Hoppa yfir valmynd
01.02.2017 11:41 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

40. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti

Fundarheiti og nr. fundar:  40. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti.
Staður og stund:
Velferðarráðuneytið, 1. febrúar 2017. Kl. 14.30–16.30.
Málsnúmer:
VEL17020025.

Mætt: Anna Kolbrún Árnadóttir formaður (AKÁ), Berglind Eva Ólafsdóttir (BEÓ, SÍS), Hannes G. Sigurðsson (HGS, SA), Georg Brynjarsson (GB, BHM), Hafdís Dögg Guðmundsdóttir (HDG, KÍ), Jóna Pálsdóttir (JP, MMR), Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ, BSRB), Guðný Einarsdóttir (GE, FJR), Maríanna Traustadóttir (MT, ASÍ) og Rósa G. Erlingsdóttir (RGE, VEL) starfsmaður aðgerðahóps.

Gestir á fundi: Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, Sigrún Brynja Einarsdóttur og Heimir Skarphéðinsson (ANR).

Fundarstjóri: Rósa G. Erlingsdóttir (RGE).

Fundarritari: Jóhanna Heiðdal Sigurðardóttir (JHS).

Dagskrá

  1. Fundargerð síðasta fundar

    Samþykkt án athugasemda.

  2. Drög að frumvarpi um breytingu á lögum nr. 10/2008 (jafnlaunavottun)
    1. Kynning ráðherra á markmiði og efni frumvarpsins

      Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, kynnti markmið og inntak frumvarps um breytingu á jafnréttislögum, um lögfestingu jafnlaunavottunar á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012. Voru drögin unnin í samræmi við þær áherslur sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um jafnrétti á vinnumarkaði.

      Ráðherra lýsti vilja sínum og ráðuneytisins um að frumvarpið og greinargerð þess yrði unnið í samráði við aðgerðahóp um launajafnrétti. Að því loknu er ráðgert að drögin verði birt í opnu umsagnarferli á vefsíðu velferðarráðuneytisins þar sem óskað verði eftir umsögnum frá helstu hagsmunaaðilum.

      Ráðherra hyggst kynna frumvarpið í ríkisstjórn í febrúar 2017.

      Ráðherra lagði áherslu á að ferli jafnlaunavottunar yrði eins einfalt og skýrt og mögulegt væri og að ráðgert væri að lögin yrðu endurskoðuð þremur árum eftir gildistöku þeirra. Framlögð drög ættu eftir að taka töluverðum breytingum, t.d. hvað varðar gildistökuákvæði og kafla í greinargerð um mat á áhrifum laganna. Þá verði fjallað ítarlega um lögmæti sértækra aðgerða á sviði jafnréttismála.

      Ráðherra greindi einnig frá vilja sínum og ráðuneytisins til að styrkja stjórnsýslu jafnréttismála og áform um að ráða verkefnisstjóra til að undirbúa gildistöku laganna. Verkefni hans verði m.a. að efla verkfærakistu vegna innleiðingar jafnlaunastaðalsins, útbúa sniðmát fyrir verklagsreglur fyrir fyrirtæki og stofnanir, útfæra starfaflokkunarkerfi í vefviðmóti sem og launagreiningartæki.  Þannig vilji ráðuneytið koma til móts við fyrirtæki og stofnanir sem ekki hafi yfir að ráða nægilega sterkum innviðum hvað varðar mannauðs- og gæðamál.

      Fulltrúar í aðgerðahópi lýstu vilja til samráðs við áframhaldandi vinnu við frumvarpið og boðað var til fundar föstudaginn 3. febrúar.  

       

       

    2. Breytingar á reglugerð 929/2014, um vottun jafnlaunakerfa

      Drög að breytingum á 5. og 7. gr. reglugerðar nr. 929/2014, um vottun jafnlaunakerfa, voru lögð fram til umsagnar. Markmið breytinganna er að rýmka þann tíma sem vottunarstofurnar hafa til að hljóta faggildingu á grundvelli jafnlaunastaðalsins og að skýra ákvæði um úttekt og veitingu jafnlaunamerkis. Eru fulltrúar í aðgerðahópi beðnir um að athuga að vísanir í lagaákvæði miða við að frumvarp um jafnlaunavottun verði samþykkt.

      Óskar ráðuneytið eftir að fulltrúar í aðgerðahópi komi athugasemdum á framfæri fyrir 15. febrúar næstkomandi.

    3. Reglur um notkun jafnlaunamerkis

      Drög að reglum um notkun jafnlaunamerkis voru lögð fram til umsagnar. Reglurnar verða að fylgja umsókn velferðarráðuneytisins um einkaleyfi á félagamerki og orðinu „jafnlaunamerki.“

      Óskar ráðuneytið eftir að fulltrúar í aðgerðahópi komi athugasemdum á framfæri fyrir 15. febrúar næstkomandi.

       

       

  3. Staða vottunar- og faggildingarmála – kynning á greinargerð um faggildingu.

     

    Sigrún Brynja Einarsdóttir og Heimir Skarphéðinsson kynntu greinargerð um faggildingu sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Sérstaklega voru tillögur um breytingar á starfsemi faggildingarsviðs Einkaleyfastofu ræddar. Í dag eru gerðar miklar kröfur til starfseminnar en viðskiptavinir eru fáir. Unnið er að því að endurskoða lög um faggildingu þannig að þau innleiði á fullnægjandi hátt reglugerð ESB 765/2008. Tryggja þarf fjárhagslegt og faglegt sjálfstæði faggildingarstarfsins, endurskoða gjaldskrá og burði aðilans til að standast jafningjamat Evrópsku faggildingarstofnunarinnar. Taka þarf tillit til framtíðarþarfa atvinnulífsins og vaxandi eftirspurnar eftir faggildingu á fleiri fagsviðum en áður hefur tíðkast. Lagt er til að skipað verði faggildingarráð með helstu hagsmunaaðilum og samstarf við erlendar faggildingarstofur eflt.

     

    Aðgerðahópurinn lýsti vilja sínum til að fylgjast náið með þróun þessara mála og mun starfsmaður hópsins greina ráðherra frá tillögum um nauðsynlegar breytingar á starfsemi faggildingarmála enda gætu þær liðkað fyrir innleiðingu jafnlaunastaðalsins og fjölgað fyrirtækjum og stofnunum sem undirgangast jafnlaunavottun.

     

     

  4. Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins

    GE gerði greint fyrir stöðu tilraunaverkefnis um innleiðingu jafnlaunastaðalsins.

    Rætt var um áform um að við afhendingu jafnlaunamerkisins muni vottuð fyrirtæki og stofnanir jafnframt fá afhentan USB-lyklil með merkinu sem og stílabók og reglur um notkun þess. Enn er verið að vinna að hugmyndum og útfærslum þeirra. Hönnuður vinnur nú að útfærslu merkisins sem „grip“ samkvæmt fyrri ákvörðun aðgerðahópsins.

     

  5. Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna

    Unnið er að undirbúningi og þátttöku sendinefndar Íslands á fundinum. Ráðgert er að Ísland standi fyrir sérstökum hliðarviðburði um jafnrétti á vinnumarkaði og innleiðingu jafnlaunastaðalsins.

  6. Önnnur mál
  • Ákveðið var að haldinn yrði aukafundur 15. febrúar næstkomandi þar sem rætt verði um breytingar á reglugerð og nýjar reglur um notkun jafnlaunamerkisins.
  • Starfsmanni aðgerðahópsins var falið að afla upplýsinga um innköllun jafnréttisáætlana fyrirtækja og stofnana með fleiri en 25 starfsmenn sem að jafnaði á að gera árlega.
  • Starfsmanni var falið og leggja fram upplýsingar um áform stjórnvalda um endurskoðun og eflingu stjórnsýslu jafnréttismála.
  • Starfsmanni var falið að leggja fram minnisblað vegna styrkumsókna í Framkvæmdasjóð jafnréttismála en umsóknarfrestur er til 1. mars næstkomandi Lögð er áhersla á gerð rannsókna um stöðu og þróun jafnréttis á vinnumarkaði í samræmi við tillögur hópsins í greinargerð um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum. Lögð var áhersla á að starfsmaður kannaði möguleika á gerð launarannsóknar fyrir árin 2014, 2015 og 2016. Unnt væri að greina stöðu kvenna af erlendum uppruna hvað varðar launamun í sömu rannsókn.
  • Upplýst var að Staðlaráð hefði lokið við að þýða kröfuhluta jafnlaunastaðalsins á ensku en enn er unnið að þýðingu viðauka. Vonir standa til að verkinu ljúki fyrir 1. mars næstkomandi

 

Fleira ekki rætt.

Fundargerð rituðu JHS og RGE

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum