefnu, vísað frá dómi, nema stefndi hafi samþykkt að hún kæmist að án þess. Sama er um hækkun á kröfu eða aðrar breytingar stefnda í óhag. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að fyrir liggur að íslenska ríkið samþykkti ekki þá breytingu á kröfugerð A sem lögð var fram við aðalmeðferð málsins. Þá er ljóst að aukið er við kröfugerðina þar sem ný krafa er um viðurkenningu á rétti til starfs í hærra starfsstigi en gerð var krafa um í stefnu málsins. Ber því, þegar af þeirri ástæðu, að vísa hinni endanlegu kröfugerð A frá dómi og leggja til grundvallar við úrlausn málsins þá kröfugerð hans sem fram kemur í stefnu. Framsetning kröfugerðar A í stefnu er með þeim hætti að þar er í fyrsta lagi sett fram krafan um viðurkenningu á rétti A til að taka á nýjan leik við embætti lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á X, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála, þar sem meðal annars kemur fram að til dómkrafna A geti talist krafa um viðurkenningu á tilteknum réttindum. Í öðru lagi er í stefnukröfunni tilgreind málsástæða sem A byggir viðurkenningarkröfu sína á, sem felst í stjórnvaldsákvörðun ríkislögreglustjóra frá því í byrjun desember 2012. Málsástæður skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála, en málsástæður eiga ekki heima í dómkröfum og geta ekki staðið sjálfstætt í dómsorði. Eins og krafan er fram sett er blandað saman málsástæðu og dómkröfu og fullnægir dómkrafan því ekki skilyrðum d-liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Málsókn A byggist á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, sem heimilar sóknaraðila, sem hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands, að leita viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Með skipunarbréfi ríkislögreglustjóra er A skipaður til að vera lögreglumaður við embætti lögreglustjórans á X og gildir skipunin í fimm ár. Upplýsti A sjálfur fyrir dóminum að hann hefði þegar hafið störf sem lögreglumaður við embætti lögreglustjórans á X. Þar sem A hafði verið skipaður í þá stöðu, sem hann krafðist með málsókninni viðurkenningar á rétti sínum til að vera skipaður í, taldi dómurinn að A hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr þessari viðurkenningarkröfu með dómi. Þar sem það er nauðsynlegt skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, að A hafi af því lögvarða hagsmuni að fá dóm um viðurkenningarkröfu sína, og þeir hagsmunir A eru ekki lengur fyrir hendi, varð, eins og hér stóð á, að vísa málinu frá dómi.

4. Dómur Félagsdóms frá 3. febrúar 2014 í máli nr. 11/2013 (Óbirtur): Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vegna F gegn íslenska ríkinu vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

MATSTOFA.

Dómkröfur F voru þær að viðurkennt yrði með dómi að HSU hefði brotið gegn gr. 3.4.3 í kjarasamningi FÍH og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs með því að hafa ekki greitt F fæðispeninga þegar F var á vakt en matstofa ekki opin. Í hélt því fram að samkvæmt gr. 3.4.1 teldist matstofa sá staður þar sem hægt sé að vera fram heitan eða kaldan mat, aðfluttan eða eldaðan á staðnum. F átti þess kost að panta mat og fá hann afhentan í matsal HSU og bæði sé hægt að hita mat í matsalnum og á kaffistofu bráðamóttökunnar. Á þessum stöðum sé hægt að matast. Í hélt því fram að með þessu væri skilyrðum greinarinnar uppfyllt og matstofa opin. Í niðurstöðu Félagsdóms kom fram það mat að sú aðstaða sem F stóð til boða fullnægði ekki því að geta talist matstofa þar sem hægt er að bera fram heitan eða kaldan mat, aðfluttan eða eldaðan á staðnum, hvorki í skilningi ákvæða kjarasamningsins, né heldur samkvæmt almennum málskilningi. Leit dómurinn því svo á að matstofa væri ekki opin þegar F var við störf á þeim tímum sem tilgreindir voru í dómkröfum F og hafi því HSU borið að greiða F fæðispeninga samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins. Félagsdómur féllst því á að HSU hafi brotið gegn gr. 3.4.3 í kjarasamningi aðila og féllst á viðurkenningarkröfu F.

5. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. febrúar 2014 í máli nr. E-333/2013: A gegn íslenska ríkinu vegna Lögreglustjórans á X.

STARFSLOK. VANGREIDD LAUN.

A, sem gegndi stöðu varðstjóra hjá embætti lögreglustjórans á X, var ákærður fyrir hegningarlagabrot. Ríkislögreglustjóri veitti A lausn frá embætti um stundarsakir á hálfum launum í október 2010. Málið var sent til nefndar samkvæmt 27. gr. starfsmannalaga sem gaf í apríl 2011 það álit að ríkislögreglustjóra hefði verið rétt að veita A lausn frá störfum um stundarsakir. Með dómi héraðsdóms í mars 2011, var A sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en sá dómur var ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað með dómi Hæstaréttar í október 2011. Með dómi héraðsdóms í maí 2012 var A sakfelldur og dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Í kjölfar dómsins tilkynnti ríkislögreglustjóri A í júní 2012 að fyrirhugað væri að víkja honum úr embætti að fullu. Að mótteknum andmælum A veitti ríkislögreglustjóri honum lausn að fullu frá embætti lögreglumanns í júní 2012 með vísan til 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga, en samhliða féllu allar launagreiðslur til A niður. A hafði fengið hálf grunnlaun frá október 2010 til júní 2012. Í lausnarbréfi ríkislögreglustjóra var launakröfum sem A hafði gert hafnað og honum vísað til fjármálaráðuneytis eða lögreglustjórans á X um uppgjör orlofs eða annarra áunninna réttinda, en til lífeyrissjóðs um lífeyrismál. Þá kom fram í lausnarbréfinu að ákvörðunin væri endanleg og ekki kæranleg til æðra stjórnvalds og leiðbeint var um ákvæði 32. gr. starfsmannalaga sem fjallar um rétt til að bera mál um frávikningu undir dómstóla og bætur vegna óréttmæts embættismissis. Við frávikningu A losnaði staða varðstjóra við embætti lögreglustjórans á X og var hún auglýst laus til umsóknar í júlí 2012. Ríkislögreglustjóri skipaði nýjan lögreglumann í stöðu varðstjóra við embættið í ágúst 2012. Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum í nóvember 2012 var A sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Í lok nóvember 2012 krafðist framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna þess, fyrir hönd A, að hann fengi sitt fyrra starf hjá embætti lögreglustjórans á X auk launa samkvæmt 2. mgr. 28. gr. starfsmannalaga fram til þess tíma sem hann hæfi störf að nýju. Í bréfi embættis ríkislögreglustjóra til A í byrjun desember 2012 segir að á grundvelli sýknudóms Hæstaréttar hafi ríkislögreglustjóri ákveðið að bjóða A að taka aftur við starfi lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á X. Þar kom fram að kæmi A aftur til starfa yrðu honum, samkvæmt nánari ákvörðun lögreglustjórans á X, greidd þau laun sem honum hefði borið frá miðjum október 2010 til þess tíma er hann kæmi aftur til starfa, að frádregnum hálfum launum sem hann hafi fengið greidd frá miðjum október 2010 til miðs júní 2012. Ofgreitt þrekálag og aðrar tekjur A ættu auk þess að koma til frádráttar. Með útreikninga vegna þessa og uppgjör launa færi lögreglustjórinn á X og skyldi A gera honum grein fyrir því hvort hann óskaði eftir því að koma aftur til starfa við embættið. Í byrjun desember 2012, sendi framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna tölvupóst til sýslumannsins á X og til Fjársýslu ríkisins, með beiðni um útreikning launa A. Fjársýsla ríkisins upplýsti starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um málið og óskaði eftir umsögn og leiðbeiningum frá henni um fyrirhugað uppgjör við A. Í svari starfsmannaskrifstofu til fjársýslunnar og framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna kom fram, að þar sem A hefði verið vikið að fullu frá embætti ætti hann ekki rétt til greiðslu launa samkvæmt 2. mgr. 28. gr. starfsmannalaga. Þá ætti A ekki rétt á að fá að gegna embættinu á nýjan leik þrátt fyrir sýknudóm Hæstaréttar. Lögmaður A skoraði á lögreglustjórann á X með tölvupósti í desember 2012 að gera þegar í stað upp vangoldin laun við A, en lögreglustjórinn hafði þá hafnað því að A kæmi til starfa að svo stöddu. Lögreglustjórinn á X tilkynnti A í lok janúar 2013 að hann hefði ákveðið að hafna því að A kæmi aftur til starfa. Vísaði hann til bréfs starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem fram kom að rétt væri að hafna því að A kæmi aftur til starfa, ákvörðun ríkislögreglustjóra í byrjun desember 2013 styddist ekki við lagaheimild og væri markleysa. Rétt væri að bíða niðurstöðu dóms í þeim málum sem A hafði þá höfðað á hendur íslenska ríkinu. Auk máls þessa er þar vísað til máls sem A hafði höfðað til viðurkenningar á rétti sínum til að taka á ný við embætti lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á X. Því máli var vísað frá dómi í lok janúar 2014, en þá var upplýst að A var skipaður í stöðu lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á X í byrjun nóvember 2013 og hafði því ekki lögvarða hagsmuni af slíkum viðurkenningardómi. Fram kemur í niðurstöðu héraðsdómsins að Ríkislögreglustjóri sé bær til að skipa lögreglumenn í embætti og veita þeim lausn. Um málsmeðferð gilda reglur lögreglulaga, nr. 90/1996 og starfsmannalaga, meðal annars um auglýsingu á lausum störfum. Ríkislögreglustjóri hafði, að undangenginni auglýsingu, þegar skipað annan mann í embættið sem A var veitt lausn frá að fullu þegar hann ritaði A umrætt bréf um að hann hefði ákveðið að bjóða A að taka við stöðunni aftur. Síðar, eftir að mál þetta var höfðað, skipaði ríkislögreglustjóri A í aðra stöðu við sama embætti, að undangenginni auglýsingu. Að þessu virtu og því að í bréfinu var afturköllun ákvörðunar ekki orðuð, verður ekki fallist á það með A, að bréfið verði að túlka sem afturköllun ákvörðunar um lausn A að fullu, þannig að hann hafi í raun tekið aftur við því starfi sem honum hafði verið veitt lausn frá. Afturköllun stjórnsýsluákvörðunar er ný stjórnsýsluákvörðun og gæta ber að öllum reglum stjórnsýsluréttar um málsmeðferð við töku slíkrar ákvörðunar, þar með talið um andmælarétt og rökstuðning, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 327/2009. Horfa þarf til þess að samkvæmt starfsmannalögum er mörkuð sú stefna að forstöðumenn stofnana fara með starfsmannamál svo og fjármál stofnana. Auk lögreglumannsins hefur lögreglustjóri embættis, sem ábyrgð ber á fjárstjórn þess, hagsmuna að gæta í stjórnsýslumáli um það hvort lögreglumaður komi til starfa við embætti hans og fái greidd laun af fjárveitingu embættisins. Upplýst er að hvorki A né lögreglustjóranum var veittur kostur á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun og verður bréf ríkislögreglustjóra til A þegar af þeirri ástæðu að andmælaréttar var ekki gætt, ekki talið hafa gildi gagnvart þeim, sem stjórnsýsluákvörðun um afturköllun. Að þessu gættu og þegar litið er til orðfæris bréfsins er þó ekki útilokað að líta svo á að í bréfinu gæti falist boðun ákvörðunar, en þá var þeirri boðun ekki fylgt eftir með stjórnsýsluákvörðun sama efnis. Þvert á móti var framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna, sem gekk erinda A í málinu, tilkynnt strax daginn eftir dagsetningu bréfsins að ekki yrði um launagreiðslur að ræða á þeim grundvelli sem krafist var og að A ætti ekki rétt á að taka aftur við starfi sínu. A var síðan sjálfur, og lögmaður hans, upplýstur um að boðaðar ákvarðanir ríkislögreglustjóra um þessi efni kæmu ekki til framkvæmda. Í starfsmannalögum er ekki gert ráð fyrir að starfsmenn ríkisins geti fengið störf sín aftur þegar þeim hefur verið vikið úr starfi að fullu. Þeim er hins vegar tryggður bótaréttur vegna ólögmætrar brottvikningar úr starfi. Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að ákvörðun um starfslok A hafi verið endanleg og verður ekki fallist á kröfu A sem byggir á því að ráðningarsambandið hafi verið endurvakið. Stjórnsýsluákvörðun þarf að byggjast á heimild í lögum. Fallist er á það með íslenska ríkinu að engin lagaheimild standi til þeirrar ráðstöfunar ríkislögreglustjóra að bjóða A að taka aftur við starfi sem honum hafði verið veitt lausn frá að fullu. Breytir engu í því efni þótt A vísi til annars máls, þar sem farið hafi um launauppgjör til lögreglumanns á þeim lagagrundvelli sem A krefst að beitt verði í máli þessu. A skoraði á íslenska ríkið að leggja fram nánari upplýsingar um það mál sem hann vísaði til. Stefndi varð ekki við þeirri áskorun, en af hálfu stefnda hefur verið upplýst að mistök kunni að hafa orðið við uppgjör í því máli. Það breytir samkvæmt framansögðu ekki niðurstöðu þessa máls með hvaða hætti gert var upp við annan lögreglumann. Féllst dómurinn á það með íslenska ríkinu að bréf ríkislögreglustjóra til A í byrjun desember 2012 væri markleysa að því leyti að það hefur ekki þau réttaráhrif sem A byggði á að það hefði og getur A því ekki reist á bréfinu, eða neinu öðru sem fram kom í málinu, þá launakröfu sína á grundvelli 2. mgr. 28. gr. starfsmannalaga, sem um var deilt í málinu. Það breytti ekki þessari niðurstöðu þótt í bréfinu hafi falist ívilnandi tilkynning til A, enda var hann ekki grandlaus um að annar maður hafði þegar verið skipaður í stöðuna.

6. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. mars 2014 í máli nr. E-4447/2012: H gegn íslenska ríkinu vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

RÁÐNING. RÁÐNIGARSAMBAND. RÉTTMÆTAR VÆNTINGAR UM RÁÐNINGU. FRAMSAL VALDS.

H var nemandi í læknadeild Háskóla Íslands skólaárið 2008-2009 og hafði lokið 4. ári. Kom hann því til greina sem læknanemi til afleysinga læknis í leyfi. A reyndi að sækja um starf aðstoðarlæknis á heilsugæslu á vegum HSU en fékk svarbréf með tölvupósti frá framkvæmdastjóra lækninga þar sem m.a. kom fram að það væri regla að leita til félags læknanema við ráðningu læknanema. H óskaði eftir því við HSU að stofnunin skýrði þau sjónarmið sem lægju að baki svarinu. Barst H tölvupóstur frá HSU í byrjun febrúar 2009, ásamt áliti lögfræðings stofnunarinnar, þar sem fram kom að lögmaðurinn teldi ráðningarferlið, með milligöngu Félags læknanema, vera í samræmi við lög. H lagði fram í byrjun mars 2009 stjórnsýslukæru til heilbrigðisráðuneytisins vegna svars HSU. Með úrskurði ráðuneytisins í maí 2009 var kæru H hafnað með þeim rökum að ekki yrði séð að í svari HSU fælist synjun á ráðningu í starf heldur upplýsingar um hvernig staðið yrði að ráðningu ef ákveðið yrði að ráða læknanema. Hafi því ekki verið um að ræða stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. H hafði símsamband við S, yfirlækni á Heilsugæslustöðinni X í mars 2009. Telur H, gegn mótmælum HSU, að S hafi í símtalinu tekið stjórnsýsluákvörðun um ráðningu sína til að leysa S af sumarið á eftir. Með því hafi komist á munnlegur samningur milli aðila sem hafi komið í veg fyrir að H leitaði sér að annarri vinnu. H kveðst hafa hringt í HSU í apríl 2009 í því skyni að fá upplýsingar um hvenær hann ætti að hefja störf og óska eftir að honum yrði sent afrit af ráðningarsamningi til undirritunar. Hafi honum þá verið tilkynnt að ekkert yrði af ráðningu hans þetta sumar. H sendi HSU í kjölfarið tölvupóst til að grennslast fyrir um ástæður þessa og í svarbréfi sem undirritað var af S lækni, f.h. Heilsugæslustöðvarinnar X, og staðfest með áritun af Ó, framkvæmdastjóra lækninga, f.h. HSU, segir svo: „Í samtölum sem ég átti við þig í mars mánuði s.l. voru möguleikar ræddir varðandi ráðningu þína í afleysingarstarf hjá stofnuninni í sumar og í þeim samskiptum gaf ég þér vilyrði um slíka ráðningu. Í ljós hefur komið að í febrúar mánuði s.l. óskaði HSU eftir því við Félag læknanema að um ráðningar í öll afleysingarstörf næsta sumar færi í samræmi við gildandi fyrirkomulag um samstarf hlutaðeigandi aðila nema því aðeins að útskrifaðir læknar fengjust til að gegna afleysingarstörfum á þessu tímabili. Á framangreint við um afleysingarstörf á Heilsugæslustöðinni […].“ Í framhaldi af kvörtun H til umboðsmanns Alþingis komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu í áliti sínu í máli nr. 5986/2010, að ekki hefði verið heimilt að lögum að gera það að skilyrði fyrir ráðningu læknanema í afleysingarstörf á opinberum heilbrigðisstofnunum að Félag læknanema hefði milligöngu um ráðningarnar. Taldi hann jafnframt að af því leiddi að sú afstaða HSU að H kæmi ekki til greina í afleysingarstarf á stofnuninni árið 2009 nema hann nýtti sér ráðningarkerfi félagsins væri ekki í samræmi við lög. Var þeim tilmælum beint til HSU að tekið yrði til athugunar með hvaða hætti hægt væri að rétta hlut stefnanda, kæmi ósk um slíkt fram frá honum. Í desember 2011 fór lögmaður H fram á það við HSU að H yrðu greiddar skaðabætur vegna launataps og kostnaðar hans af málinu. HSU hafnaði alfarið bótaábyrgð stofnunarinnar. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að fyrir liggur að aldrei var gerður skriflegur ráðningarsamningur við H, eins og kveðið er á um í 42. gr. starfsmannalaga að gera skuli við ráðningu í starf hjá HSU. S, læknir á Heilsugæslustöðinni í X, var ekki leiddur fyrir dóminn til skýrslugjafar en í bréfi sem hann ritaði undir fyrir hönd heilsugæslustöðvarinnar í apríl 2009 kemur fram að í samtölum sem hann hafi átt við H í mars sama ár hafi verið ræddir möguleikar „varðandi ráðningu þína í afleysingarstarf hjá stofnuninni í sumar og í þeim samskiptum gaf ég þér vilyrði um slíka ráðningu“. Af 5. gr. starfsmannalaga og 5. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, leiðir að forstjórar heilbrigðisstofnana fara með vald til að ráða í störf við stofnanir og bera ábyrgð á að ákvarðanir um ráðningar séu í samræmi við lög. Forstöðumaður getur framselt þetta vald sitt til tiltekinna stjórnenda á grundvelli 50. gr. starfsmannalaga. Fyrir liggur að Heilsugæslustöðin X, ásamt sjö öðrum heilsugæslustöðvum og einu sjúkrahúsi, voru á árinu 2004 sameinaðar í eina stofnun, HSU, og hefur forstjóri þeirrar stofnunar þær ráðningarheimildir sem fram koma í framangreindum lagaákvæðum. Hefur H ekki hnekkt þeirri staðhæfingu HSU að þær heimildir hafi ekki verið framseldar til umrædds læknis á Heilsugæslustöðinni X. Samkvæmt því féll það ekki innan valdsviðs þess læknis að ráða afleysingarlækna eða annað starfsfólk til starfa á heilsugæslustöðina. Þegar framangreint er virt verður ekki talið að H hafi sýnt fram á að í umræddu símtali hans við lækni heilsugæslustöðvarinnar hafi falist meira en jákvæð afstaða læknisins til umsóknar H um starf afleysingarlæknis, kæmi slík umsókn fram. Verður því ekki á það fallist með H að í símtalinu hafi verið tekin stjórnsýsluákvörðun þar sem stofnað hafi verið til ráðningarsambands milli hans og HSU, með þeim réttindum og skyldum sem slíkri ráðningu fylgja. Verður heldur ekki talið í ljós leitt að framkoma læknisins í umræddum samskiptum hans við H geti með einhverjum hætti leitt til bótaskyldu á þeim grundvelli að hún hafi skapað hjá H réttmætar væntingar um starfið. Var kröfu H um skaðabætur hafnað. Máli þessu hefur verið áfrýjað af H til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 387/2014.

7. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. mars 2014 í máli nr. E-1762/2013: K gegn íslenska ríkinu vegna Landlæknis.

ÓGREIDD YFIRVINNA. YFIRVINNUBANN. SAMÞYKKI YFIRMANNS. TÓMLÆTI. FYRNING.

K og L deildu um launagreiðslur til K fyrir yfirvinnu. K hóf störf hjá L á árinu 2006, fyrst í tímabundnu starfi en síðan í föstu starfi sem yfirlæknir. Um tíma var hann staðgengill landlæknis. Í ráðningarsamningi kemur fram að samningurinn sé ótímabundinn, starfshlutfall stefnanda sé 100% og upphafsdagur ráðningar sé 16. október 2007. Þá segir um fyrirkomulag launagreiðslna: „Mánaðarlaun eru greidd eftir á fyrsta virkan dag hvers mánaðar næst á eftir vinnumánuði. Þá eru einnig greidd laun fyrir yfirvinnu, vaktaálög, ferðakostnaður, akstursgjald og aðrar greiðslur fyrir tímabilið frá 16. degi mánaðar til 15. dags mánaðar næst á undan greiðsludegi.‟ K byggði kröfu sína á því að með ráðningarsamningi milli hans og L hafi verið skýrlega samið um að hann fengi greitt fyrir yfirvinnu og samkvæmt almennri reglu samningsréttarins skuli samningar halda. Yfirvinnu K hafi aldrei verið mótmælt af hálfu embættisins eða óskað eftir því að hann ynni ekki þá vinnu. Hafi það verið ætlun L að breyta ráðningarsamningi aðila hvað varðar yfirvinnu hefði verið nauðsynlegt að segja samningnum upp með samningsbundnum uppsagnarfresti og semja að nýju við K. Það hafi ekki verið gert. Yfirvinna K frá því að ráðningarsamningur var gerður hafi verið umtalsverð og tækifæri hans til að taka út yfirvinnu í fríum hafi því verið takmarkað. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að ekki sé um það deilt að K var kunnugt um það frá því fljótlega eftir að hann hóf störf hjá L að takmarkanir væru á greiðslum fyrir yfirvinnu. Í stefnu segir K að tilkynnt hafi verið skömmu eftir að hann hóf störf að ekki yrði greitt fyrir yfirvinnu heldur skyldi taka hana út í fríum. Fallist er á það með L að framangreint ákvæði í ráðningarsamningi aðila standi ekki í vegi þess að landlæknir, sem yfirmaður stofnunar, geti sett reglur um takmarkanir á yfirvinnu. Þá liggur fyrir að K gerði ekki athugasemdir við að fá ekki greiðslur fyrir yfirvinnu fyrr en í upphafi árs 2010, sem hann fylgdi síðan eftir skriflega í bréfi til fjármálastjóra L í apríl 2011. Í skýrslutöku fyrir dómi bar K að hann hefði alltaf unnið mikla yfirvinnu en fengið að taka hana út í fríum. Síðan hafi yfirvinna farið að safnast upp hjá honum án þess að hann hafi tekið frí á móti. Landlæknir bar í skýrslu sinni fyrir dómi að embættið greiddi ekki fyrir yfirvinnu nema sérstaklega væri samið um að hún væri unnin. Sú regla hafi verið við líði frá því á árinu 2001 og væri svo ennþá. Honum væri ekki kunnugt um að samið hefði verið við K um greiðslur fyrir yfirvinnu og hann hafi ekki gert það eftir að hann tók við. Aðspurður hvort hann kannaðist við að starfsmenn hefðu fengið að taka yfirvinnu út í fríum sagði hann að það hefði verið gert í einhverjum tilvikum. Almennt hefðu starfsmenn embættisins nokkuð sveigjanlegan vinnutíma og gætu því sjálfir haft nokkuð um það að segja hvernig þeir höguðu vinnutíma sínum og ekki væri fylgst nákvæmlega með því hvort þeir væru að störfum fyrir embættið allan þann tíma sem þeir væru skráðir til vinnu samkvæmt stimpilklukku. Í sama streng tók M, fyrrverandi aðstoðarlandlæknir, sem gegndi störfum sem landlæknir um tíma. Þ, fjármálastjóri embættisins, bar að reglan væri sú að ekki væri greitt fyrir yfirvinnu nema um það væri sérstaklega samið. Sú regla hefði verið sett í kjölfar úttektar Ríkisendurskoðunar á fjárreiðum embættisins sem gerð var árið 2000. Þáverandi landlæknir hefði gert öllum starfsmönnum embættisins skriflega grein fyrir þessu. Ítrekað hefði verið rætt um þetta fyrirkomulag á starfsmannafundum í tengslum við gerð rekstraráætlana. Þá hefði þetta verið rætt ítrekað á fundum stjórnenda embættisins sem K hafi setið. Aðspurður hvort það hefði tíðkast að yfirvinna hefði verið greidd út í fríi sagði hann það tíðkast enda hafi verið óskað eftir því að viðkomandi starfsmaður inni yfirvinnu. Af framangreindum framburði allra sem komu fyrir dóminn, og þeim gögnum sem liggja fyrir, má slá því föstu að ekki hafi tíðkast að greiða fyrir unnar yfirvinnustundir hjá L nema um það væri samið. K hefur ekki sýnt fram á að hann hafi samið um það að fá yfirvinnu greidda. Dómurinn felst ekki á að ákvæði í ráðningarsamningi K feli í sér ótvíræðan eða skilyrðislausan rétt hans til greiðslu fyrir yfirvinnu. Hvað sem túlkun þess ákvæðis líður telur dómurinn ljóst að réttur K til greiðslu launa fyrir yfirvinnu sé fallinn niður fyrir tómlæti hans sjálfs. Er þar til þess að líta að K ber að honum hafi verið kunnugt um það frá upphafi starfs síns að ekki væri greitt fyrir yfirvinnu og til samræmis við það hafi hann ekki fengið slíkar greiðslur þrátt fyrir talsverða yfirvinnu. Auk þess liggur fyrir að hann gerði ekki athugasemd við þetta fyrirkomulag eða lét L vita að hann teldi sig eiga rétt til greiðslna vegna yfirvinnu fyrr en í upphafi árs 2010 og setti fram kröfu þar að lútandi í apríl 2011, þremur árum eftir að elsta krafan um ógreidda yfirvinnu féll til. Að mati dómsins hefur K fyrirgert rétti sínum til frekari launa fyrir umdeilda yfirvinnu með tómlæti. Þegar af þessum sökum verður að hafna kröfum hans. Þá er ljóst að kröfur K frá fyrri tíma en 17. apríl 2009 eru fyrndar skv. 3. gr. laga nr. 150/2007 sbr. 2. mgr. 15. gr. sömu laga.

8. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. mars 2014 í máli nr. E-2751/2013: J gegn íslenska ríkinu vegna Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

LAUSN ÚR EMBÆTTI VEGNA HEILSUBRESTS.

Ríkislögreglustjóri veitti J lausn frá starfi sem lögreglumaður við embætti L vegna heilsubrests. J veiktist í apríl 2008 og fór vegna þess í veikindaleyfi í ár. Í lok mars 2009 taldi D læknir J vera í nægilega góðu líkamlegu ásigkomulagi til að hefja störf aftur en ráðlagði honum að forðast mikil líkamleg átök. Í apríl 2009 ritaði G, trúnaðarlæknir L, lögreglustjóranum bréf þar sem m.a. kemur fram að hann teldi að J gæti starfað sem lögreglumaður en honum væri ráðið frá miklum líkamlegum átökum. Jafnframt kom fram í bréfinu að vaktavinna á venjulegum lögregluvöktum gæti verið mjög óheppileg fyrir hann heilsufarslega en J hefði reynslu, þekkingu og heilsu til þess að vinna önnur lögreglustörf af léttari tegund, bæði í dagvinnu og vaktavinnu. J hóf störf að nýju hinn í maí 2009, sem hverfislögreglumaður. Útbúin var ný starfslýsing fyrir J þar sem tekið var tillit til þess að hann væri að koma aftur til starfa eftir langvarandi veikindi. Í júní 2009 fór J í veikindaleyfi á ný. J gekkst undir áreynslupróf í mars 2010 og taldi S læknir að á grundvelli niðurstöðu prófsins væri J óvinnufær til frambúðar í störf sem krefðust líkamlegrar áreynslu. Hann gæti þó unnið önnur störf. Í maí 2010 var J boðaður á fund með fjármálastjóra L sem tjáði honum að embættið hygðist ekki nýta starfskrafta hans og myndi biðjast lausnar fyrir hann vegna heilsubrests. Í júní 2010 óskaði lögreglustjórinn skriflega eftir því við ríkislögreglustjóra að J yrði veitt lausn úr embætti lögreglumanns með vísan til 1. mgr. 30. gr. starfsmannalaga. Lögmanni J var sent afrit lausnarbeiðninnar og gefinn kostur á að koma á framfæri afstöðu til hennar. Með öðru bréfi lögreglustjórans í október 2010, var á ný óskað eftir því við ríkislögreglustjóra að J yrði veitt lausn frá störfum frá 11. júní sama ár vegna heilsubrests. Með bréfi í október 2010 tilkynnti ríkislögreglustjóri L um þá ákvörðun sína að veita J lausn frá embætti frá og með 11. júní 2010 að telja. J kvartaði yfir ákvörðun ríkislögreglustjóra til umboðsmanns Alþingis. Með bréfi í október 2012 tilkynnti umboðsmaður J að hann teldi ekki ástæðu til að aðhafast vegna kvörtunar hans og lauk því umfjöllun um erindi hans. J taldi ákvörðun ríkislögreglustjóra um að veita sér laus frá embætti ólögmæta. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að um lausn embættismanns frá störfum sé fjallað í VI. kafla starfsmannalaga. J telur að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 1. mgr. 30. gr. laganna til að leysa hann frá embætti þar sem hann hafi ekki verið frá störfum í samfellt 1/18 af starfstíma sínum, þ.e. í 20 mánuði. Fær þessi skilningur stuðning í dómi Hæstaréttar í máli nr. 236/2012 þar sem rétturinn taldi að samkvæmt ákvæðinu mætti ekki leysa embættismann, sem starfað hafði hjá ríkinu frá 1982, frá störfum fyrr en hann hafði verið samfellt frá störfum sökum heilsubrest í um það bil 16 mánuði. Féllst dómurinn ekki á það með íslenska ríkinu að orðið „1/18“ ætti við um heildarfjarveru embættismanns vegna veikinda á starfstíma hans hjá ríkinu, í tilviki stefnanda á 30 árum. Féllst dómurinn því á það með J að ekki hefði mátt leysa hann frá störfum samkvæmt ákvæðinu fyrr en hann hafði verið samfellt frá störfum í 20 mánuði en óumdeilt var að það var 1/18 af heildarstarfstíma hans hjá ríkinu. Þar sem lagaskilyrði skorti fyrir þeirri ákvörðun ríkislögreglustjóra að leysa J frá embætti féllst dómurinn á kröfu J um að hún yrði dæmd ólögmæt.

9. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. mars 2014 í máli nr. E-2187/2013: H gegn íslenska ríkinu vegna Iðnskólans í Hafnarfirði.

UPPSÖGN VEGNA HAGRÆÐINGAR.

H var fastráðinn kennari við I. Skólameistari boðaði H á sinn fund í desember 2011. Var H á þeim fundi sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara miðað við 1. janúar 2012 um leið og honum var afhent uppsagnarbréf því til staðfestingar. Var ástæða uppsagnar sögð vera hagræðing í rekstri skólans vegna verulegs niðurskurðar fjárheimilda. Fram kemur í niðurstöðu héraðsdóms að stjórnendur framhaldsskóla ráði sjálfir innri málefnum sinna skóla. Mat á því hverra skipulagsbreytinga er þörf til að koma til leiðar hagræðingu í rekstri er þannig í höndum yfirstjórnar skólans og sætir ekki öðrum takmörkunum en þeim að aðgerðir sem gripið er til verða að vera í samræmi við lög og meginreglur stjórnsýsluréttar. Æðstu stjórnendur hafa ekki frjálsar hendur um hvernig að uppsögn úr starfi er staðið við þær aðstæður að verið er að hagræða og ber í þeim efnum að haga undirbúningi og framkvæmd í samræmi við ákvæði laga nr. 70/1996, laga nr. 37/1993 og meginreglur um vandaða stjórnsýsluhætti. Er ákvæðum laga nr. 37/1993 meðal annars ætlað að tryggja að ekki sé verið að dylja hinar raunverulegu ástæður að baki uppsögn úr starfi. Dómstólar hafa slegið föstu að þegar grípa þarf til aðgerða eins og uppsagna úr starfi verði forstöðumaður að afmarka þau störf sem slíkar aðgerðir geta beinst gegn og velja úr þá sem telja verður að stofnunin geti helst verið án. Slíku vali eru takmörk sett af réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Verður valið að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum er taka mið af þeim opinberu hagsmunum sem hin opinbera stofnun vinnur að. Verður að gera þá kröfu til forstöðumanna opinberra stofnana að þeir gæti almennra stjórnsýslureglna í samskiptum sínum við starfsmenn sína, sérstaklega þegar um er að ræða ákvarðanir sem þýðingu hafa að lögum og ætlað er að hafa íþyngjandi áhrif. Uppsögn úr starfi sem framhaldsskólakennari er stjórnvaldsákvörðun, sem er hluti af stjórnsýslu skóla. Við undirbúning og ákvörðun ber stjórnendum því að fara eftir reglum laga nr. 37/1993, sbr. 1. gr. laganna. Í málinu byggði H á því að skólameistara hafi ekki verið heimilt að segja honum upp störfum án málefnilegra ástæðna, auk þess sem skólameistari hafi verið bundinn af meðalhófsreglu við ákvörðunina. Sú ástæða sem skólameistari hafi gefið upp hafi verið tylliástæða en ekki hin raunverulega ástæða uppsagnarinnar. Þá hafi H einum úr hópi kennara verið sagt upp. Ekki hafi verið rökstutt um málefnalegar ástæður þar að baki. Ekkert hæfnismat hafi verið framkvæmt á H. Af þessum ástæðum hafi ekki verið gætt lögmætra sjónarmiða við undirbúning og ákvörðun um uppsögn. Um þetta segir í niðurstöðu héraðsdómsins að því er aðdraganda að uppsögn varðar og samskipti H og skólameistara í því tilliti verður að líta til þess að skólameistari er æðsti stjórnandi I. Ræður hann innri málefnum skólans og ber ábyrgð á því að starfsemi skólans sé jafnan í réttu horfi. Skólameistari, eða sá er hann felur vald til, ákveður hvaða kennslugreinar einstakir kennarar hafa með höndum. Verða kennarar að lúta ákvörðunarvaldi yfirstjórnar í þeim efnum. Fær af þessum ástæðum ekki staðist sú staðhæfing H að hann hafi á haustönn 2011 verið sviptur kennslu. Fyrir liggur að ársnemendum skólans hafði fækkað frá árinu 2009. Af því leiddi, eðli málsins samkvæmt, að fækka varð kennslustundum. Við mat á því hvernig haga bæri kennslu við slíkar aðstæður bar skólameistara fyrst og fremst að taka mið af þeim opinberu hagsmunum sem stofnun hans vann að. Yrði niðurstaðan sú að kennslugreinar, sem H hefði haft með höndum, yrðu færðar yfir á aðra kennara, bar H að lúta því. Þá varð H, í ljósi stjórnunarréttar skólameistara, að sæta því að vera falið að hafa umsjón með heimanámi nemenda. Í ljósi mótmæla I og með vísan til framangreinds eru með öllu ósannaðar þær staðhæfingar H að skólameistari hafi haft horn í síðu H og að framganga skólameistara hafi tengst persónu hans. I hefur leitt að því lýkur að fjárhagsstaða skólans árin 2009 til 2011 hafi verið slík að stjórnendum skólans hafi bæði verið rétt og skylt að ráðast í endurskipulagningu á innri starfsemi skólans í ljósi mikils rekstrarhalla og fækkunar á ársnemendum við skólann. Samkvæmt 2. mgr. if. 44. gr. starfsmannalaga er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi ef uppsögn stafar af ástæðum svo sem þeirri að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar. Með hliðsjón af þessu bar skólameistara ekki að gefa H kost á að tjá sig um ástæður uppsagnarinnar. Stendur þá eftir að leysa úr hvort málefnalegar ástæður hafi legið að baki þeirri ákvörðun að H var sagt upp störfum en ekki öðrum kennurum og hvort gætt hafi verið meðalhófs í því sambandi. Við aðalmeðferð málsins gáfu skólameistari, aðstoðarskólameistari og mannauðsstjóri skýrslu fyrir dóminum. Í vætti skólameistara kom fram að áður en að uppsögn kom og á árunum á undan hafi verið búið að leita allra leiða til að hagræða í rekstri skólans og ekki lengur undan því vikist að segja kennara upp störfum. Þá bar skólameistara, aðstoðarskólameistara og mannauðsstjóra saman um að innan æðstu stjórnar hafi verið lagt mat á hvaða starfsmanni skyldi sagt upp störfum í lok árs 2011, þegar fyrir lágu upplýsingar um fjölda nemenda á vorönn 2012. Hafi það mat byggst á yfirferð um hvaða kennara væri helst hægt að segja upp störfum út frá þeim fögum sem kennd væru og þeim kennurum sem myndu kenna á vorönninni. Sú vinna hafi leitt til þess að skólameistari hafi ákveðið að H skyldi sagt upp störfum. Með hliðsjón af vætti skólameistara, aðstoðarskólameistara og mannauðsstjóra er komin fram sönnun um að mat hafi verið lagt á nauðsyn þess að segja fastráðnum starfsmanni upp störfum og að mat hafi verið lagt á hvaða starfsmanni skyldi sagt upp. Þó svo ekki njóti við skriflegra gagna um þetta mat getur það eitt og sér ekki ráðið niðurstöðu um þetta atriði. Er jafnframt til þess að líta að í niðurlagi bréfs skólameistara í janúar 2012 til KÍ er vísað til samanburðar á H og öðrum kennurum við skólann og verður að ætla að það sé gert á grundvelli þeirra málefnalegu sjónarmiða að mat hafi verið lagt á þörf fyrir H sem kennara við skólann samanborið við aðra fastráðna kennara. Með hliðsjón af framansögðu hefur H ekki leitt í ljós að undirbúningi og framkvæmd þeirrar ákvörðunar að segja H upp störfum hafi verið ábótavant. Var íslenska ríkið því sýknað af öllum kröfum H. Máli þessu hefur verið áfrýjað af H til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 226/2014.

10. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. apríl 2014 í máli nr. E-2266/2013: S gegn ÁTVR.

EINELTI. ÁMINNING. UPPSÖGN. ANDMÆLARÉTTUR. SKAÐA- OG MISKABÆTUR.

Á barst ábending um einelti í vínbúð Á snemmsumars 2010. Leitaði Á af því tilefni til Y ehf., sem viðurkennds þjónustuaðila skv. 66. gr. a. í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með beiðni um að lagt yrði mat á samskipti starfsmanna á vinnustaðnum og gengið úr skugga um hvort einelti ætti sér þar stað. Var þjónustuaðilanum falið að skila skriflegri skýrslu um úttektina og gera tillögur um viðbrögð ef ástæða þætti til. Hélt hann meðal annars fund af þessu tilefni með S í júní 2010. Á fundinum undirritaði S yfirlýsingu um að S staðfesti að hafa fengið fræðslu um tilgang viðtalsins og hlutverk þjónustuaðilans, en hann myndi hvorki tiltaka S né vitna beint í frásögn S í skýrslu um hið meinta einelti. Þjónustuaðilinn skilaði skýrslu um úttektina í júlí 2010. Í janúar 2012 var S veitt formleg áminning af forstjóra Á og var þar vitnað í 1. mgr. 44. gr., sbr. 21. gr., laga nr. 70/1996. Kom þar m.a. fram að S hefði „ítrekað brotið gegn 21. gr. starfsmannalaga en háttsemin felur m.a. í sér óhlýðni við lögleg boð og bönn yfirmanna þinna og þykir að öðru leyti ósæmileg, óhæfileg og ósamrýmanleg starfi þínu“. Með bréfi í febrúar 2012 var S sagt upp störfum hjá Á, með þriggja mánaða uppsagnarfresti miðað við næstu mánaðamót, sbr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi S á uppsagnarfresti. Í uppsagnarbréfinu var vísað til framangreindrar áminningar en tekið var fram að Á telji hana þó ekki hafa verið nauðsynlegan undanfara uppsagnar S með vísan til grundvallarreglna vinnuréttar, opinbers starfsmannaréttar og meginreglu tilvitnaðrar 43. gr. Um einelti væri að ræða sem fæli í sér viðvarandi og alvarleg brot á ábyrgðar- og trúnaðarskyldum og hefði S ekki látið af því þrátt fyrir áminninguna og aðrar aðgerðir Á til að stöðva háttsemina. Fram kom í héraðsdómi að áminning skv. 21. gr. laga nr. 70/1996 sé stjórnvaldsákvörðun og fari um hana eftir almennum sjónarmiðum stjórnsýsluréttar, auk þeirra málsmeðferðarreglna er fram koma í lögum 70/1996, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga. Áminning skv. 21. gr. laga nr. 70/1996 sé nauðsynlegur undanfari þegar gripið er til brottvikningar starfsmanns á grundvelli 44. gr. laganna. Hún er því alvarleg ráðstöfun sem vanda þarf til, bæði að efni og formi. Af 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiðir að Á var óheimilt að taka slíka ákvörðun gagnvart S áður en Á hefði gefið S færi á að tjá sig um þær upplýsingar sem ávirðingar Á í garð S byggðust á. Enda þótt fram sé komið að S hafi verið upplýst um það á fundi með stjórnendum Á á fundi í júlí 2010 að S teldist þátttakandi í einelti gagnvart viðkomandi samstarfsmanni lægi ekkert fyrir um að S hafi verið boðuð sérstaklega til þess fundar með fyrirvara eða kynnt tilefni hans. Lá heldur ekkert fyrir um að S hafi verið afhent framangreind skýrsla sálfræðinganna, eða skrifleg samantekt á þeim þætti skýrslunnar er sneri að S, áður en til áminningar kom. Loks varð heldur ekki talið að Á hefði sýnt fram á að S hafi verið tilkynnt með skýrum hætti og með góðum fyrirvara að til athugunar væri að veita S áminningu skv. 21. gr. laga nr. 70/1996 vegna nánar tilgreindrar háttsemi. Með hliðsjón af þessu taldi dómurinn að S hefði ekki verið gefið fullnægjandi og raunhæft tækifæri til að tjá sig um ávirðingar áður en ákvörðun um að áminna S var tekin í janúar 2012. Var með því brotið gegn lögbundnum andmælarétti S samkvæmt lögum nr. 70/1996 og 13. gr. stjórnsýslulaga. Leiddi þegar af þessu að uppsögn S úr starfi sínu hjá Á í febrúar 2012 var ólögmæt. Leiddi þetta til réttar á skaðabótum vegna fjártjóns. Við ákvörðun skaðabóta vegna fjártjóns S var horft til þess að S var 53 ára að aldri þegar S var sagt upp starfi sínu hjá Á. Að öllu óbreyttu mátti S gera ráð fyrir að fá að gegna starfi þessu áfram þrátt fyrir að hafa verið ráðin með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Voru skaðabætur til S ákveðnar að álitum auk þess sem S var talin hafa orðið fyrir ólögmætri meingerð á æru sinni og persónu og því dæmdar miskabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

11. Dómur Félagsdóms frá 3. júní 2014 í máli nr. 9/2014: Íslenska ríkið gegn Félagi íslenskra náttúrufræðinga.

BOÐUN VERKFALLS. GERÐ STOFNANASAMNINGS. FRIÐARSKYLDA.

Í gerði þær dómkröfur að viðurkennt yrði með dómi að boðað verkfall FÍN, vegna félagsmanna þess í þjónustu Landspítala, sem boðað var með bréfi til fjármála- og efnahagsráðherra frá og með miðvikudeginum 4. júní, kl. 00:00, væri ólögmætt. Kjarasamningur fjármála- og efnahagsráðherra f.h. íslenska ríkisins og FÍN rann út 31. janúar 2014. Aðilar áttu í viðræðum um gerð nýs kjarasamnings en þær höfðu ekki borið árangur. Viðræðuáætlun aðila var undirrituð 3. janúar 2014 og meðal þess sem ræða átti við upphaf viðræðna var reynsla af gildandi kjarasamningi og þróun launa, þar á meðal stöðu stofnanasamninga. Í kröfugerð FÍN sagði: „Gera samningsferlið virkara og koma í veg fyrir að aðgerðaleysið eitt komi í veg fyrir endurskoðun stofnanasamnings eftir að viðræður um nýjan stofnanasamning eru hafnar. Í þessum tilgangi er krafist að lokamálsgrein greinar 11.1.1. verði breytt og hljóði svo: „Viðræður um stofnanasamning fara ekki fram undir friðarskyldu.““ Efnt var til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna FÍN, sem starfa á Landspítala, um boðun vinnustöðvunar á spítalanum sem ætti að hefjast 4. júní nk. kl. 00:00. Atkvæðagreiðslunni lauk 19. maí og samdægurs ritaði FÍN fjármála- og efnahagsráðuneytinu bréf þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða vinnustöðvun. Þar var greint frá því að 69 félagsmenn hefðu verið á kjörskrá og að 60 þeirra hefðu greitt atkvæði. Alls hefðu 47 samþykkt verkfallsboðun en 9 verið á móti. Eitt atkvæði hefði verið autt og þrjú ógild. Í tilkynningunni var því lýst yfir að með þessu væri fullnægt kröfum 15. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í niðurlagi bréfsins segir síðan: „Samkvæmt þessari niðurstöðu hafa félagsmenn í Félagi íslenskra náttúrufræðinga samþykkt að hefja verkfall hjá Landspítala þann 4. júní 2014, kl. 00:00, hafi endurskoðun á stofnanasamningi Landspítala og FÍN ekki náðst fyrir þann tíma.“ Í lýsti því yfir að það væri ekki sammála þeirri túlkun FÍN að boðun verkfalls með þessum hætti samrýmdist ákvæðum laga nr. 94/1986. Skoraði Í því á FÍN að afturkalla verkfallsboðunina. Ella myndi Í grípa til þeirra úrræða sem Í væru tiltækar til þess að stöðva framgang boðaðrar vinnustöðvunar. Lögmaður FÍN lýsti því yfir bréflega að honum væri ekki kunnugt um neina meinbugi á verkfallsboðuninni. Áskorun Í gæfi því ekki tilefni til afturköllunar á verkfallsboðuninni. Í málinu lagði Í fram kjarasamning aðila, með gildistíma til 30. nóvember 2004, sem framlengdur hefur verið allt til 31. janúar 2014. Þar er fjallað um stofnanasamninga í 11. kafla samningsins, en í grein 11.1.1 kemur fram að viðræður um stofnanasamning skuli fara fram undir friðarskyldu. Í niðurstöðu Félagsdóms byggði dómurinn á því að tilgangur verkfallsins væri sá sem greinir í tilkynningu FÍN um verkfallið, þ.e. að knýja á um gerð stofnanasamnings á Landspítalanum. Í grein 11.1.1 í kjarasamningi aðila segir að viðræður um stofnanasamning skuli fara fram undir friðarskyldu. Félagsdómur taldi að ákvæði þetta væri bindandi fyrir aðila málsins þrátt fyrir að gildistími kjarasamningsins væri liðinn, sbr. meginreglu 2. mgr. 12. gr. laga nr. 94/1986, enda varð ekki betur séð en að FÍN byggi sjálft á því að svo væri þegar það, á grundvelli ákvæða kjarasamningsins, gerði um það kröfur að gengið yrði frá stofnanasamningi. Með því að í gildi er milli aðila sú regla, að viðræður um gerð stofnanasamnings skuli fara fram undir friðarskyldu, taldi Félagsdómur að óheimilt væri að knýja fram gerð slíks stofnanasamnings með verkfalli. Gat hér engu breytt að FÍN hafi í viðræðum um gerð nýs aðalkjarasamnings gert m.a. þá kröfu að viðræður um gerð stofnanasamnings skyldu ekki fara fram undir friðarskyldu, en slíkt ákvæði gæti fyrst orðið virkt í nýjum aðalkjarasamningi ef um það semst milli aðila. Aðrar kröfur sem FÍN hafði gert í umræddum viðræðum um gerð nýs aðalkjarasamnings gátu heldur ekki breytt þessu. Var það álit Félagsdóms að FÍN hefði verið óheimilt að boða til verkfalls í því skyni að knýja á um gerð stofnanasamnings milli félagsmanna FÍN og Landspítala háskólasjúkrahúss og var því hið boðaða verkfall ekki samrýmanlegt ákvæðum 1. mgr. 14. gr. laga nr. 94/1986. Því var fallast á kröfu Í og viðurkennt að boðað verkfalli væri ólögmætt.

12. Dómur Félagsdóms frá 10. júlí 2014 í máli nr. 1/2014 (óbirtur): SFR- stéttarfélag í almannaþjónustu gegn íslenska ríkinu vegna Fangelsismálastofnun ríkisins.

VAKTAÁLAG. VENJUBUNDIN FRAMKVÆMD.

Kröfur SFR vörðuðu túlkun og framkvæmd á grein 2.6.7 í kjarasamningi SFR og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs. SFR byggði kröfur sína á því að F hefði brotið gegn greininni með því að greiða ekki B, fangaverði, vaktaálag í helgidagafríum skv. grein 2.6.7. Krafðist SFR að viðurkennt yrði að F væri skylt að greiða B vaktaálag í helgidagafríum samkvæmt grein 2.6.7. Í niðurstöðu Félagsdóms kemur fram að fyrir lá í málinu að venjubundin og athugasemdalaus framkvæmd Í á kjarasamningi aðila þess efnis að ekkert vaktaálag hefur verið greitt í helgidagafríum. Hvort sem litið er til greinar 2.6.7 eða annarra ákvæða kjarasamnings aðila verði ekki á það fallist að kjarasamningurinn kveði með skýrum hætti á um að vaktaálag eigi að teljast hluti af óskertum, föstum launum starfsmanna, þó að ákvæðið útiloki það ekki heldur, sbr. dóm Félagsdóms frá 12 nóvember í máli nr. 9/2012. Eins og ákvæðið hljóðar gengur sú túlkun, sem Í hefur lagt til grundvallar um langt árabil, því ekki þvert á orðalag kjarasamningsins. Með vísan til þeirrar löngu venju sem komin var á framkvæmd greiðslna samkvæmt grein 2.6.7 í helgidagafríum, sem hafði fram til þessa ekki sætt athugasemdum SFR, var Í sýknað af öllum kröfum SFR.

13. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. júlí 2014 í máli nr. E-348/2013: D gegn íslenska ríkinu.

NIÐURLAGNING STARFS. LAUNAÐ NÁMSLEYFI. MISKABÆTUR. KOSTNAÐUR.

Ágreiningur aðila laut að því hvort D ætti rétt til greiðslu launa og orlofs vegna námsleyfis á tímabilinu 1. febrúar 2010 til 1. september 2011. D var tilkynnt að ákveðið hefði verið að leggja niður embætti hans í utanríkisráðuneytinu frá og með 1. febrúar 2009. Í tilkynningu var vísað til breyttra forsendna vegna samdráttar í ríkisfjármálum. Tekið var fram að D ætti rétt á 12 mánaða biðlaunum og að við starfslokin yrði gjaldfallið orlof sem og áunnið en ógjaldfallið orlof gert upp. Ekki var getið annarra áunninna réttinda. D kvaðst hafa verið á leið í námsleyfi þegar honum var afhent uppsagnarbréfið. D kvartaði til umboðsmanns Alþingis vegna þeirrar ákvörðunar utanríkisráðherra að leggja stöðu hans niður. Umboðsmaður lauk meðferð þess máls í desember 2010. Í niðurstöðu umboðsmanns kom fram að hann teldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá ákvörðun utanríkisráðherra að leggja niður starf D. Hins vegar gerði umboðsmaður ráðherra grein fyrir því með bréfi að hann teldi að ekki hefði verið nægjanlega gætt að því að fylgja þeim sjónarmiðum sem leiða af vönduðum stjórnsýsluháttum og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, við starfslok D. Í hafnaði kröfu D um laun í námsleyfi. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að í grein 4.1 í reglum kjararáðs sé kveðið á um rétt embættismanna til að stunda sérnám eða sækja framhalds- og/eða endurmenntunarnámskeið í allt að tvær vikur á ári og halda launum og fá greiddan ferða- og dvalarkostnað samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar. Taldi dómurinn að ekki væri hægt að draga þá ályktun af orðalagi ákvæðisins að réttur til námsleyfis safnist upp fyrir hvert starfsár þótt í ákvæðinu kæmi fram að unnt væri að semja um lengra námsleyfi á lengra tímabili. Þá taldi dómurinn að D hefði heldur ekki sýnt fram á að slíkan rétt mætti byggja á venjubundinni túlkun ákvæðisins eða á öðrum grundvelli. Í ákvæðinu er kveðið á um að réttur til launaðs námsleyfis sé háður samþykki ráðherra. Á það við um öll leyfi á grundvelli ákvæðisins, óháð lengd þeirra. Taldi dómurinn að minnisblaðið frá lok ágúst 2007, eða þau bréf sem ráðherrar sendu D á sama tíma, fæli ekki í sér samning eða samþykki fyrir tilteknu námsleyfi. Einnig sagði í dómnum að D hefði ekki lagt fram önnur gögn sem veittu vísbendingu um að gengið hefði verið frá slíkum samningi. Þó er getið um fyrirhugað námsleyfi í tölvuskeyti D til þáverandi utanríkisráðherra í lok október 2008. Taldi dómurinn að það gagn veitti enga vísbendingu um afstöðu ráðherra til þeirra fyrirætlana eða samþykkis hans fyrir leyfinu en það var á valdsviði utanríkisráðherra að semja um töku námsleyfis við D, jafnvel þótt ráða mætti af gögnum málsins að samkomulag væri um það milli ráðherranna að ráðuneyti hins síðarnefnda myndi bera mestallan kostnaðinn. Gegn eindregnum mótmælum Í taldi dómurinn að D hefði ekki tekist að færa sönnur á að samningur hafi komist á milli aðila um námsleyfi D. Taldi dómurinn að grein 4.1 í reglum kjararáðs yrði að skilja svo að forsenda þess að réttur til námsleyfis stofnist sé að samþykki ráðherra liggi fyrir. Þegar af þeirri ástæðu var aðalkröfu D hafnað. Auk kröfu um greiðslu launa í námsleyfi gerði D kröfu um greiðslu miskabóta vegna þess hvernig staðið var að uppsögn. Vísaði D til þess að starf hans hefði verið lagt niður með afar skömmum fyrirvara og engin skýring hafi verið gefin á þeirri ákvörðun opinberlega til að öllum mætti vera ljóst að starfslok hans væru óháð frammistöðu hans sjálfs. Fram kemur í forsendum dómsins að fyrir lá að D var tilkynnt um þá ákvörðun að leggja niður starf hans á fundi með utanríkisráðherra í lok janúar 2009 og einnig með bréfi sama dag og að ákvörðunin kæmi til framkvæmda nokkrum dögum síðar, eða þann 1. febrúar sama ár. Taldi dómurinn að hér væri nánast um fyrirvaralausa uppsögn að ræða. Þá mótmælti Í því ekki að ákvörðun um niðurlagningu starfsins hefði verið tekin 6. janúar, eða þremur vikum áður en D var tilkynnt um hana. Taldi dómurinn að Í hefði ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna D var ekki tilkynnt um ákvörðunina þá þegar hún lá fyrir og þá var því ekki mótmælt af hálfu Í að utanríkisráðuneytið hefði engar opinberar skýringar gefið á skyndilegu brotthvarfi D úr starfi, hvorki á innlendum né erlendum vettvangi, og fyrir lá að D var ekki tilnefndur af hálfu íslenskra stjórnvalda til endurkjörs í stjórn lífeyrissjóðs WHO árið 2009. Taldi dómurinn það ljóst vera, með hliðsjón af því hve brátt starfslok D bar að, að honum hefði sjálfum tæpast gefist ráðrúm til að sinna eðlilegum starfslokastörfum, s.s. að tilkynna þau nánustu samstarfsmönnum sínum. Fram kemur í forsendum dómsins að þegar D lét af störfum í utanríkisráðuneytinu hafði hann um áratuga skeið sinnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir íslensk stjórnvöld bæði innanlands og á alþjóðlegum vettvangi auk þess sem hann átti að baki nærri 40 ára starfsferil í opinberri þjónustu lengst af í ábyrgðarmiklum störfum. D var m.a. ráðuneytisstjóri í 12 ár, var í fastanefnd Evrópusvæðis WHO frá 1997 – 2000, sat í aðalstjórn WHO frá 2002 – 2006, þar af eitt ár sem formaður stjórnar, og tók sæti í stjórn eftirlaunasjóðs sömu stofnunar árið 2006. Þá hafi D átt sæti í fleiri alþjóðlegum nefndum á vettvangi heilbrigðismála þegar hann fluttist yfir til utanríkisráðuneytisins. Taldi dómurinn að gera mætti ráð fyrir því að D hefði með störfum sínum skapað sér orðspor og traust sem hann hafði réttmætar væntingar til að yrðu ekki að óþörfu skaðað með framgöngu Í. Taldi dómurinn að í augum þeirra sem ekki væri kunnugt um forsendur ákvörðunar utanríkisráðherra bæri aðferðin og framganga ráðuneytisins við niðurlagningu starfs hans ýmis einkenni þess að D hefði verið vikið fyrirvaralaust úr starfi vegna ávirðinga hans sjálfs fremur en að um ákvörðun vegna samdráttar í þróunarsamstarfi íslenskra stjórnvalda væri að ræða. Taldi dómurinn að þessi framganga ráðherra hafi verið til þess fallin að valda D óþægindum og álitshnekki, umfram það sem óhjákvæmilega leiddi af þeirri í íþyngjandi ákvörðun að leggja niður starf hans. Var hún einnig til þess fallin að veikja traust til D og kasta rýrð á orðstír hans, ekki síst á erlendum starfsvettvangi þar sem menn kunna að hafa haft aðrar forsendur til að skilja gangverk stjórnsýslunnar á Íslandi við þær aðstæður sem uppi voru í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Í mótmælti ekki staðhæfingum D um að aðstæður eftir starfsmissi hans hefðu torveldað honum að hasla sér völl á erlendum starfsvettvangi og taldi dómurinn afar líklegt að það stafaði a. m. k. að einhverju leyti af því hvernig staðið var að starfslokum D. Styðst sú niðurstaða m.a. við skýrslu R fyrir dómi, en hún sat um tíma í stjórn Norræna heilsufræðiháskólans í Gautaborg, þar sem kom fram að stjórn skólans hefði snúist hugur um að ráða D til stjórnunarstarfa við skólann án þess að henni hefði tekist að fá viðhlítandi skýringar á því. Þá taldi dómurinn framkvæmd ákvörðunar einnig einkar tillitslausa í ljósi langs starfsaldurs D hjá Í og þess starfs sem hann gegndi. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að Í hafi brotið gegn grunnreglu um meðalhóf sem kveðið er á um í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við framkvæmd niðurlagningar starfs D og með því valdið honum miska sem er bótaskyldur á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Átti D því rétt til miskabóta sem metnar voru að álitum. Með hliðsjón af málavöxtum þóttu þær hæfilega ákveðnar 2.000.000 kr. með drv. Loks gerði D kröfu um greiðslu kostanaðar við málarekstur fyrir umboðsmanni Alþingis. Fram kemur í forsendum dómsins að fjárkrafa þessi væri ekki studd neinum gögnum og að almennt gilti sú regla að borgarar verði sjálfir að bera kostnað af málarekstri sínum fyrir stjórnvöldum. Taldi dómurinn að D hefði ekki lagt fram haldbær rök sem styddu kröfu hans um að víkja bæri frá þeirri reglu. Var þessari kröfu D því hafnað. Máli þessu hefur verið áfrýjað af Í til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 678/2014.

14. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. september 2014 í máli nr. E-5160/2013: I gegn íslenska ríkinu.

VEIKINDARÉTTUR. TÍMAKAUP. BAKVAKTIR OG ÚTKALLSSKYLDA.

I var ráðinn til starfa sem sjúkraflutningamaður við X og sinnti sjúkraflutningum á bakvöktum, en starfaði í dagvinnu hjá Y. Samkvæmt ráðningarsamningi var vinnuskylda I „bakvakt og útkallsskylda samkv. vaktarplani frá kl. 17.00 eh til kl. 8.00 að morgni virka daga og sólarhringsvaktir um helgar“. I sinnti bakvöktum ásamt fjórum öðrum starfsmönnum. Í júní 2009 fækkaði X starfsmönnum sem sinntu sjúkraflutningum á dagvöktum. Frá þeim tíma var I falið að sinna bakvöktum alla daga vikunnar frá kl. 8:00 til kl. 17:00 og fimmtu hverja viku allan sólarhringinn. Í desember 2010 slasaðist I við störf sín sem sjúkraflutningamaður. I fékk greidd veikindalaun í 121 dag vegna vinnuslyssins. Réttur I til launa vegna veikinda féll niður í lok maí 2011. Kröfu I um frekari veikindalaun vegna slyssins var hafnað. Byggði X á því að I hefði verið ráðinn í tímavinnu samkvæmt grein 12.2.2 í kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu. Í framhaldi af því að X hafnaði kröfu I leitaði hann til kjarasamningsbundinnar samráðsnefndar um veikindarétt, en nefndina skipuðu fulltrúar samningsaðila að samkomulagi BHM, BSRB og KÍ við fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaga (nú samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga) frá 24. október 2000, um tiltekin atriði, þ.m.t. veikindarétt launþega. Óskaði I eftir því að nefndin tæki til umfjöllunar hvort hann nyti veikindaréttar samkvæmt grein 12.2.1 í umræddum kjarasamningi, sem starfsmaður á mánaðarlaunum, eða grein 12.2.2, sem starfsmaður ráðinn í tímavinnu. Nefndin komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu, en nefndarmenn voru þó sammála um að réttindi starfsmanns, sem eingöngu væri ráðinn á bakvaktir, til veikinda væri ekki allskostar skýr í kjarasamningi. Fulltrúar samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar töldu I vera ráðinn í tímavinnu í skilningi kjarasamnings Kjalar og ríkissjóðs og vísuðu meðal annars til þess að I hefði ekki verið ráðinn til starfa á mánaðarlaunum og I áynni sér ekki rétt til orlofstöku, orlofsuppbótar eða persónuuppbótar í desember. Þá væri starfið ekki aðalstarf I og vinnufyrirkomulagið bæri með sér að I væri tímavinnumaður sem félli undir heimild atvinnurekanda skv. kjarasamningi til að vera ráðinn í tímavinnu þar sem I ynni afmörkuð verkefni. Fulltrúar BSRB, BHM og KÍ töldu I hins vegar hafa verið ráðinn á mánaðarlaun í skilningi kjarasamningsins. Vísuðu þeir meðal annars til þess að tilgreint væri að I hefði verið ráðinn til starfa á bakvöktum en ekki í tímavinnu. Þá áréttuðu þeir skyldu atvinnurekenda til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör með skriflegum ráðningarsamningi og sögðu að heimild atvinnurekanda til að ráða starfsfólk í tímavinnu samkvæmt áðurnefndum ákvæðum kjarasamnings ætti að nota í undantekningartilvikum og bæri að skýra þröngt. Fram kemur í niðurstöðu héraðsdóms að í ráðningarsamningi I er um vinnutímaskipulag hvorki merkt við dagvinnu eða yfirvinnu, heldur „annað“ og þar skráð „bakvaktir“. Ekkert er merkt í reit þar sem ætlast er til að gerð sé grein fyrir starfshlutfalli. Þá hefur „dagleg og/eða mánaðarleg vinnuskylda og mörk reglubundins vinnutíma“ verið skilgreind sem „bakvakt og útkallsskylda samkv. vaktarplani frá kl. 17.00 eh til kl. 8.00 að morgni virka daga og sólarhringsvaktir um helgar“. Grein 12.2.1 á við um starfsmenn sem ráðnir eru á mánaðarlaunum samkvæmt grein 1.1.1 í samningnum. Samkvæmt þeirri grein eru mánaðarlaun starfsmanns greidd samkvæmt ákveðnum launatöflum. I fékk hins vegar greitt fyrir bakvaktirnar með tímakaupi sem reiknast af dagvinnukaupi, sbr. greinar 1.6.2 og 1.4.1 í framangreindum kjarasamningi. Við útkall var greidd yfirvinna og bakvaktargreiðsla féll niður fyrir þann tíma, sbr. greinar 2.3.3 og 2.5.3 í kjarasamningnum. I var ekki ráðinn til starfa á föstum mánaðarlaunum, heldur fékk I greitt tímakaup fyrir þær bakvaktir og þau útköll sem hann sinnti. I hélt því fram að ekki hafi verið heimilt að ráða hann í tímavinnu, en þau tilvik þar sem heimilt sé að greiða starfsmanni tímavinnukaup séu tæmandi talin í grein 1.4.2 í kjarasamningnum og tilvik I geti ekki fallið þar undir. Samkvæmt ákvæðinu er m.a. heimilt að greiða tímavinnukaup þeim starfsmönnum sem ráðnir eru til að vinna að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum og þeim sem starfa óreglubundið um lengri eða skemmri tíma, þó aðeins í undantekningartilvikum. I starfaði við sjúkraflutninga hjá X. I sinnti eingöngu sjúkraflutningum og einungis á bakvöktum. I hefur lokið viðurkenndu námi í sjúkraflutningum og hlotið leyfi landlæknis, sem er skilyrði þess að mega starfa sem sjúkraflutningamaður, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1110/2012 um menntun, réttindi og skyldur sjúkraflutningamanna og bráðatækna og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Með hliðsjón af þessu þótti héraðsdómi sýnt að I hefði unnið að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum og því hafi verið heimilt að ráða I til starfa á tímakaupi. I hélt því einnig fram að nauðsyn hafi borið til þess að það kæmi fram í ráðningarsamningi ef hann væri ráðinn í tímavinnu. I gæti ekki notið lakari réttinda en fram komi í samningnum. Þá bæri honum réttur til þess að fá upplýsingar um starfskjör sín, en hann hefði ekki verið upplýstur um að hann hefði verið ráðinn í tímavinnu eða hver réttur hans til launa vegna veikinda og slysa væri. Í ráðningarsamningi I er ekki tiltekið sérstaklega að hann sé ráðinn í tímavinnu. Þar er þó skýrt tilgreint að hann sé ráðinn á bakvaktir. Um launagreiðslur og önnur starfskjör er vísað til kjarasamnings starfsmannafélagsins Kjalar. Eins og hér hefur verið greint frá er í þeim samningi gerð grein fyrir því að tímakaup sé greitt fyrir bakvaktir. Þykir því ekki leika slíkur vafi um túlkun á ráðningarsamningi stefnanda að hann skuli njóta aukins réttar til veikindalauna. Þá þykja önnur atriði sem I hefur bent á, svo sem ákvæði um uppsagnarfrest, ekki benda til þess að I hafi verið ráðinn á mánaðarlaunum. Samkvæmt öllu þótti I ekki eiga rétt til frekari greiðslna vegna veikindaleyfis en hann hafði þegar fengið og var Í því sýknað af kröfu I.

15. Dómur Hæstaréttar frá 25. september 2014 í máli nr.75/2014: Ó gegn Verkmenntaskólanum á Akureyri.

UPPSÖGN VEGNA NIÐURSKURÐAR. MEÐALHÓF. ÖRYGGISTRÚNAÐARMAÐUR. TRÚNAÐARMANNAVERND. SKAÐABÆTUR.

Ó var ráðinn hjá VMA vorið 2001 sem kennari í faggreinum málmiðna. Samkvæmt ráðningarsamningi Ó við VMA var stéttarfélag hans KÍ. Ó var öryggistrúnaðarmaður á vinnustaðnum og einnig fulltrúi félagsmanna KÍ í samstarfsnefnd KÍ og VMA. Þegar Ó var ráðinn að skólanum hafði ásókn í vélvirkjun verið nokkuð stöðug en með nýrri námsskrá í vélvirkjun árið 2001, sem lengdi námið, minnkaði ásókn í námið og hafði Ó ekki kennt það nám til enda eftir þá breytingu. Haustið 2008 höfðu af hagkvæmnisástæðum grunndeildir málmiðngreina og vélstjórnar verið sameinaðar í grunndeild málm- og véltæknigreina. Á kjarnaskólafundi í apríl 2011 voru kynntar nýjar og endurbættar kröfur frá IMO vegna vélstjóranáms og fram kom að aðeins þeir sem lokið hefðu fyllstu vélstjórnarréttindum og væru vélfræðingar uppfylltu lágmarkskröfur varðandi menntun fagkennara í vélstjórnargreinum. Ó var sagt upp störfum í apríl 2008 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Ástæða uppsagnarinnar var hagræðing í rekstri VMA vegna niðurskurðar á fjárframlögum til skólans, til þess að mæta fækkun nemenda og laga kennslu og áfangaframboð að breyttum aðstæðum. Af þessum sökum var jafnframt þremur öðrum kennurum sagt upp. Rekstrarumhverfi VMA hafði verið erfitt og þurft hafði að skera niður í rekstri bæði 2010 og 2011 og grípa til ýmissa sparnaðaraðgerða. Ó taldi uppsögnina ekki lögmæta, m.a. í ljósi trúnaðarmannaverndar sinnar. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að telja verði að ákvörðun VMA um að segja Ó upp hafi ráðist af þeim atriðum sem rakin voru í rökstuðningi í bréfum skólameistara og fram komu í vitnisburði þeirra A og B fyrir dómi. Varðandi þá málsástæðu að Ó hafi virt að vettugi ákvæði 19. gr. laga nr. 87/2008 með ráðningu kennara í stöðu sem auglýst var um sama leyti og Ó var sagt upp segir héraðsdómur að fyrir lá að Ó uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar voru til þeirra kennslu sem auglýsingin tók til. Staðan hafði ítrekað verið auglýst og enginn sótt um hana. VMA hafi fengið undanþágu skv. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2007 til ráðningar viðkomandi kennara. Þá sótti Ó ekki um stöðuna. Ó byggði einnig á því að óheimilt hafi verið að segja sér upp þar sem hann hafi sem trúnaðarmaður átt að sitja fyrir um vinnu við fækkun starfsmanna. Í niðurstöðu héraðsdómsins segir um þetta að samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 um kjarasamninga opinberra starfsmanna skuli trúnaðarmaður í engu gjalda þess að hafa valist til þessa trúnaðarstarfs. Þá segir í 4. mgr. sömu greinar að sé trúnaðarmaður valinn úr hópi starfsmanna sem ráðnir eru með uppsagnarfresti skuli hann að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda starfinu. Samsvarandi ákvæði er í 11. gr. laga nr. 80/1980 um stéttarfélög og vinnudeilur. Reglur þær sem gilda um trúnaðarmenn eru settar til að tryggja að trúnaðarmaður geti sinnt trúnaðarmannaskyldum sínum án þess að eiga það á hættu að vera sagt upp vegna þeirra. Óumdeilt er í máli þessu að uppsögn Ó tengdist ekki með neinum hætti starfi hans sem trúnaðarmanns. Samkvæmt dómaframkvæmd hefur verið litið svo á að trúnaðarmanni eigi ekki að segja upp við fækkun starfsmanna nema vinnuveitandi sýni fram á ríkar ástæður fyrir þeirri ákvörðun. Telja verður að ríkar ástæður hafi legið að baki þeirrar ákvörðunar VMA um að segja Ó upp störfum og hafi ákvörðunin verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum sem rakin hafa verið. Braut VMA því ekki gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins með uppsögninni. Þá féllst héraðsdómur ekki á það með Ó að ekki hafi verið gætt meðalhófs við meðferð málsins, þar sem VMA hafði gripið til ýmissa sparnaðaraðgerða áður en til uppsagnar Ó kom. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfum Ó í héraðsdómi. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. annars fram að þær reglur, sem breytingar á hæfniskröfum V byggðu á, væru almennt orðaðar og gæfu svigrúm til mats á því hvaða hæfniskröfur væru gerðar til kennslu í þeim greinum sem Ó hafði haft með höndum. Var talið að V hefði ekki sýnt fram á að Ó uppfyllti ekki lengur hæfniskröfur í viðkomandi greinum. Þá kom fram að í beinu framhaldi af uppsögn Ó hefði V auglýst stöðu kennara á kennslusviði Ó og ráðið í þá stöðu nokkrum mánuðum síðar. Var talið að í ljósi þeirrar ríku verndar sem Ó hefði notið vegna stöðu sinnar sem trúnaðarmaður hefði V verið rétt að taka til skoðunar hvort komast hefði mátt hjá uppsögn Ó með því að ráða ekki í umrædda stöðu og ná þar með fram því hagræðingarmarkmiði, sem að hefði verið stefnt með uppsögn Ó, og gera viðeigandi ráðstafanir vegna tilfærslu kennslu. V hefði þannig ekki sýnt fram á að því lögmæta markmiði, sem að hefði verið stefnt með uppsögn Ó, hefði ekki verið náð með öðru og vægara móti, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var V því dæmdur til að greiða Ó bætur að álitum vegna fjártjóns hans. Ekki þóttu ekki efni til að dæma V til að greiða Ó miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 80/1993.

16. Dómur Hæstaréttar frá 23. október 2014 í máli nr. 172/2014: Íslenska ríkið gegn Þ og gagnsök.

UPPSÖGN VEGNA NIÐURSKURÐAR. SKAÐA- OG MISKABÆTUR.

Þ, löggiltur endurskoðandi, hóf störf hjá S í september 2006 og var fastráðinn í nóvember 2007. Er Þ var ráðinn til starfa störfuðu starfsmenn S á tveimur sviðum, rannsóknarsviði og lögfræðisviði. Hvoru sviði fyrir sig var stýrt af forstöðumanni. Þ var ráðinn á rannsóknarsvið en næsti yfirmaður hans var Y. Enginn annar starfsmaður var með sambærilega menntun og Þ. Samkvæmt starfslýsingu Þ var honum einkum ætlað að „finna mál“, það er að sérþekking hans yrði nýtt til að finna úrtök eða verkefni til rannsóknar hjá S og taka þátt í rannsóknum einstakra mála eftir því sem þörf væri á hverju sinni þvert á rannsóknarhópa S. Launakjör Þ tóku mið af því að um væri að ræða endurskoðanda og voru greiðslur til hans þann tíma er hann starfaði hjá S sambærilegar greiðslum til æðstu yfirmanna S og því hærri en laun annarra starfsmanna. Á árinu 2010 var sett á fót nýtt svið, svokallað „stoðsvið“ til viðbótar þeim tveimur sviðum sem fyrir voru. Þar skyldi annars vegar fara fram greining einstakra mála með tilliti til ætlaðra brota og gerð aðgerðaráætlana vegna fyrirhugaðra rannsókna. Hins vegar var starfsmönnum þess ætlað að aðstoða rannsóknarmenn á sviðum þar sem sérhæfðrar þekkingar væri þörf, þvert á rannsóknarteymi og svið. Við þessar breytingar var starf endurskoðanda fært undir nýtt stoðsvið. Þá voru ráðnir til starfa tveir sérfræðingar, lögfræðingur með sérþekkingu á sviði alþjóðlegs skattaréttar og viðskiptafræðingur með reynslu af fjármálastjórnun. Vegna þessarar breytingar var starfslýsing Þ yfirfarin og endurskoðuð. Í júní 2012 var Þ tilkynnt um fyrirhugaða áminningu í samræmi við 21. gr. laga nr. 70/1996. Tilefni hennar var að Þ hefði með bréfi til fjármálaráðherra og afriti til forsætisráðherra greint frá rannsókn S á máli aðila sem sætt hafði rannsókn hjá S. Í bréfinu væri m.a. greint frá nafni viðkomandi aðila, niðurstöðu rannsóknarinnar og meðferð málsins í kjölfar hennar. Þá væri í bréfinu vitnað til tölvupósts sem Þ sendi R varðandi umrætt mál. Með því að greina þessum aðilum frá málinu væri Þ að brjóta þagnarskyldu og tiltekin lagaákvæði nefnd í því sambandi. Þ var gefinn andmælaréttur sem hann nýtti sér. Benti Þ á að skv. tekjuskattslögum hefði ráðherra eftirlit með því að R og S ræktu skyldur sínar. Ráðherra hefði rétt til að fá til athugunar skattaframtöl og gögn varðandi þau og krefja framangreinda aðila skýringa á öllu því er framkvæmd laganna varðaði. Í ágúst 2012 var Þ tilkynnt að fallið hefði verið frá fyrirhugaðri áminningu með vísan til andmæla og þess hvernig málið lægi fyrir að öðru leyti. Í september 2012 var Þ síðan afhent uppsagnarbréf og sagt upp störfum hjá S með þriggja mánaða fyrirvara. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi Þ á uppsagnartíma. Engar skýringar fylgdu uppsögninni. Bent var á að Þ gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni, sem hann og gerði. Í rökstuðningi S segir að ástæðu uppsagnarinnar sé að rekja til hagræðingar og endurskipulagningar sem nauðsyn krefði að í væri farið vegna fram komins fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013. Næmi almennur niðurskurður á fjárheimildum S vegna aðhaldsmarkmiða stjórnvalda 1% eða 5 milljónum. Til viðbótar væri ekki gert ráð fyrir að S fengi viðbótarfjárveitingu til að sinna þeim verkefnum sem fyrir lægju hjá S nema sem næmi hluta af því sem verið hefði síðastliðin tvö ár. Samkvæmt frumvarpinu væri gert ráð fyrir að lækkun næmi 36 milljónum. Alls væri því fyrirséð að fjárheimildir S mundu lækka um 41 milljón króna og var vísað í frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013. Í ljósi samdráttar og hlutverks S hafi niðurstaða Y orðið sú að réttast væri að leggja af starf endurskoðanda. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki væru efni til að hnekkja því mati S að réttmætt hefði verið, í ljósi skertra fjárveitinga, að segja Þ upp starfi sínu miðað við fyrirliggjandi þarfir S og verkefnastöðu. Á hinn bóginn hefði fyrirhugaður niðurskurður á fjárheimildum S verið dreginn til baka og með því hefði brostið hinn lögmæti grundvöllur sem ákvörðunin hefði upphaflega verið reist á. Var því fallist á að Í bæri bótaábyrgð á því tjóni sem Þ hefði orðið fyrir. Við ákvörðun bóta var litið til þess að Þ hafði verið ráðinn ótímabundið til starfa með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti og hafði fengið greidd laun í uppsagnartíma. Þ hafi við uppsögnina verið 62 ára, en leggja yrði til grundvallar að á þeim aldri væri almennt erfitt að koma að nýju undir sig fótunum á almennum vinnumarkaði. Voru bætur Þ vegna fjártjóns því metnar að álitum. Þá var talið að í þeirri háttsemi S, að bjóða ekki Þ starf sitt aftur eftir að fyrir lá að hætt var við hina skertu fjárveitingu, hefði falist ólögmæt meingerð samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Voru Þ því dæmdar miskabætur.

17. Dómur Hæstaréttar frá 23. október 2014 í máli nr. 141/2014: Landspítalinn gegn S og gagnsök.

NÁMSSAMNINGUR. LAUNAÁKVÖRÐUN. JAFNRÆÐISREGLA.

S, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, en var, er atvik máls þessa urðu, hjúkrunarfræðingur í ljósmóðurnámi. Í tengslum við nám sitt réð S sig sem hjúkrunarfræðing til LSH. Samkvæmt ráðningarsamningi frá maí 2011 var starfsheiti S hjúkrunarfræðingur og var starfshlutfall sagt vera 80%. Við vinnutímaskipulag var ritað reynslutími. Laun skyldu greiðast samkvæmt ákveðnum launaflokki. Um tímabundna ráðningu var að ræða til 10 mánaða, með upphafsdegi í lok maí 2011 en lokadegi í lok mars 2012. Á ráðningarsamninginn var handritað: „Sjá meðfylgjandi bréf um fyrirvara við undirritun og efni ráðningasamnings.“ S kvaðst hafa afhent LSH það bréf, sem vísað var til, sama dag og ritað var undir ráðningarsamning. Í umræddu bréfi kom fram að S gerði fyrirvara við undirritun sína á ráðningarsamninginn og ákvæði samningsins um kaup og kjör: „Undirrituð hefur gert athugasemdir og sett fram kröfur á hendur LSH um að undirritaðri verði greitt samkvæmt hærri launaflokksröðun í verknámi og fái greitt fyrir allan námstímann og þ.m.t. þær vikur af verknámi sem að LSH hefur gert ráð fyrir að verði launalausar, en það greiðslufyrirkomulag samræmist ekki því greiðslufyrirkomulagi sem viðhaft er í verknámi hjúkrunarfræðinga í skurð- og svæfingarnámi. Eru kröfur þessar og launamál ljósmæðranema nú til skoðunar hjá LSH. Hvort sem síðar kann að koma til breytinga á verklagsreglum LSH hvað framangreindar launagreiðslur og greiðslufyrirkomulag varðar eða ekki, áskilur undirrituð sér rétt til þess að krefja LSH um greiðslu bóta vegna þeirrar skerðingar sem hún mun þurfa að sæta vegna þeirrar skerðingar sem núverandi greiðslufyrirkomulag hefur í för með sér í samanburði við annað verknám, sbr. framangreint.“ Í málinu kom fram af hálfu S að á samningstíma ráðningarsamningsins hafi laun S verið skert frá því, sem samið hefði verið um, með frádrætti vegna „launalauss leyfis“. Misjöfn fjárhæð hafi verið dregin frá launum í hverjum og einum mánuði. S hefði þó hvorki tekið launalaust leyfi né hefði verið samið um þennan frádrátt. L benti á að starfsnám S hafi einungis að hluta til farið fram hjá LSH á tímabilinu 31. maí 2011 til 31. mars 2012. Aldrei hafi staðið til að S yrði í starfi hjá LSH allan ráðningartímann, enda hafi verið gert ráð fyrir að nemarnir tækju einnig vaktir á öðrum stofnunum. Megi sjá af fyrirliggjandi vaktaáætlun, sem útbúin hafi verið í HÍ, að S hafi verið ætlað að starfa á A og á heilsugæslu hluta starfsnámstímans. LSH kvað ástæðu þess að gerður var ráðningarsamningur með hefðbundnu formi eingöngu vera þá að með því hefði S öðlast aðgang að tölvukerfum innan spítalans. Séu slíkir samningar gerðir við starfsnema til þess að koma í veg fyrir að þau kerfi, sem nemar þurfi að hafa aðgang að vegna náms síns, lokist ekki í hvert skipti sem þeir fari á milli deilda og stofnana. Af hálfu LSH var því lýst að ljósmæðranám hefði verið kennt á vegum LSH til ársins 1999 en þá hafi HÍ tekið við náminu. Frá þeim tíma hefði hver stofnun greitt laun fyrir þann hluta starfsnáms ljósmæðranema sem fór fram hjá þeim. Aðrar stofnanir hafi fyrir þó nokkru hætt að greiða ljósmæðranemum í starfsnámi laun og hjá LSH hafi vikufjölda launaðs starfsnáms verið fækkað. Árið 2009 hafi verið hætt að greiða fyrir allt starfsnám á öðrum deildum en fæðingargangi, Hreiðri og meðgöngu- og sængurkvennadeild. Nú greiði LSH laun fyrir 19 vikur af þeim 24 sem starfsnám standi á þeim deildum. Það fyrirkomulag hafi verið ákveðið við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 og fyrst komið til framkvæmda námsárið 2011 til 2012. Var forstöðumanni náms í ljósmóðurfræðum hjá HÍ tilkynnt um breytinguna með tölvupósti í janúar 2011 Ljósmæðranemar fái nú eingöngu greitt fyrir starfsnám hjá LSH en ekki á heilsugæslu, spítölum utan höfuðborgarsvæðisins eða öðrum þeim stöðum þar sem starfsnám er stundað. Fram kom að LSH hefði ákveðið að fella niður launagreiðslur til þeirra, sem hæfu ljósmæðranám á árinu 2014 vegna óvissu um fjárveitingar til LSH. Allt skipulag námsins væri í höndum HÍ, hann veldi nema sem fara ættu í starfsnám, hvenær þeir væru á hverjum stað og útbýr vaktaáætlun þeirra. Stéttarfélag S, FÍH, ritaði velferðarráðherra erindi í júní 2011, f.h. ljósmæðranema sem allar höfðu ráðið sig á sama tíma til LSH, þ.m.t. S, vegna þess, sem talið var mismunun á launagreiðslum. Var ráðherra upplýstur um að ljósmæðranemarnir fengju ekki greidd laun fyrir allan samningstímann, ólíkt hjúkrunarfræðinemum í skurð- og svæfingahjúkrunarnámi, og að LSH teldi að mismununin ætti sér eðlilegar skýringar. Var óskað eftir að ráðuneytið kannaði málið og beitti sér fyrir því að nemum væri ekki mismunað með þessum hætti. Velferðarráðuneytið óskaði eftir afstöðu LSH til málsins og svar barst með bréfi í júlí 2011. Þar kemur fram sú afstaða LSH að honum sé heimilt að greiða ljósmóðurnemum í diplómanámi laun skv. ákveðnum launaflokki. Fram kom í bréfinu að sú rekstrarlega forsenda, sem ákvörðun um mismunun í greiðslum til annars vegar ljósmóðurnema og hins vegar nema í skurð- og svæfingahjúkrun byggði á, væri yfirvofandi skortur á skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingum. Því yrði að bjóða nemum í skurð- og svæfingahjúkrun „ívið betri kjör en öðrum í þeirri viðleitni að auka nýliðun“, eins og segir í bréfinu. Með bréfi ráðuneytisins til FÍH í janúar 2012 kvaðst ráðuneytið ekki gera athugasemdir við skýringar LSH og upplýsti að það myndi ekki aðhafast frekar í málinu. Í dómi héraðsdóms var krafa S tekin til greina með vísan til orðalags ráðningarsamnings aðilanna og tekið fram að LSH hefði verið í lófa lagið að útfæra efni samningsins með öðrum hætti en gert var, ef ætlunin hefði verið að semja um önnur kjör en þar væru ákvörðuð. Í dómi Hæstaréttar var á hinn bóginn talið, m.a. með vísan til bréfasamskipta forstöðumanns fræðasviðs í ljósmóðurfræðum við HÍ og framkvæmdastjóra kvenna- og barnasviðs LSH, svo og fyrirvara sem S hafði gert við ráðningarsamninginn, að S hafi verið ljóst að laun hennar yrðu ekki í samræmi við þau ákvæði samningsins að greitt yrði fyrir 80% starfshlutfall samkvæmt nánar tilgreindum launaflokki í kjarasamningi hjúkrunarfræðinga. S hafi þannig mátt vita að hluti starfstíma hennar yrði launalaus. Þá var ekki fallist á að LSH hefði, með því að greiða ljósmæðranemum í starfsnámi einungis fyrir hluta námstímans en nemum í skurð- og svæfingahjúkrun fyrir allan námstímann, mismunað þessum tveimur hópum með ólögmætum hætti, enda væri starfsnám þessara starfsstétta ósambærilegt. Var LSH því sýknaður af kröfu S.

18. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. nóvember 2014 í máli nr. E-7/2013: D gegn íslenska ríkinu.

KJARASAMNINGUR. VINNULAUN. VAKTAVINNA. MATAR- OG KAFFITÍMAR. EYÐUR Í VINNUTÍMA.

D hóf störf sem sjúkraliði hjá HSU í febrúar 2006 á grundvelli tímabundins ráðningarsamnings. Var ráðningartíminn frá byrjun febrúar 2006 til loka desember 2007. Umsamið starfshlutfall var 70%. Í byrjun september 2007 var ráðning D framlengd ótímabundið og var umsamið starfshlutfall óbreytt. D starfaði í vaktavinnu við heimahjúkrun hjá heilsugæslunni á S og um starfskjör D fór samkvæmt skriflegum ráðningarsamningum frá janúar 2006 og september 2007 og Kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og ríkisins. D sagði upp störfum hjá HSU í febrúar 2012 og lét af störfum í maí s.á. Í samningi Sjúkraliðafélags Íslands og ríkisins, 30. júní 2005, um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila, sem gilti frá 1. júní 2005 til 30. apríl 2008 var svofellt ákvæði í grein 2.6.9: „Starfsmenn í vaktavinnu hafa ekki sérstaka matar- og kaffitíma. Starfsmönnum er þó heimilt að neyta matar og kaffis við vinnu sína á vaktinni ef því verður við komið starfsins vegna. Vegna takmörkunar þeirrar sem að ofan greinir á matar- og kaffitímum, skal telja hverja vakt sem unnin er til uppfyllingar vikulegri vinnuskyldu, 15 mínútum lengri en raunverulegri viðveru nam.“ Ákvæðið var óbreytt í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og ríkisins, sem gilti frá 1. maí 2008 til 31. mars 2009. Ákvæðinu var hins vegar breytt með samkomulagi, dagsettu 14. október 2010, um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila, sem gilti frá undirskriftardegi til og með 30. nóvember 2010, í þá veru að í stað 15 mínútna komu 25 mínútur. Ákvæðinu var enn breytt með samkomulagi um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila, sem undirritað var 27. júní 2011, en kröfugerð D byggði ekki á þeirri breytingu. Í nóvember 2011 sendi formaður Sjúkraliðafélags hjúkrunarframkvæmdastjóra HSU og hjúkrunarstjóra heilsugæslunnar á S erindi þar sem því var haldið fram ekki hefði verið staðið við framangreint kjarasamningsákvæði 2.6.9 um viðbót við raunverulegan vinnutíma sjúkraliði er ynnu vaktavinnu við heimahjúkrun. Í svari HSU við erindi Sjúkraliðafélags Íslands var því haldið fram að það hefði verið sameiginlegur skilningur hjúkrunarstjórnenda og sjúkraliða, frá því að vaktavinna hefði hafist við stofnunina á árinu 2005, að kaffitímar greiddust ekki þar sem afsláttur væri gefinn af vinnuskyldu á vöktum. Afslátturinn hefði numið frá 1 klst. upp í 3 klst. á vakt, allt eftir fjölda skjólstæðinga. Það hefði hins vegar komið sér betur fyrir stofnunina að greiða yfirvinnu á vaktir heldur en að gefa afslátt af vinnuskyldu en talið hefði verið að með þessari framkvæmd væri verið að gera vel við starfsmenn. Þar sem nokkrir úr hópi sjúkraliða vildu hins vegar frekar fá greidda kaffitíma en fá afslátt af vinnuskyldu og matarhlé yrði horfið frá fyrra fyrirkomulagi þannig að sjúkraliðum yrðu greiddir kaffitímar í samræmi við kjarasamning, frá 1. nóvember 2011, en jafnframt yrði hætt að gefa þeim afslátt af vinnuskyldu frá 1. janúar 2012. Þá myndu kvöld- og helgarvaktir þeirra styttast um eina klukkustund og myndu þeir vinna þriðju hverja helgi í stað fjórðu hverrar áður. Ekki yrði breyting á stöðuhlutfalli starfandi sjúkraliða. Hinn 1. janúar 2012 mun einnig hafa verið horfið frá þeirri venju að gefa sjúkraliðum launað matarhlé á dagvöktum og hætt að vinna tvöfaldar vaktir um helgar. Hinn 21. mars 2012 var haldinn fundur í samstarfsnefnd Sjúkraliðafélags Íslands og HSU m.a. til að ræða ágreiningsefnið án þess að samkomulag næðist. Í byrjun maí 2012 ritaði lögmaður Sjúkraliðafélags Íslands HSU bréf þar sem því var hafnað að samkomulag hafi verið í gildi um afslátt af vinnuskyldu í stað greiðslna vegna matar- og kaffitíma skv. ákvæði 2.6.9 í viðkomandi kjarasamningi. Af hálfu HSU var kröfugerð félagsins hafnað. Deildu aðilar um það hvort D ætti kröfu á hendur HSU fyrir ógreidda matar- og kaffitíma skv. ákvæði 2.6.9 í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og ríkisins eða hvort D hafi fengið umrædda tíma greidda með afslætti af vinnuskyldu. Í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og ríkisins segir í ákvæði 1.6.3: „Vinnutími starfsmanna skal vera samfelldur eftir því sem við verður komið. Greitt skal fyrir eyður í vinnutíma með vaktaálagi skv. gr. 1.6.1.“ Í stefnu gerði D kröfu á hendur Í um greiðslur á grundvelli kjarasamningsákvæðisins. Engin samskipti áttu sér stað milli D og eða Sjúkraliðafélags Íslands og Í vegna þessara kröfu fyrir en með höfðun málsins. Í byggði sýknukröfu sína m.a. á því að HSU hefði staðið D skil á umsömdum viðbótargreiðslum vegna skerðingar á matar- og kaffitímum, annars vegar með föstum launuðum matartíma á dagvöktum og hins vegar með ríflegri eftirgjöf á vinnuskyldu á kvöld- og helgarvöktum. Þessi útfærsla HSU á endurgjaldi vegna matar- og kaffitímanna rúmist fyllilega innan ákvæða kjarasamnings og fæli á engan hátt í sér brot á lágmarkskjörum samkvæmt kjarasamningi. Þá byggði Í sýknukröfu sína á því að allar kröfur D væru fallnar niður fyrir tómlæti. D hafi vitað af framangreindri útfærslu á ákvæði 2.6.9 í þau tæpu 6 ár sem D hafi starfað hjá HSU og samþykkt hana. HSU hafi fyrst orðið ljóst að D gerði athugasemdir við fyrirkomulagið í lok árs 2011, þegar stéttarfélag hennar hafi sett fram athugasemdir sínar. Þá hafi HSU breytt framkvæmdinni enda hafi fyrri framkvæmd verið í samræmi við óskir starfsmanna. Athugasemdir stéttarfélags D hafi ekki verið hægt að túlka á annan veg en þann að nú kysu starfsmenn HSU að hafa annan hátt á en verið hefði. HSU hafi komið til móts við þessar breyttu óskir með því að greiða fyrir nefndar viðbótarmínútur og fella niður þann afslátt sem starfsmennirnir hefðu áður notið, m.a. í formi klukkustundarlangs matarhlés daglega. Þetta tómlæti D renndi frekari stoðum undir þá málsástæðu HSU að frá upphafi vaktafyrirkomulagsins í ársbyrjun 2006, hafi verið í gildi venjuhelgað samkomulag aðila um að gegn þessum eftirgjöfum af vinnuskyldu yrði ekki greitt sérstaklega fyrir kaffitíma. Í málinu lá fyrir yfirlýsingar fjögurra núverandi eða fyrrverandi sjúkraliða við HSU, sem allir nema einn störfuðu við heilsugæsluna á S á þeim tíma sem D starfaði þar. Í yfirlýsingunum segir að sjúkraliðarnir hafi gert sér grein fyrir að þeir hafi fengið verulegan afslátt af vinnuskyldu á kvöld- og helgarvöktum og þeir vitað eða gert sér grein fyrir að afslátturinn kæmi m.a. á móti matar- og kaffitímalaunum sjúkraliða, sem unnið hafi vaktavinnu. Umræddir sjúkraliðar staðfestu allir yfirlýsingar sínar efnislega við aðalmeðferð málsins. Þrír sjúkraliðar aðrir, sem starfa eða hafa starfað við heilsugæsluna, gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Höfnuðuð þeir því allir að í gildi hefði verið samkomulag um að í stað greiðslna fyrir matar- og kaffitíma, samkvæmt tilvitnuðu kjarasamningsákvæði, hefði átt að koma afsláttur af vinnuskyldu líkt og stefndi héldi fram. Ekkert slíkt samkomulag hefði verið til staðar. Í niðurstöðu héraðsdóms um þessa aðalkröfu D sagði að á D hvíldi sönnunarbyrði fyrir því að samkomulag hafi orðið milli D og HSU um að í stað greiðslna samkvæmt ákvæði 2.6.9 í tilvitnuðum kjarasamningum Sjúkraliðafélags Íslands og ríkisins kæmi 1 klst. matarhlé á dagvöktum og afsláttur af vinnuskyldu á kvöld- og næturvöktum. D hefur alfarið hafnað því að slíkt samkomulag hafi verið til staðar. Framburður annarra sjúkraliða er starfa eða starfað hafa hjá heilsugæslunni á S er misvísandi hvað framangreinda málsástæðu D varðar. Varð D því að bera hallann af því. Var umræddri málsástæðu D hafnað. Um tómlæti D segir í niðurstöðu héraðsdóms að það hafi verið fyrst í nóvember 2011 sem Sjúkraliðafélag Íslands gerði athugasemdir við framkvæmd ákvæðis 2.6.9 í kjarasamningi félagsins og ríkisins. Þá viðurkenndi D í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins að hún hefði aldrei, meðan á ráðningu hennar stóð, kvartað yfir því að hún fengi ekki greitt skv. kjarasamningi, vegna skerðinga á matar- og kaffitímum eða gert fyrirvara í þá veru við móttöku launa. Fjárkrafa D á hendur Í var fyrst sett fram með höfðun málsins í byrjun janúar 2013. Mat dómurinn þennan drátt á athugasemdum við launafyrirkomulag, sem verið hafði í gildi gagnvart D allt frá 1. febrúar 2006, D til aðgerðarleysis og með þessu aðgerðaleysi þótti D hafa fyrirgert rétti sínum á hendur Í skv. I lið í stefnu og var Í þegar af þeirri ástæðu sýknaður af þessum þætti kröfugerðar D. Dómkröfur D skv. II. lið í stefnu voru á því reistar að D ætti inni hjá HSU vangoldið vaktaálag vegna eyða í vinnutíma hennar skv. ákvæði 1.6.3 í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og ríkisins. Var krafan vegna tímabilsins 1. janúar 2009 til 31. desember 2011. Sýknukrafa Í var m.a. á því byggð að krafan væri ósönnuð en hafi hún stofnast væri hún niður fallin sökum tómlætis D, í samræmi við meginreglu vinnuréttar um fyrirvaralausa viðtöku launa og aðgerðarleysi. Um þetta segir í niðurstöðu héraðsdóms að allan tímann sem D starfaði hjá HSU vann hún vaktavinnu. Kröfur D samkvæmt II. lið kröfugerðar hennar ná yfir tímabilið frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2011 og eru reistar á því að HSU hafi ekki staðið við greiðslur fyrir eyður í vinnutíma samkvæmt ákvæði 1.6.3 í þeim kjarasamningum sem í gildi voru meðan D starfaði hjá HSU. Í skýrslu D við aðalmeðferð málsins viðurkenndi D að hún hefði aldrei kvartað yfir því að hafa ekki fengi greitt fyrir eyður í vinnutíma eða gert fyrirvara í þá veru við móttöku launa. Þá liggur fyrir að D gerði engar athugasemdir við þá framkvæmd HSU að greiða ekki fyrir eyður skv. ákvæði 1.6.3 fyrr en með höfðun málsins. Mat dómurinn þennan drátt á athugasemdum við launafyrirkomulag, sem verið hafði í gildi gagnvart D allt frá 1. febrúar 2006, D til aðgerðarleysis. Með þessu aðgerðaleysi þótti D hafa fyrirgert rétti sínum á hendur Í skv. II. lið í stefnu og var Í sýknað af þessum þætti kröfugerðar D.

19. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. nóvember 2014 í máli nr. E-2630/2013: A gegn íslenska ríkinu.

KJARASAMNINGUR. LAUSN FRÁ STÖRFUM VEGNA HEILSUBRESTS. SAMFELLT FRÁ VINNU Í TILTEKINN TÍMA. SLYS Á LEIÐ Í VINNU.

A lenti í slysi á leið til vinnu í janúar 2012. Í læknisvottorði frá febrúar 2012 sagði að A væri óvinnufær með öllu um ótiltekin tíma. Í læknisvottorði frá febrúar 2013 sagði að A væri óvinnufær með öllu á tímabilinu 11. febrúar til 11. maí 2013. Með bréfi í mars 2013 var A veitt lausn frá störfum hjá S vegna heilsubrests frá og með 31. mars s.á. Fram kom í bréfinu að ástæða lausnar A væri langvarandi veikindi og tiltekið að um síðastliðin áramót hafi A verið samfellt frá vinnu vegna veikinda launalaust í jafnlangan tíma og hann átti rétt á að halda launum vegna veikindanna. Vísað var til greinar 12.2.1 í kjarasamningi ásamt til greinar 12.2.6. A mótmælti uppsögn með bréfi í mars 2013 og fór fram á að hún yrði afturkölluð á þeim forsendum að slys hans teldist vinnuslys, þar sem hann hefði slasast á leið til vinnu og ætti því rétt á launum í veikindum í 13 vikur til viðbótar þeim 175 dögum sem kveðið væri á um í grein 12.2.1 í kjarasamningum með vísan til ákvæðis þar að lútandi í sömu grein samningsins. A hélt því fram að með teknu tilliti til þess réttar hafi sá tími því ekki verið kominn, þegar honum var veitt lausn frá störfum. Hann hafi ekki verið jafn lengi frá vinnu launalaust og hann hafði verið frá vinnu á launum. Auk þess sem hann hefði ekki fengið greidd laun í umræddar 13 vikur. S féllst á að greiða A laun í 13 vikur til viðbótar en féllst ekki á að viðbótarréttur A til launa hefði áhrif á heimild S til að veita A lausn frá störfum þegar hann hafi verið búinn að vera frá vinnu án launa í jafnlangan tíma og hann átti rétt á að vera á launum samkvæmt grein 12.2.1, þ.e. í tvisvar sinnum 175 daga. Um þetta segir í niðurstöðu héraðsdóms að ekkert í gögnum sem rakin voru í niðurstöðu dómsins veiti vísbendingu um að túlka beri ákvæðið í kjarasamningi aðila á þann hátt sem S hélt fram, þ.e. þannig að ekki beri að telja með þann tíma sem bætist við rétt til launaðs veikindaleyfis ef forföll eiga rætur að rekja til vinnuslyss eða atvinnusjúkdóms þegar metið er hvort sá tími sé kominn að veita megi manni lausn frá starfi af heilsufarsástæðum. Niðurstaða héraðsdóms var því sú að ákvörðun S um að leysa A frá störfum vegna heilsubrests gat ekki með réttu byggst á heimild í kjarasamningi aðila og ákvörðunin því dæmd ólögmæt af þeirri ástæðu.

20. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. desember 2014 í máli nr. E-4912/2013 (óbirtur): M gegn Lanspítala-háskólasjúkrahúsi.

SKIPULAGSBREYTINGAR. BREYTING Á STÖRFUM. UPPSÖGN.

L sagði M upp störfum í tengslum við breytingar á skipulagi og starfi. Vegna breytinga hafi þurft að breyta starfi M og þeim skilyrðum sem starfsmaður þurfti að uppfylla. Þessi breyttu skilyrði uppfyllti M ekki. L taldi að mat á þessum breytingum hafi verið málefnaleg og M hafi borið að hlíta breytingum sem kynnu að verða gerðar á starfi hans, sbr. 19. gr. stml. M hafi hins vegar neitað að ræða breytingar á starfi sínu og fullyrt að honum hefði verið sagt upp störfum. M hafi yfirgefið vinnustað sinn og lýst því yfir að hann myndi ekki vinna uppsagnarfrest. L átti tvo fundi með M vegna málsins M hefði yfirgefið fyrri fundinn og tæmt skrifstofu sína daginn eftir. Á síðari fundinum hafi M hafnað öllum viðræðum og krafist starfsloka. L sagði M upp störfum í kjölfarið. Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að af framburðum vitna væri ósannað að M hefði í raun verið gert að hætta störfum eða að honum hefði verið tjáð að honum yrði sagt upp fljótlega. Taldi dómurinn að hér yrði að líta til 19. gr. stml. en samkvæmt henni bar M að hlíta breytingum á starfskyldum sínum og verkefnum. Taldi dómurinn einnig að ósannað væri að breytingarnar væri fyrirsláttur af hálfu L. Jafnframt kom fram í niðurstöðu héraðsdóms að þótt M hefði í raun hætt störfum og ekki verið reiðubúinn til að starfa áfram í þjónustu L þá var honum sagt upp störfum með uppsagnarbréfi L. Í ljósi málavaxta var uppsögnin ekki fyrirvaralaus og hafði M sjálfur gefið tilefni til hennar. Taldi dómurinn ósannað að M hefði verið sagt upp störfum á fundi M með H og einnig að ósannað væri að M hefði verið sagt eða gefið í skyn að honum yrði sagt upp fljótlega. Þá taldi dómurinn að M hefði ekki verið sagt upp á seinni fundinum eða sagt að það yrði gert. Horfði dómurinn í þessu sambandi til samræmis í framburði J og D um að þau hafi viljað að M héldi áfram vinnu hjá L. Loks taldi dómurinn sannað að M hefði sjálfur lýst því yfir að hann væri ekki reiðubúinn að starfa áfram hjá L og hafi óskað eftir að hætta. Að þessu virtu taldi dómurinn að uppsögn M væri lögmæt og ekki hafi verið brotið gegn neinum reglum stjórnsýsluréttar, réttmætis- rannsóknar- eða meðalhófsreglum. Þá þóttu atvik bera það skýrt með sér að ekki var brotið gegn andmælarétti M. Var L því sýknað af körfum M.

21. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. desember 2014 í máli nr. E-758/2014: K gegn íslenska ríkinu.

STÖÐUVEITING.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsti laust til umsóknar embætti framkvæmdastjóra L, en samkvæmt 4. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1992 um L, skipar ráðherra framkvæmdastjóra L til fimm ára í senn, að fengnum tillögum sjóðsstjórnar. Í auglýsingunni kom fram að leitað væri eftir háskólamenntuðum einstaklingi með reynslu á sviði fjármála og rekstrar, leiðtoga- og samskiptahæfni, reynslu af stefnumótunarvinnu og þekkingu á stjórnsýslulögum. Þá var tekið fram að jafnframt væri æskilegt að einstaklingurinn byggi yfir góðri kunnáttu í íslensku, ensku og einu norðurlandamáli. Viðbótarmenntun á sviði stjórnunar og rekstrar var talin æskileg ásamt þekkingu á málefnum Lánasjóðsins. Ráðuneytinu bárust alls þrjátíu umsóknir, þar á meðal frá A. Einn umsækjenda dró umsókn sína síðar til baka. Umsóknir um embætti framkvæmdastjóra voru sendar stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna til umsagnar, ásamt ósk um tillögu sjóðsstjórnar samkvæmt 4. mgr., 4. gr. laga nr. 21/1992. Stjórn L skipaði undirnefnd, eða sérstaka valnefnd, úr hópi stjórnarmanna til að vinna að ráðningunni. Þá fékk stjórnin ráðningarfyrirtækið H sér til fulltingis við ráðningarferlið. Gerð var hæfnisflokkun á öllum umsóknum út frá auglýsingu um stöðuna og metið hvaða einstaklinga ætti að boða til viðtals. Af tuttugu og níu umsóknum voru níu umsækjendur boðaðir til viðtals. Útbúnar voru sérstakar spurningar sem lagðar voru fyrir þá umsækjendur sem boðaðir voru í viðtal og þeir látnir leysa verkefni þar sem spurt var nánar út í þekkingu þeirra á fjármálum og rekstri. Í framhaldi af þessum viðtölum var ákveðið að kalla fimm umsækjendur til seinna viðtals og voru þeir jafnframt látnir taka persónuleikapróf. Þessir umsækjendur voru A, B, C og tveir til viðbótar. Var það mat stjórnar L að þrír umsækjenda stæðu öðrum framar til að gegna starfi framkvæmdastjóra L. Þeir umsækjendur voru A, B og C. Miðað við viðtöl og þau verkefni sem fyrir voru lögð var það mat stjórnar L að A hafi staðið framar hinum tveimur. Mennta- og menningarmálaráðherra, auk starfsmanna mennta- og menningarmálaráðuneytisins, tóku viðtöl við framangreinda þrjá umsækjendur sem stjórn L mat hæfasta til að gegna embætti framkvæmdastjóra. Viðtöl við umsækjendurna fóru þannig fram í ráðuneytinu að fyrst talaði ráðherra einn við þá alla. Síðan komu að viðtölunum embættismenn og aðstoðarmenn. Voru það I ráðuneytisstjóri, sem þó var ekki viðstödd viðtal við A, D skrifstofustjóri upplýsinga- og fjármálasviðs, og aðstoðarmennirnir E og F. Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði C til að gegna embætti framkvæmdastjóra L frá 1. nóvember 2013 að telja. A fór fram á að fá í hendur öll gögn er vörðuðu umsókn um starfið og vinnslu umsóknarinnar. Með bréfi 1. nóvember 2013 var A veittur 14 daga frestur til að óska eftir rökstuðningi vegna þeirrar ákvörðunar ráðherra að skipa C í embætti framkvæmdastjóra L. A óskaði 14. nóvember 2013 eftir rökstuðningi ráðherra fyrir skipun í embættið. Þann 25. nóvember 2013 voru umbeðin gögn send A og 16. desember 2013 barst A rökstuðningur fyrir veitingu embættisins. A byggði á því að ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra um að skipa C í embætti framkvæmdastjóra L hefði verið ólögmæt vegna þess að ráðherra hefði ekki lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni, í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins, þegar hann skipaði nýjan framkvæmdastjóra. Ráðherra hefði ekki valið hæfasta umsækjandann eins og honum bar. A byggði ekki á því að ráðherra hefði verið bundinn við tillögu stjórnar L. A taldi hins vegar að líta bæri til þeirrar afdráttarlausu niðurstöðu sem fram kom í ítarlegri athugun sem stjórnin hafði gert á umsækjendum. Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að ráðherra hefði fengið í hendur ítarlegar tillögur stjórnar L, ásamt ýmsum fylgigögnum er sjóðstjórnin studdist við, við tillögugerðina. Í kjölfarið kynnti ráðherra sér allar umsóknir og fylgigögn og hélt síðan fundi með umsækjendum þar sem hann ásamt embættismönnum, átti hátt í einnar klukkustundar viðtal við hvern umsækjanda. Þar voru styrkleikar og veikleikar þeirra kannaðir. Taldi dómurinn því staðhæfingu ráðherra um að hann hefði fullnægt rannsóknarskyldu sinni við veitingu embættis framkvæmdastjóra lánasjóðsins sannaða. Jafnframt kom fram í niðurstöðu héraðsdóms að L gerði bæði tillögu um A og C í embættið. Sjóðurinn raðaði A skör framar miðað við þá ákvörðun sjóðsstjórnar að gefa reynslu á sviði fjármála og rekstrar aukið vægi umfram aðra þætti sem tilgreindir voru í auglýsingu um embættið. Ráðherra, veitingavaldhafinn ákvað svo sem honum var heimilt, að gefa reynslu á sviði stjórnsýslu og fjárlagagerðar aukið vægi, umfram aðra þætti. Mat ráðherra það svo að C stæði A framar hvað þau atriði varðaði. Þegar þessi atriði voru virt taldi héraðsdómur að A hefði ekki tekist að leiða í ljós að ómálefnaleg eða ólögmæt sjónarmið hafi ráðið því er ráðherra ákvað að skipa C í embætti framkvæmdastjórans og var Í sýknað af öllum kröfum A.

22. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. desember 2014 í máli nr. E-917/2014: H gegn Seðlabanka Íslands.

UPPSÖGN.

H hóf störf hjá SÍ í desember 2000 í Alþjóða- og markaðsdeild bankans. Forstöðumaður deildarinnar, Ó, annaðist ráðningu H og gerði H honum grein fyrir því að hann gegndi starfi framkvæmdastjóra S ehf., eignarhaldsfélags, væri stjórnarformaður félagsins, sem aðeins ætti fasteign og um væri að ræða eignaumsjón og útleigu. Stjórnarsetan og framkvæmdastjórastarfið væru ólaunuð og unnin utan vinnutíma í SÍ. Ó gaf H í kjölfar ráðningar munnlegt leyfi til þess að koma að starfsemi félagsins. Haustið 2006 sameinuðust peningamálasvið og alþjóðasvið SÍ. Á þeim tíma hafði H ásamt öðrum starfsmönnum sviðsins með höndum það verkefni að skrá gengi og vexti, fylgjast með mörkuðum og hafa símasamband við svokallaða viðskiptavaka. Á árinu 2007 seldi S ehf. fasteign sína og notaði félagið söluandvirðið til þess að fara út í fjárfestingar, meðal annars á verðbréfamarkaði, með gjaldeyri og framvirka samninga um kaup á hlutabréfum. H var þá framkvæmdastjóri, stjórnarformaður og eigandi 30% hlutafjár í félaginu. Í október 2008 starfaði H við að svara fyrirspurnum sem bárust símleiðis og var nokkrum mánuðum síðan færður í starf er varðaði lánamál ríkisins. Þar sinnti H daglegri fyrirgreiðslu í formi verðbréfalána til aðalmiðlara með ríkisskuldabréf. Í mars 2012 vakti S, aðallögfræðingur SÍ, athygli H á reglum SÍ nr. 9.2.14 um heimild starfsmanna SÍ til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja. Hafði þá aðallögfræðingurinn komist að aðkomu H að félaginu S ehf. en það gerðist við vinnslu S á fruminnherjalista bankans í kjölfar tilkynninga SÍ og staðfestingar og útfyllingar H er að því laut í desember 2011. Í tilkynningu H kom fram að S ehf. væri fjárhagslega tengd honum og að hann væri stjórnarformaður félagsins. H var síðan beðinn um að gera bankastjóra og regluverði grein fyrir félaginu og starfsemi þess. H sendi aðallögfræðingi bankans tölvupóst í mars 2012 og gerði grein fyrir samskiptum við Ó vegna málsins við ráðningu sína árið 2000. H kvað sér ekki hafa verið kunnugt um 2. gr. reglu 9.2.14 fyrr en þá. Sama dag óskaði aðallögfræðingur bankans eftir því að H gerði frekari grein fyrir félaginu. Þar kom fram að S ehf. hefði eftir sölu fasteignar félagsins farið út í fjárfestingar, m.a. á verðbréfamarkaði. Þá kom fram að félagið ætti í deilum við Slitastjórn Landsbankans og Verðbréfafyrirtækið Virðingu. Mál hafi verið höfðað gegn slitastjórninni og líklegt væri að bæði málin færu fyrir dómstóla. Í kjölfarið sótti H um leyfi til seðlabankastjóra til setu í stjórn félagsins þann í apríl 2012. Þeirri málaleitan hafnaði seðlabankastjóri með bréfi í apríl 2012 og lagði fyrir H að segja sig úr stjórn félagsins sem H síðan gerði daginn eftir. Dómar gengu í dómsmálum S ehf. og urðu dómar þessir tilefni þess að H var kallaður á fund seðlabankastjóra þann í júní 2013 og honum afhent bréf undirritað af seðlabankastjóra og regluverði bankans. Í bréfinu kemur fram að þann 10. júní 2013 hafi gengið dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu E-198/2012: S ehf. gegn Virðingu hf. og dómurinn birtur á vefsíðu héraðsdómsins þann 26. júní sl. Í dóminum komi fram upplýsingar um aðkomu H að verðbréfa-, gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum S ehf. á árunum 2007 og 2008, sem framkvæmdastjóri S ehf. og jafnframt starfsmaður SÍ á sama tíma. Vísað var síðan til 5. gr. reglna SÍ nr. 831/2002 um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna. Þess var óskað af hálfu SÍ að H tæki sér tímabundið leyfi frá störfum á launum frá 28. júní 2013 á meðan athugað væri hvort H hefði gerst brotlegur í starfi við lög og starfsreglur SÍ. Síðan fór í gang rannsókn af hálfu SÍ á málinu og var m.a. aflað gagna frá utanaðkomandi aðilum sem H hafði veitt heimild til að afla gagna frá. SÍ ritaði H bréf þann 8. október 2013 sem afhent var á fundi þann 10. október 2013 þar sem rökstutt var að ekki fengist betur séð en að H hefði brotið gróflega gegn 14. og 20. gr. stml., sem og gegn reglum SÍ nr. 9.2.14 frá 18. júní 2011 um heimild starfsmanna SÍ til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja, sem settar voru með stoð í 2. mgr. 25. gr., sbr. 28. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Í bréfinu var tekið fram að til álita kæmi af hálfu SÍ að segja H upp störfum með vísan til þeirrar heimildar sem leiðir af 43. gr. stml., ráðningarsamningi H við SÍ og almennum grundvallarreglum vinnuréttar og opinbers starfsmannaréttar um stjórnunarrétt yfirboðara. H var síðan gefið færi á að gæta andmælaréttar síns áður en ákvörðun yrði tekin um uppsögn H. Var þess óskað að H sendi SÍ sjónarmið sín innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins. Hið ótímabundna leyfi H stóð allt til þess að honum var sagt upp störfum með bréfi bankastjóra 23. október 2013. Hinn 16. október 2013 færði lögmaður H fram andmæli fyrir hans hönd. Með bréfi SÍ 23. október 2013 var rökstudd afstaða tekin til andmælanna og þeim vísað á bug. Í sama bréfi var tilkynnt sú ákvörðun SÍ að segja H upp störfum. Í bréfi SÍ kemur fram að það sé mat SÍ að H hafi brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum í starfi sínu hjá SÍ og það væri niðurstaða SÍ að segja H upp störfum á grundvelli 43. gr. stml. Tekið var fram að H ætti sex mánaða uppsagnarfrest og myndu laun verða gerð upp miðað við 1. nóvember 2013 auk áunnins en ótekins orlofs sem og annarra kjarasamningsbundinna greiðslna. Þá var tekið fram að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi H á uppsagnarfresti. Lögmaður H ritaði SÍ bréf dags. 19. desember 2013 þar sem því var haldið fram að uppsögnin hefði verið ólögmæt að formi og efni. Var krafist skaða- og miskabóta úr hendi SÍ. Með bréfi SÍ til lögmanns H 9. janúar 2014 var öllum kröfum H hafnað. Í kjölfarið höfðaði H mál á hendur SÍ. Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að óumdeilt væri að um starfs- og ráðningarkjör H skyldi fara að stml. og í ráðningarsamningi H væri tekið fram að um launa- og starfskjör svo og réttindi og skyldur fari eftir kjarasamningi og ákvæðum laga og reglna fyrir starfsmenn SÍ. H byggði á því að hann hafi sem starfsmaður SÍ engan aðgang haft að markaðsupplýsingum umfram almenning, hvað þá að hann hafi búið yfir innherjaupplýsingum. Þá hafi hann, þegar hann hóf störf í Alþjóða- og markaðsdeild stefnda í október 2000, gert forstöðumanni deildarinnar grein fyrir því að hann gegndi starfi framkvæmdastjóra S ehf. og væri stjórnarformaður. Hann hafi gert Ó grein fyrir starfsemi S ehf. sem væri eignaumsjón og útleiga fasteignar í eigu félagsins. Héraðsdómur taldi sannað með hliðsjón af vitnaskýrslum starfsmanna SÍ og annarra gagna, að H hafi haft aðgang að margvíslegum trúnaðargögnum og upplýsingum í starfi sínu hjá SÍ og að sá aðgangur hafi engan veginn verið samrýmanlegur aðkomu hans að rekstri S ehf. Í skýrslum vitna er ítarlega gerð grein fyrir störfum þeim sem H sinnti og hvaða trúnaðarupplýsingar voru honum aðgengilegar. Með hliðsjón af þessu taldi héraðsdómur að þegar grundvallarbreyting varð á starfsemi S ehf. við sölu fasteignarfélagsins á árinu 2007, hafi H gerst brotlegur í starfi sínu hjá SÍ með því að hafa ekki sótt um leyfi til þess að koma að þeirri starfsemi félagsins sem það hafði þá með höndum. Telja verður að starfsemi þessi hafi verið algerlega ósamþýðanleg störfum SÍ. Samkvæmt vitnaskýrslu Ó leit héraðsdómur svo á að Ó hefði heimilað aðkomu H að S ehf. á þeim forsendum að félagið hefði aðeins með höndum eignaumsjón og útleigu. H bar því á árinu 2007, þegar grundvallarbreytingar urðu á starfsemi S ehf., sbr. 20. gr. stml. og reglur nr. 9.2.14 frá 18. júní 2001 um heimild starfsmanna SÍ til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja, að leita eftir heimild SÍ til að koma að þessari starfsemi. Slíkri beiðni hefði umsvifalaust verið hafnað af hálfu SÍ þar sem í reglum nr. 9.2.14 er í 1. lið mælt fyrir um að bankastjórn megi ekki í neinum tilvikum veita starfsmönnum leyfi til að taka sæti í stjórn eða varastjórn fyrirtækja eða stofnana, sem starfa fyrst og fremst á sviði fjármálastarfsemi, verðbréfaviðskipta, verðbréfasjóða eða eignarleigustarfsemi eða fyrirtækja sem hafa að markmiði starfsemi sem jafna má til slíkrar fjármálastarfsemi, nema slíkt sé boðið í lögum eða reglugerð settri samkvæmt þeim. Það var síðan ekki fyrr en þann 2. apríl 2012 að H óskaði eftir slíkri heimild að undangenginni ábendingu til H þar að lútandi frá aðallögfræðingi SÍ til H 21. mars 2012. Héraðsdómur leit því svo á að aðkoma H að rekstri S ehf. var honum óheimil, sbr. 20. gr. stml. þar sem mælt er fyrir um að ríkisstarfsmanni sé óheimilt að hafa með höndum aukastörf sem eru ósamrýmanleg störfum ríkisstarfsmannsins. Taldi héraðsdómur að H hafi með aðkomu að viðskiptum S ehf. brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum sínum í starfi sínu hjá SÍ og þetta fæli í sér alvarlegt brot gegn 14. gr. stml. en þar er mælt fyrir um að ríkisstarfsmaður skuli forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu sem utan sem varpað geti rýrð á það starf og starfsgrein sem hann vinnur við. Með hliðsjón af atvikum öllum og grófum trúnaðarbrotum H, 43. gr. laga nr. 70/1996 og ráðningarsamningi stefnanda frá 1. desember 2000, féllst héraðsdómur á SÍ hafi verið heimilt að segja H upp án þess að honum væri veitt áminning. H byggði einnig á því að uppsögn hans hafi verið ólögmæt þar sem ekki hafi verið gætt andmælaréttar, andmælabréf frá SÍ hafi eingöngu verið sett fram til að „láta virðast“ sem gætt hafi verið andmælaréttar. Þá hafi ekki verið tiltekið með skýrum hætti í hverju hin meintu trúnaðarbrot hafi falist. Héraðsdómur féllst ekki á þetta með þeim orðum að í bréfi SÍ, dags. 8. október 2013, hafi H verið tilkynnt að til athugunar væri að segja honum upp störfum og honum gefinn kostur á að koma að andmælum. Í bréfi SÍ er með skýrum hætti gerð grein fyrir því í hverju hin ætluðu trúnaðarbrot felist og með bréfi, dags. 16. október 2013, til SÍ kom lögmaður H andmælum hans á framfæri. H byggði einnig á því að það hafi ekki verið í samræmi við lög að taka mál hans til skoðunar að nýju 14 mánuðum eftir að honum var synjað um heimild til setu í stjórn S ehf. þann 16. apríl 2013. Um þetta segir í niðurstöðu héraðsdómsins að fram komi í vitnaskýrslu S, aðallögfræðings SÍ, að þá hafi verið litið svo á að málinu væri lokið þar sem H hafði sagt sig úr stjórn S ehf., félagið búið að tapa flestum eignum sínum og ekki hafi þá verið tilefni til að hefja frekari rannsókn. H hafi aftur á móti ekki verið tilkynnt að málinu væri lokið. Allt önnur staða hafi hins vegar verið uppi þegar fyrrgreindur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur lá fyrir í júní 2013. Með hliðsjón af þessu taldi héraðsdómur að ekki yrði fallist á að óheimilt hafi verið að taka mál H að nýju til skoðunar á grundvelli hinna nýju upplýsinga um þau atriði er fram komu í fyrrgreindum héraðsdómi. Þá mátti H, með hliðsjón af atvikum öllum, ekki gera ráð fyrir því að hann héldi áfram starfi sínu hjá SÍ. Jafnframt hafnaði héraðsdómur þeirri málsástæðu H að mál hans hafi ekki verið rannsakað nægilega með tilliti til 10. gr. stjórnsýslulaga. Um þetta sagði í niðurstöðu héraðsdóms að ítarleg rannsókn hafi farið fram á máli H eins og fram kom í framlögðum gögnum áður en ákvörðun var tekin um uppsögn H. Niðurstaða héraðsdóms var því að sýkna SÍ af kröfum H.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira