Hoppa yfir valmynd

Stýrihópur

Á undanförnum árum hefur átt sér stað víðtækt samstarf ríkis og sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila skólasamfélagsins um greiningu á framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla/menntun án aðgreiningar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi á Íslandi. Samstarfið byggir á viljayfirlýsingu lykilaðila um að ráðast í úttekt á menntakerfinu og var Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir (e. European Agency for Special Needs and Inc1usion) fengin til verksins á árinu 2015.


Við kynningu á niðurstöðum úttektarinnar 2. mars 2017 undirrituðu sömu aðilar yfirlýsingu um samstarf við eftirfylgni úttektarinnar með það að markmiði að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.
Stýrihópur um eftirfylgni með úttektinni hefur starfað frá því í ágúst 2017. Í stýrihópnum sitja fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Skólameistarafélags Íslands og Heimilis og skóla.

Í ágúst 2017 samþykkti þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra tillögur stýrihóps um aðgerðir til loka árs 2019. Á grundvelli samþykktra aðgerða hefur stýrihópur unnið að innleiðingu aðgerða sem ná til eftirfarandi sjö meginmarkmiða:

  1. Að allir sem vinna að menntamálum líti á skóla án aðgreiningar sem grundvöll gæðanáms fyrir alla nemendur
  2. Að löggjöf og stefnumótun á vettvangi ríkis og sveitarfélaga stuðli að uppbyggingu menntunar án aðgreiningar á grundvelli réttar hvers og eins
  3. Að stefna ríkis og sveitarfélaga á sviði menntunar án aðgreiningar festi í sessi stjórnskipulag og gæðastjórnunarkerfi sem stuðla að árangursríkri framkvæmd á öllum skólastigum
  4. Að fyrirkomulag fjárveitinga og reglur um ráðstöfun fjár auki skilvirkni, jafnræði og möguleika á að framkvæma stefnu um menntun án aðgreiningar
  5.  Að grunnmenntun og fagleg starfsþróun grundvallist á stefnu um menntun án aðgreiningar svo allir geti tileinkað sér árangursríka starfshætti
  6. Að efla og samhæfa stuðningskerfi fyrir öll skólastig svo þjónustan verði samfelld í námsumhverfi menntunar án aðgreiningar

Að stefnunni sem mörkuð hefur verið á sviði menntunar án aðgreiningar sé komið til framkvæmda með árangursríkum hætti í öllum leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Á grundvelli markmiða ríkisstjórnar um að efla menntakerfið í landinu sem forsendur framfara ákvað mennta- og menningarmálaráðherra að endurnýja samstarfsyfirlýsingu aðila, með það að leiðarljósi að nýta niðurstöður úttektarinnar til að efla menntun fyrir alla. Ráðherra telur mikilvægt að í þann hóp bætist ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála vegna þeirra málefna sem heyra þar undir ásamt fulltrúa kennaramenntunar.

Að þessu tilefni efndi ráðherra til viðburðar í Ráðherrabústaðnum föstudaginn 13. apríl sl., þar sem ráðherrar mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis og samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis ásamt forvígismönnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands, Skólameistarafélagi Íslands, Háskóla Íslands fyrir hönd kennaramenntunarstofnana og Heimili og skóla, landssamtökum foreldra, staðfestu vilja til áframhaldandi samstarfs við að fylgja eftir niðurstöðum úttektar á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum