Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dómar uppkveðnir árið 2015

| Hæstiréttur - dómar | Héraðsdómstólar - dómar | Félagsdómur |

Á árinu 2015 voru kveðnir upp 30 dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess, 10 hæstaréttardómar, 5 héraðsdómar og 15 félagsdómar.

Hér að neðan er að finna upptalningu á nefndum dómum ásamt atriðisorðum og reifunum:

1. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. janúar 2015 í máli nr. E-4328/2013 : G gegn Isavia ohf.

AÐILASKIPTALÖG OG STARFSMANNALÖG. UPPSÖGN VEGNA SAMSTARFSERFIÐLEIKA.

 Með bréfi Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og Flugstoða ohf., dagsettu 29. september 2008, var G tilkynnt um aðilaskipti til komin vegna skipulagsbreytinga á Keflavíkurflugvelli sem tækju gildi 1. janúar 2009. Vísað var til laga nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. Í bréfinu segir m.a. að Flugstoðir ohf. muni taka yfir þá starfsemi sem G hafði starfað við, en gert sé ráð fyrir að hann sinni því áfram hjá Flugstoðum ohf. frá þeim degi. Samhliða því að staða hans verði lögð niður hjá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli muni Flugstoðir ohf. taka ráðningarsamning hans yfir, í samræmi við ákvæði II til bráðabirgða með lögum nr. 76/2008 og almennar reglur um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sbr. lög nr. 72/2002. Ítrekað er að réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda færist yfir til Flugstoða ohf. og verði ekki breyting á launum eða starfskjörum hans samkvæmt ráðningarsamningi við aðilaskiptin. Kjósi stefnandi að taka ekki við umræddu starfi um mánaðamótin verði réttur hans til greiðslu biðlauna virkur. Með bréfi, dagsettu 22. desember 2008, sem undirritað var af sömu aðilum auk Keflavíkurflugvallar ohf. var G tilkynnt um breytingu á áður tilkynntum aðilaskiptum sem fólst í því að í stað Flugstoða ohf. færi Keflavíkurflugvöllur frá 1. janúar 2009 með þá flugleiðsöguþjónustu er var á hendi Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli. Í bréfinu segir að réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi við núverandi vinnuveitanda færðust yfir til Keflavíkurflugvallar ohf. sem tæki yfir ráðningarsamning G í stað Flugstoða ohf. Breytingin hefði engin áhrif á laun G eða starfskjör, þ.m.t. orlof og áunninn veikindarétt sem færðust yfir til Keflavíkurflugvallar ohf. Í samræmi við lög 153/2009 um samruna opinberu hlutafélagana Flugstoða og Keflavíkurflugvallar sameinuðust þessi félög þann 1. maí 2010 undir nafni og kennitölu Isavia ohf. Í bréfi til G dagsettu 10. maí 2010 segir að við þessa breytingu taki Isavia ohf. yfir öll réttindi og allar skuldbindingar yfirteknu félaganna. Þann 12. október 2010 var G afhent uppsagnarbréf á fundi með starfsmannastjóra I og trúnaðarmanni félags íslenskra flugumferðarstjóra með samningsbundnum þriggja mánaða fyrirvara. Ákveðið hafi verið að leysa hann undan vinnuskyldu á uppsagnarfresti og lyki störfum þá þegar. Ástæða uppsagnarinnar kom ekki fram í bréfinu en á fundinum var honum tjáð að hún væri langvarandi samstarfsörðugleikar. G byggði málatilbúnað sinn á því að uppsögn hans hefði verið ólögmæt enda hefði hann notið þeirrar verndar við uppsögn sem kveðið væri á um í 21. gr. og 44. gr. stml., með öðrum orðum að undanfarandi áminning hefði verið skilyrði fyrir uppsögn hans. I hafi í tilviki G borið að virða umræddar reglur enda skýrt kveðið á um í ráðningarsamningi hans að um réttindi og skyldur fari eftir lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ríkisins. Þá verði ekki annað séð af yfirlýsingum frá I sjálfum en að réttindi og skyldur hafi haldist óbreytt við aðilaskiptin. Vísaði G í þessu sambandi m.a. til ákvæða laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, einkum 1. mgr. 3. gr. laganna, sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 76/2008 og 5. gr. laga nr. 153/2009. Allan óskýrleika um réttarstöðu G hvað þetta varðaði bæri að túlka honum í hag með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 258/2011. Í niðurstöðu dómsins sagði um þetta að hvað sem liði raunverulegri ástæðu fyrir samstarfserfiðleikum taldi dómurinn að I hefði borið að veita G áminningu, og gefa honum tækifæri til þess að bæta ráð sitt, áður en honum var sagt upp störfum vegna þeirra ástæðna er raktar voru í dómnum, eins og kveðið er á um í 1. mgr. 44. gr. stml. Breytti hér engu að I hafði gert kjarasamninga við flugumferðarstjóra 27. júní 2008 og 23. apríl 2010 enda var í þeim hvorki að finna ákvæði um réttarvernd starfsmanna við uppsögn né skírskotun til réttarstöðu starfsmanna ríkisins. Ákvæði kjarasamnings sem I vísaði sérstaklega til í þessu sambandi fjallar eingöngu um rétt félagsmanna á viðtali með vinnuveitanda í því skyni að fá skýringar á uppsögn og varðar ákveðin réttindi starfsmanni til handa eftir að uppsögn er um garð gengin. Þá þótti tilvísun I til 3. mgr. 2. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum ekki eiga við hér en ákvæðið fjallar um gildi eldri kjarasamninga við aðilaskiptin. Var það niðurstaða dómsins að uppsögn G hefði verið ólögmæt og bar I þar af leiðandi að greiða G skaðabætur. Voru G einnig dæmdar miskabætur þar sem honum var ekki gefinn kostur á að andmæla þeim ávirðingum sem á hann voru bornar áður en til uppsagnar kom.

 

2. Dómur Hæstaréttar frá 15. janúar 2015 í máli nr. 364/2014 : Landspítali gegn S.

STÖÐUVEITING. JAFNRÉTTI.

S kærði ákvörðun L um ráðningu í starf yfirlæknis æðaskurðlækninga til kærunefndar jafnréttismála. Í úrskurði í máli nr. 4/2013 komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að S hefði verið hæfari til að gegna starfinu en Þ. Varð ráðningin þar af leiðandi ekki byggð á þeim sjónarmiðum sem koma fram í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008. Taldi kærunefnd jafnréttismála L hafa, með ráðningu Þ, brotið gegn 1. mgr. 26. laganna. L höfðaði mál á hendur S og krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður kærunefndar jafnréttismála. S var sýknaður af kröfu L með skírskotun til þess að kærunefnd jafnréttismála hefði beitt lögmætum aðferðum í úrlausn sinni og ekki farið út fyrir valdsvið sitt eða verksvið.

 

3. Dómur Hæstaréttar frá 15. janúar 2015 í máli nr. 377/2014 : H gegn íslenska ríkinu.

UPPSÖGN Í HAGRÆÐINGARSKYNI.

H var sagt upp starfi sem kennari hjá Iðnskólanum í Hafnarfirði. Var ástæða uppsagnar sögð vera hagræðing í rekstri skólans vegna verulegs niðurskurðar fjárheimilda. Í kjölfarið höfðaði H mál til heimtu bóta vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar. Talið var að í settum lögum væri ekki að finna reglur um hvað skyldi ráða vali forstöðumanns á starfsmanni sem segja skyldi upp í hagræðingarskyni við slíkar aðstæður. Ákvörðun þar að lútandi yrði þó að vera í samræmi við lög og byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Fyrir lægi að H væri með háskólapróf í félagsfræði, en einungis væri kenndur einn áfangi í því fagi við skólann. Þá gátu aðrir kennarar bóknámsdeildar skólans kennt þá grein sem H hefði háskólapróf í samhliða því að kenna önnur fög og sinna öðrum störfum í þágu skólans. Að þessu virtu hefði því mati skólameistarans, að þekking og starfsreynsla annarra kennara nýttist betur í starfsemi skólans, ekki verið hnekkt. Var Í því sýknað af kröfum H.

 

4. Dómur Hæstaréttar frá 5. febrúar 2015 í máli nr. 387/2014 : H gegn íslenska ríkinu.

RÁÐNINGARSAMNINGUR. UMSÓKN UM STARF.

H hélt því fram að í símtali á milli hans og læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefði komist á skuldbindandi samningur um ráðningu H í starf afleysingarlæknis við stofnunina og að Í hefði bakað sér bótaábyrgð með því að fallið hefði verið frá þeim samningi. Talið var ósannað að í umræddu símtali hefði falist meira en jákvæð afstaða til umsóknar H um starf afleysingarlæknis og því væri ekki unnt að líta svo á að í símtalinu hefði verið tekin ákvörðun um ráðningu hans. Þá var ekki talið að H hefði að öðru leyti átt lögvarða kröfu á því að verða ráðinn í starfið. Var Í því sýknað af kröfu hans.

 

5. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. febrúar 2015 í máli nr. E-4291/2013 : S gegn Isavia ohf. og ríkissjóði.

FRÍTÖKURÉTTUR. STARFSMAÐUR VARNARLIÐSINS.

S var lengi slökkviliðsmaður í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli. Lengst af var S starfsmaður varnarliðsins. Frá 1. október 2006 til ársloka 2008 var S starfsmaður Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, sem var opinber stofnun. Frá 1. janúar 2009 var S starfsmaður Keflavíkurflugvallar ohf., sem var opinbert hlutafélag stofnað samkvæmt sérlögum. S varð síðan starfsmaður Isavia ohf. þegar Keflavíkurflugvöllur ohf. og Flugstoðir ohf. sameinuðust. S hætti störfum 1. apríl 2013. Um kjaramál íslenskra starfsmanna varnarliðsins gilti sú tilhögun að kjör voru ákveðin af kaupskrárnefnd, sem starfaði samkvæmt 6. gr. laga nr. 82/2000, áður 4. tl. 6. gr. laga nr. 110/1951. Í málinu var ágreiningur um hvort S hefði áunnið sér frítökurétt í starfi sínu eftir gerð kjarasamninga á árinu 1997 fram til þess að varnarliðið fór frá landinu 2006, en þá var vaktafyrirkomulagi slökkviliðsmanna breytt. Um þetta sagði í niðurstöðu dómsins að með vaktaskipulagi hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli var vikið í meginatriðum frá þeim reglum sem ákveðnar voru í kjarasamningi slökkviliðsmanna í Reykjavík. Þannig var hver vakt 24 stundir, sem var óheimilt samkvæmt kjarasamningnum. Ákvæðið um frítökurétt verður að skilja svo að það hafi átt að taka til þeirra undantekningartilvika sem upp gætu komið og krefðust þess að einstakir slökkviliðsmenn ynnu lengur en almennt var heimilt. Á Keflavíkurflugvelli var hver vakt ákveðin 24 stundir og verður að skilja málflutning aðila svo að aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við þá skipan af hálfu slökkviliðsmanna eða stéttarfélags þeirra. Var þessi skipan hluti ráðningarkjara. Þegar ákveðið hafði verið með þessum hætti að regla um hámarkslengd vakta gilti ekki, geta starfsmenn ekki byggt kröfu um sérstaka aukagreiðslu á reglu sem gildir um allt annað vaktafyrirkomulag. S átti því ekki rétt á sérstakri frítöku vegna vaktaskipulagsins og var því kröfum hans hafnað.

 

6. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. mars 2015 í máli nr. E-944/2014 : V gegn íslenska ríkinu.

VINNULAUNAMÁL. KJARARÁÐ. FRÁVÍSUN FRÁ HÉRAÐSDÓMI.

V höfðaði mál gegn Í og krafðist þess að nánar tilteknar ákvarðanir kjararáðs yrðu dæmdar ógildar þar sem þær hefðu verið haldnar alvarlegum ágöllum bæði að formi og efni. Samhliða kröfu um ógildingu krafðist V þess í aðal-, vara- og þrautavarakröfum sínum að Í yrði gert að greiða sér tilteknar fjárhæðir, sem hann taldi fela í sér leiðréttingu launa hans fyrir nánar tilgreint tímabil, en í þrautaþrautavarakröfu sinni að viðurkennt yrði að kjararáði „hafi borið að afturkalla launalækkun“ hans miðað við tilgreint tímamark. Í úrskurði héraðsdóms var málinu vísað frá dómi þar sem V hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá bæði leyst úr kröfu um ógildingu ákvarðana kjararáðs annars vegar og hins vegar fjárkröfum sínum en viðurkenningarkröfu í tilviki þrautaþrautavarakröfu. Sjá dóm Hæstaréttar í máli nr. 284/2015 í lið nr. 17 hér á eftir.

 

7. Dómur Félagsdóms frá 6. apríl 2015 í máli nr. 7/2015 : Félag geislafræðinga gegn íslenska ríkinu.

SKRÁ YFIR STÖRF SEM ERU UNDANÞEGIN VERKFALLSHEIMILD.

Ágreiningur laut að tilgreindum störfum á skrá Í yfir þau störf sem undanþegin eru verkfallsheimild samkvæmt 5-8. tl. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986, sbr. auglýsingu nr. 70 frá 16. janúar 2015, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 29. janúar 2015, sbr. og fyrri skrá nr. 101 frá 17. janúar 2014. Varðaði ágreiningurinn þrettán störf geislafræðinga, sem tilgreind eru í skránni, nánar tiltekið tvö störf hjá geislaeðlisfræðideild LSH, eitt hjá geislameðferðardeild sjúkrahússins og tíu störf hjá röntgendeild sjúkrahússins, þ.e. fjögur á dagvakt, fjögur á kvöldvakt og tvö á næturvakt. Niðurstaða dómsins var sú að af skrá yfir þau störf hjá stofnunum ríkisins sem eru undanþegin verkfallsheimild sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 70, þann 29. janúar 2015, bar að fella eitt starf geislafræðings á geislaeðlisfræðideild Landspítala.

 

8. Dómur Félagsdóms frá 6. apríl 2015 í máli nr. 9/2015 : Félag íslenskra náttúrufræðinga gegn íslenska ríkinu.

SKRÁ YFIR STÖRF SEM ERU UNDANÞEGIN VERKFALLSHEIMILD.

 Ágreiningur laut að tilgreindum störfum á skrá Í yfir þau störf sem undanþegin eru verkfallsheimild samkvæmt 5-8. tl. 1. mgr. 19. gr., sbr. 2. mgr. sömu greinar, laga nr. 94/1986, sbr. auglýsingu nr. 70 frá 16. janúar 2015, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 29. janúar 2015, sbr. og fyrri skrá nr. 101 frá 17. janúar 2014. Við upphaf munnlegs málflutnings við aðalmeðferð málsins féll F frá kröfu sinni um að fellt yrði út af framangreindri skrá starf náttúrufræðings í dagvinnu á rannsóknarsviði/frumulíffræði hjá Landspítala sem er annað starfið sem tilgreint er í kröfugerð F. Þá kom fram í greinargerð Í að það fellst á dómkröfur F að því er varðar starf náttúrufræðings í dagvinnu á lyflækningasviði/rannsóknarstofu í taugalífeðlisfræði á Landspítala sem er fyrsta starfið sem tilgreint er í kröfugerð F í stefnu. Varðar ágreiningur aðila því eitt starf náttúrufræðings á bakvakt á rannsóknarsviði/ónæmisfræðideild Landspítala, eitt starf deildarstjóra í dagvinnu á aðgerðasviði/Blóðbankanum í þjónusturannsóknum og blóðhlutavinnslu, eitt starf snjóflóðasérfræðings á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands, eitt starf fagstjóra á vatnsvárvakt Veðurstofu Íslands, eitt starf jarðvársérfræðings á jarðvárvakt Veðurstofu Íslands og eitt starf líffræðings við bóluefnaframleiðslu/ætagerð á tilraunastöð Háskólans á Keldum. Niðurstaða dómsins var að fallist var á kröfu F að því er varðar störf náttúrufræðings í dagvinnu á lyflækningasviði/rannsóknarstofu í taugalífeðlisfræði hjá Landspítala, svo sem Í hafði fallist á, deildarstjóra í dagvinnu við þjónusturannsóknir og blóðhlutavinnslu á aðgerðasviði Blóðbankans, snjóflóðasérfræðings á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands, fagstjóra á vatnsvárvakt Veðurstofu Íslands og líffræðings á tilraunastöð Háskólans á Keldum. Voru þau störf því felld út af skrá yfir þau störf sem undanþegin eru verkfallsheimild sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 70/2015 hinn 29. janúar 2015. Hins vegar var kröfu F hafnað að því er varðar störf náttúrufræðings á rannsóknarsviði/ónæmisfræðideild Landspítala og jarðvársérfræðings á jarðvárvakt Veðurstofu Íslands. Þá lá fyrir að F hafði fallið frá kröfu um að fellt yrði út af umræddri skrá starf náttúrufræðings í dagvinnu á rannsóknarsviði/frumulíffræði Landspítala.

 

9. Dómur Félagsdóms frá 6. apríl 2015 í máli nr. 10/2015 : Íslenska ríkið gegn Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins.

ATKVÆÐAGREIÐSLA. BOÐUN VERKFALLS. TÍMABUNDIÐ VERKFALL.

 Dagana 16.–19. mars 2015 var efnt til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna FHSS um boðun verkfalls. Atkvæðagreiðslan var tvískipt. Annars vegar fór fram atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun meðal félagsmanna FHSS sem starfa hjá Fjársýslu ríkisins og var tekið fram á atkvæðaseðli að verkfallið skyldi vera tímabundið og hefjast 20. apríl 2015 kl. 00:00 og standa til kl. 24:00 hinn 8. maí 2015. Hins vegar fór fram atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna FHSS sem starfa hjá ríki utan ráðuneyta um boðun tímabundins verkfalls hinn 9. apríl 2015 sem skyldi standa yfir frá kl. 12:00-16:00. FHSS tilkynnti fjármála- og efnahagsráðuneytinu um fyrirhuguð verkföll með bréfum, dagsettum 20. mars sl. Í tilkynningu FHSS, sem varðar félagsmenn FHSS er starfa hjá Fjársýslunni, kom fram að 35 félagsmenn hefðu verið á kjörskrá, 91,4% þeirra hefðu tekið þátt og 65,6% samþykkt boðun um verkfall. Í tilkynningu FHSS, sem varðar félagsmenn FHSS er starfa hjá ríki utan ráðuneyta, kom fram að 62 félagsmenn hefðu verið á kjörskrá, 90,3% þeirra hefðu tekið þátt og 73,2% samþykkt boðun um verkfall. Í tilkynningunum er því lýst yfir að með þessu sé fullnægt kröfum 15. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Með bréfum til FHSS, dagsettum 25. mars 2015, lýsti Í því yfir að það teldi boðun og atkvæðagreiðslu verkfallanna ekki samræmast ákvæði 15. gr. laga nr. 94/1986 og skoraði Í því á FHSS að afturkalla verkfallsboðanirnar. Ella myndi Í grípa til þeirra lögmæltu úrræða sem því væru tæk. Í bréfi til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dagsettu 26. mars 2015, gerði P, formaður Bandalags háskólamanna, grein fyrir umræddum atkvæðagreiðslum og því áliti félagsins að þær hefðu verið í samræmi við lög. Í byggði kröfu sína um að viðurkennt yrði að framangreind verkföll væru ólögmæt á því að fyrir lyggji að ekki hafi allir félagsmenn FHSS tekið þátt í framangreindum atkvæðagreiðslum um verkfallsboðun. Hafi félagsmenn FHSS sem starfi hjá ríkinu verið 473 um síðustu áramót en samkvæmt umræddum verkfallboðunum FHSS hafi annars vegar 62 og hins vegar 35 félagsmönnum verið gefinn kostur á að greiða atkvæði um verkfallsboðanirnar. Þar með hafi ekki verið uppfyllt það skilyrði fyrri málsliðar 15. gr. laga nr. 94/1986 að ákvörðun um verkfallsboðun hafi verið tekin í almennri leynilegri allsherjaratkvæðagreiðslu í hverju stéttarfélagi sem er samningsaðili. Jafnframt bendir Í á að í síðari málslið sömu lagagreinar komi skýrlega fram að svo verkfallsboðun teljist lögmæt, þurfi að minnsta kosti helmingur þeirra félagsmanna, sem starfa hjá þeim sem verkfallið beinist gegn, að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Beri að túlka orðalagið „þeim sem verkfallið beinist gegn“ í 15. gr. til samræmis við skýrt gildissvið laganna og jafnframt með hliðsjón af 3. gr. þeirra þar sem skýrt komi fram að það sé fjármálaráðherra sem fari með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga. Vísi tilvitnað orðalag ákvæðisins þannig til Í sjálfs en ekki til einstakra vinnustaða. Þar sem atkvæðagreiðsla F hafi beinst að Fjársýslu ríkisins og Í, hafi hún ekki verið í samræmi við ákvæði síðari málsliðs 15. gr. laganna. Í niðurstöðu dómsins sagði m.a. að þegar litið væri og orðalags 15. gr. laga nr. 94/1986 verði að leggja til grundvallar að þeim einum beri að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem starfa hjá vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem verkfall beinist gegn og viðkomandi kjarasamningur tekur til. Samkvæmt framansögðu telst viðkomandi ríkisstofnun vera vinnuveitandi starfsmannanna í þessum skilningi en ekki ríkið sjálft. Ágreiningslaust virðist að áðurgreindar niðurstöður atkvæðagreiðslna þeirra, sem mál þetta lýtur að, sýni að meira en helmingur félagsmanna í FHSS, sem starfa annars vegar hjá Fjársýslu ríkisins og hins vegar hjá ríki utan ráðuneyta, hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunum og meiri hluti þeirra hafi samþykkt framangreind boðuð verkföll á hvorum vinnustað fyrir sig. Töldust framangreind verkföll FHSS því lögmæt.

 

10. Dómur Félagsdóms frá 6. apríl 2015 í máli nr. 11/2015 : Íslenska ríkið gegn Félagi íslenskra náttúrufræðinga.

BOÐUN VERKFALLS. ATKVÆÐAGREIÐSLA. ÓTÍMABUNDIÐ VERKFALL.

 Dagana 16.–19. mars sl. var efnt til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna FÍN um boðun verkfalls. Atkvæðagreiðslan var þrískipt. Í fyrsta lagi fór fram atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna FÍN sem starfa á Landspítala og var tekið fram á atkvæðaseðli að það skyldi vera ótímabundið og hefjast hinn 7. apríl 2015 kl. 00:00. Þá fór einnig fram atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna FÍN, sem starfa hjá ríkinu, um boðun tímabundins verkfalls hinn 9. apríl 2015 sem skyldi standa yfir frá kl. 12:00-16:00. Loks fór fram atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna FÍN, sem starfa hjá Matvælastofnun, um boðun ótímabundins verkfalls frá 20. apríl 2015 kl. 00:00. FÍN tilkynnti fjármála- og efnahagsráðuneytinu um fyrirhuguð verkföll með bréfum, dagsettum 20. mars sl. Í tilkynningu FÍN, sem varðar félagsmenn hans er starfa hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi kom fram að 75 félagsmenn hefðu verið á kjörskrá, 82,7% þeirra hefðu greitt atkvæði og 82,3% samþykkt boðun um verkfall. Í tilkynningu FÍN, sem varðar félagsmenn hans er starfa hjá Matvælastofnun, kom fram að 12 félagsmenn hefðu verið á kjörskrá, 100% þeirra hefðu tekið þátt og 100% samþykkt boðun um verkfall. Í tilkynningu FÍN, sem varðar félagsmenn hans er starfa hjá ríkinu kom fram að 591 félagsmaður hefði verið á kjörskrá, 77,3% þeirra hefðu greitt atkvæði og 82,7% samþykkt boðun um verkfall. Í tilkynningunum er því lýst yfir að með þessu sé fullnægt kröfum 15. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Með bréfum til FÍN, dagsettum 25. mars 2015, lýsti Í því yfir að hann teldi boðun og atkvæðagreiðslu verkfallanna ekki samræmast ákvæði 15. gr. laga nr. 94/1986 og skoraði stefnandi því á stefnda að afturkalla verkfallsboðanirnar. Ella myndi Í grípa til þeirra lögmæltu úrræða sem því væru tæk. Í bréfi til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dagsettu 26. mars 2015, gerði P, formaður Bandalags háskólamanna, grein fyrir umræddum atkvæðagreiðslum og því áliti félagsins að þær hefðu verið í samræmi við lög. Í niðurstöðu dómsins sagði m.a. að þegar litið væri til orðalags 15. gr. laga nr. 94/1986 verði að leggja til grundvallar að þeim einum beri að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem starfa hjá vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem verkfall beinist gegn og viðkomandi kjarasamningur tekur til. Samkvæmt framansögðu telst viðkomandi ríkisstofnun vera vinnuveitandi starfsmannanna í þessum skilningi en ekki ríkið sjálft. Ágreiningslaust virðist að áðurgreindar niðurstöður atkvæðagreiðslna þeirra, sem mál þetta lýtur að, sýni að meira en helmingur félagsmanna í FÍN, sem starfa hjá í fyrsta lagi Landspítala háskólasjúkrahúsi, í öðru lagi Matvælastofnun, og í þriðja lagi ríkinu, hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunum og meiri hluti þeirra samþykkt framangreind verkföll á hverjum vinnustað fyrir sig. Töldust framangreind verkföll FÍN því lögmæt.

 

11. Dómur Félagsdóms frá 6. apríl 2015 í máli nr. 12/2015 : Íslenska ríkið gegn Stéttarfélagi háskólamanna á matvæla- og næringarsviði.

ATKVÆÐAGREIÐSLA. BOÐUN VERKFALLS. ÓTÍMABUNDIÐ VERKFALL.

 Dagana 16.–19. mars sl. var efnt til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna S um boðun verkfalls. Atkvæðagreiðsla fór fram meðal félagsmanna S sem starfa hjá Matvælastofnun og var tekið fram á atkvæðaseðli að það skyldi vera ótímabundið og hefjast 20. apríl 2015 kl. 00:00. Í greinargerð Í er jafnframt gerð grein fyrir því að einnig hefði verið efnt til atkvæðagreiðslu um tímabundið verkfall 9. apríl 2015. S tilkynnti fjármála- og efnahagsráðuneytinu um fyrirhugað verkfall með bréfi, dagsettu 20. mars sl. Í tilkynningu S sem varðar félagsmenn hans er starfa hjá Matvælastofnun kom fram að 13 félagsmenn hefðu verið á kjörskrá, 92,3% þeirra hefðu tekið þátt og 91,7% samþykkt boðun um verkfall. Jafnframt var því lýst yfir að með þessu hafi verið fullnægt kröfum 15. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Með bréfi til S, dagsettu 25. mars 2015, lýsti Í því yfir að hann teldi boðun og atkvæðagreiðslu verkfallsins ekki samræmast ákvæði 15. gr. laga nr. 94/1986 og skoraði Í því á S að afturkalla verkfallsboðunina. Ella myndi Í grípa til þeirra lögmæltu úrræða sem því væru tæk. Í bréfi til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dagsettu 26. mars 2015, gerði P, formaður Bandalags háskólamanna, grein fyrir atkvæðagreiðslunni og því áliti félagsins að hún hefði verið í samræmi við lög. Í niðurstöðu dómsins sagði m.a. að þegar litið væri til orðalags 15. gr. laga nr. 94/1986 verði að leggja til grundvallar að þeim einum beri að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem starfa hjá vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem verkfall beinist gegn og viðkomandi kjarasamningur tekur til. Samkvæmt framansögðu telst viðkomandi ríkisstofnun vera vinnuveitandi starfsmannanna í þessum skilningi en ekki ríkið sjálft. Ágreiningslaust virðist að áðurgreindar niðurstöður atkvæðagreiðslu þeirrar, sem mál þetta lýtur að, sýni að meira en helmingur félagsmanna í S, sem starfa hjá Matvælastofnun, hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og meiri hluti þeirra hafi samþykkt framangreint boðað verkfall. Taldist framangreint verkfall S því lögmætt.

 

12. Dómur Félagsdóms frá 6. apríl 2015 í máli nr. 13/2015 : Íslenska ríkið gegn Stéttarfélagi lögfræðinga.

ATKVÆÐAGREIÐSLA. BOÐUN VERKFALLS. ÓTÍMABUNDIÐ VERKFALL.

Dagana 16.–19. mars sl. var efnt til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna SL um boðun verkfalls. Atkvæðagreiðslan var tvískipt. Annars vegar fór fram atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun meðal félagsmanna SL sem starfa hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og var tekið fram á atkvæðaseðli að hún skyldi vera ótímabundin og hefjast 7. apríl 2015 kl. 00:00. Hins vegar fór fram atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna SL sem starfa hjá ríki um boðun tímabundins verkfalls hinn 9. apríl 2015 sem skyldi standa yfir frá kl. 12:00-16:00. SL tilkynnti fjármála- og efnahagsráðuneytinu um fyrirhuguð verkföll með bréfum, dagsettum 20. mars sl. Í tilkynningu SL, sem varðar félagsmenn SL er starfa hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, kom fram að 27 félagsmenn hefðu verið á kjörskrá, 27 þeirra eða 96,3% hefðu tekið þátt í atkvæðagreiðslunni, 26 eða 88,5% hefðu samþykkt boðun um verkfall, enginn hefði sagt nei og ógildir seðlar hefðu verið 3 eða 11,5%. Í tilkynningu SL, sem varðar félagsmenn SL er starfa hjá ríki, kom fram að 310 félagsmenn hefðu verið á kjörskrá, 241 þeirra eða 77,5% hefðu tekið þátt í atkvæðagreiðslunni, 170 eða 70,5% hefðu samþykkt boðun um verkfall, 57 eða 23,7% hefðu sagt nei og ógildir seðlar hefðu verið 14 eða 5,8%. Í tilkynningunum er því lýst yfir að með þessu sé fullnægt kröfum 15. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Með bréfum til SL, dagsettum 25. mars 2015, lýsti Í því yfir að hann teldi boðun og atkvæðagreiðslu verkfallanna ekki samræmast ákvæði 15. gr. laga nr. 94/1986 og skoraði Í því á SL að afturkalla verkfallsboðanirnar. Ella myndi Í grípa til þeirra lögmæltu úrræða sem því væru tæk. Í bréfi til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dagsettu 26. mars 2015, gerði P, formaður Bandalags háskólamanna, grein fyrir umræddum atkvæðagreiðslum og því áliti félagsins að þær hefðu verið í samræmi við lög. Í niðurstöðu dómsins kom m.a. fram að þegar litið væri til orðalags 15. gr. laga nr. 94/1986 verði að leggja til grundvallar að þeim einum beri að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem starfa hjá vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem verkfall beinist gegn og viðkomandi kjarasamningur tekur til. Samkvæmt framansögðu telst viðkomandi ríkisstofnun vera vinnuveitandi starfsmannanna í þessum skilningi en ekki ríkið sjálft. Ágreiningslaust virðist að áðurgreindar niðurstöður atkvæðagreiðslna þeirra, sem mál þetta lýtur að, sýni að meira en helmingur félagsmanna í SL, sem starfa annars vegar hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar hjá ríki, hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og meiri hluti þeirra hafi samþykkt framangreind boðuð verkföll varðandi hvorn vinnustað fyrir sig. Töldust verkföll SL því lögmæt.

 

13. Dómur Félagsdóms frá 6. apríl 2015 í máli nr. 14/2015 : Íslenska ríkið gegn Ljósmæðrafélagi Íslands.

ATKVÆÐAGREIÐSLA. BOÐUN VERKFALLS. ÓTÍMABUNDIÐ VERKFALL.

Dagana 16.–19. mars sl. var efnt til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna LMFÍ um boðun verkfalls. Atkvæðagreiðslan var þrískipt. Í fyrsta lagi fór fram atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun meðal félagsmanna LMFÍ sem starfa á Landspítala og var tekið fram á atkvæðaseðli að það skyldi vera ótímabundið og hefjast 7. apríl 2015. Var verkfallinu ætlað að standa frá kl. 00:00 og standa til kl. 24:00 alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga. Þá fór einnig fram atkvæðagreiðsla með félagsmanna, sem starfa hjá ríki, um boðun tímabundins verkfalls hinn 9. apríl 2015 frá kl. 12:00 til kl. 16:00. Að auki fór fram atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna LMFÍ, sem starfa hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri um boðun ótímabundins verkfalls frá 9. apríl 2015 og var verkfallinu ætlað að vara frá kl. 00:00 til kl. 24:00 alla mánudaga og fimmtudaga. LMFÍ tilkynnti fjármála- og efnahagsráðuneytinu um fyrirhuguð verkföll með bréfum, dagsettum 20. mars sl. Í tilkynningu LMFÍ, sem varðar félagsmenn LMFÍ er starfa hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi, kom fram að 135 félagsmenn hefðu verið á kjörskrá, svarhlutfall hefði verið 79,3%, 83 eða 77,60 hefðu sagt já, 21 eða 19,6% hefðu sagt nei og auðir atkvæðaseðlar hefðu verið 3 eða 2,8%. Í tilkynningu LMFÍ, sem varðar félagsmenn LMFÍ er starfa hjá ríki, kom fram að 84 félagsmenn hefðu verið á kjörskrá, svarhlutfall hefði verið 60,7%, 46 eða 90,2% hefðu sagt já, 2 eða 3,9% hefðu sagt nei og auðir atkvæðaseðlar hefðu verið 3 eða 5,9%. Í tilkynningu LMFÍ, sem varðar félagsmenn LMFÍ er starfa hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri, kom fram að 17 félagsmenn hefðu verið á kjörskrá, svarhlutfall hefði verið 70,6%, 11 eða 91,7% hefðu sagt já, einn eða 8,6% hefði sagt nei og enginn auður atkvæðaseðill. Í tilkynningunum er því lýst yfir að með þessu sé fullnægt kröfum 15. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Með bréfum til LMFÍ, dagsettum 25. mars 2015, lýsti Í því yfir að hann teldi boðun og atkvæðagreiðslu verkfallanna ekki samræmast ákvæði 15. gr. laga nr. 94/1986 og skoraði Í því á LMFÍ að afturkalla verkfallsboðunina. Ella myndi Í grípa til þeirra lögmæltu úrræða sem því væru tæk. Í bréfi til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dagsettu 26. mars 2015, gerði P, formaður Bandalags háskólamanna, grein fyrir umræddum atkvæðagreiðslum og því áliti félagsins að þær hefðu verið í samræmi við lög. Í niðurstöðu dómsins sagði m.a. að þegar litið væri til orðalags 15. gr. laganna verði að leggja til grundvallar að þeim einum beri að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem starfa hjá vinnuveitanda eða vinnuveitendum, sem verkfall beinist gegn og viðkomandi kjarasamningur tekur til. Samkvæmt framansögðu telst viðkomandi ríkisstofnun vera vinnuveitandi starfsmannanna í þessum skilningi en ekki ríkið sjálft. Ágreiningslaust virðist að áðurgreindar niðurstöður atkvæðagreiðslna þeirra, sem mál þetta lýtur að, sýni að meira en helmingur félagsmanna í LMFÍ, sem starfa hjá í fyrsta lagi Landspítala háskólasjúkrahúsi, í öðru lagi hjá ríki og í þriðja lagi hjá Sjúkrahúsi Akureyrar hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunum og meiri hluti þeirra hafi samþykkt framangreind boðuð verkföll varðandi hvern vinnustað fyrir sig. Töldust framangreind verkföll LMFÍ því lögmæt.

 

14. Dómur Félagsdóms frá 10. maí 2015 í máli nr. 17/2015 : Íslenska ríkið gegn Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins.

TILKYNNING UM VERKFALLSBOÐUN.

 Kjarasamningur FHSS og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, með síðari breytingum og viðaukum, rann út hinn 28. febrúar 2015. Hinn 22. apríl 2015 barst Fjársýslu ríkisins tilkynning um boðun verkfalls hjá FHSS. Í tilkynningunni kom fram að á félagsfundi þann sama dag hafi farið fram atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna FHSS, sem starfi hjá Fjársýslu ríkisins, um boðun ótímabundins verkfalls frá klukkan 00:00 hinn 11. maí 2015. Í tilkynningunni greinir að á kjörskrá hafi verið 35 félagsmenn, 24 þeirra hafi greitt atkvæði og þar af hafi 19 samþykkt boðun ótímabundins verkfalls. Er tekið fram í tilkynningunni að þessi niðurstaða fullnægi kröfum 15. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Kom fram í skýrslu G, fjársýslustjóra ríkisins, við aðalmeðferð málsins að framangreind tilkynning hefði borist honum 22. apríl sl. með rafrænum hætti. Hann hefði síðan óskað eftir því við stefnda að Fjársýslu ríkisins yrðu sendar upplýsingar og gögn um framkvæmd atkvæðagreiðslu um umrædda verkfallsboðun hinn 28. apríl sl. Samkvæmt vitninu S, lögfræðingi hjá kjara- og mannauðssýslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fékk hún upplýsingar um umrædda verkfallsboðun þegar hún skoðaði heimasíðu BHM 27. apríl sl. Hafi fjármála- og efnahagsráðuneytið þá fyrst orðið hennar áskynja og kvaðst vitnið í kjölfarið hafa óskað eftir frekari upplýsingum um atkvæðagreiðslu um verkfallsboðunina frá FHSS og jafnframt óskað eftir afriti af atkvæðaseðlum. Kvað hún ráðuneytið aldrei hafa fengið formlega tilkynningu um verkfallsboðun frá FHSS. Í svari FHSS við ósk ráðuneytisins um upplýsingar og gögn kom fram að tilkynningar um verkfallsboðun hafi verið sendar ríkissáttasemjara og Fjársýslu ríkisins í samræmi við 16. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í stefnu er því lýst að Í hafi með eftirgangsmunum fengið send gögn um hana hinn 29. apríl sl. Þann dag sendi Fjársýsla ríkisins erindi til FHSS þar sem fram kom að tilkynningu um verkfallsboðun samkvæmt 16. gr. laga nr. 94/1986 væri ranglega beint að Fjársýslu ríkisins. Fjársýsla ríkisins innti FHSS eftir viðbrögðum við erindi sínu með tölvupósti hinn 4. maí sl. Í kveður engin svör hafa borist frá FHSS. Í niðurstöðu dómsins kom m.a. fram að ágreiningur aðila að þessu leyti lýtur ekki að því með hvaða hætti stéttarfélag ákveður að boða til vinnustöðvunar, heldur að túlkun á lögmæltum skilyrðum 16. gr. laga nr. 94/1986 um tilkynningu um verkfallsboðun. Verður að skýra þessi skilyrði í ljósi tilgangs þeirra. Leggja verður til grundvallar að slík tilkynning þjóni þeim tilgangi að gera þeim sem fer með samningsumboðið viðvart um vinnustöðvunina þannig að hann fái ráðrúm til að koma í veg fyrir það tjón sem hlýst af verkfalli með því að gera kjarasamning við viðkomandi stéttarfélag. Þá verður að líta til inntaks verkfallsréttar, en verkfall er gert í þeim tilgangi einum að stuðla að framgangi krafna stéttarfélags í deilu um kjarasamning, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 94/1986. Af þessari ástæðu verður að túlka fyrrgreint ákvæði 16. gr. laga nr. 94/1986 á þá leið að tilkynna beri fjármála- og efnahagsráðherra, sem er samningsaðili Í um gerð kjarasamnings fyrir hönd ríkissjóðs, um fyrirhugað verkfall. Með vísan til dóms Félagsdóms frá 15. október 1984 í málinu nr. 10/1984 varð að líta svo á að misbrestur á því að tilkynna réttum aðila í tæka tíð um fyrirhugaða vinnustöðvun leiði til þess að taka beri til greina kröfu um viðurkenningu á því að verkfallið sé ólögmætt. Gengur sú niðurstaða ekki gegn heimild FHSS til að gera verkfall sem varin er af stjórnarskrá. Féllst dómurinn því á kröfu Í um að verkfallið væri ólöglegt.

 

15. Dómur Hæstaréttar frá 13. maí 2015 í máli nr. 678/2014 : Íslenska ríkið gegn D.

NIÐURLAGNING STÖÐU. NÁMSLEYFI. SAMNINGUR. STJÓRNSÝSLA. MISKABÆTUR.

Starf D hjá Í var lagt niður 1. febrúar 2009 og naut D biðlauna til 1. febrúar 2010. D höfðaði mál gegn Í og krafðist launa og orlofs vegna námsleyfis fyrir tímabilið 1. febrúar 2010 til 1. ágúst 2011, en þá kröfu reisti G á minnisblaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra þar sem fram kom að í störfum sínum nyti D, sem áður gegndi stöðu ráðuneytisstjóra, alls áunnins réttar til framhalds- og endurmenntunar. Í dómnum kom fram að með starfslokum væri endi bundinn á rétt starfsmanns til námsleyfis, enda væri námsleyfi ætlað að gera starfsmann hæfari til að sinna verkum sínum er hann kæmi aftur til starfa úr leyfi. D tókst ekki að færa sönnur á að samkomulag hefði tekist milli aðila um greiðslu launa í námsleyfi eftir starfslok D og því hefði réttur hans til endurmenntunar fallið niður við starfslok hans hjá Í. D hélt því einnig fram að hann ætti rétt á miskabótum og byggði þá kröfu meðal annars á því að umboðsmaður Alþingis hefði komist að því að ekki hefði verið nægjanlega gætt að því að fylgja sjónarmiðum sem leiði af vönduðum stjórnsýsluháttum og stml. við starfslok hans. Í því sambandi kom fram í dómnum að jafnvel þótt Í hefði mátt standa betur að tilkynningu til D um starfslokin yrði ekki talið að með tilkynningunni hefði verið brotið gegn óskráðri meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar þannig að í því hefði falist ólögmæt meingerð gegn æru eða persónu D. Var miskabótakröfu D hafnað auk kröfu hans um greiðslu kostnaðar vegna reksturs málsins hjá umboðsmanni Alþingis.

 

16. Dómur Félagsdóms frá 15. maí 2015 í máli nr. 6/2015 : Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gegn íslenska ríkinu.

SKRÁ YFIR STÖRF SEM ERU UNDANÞEGIN VERKFALLSHEIMILD.

Ágreiningur laut að tilgreindum störfum á skrá Í yfir þau störf sem undanþegin eru verkfallsheimild samkvæmt 5.-8. tl. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986, sbr. auglýsingu nr. 70 frá 16. janúar 2015, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 29. janúar 2015, sbr. og fyrri skrá nr. 101 frá 17. janúar 2014. Varðaði ágreiningurinn 42 störf hjúkrunarfræðing sem tilgreind voru í skránni Niðurstaða dómsins var sú að af skrá yfir þau störf hjá stofnunum ríkisins sem eru undanþegin verkfallsheimild sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 70, þann 29. janúar 2015, bar að fella 16 störf af henni.

 

17. Dómur Hæstaréttar frá 27. maí 2015 í máli nr. 284/2015 : V gegn íslenska ríkinu.

FRÁVÍSUNARÚRSKURÐUR FELLDUR ÚR GILDI AÐ HLUTA. LÖGVARÐIR HAGSMUNIR.

V höfðaði mál gegn Í og krafðist þess að nánar tilteknar ákvarðanir kjararáðs yrðu dæmdar ógildar þar sem þær hefðu verið haldnar alvarlegum ágöllum bæði að formi og efni. Samhliða kröfu um ógildingu krafðist V þess í aðal-, vara- og þrautavarakröfum sínum að Í yrði gert að greiða sér tilteknar fjárhæðir, sem hann taldi fela í sér leiðréttingu launa hans fyrir nánar tilgreint tímabil, en í þrautaþrautavarakröfu sinni að viðurkennt yrði að kjararáði „hafi borið að afturkalla launalækkun“ hans miðað við tilgreint tímamark. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms var málinu vísað frá dómi þar sem V hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá bæði leyst úr kröfu um ógildingu ákvarðana kjararáðs annars vegar og hins vegar fjárkröfum sínum en viðurkenningarkröfu í tilviki þrautaþrautavarakröfu. Í dómnum kom fram að hinar umþrættu ákvarðanir kjararáðs kvæðu ekki einungis á um atriði sem vörðuðu kjör V heldur einnig fjölda annarra manna og hefði hann því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá þær ógiltar í heild sinni. Hvað fjárkröfur V vörðuðu var talið að þær fælu í sér áskilnað um að dómstólar tækju í raun ákvörðun um laun hans sem samkvæmt 1. gr. laga nr. 47/2006 um kjararáð væri í verkahring ráðsins að ákveða í samræmi við 8. til 10. gr. laganna. Með hliðsjón af framangreindu var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um frávísun aðal-, vara- og þrautavarakrafna V, auk kröfu um ógildingu samkvæmt þrautaþrautavarakröfu hans. Á hinn bóginn var fallist á með V að hann hefði lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm um viðurkenningarkröfu í síðari kröfulið þrautaþrautavarakröfu sinnar eins og hún hafði verið þar sett fram. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar.

 

18. Dómur Hæstaréttar frá 18. júní 2015 í máli nr. 848/2014 : I gegn íslenska ríkinu.

RÁÐNINGARSAMNINGUR. KJARASAMNINGUR. STARFSRÉTTINDI. FORFÖLL VEGNA VINNUSLYSS.

I var ráðinn til starfa sem sjúkraflutningamaður við S. Fram kemur í ráðningarsamningnum að stéttarfélag I sé starfsmannafélagið Kjölur. S sameinaðist Ó 1. janúar 2010 og tók þá til starfa sameinuð stofnun F. Ráðningarsamningi stefnanda var ekki breytt vegna sameiningarinnar. I sinnti sjúkraflutningum á bakvöktum, en starfaði í dagvinnu hjá skattstofunni á S. Samkvæmt ráðningarsamningi var vinnuskylda hans „bakvakt og útkallsskylda samkv. vaktarplani frá kl. 17.00 eh til kl. 8.00 að morgni virka daga og sólarhringsvaktir um helgar“. I sinnti bakvöktum ásamt fjórum öðrum starfsmönnum. Þann 1. júní 2009 fækkaði S starfsmönnum sem sinntu sjúkraflutningum á dagvöktum. Frá þeim tíma var I falið að sinna bakvöktum alla daga vikunnar frá kl. 8:00 til kl. 17:00 og fimmtu hverja viku allan sólarhringinn. I slasaðist í desember 2010 við störf sín sem sjúkraflutningamaður. Vegna slyssins hefur I ekki getað sinnt starfi sínu sem sjúkraflutningamaður. I fékk greidd veikindalaun í 121 dag vegna vinnuslyssins. Réttur I til launa vegna veikinda féll niður 31. maí 2011. Kröfu I um frekari veikindalaun vegna slyssins var hafnað. F byggði höfnun á frekari veikindalaunum á því að I hefði verið ráðinn í tímavinnu samkvæmt grein 12.2.2 í kjarasamningi fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, og Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu. Í framhaldi af því að F hafnaði kröfu I leitaði hann til kjarasamningsbundinnar samráðsnefndar um veikindarétt, en nefndina skipuðu fulltrúar samningsaðila að samkomulagi BHM, BSRB og KÍ við fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaga (nú samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga) frá 24. október 2000, um tiltekin atriði, þ.m.t. veikindarétt launþega. Óskaði I eftir því að nefndin tæki til umfjöllunar hvort hann nyti veikindaréttar samkvæmt grein 12.2.1 í umræddum kjarasamningi, sem starfsmaður á mánaðarlaunum, eða grein 12.2.2, sem starfsmaður ráðinn í tímavinnu. Nefndin komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu, en nefndarmenn voru þó sammála um að réttindi starfsmanns, sem eingöngu væri ráðinn á bakvaktir, til veikinda væri ekki allskostar skýr í kjarasamningi. Fulltrúar samningsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar töldu I vera ráðinn í tímavinnu í skilningi kjarasamnings Kjalar og ríkissjóðs og vísuðu meðal annars til þess að I hefði ekki verið ráðinn til starfa á mánaðarlaunum og hann áynni sér ekki rétt til orlofstöku, orlofsuppbótar eða persónuuppbótar í desember. Þá væri starfið ekki aðalstarf I og vinnufyrirkomulagið bæri með sér að hann væri tímavinnumaður sem félli undir heimild atvinnurekanda samkvæmt kjarasamningi til að vera ráðinn í tímavinnu þar sem hann ynni afmörkuð verkefni. Fulltrúar BSRB, BHM og KÍ töldu I hins vegar hafa verið ráðinn á mánaðarlaun í skilningi kjarasamningsins. Vísuðu þeir m.a. til þess að tilgreint væri að hann hefði verið ráðinn til starfa á bakvöktum en ekki í tímavinnu. Þá áréttuðu þeir skyldu atvinnurekenda til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör með skriflegum ráðningarsamningi og sögðu að heimild atvinnurekanda til að ráða starfsfólk í tímavinnu samkvæmt áðurnefndum ákvæðum kjarasamnings ætti að nota í undantekningartilvikum og bæri að skýra þröngt. Hæstiréttur taldi að um rétt I til forfallalauna, vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir í í aukastarfi sínu sem sjúkraflutningamaður samhliða aðalstarfi sínu hjá hinu opinbera á grundvelli ótímabundins ráðningarsamnings, skyldi að virtum ráðningarsamningi hans vegna aukastarfsins og fyrirmælum kjarasamnings fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Kjalars, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, færi eftir þeirri grein kjarasamningsins sem ætti við um þá sem ráðnir væru til starfa í tímavinnu

 

19. Dómur Félagsdóms frá 29. júní 2015 í máli nr. 18/2015 : Félag íslenskra náttúrufræðinga gegn íslenska ríkinu.

GREIÐSLA LAUNA FYRIR VINNU Í VERKFALLI. UNDANÞÁGA.

FÍN krafðist þess að viðurkennt yrði að félagsmaður FÍN ætti rétt til greiðslna skv. gr. 2.3.3.1 fyrir útköll þegar hann samkvæmt ákvörðun undanþágunefndar, sem starfar á grundvelli 21. gr. laga nr. 94/1986, var kvaddur til starfa. Í niðurstöðu dómsins segir m.a. að ljóst væri að félagsmaður FÍN var ekki við venjubundin störf sín samkvæmt daglegum vinnutíma eða vakt þegar hann var kallaður til starfa í aprílmánuði, enda í verkfalli umrædda daga. Var því ekki um það að ræða að fullnægt hefði verið umsaminni daglegri vinnuskyldu hans, heldur hafði hann, sem starfsmaður í verkfalli, verið kallaður tímabundið til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðarástandi samkvæmt heimild í 20. gr. laga nr. 94/1986. Var það niðurstaða dómsins að ákvæði um yfirvinnu í gr. 2.3.3.1 í kjarasamningi aðila tæki ekki til atvika í máli þessu.

 

20. Úrskurður Félagsdóms frá 29. júní 2015 í máli nr. 19/2015 : Ljósmæðrafélag Íslands gegn íslenska ríkinu.

LAUNAFRÁDRÁTTUR VEGNA VERKFALLA. GREIÐSLA LAUNA FYRIR VINNU Í VERKFALLI. UNDANÞÁGA. FRÁVÍSUN.

Ágreiningur aðila laut að frádrætti af launum vegna verkfalla. Í krafðist frávísunar m.a. með þeim rökum að krafa LMFÍ væri ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til skýrleika dómkrafna, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Taldi dómurinn að kröfugerð og málatilbúnaður LMFÍ uppfyllti ekki skilyrði d- og e- liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og vísaði málinu frá dómi. Sjá nú dóm Félagsdóms frá 14. október 2015 í máli nr. 22/2015

 

21. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. júlí 2015 í máli nr. E-2217/2015 : Bandalag háskólamanna gegn íslenska ríkinu.

LÖG Á VERKFALL. STJÓRNARSKRÁ. MANNRÉTTINDASÁTTMÁLI EVRÓPU. SAMFLOT STÉTTARFÉLAG. GERÐARDÓMUR.

Sjá dóm Hæstaréttar í máli nr. 467/2015 .

22. Dómur Hæstaréttar frá 13. ágúst 2015 í máli nr. 467/2015 : Bandalag háskólamanna gegn íslenska ríkinu.

FÉLGAFRELSI. STJÓRNARSKRÁ. MANNRÉTTINDASÁTTMÁLI EVRÓPU. STÉTTARFÉLAG. OPINBERIR STARFSMENN. VERKFALL. MEÐALHÓF.

B krafðist þess í máli gegn Í að viðurkennt yrði að átján stéttarfélögum innan raða þess væri, þrátt fyrir ákvæði 1., 2. og 3. gr. laga nr. 31/2015 um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan B og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, heimilt að efna til verkfalls og að kjör félagsmanna þessara félaga yrðu ekki afráðin með ákvörðun gerðardóms samkvæmt sömu lögum. Í dómnum kom fram að starfsemi, sem haldið hefði verið uppi á heilbrigðisstofnunum í skjóli undanþága frá verkfallsaðgerðum félaganna, hefði ekki nægt til að girða fyrir alvarlega ógn við almannaheill og réttindi alls almennings til að fá aðstoð vegna sjúkleika, sem Í bæri að tryggja samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Hefðu því verið uppfyllt þau skilyrði, sem 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar fæli í sér, fyrir því að settar yrðu í lögum takmarkanir á verkfallsrétt félagsmanna í aðildarfélögum B. Mætti líta svo á að fullreynt hefði verið að ljúka kjaradeilu aðila með samningum þegar umræddar takmarkanir voru settar. Í hefði því mátt líta svo á að nauðsynlegt væri að grípa til lagasetningar til að ljúka henni enda yrði ekki séð að önnur úrræði hefðu staðið til boða. Um þá stöðu, að lög nr. 31/2015 hafi ekki aðeins tekið til félaga sem stóðu að verkfalli heldur einnig annarra aðildarfélaga B, var vísað til þess að félögin hefðu kosið að neyta réttar samkvæmt lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna til að standa sameiginlega að kröfum gagnvart Í og samningaviðræðum við það auk þess hafa skuldbundið sig innbyrðis til að gera ekki kjarasamning við Í án samráðs við hin. Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar bæri Í að virða sjálfsákvörðunarrétt stéttarfélaga í þeim efnum. Þá var talið ljóst af gögnum málsins að aðildarfélög B hefðu kosið að standa sameiginlega að ýmsum aðgerðum til að knýja á um lausn kjaradeilunnar, m.a. með samráði um beitingu verkfallsréttar. Hefði löggjöf, sem aðeins hefði náð til félagsmanna í aðildarfélögum B sem áttu í verkfalli við gildistöku hennar, því ekki girt fyrir að önnur félög hefðu þess í stað efnt til sams konar aðgerða í þágu heildarinnar. Yrði einnig að líta til þess að í umræddum lögum hefði ekki eingöngu verið lagt bann við verkföllum félaganna, heldur einnig kveðið á um sérstaka skipan sem kæmi í stað kjarasamnings við þau. Hefði því eitt verið látið ganga yfir félögin öll. Með vísan til þess var ekki talið unnt að líta svo á að gengið hefði verið lengra en réttmætt var við setningu laga nr. 31/2015 og brotið með því gegn grunnreglu íslenskrar stjórnskipunar um meðalhóf. Var Í því sýknað af kröfu B.

 

23. Dómur Hæstaréttar frá 7. september 2015 í máli nr. 460/2015 : I gegn íslenska ríkinu og tollstjóra.

KÆRUMÁL. VANREIFUN. FRÁVÍSUNARÚRSKURÐUR FELLDUR ÚR GILDI.

I höfðaði mál gegn Í og T og krafðist viðurkenningar á svonefndum frítökurétti, sem hann taldi sig hafa áunnið sér á tímabilinu 2001 til 2005 í starfi sínu hjá T. Með hinum kærða úrskurði var máli I vísað frá dómi þar sem héraðsdómur taldi að málatilbúnaður I í stefnu væri í andstöðu við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómnum kom fram að ótvírætt kæmi fram í stefnu á hvaða málsástæðum I reisti kröfu sína. Þá kæmi fram á skjali, sem I lagði fram við þingfestingu málsins, á hvaða dögum og á grundvelli hvaða kjarasamningsákvæða frítökurétturinn hefði stofnast hverju sinni að mati I. Var einnig tekið fram að ágallar á málatilbúnaði I hefðu ekki leitt til þess að Í og T hefðu átt í erfiðleikum með að taka til efnisvarna í málinu. Þá myndi I eiga þess kost undir rekstri málsins í héraði að leggja fram frekari gögn um ætlaðan rétt sinn og leiða vitni. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

 

24. Dómur Hæstaréttar frá 24. september 2015 í máli nr. 81/2015 : M gegn Landspítala.

UPPSÖGN. RÁÐNINGARSAMNINGUR.

M krafðist bóta úr hendi L vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar. Uppsögnin átti þann aðdraganda að M hafði lýst ítrekað yfir eindreginni ósk um starfslok vegna fyrirætlana L um breytingar á starfssviði hans. Samkvæmt 19. gr. stml. hefðu forstöðumenn ríkisstofnana og aðrir yfirmenn þeirra sem væru til þess bærir heimild til að breyta störfum og verksviði ríkisstarfsmanna og væri það háð mati hinna fyrrnefndu hvort tilefni væri til slíkra breytinga, enda væru þær reistar á málefnalegum forsendum og ekki meira íþyngjandi fyrir starfsmenn en nauðsyn bæri til. Fram kom í dómi Hæstaréttar að M hefði verið í sjálfsvald sett að bregðast við fyrirætlunum L á þann hátt sem hann gerði með ósk um starfslok, sbr. 2. málslið fyrrgreinds lagaákvæðis. Var L sýknað af kröfu M.

 

25. Dómur Hæstaréttar frá 1. október 2015 í máli nr. 846/2014 : H gegn Seðlabanka Íslands.

UPPSÖGN. RÁÐNINGARSAMNINGUR. ÁMINNING. TÓMLÆTI. SKAÐABÆTUR.

H krafðist bóta úr hendi S vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar. Í mars 2012 óskaði S eftir því við H, sem fruminnherja, að hann gerði grein fyrir tengslum sínum við S ehf., félag sem hann átti 30% hlut í og var í fyrirsvari fyrir. H varð við því og gerði meðal annars grein fyrir verðbréfaviðskiptum sem félagið hefði stundað á árunum 2007 og 2008, á sama tíma og hann var starfsmaður S, auk málaferla sem félagið stóð að og voru í burðarliðnum. Viðbrögð S við þessu voru þau að skipa H að segja sig úr stjórn félagsins, sem gekk eftir. Taldi Hæstiréttur, meðal annars með hliðsjón af þýðingu reglna um verkanir tómlætis í vinnurétti, að ekki yrði á það fallist með S að bankinn hefði einu og hálfu ári síðar, í október 2013, getað gripið til frekari úrræða vegna þeirra brota sem H upplýsti um í mars 2012. Talið var að H hefði brotið 14. gr. stml. með því að S ehf. hefði átt gjaldeyrisviðskipti og að hann hefði brotið 20. gr. sömu laga með því að upplýsa ekki nægilega um fyrirsvar sitt fyrir félagið. Brot þessi, sem felld yrðu undir 21. gr. stml., veittu S á hinn bóginn ekki rétt til að segja H upp störfum á grundvelli 43. gr. stml. án undangenginnar áminningar, sbr. 44. gr. stml. Var því fallist á með H að uppsögnin hefði verið ólögmæt. Við mat á fjárhæð skaðabóta var talið að taka þyrfti tillit til þess að starfsöryggi H hjá S sætti takmörkunum, eins og starfsöryggi annarra hjá íslenska ríkinu eða stofnunum þess, sbr. 44. gr. stml., og að H hefði brotið af sér í starfi, þótt brotin hefðu ekki verið svo alvarleg að réttlætt hefði fyrirvaralausa uppsögn. Bæri hann því sjálfur nokkra ábyrgð á tjóni sínu. Var S dæmt til að greiða H skaðabætur.

 

26. Dómur Félagsdóms frá 12. október 2015 í máli nr. 5/2015 : Læknafélag Íslands gegn íslenska ríkinu vegna Landspítala.

FRÍTÖKURÉTTUR.

L krafðist þess að viðurkennt yrði að félagsmenn L sem starfa við Landspítalann, eigi rétt til 1½ klst. frítökuréttar fyrir hverja klukkustund sem unnin er umfram samfellda 16 klst. vinnulotu upp að 24 klst., án tillits til þess hvort nýr viðmiðunarsólarhringur hefjist innan vinnulotunnar. Í kjarasamningi L við Í er gert ráð fyrir að læknar safni frítökurétti við ákveðnar kringumstæður. Annars vegar safnist frítökuréttur ef 11 tíma hvíldartími næst ekki á hverjum viðmiðunarsólarhring. Þá safnast upp frítökuréttur samkvæmt nánar fyrirmælum samningsins, sbr. grein 4.7. Hins vegar eru sérákvæði í kjarasamningnum um uppsöfnun frítökuréttar ef samfelld vinnulota fer yfir 16 klukkustundir, sbr. 2. málslið 3. mgr. greinar 4.7.2. Fari samfelld vinnulota yfir 24 klukkustundir safnast aukinn frítökuréttur sbr. grein 4.7.4. Við starfslok læknis skal ótekinn frítökuréttur gerður upp með sama hætti og orlof, sbr. ákvæði 4.7.7 í kjarasamningi. L og Í hafa verið sammála um það hvernig reikna eigi frítökurétt þegar samfelld vinnulota læknis fari umfram 16 klst. Það var mat Félagsdóms að L hefði ekki fært fram röksemdir fyrir því að víkja ætti frá skýru orðalagi ákvæðis 3. mgr. í grein 4.7.2 þar sem fram kemur með berum orðum að frítökurétturinn myndist fyrir hverja unna stund sem unnin er umfram 16 klukkustundir á viðmiðunarsólarhring. Gat vísun L til greinar 4.7.4 í kjarasamningi ekki breytt þessu enda fjallar hún um frítökurétt þegar unnið er samfellt umfram 24 stundir. Jafnframt gat dómurinn þess að grein 4.7.2 er ekki bundin við samfellda vinnu, auk þess sem dómkrafa L var bundin við vinnulotu umfram 16 stundir að 24 stundum og fellur því utan efnis greinar 4.7.4. Í var því sýknað af öllum kröfum L í málinu.

 

27. Dómur Félagsdóms frá 14. október 2015 í máli nr. 22/2015 : Ljósmæðrafélag Íslands gegn íslenska ríkinu.

LAUNAFRÁDRÁTTUR VEGNA VERKFALLA. GREIÐSLA LAUNA FYRIR VINNU Í VERKFALLI. UNDANÞÁGA.

Ágreiningur aðila laut að frádrætti af launum vegna verkfalla. L krafðist þess að viðurkennt yrði að Í hefði brotið gegn grein 1.1 og 1.6, sbr. grein 2.6, í kjarasamningi L og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs með því að greiða félagsmanni L, F ljósmóður, ekki óskert laun vegna sex vakta í apríl 2015. Í byrjun apríl 2015 hófust sameiginlegar verkfallsaðgerðir hjá 17 aðildarfélögum BHM en L er stéttarfélag innan bandalagsins. BHM fékk veður af því að við launaútreikning í verkföllum hygðist Í framfylgja eigin viðmiðunarreglum um launagreiðslur samkvæmt dreifibréfi Í nr. 6/2001 á meðan á verkfalli stæði svo og við framkvæmd og túlkun á 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986. Ekki hafi komið til frádráttar í byrjun apríl, enda hefði Í litið svo á að boðað verkfall L væri ólögmætt. Félagsdómur hafi komist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 14/2015 . Að þeim dómi gengnum hafi BHM áréttað athugasemdir við þessar ráðagerðir Í um framkvæmd á launaútreikningum. Frá og með þriðjudeginum 7. apríl 2015 klukkan 00:00 hófst ótímabundið verkfall L sem stóð frá þeim tíma til 24:00 alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga á Landspítala þar sem F, félagsmaður L, starfar, þar til lög nr. 31/2015 tóku gildi 13. júní 2015. Með þeim lögum var lagt bann við verkfallsaðgerðum L meðal annarra. Þegar launagreiðslur hafi borist félagsmönnum L í byrjun maímánaðar, hafi komið í ljós að félagsmenn L hefðu fengið greidd laun samkvæmt túlkun Í á eigin reglum um frádráttarheimildir og útreikningi á því hve háu hlutfalli launa haldið skyldi eftir þar sem verkfall L hafi ekki tekið til allra daga vikunnar. Í hafi í þessum efnum beitt grein 1.1.2 í kjarasamningi aðila, sem fjalli um hvernig reikna eigi brot úr mánaðarlaunum þegar unninn sé 8 stunda vinnudagur reglubundið. Flestir félagsmenn L, þar með talið F, gangi vaktir og vinni ekki 8 stunda reglulegan vinnudag, að mati L. BHM gerði athugasemd við Í af þessu tilefni og var krafist leiðréttingar á því sem bandalagið taldi vera misbrest á launagreiðslum með bréfi og kom þar fram að ella yrði leitað fulltingis dómstóla án frekari fyrirvara. Í brást við erindinu með bréfum annars vegar sem svar við tölvupósti lögmanns BHM og fyrrgreinds bréfs bandalagsins. Í gerði grein fyrir þeirri afstöðu að þegar verkfall stæði yfir væri um að ræða félagslega aðgerð („kollektiv“) af hálfu stéttarfélagsins. Því yrðu allir félagsmenn að sitja við sama borð um frádrátt launa og skipti þá ekki máli hvort um tímabundið eða ótímabundið verkfall væri að ræða. Byggði Í á fyrrnefndum vinnureglum sínum í þessu efni og vísaði jafnframt til niðurstöðu Félagsdóms í máli nr. 8/1984 frá 17. desember 1984. Var þessari útreikningsaðferð síðan beitt gagnvart félagsmönnum L, þar með talið F. Í niðurstöðu Félagsdóms kemur fram að þótt verkfall raski ekki ráðningarsambandi einstakra félagsmanna og atvinnurekenda þeirra, er það meginregla í vinnurétti að meðan á verkfalli stendur, falla niður skyldur samkvæmt ráðningarsamningi þeirra starfsmanna sem verkfallsrétt hafa. Er starfsmanni, sem er í verkfalli, óskylt og óheimilt að vinna þau störf sem ráðningarsamningur hans tekur til. Á móti fellur niður sú skylda vinnuveitandans að greiða starfsmanninum laun. Óumdeilt er að þeir sem ekki hafa heimild til verkfalls samkvæmt 19. gr. laga nr. 94/1986 halda óskertum launum og að þeir, sem kallaðir eru til starfa samkvæmt ákvæðum 20. gr. sömu laga, fá greitt samkvæmt ákvæði kjarasamnings aðila um tímakaupsfólk. Er ágreiningslaust að F voru greidd óskert laun vegna þeirra vakta sem hún stóð í apríl á grundvelli undanþáguheimildar samkvæmt 19. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 94/1986 tekur boðað verkfall til allra starfsmanna í viðkomandi stéttarfélagi hjá þeim vinnuveitendum sem verkfall beinist gegn, annarra en þeirra sem óheimilt er að leggja niður störf samkvæmt lögunum, sbr. undanþáguákvæði 19. og 20. gr. laganna. Verkfall er þannig félagsleg aðgerð félagsmanna þess stéttarfélags sem boðað hefur til verkfalls. Dómurinn taldi að ekki yrði dregin önnur ályktun af verkfallsboðun L en að verkfallið næði til allra félagsmanna í L sem störfuðu á Landspítala. Í þessu ljósi og með vísan til þess sem áður er rakið taldi Félagsdómur að samkvæmt ákvæðum kjarasamnings aðila væru bæði vinnuskylda og laun félagsmanna í L miðuð við mánuð, án tillits til þess hvernig vinnu innan hans er hagað, yrði að líta svo á að félagsmenn í L hafi verið í verkfalli, óháð því hvort þeir áttu vinnuskyldu umrædda daga eða ekki. Taldi dómurinn að ekki yrði á það fallist með L að unnt sé að leggja að jöfnu þá aðstöðu þegar F, félagsmaður í L, annars vegar innti af hendi vinnu samkvæmt fyrirfram ákveðinni vaktskrá í aprílmánuði og hins vegar þegar hún stóð vaktir á grundvelli undanþáguheimildar samkvæmt 19. gr. laga nr. 94/1986. Jafnframt segir í niðurstöðu dómsins að við útreikning Í á mánaðarlaunum F fyrir apríl virðist hafa verið deilt með 21,67 í mánaðarlaun hennar og margfaldað með þeim dögum sem F var við vinnu, þar á meðal með þeim dögum sem greinir í dómkröfum, allt í samræmi við grein 1.1.2 í kjarasamningi aðila um útreikning á broti úr mánaðarlaunum. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið um ávinnslu réttar til greiðslu mánaðarlauna og að F var sannanlega í verkfalli alla þá daga sem boðuð vinnustöðvun tók til, þó að einungis ein vakt hafi fallið á þá daga, fékk dómurinn ekki séð að Í hafi brotið gegn þeim kjarasamningsákvæðum sem L tilgreinir í dómkröfum sínum. Með sömu rökum var hvorki fallist á að sú niðurstaða feli í sér brot gegn almennum reglum vinnuréttar, feli í sér félagsnauðung í skilningi 4. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, né brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar eða 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, svo sem L hélt fram. Því var Í sýknað af kröfum L en tveir dómarar greiddu sératkvæði og vildu taka kröfu L til greina.

 

28. Dómur Félagsdóms frá 14. október 2015 í máli nr. 15/2015 : SFR-stéttarfélag í almannaþjónustu gegn íslenska ríkinu.

SKRÁ YFIR STÖRF SEM ERU UNDANÞEGIN VERKFALLSHEIMILD.

Ágreiningur laut að tilgreindum störfum á skrá Í yfir þau störf sem undanþegin eru verkfallsheimild samkvæmt 5.-8. tl. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986, sbr. auglýsingu nr. 70 frá 16. janúar 2015, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 29. janúar 2015. Varðaði ágreiningurinn fjölda starfa sem tilgreind voru í skránni. Niðurstaða dómsins var sú að af skrá yfir þau störf hjá stofnunum ríkisins sem eru undanþegin verkfallsheimild sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 70, þann 29. janúar 2015, bar að fella 22 störf af henni.

 

29. Dómur Félagsdóms frá 14. október 2015 í máli nr. 20/2015 : Læknafélag Íslands gegn íslenska ríkinu.

LAUNAFLOKKUR. KANDÍDAT MEÐ TÍMABUNDIÐ STARFSLEYFI/LÆKNINGALEYFI.

L krafðist þess að viðurkennt yrði að kandídat sem hefur fengið útgefið tímabundið starfsleyfi/lækningaleyfi frá embætti landlæknis skuli eiga rétt til launa að lágmarki samkvæmt launaflokki 200, sbr. ákvæði 3.2.1 í kjarasamningi fjármála- og efnahagsáðherra f.h. ríkissjóðs annars vegar og L hins vegar. Samkvæmt grein 1.2 í kjarasamningnum fellur kandídat undir hugtakið læknir í samningnum nema annað sé tekið fram. Þeir sem lokið hafa sex ára námi og lokið prófi í læknisfræði teljast kandídatar. Í gildandi kjarasamningi sem og í eldri kjarasamningi hafa mánaðarlaun verið skilgreind í launaflokkum annars vegar og í þrepum hins vegar. Segir í grein 3.2.1 að kandídat, sem er sá eða sú sem ekki hafi fengið lækningaleyfi, raðist í launaflokk 100, læknir, sem er sá eða sú sem er með lækningaleyfi, raðist í launaflokk 200-205, læknir með sérfræðileyfi, sem er sá eða sú sem hafi lokið sérnámi og fengið sérfræðileyfi, raðist í launaflokk 300-307 og yfirlæknir, sem er læknir með sérfræðileyfi sem ráðinn er til stjórnunar o.s.frv., raðist í launaflokka 400-407. Samhljóða ákvæði var í grein 3.2.1 í eldri kjarasamningi. Þann 1. janúar 2013 gengu í gildi ný lög um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012. Áður voru í gildi ýmist lög eða reglugerðir um hverja löggilta heilbrigðisstétt, m.a. læknalög nr. 55/1988 um lækna. Í 4. gr. læknalaga var ákvæði þess efnis að ef nauðsyn krefði mætti ráðherra, eftir meðmælum landlæknis, fela læknakandídötum eða læknanemum sem lokið hefðu 4. árs námi, að gegna tilgreindum læknisstörfum um stundarsakir og hefði viðkomandi þá lækningaleyfi á meðan hann gegndi þeim störfum. Kveður L að eftir gildistöku laga nr. 34/2012 hafi embætti landlæknis, sem sér um útgáfu lækningaleyfa, bæði tímabundinna og ótakmarkaðra, ákveðið að allir læknanemar og kandídatar skyldu sækja um tímabundið lækningaleyfi á grundvelli 1. mgr. 11. gr. þeirra. Síðan fái allir læknanemar og læknakandídatar tímabundið lækningaleyfi/starfsleyfi meðan á kandídatsári standi. Kandídatsár sé viðbótarmenntun sem allir þeir sem útskrifast úr læknanámi þurfi að ljúka til að fá almennt lækningaleyfi, sbr. 3. og 4. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi nr. 467/2015, áður reglugerð með sama heiti nr. 1222/2012. L kveður að um langa hríð hafi það verið svo að kandídatar með tímabundið lækningaleyfi í heilsugæslu hafi oftar en ekki fengið laun samkvæmt launaflokki 200. Kandídatsefni 2015 telja að þeir eigi allir rétt á launum samkvæmt launaflokki 200 þegar þeir byrja að starfa á kandídatsári hinn 1. júní 2015. Kveður L kandídatsefnin hafa sett fram þær kröfur sínar við LSH á fundi í febrúar 2015. Á fundinum hafi einnig verið rakið að í kjaraviðræðum L og Í í byrjun árs 2015 hefði L bent ríkinu á að skilgreininguna á kandídat væri vegna breyttrar framkvæmdar eðlilegt að endurskoða, ella væri framvegis eðlilegt að gera kröfu um að kandídatar fengju laun skv. launaflokki 200 því kandídatar væru allir með tímabundið lækningaleyfi. Samninganefnd ríkisins hafi ekki talið ástæðu til að breyta skilgreiningunni þrátt fyrir ábendinguna. Hafi þá verið áréttað að þess mætti vænta að kandídatar myndu framvegis almennt krefjast launa skv. launaflokki 200, eins og raunin hafi orðið, sbr. áðurnefndan fund með fulltrúum LSH. Í niðurstöðu Félagsdóms kemur fram að þrátt fyrir að kandídatar kunni að sinna sambærilegum eða samskonar störfum og læknar með almennt og ótakmarkað lækningaleyfi, að þá er starfið að því leyti eðlisólíkt að það er í rauninni nám og fer fram undir handleiðslu og á ábyrgð framkvæmdastjóra lækninga viðkomandi stofnunar eða deildar. Þá er ljóst að raunverulegur munur er á starfsleyfi sem kandídat hefur fengið frá landlækni, sem er tímabundið, og almennu ótakmörkuðu lækningaleyfi, en fram hefur komið að læknakandídat getur ekki sinnt starfsnáminu án þess að hafa fengið til þess umrætt tímabundið leyfi frá landlækni. Þá hefur komið fram að engir læknakandídatar starfa án umrædds tímabundins leyfis og myndi það leiða til þess að enginn læknakandídat myndi taka laun samkvæmt launaflokki 100 ef kröfur L næðu fram að ganga, en það getur ekki hafa verið ætlun samningsaðila. Þrátt fyrir að í grein 1.2 í kjarasamningi aðila segi að kandídat falli undir hugtakið læknir í samningnum, nema annað sé tekið fram, þá þykir L ekki geta byggt kröfu sína á því þar sem í grein 3.2.1 er sérstaklega fjallað bæði um lækna og kandídata, en það verður ekki skilið á annan hátt en þann að þá falli kandídat ekki undir hugtakið læknir í skilningi ákvæðisins. Þá verður að telja ólíklegt að við samningsgerðina hafi vakað fyrir samningsaðilum að kandídat taki laun samkvæmt sama launaflokki og læknir með almennt og ótakmarkað lækningaleyfi, en hann er einn þeirra sem sér um starfsnám kandídatsins og er honum til handleiðslu. Þá er jafnframt óhjákvæmilegt að geta þess að í kröfugerð samninganefndar L við gerð kjarasamnings voru ekki gerðar um það kröfur að kandídatar tækju laun samkvæmt hærri launaflokki en launaflokki 100. L hefur m.a. vísað til þess að einhverjar heilbrigðisstofnanir hafi ákveðið að greiða og greitt kandídötum laun samkvæmt launaflokki 200. Það er þó mat dómsins að L geti ekki byggt kröfu sína á þessu enda getur þetta ekki breytt efni kjarasamningsins eða haft sérstök áhrif á túlkun hans, enda ekki í samræmi við þann eðlismun sem er á starfi læknis með almennt ótakmarkað lækningaleyfi annars vegar og starfi kandídats með tímabundið starfsleyfi/lækningaleyfi hins vegar. Engu getur heldur breytt í þessu efni að embætti landlæknis hafi breytt umsóknareyðublaði um hið tímabundna starfsleyfi, enda ræðst efni og inntak leyfisins af öðrum þáttum. Var Í sýknað af öllu kröfum L í málinu.

 

30. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. nóvember 2015 í máli nr. E-4444/2014 : K gegn Landspítalanum.

STARFSLOKASAMNINGUR.

K, hjúkrunarfræðingur að mennt hóf störf á Borgarspítala árið 1989 og gegndi þar starfi hjúkrunarframkvæmdastjóra, auk þess að vera staðgengill hjúkrunarforstjóra. Eftir sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala var K yfirmaður starfsmannamála Landspítalans, framkvæmdastjóri mannauðssviðs og starfsmannastjóri. Heyrði K beint undir forstjóra í starfi sínu og sat í framkvæmdastjórn Landspítalans til 1999. K var ráðin ótímabundinni ráðningu og naut launagreiðslna samkvæmt fastlaunasamningi. K var kölluð til fundar hjá B, þáverandi forstjóra L og þar tilkynnt að B óskaði eftir því að K léti af störfum og að gerður yrði samningur við K um starfslok. Í maí 2013 var undirritað samkomulag milli K og L um starfslok. Í byrjun janúar 2014 óskaði P, settur forstjóri L, eftir því að K kæmi til fundar við sig. Á fundi þeirra tjáði P K að forveri hans í starfi hefði ekki haft leyfi til að gera við hana starfslokasamning og að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði sent L bréf með tilmælum um að leysa málið með öðrum hætti. Ekki náðist samkomulag milli L og K og rifti starfslokasamningi með vísan til þess að í honum fælist efnisatriði sem væru ólögmæt. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að ljóst sé að forstöðumönnum ríkisstofnana er skylt að gæta þess að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir, sbr. 49. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Er sú regla í samræmi við þá meginreglu 41. gr. stjórnarskrárinnar að ekkert gjald megi greiða nema fyrir hendi sé heimild til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum, og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 88/1997 um að fyrir fram skuli leitað heimilda Alþingis til greiðslna úr ríkissjóði, eftirgjafar krafna og til að gera hvers konar samninga um fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir. Við afmörkun á því hvaða kröfur verða gerðar til þess að forstöðumenn afli sér fjárheimildar fyrir greiðslum samkvæmt samkomulagi á borð við það sem ágreiningur þessa máls stendur um verður hins vegar að hafa í huga að forstöðumönnum er almennt séð, bæði samkvæmt einstökum ákvæðum í lögum sem og á grundvelli fjárlaga, veitt ákveðið svigrúm um hvernig þeir ráðstafa þeim fjármunum sem veitt hefur verið til stofnana þeirra samkvæmt ákvörðun Alþingis. Heimildir forstjóra L sem forstöðumanns til að ráðstafa fjármunum til starfsmannahalds sjúkrahússins ráðast af öðru leyti af ákvæðum laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu og ákvæðum stml. Þannig er í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2007, sbr. 8. tölul. 4. gr. sömu laga kveðið á um að forstjóri Landspítalans beri ábyrgð á því að starfsemi sjúkrahússins sé í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf sem ráðherra setur samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu er það á meginábyrgð forstjóra að fjármunir stofnunarinnar séu nýttir á árangursríkan hátt og þjónusta hennar sé viðunandi. Ákvæði 4. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2007 svarar að þessu leyti efnislega til ákvæðis 1. málsl. 2. mgr. 38. gr. stml. Í 2. málsl. 2. mgr. 38. gr. stml. er þó einnig tekið fram að forstöðumaður beri og ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Að því leyti sem ekki er mælt sérstaklega fyrir um annað í öðrum lögum, sbr. 3. gr. stml., verður að leggja ákvæði stml. um stjórnunarheimildir og þau sjónarmið sem af þeim verða leidd til grundvallar við úrlausn þessa máls. Við túlkun þeirra heimilda sem forstjóra Landspítalans eru fengnar sem forstöðumanni ríkisstofnunar samkvæmt stml. verður að líta til þess að þegar lögin voru sett höfðu þau í för með sér talsverðar breytingar á fyrirkomulagi ráðninga hjá ríkinu og þeim heimildum sem forstöðumenn höfðu til að stofna til útgjalda í því skyni. Með tilkomu stml. var það að mestu leyti sett í hendur forstöðumanns hverrar stofnunar fyrir sig hvort hann réði starfsmann en slíkar ákvarðanir höfðu áður verið háðar samþykki sérstakrar nefndar sem starfaði samkvæmt lögum nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana. Samkvæmt athugasemdum við frumvarp það er varð að stml. var með þessum breytingum stefnt að því að starfsmannafjöldi hjá stofnunum ríkisins yrði framvegis miðaður við raunverulega starfsmannaþörf á hverjum tíma en ekki við fyrirfram ákveðin stöðugildi. Í samræmi við þessi markmið Alþingis var kveðið sérstaklega á um það í 2. mgr. 5. gr. laganna að forstöðumenn réðu í önnur störf hjá stofnun en starf forstöðumanns og embættismanna, svo lengi sem lög mæltu ekki fyrir um annað. Þar var jafnframt mælt fyrir um að forstöðumenn hefðu rétt til að ráða tilhögun starfs og gefa starfsmanni fyrirmæli um framkvæmd þess, hvort sem það varðaði starf hans almennt eða einstaka grein þess eða greinar, sbr. 2. mgr. 8. gr. sömu laga. Af framangreindum ákvæðum og þeim sjónarmiðum sem byggt var á við setningu laganna um að auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnana og möguleika þeirra til að taka ákvarðanir er varða stjórnun og starfsmannahald, verður að ganga út frá því að það sé almennt á forræði forstöðumanns hverrar ríkisstofnunar að ákveða hvaða viðfangsefnum einstakir starfsmenn skuli sinna innan hennar, svo framarlega sem önnur lagaákvæði mæla ekki beinlínis fyrir um annað. Þessi tilhögun er í samræmi við þá ábyrgð sem lögð er á herðar forstöðumönnum um að stofnanir sem þeir veita forstöðu starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf, svo og að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnana sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt, sbr. 2. mgr. 38. gr. stml.. Telja verður að forstöðumenn ríkisstofnana hafi af þessum sökum nokkurt svigrúm á grundvelli stjórnunarheimilda sinna til að ákveða hvaða tilteknu viðfangsefnum á vegum stofnunar einstakir starfsmenn sinni. Þótt þessar stjórnunarheimildir forstöðumanns kunni að takmarkast annars vegar af reglum um réttindi starfsmanna stofnunarinnar og hins vegar af almennum reglum sem gilda um starfsemi hins opinbera, sbr. t.d. 19. gr. stml. og reglum XI. kafla stml., sem L hefur vísað til í málatilbúnaði sínum, er aftur á móti ekki unnt að útiloka að forstöðumaður stofnunar og starfsmaður komist að samkomulagi um hvaða verkefnum starfsmaður sinnir og að starfsmaður hætti störfum að ákveðnum tíma liðnum. Aðilar þessa máls hafa í málatilbúnaði sínum og flutningi málsins fyrir dómi vísað til þess samkomulags sem gert var 31. maí 2013 sem starfslokasamnings. Ekki er umdeilt að því leyti að samkomulagið fól í sér að K myndi ekki snúa aftur til starfa sinna sem starfsmannastjóri L og njóta áfram launa starfsmannstjóra, sbr. 1. gr. samkomulagsins. Samkomulagið markaði þannig starfslok hennar sem starfsmannastjóra L. Ekki verður þó fram hjá því litið að í 2. gr. samkomulagsins er gagngert kveðið á um að K skuli vera forstjóra spítalans til ráðgjafar um starfsmannamál á tímabilinu 1. júní 2013 til 31. maí 2017 og sinna öðrum verkefnum sem L kann að óska eftir og samkomulag næst um. Þá er kveðið sérstaklega á um það í 3. gr. samningsins að ef K býðst ekki sambærilegt starf og samkomulag næst um fyrir 31. maí 2017 skuli ráðningarsambandi hennar við spítalann ljúka þann dag. Í framburði fyrrverandi forstjóra L fyrir dómi kom fram að af hans hálfu hefði ekki verið litið á umrætt samkomulag sem starfslokasamning, heldur hefði hann gengið út frá því að K yrði áfram starfsmaður sjúkrahússins en sinnti öðrum verkefnum en hún hefði gert sem starfsmannastjóri L. Kveðst forstjórinn hafa litið svo á að K kæmi aftur til starfa þegar námsleyfi hennar lyki og tæki þá við nýju starfi. Um störf hennar hjá L gilti þá samkomulagið sem væri í gildi til 31. maí 2017 og hún yrði áfram starfsmaður L fram til þess tíma og héldi fyrri launum.

Í ljósi þessa framburðar fyrrverandi forstjóra L og orðalags samkomulagsins frá 31. maí 2013 að öðru leyti verður að leggja til grundvallar að í samkomulaginu hafi í reynd falist að K skyldu falin önnur verkefni á vegum L og að ráðningarsambandi hennar við sjúkrahúsið væri ólokið. Með vísan til þess sem að framan er rakið um svigrúm forstöðumanna ríkisstofnana til að fela starfsmönnum önnur verkefni á grundvelli stjórnunarheimilda sinna verður að telja að forstjóri L hafi, eins og atvikum er háttað í þessu máli, haft fulla heimild til að fela K önnur verkefni innan sjúkrahússins. Í samræmi við framangreint og þegar litið er til þess að í samkomulagi aðila frá 31. maí 2013 var aðeins mælt fyrir um að K skyldi áfram halda þeim launagreiðslum sem hún naut þá þegar í ráðningarsambandi sínu við L verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til að L aflaði sérstakrar fjárheimildar í því skyni að efna samkomulagið, enda var með því ekki stofnað til frekari fjárskuldbindinga af hálfu L umfram þær sem þegar voru til staðar í ráðningarsambandi aðila. Af þeim sökum verður að leggja til grundvallar að fyrrverandi forstjóri L hafi í senn haft heimild og verið bær til þess að gera umrætt samkomulag við K, sbr. 42. til 46. gr. stml. Með vísan til þeirrar niðurstöðu hafa sjónarmið um hugsanlega grandsemi K og sértekjur stefnda, sem tilteknar eru í ársreikningnum stefnda 2013 og 2014, ekki þýðingu fyrir úrlausn um kröfu K. Samkomulag það sem aðilar málsins gerðu 31. maí 2013 fól, eins og áður hefur komi fram, í sér að K skyldi gegna störfum áfram fyrir L og að ráðningarsambandi hennar lyki 31. maí ef henni byðist ekki annað starf sem samkomulag næðist um á þeim tíma. Með því að samningur þessi, og ráðning K samkvæmt samningnum, var á þennan hátt gerður tímabundinn var L ekki heimilt að slíta ráðningarsambandi aðila upp á sitt eindæmi, nema skilyrði til riftunar samningsins væru uppfyllt. Í þessu máli hefur ekkert komið fram um að skilyrði til riftunar samningsins væru uppfyllt. Þannig verður ekki séð að K hafi nokkru sinni hafnað því að koma aftur til starfa hjá L og taka þá að sér önnur verkefni hjá L en hún sinnti áður. Einu fyrirvarar hennar að því leyti lutu að því að hún héldi óbreyttum launakjörum sínum úr starfi starfsmannastjóra, í samræmi við það sem kveðið var á um í 1. og 4. gr. samkomulags aðila frá 31. maí 2013. Í þessu sambandi verður að geta þess að ekki er unnt að fallast á þá málsástæðu stefnda að það leiði af 3. og 4. gr. samkomulagsins að semja yrði um launakjör K upp á nýtt þegar henni yrði boðið nýtt starf. Slíkt samhengi milli launakjara K og hugsanlegra síðari breytinga á störfum hennar verður ekki ráðið af orðalagi þessara ákvæða. Enn fremur verður að telja að L verði að bera hallann af óvissu um merkingu ákvæða samkomulagsins að þessu leyti, enda var það forstjóri L sem hafði frumkvæði að samkomulaginu og naut við gerð þess aðstoðar yfirlögfræðings L. Hafa verður í huga að aðstaða K við gerð samkomulagsins var allt önnur. Hún var þá 59 ára gömul, hafði starfað mest allan hluta starfsævi sinnar hjá L og hafði nokkuð sérhæfða menntun og starfsreynslu. Þá verður alfarið að hafna þeirri málsástæðu L að K hafi borið skylda til að takmarka tjón sitt með því að fallast á samningstilboð L um að koma til starfa á lægri kjörum en mælt var fyrir um í 1. og 4. gr. samkomulags aðila frá 31. maí 2013. Morgunljóst er að ef K hefði gengið að slíku boði hefði hún þar með afsalað sér þeim rétti til óbreyttra launa sem kveðið var á um í samkomulagi aðila og eru grundvöllur kröfu hennar til efndabóta í þessu máli. Aðalkrafa K í málinu grundvallast á því að L beri að greiða K bætur sem svari til samtölu allra þeirra launagreiðslna sem hún átti tilkall til samkvæmt samkomulagi aðila frá 31. maí 2013 eftir að greiðslum til hennar var hætt í maí 2014. Krafa K vegna vanefnda L á samkomulaginu að þessu leyti byggist hins vegar á reglum um efndabætur sem miða að því að gera samningsaðila eins settan fjárhagslega og ef fullar efndir hefðu farið fram. Í ljósi þess að aðalkrafa K miðast við eingreiðslu allra launagreiðslna samkvæmt samkomulaginu og þannig hærri bætur en K hefði borið samkvæmt samkomulaginu verður ekki fallist á þá kröfu, enda hefur K ekki fært fram nein gögn um að hún hafi sætt frekara tjóni vegna ólögmætra vanefnda L en nemur greiðslum til hennar samkvæmt samkomulaginu. Með vísan til forsendna dómsins að öðru leyti féllst dómurinn á varakröfu K eins í dómsorði greinir um að L skuli greiða K þær greiðslur samkvæmt samkomulagi aðila frá 31. maí 2013 sem gjaldfallnar voru þegar málið var dómtekið og að viðurkennt verði að L sé skylt að greiða K laun mánaðarlega frá 1. nóvember 2014 til 31. maí 2017 á grundvelli samkomulagsins. Rétt er að taka fram að í kröfugerð K er ekki getið greiðslna sem gjaldfallið hafa samkvæmt samkomulaginu frá 1. nóvember til 1. desember 2013. Í dómi þessum er því ekki tekin afstaða til þeirra, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira