Hoppa yfir valmynd

Kynrænt sjálfræði

Lög nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi.

Réttur einstaklinga til að skilgreina kyn sitt

Sérhver einstaklingur sem náð hefur 15 ára aldri hefur rétt til að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá. Beiðni um slíka breytingu skal beint til Þjóðskrár Íslands. Jafnhliða breyttri skráningu kyns á umsækjandi rétt á að breyta nafni sínu. Óheimilt er að gera skurðaðgerð, lyfjameðferð, hormónameðferð eða aðra læknismeðferð, svo sem geðlæknismeðferð eða sálfræðimeðferð, að skilyrði fyrir breytingu á skráningu kyns. Barn yngra en 15 ára getur með fulltingi forsjáraðila sinna breytt opinberri skráningu kyns síns. Beiðni um breytta skráningu kyns skal beint til Þjóðskrár Íslands. Jafnhliða breyttri skráningu kyns á barnið rétt á að breyta nafni sínu. Barn sem ekki nýtur stuðnings forsjáraðila sinna, annars eða beggja, til að breyta skráðu kyni sínu getur lagt ósk um breytingu fyrir sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna, og breytt skráningunni ef sérfræðinefndin fellst á erindi þess. Ákvörðun um að breyta kynskráningu barns skal tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi og vera í samræmi við vilja þess og þróun kynvitundar. Hlutlaus skráning kyns er heimil. Breyting á skráningu kyns samkvæmt lögum þessum og samhliða nafnbreyting skal einungis heimiluð einu sinni nema sérstakar ástæður séu til annars. Óski einstaklingur aftur að breyta skráningu kyns skal hann leggja fram skriflega greinargerð um ástæður beiðninnar til Þjóðskrár Íslands.

Líkamleg friðhelgi og breytingar á kyneinkennum

Óheimilt er að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings 16 ára eða eldri án skriflegs samþykkis hans. Þegar um er að ræða barn á aldrinum 16–18 ára þarf jafnframt mat teymis barna- og unglingageðdeildar um kynvitund á því að það sé barni fyrir bestu að framkvæma aðgerðina. Til varanlegra breytinga teljast meðal annars skurðaðgerðir, lyfjameðferðir og önnur óafturkræf læknisfræðileg inngrip. Um undantekningar frá þessari meginreglu gilda lög um réttindi sjúklinga. Áður en breytingar eru gerðar skal veita einstaklingnum ítarlegar upplýsingar um fyrirhugaða meðferð, þar á meðal um framgang hennar, áhættu og gagnsemi, hvort hún hafi áhrif á getu hans til að auka kyn sitt, svo og um önnur hugsanleg úrræði og afleiðingar þess ef ekkert verður aðhafst. Einnig skal einstaklingnum boðið að leita álits annars sérfræðings um nauðsyn meðferðarinnar honum að kostnaðarlausu. Hafi meðferð í för með sér skerta getu einstaklings til að auka kyn sitt eða varanlega ófrjósemi skal upplýsa hann um möguleika á varðveislu kynfrumna.

Sjá einnig:

Yfirlit um lög

Yfirlit um lög er varða mannréttindi og jafnrétti er að finna á vef Alþingis

Yfirlit um reglugerðir

Yfirlit um reglugerðir er varða jafnrétti er er að finna á reglugerd.is

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira