Hoppa yfir valmynd

Meira um höfundarrétt

Höfundaréttur fjallar um vernd hugverka. Þessi réttindi geta verið ýmiskonar, lista- og bókmenntaverk og önnur tengd réttindi. Verndin/einkarétturinn er síðan afmarkaður með lögum. Ákvæði laga á sviði höfundaréttar fela í sér einkarétt eiganda þessara réttinda á að nota umrædd verk í atvinnuskyni.

Lögin fela í sér að aðrir en eigendur slíkra réttinda mega ekki nota umrædd réttindi heimildarlaust í atvinnuskyni. Höfundur, samkvæmt höfundalögum, hefur einkarétt á því að birta sitt verk í þeim tilgangi að gera það aðgengilegt almenningi, til dæmis með sölu. Hugmyndin bakvið höfundarétt er sú að hver maður eigi rétt af „afrakstri“ eigin vinnu og eru þetta svipuð sjónarmið og gilda varðandi eignir almennt.

Höfundaréttindi skipta gríðarlegu miklu máli og eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi. Mikil framför hefur orðið á allra síðustu árum þegar kemur að möguleikum til fjöldaframleiðslu verka ásamt því að almenningur á nú mun auðveldara að koma sínu efni eða annarra á framfæri.

Réttlætingar og kenningar um höfundarétt takla flest mið að réttum einstaklingsins, þar sem að þetta sé hans náttúrulegi og fjárhagslegi réttur og sífelldur þrýstingur er á aukna vernd.

Ákveðnar takmarkanir eru til staðar í lögunum sem telja má nauðsynlegar þetta eru t.a.m. tímatakmarkanir, takmarkanir á hvað getur notið verndar, frátekinn réttur til einkanota og sérstakar takmarkanir byggðar á siðferðislegum sjónarmiðum.

Miðlar

Tónlist

Höfundaréttur nær m.a. yfir þá tónlist, texta og nótur sem höfundar hafa samið. Með því er átt við að bannað er að afrita, birta og dreifa verkum nema með samþykki höfundar eða annað sé tekið fram í lögum.

Kvikmyndir

Allar gerðir kvikmynda eru verndaðar af höfundarétti svo lengi sem þær uppfylla verndarskilyrði laganna. Engu máli skiptir hvort sé um að ræða langar kvikmyndir eða stuttar eins og t.d. auglýsingar.

Útvarp

Útvarp byggist að miklu leyti á flutningi á verkum sem njóta verndar í höfundarréttarlegum skilningi. Þó má geta þess að útsendingar frá íþróttarviðburðum og opinberum viðburðum falla ekki undir höfundaréttarvernd þannig að verndin nær ekki til allra útsendinga.

Sjónvarp

Í samræmi við höfundalög geta sjónvarpsstöðvar ekki notað vernduð myndverk í útsendingum sínum eða annari starfsemi nema með leyfi Myndstefs / höfundar. Í hvert sinn sem verk er endurbirt í sjónvarpi ber að hafa samband við Myndstef sbr. allsherjarsamning við Myndstef (sbr. 25.gr. 2.mgr. höfundalaga).

Texti

Texti bókmenntaverka nýtur höfundaréttar ásamt titlum höfundaréttarvarinna verka. Titill verður þó að vera frumlegur og sérkennilegur eigi hann að njóta höfundaréttar.

Myndir

Myndverk er samheiti sem tekur til málverka, ljósmynda, höggmyndalistar og fleiri tegunda sjónrænnar listar. Slík verk njóta ríkrar verndar íslensku höfundalaganna, sem sést einna helst af takmörkun á umráðarétti eiganda einstaka verndaðra höfundaverka í ákvæðum 24. gr. og 25. gr. höfundalaga.

Netið

Í aðalatriðum gilda sömu reglur um höfundarétt á verkum á Netinu og í öðru formi. Verk, sem birt eru á Netinu, er einungis heimilt að lesa af skjá samkvæmt íslensku höfundalögunum.

Tölvur

Hugbúnaður nýtur verndar rétt eins og bókmenntaverk sbr. 4. mgr. 1. gr. höfundalaga. Þar segir að tölvuforrit er samansafn upplýsinga eða skipana sem hafa þann tilgang, beint eða óbeint, að fá tölvu til þess að upplýsa eða framkvæma eitthvað eða láta hana hafa ákveðið hlutverk, ná ákveðnu markmiði, lausn eða árangri. 

Nefndir, ráð og samtök

Höfundaréttarnefnd

Höfundaréttarnefnd er skipuð sjö sérfróðum mönnum á sviði höfundaréttar. Hlutverk nefndarinnar er að vera mennta- og menningarmálaráðherra til ráðgjafar um höfundaréttarmál.

Ráðherra skipar til nefndina til fjögurra ára í senn og hefur við það samráð við helstu höfundaréttarsamtök landsins. Með þessu er ekki átt við að samtökin eigi sér fulltrúa í nefndinni heldur á ráðherra að hafa samráð við samtökin um hverjir skuli skipaðir í höfundaréttarnefndina. Formaður nefndarinnar er valin óháð tillögum höfundaréttarsamtaka enda er hlutverk hans að tryggja jafnvægi á milli hagsmuna notenda og rétthafa á sviði höfundaréttar.

Höfundarréttarráð

Í höfundarréttarráði sitja fulltrúar tilnefndir af þeim samtökum sem hlotið hafa lögformlega viðurkenningu mennta- og menningamálaráðuneytisins til meðferðar höfundaréttar, svo og annarra helstu höfundaréttarsamtaka í landinu. Einnig sitja fulltrúar útvarpsstofnana og annarra hagsmunaaðila.

Hlutverk ráðsins er vettvangur fyrir kynningu og umræðu um þau höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á samfélagið.

Höfundaréttarráð starfar eftir reglugerð nr. 500/2008. Þar kemur fram fulltrúar hvaða hagsmunaaðila eiga rétt til þess að vera í ráðinu. En það eru:

  1. Fulltrúar tilnefndir af þeim samtökum sem hlotið hafa lögformlega viðurkenningu ráðuneytisins til meðferðar höfundaréttar, þ.e. Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar – STEF, Myndhöfundafélag Íslands – Myndstef, Innheimtumiðstöð gjalda – IHM og Fjölritunarsamtök Íslands – FJÖLÍS.
  2. Fulltrúar annarra helstu höfundaréttarsamtaka í landinu þ.e. Félag kvikmynda­gerðarmanna, Félag leikritahöfunda, Framleiðendafélagið – SÍK, Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna, Félag tónskálda og textahöfunda, Tónskáldafélag Íslands, Félag íslenskra hljómlistarmanna – FÍH, Rithöfundasamband Íslands – RSÍ, Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Samband íslenskra mynd­listarmanna – SÍM, Samtök kvikmyndaleikstjóra – SKL og Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði – FRÍSK.
  3. Fulltrúar annarra hagsmunaaðila er tengjast framleiðslu, flutningi og afnotum efnis sem verndað er að höfundarétti. Þar á meðal teljast útvarps- og sjónvarpsfyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki, netþjónustufyrirtæki, stéttarfélög, samtök atvinnurekenda, Blindrabókasafn Íslands, Félag íslenskra bókaútgefenda, Félag íslenskra leikara, Félag íslenskra tónlistarmanna, Félag leikstjóra á Íslandi, Höfundaréttarfélag Íslands, Leiklistarráð Íslands, Leikskáldafélag Íslands, Ljósmyndarafélag Íslands, Neytendasamtökin, Samband íslenskra auglýsingastofa, Upplýsing – Félag bókasafns- og upplýsingafræða, Viðskiptaráð og talsmaður neytenda.

Að jafnaði er einn fundur á ári hjá höfundaréttarráði.

Félög og samtök sem gæta hagsmuna rétthafa á ýmsum sviðum

Hugtök

Eintakagerð

Íslensku höfundalögin eru þannig upp byggð að í fyrsta kaflanum er að finna hver séu réttindi höfunda og rétthafa. Í öðrum kafla laganna má svo finna undantekningar frá þeim rétti.

Réttur höfunda skiptist svo í fjárhagslegan og ófjárhagslegan rétt (sæmdarétt).

Fjárhagslegi réttur höfunda kemur fram í 3. gr. höfundalaga en þar segir:

„Höfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum.”

Það að höfundur eigi einkarétt til eintakagerðar þýðir að öllum öðrum en höfundi verks er óheimilt að gera eintök af verkum hans nema búið er að semja við hann um annað eða undantekning sé í lögum. Einkaréttur höfundar til eintakagerða nær til allra gerða eintaka af verki hans, hvort sem um er að ræða eintak af hluta verksins, aðlagað verk eða allt verkið. Sem dæmi má taka þegar tónlist er færð af geisladisk yfir á mp3-spilara en við slíka athöfn myndast eintak af verkinu og þá er verið að tala um eintakagerð.

Hugtakið eintakagerð nær ekki aðeins yfir þegar höfundur setur verk sitt á efni í fyrsta sinn heldur til allrar síðari eftirgerðar. Skiptir þá ekki máli hvort sé gert eintak af upphaflega verkinu eða eftirgerð þess.

Mikilvægt er að hafa í huga að þó að höfundur hafi gert eintak af verkinu sínu og svo selt það eða jafnvel gefið þá á höfundurinn ennþá einkaréttinn til eintakagerðar en ekki eigandinn af verkinu eða afriti af verkinu.

Hugtakið eintakagerð í 3. gr. höfundalaga nær yfir þau eintök sem myndast á netinu, t.d. þegar verið er að hlaða niður eða upp efni.

Birting

Að höfundur eigi einkarétt á birtingu verka sinna þýðir að öllum öðrum en höfundi verks er óheimilt að birta verk hans nema búið sé að semja við hann um annað eða undantekning sé í lögum.

Höfundalög gera engan greinarmun á upphaflegri birtingu á verki eða síðari birtingu og því á höfundur einkarétt á allri birtingu á verki sínu.

Verk telst birt þegar það hefur verið flutt, sýnt eða gefið út opinberlega þannig að almenningur eigi frjálsan aðgang að hvort heldur sem greiða þurfi fyrir aðgang eður eigi. Aftur á móti telst það ekki opinber birting þegar slíkt fer fram inni á heimilum manna, fyrir fjölskyldu eða vinum. Til að ákveða hvað telst opinber birting er litið til meðalhófs, sanngirnis og eðlis. Í 2. gr. höfundalaga er gert ráð fyrir þrenns konar birtingu verndaðra verka:

1. Útgáfa

Telst verk gefið út þegar eintök af því eru með réttri heimild og í álitsverðum fjölda boðin opinberlega til sölu, láns eða leigu eða þeim er dreift til almennings með öðrum hætti.

Hér er meðal annars matsatriði hvenær um álitlegan fjölda eintaka er að ræða og fer það eftir tegund verks og ytri aðstæðum. Rétt er að hafa í huga að í litlum samfélögum eins og á Íslandi þarf færri eintök en í stærri samfélögum til að uppfylla þetta skilyrði laganna. Einnig skal líta til þess hvers konar verk sé að ræða, hvort það takmarkaður hópur manna sem mun hafa not af verkinu eða er verkið ætlað öllum almenningi.

2. Opinber flutningur

Það teljist sjálfstæð opinber birting þegar útvarpsflutningi verndaðra verka er dreift til almennings með hátalara eða á annan hátt.

Þó að einungis komi fram útvarpsflutningur í málsgreininni þá kemur síðar fram í lögunum að þegar verið er að ræða um flutning og birtingu í lögunum þá er líka verið að ræða um birtingu/flutningi í hljóðvarpi og sjónvarpi, nema annað sé tekið fram.

Sem dæmi sé tekið um opinberan flutning má nefna flutning tónlistar í verslunum, upplestur verks í útvarpi, útsendingu í sjónvarpi eða útvarpi á opinberum stöðum svo sem búðum,veitingahúsum og þess háttar. Það skiptir ekki máli hvað margir náðu að sjá eða heyra flutninginn heldur hvort að almenningur hafi haft aðgang að þeim stað þar sem flutningurinn fór fram.

Það sem fellur utan við þennan rétt höfundar er flutningur sem er algerlega á einkasviði notenda verksins svo sem spilun tónlistar í heimahúsi, sjónvarpsútsending í stofunni, upplestur úr dagblaði fyrir fjölskyldumeðlimi og þess háttar. Fyrir utan kjarnafjölskylduna mega frænkur og frændur, tengdafólk, nágrannar og svo framvegis vera til staðar án þess að flutningurinn teljist vera opinber.

3. Sýning

Nú er verk flutt eða sýnt á atvinnustöðum, þar sem 10 menn vinna eða fleiri, telst það þá opinber birting.

Sýning eintaka er hluti birtingarhugtaksins í lögunum. Þó svo að tekið sé fram í lögunum að miða eigi við 10 manns eða fleiri á vinnustað þá er það ekki algilt heldur eigi að líta til meðalhófsreglu. Þannig að í sumum tilvikum sé um að ræða opinbera sýningu á verki þó svo að starfsmenn séu færri en 10 manns.

Þá verður að hafa í huga að ekki skiptir máli hvort að verkið sé flutt af listflytjanda þar á staðnum, diskur, lagalisti eða þess háttar spilað, eða útvarpsflutning sé dreift til áheyrenda venjulega með hátalarakerfi.

Algengasta not á sýningu eintaka er þegar eintak af listaverki er haft til sýningar á listasafni, galleríum og þess háttar. Eintak af verki getur á þann hátt einnig verið til sýningar jafnvel þótt að sýningin samanstandi af afriti af upphaflega verkinu. Einnig er átt við dagblöð á kaffihúsum, bækur til lestrar á bókasöfnum og þess háttar. Þessi tegund birtingar á einungis við um áþreifanleg eintök sem eru aðgengileg almenningi.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira