Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dómar uppkveðnir árið 2016

Á árinu 2016 voru kveðnir upp 19 dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess, 5 hæstaréttardómar, 12 héraðsdómar og 2 félagsdómar.

 Hér að neðan er að finna upptalningu á nefndum dómum ásamt atriðisorðum og reifunum:

 

1. Dómur Hæstaréttar frá 14. janúar 2016 í máli nr. 279/2015: Ákæruvaldið gegn G.

ÞAGNARSKYLDA. BROT Í OPINBERU STARFI.

G var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 136. gr. alm. hgl. nr. 19/1940 með því að hafa sent tölvuskeyti til tilgreinds manns með nafni og lýsingu á 13 ára gömlum dreng sem G hafði haft afskipti af í starfi sínu sem lögreglumaður auk upplýsinga um ástæðu afskiptanna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skv. 22. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 bæru lögreglumenn þagnarskyldu um þau atvik sem þeim yrðu kunn í starfi sínu eða vegna starfsins og leynt ættu að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna. Tæki þetta meðal annars til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt og sanngjarnt væri að leynt færu. Talið var að upplýsingar um nafn, aldur, búsetusvæði og andlegt ástand 13 ára drengs sem og tilgreining á ástæðu afskipta G af piltinum féllu ótvírætt þar undir. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að G hafði ekki áður hlotið refsingu, hann hefði aðeins greint einum manni frá upplýsingunum og brotið væri ekki stórfellt. Samkvæmt því og með hliðsjón af 74. gr. alm. hgl. var G ekki gerð refsing í málinu.

 

2. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. janúar 2016 í máli nr. E-4295/2014: A gegn íslenska ríkinu.

RIFTUN Á RÁÐNINGARSAMNINGI. UPPSÖGN. ÁMINNING.

Í málinu var deilt um lögmæti riftunar á ráðningarsamningi sem gerður var af U við A í janúar 2011. Ráðningarsamningurinn var ótímabundinn og þar sagði m.a. að uppsagnarfrestur væru þrír mánuðir og miðaðist uppsögn við mánaðamót. Þá sagði í samningnum að um réttindi og skyldur starfsmanns fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og skuli þau lög liggja til grundvallar við gerð ráðningarsamningsins auk kjarasamnings stéttarfélags, sem tilgreint er í samningnum að sé stéttarfélag lögfræðinga. Við sönnunarfærslu fyrir dóminum og af gögnum málsins þótti upplýst að A hefði komið að, flett upp og skoðað mál fyrrum eiginmanns síns svo sem rannsókn U leiddi í ljós, þótt ósannað væri að það hefði í öllum tilvikum verið með vilja gert. Ekki voru færðar sönnur á að A hefði í eigin fjárhagslega þágu eða til skaða fyrir U, D sjálfan eða aðra kröfuhafa hans, notfært sér upplýsingar sem hún aðeins hefði haft aðgang að í starfi sínu hjá U eða miðlað þeim upplýsingum. Þá varð heldur ekki séð að A hefði í starfi sínu tekið neinar ákvarðanir í málum D. Gegn andmælum yfirmanna A var ósannað að þeir hefðu vitað af eða veitt samþykki fyrir aðkomu A að málum fyrrum eiginmanns hennar. Féllst dómurinn á það með U að framganga A fæli í sér brot á starfsskyldum og að A, sem er löglærð, hafi mátt vera það fullljóst að athuganir hennar á málum D, þótt samþykki hans lægi fyrir um sumar þeirra, fælu í sér misnotkun á aðstöðu sem A hefði vegna starfs síns og að þær athuganir samræmdust ekki starfsskyldum A. Fram kemur í dómnum að þegar litið er til þeirra athafna A sem upplýst er að hafi verið ástæður slita U á ráðningarsambandi við A, þá þótti ljóst að þau slit ættu rætur að rekja til ástæðna sem falla undir 21. gr. stml. Um starfslok er fjallað í IX. kafla laganna, en samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skal veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Niðurstaða dómsins var að með riftun ráðningarsamningsins, án undangenginnar áminningar, braut U gegn skýrum fyrirmælum stml. um starfslok í tilefni af brotum á starfsskyldum sem fela í sér ávirðingar sem 21. gr. laganna tekur til. Riftun U á ráðningarsamningnum var stjórnvaldsákvörðun, sem var hluti af stjórnsýslu U. Með þeirri ráðstöfun telst U jafnframt hafa brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, enda var A ekki gefinn kostur á að bæta ráð sitt. Var riftun ráðningarsamningsins því dæmd ólögmæt og átti A rétt til skaðabóta frá Í vegna fjártjóns hennar. D´mi þessum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, sjá mál nr. 278/2016.

 

3. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2016: V gegn íslenska ríkinu.

TÍMABUNDIN LAUNALÆKUNN. KJARARÁÐ. AFTURKLÖLLUN STJÓRNVALDS-ÁKVÖRÐUNAR.

Máli þessu var áfrýjað til Hæstaréttar, sjá Hrd. nr. 135/2016.

 

4. Dómur Héraðsdóms Austurlands frá 5. febrúar 2016 í máli nr. E-52/2015: R gegn Vatnajökulsþjóðgarði.

TÍMABUNDINN RÁÐNINGARSAMNINGUR. KJARASAMNINGUR. VINNULAUNAMÁL. FJARVISTARUPPBÓT.

R réð sig til starfa hjá V samkvæmt tímabundnum ráðningarsamningi í júlí 2014. Samkvæmt samningnum starfaði R á tímabilinu 1. júlí til 20. ágúst 2014 í 100% starfi við landvörslu í L. Óumdeilt var að um kjör R hafi farið samkvæmt stofnanasamningi SGS annars vegar og U og V hins vegar, sem og kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og SGS vegna m.a. AFLs Starfsgreinafélags, sem tók gildi 1. maí 2011. Aðila greindi á um það hvort R bæri greiðsla fjarvistaruppbótar, sbr. gr. 2.3.10 í kjarasamningnum, til viðbótar við þegar greiddar launagreiðslur. Af því sem fram kom við málflutning og ráðið varð af stefnu og greinargerð var enginn ágreiningur um vinnudaga R á L samkvæmt framlögðum vinnuskýrslum eða önnur málsatvik. Einskorðast ágreiningur aðila þannig við túlkun ákvæða gr. 2.3.10 í kjarasamningnum. R byggði á því að hún hefði sinnt tímabundnu starfi á vinnustað í óbyggðum og að henni hafi ekki verið unnt að sækja vinnustað frá heimili sínu eða fastri aðstöðu vinnuveitanda í byggð. Vinnustaður R hafi ekki verið föst aðstaða hennar og krafist ferðalaga innan hvers fjarvistartímabils. Samfelldar fjarvistir R hafi verið umfram þrjá daga og hún hafi ekki fengið aðrar greiðslur vegna þeirra. R beri því fjarvistaruppbót samkvæmt grein 2.3.10.2, sbr. nánar grein 2.3.10.3 í kjarasamningi. Óumdeilt var að Lónsöræfi séu í óbyggðum en ekki byggð, og ekki sé hægt að sækja vinnu þar frá heimili eða fastri aðstöðu vinnuveitanda í byggð. Í niðurstöðu dómsins kom fram að óumdeilt var í málinu að starf R á Lónsöræfum var tímabundið, þ.e. yfir sumarmánuði 2014, og var því uppfyllt það skilyrði gr. 2.3.10.2 að fjarvistaruppbót greiðist vegna „tímabundinna starfa“. Þá taldi dómurinn það vafalaust að L og það húsnæði sem R bjó þar í á vegum vinnuveitanda síns séu „í óbyggðum“ í skilningi gr. 2.3.10.2. Hefur V hvorki haft uppi málsástæður né lagt fram gögn sem benda til annars en að það sé í reynd óumdeilt. Enginn ágreiningur var um það að R hafðist við í Múlakoti allt ráðningartímabilið, utan tveggja daga sem hún starfaði á Höfn við öflun aðfanga. Leit dómurinn því svo á að dvöl R þar, fjarri bæði heimili sínu og næstu föstu starfsaðstöðu V í byggð, á Höfn, hefði helgast af ákvörðun vinnuveitanda hennar. Var auk þess enginn ágreiningur í málinu um að aðstæður sem varða leiðina inn á Lónsöræfi, s.s. fjarlægðir og torfær vatnsföll, gerði það að verkum að vart gat talist raunhæft að sækja vinnu þangað daglega frá Höfn. Var V því dæmt til þess að greiða fjarvistaruppbót til R. Dómi þessum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, sjá mál nr. 444/2106.

 

5. Héraðsdómur Reykjavíkur frá 10. febrúar 2016 í máli nr. E-28/2015. K gegn íslenska ríkinu.

SKIPULAGSBREYTINGAR. NIÐURSKURÐUR. UPPSÖGN. TRÚNAÐARMAÐUR. MAT Á ÞVÍ HVERJUM VERÐI SAGT UPP STÖRFUM.

K starfaði sem sérfræðingur í því ráðuneyti sem þá hét sjávarútvegsráðuneyti. K varð síðar starfsmaður sameinaðs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis sem 1. september 2012 varð hluti af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í janúar 2014 barst K uppsagnarbréf frá A. Með bréfinu var K tilkynnt um uppsögn ráðningarsamnings og vísað til uppsagnarheimildar í ráðningarsamningi og 43. gr. stml. með samningsbundnum fjögurra mánaða fyrirvara. K var tilkynnt um að hann gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni og gerði hann það. K vakti um leið sérstaka athygli á því í beiðninni, að hann væri trúnaðarmaður starfsmanna ráðuneytisins sem tilheyra stéttarfélagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, og að sem trúnaðarmaður nyti hann sérstakrar verndar í starfi. A skilaði rökstuðningi þar sem ástæður uppsagnar voru sagðar vera niðurstaða fjárlaga 2014 þar sem Alþingi hefði ákveðið að auka hagræðingarkröfu á aðalskrifstofur ráðuneyta um 5%, sem þýddi að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þyrfti að spara 40 milljónir króna til viðbótar við 1,5% sparnaðarkröfu sem gerð hefði verið á haustdögum. Fjárframlög til aðalskrifstofu myndu því lækka samtals um 53 milljónir króna milli ár. Ekki væri hægt að gera ráð fyrir því að um tímabundna aðgerð væri að ræða. Þá var því lýst, að greiningarvinna í ráðuneytinu hefði leitt í ljós að þegar litið væri til fagskrifstofa ráðuneytisins, væri mest svigrúm til fækkunar á stöðugildum á skrifstofu þeirri sem K starfaði á. Fram kom í rökstuðningi að við mat á fækkun stöðugilda hafi verið litið til ýmissa atriða, s.s. faglegrar þekkingar, málastöðu og persónulegrar færni. Hvað varðaði stöðu K sem trúnaðarmanns sagði í dómi hérðaðsdóms að virtu því virtu því sem rakið var í dómnum um þau gögn varðandi trúnaðarmenn í ráðuneytinu væri ljóst að K var ekki kosinn trúnaðarmaður í formlegri kosningu á síðustu tveimur árum áður en honum var sagt upp störfum í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, svo sem lagaákvæði mælir fyrir um. Eingöngu var um það að ræða að öllum starfsmönnum ráðuneytisins var tilkynnt um að K væri trúnaðarmaður rétt eftir að ráðuneytið var stofnað eftir sameiningu ráðuneyta í september 2012. Taldi dómurinnn að ákvæði 1. mgr. 28. gr. laga nr. 94/1986 yrðu ekki skilin á annan veg en þann, að það beri undantekningarlaust að fara fram kosning trúnaðarmanns til tveggja ára í senn. Það var ekki gert. Trúnaðarmenn njóta sérréttinda og verndar samkvæmt ákvæðum 30. gr. laganna, umfram aðra starfsmenn, m.a. með ákvæði 4. mgr. lagagreinarinnar sem mælir fyrir um að trúnaðarmenn skuli að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni. Þegar litið er til þeirrar sérstöku verndar, sem trúnaðarmönnum er tryggð umfram aðra starfsmenn í ákvæðum 30. gr. laganna, verður að skýra ákvæði um trúnaðarmenn þröngri lögskýringu. Leit dómurinn svo á að stefnandi hafi ekki haft stöðu kjörins trúnaðarmanns í skilningi ákvæða V. kafla laga nr. 94/1986 Í niðurstöðu dómsins kemur einnig fram að samkvæmt 2. mgr. 38. gr. stml. ber forstöðumaður ábyrgð á að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar, sem hann stýrir, sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Yfirstjórn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins komst að þeirri niðurstöðu, eftir að sparnaðarkröfur Alþingis í fjárlagafrumvarpi 2014 lágu fyrir, að nauðsynlegt væri að fækka starfsmönnum ráðuneytisins. Litið hefur verið svo á að játa beri forstöðumönnum rúmar heimildir við slíkar aðstæður og sætir slík ákvörðun ekki öðrum takmörkunum en þeim að aðgerðir, sem gripið er til, þurfa að vera í samræmi við lög og meginreglur stjórnsýsluréttar. Ekki er í stml. að finna reglur um það, hvað skuli ráða vali forstöðumanna á starfsmanni sem segja skal upp við þær aðstæður sem hér um ræðir en ljóst er að vali þeirra eru settar skorður af grunnreglum stjórnsýsluréttar. K byggði einnig á því, að A hafi verið unnt að grípa til vægari úrræða en uppsagnar með því að verða við ósk K um að vera færður til í starfi yfir á aðra skrifstofu. Í dómnum kemur fram að hér verði að líta til þess sem fram kom í gögnum málsins og framburði þeirra S og C um að hagræðing innan ráðuneytisins hafi náð til allra skrifstofa þess og að skrifstofa sú sem K starfaði á hafi sætt fækkun um eitt stöðugildi. Kváðu þau S og C það vera ástæðu þess að tilfærsla K í starfi hefði ekki verið möguleg. Af hálfu K hafi ekki verið færð fram frekari rök fyrir því að slík tilfærsla hefði allt að einu getað komið til greina. Að því gættu og öllu framangreindu virtu féllst dómurinn ekki á það með K að ómálefnalegar ástæður hafi ráðið því að hann var ekki færður til í starfi og að með því hafi ekki verið gætt meðalhófs. Í ljósi þess, sem rakið vari í dómnum um greiningarvinnu ráðuneytisins á öllum skrifstofum þess vegna hagræðingarkröfu fjárveitingarvaldsins, var það mat dómsins að K hefði ekki tekist að færa fyrir því haldbær rök að A hefði verið unnt að ná þeirri hagræðingu með öðrum og vægari hætti. Dómi þessum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, sjá mál nr. 331/2016.

 

6. Héraðsdómur Reykjavíkur frá 28. apríl 2016 í máli nr. E-3482/2014. A gegn íslenska ríkinu.

SKIPULAGSBREYTINGAR. NIÐURSKURÐUR. UPPSÖGN. MAT Á ÞVÍ HVERJUM VERÐI SAGT UPP STÖRFUM.

A starfaði sem sjúkraliði við HSS á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð í Grindavík þegar A var sagt upp störfum í mars 2014. Starfshlutfall A var 60% samkvæmt ráðningarsamningi en það var síðar lækkað í 40% starfshlutfall vegna náms A með vinnu. A hélt því fram að fyrir hafi legið að starfshlutfall hennar myndi aukast í 100% yfir sumartímann, en I mótmælti því. I lýsti málavöxtum svo að hjúkrunarheimilið Víðihlíð hefði verið skráð sem hjúkrunardeild með 25 rúmum til ársins 2014 og fjárveitingar til þess tíma miðast við þann fjölda rúma. Einbýlum hafi verið fjölgað á árinu 2013 þannig að hámarksfjöldi rýma varð 20. Fjárheimildir HSS vegna Víðihlíðar hafi þó ekki lækkað á sama tíma, en fjárheimildin hafi verið nýtt áfram í rekstur heimilisins. Í mars 2014 hafi velferðarráðuneytið tekið þá ákvörðun að Víðihlíð yrði skráð sem 20 rúma hjúkrunardeild og fjárveiting vegna fimm rúma hafi þá flust til HSS í Reykjanesbæ, sem yrði nýtt til reksturs fimm nýrra rúma til hvíldar og endurhæfingar fyrir aldraða. Snemma árs 2014 hafi HSS því staðið frammi fyrir því að fjárveitingar til reksturs hjúkrunarheimilisins Víðihlíðar í Grindavík hafi lækkað um 20% frá fyrra ári. Að auki hafi rekstri verið hætt á 18 tímabundnum hjúkrunarrýmum hjá HSS í Reykjanesbæ í lok apríl 2014. Fjárveiting vegna þessara 18 rýma hafi verið 150 milljónir króna, en árið 2014 hafi sú fjárveiting lækkað um 100 milljónir króna í apríl það ár og verið engin árið 2015. Um verulegar breytingar hafi verið að ræða á rekstri HSS á árinu 2014 og hafi stjórnendur stofnunarinnar talið að ekki yrði hjá því komist að fara í viðamikla endurskipulagningu á starfsemi heimilisins að Víðihlíð og rekstri þess. Í ljósi 20% niðurskurðar á fjárframlögum til rekstrar Víðihlíðar og þess að launakostnaður í rekstri hjúkrunarrýma á heimilinu hafi verið yfir 80% kostnaðar, hafi ekki verið hjá því komist að fækka starfsfólki á hjúkrunarheimilinu. Samhliða því hafi jafnframt verið farið út í ýmsar hagræðingaraðgerðir með breytingu á rekstri heimilisins á öllum sviðum og skoðað hvar væri hægt að hagræða í rekstri. Ræsting hafi verið boðin út, eldhús HSS í Reykjanesbæ samnýtt og vaktafyrirkomulagi hjá hjúkrunarfræðingum breytt. Til viðbótar var talið að leggja þyrfti niður 6,34 stöðugildi sem 10 starfsmenn hafi sinnt. I kveður þarfagreiningu hafa verið gerða á rekstri Víðihlíðar til að meta hvaða störf yrði að leggja niður með hliðsjón af þörfum stofnunarinnar. Framkvæmdastjórn Víðihlíðar hafi ákveðið að fara svokallaða blandaða leið, þ.e. að í Víðihlíð myndu áfram starfa bæði faglærðir og ófaglærðir starfsmenn. Ákveðið hafi verið að framkvæma samræmt hæfnismat hjá bæði sjúkraliðum og ófaglærðu starfsfólki heimilisins til að meta og taka ákvörðun um hverjum yrði sagt upp störfum. Starfsmannastjóri HSS ásamt fagaðilum hafi unnið matið en haft hafi verið að leiðarljósi að vinna faglega að uppsagnarferli með það að markmiði að tryggja áfram góða þjónustu Víðihlíðar með hæfasta starfsfólkinu, innan þess ramma sem fjárheimildir settu. Yfirhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri í Víðihlíð hafi tekið sér nokkurn tíma í að fara yfir starfsmenn hvor í sínu lagi og meta hvern og einn starfsmann samkvæmt lista frá starfsmannastjóra. Við matið hafi verið horft til allra þátta, bæði jákvæðra og neikvæðra. Að loknu mati þessara aðila hafi matsblöðunum verið skilað til starfsmannastjóra sem hafi fært inn atriði varðandi menntun og starfsreynslu. Heildarniðurstaða matsins hafi verið sú að allir starfsmenn Víðihlíðar hafi verið hæfir til síns starfs, en ákveðnir starfsmenn hafi þó skorað lægra en aðrir og til þess hafi verið litið við ákvörðun um það hvaða starfsmönnum yrði sagt upp. Við ákvörðun um það hvaða þættir réðu við matið, kveður I að nokkru leyti hafa verið horft til gilda HSS og þeirrar staðreyndar að mikið álag væri á stofnuninni. Til þess að stofnunin gæti náð sem best markmiðum sínum í rekstri, hafi verið talið afar mikilvægt að hæfasta starfsfólkið yrði áfram við störf. Þau gildi sem horft hafi verið til hafi verið umhyggja fyrir sjúklingum, samstarfsmönnum og samfélagi, að stofnunin hefði að leiðarljósi fagmennsku, gagnreynda þekkingu og öguð vinnubrögð og að stofnunin sýndi skjólstæðingum sínum ævinlega fulla virðingu. Við matið hafi vægi ákveðinna matsþátta verið skilgreint fyrir fram, en fyrir umhyggju, virðingu, fagmennsku, samskiptahæfni, verkfýsi, ábyrgð, reynslu og fagmenntun var gefin einkunn, frá 1-10, samtals að hámarki 80. Einkunn frá 1-5 var gefin fyrir snyrtilegheit, stundvísi, jákvæðni og hvort starfsmaður tæki tilsögn, samtals að hámarki 20 stig. A fékk fæst stig sjúkraliða eða 49 stig og næsti sjúkraliði fyrir ofan hana 54 stig. Aðrir sjúkraliðar fengu 70 stig eða meira af 100 mögulegum stigum. Fram kom í niðurstöðu dómsins að forstjóri stofnunarinnar  hafi komst þeirri niðurstöðu, í ljósi fyrirliggjandi ákvarðana um fjárveitingar til reksturs hjúkrunarheimilisins í Víðihlíð, að nauðsynlegt væri að fækka starfsmönnum þar og til þess að ná fram hagræðingu í rekstri vegna niðurskurðar á fjárveitingum var ákveðið að segja A upp störfum. Að virtu því sem fram kom í málinu taldi dómurinn að ekki yrði fallist á það með A að ástæða uppsagna starfsmanna hafi verið önnur en erfið fjárhagsstaða stofnunarinnar. A hafi ekki stutt það gögnum um að hagræðingin hafi verið veigalítil og að henni hefði mátt ná fram með öðrum hætti en uppsögnum án mikillar fyrirhafnar, og hafnaði dómurinn þeirri málsástæðu. Þar sem hagræðing í rekstri lá uppsögnum til grundvallar var einnig hafnað málsástæðu A um að uppsögnin hefði verið háð undanfarandi áminningu og andmælarétti, sbr. 2. málslið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996. Jafnframt sagði í niðurstöðu dómsins að ekki væri efni til að hnekkja því mati að réttmætt hafi verið að segja A upp starfi með hliðsjón af þörfum stofnunarinnar og fyrirliggjandi lækkun fjárheimilda. Þá var ekki farið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til miðað við aðstæður. Uppsögnin var reist sjálfstætt á því að fækka þyrfti starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri og staðið var faglega að því að meta hvaða starfsmenn nýttust starfseminni best eftir fækkun. Uppsögnin var í samræmi við fyrri málslið 43. gr. og síðari málslið 44. gr. laga nr. 70/1996, hún var byggð á málefnalegum sjónarmiðum og meðalhófs var gætt. Var I því sýknað af kröfum A.

 

7. Dómur Félagsdóms frá 29. apríl 2016 í máli nr. 1/2016: Læknafélag Íslands gegn íslenska ríkinu vegna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

ÁLAG Á LAUN. HELGUNARÁLAG. UPPSÖGN Á RÁÐNINGARBUNDNUM STARFSKJÖRUM.

L krafist þess að viðurkennt yrði með dómi að H hefði brotið gegn ákvæði 3.2.4 í kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands með því að segja upp ráðningarbundnum starfskjörum V, sem fólust í greiðslu álags, samtals 15% af launaflokki og launaþrepi. Fyrir lá í málinu að heimild til að greiða heilsugæslulæknum laun með tvenns konar hætti var rakin til úrskurðar kjarnanefndar frá 15. október 2002. Þar var því lýst að annars vegar væri heimilt að greiða laun í formi fastra mánaðarlauna fyrir 100% starf, sbr. grein IX. 1. A, sem heimilaði heilsugæslustöð að greiða lækni allt að 15% álag ofan á föst mánaðarlaun, enda sinnti hann ekki öðrum launuðum störfum utan heilsugæslunnar, eða hins vegar í formi svokallaðra samsettra launa, sbr. grein IX. 1. B, þar sem heilsugæslulæknir hafi að hluta fengið greidd föst mánaðarlaun og að hluta afkastatengd laun samkvæmt gjaldskrá. Samkvæmt þessu gat það ekki farið saman að fá greidd hin svokölluðu samsettu laun annars vegar og hins vegar 15% álag. Þannig sýnist hafa verið gert ráð fyrir því í úrskurðinum að annað fyrirkomulagið útilokaði hitt. Eftir að farið var að semja um laun heilsugæslulækna í kjarasamningum á árinu 2006 hefur framangreindu fyrirkomulagi ekki verið breytt. Þvert á móti hafa aðilar kjarasamningsins samið um að framlengja þetta fyrirkomulag. Þannig segir í bókun 5 með gildandi kjarasamningi aðila, sem undirritaður var 7. janúar 2015 að núverandi fyrirkomulag á greiðslum fyrir gjaldskrárverk, eins og nánar er lýst í bókuninni, haldi gildi sínu þar til aðilar verði sammála um nýtt fyrirkomulag. Fyrir liggur að slíkt samkomulag hefur ekki verið gert. Dómurinn taldi að enn væri í fullu gildi sú regla sem átti rót sína að rekja til áðurnefnds úrskurðar kjaranefndar og sem aðilar hafa samið um að gilti áfram. Taldi dómurinn að skýra bæri ákvæði 3.2.4 í gildandi kjarasamningi til samræmis við framangreinda bókun, þannig að ekki geti verið um að ræða að laun séu bæði greidd með helgunarálagi og líka sem samsett laun, heldur að annað útiloki hitt. Féllst dómurinn því ekki á það með L að uppsögn H á umræddum ráðningarbundnum starfskjörum V hafi falið í sér brot gegn ákvæði 3.2.4 í kjarasamningi aðila málsins. Jafnframt féllst dómurinn ekki á þá kröfu L að viðurkennt yrði að H bæri að greiða V 15% álag á laun sín samkvæmt ákvæði 3.2.4 frá 7. janúar 2015. Var Í því sýknað af öllum kröfum L.

 

8. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. júní 2016 í máli nr. E-4045/2015: L gegn íslenska ríkinu.

LÖGREGLUMAÐUR. SLYS VIÐ ÆFINGU Á HLAUPABRETTI. BAKVAKT.

L varð fyrir slysi við æfingar í líkamsræktarstöð. L, sem er lögreglumaður, var umrætt sinn á bakvakt og var að hlaupa á hlaupabretti í íþróttasalnum. L setti bakvaktasímann á brúnina á mælaborði hlaupabrettisins sem L kveðst hafa oft gert áður án vandræða. Þegar L var að hlaupa hafi vaktsíminn dottið niður á brettið. L ætlaði að reyna að ná honum í fallinu en við það féll L sjálf niður á hlaupabrettið, á hnén og með hendurnar fram fyrir sig. Því næst skaust L af hlaupabrettinu og út á gólf. L stóð upp og fann strax fyrir sársauka í hnjám, sérstaklega vinstra megin. Ágreiningslaust var í málinu að 1. málsl. 1. mgr. 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, veitir lögreglumönnum talsvert ríkari rétt en gerist og gengur almennt hjá öðrum starfsstéttum. Í ákvæðinu er ríkissjóði gert skylt að bæta lögreglumönnum líkamstjón og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Ekki var heldur ágreiningur um það í málinu að ábyrgð ríkissjóðs samkvæmt ákvæðinu er, að uppfylltum öðrum bótaskilyrðum, hlutlæg. Í niðurstöðu dómsins kom fram að þótt gerð sé krafa um það, m.a. í 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, að lögreglumenn skuli vera svo á sig komnir andlega og líkamlega að þeir geti gegnt starfinu, væri ekki hægt að fallast á að það að halda sér í góðu formi teldist til athafna sem þeim sé skylt að sinna vegna starfa sinna, þótt eindregið væri hvatt til þess að stunda líkamsþjálfun, og vafalaust að meginþorri lögreglumanna gerir það. Hvatinn væri meðal annars sá að standist lögreglumenn þrekpróf sem þeir geta kosið að gangast undir, fá þeir hækkun í launum. Dómurinn taldi hins vegar ekki hægt að fallast á það að ástundun líkamsræktar og –þjálfunar væri þannig í öllum tilvikum vegna starfsins í þeim skilningi að tryggi þeim rétt skv. 30. gr. laganna. Taldi dómurinn einnig ekki hægt að fallast á að sú staðreynd að L var á bakvakt þegar slysið varð leiði til þess að slysið hafi átt sér stað við rækslu starfans í skilningi 30. gr. Taldi dómurinn að ekki yrði litið svo á, hvorki almennt eða samkvæmt fyrirliggjandi kjarasamningi að starfsmaður sem sinnti bakvakt væri við störf. Á það hvorki við í skilningi 30. gr. eða kjarasamnings þess er um störf L gildir. Dómurinn taldi þannig að 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sem slík veiti L ekki þann rétt sem hún krafði I um í málinu. Var I því sýknað af kröfu L.

 

9. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. júní 2016 í máli nr. E-2815/2015: S gegn íslenska ríkinu.

ÁMINNIG. BROT Í STARFI.

S, sem var á frívakt, fékk tilkynningu símleiðis um að hreindýr hefði fest sig í girðingu við A. Var S á þessum tíma aðalvarðstjóri í lögreglunni á H. S tók þá ákvörðun að sinna málinu sjálfur, þó svo hann væri ekki á vakt. S fór á lögreglustöðina og nálgaðist þar einkennisfatnað, lögreglubifreið og skotvopn til að sinna verkefninu. S ræddi stuttlega við vakthafandi lögreglumann og lét hann vita af ráðagerðum sínum og hélt síðan austur að A. S tók þá ákvörðun að aflífa hreindýrið þar sem það var töluvert sært. Að sögn S færði hann skrokkinn frá þjóðveginum þar sem ekki yrði hægt að sækja skrokkinn til urðunar fyrr en næsta dag. Tók S garnasýni úr dýrinu og skar úr því vöðva til að senda til N vegna sýnatöku úr hreindýrum. Frá vettvangi ók S lögreglubifreiðinni hringveg inn í B og að sumarhúsi sínu þar. Þaðan ók S skömmu síðar til baka á lögreglustöðina. Þar sem nokkuð dróst að S kæmi aftur ákváðu tveir vakthafandi lögreglumenn, sem þá voru á lögreglustöðinni að athuga með ferðir lögreglubifreiðarinnar í ferilvöktunarforriti lögreglunnar. Sáu þeir að lögreglubifreiðinni var ekið hringveginn inn í B og að sumarhúsi S og þaðan aftur klukkustund síðar áleiðis til H. Við komu á lögreglustöðina hitti S aftur fyrir vakthafandi lögreglumann og gekk frá sýnunum í frysti. Vakthafandi lögreglumaður ákvað að skoða málið nánar. Fór hann á vettvang þar sem hreindýrið hafði verið aflífað. Við skoðun á hreindýrinu kom í ljós að hryggvöðvar beggja vegna hryggs höfðu verið skornir úr dýrinu, auk þess sem dýrið hafði verið skorið á háls og blóð látið renna úr því. Lögreglumaðurinn dró þá ályktun af verksummerkjum að S hefði viljað leyna því að hann hefði haft á brott með sér hryggvöðva dýrsins. Lögreglumaðurinn hafði samband við yfirlögregluþjón vegna málsins og í framhaldi ákvað yfirlögregluþjónninn að vettvangur skyldi rannsakaður og ljósmyndaður og skýrsla gerð um málið. Vakthafandi lögreglumaður fór ásamt öðrum lögreglumanni á vettvang um kvöldið. Í skýrslu sem gerð var vegna málsins kom fram að umrætt dýr hafi ekki verið tiltakanlega lítið að sjá eða veikburða. Með bréfi í desember 2010 voru gögn málsins send ríkissaksóknara til meðferðar á grundvelli 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Með bréfi í desember 2010 tilkynnti ríkissaksóknari lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að hann hefði tekið til rannsóknar ætlað brot S í starfi. Ríkissaksóknari óskaði eftir því að lögreglustjóri myndi rannsaka málið með því að taka skýrslur af S og vitnum. Í framhaldi aflaði lögreglustjóri heimildar til húsleitar á heimili S og í sumarhúsi hans í B. Með bréfi í janúar 2011 tilkynnti sýslumaðurinn á E S að til athugunar væri að áminna hann vegna háttsemi í tengslum við aflífunina á hreindýrinu. Þau vinnubrögð að hafa farið á lögreglubifreið á vettvang þar sem S hafi aflífað hreindýrið og tekið hryggvöðva þess til eigin nota, eins og sannast hafi þegar hann hafi framvísað kjötinu við húsleit á heimili sínu í desember 2010, væru ekki talin samrýmast starfi hans. Hafi S misnotað stöðu sína, sýnt af sér ósæmilega hegðun sem ekki samrýmdist lögreglustarfinu og væri til þess fallin að valda álitshnekki og varpa rýrð á starf hans og þar með á störf annarra lögreglumanna á lögregluvarðstofunni. Hefði S með þessu brotið alvarlega af sér í starfi og gegn 21. gr. stml. Var S gefinn kostur á að tjá sig um efni málsins áður en ákvörðun um áminningu væri tekin. S mótmælti þeim áformum að honum yrði veitt áminning. S var síðan veitt áminning í starfi með bréfi sýslumanns í mars 2011. Með ákæru ríkissaksóknara í september 2011 var sakamál höfðað á hendur S fyrir brot í opinberu starfi. Honum var gefið að sök að hafa misnotað stöðu sína sem aðalvarðstjóri og séð til þess að hann sinnti sjálfur aflífun særðs hreindýrs undir því yfirskyni að hann væri að sinna verkefni lögreglu þegar markmið hans hafi verið að komast yfir kjöt af dýrinu til eigin nota. Í því skyni hafi hann notfært sér búnað lögreglu til að skera úr dýrinu hryggvöðva sem hann hafi síðan haft heim með sér. Brot S var talið varða við 139. gr. alm. hgl. Með dómi Héraðsdóms Austurlands frá 15. maí 2012 var S sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Með bréfi í júní 2012 baðst S lausnar frá embætti aðalvarðstjóra. Í bréfinu vísaði S til heilsubrests og tiltók í því sambandi áverka sem hann hlaut við handtöku haustið 1999. Afleiðingarnar hefðu verið stigvaxandi og algerlega óvíst um bata næstu mánuði. S höfðaði mál gegn I og krafðist m.a. þess að áminning er sýslumaðurinn á E veitti honum í mars 2011 yrði ógilt. Fram kom í niðurstöðu héraðsdóms að skv. 21. gr. skuli forstöðumaður veita starfsmanni skriflega áminningu ef starfsmaðurinn hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. Í dómnum segir að S greindi frá því við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu að hann væri ekki með neitt hreindýrakjöt á heimili sínu. Var það rangt þar sem þar var að finna kjötstykki úr því hreindýri sem hann hafði aflífað nokkrum dögum áður. Leyndi hann með því töku sinni á umræddu kjöti og tileinkaði sér jafnframt eign í opinberri vörslu. S var á þessum tíma starfandi lögreglumaður. Taldi dómurinn að slík háttsemi væri í alla staði óásættanleg og ósæmileg og ekki í samræmi við starf S sem lögreglumanns. Um var að ræða alvarlegt brot S í starfi. Á þeim grundvelli taldi dómurinn ekki efni til að verða við kröfu S um ógildi áminningarinnar.

 

10. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. júlí 2016 í máli nr. E-4238/2015: Ö gegn Ríkissjóði Íslands.

UPPSÖGN. SKIPULAGSBREYTING. NIÐURLAGNING Á STARFI. BIÐLAUN. GREIÐSLUR Á BIÐLAUNATÍMA.

Ö var tilkynnt af forstjóra HV að ákveðið hefði verið að leggja niður starf hans sem yfirlæknis heilsugæslunnar hjá sömu stofnun, frá 1. janúar 2015 að telja. Fram kom í bréfinu að ástæðan fyrir niðurlagningu starfsins væri sameining HV við HP. Ö taldi að niðurfelling á starfi hans sem yfirlæknis hafi verið ólögmæt og valdið honum miska og að önnur sjónarmið hafi ráðið för en sameining. Í bréfi HV kom fram að frá 1. janúar 2015, ætti Ö rétt á biðlaunum í tólf mánuði, skv. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, sbr. 34. gr. stml. Aðilar greindu á um hvort Ö hefði verið boðið starf sem almennur heilsugæslulæknir við hina nýju sameinuðu stofnun en Ö hætti störfum hjá HV og hóf að taka biðlaun frá 1. janúar 2015 en hóf aftur störf hjá HV í lok biðlaunatímans. Með bréfi í desember 2014, mótmælti formaður stjórnar Læknafélags Íslands niðurlagningu á stöðu Ö og taldi hana óheimila og var vísað í því sambandi til 5. gr. reglugerðar um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007. Með svarbréfi í febrúar 2015 frá forstjóra HV var sjónarmiðum Læknafélagsins hafnað og bent á að nýtt skipurit hafi verið staðfest af ráðherra og hafi verið farið í öllu eftir lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og ekki farið í bága við reglugerð nr. 787/2007. Í febrúar 2015 sendi Læknafélagið erindi til heilbrigðisráðherra þar sem mótmælt var niðurfellingu á stöðu Ö og óskað eftir fundi með ráðherra. Var sá fundur haldinn í mars 2015 en degi áður hafði verið birt reglugerð nr. 215/2015, þar sem meðal annars var breytt ákvæðum 5. gr. reglugerðar um heilbrigðisstofnanir nr. 787/2007. Í greinargerð R kemur fram að láðst hafi að afmá umrætt reglugerðarákvæði þegar lög nr. 59/2010 voru sett en þau breyttu ákvæðum laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Með lögunum hafi verið aukið á sveigjanleika í starfsemi heilbrigðisstofnana á þann hátt að stjórnendur væru ekki fleiri en nauðsynlegt væri fyrir starfsemina. Ö taldi einnig að þau biðlaun sem hann fékk í tólf mánuði hafi ekki tekið mið af gæsluvöktum. Taldi Ö það leiða af ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamningar lækna til þess að það bæri að greiða honum fyrir gæsluvaktir á biðlaunatíma. R taldi að Ö hefði ekki átt rétt til biðlauna í tólf mánuði heldur eingöngu í þrjá mánuði og ætti engin vangreidd laun vegna gæsluvakta. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að í dómaframkvæmd hafi forstöðumönnum ríkisstofnana verið veittar rúmar heimildir til að breyta störfum, enda séu þær breytingar reistar á málefnalegum sjónarmiðum og ekki meira íþyngjandi en nauðsyn ber til. Ö var afhent bréf forstjóra HV í nóvember 2014 þess efnis að starf hans sem yfirlæknis hafi verið lagt niður og ætti Ö rétt á biðlaunum í 12 mánuði. Ekki var upplýst í málinu hvort Ö hafi boðist starf sem almennur heilsugæslulæknir við hina sameinuðu stofnun eða hvort hann hafi leitað eftir því að starfa þar áfram. Fyrir lá að Ö sótti ekki formlega um starf hjá sameinaðri HV og fór á biðlaun 1. janúar 2015. Taldi dómurinn ósannað að Ö hafi ekki átt þess kost að starfa áfram sem almennur heilsugæslulæknir við hina sameinuðu heilbrigðisstofnun og að einnig væri ósannað hvort ákvörðunin hafi verið meira íþyngjandi er nauðsyn bar til. Ö taldi að raunveruleg ástæða uppsagnar hans hafi verið allt önnur en fram komi í bréfi HV í nóvember 2014, og ætti rætur að rekja til mikils ágreinings milli nokkurra lækna þar á meðal Ö gegn yfirmanni hjá stofnuninni. Vegna þessa ágreinings hafi aldrei staðið til að ráða Ö til hinnar nýju sameinuðu stofnunar. Fram kemur í dómnum að um meintan ágreining verði ekkert fullyrt af gögnum málsins, en upplýst var í málinu að Ö hóf störf hjá HV eftir að biðlaunatíma hans lauk. Taldi dómurinn að Ö hefði ekki sýnt fram á að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið för þegar staða hans sem yfirlæknis var lögð niður hjá HV og breytir engu um þá niðurstöðu þótt ráðuneyti heilbrigðismála hafi ekki breytt ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 787/2007, sem kveður á um störf yfirlækna hjá heilsugæslustöðvum, fyrr en í febrúar 2015. Var HV sýknað af þeirri kröfu Ö að viðurkennt yrði að uppsögn hans úr starfi yfirlæknis heilsugæslunnar hjá HV hafi verið ólögmæt. Um kröfu Ö um greiðslu fyrir gæslubakt 1 á biðlaunatíma segir í dómnum að þrátt fyrir að umræddar gæsluvaktir 1 feli ekki í sér viðveruskyldu þá fylgi þeim sú kvöð að vera undir það búinn að vera kallaður til vinnu með skömmum fyrirvara. Þegar starf Ö var lagt niður og hann hóf að taka biðlaun losnaði Ö undan þeirri starfskvöð sem hann hafði þegið greiðslur fyrir. Féllst dómurinn því ekki á að Ö ætti rétt á greiðslu vegna gæsluvaktar 1 á biðlaunatímanum. Dómi þessum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, sjá mál nr. 650/2016.

 

11. Héraðsdómur Reykjavíkur frá 15. júlí 2016 í máli nr. E-1967/2016. Félag íslenskra flugumferðarstjóra gegn íslenska ríkinu og Samtökum atvinnulífsins.

LÖG Á VERKFALL. STJÓRNARSKRÁ. MANNRÉTTINDASÁTTMÁLI EVRÓPU. GERÐARDÓMUR. SÁTT FYRIR GERÐARDÓMI.

Aðilar deildu um það hvort lög nr. 45/2016 gengu gegn ákvæðum 74. gr. stjórnarskrár um félagafrelsi og ákvæði 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í 1. gr. laganna er mælt fyrir um að verkfallsaðgerðir F gagnvart Isavia ohf., svo og frekari vinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir F, sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lögin ákveða, séu óheimilar frá gildistöku laganna og á gildistíma ákvarðana gerðardóms skv. 2. gr. laganna. Í málinu var ágreiningslaust að þær takmarkanir, sem gerðar voru á réttindum félagsmanna F, voru gerðar með lögum, sem sett voru með stjórnskipulegum hætti. Hins vegar var deilt um það hvort þessar takmarkanir gætu helgast af tilliti til almannaheilla, verndar heilsu manna eða réttindum þeirra og frelsi. Þá var deilt um það hvort nauðsyn hefði borið til þessara takmarkana og meðalhófs hefði verið gætt með lögum nr. 45/2016. Fram kom í dómnum að það væri á valdi löggjafans að velja á milli kosta þegar ákvörðun er tekin um löggjafarmálefni og hefði hann nokkurt svigrúm við mat á þeim hagsmunum sem liggja til grundvallar. Það væri síðan á valdi dómstóla að leysa úr því hvort lög samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrár. Við setningu laga nr. 45/2016 hefur löggjafinn metið það svo að grípa þyrfti inn í verkfallsaðgerðir F á grundvelli brýnna almannahagsmuna og stuðst við gögn sem lágu fyrir við setningu laganna. Fram kemur í dómnum að telja verði að markmið með setningu laga nr. 45/2016 hafi verið að tryggja rétt annarra, stuðla að því að íslensk stjórnvöld gætu staðið við þjóðréttarlegar skuldbindingar og stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 167/2002 kemur fram að efnahagslegar forsendur geti verið fyrir hendi sem heimili slíkar takmarkanir sem hér um ræðir, m.a. vegna réttinda annarra og getu ríkins til að standa við framtíðarskuldbindingar sínar. Þá kemur fram í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli 38190/97, frá 27. júní 2002, viðurkenning á því að efnahagslegar forsendur geti verið fyrir hendi sem heimili takmarkanir og skerðingu á verkfallsréttindum. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur m.a. fram að það hafi verið mat löggjafans að grípa þyrfti inn í verkfallsaðgerðir F gagnvart Isavia ohf. og frekari vinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir F á grundvelli brýnna almannahagsmuna. Féllst dómurinn ekki á með F að með lagasetningunni hafi verið brotið gegn réttindum F skv. 74. gr. stjórnarskrárinnar eða 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða samþykktum ILO, Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nr. 87 og 98, eða gegn 6. gr. félagsmálasáttmála Evrópu. Ekki voru efni til að hnekkja mati löggjafans, sem byggði á málefnalegum forsendum, á nauðsyn setningar laga nr. 45/2016. Var I því sýknað af kröfum F. F áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar, sjá dóm Hæstaréttar í máli nr. 556/2016.

 

12. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. ágúst 2016 í máli nr. E-3705/2014: A gegn íslenska ríkinu og Tollstjóra.

FRÍTÖKURÉTTUR.

A krafðist þess aðallega að viðurkennt yrði með dómi að hann hefði áunnið sér frítökurétt, alls 476,35 vinnustundir, samkvæmt grein 2.4.5 í kjarasamningi Tollvarðafélags Íslands og íslenska ríkisins, vegna starfa sinna hjá embætti Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli og embætti Tollstjóra á tímabilinu 16. júní 2001 til og með 11. desember 2005. T hafnaði kröfu A með þeim rökum að félagsmenn Tollvarðafélagsins hefðu sjálfir óskað eftir því að vinna á umræddum tímum og þannig brotið gegn hvíldarákvæði kjarasamningsins. Af þeim sökum væri T ekki skylt að greiða frítökurétt samkvæmt ákvæðum greinar 2.4.5 í kjarasamningi aðila. T vísað jafnframt til þess að krafa félagsins lyti að tímabili sem hefði verið liðið fyrir sameiningu tollumdæma og þegar félagsmenn þess hafi heyrt undir embætti tollstjórans á Suðurnesjum. Tollvarðafélagið höfðaði mál fyrir hönd félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi m.a. til viðurkenningar á frítökurétti A frá 1. maí 2001. Fyrir Félagsdómi krafðist I frávísunar málsins á þeim grunni að ágreiningur aðila snerist ekki um túlkun kjarasamnings heldur stæði ágreiningurinn um það hvort félagsmenn gætu sannað að þeir hefðu í raun áunnið sér umræddan frítökurétt. Félagsdómur vísaði málinu frá með úrskurði í júlí 2012. Dómurinn byggði á því að ágreiningur aðila snerist ekki eingöngu um túlkun kjarasamnings heldur kæmu til skoðunar önnur atriði sem almennum dómstólum bæri með réttu að dæma um. Í kjölfar dóms Félagsdóms aflaði A ítarlegra gagna um vinnustundir sínar á tímabilinu 16. júní 2001 til 11. desember 2005 og ítrekaði lögmaður Tollvarðafélagsins kröfu félagsins um viðurkenningu á frítökurétti A í bréfi sínu til T og óskaði eftir viðræðum við embættið um uppgjör á frítökuréttinum. Krafan var meðal annars byggð á þeim gögnum sem A aflaði eftir dóm Félagsdóms. T hafnaði kröfu A um uppgjör frítökuréttarins og taldi rétt A hafa fallið niður sökum tómlætis, þar eð svo langur tími hefði liðið frá því að tilefni var til að halda umræddum rétti fram og þar til það var gert, en krafa A hafi fyrst verið sett fram í bréfi til fjármálaráðuneytisins í október 2010. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að A hefði ekki borið því við að útreikningur I á frítökurétti væri rangur, yrði fallist á túlkun I á kjarasamningnum. Dómurinn féllst á túlkun I á báðum þeim ákvæðum kjarasamningsins sem málsaðilar deildu um og féllst á að A ætti frítökurétt í samræmi við útreikning I. Í málinu bar I því við að A hefði glatað rétti sínum fyrir tómlæti en I samdi þannig við Tollvarðafélag Íslands að frítökuréttur fyrnist ekki. I gekk út frá því að A hefði verið fastráðinn sem tollvörður í maí 2003, fyrst hjá embætti Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli en síðar hjá embætti Tollstjóra með sömu starfsstöð og hafi vinnuréttarasambandið ekki rofnað frá þeim tíma. Af þessum sökum taldi dómurinn I ekki geta borið fyrir sig að A hefði sýnt tómlæti við að gæta réttar síns. A leit hins vegar svo á að vinnuréttarsambandið hefði staðið órofið frá því hann hóf störf sem afleysingamaður, fyrst sumarið 2001 og aftur sumarið 2002. Að mati dómsins var hins vegar ótvírætt að vinnuréttarsambandið rofnaði þegar A fór í nám haustið 2001 og haustið 2002. Leit dómurinn svo á að þá hafi A lokið störfum hjá embættinu í skilningi greinar 2.4.5.9 og hefði átt að fá áunninn frítökurétt gerðan upp á sama hátt og orlof. Réttur hans til frítöku við sumarafleysingar breyttist því í rétt til fjárgreiðslu. Sú fjárkrafa sem A á rétt á vegna afleysinga að sumri til 2001 og 2002 var því löngu fyrnd þegar málið var höfðað. Því taldi dómurinn ekki koma til greina að telja rétt A til frítöku frá fyrra tímabili en 27. maí 2003 þegar hann var, að sögn I, fastráðinn tollvörður. Jafnframt sagði í dómnum að það gæti ekki haft áhrif á fyrningu fjárkröfunnar að A hefði ekki gert sér grein fyrir þessum rétti sínum vegna þess að embættið fylgdi ekki þeim fyrirmælum greinar 2.4.5.6 að tilgreina frítökurétt á launaseðlum tollvarða á þessum tíma. Niðurstaða dómsins varð því sú að A taldist hafa áunnið sér frá 27. maí 2003 til 11. desember 2005 250,72 klst. í frítökurétt. Dómi þessum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, sjá mál 740/2016.

 

13. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. september 2016 í máli nr. E-4044/2015: A gegn Ríkissjóði Íslands.

VINNUSLYS. RANN Í HÁLKU.

A krafðist viðurkenningar á því að I bæri skaðabótaábyrgð vegna líkamstjóns sem A hlaut er hún rann í hálku á bílaplani fyrir utan H, en hún starfaði þar sem læknaritari í fullu starfi. I hafnaði því að Í bæri skaðabótaábyrgð vegna slyss A. A bar fyrir dóminum að hún hefði verið í fríi vikurnar á undan og eftir slysdegi, en hafi farið á vinnustað sinn þetta laugardagssíðdegi til að ljúka tilteknu verkefni sem óskað hefði verið eftir í pósti frá lækningaforstjóra að lokið yrði. A kvaðst hafa verið í matarboði og hafa átt leið þarna um og hafi því ákveðið að ljúka verkefninu. A hafi lagt bílnum í bílastæði næst innganginum og næst upphitaðri gangstétt, en engir aðrir bílar hafi verið á bílaplaninu. H sé ekki opin á laugardögum og hafi því verið lokuð daginn sem slysið varð og enginn annar starfsmaður en A hafi verið í húsinu. A kvaðst hafa vitað að planið var hált og hafi hún því gætt sín mjög vel, en fæturnir hefðu þrátt fyrir það runnið undan A þegar hún var að setjast upp í bílinn. Í niðurstöðu dómsins kom fram að slys A taldist verða rakið til óhappatilviljunar eða gáleysis A. Var það mat dómsins að aðstæður hefðu ekki verið þannig, að bótaábyrgð yrði lögð á I vegna slyssins, en slysið verði rakið til atviks, sem I bar ekki ábyrgð á. Niðurstaða dómsins var því sú að sýkna I af kröfu A.

 

14. Dómur Félagsdóms frá 22. september 2016 í máli nr. 2/2016 (óbirtur): Kennarasamband Íslands gegn íslenska ríkinu.

STYTTING Á NÁMSTÍMA. BREYTING Á NÁMSSKIPULAGI. ENDURMAT Á VINNUMATI ÁFANGA.

KÍ krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að við breytingu á námsskipulagi til stúdentsprófs við F sem tók gildi á haustönn 2015 og fæli í sér styttingu á námstíma úr fjórum námsárum í þrjú, allt samkvæmt breyttum námsbrautarlýsingum og áfangalýsingum, staðfestum af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og á grundvelli aðalnámskrár framhaldsskóla 2011, sbr. auglýsingu nr. 674/2011 og með breytingum samkvæmt auglýsingu nr. 890/2015, sé skylt að endurmeta vinnumat áfanga sem tilheyra breytingunni, samkvæmt fyrirmælum 3. efnisgreinar 7. greinar samkomulags fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs annars vegar og KÍ hins vegar, um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila, dagsettu 4. apríl 2014. I lýsti því yfir við málsmeðferðina að enginn ágreiningur væri til staðar í málinu um túlkun á 3. efnisgrein 7. gr. samkomulagsins og að jafnframt hefði verið fallist á að þessar breytingar á námsskipulagi gætu talist til meginbreytinga í skilningi ákvæðisins. Hins vegar lagði I áherslu á það að í samkomulaginu væri ekki mælt fyrir um útfærslu á endurmati á vinnumati áfanga og verði samningsaðilar því að koma sér saman um verklag í þeim efnum. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að það sé mat hans að breytingarnar teljist vera meginbreytingar í skilningi 3. efnisgreinar 7. gr. samkomulags KÍ og I. Þegar svo háttar til ber samkvæmt niðurlagi ákvæðisins að endurmeta vinnumat áfanga sem tilheyra slíkri breytingu. Með dómkröfu sinn leitast KÍ við að fá úr því skorið, hvort skylt sé samkvæmt ákvæðinu að endurmeta vinnumat áfanga sem tilheyra breytingu á námsskipulagi til styttingar á námstíma til stúdentsprófs við F. Nánari útfærsla slíks endurmats er ekki til úrlausnar fyrir dómnum. Taldi dómurinn því að KÍ hefði lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína og með vísan til þess taldist hún dómhæf og var það niðurstaða dómsins að hann féllst á viðurkenningarkröfu KÍ.

 

15. Héraðsdómur Reykjavíkur frá 3. október 2016 í máli nr. E-4084/2015. A gegn íslenska ríkinu.

UPPSÖGN. STARFSHÆFNI. ALMENN STARFSHÆFISSKILYRÐI. VEIKINDI.

A réðst til starfa sem hjúkrunarfræðingur við FSA í september 1999. Á árinu 2010 greindist A með meltingarfærasjúkdóm og leitaði hún til G meltingarlæknis vegna sjúkdómsins. Fram kemur í vottorði sérfræðingsins að læknismeðferð við sjúkdóminum hafi haft svefntruflanir í för með sér og að mikilvægt væri að A tæki ekki næturvaktir vegna þess. Í október 2010 var ráðningarsamningi A breytt þannig að hún skyldi fara úr fullu starfi í 60% starfshlutfall á barnadeild sjúkrahússins. Í gögnum málsins kemur fram að jafnframt hafi verið samkomulag um að A væri undanþegin næturvöktum. Í maí barst A bréf forstöðuhjúkrunarfræðings barnadeildar þar sem kom fram að vegna breyttra aðstæðna væri ekki unnt að veita henni undanþágu frá vinnu á næturvöktum sem munnlegt samkomulag hafi verið um. Frá 1. september 2013 skyldi vinnutilhögun hennar því vera samkvæmt ráðningarsamningi, þ.e. vaktavinna án undanþágu frá næturvöktum. Í læknisvottorði G í júní 2013 var áréttað það álit að mikilvægt væri að A tæki sér frí frá næturvöktum. Samkvæmt vottorðum sama sérfræðings taldist A jafnframt óvinnufær frá 20. ágúst 2013 og fékk hún greidd veikindalaun eftir það. Þá kemur fram í vottorði B, sérfræðings í lyfja- og ónæmisfræði í ágúst 2014 að A hefði undanfarin misseri glímt við fjölkerfa sjálfsofnæmissjúkdóm, verið óstarfhæf af þeim sökum frá 1. ágúst 2013, og yrði áfram a.m.k. næstu sex mánuði. Í greinargerð sem Þ endurhæfingarlæknir ritaði um sérhæft mat fyrir Virk starfsendurhæfingarsjóð í janúar 2015 var lagt til að reynt yrði að koma á vinnusamningi við sjúkrahúsið um að A hæfi störf í mars 2015 í 30% starfshlutfalli. Eftir það yrði starfshlutfall aukið um 10% á tveggja vikna fresti þar til það yrði komið í 60%. Þá liggur fyrir starfshæfnisvottorð G meltingarlæknis í febrúar 2015 þar sem fram kemur að A hafi „complex ofnæmissjúkdóm“, sem illa hafi gengið að meðhöndla vegna aukaverkana af lyfjum. Mat hann það þannig að A ætti að geta komist í vinnu frá 16. febrúar 2015, en rétt væri að A byrjaði ekki að taka næturvaktir og yrði aðeins í 40% starfi til að byrja með. Gerði hann ráð fyrir að það myndi taka A þrjá til sex mánuði að ná fullri vinnu og að geta tekið næturvaktir á ný. Í tölvubréfi mannauðsstjóra SA til A í febrúar 2015 kom fram að ákveðið hefði verið að óska eftir vottorði trúnaðarlæknis, með vísan til ákvæða í kjarasamningi. Í vottorði T trúnaðarlæknis í apríl 2015, kemur fram að A væri einungis metin fær til starfa í dagvinnu og að hámarki í 50% starfshlutfalli, en lagt var til að endurmat færi fram eftir þrjá mánuði. Með bréfi framkvæmdastjóra lyflækningasviðs sjúkrahússins til A í apríl 2015 var henni tilkynnt um fyrirhugaða lausn frá störfum vegna langvarandi veikinda, með vísan til greinar 12.4.2 í kjarasamningi, og tekið fram að veittur væri sjö daga frestur til að koma á framfæri andmælum við þeirri ákvörðun. Lögmaður A andmælti lausn frá störfum og krafist þess að fallið yrði frá áformum um lausn frá störfum. Í svarbréfi sjúkrahússins var tilkynnt að fallið hefði verið frá fyrirhugaðri lausn A frá störfum og var hún hvött til að koma aftur til vinnu í 50% starf hjúkrunarfræðings í dagvinnu á lyflækningadeild. Jafnframt var tilkynnt að frá og með 1. september 2015 yrði störfum A breytt þannig að hún myndi fara aftur í 60% starfshlutfall og taka hefðbundnar átta klukkustunda þrískiptar vaktir. Á sama tíma yrði endurmetið á hvaða deild sjúkrahússins hún myndi starfa til frambúðar. Með bréfi lögmanns A í maí 2015 var þess krafist að fallið yrði frá ákvörðun um breytingar á starfi A. Í maí 2015 funduðu A og fulltrúi stéttarfélags hennar með mannauðsstjóra og hjúkrunarframkvæmdastjóra sjúkrahússins. Samkvæmt fundargerð var það niðurstaða fundarins að A færi í starf á lyflækningadeild og yrði endurkoma til starfa í samræmi við tillögu í greinargerð Þ sérfræðilæknis til Virk starfsendurhæfingarsjóðs. Þá skyldi A skila nýju starfshæfnisvottorði í byrjun ágústmánaðar og myndu aðilar funda á ný eftir að það lægi fyrir. A hóf störf á lyflækningadeild í maí 2015. Í ágúst 2015 skilaði A inn starfshæfnisvottorði G meltingarlæknis þar sem fram kom að hann teldi starfshæfni A vera 60%, en hún þyrfti að forðast að vera á næturvöktum þar sem það gæti haft óæskileg áhrif á heilsu hennar. Einnig teldi hann mikilvægt að A ynni í umhverfi þar sem hún þyrfti ekki að meðhöndla lyf sem hún hefði bráðaofnæmi fyrir og sem gætu gefið henni sterk viðbrögð. Í ágúst 2015 áttu A og sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fund með mannauðsstjóra og hjúkrunarframkvæmdastjóra sjúkrahússins. Á þeim fundi var A afhent bréf, undirritað af hjúkrunarframkvæmdastjóra, tilkynningu um uppsögn ráðningarsamnings með þriggja mánaða fyrirvara. Ástæða uppsagnar var tilgreind sú að ekki fyndist starf á stofnuninni sem hentaði A í ljósi þeirra takmarkana á starfshæfni hennar sem fram hefðu komið í starfshæfnisvottorði. Af hálfu stéttarfélags A, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, var óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir ákvörðun um uppsögn. Í svarbréfi hjúkrunarframkvæmdastjóra sjúkrahússins í september 2015, var vísað til framangreinds starfshæfnisvottorðs frá því í ágúst 2015. Síðan segir: „Á fundi með þér, A og mannauðsstjóra SA 27. ágúst sl. kom fram í máli A að lyfjaofnæmi hennar væri að aukast og þá sérstaklega varðandi sýklalyf. Einnig kom fram að fjögurra klukkustunda vinna á lyflækningadeild gengi mjög nærri þreki hennar. Að framansögðu má ljóst vera að svo miklar takmarkanir á starfsgetu og starfsumhverfi hjúkrunarfræðings gera það að verkum að A getur hvorki sinnt því starfi sem hún var ráðin til með ráðningarsamningi dags. 1. september 1999, né öðru venjubundnu starfi hjúkrunarfræðings á sjúkrahúsum. Hún uppfyllir hvorki almennar hæfniskröfur skv. 6. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, né sérstakar hæfniskröfur sem gerðar eru til hjúkrunarfræðinga. Þrátt fyrir ítarlega skoðun innan SAk hefur ekki fundist annað starf sem rúmast innan stöðuheimilda á sjúkrahúsinu og sem hentar A, að teknu tilliti til þeirra miklu takmarkana sem settar eru á starfsgetu hennar sbr. áður tilvitnað starfshæfnisvottorð frá 7. ágúst 2015.“ A fór fram á frekari rökstuðning fyrir ákvörðun um uppsögn og liggur fyrir bréf hjúkrunarframkvæmdastjóra til lögmanns hennar í september 2015 þar sem fram kemur að sjúkrahúsið hafi leitað allra leiða til að finna A starf við hæfi með hliðsjón af starfshæfnisvottorði og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, en ákvörðun um uppsögn standi. Í bréfaskiptum við lögmann A sem fram fóru í framhaldinu var jafnframt hafnað kröfu um greiðslu fébóta vegna uppsagnarinnar. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að um ráðningarsamband aðila fór eftir stml. og ákvæðum kjarasamnings Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Í 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. stml. kemur fram að almennt skilyrði til þess að fá skipun eða ráðningu í starf sé nauðsynleg heilbrigði, andleg og líkamleg, til þess að gegna þeim starfa sem hverju sinni er um að ræða. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna hefur forstöðumaður stofnunar rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Í dómnum kom jafnframt fram að þótt þess hafi verið getið í starfshæfnisvottorði að mikilvægt væri að A starfaði í umhverfi þar sem hún þyrfti ekki að meðhöndla lyf kæmi þar ekki fram að A hefði verið bannað slíkt, eins og I hefur haldið fram í málinu. Liggur fyrir með framburði A og samstarfsfólks hennar, K sérfræðilæknis á lyflækningadeild, og G, forstöðuhjúkrunarfræðings á barnadeild, við aðalmeðferð málsins, að A gat sinnt starfi sínu þrátt fyrir ofnæmissjúkdóm sinn, með því að nota hanska við meðhöndlun og blöndun lyfja. Þá verður ekki heldur ráðið af vottorðinu að útilokað hafi verið að A sinnti næturvöktum, þótt ráðlegt væri talið að hún forðaðist það. Samkvæmt þessu taldi dómurinn að ekki yrði talið að sýnt hefði verið fram á að A hefði ekki fullnægt almennu hæfisskilyrði um nauðsynlegt heilbrigði til að gegna starfi sínu sem hjúkrunarfræðingur hjá sjúkrahúsinu, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. stml. Jafnframt lá fyrir að A leitaði eftir ráðningu í störf innan sjúkrahússins, sem hún taldi henta sér með hliðsjón af sjúkdóminum. Í skýrslu F, fyrrverandi mannauðsstjóra, fyrir dóminum kom fram að um 110 hjúkrunarfræðingar starfi við sjúkrahúsið og að meðaltali væru 10 stöður hjúkrunarfræðinga þar auglýstar árlega. Taldi dómurinn í ljósi þessa að ólíklegt væri að ekki hefði verið unnt að finna A stöðu við hæfi, eins og I byggir á í málinu og tilgreint var í uppsagnarbréfi. Við þetta bætist að fjallað er um lausn starfsmanns frá störfum vegna endurtekinnar eða langvarandi óvinnufærni vegna veikinda eða slysa í grein 12.4. í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs. Kemur þar fram í grein 12.4.2 að þegar starfsmaður hefur verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni samkvæmt grein 12.2.1, megi leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Við meðferð málsins gætti SA ekki að þessum ákvæðum kjarasamnings um lausn vegna heilsubrests, heldur var A sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara. Með vísan til alls framangreinds var það niðurstaða dómsins að ekki hefðu verið skilyrði samkvæmt ákvæðum stml. og kjarasamnings til að segja A upp starfi eins og gert var. Þá taldi dómurinn að SA hefði ekki sinnt skyldu sinni til að sjá til þess að málið væri nægilega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þannig hafi SA borið að afla upplýsinga um hvort líkamleg heilsa A stæði því í vegi að hún gæti gegnt starfi hjúkrunarfræðings við sjúkrahúsið, t.d. með því að afla vottorðs trúnaðarlæknis. Var þetta sérstaklega brýnt þar sem A hafði framvísað starfshæfnisvottorði þar sem fram kom að hún væri fær um að gegna starfinu. Þá hafi SA ekki gætt að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, með því að reyna ekki til þrautar að finna A starf við hæfi. Loks bar SA að tilkynna A að fyrirhugað væri að segja henni upp störfum og gefa henni kost á að tjá sig um málið áður en ákvörðun um uppsögn var tekin á fundi aðila í ágúst 2015, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga. Niðurstaða dómsins var því sú að uppsögn A var ólögmæt og bar I fébótaábyrgð á henni samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.

 

16. Dómur Hæstaréttar frá 13. október 2016 í máli nr. 828/2015: Landspítalinn gegn K.

STARFSLOKASAMNINGUR. RIFTUN SAMNINGS.

L og K undirrituðu samkomulag um starfslok K hjá L. L rifti samningnum og byggði á því að engin heimild hefði verið í fjárlögum eða fjáraukalögum til þess að efna samninginn. K taldi riftun L á samkomulaginu hafa verið ólögmæta og höfðaði mál til greiðslu efndabóta. Í dómi Hæstaréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að L hefði með ólögmætum hætti rift samningnum við K, en í dómi héraðsdóms var meðal annars lagt til grundvallar að fyrrverandi forstjóri L hefði í senn haft heimild og verið bær til þess að gera umrætt samkomulag við K, sbr. 42. og 43. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Taldi Hæstiréttur að K ætti því rétt til efndabóta sem myndi gera hana eins setta fjárhagslega og ef samningurinn hefði verið réttilega efndur samkvæmt efni sínu.

 

17. Dómur Hæstaréttar frá 20. október 2016 í máli nr. 84/2016: H gegn íslenska ríkinu.

EFTIRLAUNASJÓÐUR. SAMNINGUR. ÓGILDING SAMNINGS.

H höfðaði mál gegn I og krafðist efnda á samningi um greiðslur í eftirlaunasjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands sem gerður var milli H og utanríkisráðuneytisins. I hélt því fram að samningurinn hefði verið gerður fyrir mistök þar sem eiginmaður H hefði ekki tilheyrt fyrrgreindum hópi starfsmanna. Talið var að í ljósi þess hvernig gengið hefði verið frá ráðningu eiginmanns H hefði hann ekki verið starfsmaður utanríkisþjónustunnar með flutningsskyldu, sbr. 10. gr. laga nr. 39/1971 um utanríkisþjónustu Íslands, heldur starfsmaður landbúnaðarráðuneytisins. Hefði H því aldrei getað átt aðild að eftirlaunasjóðnum og gæti hún ekki byggt rétt sinn á samningnum. Breytti engu þar um þótt samningurinn hefði verið undirritaður fyrir mistök af hálfu utanríkisráðuneytisins. Slík undirritun gæfi H ekki rétt til aðgangs að sjóðnum, sem væri grundvallaður á reglum nr. 321/2004 um eftirlaunasjóð maka flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustu Íslands, þar sem H hefði ekki uppfyllt þau skilyrði sem reglurnar settu fyrir aðild að honum. Var I því sýknað af kröfu H.

 

18. Dómur Hæstaréttar frá 10. nóvember 2016 í máli nr. 556/2016. Félag íslenskra flugumferðarstjóra gegn íslenska ríkinu og Samtökum atvinnulífsins.

LÖG Á VERKFALL. STJÓRNARSKRÁ. MANNRÉTTINDASÁTTMÁLI EVRÓPU. GERÐARDÓMUR. LÖGVARÐIR HAGSMUNIR.

F krafðist þess að viðurkennt yrði að sér væri heimilt, þrátt fyrir ákvæði laga nr. 45/2016 um kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra, að efna til verkfalls í samræmi við ákvæði laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og að kjör félagsmanna sinna yrðu ekki afráðin með ákvörðun gerðardóms samkvæmt fyrrnefndu lögunum. Í dómnum kom fram að sama dag og héraðsdómur var kveðinn upp hefðu deiluaðilar gert með sér sátt til að ljúka gerðarmeðferðinni. Samkvæmt henni hefði verið svo um samið að kjarasamningur þeirra frá í júní 2016, sem áður hafði verið felldur í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna F, skyldi gilda með þeim bókunum og samkomulagi, sem honum hefðu fylgt, og yfirlýsingum sem gefnar hefðu verið í tengslum við samningsgerðina. Í ljósi þess að bundinn hefði verið endi á kjaradeilu F og viðsemjanda hans með gerð kjarasamnings, svo sem heimilað hefði verið með lögum nr. 45/2016, var talið að F hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um dómkröfur sínar. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

 

19. Dómur Hæstaréttar frá 24. nóvember 2016 í máli nr. 135/2016. V gegn íslenska ríkinu.

TÍMABUNDIN LAUNALÆKUNN. KJARARÁÐ. AFTURKLÖLLUN STJÓRNVALDS-ÁKVÖRÐUNAR.

V krafðist þess að kjararáð hafi borið skylda til að miða afturköllun á launalækkun V við 1. desember 2010, þegar ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 47/2006 um kjararáð, sbr. lög nr. 148/2008 og 127/2009, rann sitt skeið á enda, en ekki 1. október 2011 eins og miðað var við. Í dómnum kom fram að af athugasemdum með lögum nr. 148/2008 og 127/2009 yrði ekki dregin önnur ályktun en sú að frá og með 1. desember 2010 hefði farið um heimildir og skyldur kjararáðs til að endurskoða laun V eftir þeim almennu reglum sem giltu um störf og ákvarðanir þess samkvæmt lögum nr. 47/2006. Hefði kjararáði því borið að leggja mat á það hvort fram væru komnar breytingar á kjörum viðmiðunarhópa sem gæfu tilefni til að taka nýja ákvörðun um laun þeirra hópa er sætt hefðu tímabundinni skerðingu á kjörum sínum samkvæmt framangreindum breytingarlögum. Í athugasemdunum hefði því ekki falist sú ráðagerð að launakjörin yrðu sjálfkrafa færð aftur í fyrra horf 1. desember 2010. Einnig taldi dómurinn að V hefði ekki sýnt fram á að forsendur hefðu verið til þess að afturkalla launalækkun hans að öllu leyti eða hluta frá 1. desember 2010. Var Í því sýknað af kröfu V.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira