Hoppa yfir valmynd

Störf án staðsetningar - leiðbeiningar fyrir stofnanir

Ein helsta forsenda búsetuvals fólks er að finna starf við hæfi óháð kyni. Með nútímasamskiptatækni er hægt að vinna fjölmörg störf hvar sem er án vandkvæða.

Mikilvægt er að ríkið stuðli að fjölgun fjölbreyttra starfa sem víðast um landið. Með því að auglýsa starf án staðsetningar hefur búseta ekki áhrif á val á starfsfólki hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins. Hugtakið „störf án staðsetningar” á rætur að rekja til byggðaáætlunar og er því í reynd byggðamál, aðgerð sem ætlað er að auka fjölbreytni í atvinnukostum á landsbyggðinni.

Þó margt sé líkt með fjarvinnu og starfi án staðsetningar er mikilvægt að gera greinarmun á þessu tvennu:

  • Fjarvinna er starf sem skilgreint er innan hefðbundinnar starfsstöðvar en fyrir fram ákveðinn fjöldi daga er unnin utan hennar, þá oftast heiman frá viðkomandi starfsmanni eða á annarri óformlegri starfsstöð.
  • Starf án staðsetningar er ekki bundið hefðbundinni starfsstöð innan veggja stofnunar heldur getur verið unnið hvaðan sem er á landinu, að því gefnu að viðunandi starfsaðstaða sé fyrir hendi.

Hvaða vinnustaðir geta boðið upp á störf án staðsetningar?

Starfsemi stofnana ríkisins er fjölbreytt og ljóst að ekki er hægt að sinna öllum störfum utan hefðbundinnar starfsstöðvar. Þörf er á að skilgreina hvaða störf það eru sem geta fallið þar undir og hvaða störf ekki.

Spurningar sem gott er að spyrja:

  • Hefur staðsetning starfsmanns áhrif á þá þjónustu sem stofnun veitir?
  • Hefur staðsetning starfsmanns áhrif á teymisvinnu?
  •  Hefur staðsetning starfsmanns áhrif á samvinnu við aðra?

Tengsl inn á vinnustaðinn

Einn af lykilþáttum í tengslum við helgun starfsfólks í starfi er að það upplifi sig sem hluta af heild. Einstaklingur sem upplifir sig hluta af starfsmannahópi leggur sig meira fram fyrir hópinn, er almennt ánægðari í starfi, veitir betri þjónustu og er afkastameiri. Starfsfólk er tilbúið til að leggja meira á sig fyrir þá sem það tengist. Aukin ábyrgð hvílir á stjórnendum hvað þetta varðar með starfsfólk sem starfar án staðsetningar, því huga þarf að því að starfsfólk sem starfar án staðsetningar viðhaldi góðum tengslum við samstarfsfólk og vinnustað. 

Starfsandi

Mikilvægt er að vinna með tengslamyndun starfsmanna. Áskorun getur falist í því fyrir stjórnanda og samstarfsfólk að viðhalda góðum starfsanda og vinnustaðamenningu þegar hluti starfsfólks starfar ekki á hefðbundinni starfsstöð.

Samskiptaferlar og upplýsingamiðlun

Taka þarf ákvörðun um hvernig samskiptum er háttað og hvernig upplýsingum er miðlað á milli starfsfólks.

  • Tryggja upplýsingaflæði til allra hvar sem þeir starfa.
  • Tryggja að fólk einangrist ekki í störfum án staðsetningar, faglega sem og félagslega.

Ábyrgð og verkefnastjórnun

Starfið er skilgreint fyrir fram í starfslýsingu og veitir stjórnandi samþykki fyrir þeim verkefnum sem áætlað er að unnin séu og sinnir markmiðasetningu og eftirfylgni með árangri. Þar sem verkefni henta ekki öll eins vel til að vera leyst án viðveru á hefðbundinni starfsstöð er mikilvægt að stjórnandi veiti starfsmanni sínum stuðning og aðhald í starfi.

Auglýsing

Mikilvægt að skýrt komi fram í auglýsingu ef um starf án staðsetningar er að ræða, bæði í texta og með merkingum inni á Starfatorgi.

Starfsaðstaða

Stofnun sem ræður í starf án staðsetningar ber að útvega starfsmanni vinnuaðstöðu á atvinnusvæði viðkomandi. Slík starfsaðstaða þarf að uppfylla ákveðna kröfur. Upplýsingar um mögulegt húsnæði fyrir störf án staðsetningar hafa verið teknar saman og eru aðgengilegar á mælaborði sem finna má á heimasíðu Byggðastofnunar.

Tækjabúnaður

Stofnun útvegar allan almennan tækjabúnað sem krafist er líkt og starfið væri innt af hendi á hefðbundinni starfsstöð.

Lög og kjarasamningar

Um réttindi og skyldur einstaklings sem ráðin er í starf án staðsetningar fer eftir starfsmannalögum nr. 70/1996 með sama hætti og á hefðbundinni starfsstöð. Ráðningarsamningar þessa starfsfólks byggjast þannig á þeim lögum auk þess kjarasamnings sem viðkomandi er ráðinn inn á með sambærilegum hætti og hjá starfsfólki á hefðbundinni starfstöð.


Síðast uppfært: 20.5.2021
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira