Hoppa yfir valmynd

Umsókn um þátttöku í þingfundi ungmenna 17. júní 2019

Óskað er eftir umsóknum frá ungmennum á aldrinum 13–16 ára til að taka þátt í þingfundi ungmenna þann 17. júní á Alþingi og taka þátt í undirbúningsvinnu fyrir fundinn. Gert er ráð fyrir að 70 ungmenni af öllu landinu taki þátt í fundinum. Um helmingur er tilnefndur af hinum ýmsu ungmennaráðum á landinu og um helmingur verður valinn úr hópi þeirra sem sækja um. Boðið verður upp á styrk vegna ferða- og gistikostnaðar fyrir þá sem koma langt að. Gert ráð fyrir að foreldri/forsjáraðili ferðist með hverjum þátttakanda og er ferðakostnaður hans einnig styrktur. 

Þingfundur ungmenna er haldinn í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins og markmiðið með honum er að gefa ungu fólki kost á að kynna sér störf Alþingis og tækifæri til að koma málefnum sem á þeim brenna á framfæri við ráðamenn þjóðarinnar. Þingfundurinn verður í beinni útsendingu á RÚV og vef Alþingis. Einnig er samstarf við UngRÚV um upptökur og frekari kynningu.

Umsóknarfrestur er til og með 20. maí.

 

Nánari upplýsingar

Undirbúningur

Þegar fyrir liggur hverjir taka þátt í þingfundinum hefst málefnavinna. Fer hún fram í gegnum samfélagsmiðla þar sem m.a. verður ákveðið hvaða málefni verða til umfjöllunar á þingfundinum. Þátttakendum verður skipt upp í hópa eftir málefnum og undirbúnar verða tillögur sem mælt verður fyrir um á fundinum. Unnin verður sameiginleg ályktun sem afhent verður forsætisráðherra í lok fundar. Þann 16. júní fer fram undirbúningsfundur í Alþingishúsinu þar sem m.a. verður kynning á starfi þingsins, leiðbeiningar um framsögn auk undirbúnings þingfundarins í þingsal. Í framhaldi af undirbúningsfundinum býður forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ungmennahópnum til móttöku á Bessastöðum.

Dagskrá þátttakenda á 17. júní

Að morgni 17. júní hittast þátttakendur og taka þátt í hátíðardagskrá á Austurvelli. Að lokinni hátíðardagskrá er gengið í þinghúsið þar sem þingfundur ungmenna fer fram frá kl. 12:00–13:00. Við lok fundarins verður forsætisráðherra afhent ályktun fundarins. Ungmennunum og forsjáraðila þeirra verður boðið til móttöku eftir að þingfundi lýkur. Bein útsending verður frá fundinum á RÚV og á vef Alþingis.

Fyrirspurnir berist á ungthing[hjá]for.is

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira