Hoppa yfir valmynd

Menntun fyrir alla

Málþing um framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi, 24. ágúst 2017 kl. 10-16 í Háskóla Íslands, Stakkahlíð á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og stýrihóps um eftirfylgni með úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar.

Sjá upptökur frá ráðstefnunni

Dagskrá

09:30-10:00        Kaffi, skráning og afhending gagna

10:00-10:05        Þingsetning – formaður stýrihóps um eftirfylgni úttektar. Ragnheiður Bóasdóttir, mennta- og menningarmálaráðuneyti

10:05-10:15        Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra. Kristján Þór Júlíusson

10:15-11:05        Ávörp fulltrúa annarra aðila sem standa að samstarfsyfirlýsingu um eftirfylgni úttektar um menntun án aðgreiningar á Íslandi:

  1. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra
  2. Hrefna Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Heimilis og skóla
  3. Halldór Halldórsson formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
  4. Þórður Hjaltested formaður Kennarasambands Íslands
  5. Olga Lísa Garðarsdóttir formaður Skólameistarafélags Íslands
  6. Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra

11:10-12:15        Gæðamenntun án aðgreiningar.   Amanda Watkins og Verity Donelly fulltrúar Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir

12:15-13:00        Léttur hádegisverður í boði mennta- og menningarmálaráðuneytisins

13:00-13:30        Fyrirmyndarstarfshættir í skólum. Hanna Ragnarsdóttir prófessor í Háskóla Íslands

13:35-15:25        Vinna í sex málstofum með kaffihléi

Umfjöllunarefni í fyrri hluta (um 40 mín.):

Grundvöllur gæðastarfs fyrir alla nemendur                        

Umfjöllunarefni í síðari hluta (um 40 mín.):

1. Löggjöf og stefnumótun. Málstofustjóri Stefán Baldursson skrifstofustjóri, mennta- og menningarmálaráðuneyti

2. Gæðastjórnunarkerfi. Málstofustjóri Björk Ólafsdóttir sérfræðingur, Menntamálastofnun

3. Stuðningur við lærdómssamfélag skóla. Málstofustjóri Þorsteinn Hjartarson fræðslustjóri, Árborg

4. Fyrirkomulag fjárveitinga. Málstofustjóri Sigurður Á. Snævarr sviðsstjóri, Samband íslenskra sveitarfélaga

5. Stuðningskerfi á öllum skólastigum. Málstofustjóri Soffía Lárusdóttir forstöðumaður, Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins

6. Grunnmenntun og fagleg starfsþróun. Málstofustjóri Aðalheiður Steingrímsdóttir varaformaður, Kennarasamband Íslands

15:30-15:50        Samantekt. Anna Magnea Hreinsdóttir fræðslustjóri Borgarbyggðar og Ingvar Sigurgeirsson prófessor í Háskóla Íslands

15:50-16:00        Lokaorð. Gunnar Gíslason ráðgjafi - málþingsstjóri

 

Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar

Úttektin náði til allra hagsmunaaðila skólasamfélagsins, þ.e. til nemenda og fjölskyldna þeirra, starfsfólks skóla, skólaþjónustu og stoðþjónustu hvers konar, rekstraraðila skóla, samtaka kennara, kennaramenntunarstofnana og ráðuneyta.

Markmið úttektarinnar var að styðja við ákvarðanatöku um innleiðingu og framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar með sannreyndri þekkingu og stuðla jafnframt að víðtæku sjálfsmati innan menntakerfisins auk þess að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

Núverandi löggjöf og stefnumótun felur í sér stuðning við markmið og áherslur stefnu um menntun án aðgreiningar

Í úttektinni koma fram athyglisverðar niðurstöður, t.d. að núverandi löggjöf og stefnumótun fræðsluyfirvalda felur í sér stuðning við markmið og áherslur skólakerfis án aðgreiningar og eru í samræmi við alþjóðlega sáttmála og samninga sem Íslendingar hafa undirgengist. Samstaða er um þessi markmið og áherslur meðal þeirra sem sinna menntamálum og á öllum stigum skólakerfisins en  þörf sé á skýrari leiðsögn um hvernig standa ber að því að hrinda stefnunni í framkvæmd. Af öðrum niðurstöðum má nefna að nokkuð er um að mismunandi skilningur sé lagður í hugtakið menntun án aðgreiningar. Þá kemur fram að flestir þeirra sem sinna menntamálum, á hvaða skólastigi sem þeir starfa, telja núverandi tilhögun fjárveitinga og reglur um ráðstöfun fjár hvorki taka mið af jafnræðissjónarmiðum né hugmyndum um skilvirkni og styðji ekki við skóla án aðgreiningar. Einnig talar  margt starfsfólk skóla um ófullnægjandi stuðning með menntun án aðgreiningar að leiðarljósi. Auk þess efast margir starfsmenn skóla um að grunnmenntun þeirra og/eða tækifæri til faglegrar starfsþróunar nýtist sem skyldi til undirbúnings fyrir skólastarf án aðgreiningar.

Þegar niðurstöður úttektarinnar voru kynntar sagði Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra: „Það er ánægjulegt að sjá að samstaða er um markmið menntunar án aðgreiningar og að löggjöf okkar og stefna styðji þau. Við viljum ekki láta staðar numið við útkomu skýrslunnar heldur nota niðurstöður hennar sem vettvang og tækifæri til að halda áfram. Að því sögðu hafa sömu aðilar og undirrituðu viljayfirlýsingu í nóvember 2015 um að vinna saman að undirbúningi og framkvæmd úttektarinnar, tekið ákvörðun um að undirrita samstarfsyfirlýsingu um  að fylgja niðurstöðunum eftir með það að markmiði að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.“

Menntakerfið almennt vel fjármagnað en úthlutun fjármagns þarfnast endurskoðunar við

Cor Meijer, framkvæmdastjóri Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir, telur Ísland standa mjög sterkt hvað varðar löggjöf og stefnumótun um menntun án aðgreiningar og í samræmi við alþjóðlega sáttmála. Hlutfallslega færri nemendur væru í sérskólum og sérúrræðum í skólum á Íslandi en víðast í Evrópu. Hins vegar væru formlegar greiningar á sérþörfum nemenda á Íslandi langt yfir meðallagi. Hann telur að menntakerfið í heild sé almennt vel fjármagnað en að endurhugsa þurfi úthlutun fjármagnsins þannig að það styði betur við stefnuna um menntun án aðgreiningar. Það komi fram í úttektinni að þetta skipti höfuðmáli þegar horft er til umbóta í menntakerfinu þegar til lengri tíma er litið.

Í úttektinni er lagt til að byrjað verði á að athuga þrjár forgangsaðgerðir eða lyftistangir (Critical Levers) sem útfærðar verða í nánu samstarfi við samstarfsaðila en með því eru sköpuð mikilvæg skilyrði fyrir frekari þróun á menntun án aðgreiningar hér á landi.

·         Í fyrsta lagi er að hvatt er til umræðna meðal þeirra sem vinna að menntamálum um það hvernig best verði staðið að menntun án aðgreiningar.

·         Í öðru lagi að fram fari athugun og endurskoðun á núverandi reglum um fjárveitingar til skólakerfisins.

·         Í þriðja lagi að gert verði samkomulag um viðmið um lágmarksþjónustu til stuðnings menntunar án aðgreiningar í öllum skólum.

Hér fyrir neðan má finna samantekt um helstu atriði lokaskýrslunnar, lokaskýrsluna sjálfa og viðauka hennar:

Menntun fyrir alla: Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi (íslensk þýðing kemur síðar)

Nánar um úttektina

Haustið 2013 var samþykkt að mennta- og menningarmálaráðuneytið tæki þátt í samstarfi um greiningu á framkvæmd skóla án aðgreiningar á grunnskólastigi. Skipaður var starfshópur með fulltrúum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi grunnskólakennara, Skólastjórafélags Íslands og velferðarráðuneyti. Niðurstaða starfshópsins var að þörf væri á enn frekari greiningu á stöðu og framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar og áhrifum hennar á skólastarf, þ.m.t. á líðan og árangur nemenda.

Í kjölfarið var ákveðið að ganga til samninga við Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir um víðtæka ytri úttekt á menntun án aðgreiningar á Íslandi. Evrópumiðstöðin gerði úttektina í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Heimili og skóla, landssamtök foreldra, Skólameistarafélag Íslands og aðra sem málið varðar.

Markmið úttektarinnar var að styðja við ákvarðanatöku um innleiðingu og framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar með sannreyndri þekkingu og stuðla jafnframt að víðtæku sjálfsmati innan menntakerfisins auk þess að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

Áhersla var lögð á að kanna hve árangursrík innleiðing menntastefnu um skóla án aðgreiningar hefur verið í skólakerfinu á Íslandi, á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi, meðal annars í samanburði við önnur lönd.  Einnig var rýnt í fjármögnum vegna skóla án aðgreiningar á vegum ríkis og sveitarfélaga. Úttektin fór fram frá nóvember 2015 til ársbyrjunar 2017.

Í upphafi úttektar stóðu allir helstu aðilar menntamála hér á landi að gagnrýnu sjálfsmati á stöðu menntunar án aðgreiningar hér á landi og niðurstaða þess var að mótuð voru sjö áherslusvið. Á grundvelli þessara sjö sviða voru skilgreind viðmið og vísbendingar  sem aðilar telja rétt að stefna að í skólakerfinu.

Niðurstöður úttektarinnar eru teknar saman í sjö meginköflum skýrslunnar á þann hátt að einn kafli er helgaður hverju þeirra sjö viðmiða og flokka vísbendinga sem um er fjallað. Einnig eru lagðar fram sjö megintillögur um æskilegar ráðstafanir, ein fyrir hvert þeirra sjö viðmiða sem lögð voru til grundvallar í úttektarvinnunni.

Ítarlegar  upplýsingar um úttektina eru í samantekt sem er aðgengileg á hlekk hér fyrir ofan, þar eru teknar saman meginniðurstöður verkefnisins og raktar þær tillögur um ráðstafanir og mikilvægar lyftistangir til framtíðar sem fram koma í lokaskýrslunni Menntun fyrir alla: Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi.

Stýrihópur samstarfsaðila

Í stýrihópnum sitja Ragnheiður Bóasdóttir og Guðni Olgeirsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Þór G. Þórarinsson og Elsa B. Friðfinnsdóttir frá velferðarráðuneyti, Svandís Ingimundardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Aðalheiður Steingrímsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir frá Skólameistarafélagi Íslands og Ólafur Páll Jónsson frá samtökunum Heimili og skóli. Stýrihópurinn er skipaður til ársloka 2019.

Tillögur stýrihóps um fyrstu aðgerðir, ágúst 2017

Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri um eftirfylgd úttektarinnar sem vinna mun náið með stýrihópnum. Verkefnisstjóri er Ragnar Þorsteinsson.

Síðast uppfært: 8.11.2021
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira