Hoppa yfir valmynd

Vinnutími og fjarvera

Vinnu- og hvíldartími

Vinnutími og vinnufyrirkomulag fer eftir hlutverki stofnunar og þörfum viðkomandi starfsemi. Forstöðumaður ákveður vinnutíma starfsfólks með tilliti til þjónustuhlutverks stofnunar og ákvæða laga og kjarasamninga. Æskilegt er að gera grein fyrir stefnu stofnunarinnar í þessum málum í starfsmannahandbók. Forstöðumaður hefur því endanlegt ákvörðunarvald um vinnutíma starfsmanna að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa, sbr. 17. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996

Um vinnutíma og hvíldartíma er fjallað í lögum nr. 88/1971, um 40 stunda vinnuviku, og í IX. kafla laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Ítarlegri ákvæði eru þó í kjarasamningum. Slík ákvæði eru í 2. kafla kjarasamninga við stéttarfélög opinberra starfsmanna, það er félaga sem starfa á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986. Ákvæði um vinnutíma eru yfirleitt í 3. kafla annarra kjarasamninga ríkisins, það er við félög sem starfa á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.

Lengd vinnuvikunnar og skipulag hennar

Vinnuvika starfsmanns í fullu starfi er almennt 40 stundir. Dagvinna eða vaktavinna eru algengasta skipulag vinnutíma. Tímabil dagvinnu er tilgreint í kjarasamningum. Dæmi eru um að dagvinnumaður vinni hluta af vikulegri vinnuskyldu sinni utan dagvinnutímabils. Vaktavinna er unnin á skipulögðum vöktum. Til viðbótar venjulegum vinnutíma geta komið bakvaktir sem forstöðumaður/yfirmaður ákveður. Með bakvakt er átt við að starfsmaður sé ekki við störf en er reiðubúinn til að sinna útkalli ef til þess kemur. Almennt telst vinna sem fer fram utan tilskilins daglegs vinnutíma starfsmanns eða reglubundinna vakta til yfirvinnu.

Hvíldartími

Í vinnutímakafla kjarasamninga er einnig kveðið á um hvíldartíma, það er 11 stunda daglega samfellda lágmarkshvíld og vikulegan hvíldardag sem tengist beint daglegum hvíldartíma. Þar er jafnframt kveðið á um undantekningar frá þessum lágmarksreglum. Til dæmis er heimilt að stytta samfellda lágmarkshvíld í allt að 8 stundir þegar um skipuleg vaktaskipti er að ræða. Kveðið er á um svokallaðan frítökurétt sem er venjulega 1,5 stund fyrir hverja stund sem hvíldin skerðist. Frítökuréttur skapast sé starfsmaður sérstaklega beðinn um að mæta aftur til vinnu áður en 11 stunda lágmarkshvíld er náð.

Grunnurinn að hvíldartímaákvæðum kjarasamninga var lagður með samningi fjármálaráðherra o.fl. við ASÍ, BHM, BSRB og KÍ um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma frá 23. janúar 1997. Í samningnum er meðal annars kveðið á um daglegan hvíldartíma og hlé frá störfum, vikulegan hámarksvinnutíma, vernd næturvinnustarfsmanna, frávik o.fl. Samkvæmt 14. gr. samningsins starfar samráðsnefnd aðila um skipulag vinnutíma og má vísa ágreiningsmálum til hennar til umfjöllunar og úrlausnar. Nefndin hefur einnig gefið út hefti með leiðbeiningum.

Samráðsnefnd um vinnutíma (hvíldartíma)

Greinar úr fréttabréfi fyrir stjórnendur ríkisstofnana

Samningar við samtök stéttarfélaga um vinnutíma

Orlof 

Forstöðumaður ákveður orlofstöku starfsmanna í samráði við þá. Verði því við komið vegna starfa stofnunarinnar, er honum er skylt að verða við óskum starfsmanna.

Um orlof er fjallað í lögum um orlof nr. 30/1987, í 11. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og í 4. kafla kjarasamninga. Sambærileg ákvæði eru í flest öllum kjarasamningum. Þó eru til undantekningar innan samninga ASÍ og FFSÍ.

Við skipulagningu orlofs hjá hverri stofnun skal leggja fram upplýsingar um orlofsrétt hvers og eins starfsmanns svo og drög að orlofsáætlun starfsmanna snemma árs en hún skal liggja fyrir frágengin í síðasta lagi einum mánuði fyrir upphaf orlofs sbr. gr. 4.5.1 í kjarasamningum ríkisstarfsmanna og sambærilegar greinar.

Tímabil sumarorlofs skv. langflestum kjarasamningum er frá 1. maí til 15. september.

Rétt er að benda á að sé orlof eða hluti orlofs tekið eftir að sumarorlofstímabili lýkur, lengist sá hluti orlofsins almennt um 1/4.

Fæðingar- og foreldraorlof

Um rétt starfsmanns til fæðingarorlofs og foreldraorlofs fer eftir lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Lög þessi taka til starfsmanna á almennum vinnumarkaði sem og starfsmanna hjá hinu opinbera, jafnt embættismanna og annarra starfsmanna í þjónustu ríkisins. Málaflokkurinn heyrir undir valdsvið velferðarráðuneytis.

Fæðingarorlof og foreldraorlof eru hvort tveggja leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við fæðingu barns, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Helsti munurinn á fæðingarorlofi annars vegar og foreldraorlofi hins vegar er sá að starfsmaður í fæðingarorlofi á jafnan rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun en starfsmaður í foreldraorlofi á ekki rétt á greiðslum, hvorki frá Vinnumálastofnun né hlutaðeigandi stofnun/vinnuveitanda.

Sjúkra- og styrktarsjóðir BHM, BSRB og KÍ greiða út fæðingarstyrki til félagsmanna. Upplýsingar um styrkina má fá hjá viðkomandi sjóðum.

Í flestum kjarasamningum er samið um réttarstöðu starfsmanna í fæðingarorlofi, þ.e. jafnan í 13. kafla um tilhögun fæðingarorlofs. Þar er kveðið á um rétt starfsmanns í fæðingarorlofi í þrenns konar tilliti. Í fyrsta lagi til greiðslu/ávinnslu sumarorlofs og persónu- og orlofsuppbótar. Í öðru lagi er tryggð réttindaávinnsla sjóðfélaga í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og sambærilegra deilda annarra lífeyrissjóða. Í þriðja lagi er kveðið á um rétt starfsmanns, er nýtur fyrirframgreiðslu launa, til tilfærslu fyrirframgreiddra launa við upphaf og lok fæðingarorlofs. Með þessu er komið í veg fyrir að hann verði fyrir óhagræði þar sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru eftirá greiddar.

Embættismenn og aðrir starfsmenn sem heyra undir úrskurðarvald Kjararáðs njóta sambærilegra réttinda og kveðið er á um í nefndum 13. og 14. kafla kjarasamninga nema annað sé sérstaklega tekið fram sjá nánar á vef kjararáðs.

Réttindauppsöfnun, réttindavernd og vernd gegn uppsögn

Starfsmaður í fæðingarorlofi nýtur verndar og honum er tryggð uppsöfnun tiltekinna réttinda. Uppsöfnun réttinda er tvíþætt. Hún felst annars vegar í greiðslu iðgjalds og mótframlags til lífeyrissjóðs starfsmanns af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði með tilheyrandi ávinnslu réttinda. Hins vegar reiknast fæðingarorlofið til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningi, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta. Sjá nánar 14. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.

Starfsmaður í foreldraorlofi nýtur verndar að því er uppsöfnuð réttindi varðar. Þau glatast ekki heldur haldast óbreytt eða eftir atvikum með þeim breytingum sem kunna að hafa orðið á grundvelli laga eða kjarasamninga. Sjá nánar 29. gr. laga nr. 95/2000.

Meðan á fæðingarorlofi og foreldraorlofi stendur nýtur starfmaður tiltekinnar verndar gegn uppsögn. Óheimilt er að segja honum upp störfum nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sömu verndar nýtur starfsmaður sem hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs eða foreldraorlofs sem og þunguð kona eða kona sem hefur nýlega alið barn. Sjá nánar 30. gr. laga nr. 95/2000.

Spurt og svarað - Fæðingar- og foreldraorlof.

Úrskurðarnefnd um fæðingar- og foreldraorlofsmál

Hægt er að kæra ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Sjá nánar

Veikindi, slys og tryggingar ríkisstarfsmanna

Um rétt starfsmanns vegna veikinda og slysa fer eftir því sem segir í kjarasamningi eða úrskurðum kjararáðs. Í kjarasamningum er oftast nær kveðið á um rétt vegna veikinda og slysa í 12. kafla en í öðrum tilvikum yfirleitt í 6. kafla.

Efnislega er réttur embættismanna vegna veikinda og slysa almennt hinn sami og annarra starfsmanna samkvæmt nefndum 12. kafla kjarasamninga. Sjá nánar reglur kjararáðs um starfskjör og úrskurði á heimasíðu ráðsins.

Upplýsingar um rétt til greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaganna er að finna hjá þeim eða á heimasíðu viðkomandi stéttarfélags.

Í 2. kafla, um rétt vegna veikinda og slysa, eru eftirfarandi undirkaflar:

  • Tilkynningar, vottorð (um óvinnufærni) og útlagður kostnaður
  • Réttur til launa vegna veikinda og slysa (viðbótarréttur v/vinnuslysa og atvinnusjúkdóma)
  • Starfshæfnisvottorð (eftir samfelld veikindi í einn mánuð eða lengur)
  • Lausn frá störfum vegna endurtekinnar eða langvarandi óvinnufærni vegna veikinda eða slysa
  • Lausnarlaun og laun til maka látins starfsmanns
  • Skráning veikindadaga
  • Veikindi og slysaforföll í fæðingarorlofi
  • Veikindi barna yngri en 13 ára
  • Samráðsnefnd

Kjarasamningar

Kjarasamningsákvæðin í 12. kafla eru samhljóða 2. kafla í samkomulagi BHM, BSRB og KÍ annars vegar við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborg og Launanefnd sveitarfélaga hins vegar frá 24. október 2000.

Réttur til launa vegna veikinda og slysa

Réttur til launa vegna veikinda og slysa er venjulega talinn í almanaksdögum en ekki vinnudögum enda er það skýrt tekið fram í samningstexta. Fjöldi daga fer eftir því hversu langan þjónustualdur (ávinnslualdur) viðkomandi hefur. Sjá nánar grein 12.2.5. Réttur til launaðra veikindadaga getur aldrei verið meiri en 360 dagar. Dagafjöldinn er miðaður við hverja 12 mánuði (365) en ekki almanaksárið. Starfsmaður á því rétt á að halda launum í ákveðinn dagafjölda svo lengi sem veikindadagar hans verða ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum (365 dögum) talið aftur í tímann. Þannig leggjast öll veikindi á síðustu 12 mánuðum saman og dragast frá veikindarétti við upphaf nýrra veikinda. Hið sama á ávallt við þegar finna þarf út hversu marga veikindadaga starfsmaður á ónýtta. Sem dæmi má nefna að starfsmaður, sem var fjarverandi vegna veikinda í 30 daga fyrr á árinu og veikist síðan aftur, á 30 dögum minni rétt en ella. Sjá nánar grein 12.2.1 í kjarasamningi.

Réttur til launa í veikindum er misjafn eftir því hvort um er að ræða fyrstu viku veikinda eða samfelld veikindi eftir fyrstu viku veikinda. Í fyrstu viku veikinda eru greidd mánaðarlaun ásamt föstum greiðslum. Eftir fyrstu fyrstu viku veikinda er auk þess greitt meðaltal yfirvinnu síðustu 12 mánaða. Sjá nánar greinar 12.2.6 og 12.2.7. Sjá einnig bréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins er varðar túlkun og útfærslu kjarasamningsákvæða um veikindarétt dagsett 15. desember 2004.

Vinnuslys og atvinnusjúkdómar

Sérstakur viðbótarréttur er oftast nær vegna vinnuslysa, slysa á beinni leið til og frá vinnu eða atvinnusjúkdóma. Þetta nær þó ekki til þeirra ríkisstarfsmanna sem lengstan veikindarétt hafa (273 daga og 360 daga). Viðbótarrétturinn er eingöngu bundinn við greiðslu dagvinnulauna í allt að þrjá mánuði og kemur til viðbótar ef á þarf að halda þegar dagafjöldinn, sem fylgir veikindaréttinum, hefur verið tæmdur. Sjá nánar grein 12.2.1 í kjarasamningi.

Tilkynningarskylda

Vinnuslys eru skylt að tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins og Sjúkratrygginga Íslands. Tilkynningarskylda vegna vinnuslysa ríkisstarfsmanna hvílir á hlutaðeigandi stofnun. Æskilegt er að stofnanir feli ákveðnum starfsmanni að sinna þessari tilkynningarskyldu þannig að hægt sé að bregðast skjótt við þegar og ef vinnuslys eiga sér stað. Á vefnum vinnueftirlit.is er sérstakt eyðublað fyrir tilkynningar um vinnuslys til Vinnueftirlits ríkisins. Samkvæmt leiðbeiningum um tilkynningu vinnuslysa skal tilkynna alvarleg slys á vinnustað til Vinnueftirlitsins eins fljótt sem verða má og eigi síðar en innan sólarhrings. Eyðublað fyrir tilkynningu um vinnuslys til Sjúkratrygginga Íslands er hægt að nálgast á vefnum sjukra.is (eyðublað: Tilkynning um slys - önnur en sjóslys).

Laun í fjarvistum vegna vinnuslyss, slysadagpeningar og tryggingar

Greiða ber starfsmanni laun skv. grein 12.2.7 frá upphafi fjarvista þegar um vinnuslys eða slys á beinni/eðlilegri leið til og frá vinnu er að ræða, sbr. grein 12.2.9. Ef starfsmaður er óvinnufær vegna þess háttar slyss í minnst 10 daga, greiða Sjúkratryggingar Íslands dagpeninga (slysadagpeninga) frá og með 8. degi eftir að slysið varð. Stofnun/vinnuveitandi á rétt þessum greiðslum fyrir þann tíma sem viðkomandi er á launum en eftir það renna þær til starfsmanns. Sjá nánar lög um um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015 og upplýsingar um slysatryggingar á vefsíðunni sjukra.is. Tilkynning um vinnuslysið þarf að hafa borist Sjúkratryggingum Íslands til þess að dagpeningar (slysadagpeningar) verði greiddir.

Auk slysadagpeninga kann að stofnast réttur til annarra bóta slysatrygginga frá Sjúkratryggingum, svo sem örorku- og dánarbóta. Frekari upplýsingar eru vefsíðu sjukra.is.

Starfsmenn er almennt slysatryggðir fyrir dauða eða varanlegri örorku vegna vinnuslysa, þ.e. slysa sem þeir verða fyrir í starfi eða á eðlilegri leið til og frá vinnu o.s.frv. Hjá flestum stéttarfélögum ríkisstarfsmanna en þó ekki öllum gilda um þetta reglur nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum, vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Kröfum um greiðslu samkvæmt nefndum reglum ber að beina til embættis ríkislögmanns. Frekari upplýsingar eru á vefsíðunni undir slysatryggingar vegna örorku eða dauða.

Örorka eða andlát vegna vinnuslyss eða annarra ástæðna skapar jafnan rétt hjá hlutaðeigandi lífeyrissjóði. Flestir ríkisstarfsmenn eru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á vefsíðum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Upplýsingavef um lífeyrismál.

Útlagður kostnaður vegna vinnuslyss

Starfsmanni ber að fá greidd þau útgjöld sem hann hefur orðið fyrir vegna vinnuslyss og slysatryggingar almannatrygginga bæta ekki skv. lög nr. 45/2015. Sjá nánar grein 12.1.6 í kjarasamningum.

Tilkynning um vinnuslysið þarf að hafa borist Sjúkratryggingum Íslands til þess að hún bæti þann hlut af kostnaði starfsmanns sem henni ber samkvæmt nefndu lagaákvæði. Fylla þarf út eyðublaðið með tilliti til þess hvernig stofnun kýs að haga uppgjöri á útgjöldum starfsmanns vegna vinnuslyss en það er hægt með tvennum hætti. Annars vegar þannig að Sjúkratryggingar Íslands greiða starfsmanni það sem henni ber og stofnun greiði honum það sem á vantar útlagðan kostnað. Hins vegar getur stofnun greitt starfsmanni allan útlagðan kostnað og fengið endurgreitt frá Sjúkratryggingum Íslands hennar hluta.

Sjúkratryggingar Íslands bæta útgjöld í þeim tilvikum þegar starfsmaður er óvinnufær vegna vinnuslyss í minnst 10 daga en þó er heimilt að víkja frá þessu skilyrði. Sjá nánar 10. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Samráðsnefnd um veikindarétt

Sérstök samráðsnefnd skal fjalla um túlkun og útfærslu einstakra ákvæða um veikindarétt. Sjá nánar grein 12.9 eða eftir atvikum 12.10.

Nefndin er skipuð fulltrúum samningsaðila að samkomulagi BHM, BSRB og KÍ annars vegar við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborg og Launanefnd sveitarfélaga hins vegar frá 24. október 2000. Fulltrúar í nefndinni eru samtals sex, þ.e. þrír frá hvorri hlið.

Slysatryggingar vegna örorku eða dauða

Um rétt til slysatrygginga vegna örorku starfsmanns eða dauða fer eftir því sem segir í kjarasamningi eða úrskurðum Kjararáðs.

Í kjarasamningum er oftast nær kveðið á um tryggingar í 7. kafla. Þar er yfirleitt vísað til sérstakra reglna fjármála- og efnahagsráðherra að því er varðar skilmála slysatrygginga, þ.e. annars vegar vegna slysa í starfi og hins vegar vegna slysa utan starfs (í frítíma). Samkvæmt þeim er varanleg örorka eða dauði vegna slyss tryggð en með mismunandi hætti eftir því hvort starfsmaður verður fyrir slysi í starfi eða utan starfs.

Almennt gilda sömu reglur einnig um embættismenn.

Ofangreindar reglur taka til flestra hópa ríkisstarfsmanna með þeim skilmálum sem þar er kveðið á um. Þær byggja á læknisfræðilegu mati og eru með fastar fjárhæðir sem breytast samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þetta þýðir að fjárhagslegt tjón eða aldur og aflahæfi hins slasaða hefur ekki áhrif á bótafjárhæðir. Þannig myndu tveir starfsmenn, sem væru metnir með jafnmörg örorkustig, fá jafnháar bætur þótt örorkan gæti kostað annan þeirra starfið en hinn ekki.

Um stöku hópa gilda aðrar reglur, þ.e. þegar aðilar hafa samið á annan veg í kjarasamningi. Helstu dæmin um slíkt eru kjarsamningar ríkisins við bæjarstarfsmannafélög en þó ekki við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Þá hefur ríkið samið við Landssamband lögreglumanna um annars konar tryggingu og tryggingaskilmála og eru sú trygging keypt hjá tryggingafélagi.

Slysatryggingar ríkisstarfsmanna eru að langstærstum hluta í eigin áhættu ríkissjóðs. Uppgjör bóta annast embætti ríkislögmanns.

Útgefið efni og erindi á ráðstefnum um rétt vegna veikinda og slysa

Vinnustund

Margar ríkissstofnanir nota Vinnustund sem er hluti af mannauðskerfi Orra og eftir því sem fleiri ríkisstofnanir nota Vinnustund því auðveldari er allur samanburður á milli ráðuneyta og stofnana hvað varðar þau atriði er viðkoma vinnutíma starfsmanna. Má þar nefna fjarveru vegna veikinda, hvers konar leyfi frá störfum, orlof og fleira.

Vinnustund er tæki til að skipuleggja vinnutíma og vaktahluta starfsmanna og úr Vinnustund eru sendar forsendur launa til launakerfis. Í Vinnustund er haldið utan um tímaskráningu starfsmanna, fjarvistir og tegundir fjarvista og leyfa. Þá heldur Vinnustund utan um leyfisóskir, leyfisrétt, inneign og ávinnslu starfsmanna. Notkun Vinnustundar styður valddrefingu til stjórnenda og starfsmanna þar sem stjórnendur þurfa að samþykkja tímafærslur starfsmanna og starfsmenn geta nýtt sér sjálfafgreiðslu. Þetta eykur starfsánægju enda geta starfsmenn óskað eftir vöktum og leyfi í Vinnustund. 

Sjá leiðbeiningar um sjálfsþjónustu vinnustundar. Á heimasíðu Fjársýslunnar er hægt að skrá sig inn í sjálfsafgreiðsluna.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 20.6.2022
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira