Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um menntamál

Birt með fyrirvara. Unnið er að því að uppfæra svörin (september 2019).

Veldu viðeigandi flipa hér að neðan.

Börn og foreldrar

Ekki er tekið sérstaklega á rétti þessara barna umfram önnur leikskólabörn. Leikskólinn er fyrir öll börn og fá þau alla þá umönnun og menntun sem þurfa þykir óháð stöðu þeirra og sérþörfum eftir því sem tök eru á.

Með ákvæðinu er leitast við að tryggja að foreldrar, sem ekki tala íslensku eða nota táknmál, fái túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar þykja til að nauðsynleg samskipti foreldra og starfsfólks leikskóla geti farið fram. Átt er við bæði munnlegar og skriflegar upplýsingar.

Allar þær upplýsingar sem stuðla að því að foreldrar geti gætt hagsmuna barna sinna og að góð samskipti geti átt sér stað milli heimila og skóla.

Kærur

Leikskólalögin gera ráð fyrir að tilteknar ákvarðanir sem teknar eru af hálfu rekstraraðila leikskóla megi kæra til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Hér er um að ræða að ráðuneytið fjalli um og meti hvort ákvörðun af hálfu sveitarstjórnar uppfylli skilyrði laga um ákveðna þætti. Mat sem framkvæmt er innan þess ramma sem lögin veita sveitarfélögum verður ekki endurskoðað af hálfu menntamálaráðherra.

Hafi sveitarfélag á hinn bóginn í mati sínu farið út fyrir lögbundinn starfsramma hefur ráðuneytið heimild til að ógilda viðkomandi ákvörðun í heild eða að hluta. Jafnframt er gert ráð fyrir því, þegar um er að ræða ákvörðun um rétt til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar eða aðgang að leikskóla, að ráðuneyti geti í úrskurði sínum beinlínis lagt fyrir sveitarfélag að leysa úr viðkomandi máli með ákveðnum hætti.

Að öðru leyti er á því byggt að ráðuneytið hafi aðeins heimild til að fella ákvörðun úr gildi í heild eða að hluta. Þá getur ráðuneytið lagt fyrir sveitarfélag að taka mál til meðferðar að nýju eða staðfesta ákvörðun. Mál sem kæranleg eru skv. lögunum taka til réttar leikskólabarna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar, um aðgang að skóla og um gjaldtöku fyrir dvöl í leikskóla.

Nám

Reglurnar eru settar með vísan í 26. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 með tilliti til aðstæðna barna og fjölskyldna þeirra sem og með tilliti til aðstæðna í leikskólum sveitarfélagsins.

Lög um leikskóla fela í sér ákveðinn sveigjanleika í þeim tilvikum þegar foreldrar einstakra barna óska þess að börn sín fari fyrr í grunnskóla en að öllu jöfnu gerist. Grundvallaratriði er að við ákvörðun um slíkt sé vandað til verka og horft bæði til félagsþroska og námsframvindu viðkomandi barns. Að ákvörðun sem þessari þurfa að koma starfsfólk leikskóla og grunnskóla, foreldrar og þeir fagaðilar sem þurfa þykir. Sé hins vegar um að ræða að heill árgangur elstu barna í leikskóla hafi verið fluttur í húsnæði grunnskóla á forsendum grunnskólans, þ.e. að menntunin fari fram á grundvelli laga um grunnskóla, er slíkt í andstöðu við lög um leikskóla og grunnskóla.

Nei en við ákvörðun um slíkt er afar mikilvægt að vanda vel til verka og horfa bæði til félagsþroska og námsframvindu barna. Að slíkri ákvörðunartöku verður að koma starfsfólk leikskóla og grunnskóla, foreldrar og þeir fagaðilar sem þurfa þykir.

Um framangreint atriði er fjallað í 16. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008. Þar segir í 2. mgr. að persónuupplýsingar, sem fyrir liggi um hvert einstakt barn í leikskóla og nauðsynlegar séu fyrir velferð og aðlögun þess í grunnskóla, skuli fylgja barninu, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Foreldrum skuli gerð grein fyrir þessari upplýsingamiðlun. Meðferð upplýsinga skuli vera á hendi leikskólastjóra eða annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins samkvæmt nánari ákvörðun þess.

Í skýringum með 16. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 90/2008 segir að ákvæðið eigi við upplýsingar og greiningar ýmiss konar sem komi að gagni og skipti máli með hagsmuni barna að leiðarljósi. Undirstrika verði að hér sé eingöngu átt við upplýsingar sem teljist nauðsynlegar fyrir skólagöngu barns í grunnskóla og stuðlað geti að því að grunnskóli geti mætt þörfum þess. Grundvallaratriði sé að gott og náið samstarf sé milli skólastiganna hvað þetta varðar og að þagnarskylda sé í heiðri höfð. Þá sé grundvallaratriði að málsmeðferð sé í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og áhersla lögð á þagnarskyldu. Markmiðið sé að tryggja að byggt sé á fyrra námi og reynslu leikskólabarna þegar þau koma í grunnskólann og að aðlögun þeirra verði eins og best verði á kosið. Eðlilegt þyki að mat upplýsinga, frumkvæði og ábyrgð á slíkri upplýsingagjöf sé á hendi leikskólastjóra og/eða annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins og að foreldrar séu upplýstir um málið. Almennt verði að gera ráð fyrir því að við lok dvalar í leikskóla liggi fyrir þær upplýsingar sem fylgi barni í grunnskóla. Mikilvægt sé að foreldrar fái vitneskju um þær upplýsingar sem fylgja muni barni, en með þeim hætti geti þeir komið að leiðréttingum og eftir atvikum athugasemdum. Þau upplýsingaatriði sem falla undir hugtakið félagsleg staða verða þó ekki tæmandi talin og er upptalningin hér að framan hugsuð í dæmaskyni.

Ráðuneytið telur að skilja beri hugtakið upplýsingar um félagslega stöðu skv. a-lið 3. gr. reglugerðar nr. 896/2009, sem sett er á grundvelli 3. mgr. 16. gr. laga nr. 90/2008, í framangreindu samhengi þannig að átt sé við félagslega stöðu barnsins sjálfs, eftir því sem upplýsingar liggja fyrir um það hjá þeim leikskóla sem í hlut á. Við afmörkun á því hvaða upplýsingar falla undir þetta hugtak ber að líta til þeirra upplýsinga um félagslega stöðu sem aflað er í umsókn um leikskólavist eða vistunarsamningi fyrir barn, upplýsingar um barn sem foreldrar veita að eigin frumkvæði eða sem kennarar og annað starfsfólk leikskóla aflar með skráningum í daglegu leikskólastarfi, í foreldraviðtölum eða koma fram í skýrslum greiningaraðila sem kunna að vera afhentar leikskóla. Aðrar upplýsingar er varða félagslega stöðu barns en hér er getið um og varða félagslega stöðu foreldra og forráðamanna er eðlilegt að viðkomandi grunnskóli kalli sérstaklega eftir til viðkomandi sveitarfélags/félagsþjónustu, ef þörf er talin vera á.

Vegna áskilnaðar 2. mgr. 16. gr. laganna um að upplýsa beri foreldra um þær upplýsingar sem miðlað er má ætla að óheimilt sé að miðla upplýsingum sem aflað er án vitundar foreldra.

Já, í leikskólalögunum er að finna lagastoð til setningar reglna um innritun í leikskóla í sveitarfélaginu, enda njóti viðkomandi leikskóli fjárframlags frá sveitarfélaginu.

Námskrár

Ákvæðið tekur mið af alþjóðlegum viðmiðum um færni og þekkingu á öllum skólastigum. Gert er ráð fyrir að aðalnámskrá leikskóla kveði á um ákveðna hæfniþætti sem taki mið af aldri og þroska barna til að gera aðlögun barna að grunnskólanámi auðveldari.

Leikskólinn er bæði uppeldis- og menntastofnun og taka lögin mið af breyttum atvinnu- og samfélagsháttum og aukinni þekkingu og rannsóknum á sviði skólamála. Leikurinn verður áfram í fyrirrúmi og meginleið í námi og uppeldi í leikskólum.

Eitt af hlutverkum skólanámskrár er að gera leikskólastarf markvissara og sýnilegra. Mikilvægt er að sérstaða leikskóla komi fram í skólanámskrá og endurspegli mismunandi aðstæður í félagslegu og landfræðilegu tilliti. Þá er ekki síður mikilvægt að allt starfsfólk taki þátt í mótun hennar, t.d. á grundvelli mismunandi starfsreynslu og menntunar.

Almennt er námskrá leiðarvísir og rökstuðningur um nám og kennslu. Aðalnámskrár hafa ígildi reglugerðar og í þeim er kveðið nánar á um útfærslu laga og reglugerða. Þær kveða m.a. á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs, kennsluskipan og viðmið um námskröfur og námsframvindu. Skólanámskrá skal vera nánari útfærsla á aðalnámskrá. Hún á jafnframt að lýsa skólastarfi hvers skóla, sérkennum hans, sérstöðu og staðbundnum aðstæðum. Öllum leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum er skylt að gefa út skólanámskrá samkvæmt lögum. Auk aðalnámskrár frá mennta- og barnamálaráðuneyti gefa ýmsir aðilar út námskrár á ýmsum sviðum, t.d. opinberir aðilar og fræðsluaðilar en slíkar námskrár hafa ekki reglugerðargildi. Aðalnámskrár eru í sífelldri endurskoðun og eru breytingar kynntar með auglýsingu í Stjórnartíðindum hverju sinni.

Rekstur og stjórnun

Í formi sjálfseignarstofnunar, hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi.

Ábyrgð á velferð og öryggi barna hvílir fyrst og fremst á foreldrum þeirra. Leikskólabörn dvelja nú mun lengur í leikskólum dag hvern en áður tíðkaðist. Því er mikilvægt að foreldrar komi meira að mótun þess faglega starfs sem fram fer á leikskólunum.

Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hvort þau greiða fyrir fundarsetuna.
Lágmarkskröfur um húsnæði og aðbúnað leikskóla eru í reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655/2009. Lögð er áhersla á að við ákvörðun um fjölda barna í leikskólum verði horft til aldursdreifingar barna, samsetningar barnahópsins, sérþarfa leikskólabarna, lengd dvalartíma og skipulag húsnæðis.
Sjálfstætt reknum leikskólum ber að starfa samkvæmt þeim lögum og reglugerðum sem um leikskóla fjalla, þar með talið aðalnámskrá leikskóla. Leikskólalögin gera ráð fyrir að skýrt sé kveðið á um réttindi og skyldur rekstraraðila sjálfstætt rekinna leikskóla, m.a. um þagmælsku starfsfólks leikskóla, húsnæði og fjölda barna, gerð skólanámskrár, skyldur rekstraraðila til eftirlits og gæðamats á leikskólastarfi o.fl.

1. Hefur bæjarstjórn heimild til að taka einhliða ákvörðun um skipulagsdaga leik- og grunnskóla?
2. Hvað á að leggja til grundvallar við ákvörðun skipulagsdaga í leik- og grunnskólum?
3. Hver á að ákvarða dagsetningar skipulagsdaga í leik- og grunnskólum?
4. Hvert er hlutverk skólaráða og skólanefndar við ákvörðun skipulagsdaga?

Samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008 og lögum um grunnskóla nr. 91/2008 bera sveitarstjórnir ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leik- og grunnskólum sveitarfélaga. Í 28. gr. grunnskólalaga segir að skólastjóri ákveði nánari útfærslu vikulegs kennslutíma í samráði við skólaráð. Í lögum nr. 91/2011 um breytingu á lögum um grunnskóla nr. 91/2008 kemur m.a. fram um starfstíma skóla, að sveitarstjórnum sé heimilt að samræma tiltekna leyfisdaga innan skólaársins fyrir alla skóla í sveitarfélaginu, að höfðu samráði við hagsmunaaðila. Þótt sveitarstjórnir hafi í raun það vald að samræma vetrarleyfi í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins er talið rétt að lögbinda þessa heimild, ekki síst til að undirstrika mikilvægi þess að hafa samstarf um slíkt við hagsmunaaðila. Þar er t.d. átt við skólaráð grunnskóla, foreldraráð leikskóla og skólameistara framhaldsskóla ef áhugi er á víðtæku samstarfi um leyfisdaga.

Í 6. grein grunnskólalaga laga segir að í hverju sveitarfélagi skuli í umboði sveitarstjórnar starfa skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni. Eitt af meginhlutverkum skólanefndar er að staðfesta starfsáætlun skóla ár hvert og skólanámskrá einstakra skóla. Í 4. grein laga um leikskóla segir að nefnd, kjörin af sveitarstjórn, fari með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Í 14. grein sömu laga segir að skólanámskrá og starfsáætlun skuli staðfestar af nefnd skv. 2. mgr. 4. gr., að fenginni umsögn foreldraráðs, og skulu þær kynntar foreldrum.

Í 8. grein grunnskólalaga segir að við grunnskóla skuli starfa skólaráð sem sé samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið.
Í 11. grein leikskólalaga segir að kjósa skuli foreldraráð við leikskóla og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið. Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr., um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiriháttar breytingar á leikskólastarfi.

Í 29. grein grunnskólalaga segir að í hverjum grunnskóla skuli gefa út skólanámskrá og starfsáætlun. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð þeirra og skal semja þær í samráði við kennara. Í árlegri starfsáætlun er m.a. gerð grein fyrir skóladagatali, þ.m.t. lengd jólaleyfis, páskaleyfis og annarra vetrarleyfa, starfsáætlun nemenda, skólareglum, stoðþjónustu, félagslífi og öðru því sem varðar starfsemi skólans ár hvert. Starfsáætlun skóla skal árlega lögð fyrir skólanefnd til staðfestingar sem staðfestir gildistöku hennar þegar ljóst er að hún hafi verið unnin í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá, kjarasamninga og ákvarðanir sveitarstjórnar um fyrirkomulag skólahalds.
Skólastjóri er ábyrgur fyrir útfærslu þessara ákvæða og einnig fyrir umfjöllun í skólanum og í skólaráði og að gera skólanefnd grein fyrir því með hvaða hætti áætlanir hafi staðist. Starfsáætlun og skólanámskrá skulu vera aðgengilegar öllum aðilum skólasamfélagsins.
Í 14. grein laga um leikskóla segir að leikskólastjóri gefi árlega út sérstaka starfsáætlun. Í starfsáætlun er gerð grein fyrir árlegri starfsemi leikskóla, svo sem skóladagatali og öðru því sem varðar starfsemi leikskólans. Skólanámskrá og starfsáætlun skulu staðfestar af nefnd skv. 2. mgr. 4. gr., að fenginni umsögn foreldraráðs, og skulu þær kynntar foreldrum.

Samanber ofangreind lagaákvæða er ákvörðun um skipulagsdaga á hendi skólastjóra en sveitarstjórn getur, sem ábyrgðaraðili skólahalds í sveitarfélaginu og í krafti yfirstjórnunarheimilda sinna beint tilmælum til skólastjórnenda að samræma skóladagatal innan sveitarfélagsins. Skólastjórnendum er rétt að hafa slík tilmæli til hliðsjónar við ákvörðun um skipulagsdaga. Eðlilegt er að sveitarstjórn taki mið af þeirri málsmeðferð sem lög um leikskóla og lög um grunnskóla gera ráð fyrir við ákvörðunartöku sem þessa og að gætt sé lögbundins samráðs við hagsmunaaðila skólasamfélagsins.

Meiri áhersla en áður er lögð á, að við byggingu og hönnun nýs leikskólahúsnæðis og við eldri leikskóla þar sem því verður við komið, sé tekið mið af þörfum allra leikskólabarna, starfsliðs og þeirrar starfsemi sem fram fer í leikskóla. Nánari ákvæði er að finna í reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655/2009.
Kveðið er á um það í lögum um leikskóla að sveitarfélög eigi að sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs og að þau láti árlega ráðuneytinu í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat, framgang skólastefnu og áætlanir um úrbætur. Ráðuneytið annast síðan greiningu og miðlun upplýsinga á grundvelli framangreindra upplýsinga frá sveitarfélögum. Eftirlit ráðuneytis fer fram með öflun, miðlun og greiningu upplýsinga, ytra mati, innlendum og erlendum könnunum og rannsóknum. Ráðherra setur fram áætlun um ytra mat til þriggja ára í senn og er áætlunin birt á vefsvæði ráðuneytisins. Í áætluninni koma fram fyrirhugaðar úttektir og kannanir svo og eftirfylgni eftir því sem kostur er. Áætlunin getur m.a. byggt á úttektum á einstökum þáttum skólastarfs, úttektum á skólum og aðferðum við innra mat, svo og innlendum og erlendum könnunum og rannsóknum. Þess má geta að ráðuneytið lét framkvæma könnun árið 2008 meðal leikskólastjóra á innleiðingu og framkvæmd laga um leikskóla. Markmiðið var að meta stöðu innleiðingar laganna auk þess sem könnunin var liður í lögbundnu eftirliti ráðuneytisins með leikskólastarfi. Þessa dagana er ráðuneytið að fylgja eftir þeim atriðum sem var ábótavant í könnuninni.
Hlutverk foreldraráðs er fyrst og fremst að fjalla um og gefa umsögn til leikskólans og skólanefndar sveitarfélagsins um skólanámskrá og aðrar þær áætlanir sem varða starfsemi leikskóla.
Skyldan felst í því að tilkynna mennta- og barnamálaráðuneyti um stofnun leikskóla sem og þegar rekstri þeirra er hætt.
Já, sveitarstjórnum er heimilt að sameina leikskóla undir stjórn eins skólastjóra.
Já, sveitarfélögum er heimilt að reka saman leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra. Skal stjórnandi slíkrar stofnunar hafa leyfisbréf til kennslu á leik- eða grunnskólastigi. Hinn samrekni skóli skal starfa að öðru leyti samkvæmt lögum um viðkomandi skólastig. Ákvæðið er einkum tilkomið vegna skólahalds í dreifbýli.
Leikskóladeild má vera staðsett í húsnæði grunnskóla en nám og uppeldi fer þá fram á grundvelli laga um leikskóla og aðalnámskrár leikskóla. Lög um leikskóla koma ekki í veg fyrir að slíku fyrirkomulagi sé komið á. Lög um grunnskóla taka þar af leiðandi ekki til starfsemi sem þessarar en í lögum um grunnskóla er að finna ákveðnar gjaldtökuheimildir. Sveitarfélög hafa skv. lögum um leikskóla heimild til að ákveða gjaldtöku fyrir leikskólavist. Samrekstur leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla undir yfirstjórn eins yfirmanns er einnig heimil skv. lögunum og í þeim tilvikum gilda lög hvers skólastigs um viðkomandi starfsemi.
Um rekstur sjálfstætt rekinna leikskóla gilda ákvæði laga um leikskóla nr. 90/2008 nema þar sem annað er tekið fram.
Já, að vissu marki. Við það skal þó miðað að gjaldið nemi ekki hærri upphæð en sem nemi meðalraunkostnaði við dvöl hvers barns í leikskólum á vegum sveitarfélagsins. Þetta ákvæði tekur ekki til sjálfstætt starfandi leikskóla nema kveðið sé á um slíkt í þjónustusamningi sem sveitarfélag gerir við aðila sem fengið hefur rekstrarleyfi.

Sérfræðiþjónusta

Tilgangur ákvæðisins um tengsl leikskóla og grunnskóla er að stuðla að góðu og nánu samstarfi og samvinnu milli leik- og grunnskóla til að aðlögun og undirbúningur leikskólabarna að grunnskólanámi verði sem best. Einnig er mikilvægt að grunnskólanám byggist m.a. á þeirri reynslu og menntun sem leikskólabörn hafa öðlast innan leikskólastigsins.
Reglugerð um starfsumhverfi leikskóla segir ekki nákvæmlega til um hvernig sveitarfélög skipuleggja sumarleyfi í leikskólum að öðru leyti en að gera þarf ráð fyrir að börn fái að minnsta kosti 4 vikna sumarleyfi. Það er ákvörðun hvers sveitarfélags og skóla hvort sumarleyfi barna sé á hefðbundnum sumarorlofstíma. Eðlilegt er að greint sé frá fyrirkomulaginu í starfsáætlun hvers skóla og fái umfjöllun foreldraráðs og skólanefndar. Samkvæmt 4. grein laga um leikskóla nr. 90/2008 bera sveitarfélög ábyrgð á starfsemi leikskóla. Sveitarfélög hafa forystu um að tryggja börnum leikskóladvöl og bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leikskólum sveitarfélags, þróun einstakra leikskóla, húsnæði og búnaði leikskóla, sérúrræðum leikskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd leikskólastarfs í sveitarfélagi. Sveitarfélög setja almenna stefnu um leikskólahald í sveitarfélagi og kynna fyrir íbúum þess. Nefnd, kjörin af sveitarstjórn, fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Leikskólastjórar, starfsfólk leikskóla og foreldrar í sveitarfélagi kjósa hver úr sínum hópi aðal- og varamann til setu á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt.

Já, lög um leikskóla nr. 90/2008 gera ráð fyrir heimild til handa mennta- og barnamálaráðherra að veita samþykki fyrir slíku.

Það þýðir að auk skólanámskrár, sem á að fela í sér heildaryfirlit yfir starfsemi og markmið leikskóla og tilgreina uppeldis- og námsáætlun hvers leikskóla, beri leikskólastjóri ábyrgð á að gefin sé út sérstök eða afmörkuð starfsáætlun sem miðast við hvert ár fyrir sig. Endurskoðun starfsáætlunar fer þá fram á hverju ári en endurskoðun skólanámskrárinnar, þar sem heildarmarkmið eru sett fram, sjaldnar.
Birta þarf niðurstöður opinberlega og gera þær þannig sýnilegar þeim sem hlut eiga að máli, hvort sem það eru sveitarstjórnir, aðrir rekstraraðilar, notendur þjónustunnar eða fræðsluyfirvöld.
Hlutverk leikskólans er að tryggja börnum sem bestu náms-, uppeldis- og leikskilyrði sem eiga að koma til móts við einstaklingsþarfir hvers og eins og örva alhliða þroska hvers barns.
Greining og miðlun upplýsinga um starfsemi leikskóla á grundvelli upplýsinga sem ráðuneytinu hafa verið sendar frá sveitarfélögum og með sjálfstæðri gagnöflun. Gert er ráð fyrir framkvæmdaáætlun af hálfu mennta- og barnamálaráðuneytis um fyrirhugaðar kannanir og úttektir á leikskólum eða einstökum þáttum leikskólastarfs.
Sprotasjóður er sameiginlegur með öðrum skólastigum en gegnir um leið víðtæku hlutverki, þ.e. að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá og stuðla að markvissum tengslum þriggja fyrstu skólastiganna. Þannig er m.a. hægt að styðja við ýmis þróunarverkefni til að fylgja eftir og styðja við nýbreytni í skólastarfi í tengslum við stefnu stjórnvalda.
Í lögum um leikskóla er hlutverk sveitarfélaga gert skýrara og áhersla lögð á að saman fari ábyrgð á rekstri leikskóla sem og innra starfi. Lögin skilgreina ábyrgð sveitarfélaga vegna ytra mats á þeirri starfsemi sem fram fer í leikskólum og miða ákvæði kaflans um mat og eftirlit að því að sveitarfélögum sé gert kleift að fylgja eftir skólastefnu sinni og áherslum í leikskólastarfi.
Með leikskólalögunum er efldur sá þáttur í leikskólastarfi sem tekur til hlutverks ríkis, sveitarfélaga, einstakra leikskóla, starfsfólks leikskóla, foreldra sem og leikskólabarna. Markmið mats og eftirlits á gæðum leikskólastarfs taka bæði til ábyrgðarskyldu skóla og fræðsluyfirvalda gagnvart þeim sem njóta þjónustu leikskóla. Þá er átt við þá hagsmuni sem þeir hafa af starfi hans og hins vegar er matinu ætlað að stuðla að umbótum í starfi skóla og í skólakerfinu í heild.
Já. Hún á að segja fyrir um markmið sveitarfélaga í leikskólamálum og kortleggja leiðir að þeim markmiðum.

Starfsfólk

Til þess að vera ráðinn skólastjórnandi við leik-, grunn- og framhaldsskóla skal umsækjandi hafa starfsheitið kennari, búa yfir hæfni sem stjórnandi og hafa viðbótarmenntun í stjórnun eða reynslu sem veitir umsækjanda sérhæfða hæfni, skv. lögum nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf í leik-, grunn- og framhaldsskólum eftir því sem við á í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og sveitarstjórnarlög og reglur settar samkvæmt þeim. Ef enginn kennari sækir um auglýst kennslustarf við leikskóla þrátt fyrir endurtekna auglýsingu er heimilt að lausráða í starfið til bráðabirgða, að hámarki til eins árs í senn, einstakling sem ekki er kennari. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið kennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar. Ákvörðun um ráðningu á grundvelli þessarar málsgreinar er í höndum sveitarstjórnar eða rekstraraðila í tilvikum sjálfstætt rekinna leikskóla.

Í lögum nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eru ýmis ákvæði um menntunar- og hæfnikröfur leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, bæði almenna hæfni og sérhæfða hæfni. Markmið laganna er að tryggja að þeir sem sinna uppeldis-, kennslu- og stjórnunarstörfum í leik-, grunn- og framhaldsskólum hafi menntun og hæfni í samræmi við störf þeirra og ábyrgð.

Í lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er sérstakur kafli um mat og eftirlit með gæðum skólastarfs á viðkomandi skólastigum. Sambærileg markmiðsgrein um mat og eftirlit með gæðum skólastarfs er í lögum um hvert skólastig. Í greinargerð með frumvarpi til laga um grunnskóla segir um þessa markmiðsgrein: „Lögð er til ný grein um markmið mats og eftirlits með gæðum skólastarfs. Í skýrslu sem vinnuhópur um gæðamál í skólastarfi skilaði til menntamálaráðherra árið 2005 er fjallað um hugtakið gæði í skólastarfi og tekið fram að það sé órjúfanlega tengt settum markmiðum í lögum, reglugerðum og námskrám sem setja ramma um starfsemina hverju sinni. Gæði eru skilgreind með hliðsjón af væntingum og þörfum helstu hagsmunaaðila, nemenda, foreldra, stjórnvalda, atvinnulífs og samfélags. Í mati og eftirliti felst síðan skoðun á því hversu vel skólar ná viðkomandi markmiðum og einnig er horft til framkvæmdar skólahalds. Greint er á milli innra mats/eftirlits sem fer fram innan skólanna sjálfra og ytra mats/eftirlits sem yfirvöld eða aðrir aðilar utan skólans standa fyrir. Markmið mats og eftirlits taka annars vegar til ábyrgðarskyldu skóla og fræðsluyfirvalda gagnvart þeim sem njóta þjónustu skóla og hagsmuni hafa af starfi hans og hins vegar er því ætlað að stuðla að umbótum í starfi skóla og í skólakerfinu í heild.

Settar hafar verið reglugerðir um mat og eftirlit á framangreindum skólastigum og ákvæði um mat á skólastarfi koma einnig fram í aðalnámskrám skólastiganna. Aukin áhersla er lögð á ytra mat sveitarfélaga á leik- og grunnskólum og ýmislegt hefur verið gert í þeim efnum í kjölfar gildistöku laganna, bæði af hálfu ráðuneytisins og einstakra sveitarfélaga. 

Skylda er að tilkynna, þrátt fyrir ákvæði um þagmælsku, til barnaverndarnefnda um tilvik þar sem grunur leikur á um að barn búi við vanrækslu eða ofbeldi sem stefni heilsu þess og þroska í hættu.
Sveitarstjórnarlög, auk fyrirmæla í samþykktum um stjórn sveitarfélaga eftir því sem við á, auk laga nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Samkvæmt lögum nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla skal leikskólastjóri, aðstoðarleikskólastjóri og leikskólakennarar hafa leikskólakennaramenntun og skipa a.m.k. 2/3 hluta stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi leikskólabarna í hverjum leikskóla.
Þeir sem gerst hafa brotlegir við ákvæði XXII. kafla almennra hegningarlaga eða skv. lögum um ávana- og fíkniefni eins og þar greinir.

Frístundaheimili

Með lögum nr. 76/2016 um breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, var lögfest ný grein um starfsemi frístundaheimila, þar sem öllum börnum í yngri árgöngum grunnskóla var gefinn kostur á þjónustu frístundaheimila. Þá grein er að finna í 33. gr. a í lögum um grunnskóla. Ákvæðið miðar við svonefnt yngsta stig grunnskóla, þ.e. 1.-4. bekk. Í ákvæðinu er einnig lögfest undanþáguheimild fyrir sveitarfélög, sem einhverra ástæðna vegna geta ekki rekið frístundaheimili, t.d. vegna staðbundinna aðstæðna. Meginreglan er að öllum börnum á yngsta stigi grunnskóla skal gefinn kostur á þjónustu frístundaheimila en sveitarfélög geta vikið sér undan þeirri skyldu sinni, í heild eða að hluta, ef gildar ástæður eru fyrir hendi.

Kærur

Já, ákvarðanir um rétt og skyldu einstakra nemenda sem teknar eru í grunnskólum á grundvelli ýmissa lagaákvæða eru kæranlegar til ráðherra. Um meðferð kærumála fer að ákvæðum stjórnsýslulaga.

Spurningin lýtur að skráningu lögheimilis barna fráskilinna foreldra sem fara með sameiginlegt forræði. Samkvæmt 5. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008 þá er sveitarfélögum skylt að halda skóla fyrir öll börn á aldrinum 6 til 16 ára sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu eftir því sem nánar segir í þeim lögum. Grunnskólalög gera þannig ráð fyrir að skyldur sveitarfélaga séu við þau börn sem lögheimili eiga í viðkomandi sveitarfélagi. Í 1. mgr. 31. gr. barnalaga, nr. 76/2003 er kveðið á um að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns síns eftir skilnað og slit sambúðar sem skráð hefur verið í þjóðskrá nema annað sé ákveðið. Foreldrar skulu ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði fasta búsetu. Í 4. gr. lögheimilislaga, nr. 21/1990 er skýrt kveðið á um að enginn geti átt lögheimili hér á landi á fleiri en einum stað í senn. Í 8. gr. sömu laga kemur fram að hafi forsjá barns ekki verið falin öðru hvoru foreldranna á barnið sama lögheimili og það foreldri sem það býr hjá.

Eins og ráða má af framangreindum lagaákvæðum er gert ráð fyrir því lögum samkvæmt að lögheimili fólks, barna og fullorðinna, sé aðeins á einum stað, þ.e. þeim stað þar sem viðkomandi hefur fasta búsetu. Sé um að ræða barn sem lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna ber foreldrum að ákveða hjá hvoru þeirra barnið skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði fasta búsetu. Eins og fram kemur í 1. gr. laga um Þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962 annast þjóðskrá almannaskráningu samkvæmt þeim lögum og fer dómsmálaráðherra með stjórn hennar. Kæru um skráningu á lögheimili barns skal beint til dómsmálaráðuneytis.

Mat og eftirlit

Já, sveitarfélög eiga að sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs og láta mennta- og barnamálaráðuneyti árlega í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, framgang skólastefnu sinnar og áætlanir um umbætur.
Hver grunnskóli á að meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á. Grunnskóli á að birta opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur. Ekki er lengur gert ráð fyrir úttektum mennta- og barnamálaráðuneytis á sjálfsmatsaðferðum grunnskóla á 5 ára fresti.
Mennta- og barnamálaráðuneyti annast greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í grunnskólum á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum og með sjálfstæðri gagnaöflun. Ráðuneytið gerir áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd laga um grunnskóla, aðalnámskrár grunnskóla og aðra þætti skólastarfs. Ráðuneytið skipuleggur einnig þátttöku í alþjóðlegum mennta- og samanburðarrannsóknum.

Nám

Ráðuneytinu barst fyrirspurn frá skólastjóra þess efnis að nemandi sem var að ljúka við 9. bekk hafi óskað eftir að útskrifast úr grunnskóla og hefja nám í framhaldsskóla haustið eftir og sleppa þar með 10. bekk. Fram kom í erindinu að viðkomandi nemandi hafi ekki tekið neitt námsefni úr 10. bekk og að foreldri hafi óskað eftir að nemandinn sleppti síðasta ári grunnskólans. Spurt var hvort slíkt væri hægt og ef svo væri hvernig skólinn ætti að standa að útskrift nemanda sem eingöngu hefði lokið 9 af 10 ára skyldunámi.
Í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 er fjallað um brautskráningu úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið. Þar segir m.a. eftirfarandi á bls. 58-59: "Foreldrar geta óskað eftir því við skólastjóra grunnskóla að barn þeirra sé útskrifað úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið, telji foreldrar að viðkomandi nemandi hafi forsendur til að innritast í framhaldsskóla. Skólastjóri skal ráðfæra sig við umsjónarkennara nemandans og sérfræðiþjónustu sveitarfélagsins áður en hann tekur ákvörðun í málinu. Skólastjóri metur hvenær nemandi hafi lokið grunnskólanámi og ber ábyrgð á útskrift hans úr grunnskóla. Nemanda ber að ljúka öllu skyldunámi samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla með framúrskarandi árangri áður en hann útskrifast þaðan, samanber eftirfarandi viðmið:

  • Nemandi uppfylli viðmið með hliðsjón af hæfniviðmiðum aðalnámskrár með framúrskarandi árangri.
  • Nemandi hafi fengið náms- og starfsráðgjöf.
  • Skólastjóri, umsjónarkennari og sérfræðiþjónusta telji útskrift ráðlega.
  • Nemandi hefur félagsþroska til að takast á við félagslegt umhverfi framhaldsskóla.

Nemendur sem ekki hafa lokið grunnskólanámi geta þó hafið nám í framhaldsskóla samhliða í samráði við foreldra, viðkomandi framhaldsskóla og viðkomandi sveitarfélag, þar sem ljóst sé hvernig námið er formlega metið. Samkvæmt grunnskólalögum er gert ráð fyrir að nánar sé samið um framkvæmd og fyrirkomulag milli hlutaðeigandi grunn- og framhaldsskóla. Ákveði skólastjóri að synja foreldrum um útskrift úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið geta foreldrar kært þá synjun grunnskóla til mennta- og menningarmálaráðuneytis sem úrskurðar í málinu."
Útskrift úr grunnskóla að afloknum 9. bekk er þ.a.l. ekki gerleg nema að uppfylltum ofangreindum skilyrðum.

Ráðuneytinu barst fyrirspurn um hvort heimilt væri að grunnskólanemendur ljúki námi í sundi í 8. eða 9. bekk að því gefnu að þeir hafi náð hæfniviðmiðum aðalnámskrár.

Settar eru fram eftirfarandi spurningar:

  • Má fækka heildarkennslustundafjölda sem nemur þessari einu kennslustund hjá nemendum á unglingastigi hafi þeir lokið sundnámi í 8. eða 9. bekk?
  • Teljist það ekki heimilt er þess óskað að ráðuneytið skoði eftirfarandi:
    - Má setja eina kennslustund inn í valgreinar á unglingastigi fyrir þá nemendur sem hafa lokið sundnámi í 8. eða 9. bekk?
    - Má bæta við einum íþróttatíma/hreyfingu inn sem skylduvalgrein hjá nemendum í 9. og/eða 10. bekk í stað þess skólaíþróttatíma sem upp á vantar ljúki nemendur skólasundi í 8. eða 9. bekk?

Í aðalnámskrá grunnskóla koma fram áherslur mennta- og menningarmálaráðuneytis varðandi skólaíþróttir. Þar segir meðal annars að í ljósi mikilvægis sundkunnáttu í slysavörnum og heilsueflingu landsmanna sé lögð áhersla á að allir nemendur verði syndir meðan á grunnskólagöngu þeirra stendur. Með fjölbreyttum æfingum í vatni í efri bekkjum sem auka á leikni, styrk og þol, eru meiri líkur á að nemendur nýti sér vatnið til þjálfunar á unglingsárum og síðar á lífsleiðinni.

Þá segir þar enn fremur að markviss hreyfing og gott líkamlegt ástand skólabarna hafi jákvæð áhrif á námsgengi þeirra. Með virkjun fleiri skynfæra eykst virkni heilastöðva um leið og aukin hreyfing eykur súrefnismettun blóðsins og blóðflæði til heilans. Þannig er hreyfing ein og sér mikilvæg öllum börnum. Mikilvægt er að leggja fyrir nemendur verkefni sem efla líkamlega þætti svo sem þol til að takast á við langtíma álag, líkamsstyrk til að takast á við hámarksátök og kyrrstöðuálag, liðleika sem tekur til hreyfanleika og hreyfivíddar í liðamótum. Með kennslu íþróttagreina og kappleikja nást mörg markmið í einu bæði líkamleg, félagsleg og andleg. Það mikilvægasta er þó gleðin og löngunin til að taka þátt og hreyfa sig meira, bætt líkamsástand og aukið sjálfstraust. Með því að glíma við ögrandi verkefni lærist að þjálfun og ástundun gefur árangur jafnt í íþróttum sem öðru námi. Hlutverk skólaíþrótta er samkvæmt ofangreindu mjög víðtækt.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur að ekki sé lagaleg heimild til að ákveða að nemendahópar ljúki almennt sundnámi í 8. eða 9. bekk. Heimild er hins vegar fyrir því að veita einstökum nemendum undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því. Í leiðbeinandi reglum um undanþágur frá skyldunámi, í aðalnámskrá grunnskóla, kemur fram að einungis er heimilt að veita nemanda undanþágu frá sundi hafi hann náð framúrskarandi árangri í sundi hjá íþróttafélagi. Skólastjóri veiti að öllu jöfnu einungis nemendum í 8.-10. bekk grunnskóla undanþágu frá skólaíþróttum, sem náð hafa framúrskarandi árangri í þeirri íþróttagrein sem þeir stunda. Forsenda þess að veita slíka undanþágu er að nemandi stundi æfingar hjá íþróttafélagi sem staðfest er af viðkomandi íþróttafélagi. Kjósi nemandi að óska eftir undanþágu frá skyldunámi í sundi getur hann ekki einnig fengið sundiðkun sína metna sem valgrein.

Auk þess felur aðalnámskrá grunnskóla í sér almenna heimild fyrir nemendur að ljúka hæfniviðmiðum einstakra námsgreina/sviða aðalnámskrár grunnskóla á skemmri tíma en 10 árum. Það er í höndum skólastjóra hvers grunnskóla að meta og taka ákvörðun um hvort slíku skilyrði hafi verið mætt í hverju tilviki fyrir sig.

Samkvæmt viðmiðunarstundaskrá aðalnámskrár grunnskóla frá árinu 2011 skal heildartími nemenda í 8.-10. bekk grunnskóla í skólaíþróttum vera 1.200 mínútur eða að meðaltali 360 mínútur á viku. Einnig segir í aðalnámskrá að í skólasundi er miðað við að nemendur fái a.m.k. einn sundtíma í stundaskrá skóla í hverri viku skólaársins. Þar sem slíku skipulagi verður ekki við komið skal kenna skólasund á árlegum námskeiðum. Á slíkum námskeiðum skal hver nemandi fá að lágmarki 20 sundtíma. Þær stundir, sem eftir standa, skal nýta til skólaíþrótta.

Ekki er hér gert ráð fyrir að tími í stundaskrá umfram 20 sundtíma verði skilgreindur sem ein af valgreinum nemenda á unglingastigi heldur að tíminn sé nýttur samkvæmt viðmiðunarstundaskrá í skólaíþróttir annað en sund.

Með útgáfu aðalnámskrár grunnskóla 2013 var gerð breyting á framsetningu hæfniviðmiða og matsviðmiða en ekki var ætlunin að breyta kröfum um getu og hæfni nemenda í sundi við lok grunnskóla og ekki var dregið úr mikilvægi skólaíþrótta.

Samkvæmt grunnskólalögum eiga allir nemendur rétt á námi við hæfi, bæði bóklegu-, list- og verknámi og er sveitarfélögum skylt að sjá nemendum fyrir viðeigandi námstækifærum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. Þetta á við um öll börn. Hafi nemendur náð hæfni- og matsviðmiðum í 8. eða 9. bekk ber að bjóða þeim að dýpka þekkingu sína í námssviðum grunnskólans eða fjölbreytt val í öðrum greinum, allt eftir áhuga þeirra.

Samkvæmt ofangreindu er eðlilegt að bjóða þeim nemendum sem uppfylla lokaviðmið í sundi að dýpka þekkingu í skólaíþróttum sína allt eftir áhuga þeirra.

Í 26. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 er lögð áhersla á að nemendur skulu frá upphafi skólagöngu eiga val í námi sínu, svo sem um viðfangsefni og námsgreinar, í samræmi við viðmið í aðalnámskrá grunnskóla og skipulag skóla. Markmiðið sé að gera nemendur ábyrga fyrir eigin námi og skapa sveigjanleika í skólastarfi. Í 2. mgr. ákvæðisins er tekið fram að nemendur á unglingastigi, þ.e. í 8.-10. bekk, skulu nemendur velja námsgreinar og námssvið í allt að fimmtung námstímans samkvæmt nánari viðmiðunum sem settar eru í aðalnámskrá grunnskóla. Skólum er heimilt að skipuleggja mismunandi hlutfall valtíma eftir árgöngum í 8.-10. bekk og binda valið að hluta tilteknum námssviðum Í 3. mgr. er mælt fyrir um heimildir til þess að meta skipulagt nám sem stundað er utan grunnskóla og til að meta tímabundna þátttöku í atvinnulífi, félagslífi, íþróttum og á fleiri sviðum, sem nám enda falli það að markmiðum skólastarfs. Um rétt á vali í námi framhaldsskóla segir síðan í 4. og 5. mgr. 26. gr: „Grunnskólanemendur eiga rétt á að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi meðan þeir eru í grunnskóla enda hafi þeir sýnt fullnægjandi færni. Skólastjóri í grunnskóla veitir nemanda heimild til slíks náms utan skólans samkvæmt viðmiðum sem sett skulu í aðalnámskrá. Ákvörðun skólastjóra samkvæmt þessari málsgrein lýtur ákvæðum stjórnsýslulaga.“ Heimilt er að kæra synjun um mat á námi eða beitingu heimildar samkvæmt þessari grein eftir fyrirmælum 47. gr. Í úrskurði getur ráðuneytið lagt fyrir skólastjóra grunnskóla að veita nemanda heimild til náms á framhaldsskólastigi skv. 4. mgr.

Í skýringum við 4. mgr. 26. gr. grunnskólafrumvarpsins er m.a. að finna eftirfarandi ummæli: „Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að nemendur stundi nám samhliða í grunnskóla og framhaldsskóla og hefur ríkt nokkur óvissa um framkvæmdina, t.d. hvernig eigi að skipta kostnaði vegna slíkrar tilhögunar. Hér er gengið út frá því að skólastjóri grunnskóla geti heimilað slíkt, enda sé það gert á forsendum grunnskólans sem ber ábyrgð á nemandanum á meðan hann er á skyldunámsaldri, nema viðkomandi nemandi fari í framhaldsskóla að loknum 9. bekk. Gert er ráð fyrir að samkomulag liggi fyrir milli viðkomandi grunnskóla og framhaldsskóla um framkvæmdina. Gera þarf samning milli ríkis og sveitarfélaga um framkvæmdina þegar nemendur stunda samtímis nám í grunn- og framhaldsskóla. Í samningnum þarf m.a. að koma fram að nemandinn sé á ábyrgð grunnskólans og að samræming á námi nemandans sé á ábyrgð grunnskólans. Jafnframt þarf að skýra ákvæði um kostnaðarskiptingu, t.d. kennslukostnað, innritunarkostnað, bókakaup og gjaldtökuheimildir, og að það sé á ábyrgð grunnskólans að útskrifa nemandann og meta hvort hann hafi lokið grunnskólanámi. Heimild skólastjóra til þess að veita nemanda leyfi til þess að stunda nám utan skóla verður að byggjast á þeim sjónarmiðum að nemandi hafi lokið námi í viðkomandi grein þar sem það á við eða sýnt fullnægjandi færni. Gert er ráð fyrir því að í aðalnámskrá verði að finna viðmið sem lögð verði til grundvallar ákvörðun skólastjóra. Réttur nemanda til þess að stunda nám samkvæmt greininni tekur einvörðungu til náms sem talist getur hluti af grunnskólanámi hans. Um skiptingu kostnaðar milli grunnskóla og framhaldsskóla sem af því hlýst fer samkvæmt fyrirmælum 31. gr.“

Í 2. mgr. 31. gr. laga um grunnskóla er tekið fram: „Nú stundar grunnskólanemandi nám í framhaldsskóla sem skilgreint er sem hluti náms í grunnskóla, og fer þá um kostnað vegna kennslu á framhaldsskólastigi eftir ákvæðum laga um framhaldsskóla. Sveitarfélög greiða þá kostnað vegna námsgagna og innritunar og eftir atvikum efnisgjald. Um nánari framkvæmd og fyrirkomulag skal samið milli hlutaðeigandi grunn- og framhaldsskóla.“ Um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga kemur eftirfarandi fram í skýringum við 31. gr. frumvarpsins: „Þá greiðir ríkið kennslukostnað vegna áfanga sem nemandinn tekur og fær metna síðar sem hluta af framhaldsskólanámi. Sveitarfélögin greiða kostnað vegna námsgagna og innritunarkostnað nemenda í framhaldsskóla, enda er námið einnig metið sem hluti af skyldunámi, t.d. sem valgrein, og skal því vera nemendum að kostnaðarlausu, sbr. 3. og 4. mgr. 26. gr. Þegar um þetta er að ræða skulu sveitarfélag og framhaldsskóli gera með sér samkomulag.“

Samkvæmt grunnskólalögum þá er það skylda grunnskóla að bjóða nemendum nám við hæfi og þess skal sérstaklega gætt að allir nemendur fái jöfn tækifæri til náms og eigi þess kost að velja sér viðfangsefni og nálgun í eigin námi. Ef nemendur hafa lokið einstökum námsgreinum grunnskóla þá er eðlilegt að nemendum standi til boða valgreinar við hæfi í grunnskóla á öðrum sviðum, sbr. ákvæði grunnskólalaga. Einnig ættu nemendur að geta fengið viðfangsefni við hæfi innan allra námsgreina grunnskólans, t.d. með breiðara námsframboði og fjölbreyttum verkefnum við hæfi.
Samkvæmt lögum um grunnskóla var gert ráð fyrir að ríkið greiddi kennslukostnað vegna náms grunnskólanemenda í framhaldsskólaáföngum en sveitarfélög greiddu innritunargjöld og kostnað vegna námsgagna. Ekki er hægt að skylda sveitarfélög til að greiða kennslukostnað vegna þessara framhaldsskólaáfanga. Ráðuneytið telur eðlilegt að ef nemendur taka slíka áfanga samhliða grunnskólanámi þá fækki vikulegum kennslustundum við grunnskóla sem því nemur, en samkvæmt drögum að almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla skal almennt við það miðað að það nemi ekki meira en sem svarar 240 mínútum vikulega á hverju skólaári.

Já, grunnskólanemendur eiga rétt á að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi meðan þeir eru í grunnskóla enda hafi þeir sýnt fullnægjandi færni.

Ef grunnskólanemandi stundar nám í framhaldsskóla, sem skilgreint er sem hluti náms í grunnskóla, þá fer um kostnað vegna kennslu á framhaldsskólastigi eftir ákvæðum laga um framhaldsskóla. Sveitarfélög greiða þá kostnað vegna námsgagna og innritunar og eftir atvikum efnisgjald. Um nánari framkvæmd og fyrirkomulag skal samið milli hlutaðeigandi grunn- og framhaldsskóla. Vegna sparnaðar í framhaldsskólum er ekki veitt sérstakt fjármagn til þessarar kennslu.

Framhaldsskólanám - Hver er afstaða mennta- og menningarmálaráðuneytis til álits Sambands íslenskra sveitarfélaga um rétt grunnskólanema til náms í framhaldsskóla?

Í gildandi lögum er gengið út frá því að grunnskólar og framhaldsskólar semji sín á milli um framkvæmd og fyrirkomulag þess að grunnskólanemendur eigi rétt til að stunda samhliða einingabært nám við framhaldsskóla. Hefur verið gert ráð fyrir að um kostnað vegna kennslu á framhaldsskólastigi færi þá eftir ákvæðum laga um framhaldsskóla. Vegna niðurskurðar í kjölfar bankahrunsins hafa framhaldsskólar verulega minni möguleika en áður til þess að veita grunnskólanemendum slíka þjónustu. Vegna skerðingar á fjárveitingum reynir á forgangsröðun verkefna og hafa margir framhaldsskólar ekki talið sér fært að gera samninga við hlutaðeigandi grunnskóla í núverandi efnahagsástandi. Sú ákvörðun hefur verið gagnrýnd, ekki síst af sveitarfélögum og grunnskólum, sem lögum samkvæmt eiga að tryggja nemendum þennan rétt. Einnig hafa foreldrar gagnrýnt þessa skerðingu.

Í þessu ljósi er nú stefnt að því að setja bráðabirgðaákvæði í grunnskólalög sem frestar gildistöku á rétti grunnskólanemenda til að stunda samhliða einingabært nám í framhaldsskóla. Eftir sem áður er heimild fyrir slíkt fyrirkomulag fyrir hendi. Í frumvarpsdrögum sem stefnt er því að leggja fram á vorþingi er gert ráð fyrir að þessi réttur grunnskólanemenda verði virkjaður að nýju 1. ágúst 2013.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 segir í 25. gr. um markmið náms og aðalnámskrá grunnskóla. "Í aðalnámskrá skal setja ákvæði um inntak og skipulag náms í íslensku, íslensku sem öðru tungumáli eða íslensku táknmáli, stærðfræði, ensku, dönsku eða öðru Norðurlandamáli, list- og verkgreinum, náttúrugreinum, skólaíþróttum, samfélagsgreinum, jafnréttismálum, trúarbragðafræði, lífsleikni og upplýsinga- og tæknimennt. Þar segir jafnframt að kveða skuli á um hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina í grunnskóla. "Í 26. gr. laganna segir um val í námi: "Á unglingastigi, þ.e. í 8.–10. bekk, skulu nemendur velja námsgreinar og námssvið í allt að fimmtung námstímans samkvæmt nánari viðmiðunum sem settar eru í aðalnámskrá grunnskóla. Skólum er heimilt að skipuleggja mismunandi hlutfall valtíma eftir árgöngum í 8.–10. bekk og binda valið að hluta tilteknum námssviðum."  Í 46. gr. laganna segir m.a. um undanþágur: "Ráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða námsbraut innan almenns grunnskóla sem starfar samkvæmt viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan." 

Í aðalnámskrá grunnskóla almennum hluta frá 2011 er kveðið á um hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina í grunnskóla og það er gert í svokallaðri  viðmiðunarstundaskrá fyrir grunnskóla (bls. 52) Í viðmiðunarstundaskránni er kveðið á um hlutfallslega skiptingu tíma í öllum skyldunámssviðum og einnig er þar skilgreindur tími til ráðstöfunar skóla í 1.-7. bekk og í val og valgreinar á unglingastigi.  Undir þetta heyra ráðstöfunarstundir skóla, einkum í 1.−7. bekk og val nemenda í 8.−10. bekk. Út frá áhersluþáttum námskrár í lögum skal hafa jafnvægi milli bóklegs náms og verklegs og þess gætt að ekki halli á verklegt nám þegar skólastarf er skipulagt. Það á einnig við um skipulag valnámskeiða. Því er gert ráð fyrir að allt að helmingur valstunda sé bundinn list- og verktengdu námi. Grunnskólar hafa því samkvæmt grunnskólalögum og aðalnámskrá grunnskóla ákveðið svigrúm til að binda val nemenda í 8.-10. bekk að hluta tilteknum námssviðum og einnig að nýta ráðstöfunarstundir í 1.-7. bekk grunnskóla til að styrkja ákveðin skyldunámssvið eða fyrir aðrar námsgreinar. Svigrúm grunnskóla í 1.- 7. bekk vegna tíma til ráðstöfunar er um 1-1,5 klukkustund á viku að jafnaði.  Útfærslan á þessum sveigjanleika þarf að koma skýrt fram í skólanámskrá skólans sem á að vera öllum aðgengileg og foreldrar eiga að fá kynningu á skólanámskránni.

Í lögum um grunnskóla eru engar aðrar heimildir fyrir grunnskóla að hafa aðrar skyldunámsgreinar en kveðið er á um í lögunum. Eina svigrúmið sem gefið er í lögunum um kennslu í erlendum tungumálum snýr að Norðurlandamálum, en þeir nemendur sem hafa sérstök tengsl við Noreg eða Svíþjóð geta óskað eftir því að fá sænsku eða norsku í stað dönsku. Einnig er möguleiki innan ramma aðalnámskrár að fá undanþágu frá tiltekinni námsgrein, sjá 18. kafla í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 og 2013. Þá er t.d. mögulegt fyrir foreldra að óska eftir því að nemendur fái undanþágu frá Norðurlandamáli en fái þess í stað eigin móðurmál metið eða meiri kennslu í íslensku sem öðru máli. Loks er mögulegt fyrir skóla eða námsbraut sem hefur viðurkenningu ráðherra til að starfa samkvæmt viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan að kenna önnur tungumál, t.d. frönsku ef það er liður í þeirri erlendu námskrá sem unnið er eftir. 

Í 5. grein laga um grunnskóla, nr. 91/2008, kemur fram að sveitarfélögum er skylt að halda skóla fyrir öll börn á aldrinum 6-16 ára sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu eftir því sem nánar segir í þeim lögum. Grunnskólalög gera þannig ráð fyrir að skyldur sveitarfélaga séu við þau börn sem eiga lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi. Í 1. mgr. 31. gr. barnalaga, nr. 76/2003, er kveðið á um að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns síns eftir skilnað og slit sambúðar sem skráð hefur verið í þjóðskrá nema annað sé ákveðið. Foreldrar skulu ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði fasta búsetu.

Í 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, er skýrt kveðið á um að enginn geti átt lögheimili hér á landi á fleiri en einum stað í senn. Í 6. gr. sömu laga kemur fram að hafi foreldrar skilið eða slitið sambúð hafi barnið skráð lögheimili hjá öðru foreldri sínu.

Eins og ráða má af framangreindum lagaákvæðum er gert ráð fyrir því lögum samkvæmt að lögheimili fólks, barna og fullorðinna, sé aðeins á einum stað, þ.e. þeim stað þar sem viðkomandi hefur fasta búsetu. Sé um að ræða barn sem lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna ber foreldrum að ákveða hjá hvoru þeirra barnið skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði fasta búsetu.

https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008091.html
https://www.althingi.is/lagas/nuna/2003076.html
https://www.althingi.is/lagas/nuna/2018080.html

Grunnskólalögin kveða ekki á um skyldu sveitarfélaga til að verða við beiðnum um tvöfalda skólavist. Ráðuneytið bendir á að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent frá sér leiðbeinandi álit um tvöfalda skólavist barna.


Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er kveðið á um að í námskrá skuli sett ákvæði um inntak og skipulag náms í dönsku eða öðru Norðurlandamáli, sem lýsir vilja yfirvalda til að íbúarnir eigi þess kost að vera virkir þátttakendur á norrænum vettvangi. Samkvæmt grunnskólalögum setur aðalnámskrá ákvæði um inntak og skipulag náms. Í aðalnámskrá eru sett fram rök fyrir námi í erlendum tungumálum. Þar segir meðal annars að tungumál sé eitt mikilvægasta tæki mannsins til að orða hugsun sína, afla sér þekkingar og eiga samskipti við aðra. Í aðalnámskrá kemur einnig fram að annað erlenda tungumálið sem nemendur læra í grunnskóla er danska eða annað Norðurlandamál. Norðurlandamál eru kennd vegna samskipta og menningartengsla við norrænar þjóðir enda saga okkar samofin sögu þeirra og menningu.

Menningararfurinn er sameiginlegur og tungumálin eru af sömu rót sprottin. Tilgangurinn með kennslu í norrænum tungumálum á Íslandi er að viðhalda og styrkja tengslin við Norðurlandaþjóðirnar og stuðla að því að Íslendingar eigi greiða leið að sameiginlegum markaði menntunar og atvinnu á öllum Norðurlöndunum. Hæfni og kunnátta í norrænum tungumálum gerir Íslendingum kleift að vera áfram virkir þátttakendur í umfangsmiklu norrænu samstarfi, námi, starfi og leik. Jafnframt er markmið námsins að nemendurnir öðlist skilning á skyldleika norrænu tungumálanna og menningunni að baki þeim, þeir læri að greina hvað einkennir hvert tungumál og geti skilið og tjáð skoðun sína í norrænu samhengi. Þetta eru megin ástæður þess að í grunnskólum á Íslandi er gerð krafa um dönskunám með þeim hætti sem birtist í aðalnámskrá grunnskóla.

Í aðalnámskrá kemur fram að gert er ráð fyrir að danska sé alla jafna það norræna tungumál sem kennt er í skólum hér á landi en kennsla í norsku eða sænsku stendur til boða nemendum sem hafa sérstök tengsl við Noreg eða Svíþjóð. Nemendur, sem hafa rétt á að velja norsku eða sænsku, þurfa að búa yfir undirstöðukunnáttu í málunum. Þeir hafa því kynnst samfélaginu, þekkja tjáskiptareglur þeirra og siði. Sumir þessara nemenda hafa málfarslegar og menningarlegar rætur bæði á Íslandi og í Noregi eða Svíþjóð. Mikilvægt er að þessir nemendur fái hvatningu til að viðhalda og styrkja tengsl við land og þjóð. Undirstöðukunnátta, sem nemandi þarf að hafa til að geta stundað nám í norsku eða sænsku, er að skilja allvel talaða norsku/ sænsku, geta lesið og skilið einfalda norska/sænska texta miðað við sinn aldurshóp og geta gert sig skiljanlegan á töluðu norsku/sænsku máli. Þessi lágmarkskunnátta er nauðsynleg til þess að nemendur geti nýtt sér það norskunám/sænskunám sem í boði er.
Nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Með kennslunni er stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda, að þeir geti stundað nám í grunnskólum og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi.
Ýmsir möguleikar eru til að læra íslensku erlendis. M.a. er unnt að kaupa áskrift að ýmis konar námsefni af Skólavefnum. Á vef Menntamálastofnunar er einnig hægt að prenta út námsefni. Einnig er hægt að fá hjá Menntamálastofnun prentað námsefni gegn afar vægu gjaldi til nota fyrir íslenska nemendur sem eru búsettir erlendis. Tungumálatorg er samskiptavefur skóla, kennara og foreldra á Íslandi. Þar er t.d. í boði námsefni sem er sérstaklega hannað fyrir Íslendinga erlendis sem eru að læra íslensku eða vilja viðhalda tungumálinu. Auk þessa er vert að benda á að nokkrir einkareknir íslenskuskólar eru reknir erlendis, t.d. á vegum Íslendingafélaga.
Það eru engar samræmdar norrænar reglur um það með hvaða hætti móðurmálskennsla er framkvæmd í grunnskólum á Norðurlöndum. Réttur nemenda til móðurmálskennslu er skilgreindur í lögum, reglugerðum og aðalnámskrám í viðkomandi löndum og ráðuneytin setja kennslunni námskrár og viðmiðanir. Mennta- og menningarmálaráðuneytið á Íslandi hefur ekki lögsögu yfir íslenskukennslunni í norrænum grunnskólum og gerir ekki athugasemdir við framkvæmdina. Ráðuneytið hefur vísað fyrirspyrjendum á möguleikann að ræða við skólastjórnendur í viðkomandi skólum og fræðsluyfirvöld í viðkomandi sveitarfélögum og ef það dugar ekki hafa þá samband við ráðuneyti menntamála. Á vef norska menntamálaráðuneytisins má nálgast aðalnámskrár , en þar kennir ýmissa grasa um móðurmálskennslu og rétt til hennar. Benda má á að börn af norskum og sænskum uppruna í íslenskum skólum fá norsku- og sænskukennslu í samræmi við ákvæði aðalnámskrár.
Grunnskólum er heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli. Sérstök móðurmálskennsla er hins vegar ekki lögbundin fyrir alla nemendur en æskilegt er að nemendur fái tækifæri til að rækta móðurmál sitt, t.d. sem valgrein eða í fjarnámi.
Já, grunnskólanemendur eiga rétt á að njóta námsráðgjafar í grunnskóla hjá náms- og starfsráðgjöfum  og ráðgjafar um náms- og starfsval.

Samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008 þá er rekstur almennra grunnskóla á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Skv. 5. gr. laganna er sveitarfélögum skylt að sjá til þess að skólaskyld börn skv. 3. gr. laganna, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu og börn sem hefur verið ráðstafað í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar eftir því sem nánar segir í lögunum. Liggi ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds um lögheimili barns kveður sveitarstjórn á um skólaskyldu þess, enda búi barnið í sveitarfélaginu og leitað hafi verið eftir innritun þess í skóla, sbr. 19. gr. laganna. Almennt er við það miðað að barn skuli sækja skóla þar sem það dvelst og á lögheimili. Í greinargerð með frumvarpinu segir að séu aðstæður hins vegar með þeim hætti að barn dveljist í sveitarfélagi og það hefur hafið skólagöngu eða verið innritað í skóla, án þess að hafa skráð lögheimili, ber sveitarstjórn að mæla fyrir um skólaskyldu þess. Með þessu er reynt að tryggja að þau börn sem sannanlega dveljast og búa hér á landi og lögboðin skólaskylda nær til geti óhindrað gengið í skóla í samræmi við landslög og alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Tilvik af þeim toga sem hér er vísað til hafa komið upp, sbr. umfjöllun umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4838/ 2006 og bréf menntamálaráðuneytis, dags. 16. janúar 2007, um skólaskyldu barna sem hingað höfðu komið til lands með erlendum foreldrum vegna vinnu þeirra eða leit þeirra að vinnu. Synji sveitarstjórn barni um skólavist á þeirri forsendu að það hafi ekki lögheimili hér á landi verður slíkri ákvörðun skotið til mennta- og menningarmálaráðherra, sbr. 47. gr. frumvarpsins. Ekki hefur reynt á þessa kæruheimild frá gildistöku laganna 2008.

Alþjóðasamningar ganga langt í að tryggja öllum börnum rétt til skólagöngu og því ber sveitarfélagi að tryggja að svo megi verða. Ísland er aðili að alþjóðasamningum sem tryggja börnum rétt til skólavistar. Hér skal jafnframt vísað til 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar um að öllum skuli í lögum tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Auk ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu um að engum manni skuli synjað um rétt til menntunar sem og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Eru ákvæði þessi rakin í áðurnefndu máli umboðsmanns Alþingis. Ráðuneytið telur rétt að undirstrika að ákvæði þessi eiga við um alla sem dvelja hér á landi.

Í tengslum við framangreint mál gerði umboðsmaður Alþingis athugun á réttindum EES launþega og fjölskyldna þeirra til dvalar hér á landi og aðgangs að menntastofnunum með vísan til réttarheimilda sem um þau réttindi gildi og dómafordæmi dómstóls Evrópubandalaganna. Í bréfi umboðsmanns segir m.a. að hvað varði sérstaklega þau börn erlendra launþega sem ekki falli undir ákvæði EES réttar megi ljóst vera að stjórnvöld hafi meira svigrúm til skýringa á skyldum sínum skv. ákvæðum grunnskólalaga. Þó sé rétt að minna á að í 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sé kveðið á um að öllum skuli í lögum tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Að auki njóti rétturinn til náms verndar 2. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem mæli fyrir um að engum manni skuli synjað um rétt til menntunar, sem og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en í 28. gr. hans sé m.a. mælt fyrir um að aðildarríkin skuldbindi sig til að koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geti notið ókeypis og til að gera ráðstafanir til að stuðla að reglulegri skólavist og til að draga úr því að nemendur hverfi frá námi. Það sé slíkum réttindum sammerkt að þau gildi almennt um alla einstaklinga sem séu á yfirráðasvæði ríkis.

Það er álit mennta- og menningarmálaráðuneytis, m.a. í ljósi þeirra mála sem upp hafa komið hér á landi á undanförnum árum, sbr. framangreinda greinargerð og ákvæða laga um grunnskóla, þá sé réttur nemenda til grunnskólamenntunar tryggður með ýmsum alþjóðasáttmálum og jafnframt skyldum á sveitarfélög að veita þeim skólavist, skv. grunnskólalögum. Á sama hátt eru sambærilegar skyldur á fræðsluyfirvöld í öðrum löndum skv. alþjóðasáttmálum og eru skyldurnar ríkari innan Evrópska efnahagssvæðisins eins og rakið hefur verið hér að framan.

Ráðuneytið álítur því að nemendur eigi ekki rétt á niðurgreiðslu skólagjalda við grunnskóla erlendis frá lögheimilissveitarfélagi hér á landi. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að sveitarfélög ákveði að veita fjölskyldum stuðning vegna skólagöngu erlendis, t.d. fjarnám í íslensku eða veita styrki af einhverju tagi, en slíkt er alfarið ákvörðunaratriði viðkomandi sveitarfélaga. Einnig getur Menntamálastofnun veitt íslenskum börnum sem eru búsett erlendis viðeigandi námsgögn en ákvörðun um slíkt er í höndum stofnunarinnar.

Nei, hafi sveitarfélag á annað borð tekið ákvörðun um að bjóða upp á þetta námsframboð er eðlilegt að nemendur fái tækifæri til að ljúka því það í samræmi við kröfur í aðalnámskrá grunnskóla.
Ráðuneytið hefur litið svo á að með tilvísun til 25. gr. grunnskólalaga sé danska skyldunámsgrein. Sérstök móðurmálskennsla í norsku og sænsku er ekki lögbundin fyrir alla nemendur og því eru norska og sænska ekki með sambærilegum hætti og danska, skyldunámsgreinar enda sveitarfélögum ekki skylt að verða við beiðni foreldra um kennslu í norsku og sænsku. Slíkt er hins vegar æskilegt og í samræmi við anda grunnskólalaga um valfrelsi, sveigjanleika og yfirlýsingu um málstefnu Norðurlanda. Samkvæmt grunnskólalögum er skyldunám grunnskólanemendum endurgjaldslaust.
Nemendur í norsku og sænsku eiga rétt á námsgögnum frá Menntamálastofnun samkvæmt þeim reglum sem gilda um námsgögn í grunnskólum.
Liggi fyrir samþykki sveitarstjórnar um að bjóða upp á nám í þessum greinum skal kennsla í þeim vera til jafns við dönsku og fara eftir ákvæðum aðalnámskrár grunnskóla. Einnig er hægt að skipuleggja námið sem fjarnám.

Leitað var eftir skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna ýmissa atriða er lúta að breytingum á vitnisburði nemenda við lok grunnskóla sem taka gildi vorið 2016.

Í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla sem gefinn var út árið 2011 segir um vitnisburð við lok grunnskóla á bls. 56: „ Við lok grunnskóla skal nemandi fá skírteini er vottar að hann hafi lokið námi í grunnskóla. Í skírteini skal skrá vitnisburð nemanda í öllu því námi sem hann stundaði á lokaári í grunnskóla en æskilegt er að hafa til hliðsjónar nám í 8.- 10. bekk. Á vitnisburðarskírteini skal einnig koma fram hvaða viðmið eru lögð til grundvallar.“ Legið hefur fyrir að grunnskólum beri að nota matskvarða í bókstöfum við brautskráningu nemenda úr grunnskóla og að ráðuneytið léti þróa rafrænt prófskírteini í því skyni. Í þeirri vinnu hefur verið gengið út frá því að á prófskírteinið verði skráður vitnisburður fyrir öll skyldunámssvið grunnskólans eins og þau eru skilgreind í aðalnámskrá grunnskóla og útfærð í viðmiðunarstundaskrá. Jafnframt er kveðið á um það í kafla 8.5 að allt að helmingur valstunda á unglingastigi sé bundinn list- og verktengdu námi.

Í 1. mgr. 27. gr. laga um grunnskóla er eftirfarandi almennt lagaákvæði um námsmat: „ Mat á árangri og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi. Tilgangur þess er að fylgjast með því hvernig nemendum tekst að mæta markmiðum aðalnámskrár og ná námsmarkmiðum sínum, örva nemendur til framfara og meta hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Nánari ákvæði um námsmat skulu sett í aðalnámskrá grunnskóla.“ Í 1. mgr. 32. gr. laga um grunnskóla er ákvæði um lok grunnskóla. Þar segir: „Er grunnskólanámi lýkur skal nemandi fá skírteini er votti að hann hafi lokið námi samkvæmt lögum þessum. Í skírteini skal skrá vitnisburð nemanda á lokaári í grunnskóla í því námi er hann lagði stund á.

Það er mat ráðuneytisins að framangreind ákvæði aðalnámskrár, sem hefur reglugerðagildi, rúmist innan merkingafræðilegs ramma 1. mgr. 32. gr. grunnskólalaga, sbr. 28. gr. laganna. Ráðuneytið telur því að fullnægjandi lagastoð sé fyrir hendi í grunnskólalögum til að útfæra aðalnámskrána með þessum hætti og þar með talið rafrænt prófskírteini.

September 2015

Ráðuneytið hefur litið svo á að með tilvísun til 25. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 sé danska skyldunámsgrein. Sérstök móðurmálskennsla í norsku og sænsku er ekki lögbundin fyrir alla nemendur og því eru norska og sænska ekki með sambærilegum hætti og danska, skyldunámsgreinar enda sveitarfélögum ekki skylt að verða við beiðni foreldra um kennslu í norsku og sænsku, þó slíkt sé æskilegt. Samkvæmt grunnskólalögum er skyldunám grunnskólanemendum endurgjaldslaust. Sveitarfélögum er ekki gert skylt að bjóða upp á nám í norsku og sænsku þrátt fyrir að undirstöðukunnátta nemenda sé fyrir hendi og öll skilyrði sem fram koma í aðalnámskrá grunnskóla uppfyllt. Það er hins vegar æskilegt að boðið sé upp á nám í norsku og sænsku og er það í samræmi við anda grunnskólalaga um valfrelsi, sveigjanleika og yfirlýsingu um málstefnu Norðurlanda og ákvæði aðalnámskrár grunnskóla.

Það er sem sagt ekki skilyrðislaus réttur nemenda sem hafa sérstök tengsl við Noreg eða Svíþjóð og lágmarkskunnáttu í málunum að fá kennslu í norsku eða sænsku. Engar breytingar voru gerðar á stöðu norsku og sænsku með grunnskólalögunum 2008 og útfærslu í aðalnámskrá grunnskóla 2013 í greinasviðinu um erlend tungumál, bls. 122-138. Ráðuneytinu er kunnugt um fyrirkomulag norsku- og sænskukennslunnar sem er skipulagt á vegum Reykjavíkurborgar en setur engar frekari viðmiðanir eða reglur um kennsluna umfram það sem fram kemur í aðalnámskrá grunnskóla.
Ráðuneytið telur eðlilegt að láta reyna á það hvort viðkomandi nemandi hafi fullnægjandi lágmarkskunnáttu í sænsku til að stunda nám hér á landi.

Ráðuneytið vekur einnig athygli á leiðbeinandi reglum í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011, bls. 80-81, en þar eru m.a. leiðbeiningar um verklag grunnskóla vegna beiðni foreldra um undanþágu í skyldunámi í tiltekinni námsgrein, skv. 15. gr. grunnskólalaga.

Loks bendir ráðuneytið á kaflann um val og valgreinar í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011, bls. 50 en þar er m.a. kveðið á um mat skóla á námi sem stundað er utan grunnskóla til valgreina og þar er t.d. sérstaklega vikið að málaskólum.
Í grunnskólalögum nr. 91/2008, er kveðið á um breytingar á samræmdum prófum í grunnskólum. Í 39. gr. laganna segir að nemendur í 9. bekk skuli þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði Þessi próf teljast ekki vera lokapróf í grunnskóla líkt og þau samræmdu próf sem áður tíðkuðust í 10. bekk fyrir gildistöku laganna. Megintilgangur samræmdra könnunarprófa er að veita skólum, nemendum og foreldrum upplýsingar um stöðu nemenda og skapa færi á að styðja við nám þeirra í viðkomandi greinum áður en grunnskólanámi lýkur. Samræmd könnunarpróf eiga ekki að liggja til grundvallar inntöku nemenda í framhaldsskóla og grunnskólum er ekki heimilt að senda framhaldsskólum upplýsingar um einkunnir nemenda úr samræmdum könnunarprófum í tengslum við útskrift nemenda úr grunnskóla og innritun í framhaldsskóla.
Í aðalnámskrá grunnskóla, almennum hluta, sem gefin er út af mennta- og menningarmálaráðuneyti eru skilgreind þau samræmdu viðmið sem skólar þurfa að fara eftir hvað varðar námsmat í grunnskóla. Grunnskólar móta eigin stefnu um námsmat og einkunnagjöf nemenda í grunnskóla í samræmi við markmið aðalnámskrár, en grunnskólar ákveða sjálfir með hvaða hætti niðurstöður námsmats skólans eru birtar nemendum og foreldrum þeirra.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti sér ekkert því til fyrirstöðu að grunnskólar nýti niðurstöður samræmdra könnunarprófa í 9. bekk sem hluta af skólaeinkunn í 9. bekk. Ráðuneytið telur einnig að með því að nýta niðurstöður samræmdra könnunarprófa með þessum hætti sé mögulegt að auka áhuga nemenda á því að leggja sig alla fram við úrlausn prófanna. Hins vegar telur ráðuneytið ekki eðlilegt að niðurstöður könnunarprófanna verði stærri hluti af skólaeinkunn 9. bekkjar en að hámarki 10%.
Samræmd könnunarpróf eru í íslensku og stærðfræði í 4. og 7. bekk en í 9. bekk eru samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. Önnur próf eru haldin samkvæmt ákvörðun ráðherra.

Skólastjórum er heimilt, ef gildar ástæður mæla með því og samþykki foreldra liggur fyrir, að veita nemendum undanþágu frá því að þreyta könnunarpróf í einstökum prófgreinum 4., 7. og 9. bekkjar.
Nemendur, sem að mati læknis geta ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda, eiga rétt til sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Sjúkrakennsla er á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags og er nánar útfærð í reglugerð um nemendur með sérþarfir.
Ekki er gert ráð fyrir þeim möguleika en gert er ráð fyrir að framhaldsskólar taki við öllum nemendum sem lokið hafa 10 ára skyldunámi. Ef allir aðilar máls eru sammála því að nemandi sé lengur í grunnskóla er slíkt heimilt enda greiði sveitarfélag þann viðbótarkostnað sem til fellur.
Í 3. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 er skólaskyldan skilgreind. Breyting frá eldri lögum er að settur er ákveðinn sveigjanleiki í skólaskylduna sem skal að jafnaði vera tíu ár með ákvæði um að hún geti verið skemmri. Var það gert til að auka sveigjanleika í menntakerfinu með það að markmiði að auka möguleika nemenda að fara á misjöfnum hraða í gegnum grunnskólann. Nemendur geti því útskrifast úr grunnskóla eftir níu ára nám eða jafnvel níu og hálft ár í stað tíu ára, en það er grunnskólans að meta hvenær nemandi telst hafa lokið skyldunámi. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur geti verið lengur í grunnskóla en tíu ár þar sem allir nemendur eiga rétt á námi við hæfi í framhaldsskóla að loknu tíu ára skyldunámi. Í 15. gr. laganna eru frekari ákvæði um skólaskyldu. Þar segir að nemendum sé skylt að sækja grunnskóla, sbr. 3. gr. laganna og að skólaskyldu sé unnt að fullnægja í grunnskólum á vegum sveitarfélaga, í sjálfstætt reknum grunnskólum eða með öðrum viðurkenndum hætti samkvæmt lögum þessum. Í sömu grein kemur fram að skólaskylda barns hefst að jafnaði við upphaf skólaárs á því almanaksári sem barnið verður sex ára en að foreldrar barns geta sótt um eða samþykkt að það hefji skólagöngu fyrr eða síðar. Skólastjóri getur veitt slíka heimild að fenginni umsögn skólaþjónustu. Í lögunum er því beinlínis ákvæði um að hægt sé að flýta eða seinka nemendum við upphaf grunnskólans. Einnig eru í 32. gr. laganna ákvæði um flýtingu við lok grunnskóla eða útfærslu á því að nemendur stundi nám samtímis bæði á grunn- og framhaldsskólaaldri. Að öðru leyti eru ekki viðmið í grunnskólalögum um flýtingu eða seinkun nemenda. Lögin gera ekki ráð fyrir að unnt sé að láta nemendur sleppa við bekk eftir að skólagangan hefst og ekki er heldur gert ráð fyrir að nemendur taki sama bekkinn tvisvar. Lögin gera ráð fyrir 10 ára skyldunámi, 6-16 ára nemenda með þeim frávikum sem fram koma í 3. gr., 15. gr. og 32. gr. laganna. Umfjöllun í aðalnámskrá grunnskóla miðast við þessi viðmið.
Áfram er gert ráð fyrir 10 ára skólaskyldu fyrir nemendur að jafnaði á aldrinum 6-16 ára. Öllum börnum er skylt að sækja grunnskóla. Skólaskyldu er hægt að fullnægja í grunnskólum á vegum sveitarfélaga, í sjálfstætt reknum grunnskólum eða með öðrum viðurkenndum hætti skv. lögum um grunnskóla, t.d. með heimakennslu eða fjarkennslu. Skólastjóra er heimilt að útskrifa nemanda úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið ef nemandi hefur uppfyllt námskröfur grunnskóla í samræmi við lokamarkmið aðalnámskrár.
Samkvæmt 32. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 metur skólastjóri hvort nemandi hafi lokið grunnskólanámi og ber ábyrgð á útskrift hans úr grunnskóla. Skólastjóra er heimilt að útskrifa nemanda úr grunnskóla áður en tíu ára skyldunámi er lokið enda uppfylli nemandi námskröfur grunnskóla í samræmi við lokamarkmið aðalnámskrár.
Frá upphafi grunnskóla skulu nemendur eiga val í námi sínu, svo sem um viðfangsefni, námsaðferðir og námsgreinar, í samræmi við viðmið í aðalnámskrá grunnskóla og skipulag skóla. Í 8., 9. og 10. bekk eiga nemendur kost á vali um námsgreinar og námssvið í um fimmtungi námstímans.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 er öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6- 16 ára, skylt að sækja grunnskóla. Í 4. mgr. 15. gr. laganna segir að sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilað að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Ekki eru settar í lögum eða reglugerðum frekari leiðbeiningar um hvað teljist gildar ástæður, en í öllum tilvikum bera foreldrar ábyrgð á því að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Samkvæmt greinargerð með lögunum geta gildar ástæður t.d. tengst þátttöku í landsliðsverkefnum á sviði íþrótta, við æskulýðsstarf, ferðalög fjölskyldu og sjálfboðastarf.

17. gr. grunnskólalaga fjallar um nemendur með sérþarfir. Í 2. mgr. 17. gr. kemur fram að nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika eigi rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir. Í reglugerð nr. 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum eru nánari lýsingar á skipulagi og framkvæmd þessarar sérfræðiþjónustu. Þannig kemur fram í 3. gr. að við framkvæmd sérfræðiþjónustu skuli sveitarfélög m.a. leggja áherslu á forvarnarstarf til að stuðla markvisst að velferð nemenda, snemmtækt mat á stöðu nemenda og ráðgjöf vegna námsvanda, félagslegs og sálræns vanda með áherslu á að nemendur fái kennslu og stuðning við hæfi í skólum án aðgreiningar, að sérfræðiþjónusta mótist af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni nemenda, óháð starfstéttum sérfræðinga og hver veitir þjónustuna. Einnig er lögð áhersla á stuðning við foreldra með ráðgjöf og fræðslu.

Í því tilviki, sem hér er til umfjöllunar, er um að ræða nemenda sem hefur notið sérúrræða frá yngsta stigi grunnskóla. Þau sérúrræði virðast þó ekki hafa dugað. Að mati ráðuneytisins gæti verið þörf á að endurskoða veitt sérúrræði og jafnvel koma á utanaðkomandi sérfræðiþjónustu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða, sbr. hér að ofan. Í fyrirspurninni kemur fram að ef undanþága væri veitt myndi nemandinn stunda allt að fulla vinnu það sem eftir lifir skólaárs. Erfitt yrði fyrir foreldra við þær aðstæður að efna skyldur þær sem nefndar eru í 4. mgr. 15. gr. grunnskólalaga um að foreldrar sjái til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.

Samkvæmt grunnskólalögum er öllum börnum á skólaskyldualdri skylt að sækja grunnskóla. Aðeins gildar ástæður geta heimilað undanþágu þar frá. Að mati ráðuneytisins eru í máli þessu ekki um gildar ástæður að ræða fyrir undanþágu frá skólasókn í skilningi 4. mgr. 15. gr. grunnskólalaga. Ráðuneytið telur rétt að endurmeta þau sérúrræði sem nemandanum standa til boða.

Samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er nemendum skylt að sækja grunnskóla, sbr. 3. gr. Skólaskyldan er útfærð nánar í 15. gr. grunnskólalaga. Þar er ákvæði sem veitir skólastjóra grunnskóla heimild til að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því. Enn fremur er skólastjóra heimilt að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi grunnskólanáms. Einnig geta foreldrar skólaskylds barns sótt um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti og er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Um ákvörðun um veitingu undanþágu eða synjun hennar, skv. grunnskólalögum, gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Slík ákvörðun er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Í úrskurði getur ráðherra mælt fyrir um að undanþága verði veitt í heild eða að hluta, jafnvel þó að af hálfu sveitarfélags hafi ekki verið fallist á slíka beiðni. Þessi lagaákvæði eru ekki útfærð í sérstakri reglugerð en viðmið um undanþágur samkvæmt þessari eru í aðalnámskrá grunnskóla.

Þegar fólk flyst búferlum á milli landa þá er tekið á móti fólki í nýja landinu samkvæmt lögum þess lands og íslensk skólayfirvöld hafa engin afskipti af því ferli. Engin ákvæði eru í lögum, reglugerðum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu með hvaða hætti standa skuli að flutningi grunnskólanemenda milli landa. Meginreglan er hins vegar sú að nemendur hefja nám með jafnöldrum erlendis og eiga rétt á að stunda skyldunám þeim að kostnaðarlausu. Víða er boðið upp á sérstakar móttökudeildir á meðan nemendur eru að ná tökum á nýja málinu og aðlagast, en um það eru engar samræmdar reglur í Evrópu, hvert land skipar þeim málum sjálft. Ráðuneytið bendir á að ráð sé að setja sig í samband við fræðsluyfirvöld í nýja landinu og í flestum tilvikum er nóg að setja sig í samband við skrifstofu fræðslumála í viðkomandi sveitarfélagi. Einnig bendir ráðuneytið á utanríkisþjónustuna og eftir atvikum sendiráð.

Námskrár

Lög um grunnskóla voru sett árið 2008 og í kjölfarið var unnið að gerð nýrrar aðalnámskrár fyrir grunnskóla. Almennur hluti námskrárinnar kom út árið 2011 og greinasvið í mars á 2013. Í greinasviði námskrárinnar er m.a. fjallað um skólaíþróttir. Þar er fjallað um menntagildi, megintilgang, hæfniviðmið og matsviðmið við lok grunnskóla. Í námskránni er hvorki gerð krafa um ákveðnar kennsluaðferðir né námsmatsaðferðir og þar er ekki minnst á þolpróf eða þrekpróf. Ætlast er til að hver skóli semji skólanámskrá þar sem hann gerir grein fyrir hvernig skólinn nýtir svigrúm til ákvarðana og athafna sem lög, reglugerðir, aðalnámskrá og skólastefna viðkomandi sveitarfélaga veita. Skólanámskrá er nánari útfærsla á ákvæðum aðalnámskrár og skal þar m.a. birta upplýsingar um kennslufræðilega stefnu og kennsluhætti, námsmat skólans og vitnisburðarkerfi.

Beep-test eru stöðluð próf til þess að mæla þol og eru eitt fjölmargra prófa sem hægt er að nota til mælinga á þoli. Val á námsmats- og mæliaðferðum er í höndum viðkomandi kennara og tekur m.a. mið af skólastefnu viðkomandi skóla. Mikilvægt er að gott samstarf og upplýsingaflæði sé á milli kennara og foreldra nemenda sé um veikleika í stoð-, hjarta- eða æðakerfi nemenda að ræða sem kemur í veg fyrir að viðkomandi nemandi geti tekið fullan þátt í þeim verkefnum sem lögð eru fyrir í íþróttakennslu.

Í aðalnámskrá grunnskóla sem nú er í gildi er ekki tekið sérstaklega fram að nota eigi Beep-test til mælinga á hæfni nemenda.

Í lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla eru ekki bein ákvæði um kynfræðslu en í lögunum eru ákvæði um að mennta- og menningarmálaráðuneyti setji þessum skólastigum aðalnámskrá.

Í 24. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 er kveðið á um að ráðherra setji grunnskólum aðalnámskrá sem skuli endurskoðuð reglulega. Í henni á m.a. kveðið nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans, sbr. 2. gr. Í aðalnámskrá skal m.a. leggja áherslu á sjálfsvitund, siðgæðisvitund, félagsvitund og vitund nemenda um borgaralega ábyrgð og skyldur, líkamlega og andlega velferð, heilbrigða lífshætti og ábyrga umgengni við líf og umhverfi og undirbúning beggja kynja jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi.

Í 25. gr. laganna segir að í aðalnámskrá skuli setja ákvæði um inntak og skipulag náms í íslensku, íslensku sem öðru tungumáli eða íslensku táknmáli, stærðfræði, ensku, dönsku eða öðru Norðurlandamáli, list- og verkgreinum, náttúrugreinum, skólaíþróttum, samfélagsgreinum, jafnréttismálum, trúarbragðafræði, lífsleikni og upplýsinga- og tæknimennt.

Einnig er kveðið á um það í lögunum að markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti.

Það er ekki með beinum hætti kveðið á um kynfræðsluhlutverk skóla í grunnskólalögum en framangreind markmið laganna verða útfærð í aðalnámskrá grunnskóla. Í aðalnámskrám fyrir skólastigin er kynfræðsluhlutverk skóla skilgreint sérstaklega í ljósi laganna.

Já, mennta- og menningarmálaráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða námsbraut innan almenns grunnskóla sem starfa skv. viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan. Dæmi um slíkt er Alþjóðaskólinn í  Sjálandsskóla í Garðabæ.
Mennta- og menningarmálaráðherra setur grunnskólum aðalnámskrá sem er endurskoðuð reglulega. Í henni er m.a. kveðið nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan, meginmarkmið náms og kennslu, uppbyggingu og skipan náms, svo og hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina í grunnskóla. Samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008 skal setja í aðalnámskrá ákvæði um inntak og skipulag náms í íslensku, íslensku sem öðru tungumáli eða íslensku táknmáli, stærðfræði, ensku, dönsku eða öðru Norðurlandamáli, list- og verkgreinum, náttúrugreinum, skólaíþróttum, samfélagsgreinum, jafnréttismálum, trúarbragðafræði, lífsleikni og upplýsinga- og tæknimennt.
Almennt er námskrá leiðarvísir og rökstuðningur um nám og kennslu. Aðalnámskrár hafa ígildi reglugerðar og í þeim er kveðið nánar á um útfærslu laga og reglugerða. Þær kveða m.a. á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs, kennsluskipan og viðmið um námskröfur og námsframvindu. Skólanámskrá skal vera nánari útfærsla á aðalnámskrá. Hún á jafnframt að lýsa skólastarfi hvers skóla, sérkennum hans, sérstöðu og staðbundnum aðstæðum. Öllum leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólaum er skylt að gefa út skólanámskrá samkvæmt lögum. Auk aðalnámskrár frá mennta- og menningarmálaráðuneyti gefa ýmsir aðilar út námskrár á ýmsum sviðum, t.d. opinberir aðilar og fræðsluaðilar en slíkar námskrár hafa ekki reglugerðargildi. Aðalnámskrár eru í sífelldri endurskoðun og eru breytingar kynntar með auglýsingu í Stjórnartíðindum hverju sinni.
Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er ekki fjallað sérstaklega um stigskiptingu grunnskóla en gert ráð fyrir að grunnskólinn sé heildstæður frá 1.- 10. bekk. Sveitarfélögum er hins vegar heimilt að skipta grunnskólum í einingar skv. stefnu viðkomandi sveitarfélags.

Í aðalnámskrá grunnskóla frá 2013 eru sett hæfniviðmið fyrir öll greinasvið í þrennu lagi, þ.e. fyrir 1.- 4. bekk, 5.- 7. bekk og 8.- 10. bekk. Þessi skipting kemst næst því að teljast stigskipting Kennarar fá hins vegar leyfisbréf sem grunnskólakennarar án stigskiptingar.
Skólanefnd skal staðfesta starfsáætlun skóla ár hvert en ekki er lögbundið að skólanefnd staðfesti árlega alla skólanámskrá skóla enda ekki gert ráð fyrir að hún sé endurskoðuð árlega, heldur reglulega.

Nemendur og foreldrar

Samkvæmt lögum um grunnskóla skal foreldrafélag starfa við grunnskóla og er hlutverk þess að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Foreldrafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð. Rétt þótti að lögbinda foreldrafélög við alla grunnskóla, m.a. til þess að vera bakhjarl fulltrúa foreldra í skólaráði og einnig til að leggja áherslu á mikilvægi samstarfs heimilis og skóla og að foreldrar styðji við skólastarfið og að gert sé ráð fyrir að skólastjóri sé ábyrgur fyrir stofnun foreldrafélags og að félagið fái nægan stuðning til starfsemi sinnar frá skólanum.

Ekki er gert ráð fyrir að starfsmenn skóla sitji í stjórn foreldrafélaga við grunnskóla en tekið fram að félagið fái nægan stuðning frá skólanum. Ekki er sérstaklega vikið að því álitamáli í lögum um grunnskóla eða greinargerð með frumvarpinu hvort starfsmenn skóla, sem jafnframt eru foreldrar við skólann, séu gjaldgengir til setu í stjórn foreldrafélags viðkomandi skóla. Ráðuneytið lítur svo á að eðlilegt sé að tekið sé á slíku í starfsreglum foreldrafélaga en samkvæmt grunnskólalögum á í slíkum starfsreglum að kveða á um kosningu í stjórn félagsins. Við samningu slíkra reglna er nauðsynlegt að hafa í huga þá stöðu starfsmanna skóla sem upp getur komið þegar foreldrafélag fjallar um skólastarf eða innri málefni skóla. Ráðuneytið telur þó að allir foreldrar barna í skólanum ættu að vera gjaldgengir í stjórn foreldrafélagsins óháð starfi þeirra en telur að foreldrar sem eru jafnframt starfsmenn viðkomandi skóla séu ekki kjörgengir í skólaráð sem fulltrúar foreldra.

Nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Með kennslunni er stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda, að þeir geti stundað nám í grunnskólum og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi.
Grunnskólum er heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli. Sérstök móðurmálskennsla er hins vegar ekki lögbundin fyrir alla nemendur en æskilegt er að nemendur fái tækifæri til að rækta móðurmál sitt, t.d. sem valgrein eða í fjarnámi.
Já, grunnskólanemendur eiga rétt á að njóta námsráðgjafar í grunnskóla og ráðgjafar um náms- og starfsval.
Til að svara þessari spurningu þarf að horfa til 16. og 18. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008:

„16. gr. Móttökuáætlun og nemendur með annað móðurmál en íslensku. Kennsla í grunnskólum skal fara fram á íslensku. Heimilt er að nám fari fram á öðrum tungumálum en íslensku þegar það leiðir af eðli máls eða aðalnámskrá. Grunnskólar taka á móti nemendum sem eru að hefja skólagöngu, eru að skipta um skóla eða hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Foreldrum skulu á þeim tímamótum veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá rétti þeirra til túlkaþjónustu. Móttökuáætlun vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Tryggja skal að þessir nemendur og foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólastarf. Nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Með kennslunni er stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda og að þeir geti stundað nám í grunnskólum og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi. Grunnskólum er heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli.

18. gr. Foreldrar og meðferð upplýsinga. Foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Foreldrar eiga rétt á að velja grunnskóla innan sveitarfélags fyrir börn sín samkvæmt reglum sveitarfélagsins. Jafnframt skulu þeir eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinna. Foreldrum er skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnsins. Um persónuupplýsingar sem þannig er aflað eða fylgt hafa barni úr leikskóla er krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Foreldrum skal gerð grein fyrir þessum upplýsingum. Meðferð upplýsinga skal vera á hendi skólastjóra eða annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins samkvæmt nánari ákvörðun þess. Ráðherra setur reglugerð um meðferð, eyðingu og miðlun upplýsinga og um rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín. Foreldrar skulu hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og styðja við skólagöngu þeirra og námsframvindu og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum. Þeir skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barnsins, svo og í skólastarfinu almennt. Eigi í hlut foreldrar sem ekki tala íslensku eða nota táknmál skal skóli leitast við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein.“

Skv. ofangreindum lagagreinum eiga skólar að leitast við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla.

Leiðbeiningar um foreldrafélag í sameinuðum skóla.

Samkvæmt 9. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 skal foreldrafélag starfa við grunnskóla og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Samkvæmt grunnskólalögum er hlutverk foreldrafélags að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Foreldrafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð. Samkvæmt 8. gr. grunnskólalaga skulu 9 manna skólaráð vera við grunnskóla og þar af tveir fulltrúar foreldra. Samkvæmt reglugerð nr. 1157/2008 skulu tveir fulltrúar foreldra vera kosnir í skólaráð samkvæmt starfsreglum foreldrafélags, sbr. 9. gr. grunnskólalaga.

Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laga um grunnskóla kemur fram að rétt hafi þótt að lögbinda starfsemi foreldrafélaga við alla grunnskóla, m.a. til þess að vera bakhjarl fulltrúa foreldra í skólaráði og einnig til að leggja áherslu á mikilvægi samstarfs heimilis og skóla og að foreldrar styðji við skólastarfið. Fram kemur einnig í greinargerðinni að foreldrafélög séu starfandi við langflesta grunnskóla og víða séu starfandi sérstakir bekkjarfulltrúar foreldra sem hafi það hlutverk að leiða samstarfið í hverjum árgangi, bekkjardeild eða námshópi. Saman mynda bekkjarfulltrúar foreldra víða fulltrúaráð í skólum og slíkt fyrirkomulag er æskilegt m.a. til að samræma starfið og gera það skilvirkara og einnig kjörið til að tryggja að fulltrúar foreldra í skólaráði hafi traust bakland.

Af grunnskólalögum og lögskýringagögnum má ráða að það hafi verið vilji Alþingis að gefa foreldrum aukið vægi í skólastarfi og tryggja betur að rödd foreldra heyrist, m.a. með stofnun skólaráða við alla grunnskóla og að lögbinda starfsemi foreldrafélaga við alla grunnskóla.

Það er álit mennta- og menningarmálaráðuneytis að við alla grunnskóla skuli starfa foreldrafélag sem m.a. er bakhjarl fulltrúa foreldra í skólaráði. Þetta þýðir að við sameinaðan grunnskóla skal starfa eitt formlegt foreldrafélag sem sinnir lögbundum skyldum félagsins eins og að framan er rakið. Ráðuneytið sér ekkert því til fyrirstöðu að þess utan geti verið starfandi starfshópar foreldra við grunnskóla sem hafi það að markmiði að stuðla að framkvæmd einstakra verkefna, ekki síst þar sem slíkt fyrirkomulag hefur tekist vel og sátt er um slíkt. Slíkt fyrirkomulag gæti t.d. hentað í sameinuðum grunnskóla sem er rekinn á fleiri en einum stað. Útfærsla á fyrirkomulagi ætti að vera samkvæmt vilja hvers skólasamfélags. Það er hins vegar ekki í samræmi við lög um grunnskóla að slíkir hópar taki að sér lögbundið hlutverk foreldrafélaga, sbr. 9. gr. laganna.

Með vísan til 28. gr. barnalaga nr. 76/2003, 6. gr. reglugerðar nr. 897/2009 um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín og 14. gr. reglugerðar um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 444/444/2019 er svarið er neitandi. Þessir aðilar geta ekki óskað eftir upplýsingum um nemanda í grunnskóla nema fyrir liggi samþykki foreldra.
Nemendur sem að mati læknis geta ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda eiga rétt til sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Sjúkrakennsla er á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags og er nánar útfærð í reglugerð um nemendur með sérþarfir.

Foreldrar skólaskylds barns bera ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla. Foreldrar skulu hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og styðja við skólagöngu þeirra og námsframvindu og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum. Þeir skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barnsins, svo og í skólastarfinu almennt.

Samkvæmt lögum um grunnskóla er foreldrum heimilt að velja grunnskóla innan sveitarfélags skv. reglum sveitarfélagsins. Ekki er þó hægt að binda skilyrðislausan rétt foreldra til þess að velja grunnskóla fyrir börn sín. Ráðuneytið leggur áherslu á að þennan lögbundna rétt en vekur athygli á að sveitarfélög skuli setja reglur um slíkt val þar sem væntanlega kæmu fram þær takmarkanir sem sveitarfélagið vill setja um valið.

Sveitarfélögum er skylt að sjá til þess að skólaskyld börn, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar. Jafnframt hvíla sömu skyldur á sveitarfélögum ef sá er fer með forsjá barns hefur lögheimili í sveitarfélaginu enda semji sveitarfélög sín á milli um skólavist barna. Þetta ákvæði tryggir t.d. betri rétt fósturbarna til skólavistunar.
Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri. Þeim ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.
Nemendur eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun og fyrirkomulag skólastarfs. Við grunnskóla skal starfa nemendafélag sem skal vinna m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda.
Vakin er athygli á reglugerð nr. 897/2009 um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín. Reglugerðin tekur m.a. til öflunar, meðferðar, miðlunar og vörslu upplýsinga um nemendur í grunnskólum sem hafa fylgt barni úr leikskóla og um rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín, sbr. 18. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og sbr. lög um Þjóðskjalasafn nr. 66/1985 með áorðnum breytingum.

Í reglugerð nr. 897/2009 er sérstaklega fjallað um þagnarskyldu í 6. gr. en þar segir orðrétt: „Gæta skal fullrar þagnarskyldu um meðferð persónuupplýsinga sem aflað er um nemendur í grunnskóla eða hafa fylgt barni úr leikskóla. Um þagnarskyldu starfsmanna sveitarfélaga fer samkvæmt 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og 12. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Samkvæmt lögum eða fyrirmælum reglugerðar þessarar er óheimilt að miðla persónuupplýsingum um nemendur til annarra en þeirra sem þess þurfa vegna starfa sinna. Málsmeðferð skal að öðru leyti vera í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.“

Af þessu leiðir að foreldrar eiga ekki rétt á persónuupplýsingum nema um eigin börn. Hins vegar geta foreldrar sjálfir ákveðið hvaða upplýsingar þeir telji nauðsynlegt að allir viti um sem umgangast barnið, en það er alfarið í þeirra höndum hvort eða með hvaða hætti það er framkvæmt. Þar gætu m.a. komið til upplýsingar sem snerta lyfjagjöf eða sérþarfir af einhverju tagi.
runnskólar skulu leitast við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla þegar í hlut eiga foreldrar sem ekki tala íslensku eða nota táknmál. Í þeim efnum er einnig hægt að notast við þýðingar.
Í 18. gr. grunnskólalaga segir að foreldrar eigi rétt á að velja um grunnskóla fyrir börn sín innan sama sveitarfélags samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags. Í lögunum segir líka að lögheimilissveitarfélag geti samið við annað sveitarfélag um að veita barni skólavist. Lögunum er ætlað að tryggja öllum börnum skólavist, einnig þeim sem eru í fóstri á heimili utan lögheimilissveitarfélags. Sveitarfélögum er skylt skv. lögum að sjá til þess að öll skólaskyld börn, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu og börn sem hefur verið ráðstafað í fóstur til fósturforeldra sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar. Sveitarfélögum ber að haga undirbúningi vistunarúrræða þannig að hagsmunir barnsins séu hafðir að leiðarljósi og samstarf sé á milli barnaverndaryfirvalda og skóla um skólagönguna.

Sérfræðiþjónusta

Ráðuneytið gaf árið 2010 út álit, skv. 31. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, um vettvangsferðir, sjá. Þar segir m.a.: „Ákvæði laga um grunnskóla eru reist á því grundvallarsjónarmiði að kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skuli vera nemendum að kostnaðarlausu, svo og námsgögn, þjónusta og annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu. Í 31. gr. laga um grunnskóla kemur fram að óheimilt sé að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi þeirra. Þó er heimilt að taka gjald fyrir uppihald í námsferðum nemenda að höfðu samráði við foreldra. Óheimilt er því að láta foreldra bera kostnað vegna ferða sem tengjast beint skyldunámi nemenda að öðru leyti. Grunnskólar geta því einungis tekið gjald fyrir uppihald, þ.e. kostnað vegna fæðis og gistingar, t.d. vegna skólabúða.

Að mati ráðuneytisins er augljóst að vettvangsferðir eru mikilvægur liður í skyldunámi nemenda enda víða í aðalnámskrá vikið að slíku og ætti áætlun einstakra skóla í þeim efnum að koma fram í skólanámskrá og starfsáætlun skólans ár hvert. Jafnframt verður að gera ráð fyrir því að skólaráð grunnskóla komi að stefnumótun grunnskóla í þessum málum. Með vísan til 5. gr. laga um grunnskóla verður að telja eðlilegt í þessu samhengi að í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og skóla sé gert ráð fyrir slíkum ferðum.

Ráðuneytið telur að heimildir til gjaldtöku samkvæmt lögum um grunnskóla séu ótvíræðar og séu í samræmi við almenn sjónarmið um gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu þröngri túlkun. Það samræmist því ekki 31. laga um grunnskóla að fyrirfram sé ákveðið af hálfu sveitarfélags eða grunnskóla að einungis skuli greitt fyrir tilteknar vettvangsferðir óháð því hvort þær teljist vera hluti af skyldunámi nemenda. Í því sambandi verður almennt að telja ferðir sem skipulagðar eru á starfstíma grunnskóla til hluta af skyldunámi nemenda. Það er jafnframt mat ráðuneytisins að það samræmist ekki grundvallarmarkmiðum laga um grunnskóla, um almenna menntun og um jafnan aðgang að slíkri menntun, að foreldrum sé gert að velja á milli þess hvort börn þeirra taki þátt í vettvangsferð sem skipulögð er sem hluti af skyldunámi þeirra eða sitji ella kennslu í skóla á meðan á vettvangsferð stendur.

Gjaldtökuheimild 31. gr. laga um grunnskóla tekur hins vegar ekki til annars kostnaðar þ.á m. vegna ferða, rútukostnaðar eða launa kennara sem þátt taka í slíkri vettvangsferð. Óumdeilt er að mati ráðuneytisins að slíkur kostnaður er á ábyrgð sveitarfélaga. Þessi niðurstaða girðir þó að mati ráðuneytisins ekki fyrir að foreldrar eða félag þeirra afli fjár í ferðasjóð til þess að styrkja einstakar bekkjaferðir til tómstunda- eða vettvangsferða. Slíku fyrirkomulagi eru þó eðlilega sett ákveðin takmörk í ljósi þeirra meginsjónarmiða sem hér hafa verið rakin um gjaldfrjálsan grunnskóla. Þannig verður foreldrum og börnum þeirra ekki mismunað eftir þátttöku þeirra í fjáröflun í slíkan ferðasjóð eða foreldrar krafðir um þann mismun sem á kann að vanta. Ráðuneytinu er ljóst að fyrirkomulag af því tagi sem hér er nefnt getur verið vandmeðfarið og því mikilvægt að ábyrgð og skyldur foreldra og sveitarfélaga séu skýr og öllum ljós. Með sama hætti og hér hefur verið rakið verður að telja það í valdi skólastjórnenda að þiggja aðkomu einstakra foreldra eða foreldrafélags að undirbúningi eða þátttöku í vettvangsferðum í sjálfboðastarfi. Að mati ráðuneytisins verður að telja slíkt æskilegt þar sem slíkt samstarf geti stuðlað að góðu og árangursríku skólastarfi og það getur beinlínis skapað fleiri möguleika að nýta aðstoð foreldra með þeim hætti.“

Í framangreindu áliti er ekki sérstaklega vikið að skólaferðalögum til útlanda, eða þátttöku fatlaðra nemenda í vettvangsferðum eða skólaferðum. Hins vegar gilda sömu grundvallarviðmið um allt vettvangsnám í grunnskóla. Ráðuneytið lítur svo á að allir nemendur skóla skuli eiga þess kost að taka þátt í vettvangsferðum og skólaferðalögum sem teljast hluti af skyldunámi nemenda. Ef hins vegar slíkar ferðir eru ekki hluti af skyldunámi, t.d. farnar utan skólatíma að frumkvæði foreldra, þá er ekki hægt að gera kröfur til skólans um þátttöku í kostnaði við slíkar ferðir. Lykilatriðið í þessu máli er að sé vettvangsferð skipulögð af skólanum á skólatíma þá gilda framangreindar reglur um kostnaðarþáttöku og fram kemur í framangreindu áliti. Fatlaðir nemendur eiga sama rétt og aðrir nemendur til þátttöku í slíkum ferðum og ekki er hægt að láta foreldra greiða viðbótarkostnað sem af því kann að hljótast. Skólar þurfa að gera ráð fyrir slíku þegar ferðir eru skipulagðar.
Í 40. gr. grunnskólalaga þar sem fjallað er um skólaþjónustu er talað um skimun. Skimunarpróf eru samin með það í huga að vera þægileg í notkun, fljótleg í fyrirlögn og veita sem öruggastar upplýsingar. Þetta eru ekki greiningarpróf en þau geta gefið vísbendingar um mögulega örðugleika. Þau hafa til dæmis gefið vísbendingar um lestrarörðugleika og flýtt fyrir því að hægt er að grípa inn í áður en þeir eru orðnir að vandamáli.

Í 17. gr. grunnskólalaga segir að nemendur, sem eiga erfitt með nám vegna sértækra, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, eigi rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir. Samkvæmt lögunum eiga leshamlaðir nemendur rétt á sérstökum stuðningi en ráðuneytið hefur sett reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla.
Samkvæmt 40. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 skal í grunnskólum frá upphafi skólagöngu nemenda unnið að forvarnarstarfi með skimunum og athugunum á nemendum til að tryggja þeim kennslu og námsaðstoð við hæfi. Auk þess skal fara fram greining á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Allar athuganir á vegum skóla sem varða einstaka nemendur skulu gerðar í samráði við og með samþykki foreldra og óheimilt er að taka gjald fyrir slíkar athuganir. Greina skal foreldrum frá niðurstöðum slíkra athugana. Samkvæmt 18. gr. grunnskólalaga er foreldrum skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnsins. Um persónuupplýsingar sem þannig er aflað eða fylgt hafa barni úr leikskóla er krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Foreldrum skal gerð grein fyrir þessum upplýsingum. Meðferð upplýsinga skal vera á hendi skólastjóra eða annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins samkvæmt nánari ákvörðun þess. Ráðherra hefur sett reglugerð um meðferð, eyðingu og miðlun upplýsinga og um rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín og reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum.
Nemendur, sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir, eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir. Foreldrar geta sótt um skólavist fyrir barn í sérúrræði innan grunnskóla eða sérskóla. Ef ekki næst samkomulag milli foreldra og grunnskóla um fyrirkomulag skólavistunar nemanda skal skólastjóri taka ákvörðun í málinu. Foreldrar geta kært þá ákvörðun til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Nánar er kveðið á um réttindi nemenda með sérþarfir í sérstakri reglugerð.
Nemendur sem að mati læknis geta ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda eiga rétt til sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Sjúkrakennsla er á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags. Kveðið er á um rétt nemenda til sjúkrakennslu í reglugerð um stuðning við nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010.
Sveitarfélög skulu tryggja að skólaþjónusta sé veitt í grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan grunnskóla. Í skólaþjónustu felst annars vegar stuðningur við nemendur og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi grunnskóla og starfsfólk þeirra. Skólaþjónusta sveitarfélaga er nánar útlistuð í sérstakri reglugerð.
Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og ýmsum reglugerðum sem settar hafa verið við lögin er vikið að ábyrgð grunnskóla hvað framangreind atriði varðar. Í 18. gr. laganna eru ýmis ákvæði um foreldra og meðferð upplýsinga. Þar segir að foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Jafnframt skulu þeir eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinna. Foreldrum er skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnsins. Um persónuupplýsingar sem þannig er aflað eða fylgt hafa barni úr leikskóla er krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Foreldrum skal gerð grein fyrir þessum upplýsingum. Meðferð upplýsinga skal vera á hendi skólastjóra eða annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins samkvæmt nánari ákvörðun þess. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett reglugerð nr. 897/2009 um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín.

Í 40. gr. grunnskólalaga er kveðið á um að í grunnskólum skuli frá upphafi skólagöngu nemenda unnið að forvarnastarfi með skimunum og athugunum á nemendum til að tryggja þeim kennslu og námsaðstoð við hæfi. Auk þess skal fara fram greining á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Allar athuganir á vegum skóla sem varða einstaka nemendur skulu gerðar í samráði við og með samþykki foreldra og óheimilt er að taka gjald fyrir slíkar athuganir. Greina skal foreldrum frá niðurstöðum slíkra athugana. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett reglugerð nr. 444/2019 um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum. Samkvæmt þeirri reglugerð skal skólastjóri grunnskóla samræma innan hvers grunnskóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda er lúta að skólaþjónustu, náms- og starfsráðgjöf og skólaheilsugæslu með stofnun nemendaverndarráðs skv. 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Samkvæmt reglugerðinni skal ávallt upplýsa foreldra um að máli barna þeirra sé formlega vísað til skólastjóra eða nemendaverndarráðs og leita eftir samstarfi við foreldra um lausn mála eftir því sem framast er kostur. Vakin er athygli á reglugerð nr. 585/2010 um nemendur með sérþarfir í grunnskólum.
Um ábyrgð skóla og skólaskrifstofa í málefnum barna með frávik í máli og tali er fjallað bæði í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 444/2019. Í lögum um grunnskóla segir í 40. grein að sveitarfélög skuli tryggja að skólaþjónusta sé veitt í grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan grunnskóla. Í skólaþjónustu felst annars vegar stuðningur við nemendur og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi grunnskóla og starfsfólk þeirra. Í sömu grein kemur einnig fram að skólaþjónusta sjái um að greining fari fram, skili tillögum til skólastjóra um hvernig bregðast skuli við, fylgist með úrbótum og meti árangur. Í reglugerð nr. 444/2019 segir í 2. grein að skólaþjónusta skuli beinast að því að efla skóla sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni sem upp koma í skólastarfinu og veita starfsfólki skóla leiðbeiningar og aðstoð við störf sín eftir því sem við á. Í 3. grein sömu reglugerðar segir að sveitarfélög beri ábyrgð á að þjónustan sé veitt og kostnaði við hana. Í 14. grein sömu reglugerðar segir að ef skólastjóri og foreldrar telji að barn þarfnist sérstakrar aðstoðar eða þjálfunar til að geta notið skólagöngu sem best, beri þeim að hafa samráð um hvort unnt sé að leysa málið innan skólans og/eða hvort leitað skuli til skólaþjónustu sveitarfélags eða annarra sérfræðinga.

Í erindinu er einnig spurt hvort eðlilegt sé að sérfræðingur komi einu sinni á ári í skóla til að meta börn með mál og talmein. Ráðuneytið hefur ekki valdboð til að ákveða með hvaða hætti skólar vinna að greiningu umfram það sem fram kemur í reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla. Í 11. grein reglugerðarinnar er fjallað um beiðni um athugun, greiningu og ráðgjöf. Þar segir að sveitarstjórn skuli á grundvelli umsagnar fræðsluyfirvalda sveitarfélaga setja verklagsreglur um meðferð beiðna.

Spurt er hvort eðlilegt sé að foreldrar þurfi að berjast „með kjafti og klóm“, eins og segir í erindinu, fyrir því að börn þeirra fái þá þjónustu sem þeim ber. Lög um grunnskóla og reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga kveða skýrt á um skyldur skóla og rétt barna til skólaþjónustu, þ.e. að sveitarfélögum og skólum ber að sinna greiningu og ráðgjöf. Auk þess er í reglugerðinni fjallað um fyrirkomulag þeirrar skólaþjónustu sem sveitarfélögum ber að veita. Í erindinu kemur fram að ágreiningur er milli sveitarfélagsins og Sjúkratrygginga Íslands um hver eigi að greiða fyrir fyrstu átján tíma þjónustu hjá talmeinafræðingi. Ráðuneyti mennta- og menningarmála bendir á að mál er snúa að ágreiningi um greiðslur fyrir skólaþjónustu heyra undir velferðarráðuneytið.
Ákvæðið sem um ræðir er svohljóðandi: „Gera skal sérstaklega ráð fyrir rými í leik- og grunnskólum til að veita skólaþjónustu þegar á þarf að halda vegna nemenda með sérþarfir, stuðnings og þjálfunar, óháð því hver veitir þjónustuna.“

Í 20. gr. laga um grunnskóla er eftirfarandi ákvæði: „Gert skal sérstaklega ráð fyrir rými fyrir skólaþjónustu við börn með sérþarfir og vinnuaðstöðu starfsfólks.“

Í greinargerð með frumvarpi til grunnskóla sem lagt var fram á Alþingi 2007 og síðar varð að lögum segir m.a. um skólaþjónustu. „Séð frá sjónarhorni barna og aðstandenda er það fyrir mestu að sú þjónusta sem barnið þarf á að halda til að geta stundað nám sitt sé fyrir hendi og sé greiðlega veitt. Skiptir þá ekki máli hvort þjónustan falli formlega undir skóla eða félags- eða heilbrigðisþjónustu. Það er einnig aukin krafa af hálfu foreldra að þjónustan sé veitt innan grunnskólans ef þess er nokkur kostur. Þannig sé þjónustan löguð að þörfum barnsins þar og ekki þurfi að aka börnum víða um bæ til þess að sækja þjónustuna. Innan grunnskóla er nú veitt ýmisleg skólaþjónusta, svo sem námsráðgjöf, sálfræðiþjónusta og sérkennsla, auk þess sem þar starfa hjúkrunarfræðingar á vegum heilsugæslunnar. Mikilvægt er að koma á samhæfingu skólaþjónustu innan skóla og sveitarfélaga, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu, milli ráðuneyta og milli ríkis og sveitarfélaga.”

Í greinargerð við 40. gr. segir m.a. „Sérstaklega er tilgreint að sveitarfélög skuli stuðla að því að skólaþjónustan fari sem mest fram innan grunnskóla. Hér er ekki síst átt við að nemendur fái stuðning, ráðgjöf og þjálfun innan grunnskóla en þurfi ekki að sækja slíkt út fyrir veggi skólans, nema nauðsyn beri til. Hér er einnig átt við að sveitarfélög skuli stuðla að því að ýmis þjálfun fari fram innan grunnskóla hjá sérfræðingum sem ekki eru starfsmenn sveitarfélaga en hér er m.a. átt við iðjuþjálfun, talþjálfun og sjúkraþjálfun sem ýmsir nemendur þurfa reglulega. Æskilegt er að slík þjálfun geti að mestu farið fram innan grunnskóla þótt greiðslur fyrir þjónustuna komi frá öðrum aðilum en sveitarfélögum".

Í reglugerð nr. 657/2009 um gerð og búnað skólahúsnæðis og skólalóða eru m.a. sett ákvæði í 5. gr. um lágmarksaðstöðu. Í þeirri upptalningu kemur m.a. fram að gera þurfi ráð fyrir rými og búnaði vegna skólaþjónustu við nemendur, rými fyrir skólaheilsugæslu, eftir því sem við á og aðgengi og aðstöðu fyrir fatlaða.

Ráðuneytið lítur svo á að framangreint ákvæði í reglugerð nr. 444/2019 hafi því fullnægjandi lagastoð í grunnskólalögum og þeim reglugerðum sem settar hafa verið við lögin. Í reglugerðinni um skólaþjónustu eru ákvæði um stuðning og þjálfun og sérstaklega er tekið fram að slíkt rými eigi að vera fyrir hendi, óháð því hver veiti þjónustuna, ekki síst þar sem sú stefna er sett fram í reglugerðinni að sveitarfélög skulu tryggja að viðeigandi skólaþjónusta sé veitt í leik- og grunnskólum, og að sveitarfélög ákveði fyrirkomulag hennar og eiga að stuðla að því að hún fari fram innan skóla.
Af framangreindu leiðir að ráðuneytið telur fullnægjandi lagastoð fyrir framangreindu reglugerðarákvæði sem spurt er um.

1. Hefur verið rannsakað hve hátt hlutfall barna á Íslandi glímir við alvarlega tvívanda leshömlun (dyslexiu)? Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hve hátt hlutfall barna á Íslandi glímir við leshömlun.

2. Hvar stendur það mál að fá tvívanda leshömlun (dyslexiu) flokkaða sem fötlun og hver eru rökin fyrir því að hvorki séu greiddar umönnunarbætur né tækjastyrkur með börnum með þessa fötlun/hömlun? Ráðuneyti mennta- og menningarmála hefur ekki upplýsingar um stöðu þessa mál. Þar sem að velferðarráðuneytið fer með málefni fatlaðra var fyrirspyrjenda bent á að snúa sér til þess ráðuneytis.

3. Hafa menntamálayfirvöld sett sér markmið um aðgengi barna með alvarlega leshömlun að tölvum, tölvubúnaði og öðrum hjálpartækjum? Um aðgengi barna með leshömlun að tölvum, tölvubúnaði og öðrum hjálpartækjum er fjallað í reglugerðum fyrir grunn- og framhaldsskóla um nemendur með sérþarfir: Í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010 segir í 4. grein um skyldur sveitarfélaga og réttindi nemenda: "... Nemendur eiga rétt á: ... c. að þeir geti nýtt sér viðeigandi samskiptamáta, s.s. táknmál, blindraletur og viðeigandi tækjabúnað, aðlöguð námsgögn, aðstöðu og kennslu til að stuðla að sem bestri menntun, sjálfsstyrkingu og félagsþroska."

Í reglugerð um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum nr. 230/2012 segir í 5. grein um réttindi nemenda: "Nemendur í framhaldsskólum eiga rétt á: ... e. aðgangi að viðeigandi samskiptamáta, s.s. táknmáli og punktaletri, auk nauðsynlegs tækjabúnaðar, sérsniðnum námsgögnum eftir því sem við á, aðstöðu og kennslu til að stuðla að sem bestri menntun, sjálfsstyrkingu og félagsþroska."

Skólahúsnæði og búnaður

Í erindi til ráðuneytisins er athygli þess vakin á því að tæknibúnaður grunnskóla í Reykjavík sé misgóður eftir skólum og að það sé viðurkennt af skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Spurt er hvort þessi mismunur brjóti ekki í bága við ákvæði um jafna stöðu nemenda til náms.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er í 5. gr. fjallað um skyldur sveitarfélaga gagnvart skólahaldi í grunnskólum. Þar segir m.a.: „Rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, sérúrræðum grunnskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu.” Í VI. kafla laganna er sérstaklega fjallað um skólahúsnæði og aðstöðu í grunnskólum. Þar segir í 20. gr. m.a. að sveitarfélög annist og kosti viðhald skólahúsnæðis og endurnýjun og viðhald búnaðar þess. Einnig skal húsnæði og allur aðbúnaður taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan nemenda og starfsfólks, svo sem hvað varðar hentugan húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu. Í lögun er ákvæði að ráðherra setji reglugerð um húsnæði og búnað grunnskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem nánar skuli kveðið á um aðstöðu, búnað, slysavarnir og öryggismál í grunnskólahúsnæði og á skólalóðum.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið út reglugerð nr. 657/2009 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða þar sem eru ýmis ákvæði um búnað grunnskóla. Þar segir. í 5. gr. reglugerðarinnar: „Húsnæði og skólalóðir skulu uppfylla kröfur laga nr. 91/2008 um grunnskóla, reglugerðar þessarar, aðalnámskrár grunnskóla og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum. Einnig ber að uppfylla kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda til slíkra mannvirkja. Húsnæði, skólalóð og allur aðbúnaður þarf að vera þannig úr garði gerður að unnt sé að ná markmiðum laga um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla. Er þar sérstaklega átt við að nemendum og starfsfólki skóla sé tryggt öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi sem skapar öryggi og vellíðan þeirra svo sem varðandi hentugan húsbúnað, hljóðvist og lýsingu, fjölbreytni í náms- og leikaðstöðu og annan búnað.”

Það er afstaða ráðuneytisins að ef búnaður grunnskóla uppfyllir framangreind lagaákvæði og ákvæði reglugerðarinnar þá hafi sveitarfélög uppfyllt skyldur sínar í þeim efnum. Það getur hins vegar verið álitamál í vissum tilvikum hversu viðamikinn búnað þurfi í grunnskóla til að ná markmiðum aðalnámskrár, en ráðuneytið hefur ekki útbúið sérstakan lágmarksbúnaðarlista umfram það sem fram kemur í reglugerðum og aðalnámskrá grunnskóla, bæði almennum hluta og köflum um einstök námssvið.

Ráðuneytið telur einnig að ef húsnæði og búnaður uppfyllir framangreind lágmarksskilyrði þá sé það fullnægjandi, jafnvel þótt ekki sé til staðar sams konar búnaður eða aðstaða í öllum skólum. Því sé ekki verið að mismuna nemendum þótt búnaður skóla geti verið mismunandi í vissum tilvikum. Aðalatriðið er að allir skólar hafi tilskilinn lágmarksbúnað samkvæmt lögum, reglugerðum og aðalnámskrám og að öryggis nemenda sé gætt í samræmi við lög og reglur þar að lútandi. Hins vegar telur ráðuneytið að það ætti að vera metnaðarmál fyrir sveitarfélög að allir skólar sveitarfélagsins standi jafnfætis hvað varðar aðstöðu og búnað, eftir því sem framast er unnt og aðstæður leyfa.

Samkvæmt lögum um leikskóla og grunnskóla er sveitarfélögum heimilt að reka saman leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla að fenginni umsögn skólanefndar. Það er hlutverk sveitarfélags að sjá til þess að tryggja að faglega sé staðið að slíkum samrekstri þó opinber viðmið um fjölda eða stærð séu ekki lögbundin. Ráðuneytið hefur sett reglugerð um búnað og gerð skólahúsnæðis.

Óskað var eftir áliti ráðuneytisins á því hvort heimilt sé að færa hluta af ábyrgð af fjárhagslegri ábyrgð á spjaldtölvum, sem eru í eigu grunnskóla yfir á nemendur/forráðamenn, þar sem nemendur noti spjaldtölvurnar í skólanum sem námsgagn en fari einnig með þær heim. Spurt er hvort heimilt sé að foreldrar/forráðamenn séu látnir skrifa undir samning þar sem þeir taki á sig fulla eða hluta ábyrgð á þeim skemmdum sem verða á tækjunum og láta foreldra greiða tryggingargjald, sem verði endurgreitt ef tölvunni verður skilað í viðunandi ástandi.

Í 1. mgr. 31. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 er kveðið á um að kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum sé veitt nemendum að kostnaðarlausu og að óheimilt sé að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum sé gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum grunnskólalaga og aðalnámskrá. Opinberum aðilum er ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír. Ákvarðanir um gjaldtöku grunnskóla samkvæmt 31. greininni séu kæranlegar skv. 47. gr. grunnskólalaga.

Það er mat ráðuneytisins að ofangreind fyrirætlan grunnskóla sé ekki í samræmi við lög um grunnskóla. Afnot af umræddum tækjum í skóla ættu ávallt að vera nemanda að kostnaðarlausu. Ráðuneytið bendir á að í ákvæði 31. gr. grunnskólalaga felst ekki lögvarinn réttur nemenda til að fá lesbretti og spjaldtölvur í eigu skóla lánaðar heim. Lán á þessum tækjum heim til nemenda er hugsanlega viðbótarþjónusta sem fellur utan 1. mgr. 31. gr. laganna. Ef ætlunin er að útgáfa námsefnis verði í meira mæli rafræn þannig að lesbretti eða spjaldtölvur þurfi til notkunar þess, þarf að taka afstöðu til þess í lögum hver beri hina fjárhagslegu áhættu af tjóni á þeim búnaði sem fylgir heim með nemendum, en engin ákvæði eru um slíkt í núverandi lagaramma.

Við hönnun, byggingu og endurnýjun skólahúsnæðis skulu sveitarfélög hafa samráð við hagsmunaaðila skólasamfélagsins og aðila í grenndarsamfélagi við hönnun grunnskólahúsnæðis.

Samkvæmt 21. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 skal skólastjóri grunnskóla sjá um daglega umsjón skólamannvirkja samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar. Í sömu lagagrein kemur fram að sveitarstjórn getur í samráði við skólastjóra ráðstafað skólahúsnæði öllu eða hluta þess til annarrar starfsemi svo fremi sem það raskar ekki lögbundinni notkun húsnæðisins.

Í greinargerð með frumvarpi til grunnskólalaga, sem lagt var fram á löggjafarþingi 2007 -2008, segir m.a. í skýringum við framangreinda grein: "Tekið er fram að sveitarfélög skuli hafa samráð við skólastjóra um ráðstöfun skólahúsnæðis til starfsemi utan lögbundins skyldunáms en það er sveitarstjórn sem tekur ákvörðun um ráðstöfun húsnæðis svo fremi sem slíkt raskar ekki lögbundinni notkun húsnæðisins. Þegar um slík afnot húsnæðisins er að ræða er mikilvægt að kennarar og annað starfsfólk skóla geti óáreitt gengið að húsnæði, búnaði og gögnum. Ekki er ástæða til að setja í grunnskólalög ákvæði um ráðstöfun grunnskólahúsnæðis utan lögbundins starfstíma grunnskóla, en sjálfsagt er að sveitarstjórnir taki slíkar ákvarðanir. Þegar skólahúsnæði er nýtt til annarrar starfsemi utan lögbundins skyldunáms má það í engu raska skólahaldi og kennarar eiga að geta gengið að vinnuaðstöðu sinni eins og þeir skildu við hana."

Af þessu má ráða að sveitarfélög hafi ákveðið svigrúm til að nýta skólahúsnæði til annarra nota en til lögbundins skólahalds fyrir grunnskólanemendur, að höfðu samráði við skólastjóra. Einnig má ráða af ákvæði 21. gr. og lögskýringargögnum að sveitarstjórn geti tekið slíkar ákvarðanir með þeim fyrirvara að notkun skólahúsnæðisins raski í engu lögbundinni notkun húsnæðisins. Ekki er sérstaklega kveðið á í grunnskólalögum eða lögskýringargögnum um notkun skólahúsnæðis til veisluhalda, en ráðuneytið telur ekki eðlilegt að skólahúsnæði sé almennt nýtt til veisluhalda þar sem vín er haft um hönd, slíkt samrýmist ekki eðli, hlutverki og ímynd grunnskóla.

Ráðuneytið vekur í þessu sambandi athygli á áfengislögum nr. 75/1998, sérstaklega 19. grein laganna og reglugerð nr. 177/1999 um smásölu og veitingu áfengis sem sett er með stoð í áfengislögum. Einnig vekur ráðuneytið athygli á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtihald þar sem ítarlega er fjallað um meðferð og veitingu áfengis við margvísleg tækifæri. Ákvæði þessara laga og reglugerðar kunna að hafa áhrif á ákvarðanir sveitarstjórna um notkun skólahúsnæðis til veisluhalda og hvernig þær eru útfærðar og það kann að þykja óviðeigandi að nýta skólahúsnæði grunnskóla til veisluhalda þar sem áfengi er haft um hönd. Vísað er á innanríkisráðuneytið um frekari túlkun á ákvæði framangreindra laga.

Skólastarf

Ráðuneytið skortir heimildir til að setja reglur á landsvísu um auglýsingar í grunnskólum. Ráðuneytið telur til fyrirmyndar að hvert sveitarfélag setji sér verklagsreglur um auglýsingar í grunnskólum í samráði við grunnskóla sveitarfélagsins. Mikilvægt er að slíkar reglur séu vel kynntar meðal nemenda, starfsfólks skóla og foreldra. Eðlilegt er að birta slíkar verklagsreglur í skólanámskrá skólans. 

Um skólahúsnæði er fjallað í VI. kafla laga um grunnskóla, nr. 91/2008. Þar segir að ráðherra setji reglugerð um húsnæði og búnað grunnskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem nánar skal kveðið á um aðstöðu, búnað, slysavarnir og öryggismál í grunnskólahúsnæði og á skólalóðum. Slík reglugerð hefur verið sett og er nr. 657/2009 ásamt síðari breytingum. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um lágmarksaðstöðu í grunnskólahúsnæði. Þar segir í d-lið 1. mgr. 5. gr. að aðstaða fyrir nemendur til að neyta málsverða og til viðveru utan kennslustunda teljist til nauðsynlegrar lágmarksaðstöðu í grunnskólum. Í lögum og reglum er ekki að finna heimild fyrir stjórnvöld til að binda aðgang að þessari lágmarksaðstöðu því skilyrði að keypt sé máltíð af skólanum. Að teknu tilliti til framangreindra atriða er það mat ráðuneytisins að öllum börnum skal tryggð aðstaða til að neyta málsverða, óháð því hvort barn komi með nesti að heiman eða máltíð þess sé keypt af skólanum.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti setur engar viðmiðanir um fjölda í námshópum í grunnskóla, ákvarðanir um skipan nemenda í hópa hefur verið í höndum sveitarfélaga frá flutningi grunnskólans til sveitarfélaga.

Fyrir flutning grunnskólans til sveitarfélaga gaf ráðuneytið út reglugerðir um fjölda nemenda í bekk. Frá því að sveitarfélög tóku við rekstri grunnskóla 1996 hafa ekki verið í gildi sérstakar reglugerðir eða reglur um fjölda nemenda í bekk eða námshópum. Við flutninginn var miðað við að sveitarfélög myndu áfram reka grunnskólann með svipuðu sniði og ríkið gerði, en sveitarfélög fengu ákveðið svigrúm til að útfæra grunnskólalög og aðalnámskrá grunnskóla. Með grunnskólalögum nr. 91/2008 er mikilvægt nýtt ákvæði um skólaráð sem á að vera starfrækt í hverjum grunnskóla með fulltrúum frá viðkomandi skólasamfélagi. Skólaráð á að taka þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans í samræmi við stefnu sveitarfélags um skólahald og fjalla um skólanámskrár og starfsáætlanir skólans. Lög um grunnskóla veita sveitarfélögum og skólum verulegt svigrúm og sjálfstæði til að skipuleggja nám í samræmi við þarfir og aðstæður á hverjum stað en meginstefnan, sem kemur fram í lögum og aðalnámskrá grunnskóla, er sú að allir nemendur eigi þess kost að stunda nám í heimaskóla sínum án aðgreiningar. Af þessum sökum telur ráðuneytið ekki rétt að taka afstöðu til fjölda nemenda í bekk, ekki síst þar sem aðstæður og viðfangsefni geta verið með mismunandi hætti.

Í 28. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 eru ákvæði um árlegan og vikulegan starfstíma grunnskóla. Ekki er heimild í grunnskólalögum til sveitarfélaga eða grunnskóla að skerða skólatíma nemenda og ráðuneytið hefur ekki heimild til að veita sveitarfélögum undanþágu frá þessum ákvæðum um starfstíma nemenda. Í grunnskólalögum eru hins vegar ekki sérstök ákvæði um forfallakennslu en skólar hafa lagt á það áherslu að leysa forföll kennara með þeim hætti að ekki þurfi að senda nemendur heim. Þó er ráðuneytinu kunnugt um tilvik að ekki hafi verið unnt að veita forfallakennslu eða aðra þjónustu þannig að senda hefur þurft nemendur heim en komi til þess þá telur ráðuneytið mikilvægt að foreldrum sé tilkynnt um slíkt. Ráðuneytið telur að skólum beri að leita allra mögulegra leiða til að komast hjá því að senda börn heim vegna forfalla innan lögbundins skólatíma, sérstaklega nemendur í yngri árgöngum grunnskóla. Eðlilegt er að ræða útfærslu á slíkri þjónustu í skólaráði viðkomandi skóla og að fjalla um forfallaþjónustu í árlegri starfsáætlun skólans.

Umræddur dagur er ekki opinber frídagur þrátt fyrir sögulegt mikilvægi hans fyrir Íslendinga. Því er skiljanlegt að nemendur komi fram með slíka hugmynd. Í grunnskólalögum segir að skóladagar nemenda skuli vera 180 talsins. Þessa daga á að fara fram kennsla, próf og annað skólastarf. Heimilt er að hafa sérstaka starfsdaga á starfstíma skóla. Á það skal bent að það er alfarið ákvörðun hvers skóla í samráði við skólaráð hvaða dagar eru notaðir sem starfsdagar, en þeir dagar eru frídagar nemenda. Ósk um að gera 1. desember að frídegi í skólanum er því vísað til skólastjórnenda skólans.

Ráðuneytið lítur svo á að ekki sé rétt að nýta lögbundinn kennslutíma til matmálstíma í hádegi. Matmálstímar ættu að vera hluti af hefðbundnum stundahléum eða matarhléum.

Með lögum um grunnskóla nr. 91/2008 voru sett ákvæði um starfstíma skóla, sem eru almennari en í eldri lögum, m.a. til að skapa aukið svigrúm fyrir skólana til að miða við aðstæður á hverjum stað. Skólaráð hvers skóla er mikilvægur vettvangur til umræðna um þætti eins og lengd hádegishlés. Aðstæður í skólum geta verið afar mismunandi og ekki þótti ástæða til þess að lögbinda tilekinn lágmarks- eða hámarkstíma í þeim efnum. Í 13. gr. laganna segir að þess skuli gætt að vinnuálag í skóla sé hæfilegt þannig að nemendur fái nægjanlega hvíld frá skipulögðu starfi innan hvers skóladags og skólaárs, svo sem með samfelldu jóla- og páskaleyfi. Í 28. gr. laganna segir að skólastjóri ákveði nánari útfærslu vikulegs kennslutíma í samráði við skólaráð. Við ákvörðun daglegs og vikulegs starfstíma nemenda í grunnskóla skal þess gætt að hann sé samfelldur með eðlilegum hléum og fari ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska. Í greinargerð með frumvarpinu eru settar fram nánari útskýringar á þessum breytingum en þar kemur m.a. fram að felld séu brott nákvæm ákvæði um lengd stundahléa og matarhléa, þar sem eðlilegt sé að skólar hafi svigrúm til að skipuleggja skóladaginn með það að leiðarljósi að hann sé samfelldur með eðlilegum hléum. Af þessum sökum þá telur ráðuneytið ekki rétt að taka afstöðu til þess hvað sé eðlileg lengd á matarhléum í grunnskólum. Ráðuneytið telur mikilvægt að nemendur fái að koma á framfæri skoðunum sínum og óskum um skólahald og að taka skuli réttmætt tillit til sjónarmiða þeirra.

Samkvæmt 46. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 ber foreldrum, sem óska eftir undanþágu frá 3. gr. laganna til að kenna börnum sínum heima, að hluta til eða öllu leyti, að sækja um slíka heimild til síns sveitarfélags. Skólastjóri getur veitt undanþágu að höfðu samráði við skólanefnd og sérfræðiþjónustu. Börn sem hljóta heimakennslu eru undanþegin skólaskyldu skv. 3. gr., en skulu lúta eftirliti og reglulegu mati og þreyta könnunarpróf samkvæmt lögunum. Niðurstöður sveitarstjórna um óskir um heimakennslu eru kæranlegar sbr. 47. gr. grunnskólalaga en ráðuneytið getur í úrskurði sínum lagt fyrir sveitarfélag að veita foreldrum barns heimild skv. 2. mgr. 46. gr. laganna. Nánar er kveðið á um heimakennslu í sérstakri reglugerð nr. 531/2009, m.a. um skilyrði fyrir heimild foreldra til heimakennslu.

Í grunnskólalögum er lögbundinn lágmarksvikulegur kennslutími í grunnskólum. Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hvort þau ákveða að lengja skóladaginn umfram lögbundið lágmark og mörg sveitarfélög hafa gert það, einkum í yngstu bekkjum grunnskóla. Í lögum eða reglum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti segir ekkert um heimanám eða vægi þess. Hver skóli skal setja sér skólanámskrá og starfsáætlun og ákveða skipulag og umfang heimanáms.

Vikulegur kennslutími hvers nemanda skal að lágmarki vera: 1200 mínútur í 1.- 4. bekk, 1400 mínútur í 5.-7. bekk og 1480 mínútur í 8.-10. bekk.

Í markmiðum aðalnámskrár er ekki gert ráð fyrir að fram fari fermingarundirbúningur í grunnskóla í þeim kennslustundum sem ætlaðar eru til kennslu í skyldunámsgreinum enda er það hlutverk viðkomandi kirkju eða trúfélags að annast slíka fræðslu. Samkvæmt grunnskólalögum nr. 91/2008 er skólastjórum heimilt að veita nemendum leyfi að ósk foreldra ef til þess liggja gildar ástæður. Óski foreldrar eftir því að börn þeirra fái leyfi úr grunnskóla vegna fermingarfræðslu er skólastjóra heimilt að veita slíkt leyfi. Skólastjóra er heimilt að veita þeim nemendum sem fermast leyfi í tengslum við fermingarfræðsluna en slíkt leyfi getur ekki náð til allra nemenda.

Í 15. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir: "Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Öll röskun á námi nemandans, sem hlýst af umbeðnu leyfi, er á ábyrgð foreldra eða forráðamanns og skulu þau sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að um sambærilegt ákvæði sé að ræða um tímabundna undanþágu nemenda frá skólasókn en skólastjóra er heimilt að veita slíkar undanþágur telji hann til þess gildar ástæður. Ekki eru settar í lögum eða reglugerðum frekari leiðbeiningar um hvað teljist gildar ástæður, en í öllum tilvikum er ábyrgðin sett á foreldrana að sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Í greinargerðinni er tekið fram að gildar ástæður geti t.d. tengst þátttöku í landsliðsverkefnum á sviði íþrótta, æskulýðsstarfs, sjálfboðastarfs eða ferðalögum fjölskyldu.

Ef ekki næst samkomulag milli forráðamanna og skólastjóra um slíka undanþágu geta foreldrar kært synjun skólastjóra samkvæmt fyrirmælum 47. gr. grunnskólalaga. Mennta- og menningarmálaráðuneytið er þar með veitt heimild til að mæla svo fyrir í úrskurði að undanþága skuli veitt í heild eða að hluta, jafnvel þó að sveitarfélag hafi ekki fallist á slíka beiðni. Ástæða þess að talið er rétt að fela ráðuneytinu valdheimild þessa er fyrst og fremst sú að þrátt fyrir sjálfstæði sveitarfélaga um rekstur grunnskóla verður að telja eðlilegt að hægt sé að tryggja a.m.k. að nokkru marki samræmi í því í hvaða tilvikum einstakir nemendur eigi að lögum rétt á undanþágu frá skólasókn. Hér getur verið um mikilvæg réttindi einstakra nemenda að ræða og þá er gert ráð fyrir að almenn viðmið um heimildir til að veita undanþágur verði settar í aðalnámskrá. Ekki hefur reynt á þessa kæruheimild frá því að grunnskólalögin tóku gildi. Ákvæði um undanþágur frá skyldunámi er nánar tilgreint í aðalnámskrá grunnskóla, en gert er ráð fyrir því að einstakir skólar móti sér reglur í samræmi við lög og aðalnámskrá. Skólastjórar hafa því heimild til að neita foreldrum um tímabundið leyfi frá skólasókn telj þeir ástæður ekki gildar en foreldrar geta kært þá niðurstöðu til ráðuneytisins.

Grunnskólar eða sveitarfélög skulu hafa móttökuáætlun fyrir nemendur sem eru að hefja skólagöngu, eru að skipta um skóla eða hefja nám sitt hér á landi. Foreldrum skulu á þeim tímamótum veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins, skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá möguleikum á túlkaþjónustu.

Samkvæmt 25. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008 setur aðalnámskrá fram ákvæði um inntak og skipulag náms í íslensku, íslensku sem öðru tungumáli eða íslensku táknmáli, stærðfræði, ensku, dönsku eða öðru Norðurlandamáli, list- og verkgreinum, náttúrugreinum, skólaíþróttum, samfélagsgreinum, jafnréttismálum, trúarbragðafræði, lífsleikni og upplýsinga- og tæknimennt.

Í aðalnámskrá grunnskóla 4 er á bls. 50 tafla yfir heildar kennslustundafjölda í námsgreinum/námssviðum. Samkvæmt þeim viðmiðum er trúarbragðafræði flokkuð með öðrum greinum í flokkinn samfélagsfræðigreinar og eiga þær samtals að vera 580 mínútur á viku fyrir börn í 1.-4. bekk, 600 mínútur á viku fyrir börn í 5.- 7.bekk og 36 mínútur á viku fyrir börn í 8.-10. bekk. Í 25. grein laga um grunnskóla segir einnig að hver grunnskóli ákveði hvort námsgreinar og námssvið eru kennd aðgreind eða samþætt. Ekki er heimilt að sleppa því að kenna fög sem skilgreind eru í aðalnámskrá en á stundaskrá þarf ekki að tilgreina nákvæmlega hvenær trúarbragðafræðin er kennd ef á stundaskrá er gert grein fyrir réttum kennslutíma í samfélagsgreinar.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 segir svo í 6. gr. „Þess skal gætt að vinnuálag í skóla sé hæfilegt þannig að nemendur fái nægjanlega hvíld frá skipulögðu starfi innan hvers skóladags og skólaárs, svo sem með samfelldu jóla- og páskaleyfi.”

Í 29. gr. sömu laga segir svo m.a.: „Í hverjum grunnskóla skal gefa út skólanámskrá og starfsáætlun. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð þeirra og skal semja þær í samráði við kennara. Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla um markmið, inntak náms og námsmat, starfshætti og mat á árangri og gæðum skólastarfs. Skólanámskrá tekur mið af sérstöðu grunnskóla og aðstæðum og skal endurskoða reglulega. Í árlegri starfsáætlun er m.a. gerð grein fyrir skóladagatali, þ.m.t. lengd jólaleyfis, páskaleyfis og annarra vetrarleyfa, starfsáætlun nemenda, skólareglum, stoðþjónustu, félagslífi og öðru því sem varðar starfsemi skólans ár hvert. Starfsáætlun skóla skal árlega lögð fyrir skólanefnd til staðfestingar sem staðfestir gildistöku hennar þegar ljóst er að hún hafi verið unnin í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá, kjarasamninga og ákvarðanir sveitarstjórnar um fyrirkomulag skólahalds.Skólastjóri er ábyrgur fyrir útfærslu þessara ákvæða og einnig fyrir umfjöllun í skólanum og í skólaráði og að gera skólanefnd grein fyrir því með hvaða hætti áætlanir hafi staðist. Starfsáætlun og skólanámskrá skulu vera aðgengilegar öllum aðilum skólasamfélagsins.”

Skv. ofangreindu er ekkert í grunnskólalögum sem bannar það að færa til samfellt páskafrí að því gefnu að búið sé að útfæra það í starfsáætlun skólans. Hins vegar þarf að skoða kjarasamninga kennara, þar kunna að vera ákvæði um páskaleyfi.

1. Hefur bæjarstjórn heimild til að taka einhliða ákvörðun um skipulagsdaga leik- og grunnskóla?

2. Hvað á að leggja til grundvallar við ákvörðun skipulagsdaga í leik- og grunnskólum?

3. Hver á að ákvarða dagsetningar skipulagsdaga í leik- og grunnskólum?

4. Hvert er hlutverk skólaráða og skólanefndar við ákvörðun skipulagsdaga?

Samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008 og lögum um grunnskóla nr. 91/2008 bera sveitarstjórnir ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leik- og grunnskólum sveitarfélaga. Í 28. gr. grunnskólalaga segir að skólastjóri ákveði nánari útfærslu vikulegs kennslutíma í samráði við skólaráð. Í lögum nr. 91/2011 um breytingu á lögum á lögum um grunnskóla nr. 91/2008 kemur m.a. fram um starfstíma skóla, að sveitarstjórnum sé heimilt að samræma tiltekna leyfisdaga innan skólaársins fyrir alla skóla í sveitarfélaginu, að höfðu samráði við hagsmunaaðila. Þótt sveitarstjórnir hafi í raun það vald að samræma vetrarleyfi í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins er talið rétt að lögbinda þessa heimild, ekki síst til að undirstrika mikilvægi þess að hafa samstarf um slíkt við hagsmunaaðila. Þar er t.d. átt við skólaráð grunnskóla, foreldraráð leikskóla og skólameistara framhaldsskóla ef áhugi er á víðtæku samstarfi um leyfisdaga.

Í 6. grein grunnskólalaga laga segir að í hverju sveitarfélagi skuli í umboði sveitarstjórnar starfa skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni. Eitt af meginhlutverkum skólanefndar er að staðfesta starfsáætlun skóla ár hvert og skólanámskrá einstakra skóla. Í 4. grein laga um leikskóla segir að nefnd, kjörin af sveitarstjórn, fari með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Í 14. grein sömu laga segir að skólanámskrá og starfsáætlun skuli staðfestar af nefnd skv. 2. mgr. 4. gr., að fenginni umsögn foreldraráðs, og skulu þær kynntar foreldrum.

Í 8. grein grunnskólalaga segir að við grunnskóla skuli starfa skólaráð sem sé samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið.

Í 11. grein leikskólalaga segir að kjósa skuli foreldraráð við leikskóla og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið. Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr., um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiriháttar breytingar á leikskólastarfi.

Í 29. grein grunnskólalaga segir að í hverjum grunnskóla skuli gefa út skólanámskrá og starfsáætlun. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð þeirra og skal semja þær í samráði við kennara. Í árlegri starfsáætlun er m.a. gerð grein fyrir skóladagatali, þ.m.t. lengd jólaleyfis, páskaleyfis og annarra vetrarleyfa, starfsáætlun nemenda, skólareglum, stoðþjónustu, félagslífi og öðru því sem varðar starfsemi skólans ár hvert. Starfsáætlun skóla skal árlega lögð fyrir skólanefnd til staðfestingar sem staðfestir gildistöku hennar þegar ljóst er að hún hafi verið unnin í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá, kjarasamninga og ákvarðanir sveitarstjórnar um fyrirkomulag skólahalds.
Skólastjóri er ábyrgur fyrir útfærslu þessara ákvæða og einnig fyrir umfjöllun í skólanum og í skólaráði og að gera skólanefnd grein fyrir því með hvaða hætti áætlanir hafi staðist. Starfsáætlun og skólanámskrá skulu vera aðgengilegar öllum aðilum skólasamfélagsins.

Í 14. grein laga um leikskóla segir að leikskólastjóri gefi árlega út sérstaka starfsáætlun. Í starfsáætlun er gerð grein fyrir árlegri starfsemi leikskóla, svo sem skóladagatali og öðru því sem varðar starfsemi leikskólans. Skólanámskrá og starfsáætlun skulu staðfestar af nefnd skv. 2. mgr. 4. gr., að fenginni umsögn foreldraráðs, og skulu þær kynntar foreldrum.

Samanber ofangreind lagaákvæða er ákvörðun um skipulagsdaga á hendi skólastjóra en sveitarstjórn getur, sem ábyrgðaraðili skólahalds í sveitarfélaginu og í krafti yfirstjórnunarheimilda sinna beint tilmælum til skólastjórnenda að samræma skóladagatal innan sveitarfélagsins. Skólastjórnendum er rétt að hafa slík tilmæli til hliðsjónar við ákvörðun um skipulagsdaga. Eðlilegt er að sveitarstjórn taki mið af þeirri málsmeðferð sem lög um leikskóla og lög um grunnskóla gera ráð fyrir við ákvörðunartöku sem þessa og að gætt sé lögbundins samráðs við hagsmunaaðila skólasamfélagsins.

Í grunnskólalögum segir að fyrirkomulag skólaaksturs sé í hendi og á ábyrgð sveitarfélaga. Ráðuneytið hefur litið svo á að frá því að nemendur koma að morgni í skólann, á skólalóð eða í skólabíl og þar til þeir yfirgefa skóla í lok dags eða meðan á starfsemi á vegum skólans stendur, sem fram fer utan skólalóðar, séu þeir á ábyrgð skólans. Þetta tekur einnig til þess tíma sem nemendur fara milli skóla og annarra stofnana sem skólastarf tekur til, þ.m.t. með strætisvagni. Ráðuneytið hefur sett nánari reglur um skólaakstur.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008, segir í 22. gr. að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi skólaaksturs þar sem hann eigi við og standi straum af kostnaðinum. Í lögunum segir einnig að ráðherra setji nánari reglur um tilhögun skólaaksturs í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og að skólaakstur skuli vera nemendum að kostnaðarlausu. Í reglum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti nr. 656/2009 um skólaakstur, sem settar voru í kjölfar gildistöku grunnskólalaga, segir í 3. grein að sveitarstjórn setji, að fenginni umsögn skólanefndar, reglur um fyrirkomulag skólaaksturs og skuli taka mið af kennsluskipan, fjölda nemenda, aldri þeirra, samsetningu nemendahóps og umhverfisaðstæðum. Skólanefnd skal fyrir upphaf hvers skólaárs birta endurskoðaða áætlun um skólaakstur og skal hún vera íbúum aðgengileg. Í 4. grein sömu reglna segir að skólaakstur skuli skipulagður í samræmi við þarfir nemenda með hliðsjón af öryggi þeirra, velferð og umhverfisaðstæðum, svo sem fjarlægðar milli heimilis og skóla. Í reglunum eru hins vegar engin ákvæði um lágmarks vegalengd milli heimilis og skóla en áherslan í reglunum er á öryggi nemandans. Sveitarfélag getur í reglum, sbr. 1. mgr. 3. gr., reglna um skólaakstur sett almenn viðmið um skipulag hans. Sveitarstjórn er heimilt að semja við foreldra um þátttöku þeirra í skólaakstri. Í slíku samkomulagi skal kveðið á um heimildir til uppsagnar samkomulagsins. Við uppsögn fer um skólaakstur samkvæmt reglum þessum og fyrirmælum sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 3. gr. Í 8. grein sömu reglna segir að ef foreldri telji einhverju áfátt í fyrirkomulagi skólaaksturs eða að á rétti barns sé brotið getur það leitað leiðréttingar hjá sveitarstjórn eða hlutaðeigandi skólastjóra.

Ráðuneytið ítrekar að sveitarstjórn setur reglur um skólaakstur og skulu þær m.a. taka mið af umhverfisaðstæðum, velferð og öryggi nemenda. Af þeim sökum eru ekki sett ákvæði í reglurnar um lágmarks vegalengd milli heimilis og skóla þar sem umhverfisaðstæður geta verið afar mismunandi og ráðið miklu um skipulag skólaaksturs. Ráðuneytið telur að viðmið Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um stuðning við skólaakstur í dreifbýli eigi ekki að hafa áhrif á rétt nemenda á skólaakstri þar sem ávallt skal gæta að öryggi nemenda og umhverfisaðstæðum þegar skólaakstur er skipulagður en ekki eingöngu miða við tiltekna vegalengd frá heimili til skóla.

Ráðuneytið telur að ekki sé hægt að skylda nemendur til að sækja frístundaheimili að loknum skóladegi og sú afstaða er óbreytt, þrátt fyrir breytingar á á lögum um grunnskóla 2016 með sérstöku lagaákvæði um frístundaheimiliÞað er skilningur ráðuneytisins að foreldrar ákveði sjálfir hvort þeir vilji þiggja þjónustu frístundaheimila fyrir börn sín og þá skiptir ekki máli hvort þjónustan eigi að vera foreldrum að kostnaðarlausu eða ekki. Það er álit ráðuneytisins að ef foreldrar í dreifbýli, sem nýta skólaakstur á vegum sveitarfélagsins fyrir börn sín, en vilja ekki nýta sér frístundaheimili þá skuli sveitarfélagið skipuleggja skólaakstur með þeim hætti að börnunum sé ekið heim að afloknum lögbundnum skóladegi eða semja við foreldra um að börnin séu í frístundaheimilinu þeim að kostnaðarlausu.

Ráðuneytið hvetur til þess að framangreindar hugmyndir um fækkun heimferða og skipulag frístundaheimila og þjónustu fyrir nemendur utan lögbundins skólatíma verði ræddar í skólaráði skólans og ákvarðanir um fyrirkomulag teknar í kjölfarið. Ráðuneytið telur að ef framangreind áform eigi að ná fram að ganga þá þurfi að nást um það sátt í skólasamfélaginu, en það eru engin lög eða reglur sem heimila að börnum sé haldið í skólanum lengur en kveðið er á um í grunnskólalögum.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 sem tóku gildi 2008 voru gerðar ýmsar breytingar og hvað varðar starfstíma grunnskóla var lagaramminn sniðinn að þróun undanfarinna ára hér á landi og breytingum á starfstíma grunnskóla sem tilkomnar voru m.a. vegna kjarasamninga Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga. Einnig var horft til þess að skólaárið á Íslandi var styttra en í nágrannalöndum. Áfram var gert ráð fyrir sveigjanleika í skipulagi skólastarfs milli fullra kennsludaga nemenda annars vegar og annarra skóladaga nemenda hins vegar. Þar er m.a. átt við skólasetningar- og skólaslitadaga, foreldraviðtalsdaga, jólaskemmtanir, íþrótta- og útivistardaga og annað sem skólastjóri ákveður í hverjum skóla. Skipting milli kennsludaga og annarra skóladaga nemenda er skv. lögum á ábyrgð skólastjóra að höfðu samráði við skólaráð og að fenginni staðfestingu skólanefndar, enda samræmist skiptingin ákvæðum kjarasamninga á hverjum tíma. Breytingin var því einkum fólgin í að sníða lögin að almennri þróun en ekki var gert ráð fyrir að kennsludagar nemenda yrðu færri en í eldri lögum, þ.e. 170 og skóladagar nemenda ekki færri en 180. Breytingin var gerð í fullri sátt við alla hagsmunaaðila til að lögbinda breytingar á starfstíma skóla sem þegar hafði komist til framkvæmda. Þessi lenging skólaársins sem fyrst var staðfest í kjarasamningum árið 2001 og síðar lögfest 2008 er m.a. tilkomin svo að skólar geti betur unnið að því að ná markmiðum aðalnámskrár grunnskóla og haft meira svigrúm til fjölbreyttrar kennslu. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur sitji í skólastofum alla þessa 180 skóladaga, fjölmörg markmið grunnskólans eru þess eðlis að hægt er að vera úti við, bæði á skólalóðinni, í vettvangsferðum og í verkefnum sem tengjast nánasta samfélagi og náttúru.

Samkvæmt 28. gr. laganna hefur ráðuneytið ekki lengur heimild til að veita sveitarfélögum eða skólum undanþágu frá starfstíma skóla, hvorki árlegum né vikulegum. Með lögunum var fellt út ákvæði eldri laga þess efnis að ráðherra gæti veitt tímabundna undanþágu frá árlegum starfstíma skóla með hliðsjón af atvinnuháttum og aðstæðum í einstökum sveitarfélögum, en slíkar undanþágubeiðnir heyrðu orðið til algerra undantekninga. Í greinargerð með grunnskólafrumvarpinu kemur fram að áfram skuli miða við sama vikulegan kennslutíma hvers nemanda að lágmarki í mínútum talið og í eldri lögum. Í greinargerðinni segir enn fremur: „Nýtt ákvæði er þess efnis að heimilt sé að víkja tímabundið frá lágmarks vikulegum kennslutíma en tryggja nemendum viðbótarkennslu sem nemur frávikinu innan sama skólaárs. Þetta er hugsað til að auka möguleika á sveigjanlegu skólastarfi miðað við aðstæður á hverjum stað. Einstakir skólar gætu t.d. tekið þá ákvörðun að hafa styttri vikulegan skólatíma í svartasta skammdeginu en lengja skóladaginn á móti að hausti og vori. Vikulegur kennslutími getur því orðið breytilegur náist um það samkomulag innan skólans, skólaráðs og skólanefndar.“

Með hliðsjón af ofangreindu þarf ekki að koma til samþykki ráðuneytisins. Ráðuneytið lítur svo á að þær rúmist innan þess sveigjanleika sem skilgreindur er í 28. gr. laganna ef full sátt er innan skólasamfélagsins um þessa leið. Ráðuneytið vill hins vegar árétta mikilvægi þess að fyrirkomulagið fái umræður innan skólaráðs og skólanefndar og viðhorf hagsmunaaðila í skólasamfélaginu séu rækilega könnuð, m.a. með opnum foreldrafundum eða rafrænum viðhorfskönnunum, áður en endanleg útfærsla verður valin og að þess sé gætt að daglegt vinnuálag á nemendur verði ekki óhóflegt.

Starfstími nemenda í grunnskóla skal á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Skóladagar nemenda skulu ár hvert eigi vera færri en 180.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 var lagaramminn sniðinn að þróun undanfarinna ára og breytingum á starfstíma grunnskóla sem tilkomnar eru, m.a. vegna kjarasamninga Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir sveigjanleika í skipulagi skólastarfs milli fullra kennsludaga nemenda annars vegar og annarra skóladaga nemenda hins vegar. Skipting milli kennsludaga og annarra skóladaga nemenda er á ábyrgð skólastjóra að höfðu samráði við skólaráð og að fenginni staðfestingu skólanefndar, enda samræmist skiptingin ákvæðum kjarasamninga á hverjum tíma. Breytingin var því einkum fólgin í að sníða lögin að almennri þróun en ekki er gert ráð fyrir að kennsludagar nemenda verði færri en í eldri lögum, þ.e. 170 og skóladagar ekki færri en 180.

Þessi lenging skólaársins sem fyrst var staðfest í kjarasamningum árið 2001 og síðar lögfest 2008 er m.a. tilkomin til að skólar geti betur unnið að því að ná markmiðum aðalnámskrár grunnskóla og haft meira svigrúm til kennslu. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur sitji í skólastofum alla þessa 180 skóladaga, það eru fjölmörg markmið grunnskólans þess eðlis að hægt er að vera útivið, bæði á skólalóðinni, í vettvangsferðum og í verkefnum sem tengjast nánasta samfélagi og náttúru.

Í 20. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 er tekið fram að grunnskólahúsnæði og skólalóðir skuli uppfylla þær kröfur sem almennt eru gerðar í lögum um vinnuvernd og aðalnámskrá grunnskóla. Fellt var út ákvæði í eldri grunnskólalögum um að sveitarstjórn sé heimilt að sameina almenningsbókasafn og skólasafn ef það, að mati skólanefndar og skólastjóra, rýrir ekki gildi safnsins fyrir skólann. Eftir sem áður hefur sveitarstjórn slíka heimild, en ekki þykir ástæða til að tilgreina það sérstaklega í lögum. Með þessari breytingu er á engan hátt verið að draga úr mikilvægi skólasafna í grunnskólum, heldur talið óþarft að hafa sérstaka grein í lögunum um söfnin. Ákvæði um skólasöfn og hlutverk þeirra eru í aðalnámskrá grunnskóla í upplýsinga- og tæknimennt.

Samkvæmt. 4. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 fer mennta- og menningarmálaráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem undir lögin falla. Í því felst að ráðuneytið fer með almennt eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um. Verður slíkt eftirlit ekki talið taka til annarra atriða en þeirra sem tiltekin eru sérstaklega í lögum um grunnskóla. Á þessum grundvelli getur ráðuneytið tekið til athugunar einstök ákvæði laganna og látið í ljós álit sitt á túlkun þeirra og framkvæmd. Ráðuneytið hefur ekki sérstaklega fjallað um skólabúningamál eða úrskurðað í þeim efnum. Ákvarðanir um skólabúninga eru teknar í einstökum skólum í samráði við foreldra og nemendur, sbr. lög um grunnskóla. Fyrirspyrjanda var þ.a.l. bent á að beina erindi sínu til skólanefndar og skólaráðs viðkomandi skóla.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 segir að starfstími nemenda í grunnskóla skuli á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Skóladagar nemenda skulu eigi vera færri en 180. Skipting milli kennsludaga og annarra skóladaga nemenda sé á ábyrgð skólastjóra að höfðu samráði við skólaráð og að fenginni staðfestingu skólanefndar.

Það er ekki skilgreint hvaða dagar skuli vera frídagar og hvaða daga skuli vera kennsla.

Samkvæmt 29. grein sömu laga er skólastjóri ábyrgur fyrir gerð starfsáætlunar skólans og skal semja hana í samráði við kennara. Í árlegri starfsáætlun er m.a. gerð grein fyrir skóladagatali, þ.m.t. lengd jólaleyfis, páskaleyfis og annarra vetrarleyfa, starfsáætlun nemenda, skólareglum, stoðþjónustu, félagslífi og öðru því sem varðar starfsemi skólans ár hvert. Starfsáætlun skóla skal árlega lögð fyrir skólanefnd til staðfestingar sem staðfestir gildistöku hennar þegar ljóst er að hún hafi verið unnin í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá, kjarasamninga og ákvarðanir sveitarstjórnar um fyrirkomulag skólahalds. Skólastjóri er ábyrgur fyrir útfærslu þessara ákvæða og einnig fyrir umfjöllun í skólanum og í skólaráði. Einnig er vakin athygli á áliti ráðuneytisins um nánari skilgreiningu á skóladögum í grunnskóla.

Engin ákvæði eru í lögum eða reglugerðum um grunnskóla eða í álitum þar sem ákvæði laganna hafa verið frekar túlkuð, um hvort nýta megi 3. janúar sem skóladag. Að því gefnu að 3. janúar beri upp á virkan dag þá telur ráðuneytið ekkert því til fyrirstöðu að skólahald fari fram á þeim degi, enda hafi starfsáætlun skólans verið unnin í samræmi við 29. gr. laganna.

Já, í hverjum grunnskóla skal setja skólareglur. Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur. Í reglunum skal koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim.

Skv. reglugerð nr. 657/2009 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóð kemur m.a. fram að húsnæði, lóð, aðstaða, búnaður og öll starfsemi sem börn taka þátt í á vegum grunnskóla skal miðast við að öryggi nemenda sé tryggt. Nemandi er á ábyrgð skólans meðan á daglegum starfstíma skólans stendur, þegar hann tekur þátt í skipulögðu skólastarfi innan skólans, á skólalóð eða í ferðum á vegum skólans. Undirritun foreldra á skjali sem firrir skólann ábyrgð á ekki við, skv. framangreindu, að því tilskyldu að þar sé átt við skólaferðalag á skólatíma.

Óskað var eftir áliti mennta- og menningarmálaráðuneytis á lagaákvæðum um vikulegan lágmarkskennslutíma grunnskólanemenda sem erfitt geti verið að uppfylla í fámennum skólum. Í erindinu kom fram það sjónarmið að í fámennum skólum fái nemendur meiri einstaklingsþjónustu en almennt gerist í grunnskólum og af þeim sökum sé óhætt að fækka vikulegum kennslustundum í fámennum skólum. Einnig var óskað eftir því að ráðuneytið gæfi út viðmið um hvernig fámennir skólar gætu útfært vikulegan kennslutíma með öðrum hætti en í stærri skólum.

Samkvæmt 28. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 skal vikulegur kennslutími hvers nemanda í grunnskóla að lágmarki vera:
a. 1.200 mínútur í 1.–4. bekk,
b. 1.400 mínútur í 5.–7. bekk,
c. 1.480 mínútur í 8.–10. bekk.

Skólastjóri ákveður nánari útfærslu vikulegs kennslutíma í samráði við skólaráð en ekki er lengur lögbundin ákveðin lengd kennslustunda, þótt algengt sé að umreikna kennslutímann í 40 mínútna kennslustundir. Vakin er athygli á að samkvæmt framangreindri lagagrein er heimilt að víkja frá vikulegum lágmarkskennslutíma tímabundið, en nemendum skal þá tryggð viðbótarkennsla sem nemur frávikinu innan sama skólaárs. Í grunnskólalögum er ekki heimild til að veita undanþágu frá vikulegum lágmarkskennslutíma nemenda að öðru leyti en sveigjanleika innan sama skólaárs.

Í frumvarpi til laga um grunnskóla sem lagt var fram á Alþingi 2007 segir m.a. í skýringu við 28. gr. „Áfram er miðað við sama vikulegan kennslutíma hvers nemanda að lágmarki í mínútum talið þannig að ekki er lagt til að skóladagur nemenda skv. 27. gr. gildandi laga lengist með tilkomu nýrra laga. Ekki er lengur kveðið á um í lögum að kennsludagur skuli hefjast að morgni, í einsetnum skólum er það regla sem ekki þarf að lögbinda. Felld eru einnig brott nákvæm ákvæði um lengd stundahléa og matarhléa þar sem eðlilegt er að skólar hafi svigrúm til að skipuleggja skóladaginn með það að leiðarljósi að hann sé samfelldur með eðlilegum hléum og fari ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska. Nýtt ákvæði er þess efnis að heimilt sé að víkja tímabundið frá lágmarks vikulegum kennslutíma en tryggja nemendum viðbótarkennslu sem nemur frávikinu innan sama skólaárs. Þetta er hugsað til að auka möguleika á sveigjanlegu skólastarfi miðað við aðstæður á hverjum stað. Einstakir skólar gætu t.d. tekið þá ákvörðun að hafa styttri vikulegan skólatíma í svartasta skammdeginu en lengja skóladaginn á móti að hausti og vori. Vikulegur kennslutími getur því orðið breytilegur náist um það samkomulag innan skólans, skólaráðs og skólanefndar.”

Grunnskólalögin eru skýr hvað varðar vikulegan kennslutíma nemenda og þann sveigjanleika sem mögulegur er innan ramma laganna. Ráðuneytið leggur áherslu á að allir grunnskólar starfa í samræmi við ákvæði 28.gr. laganna um vikulegan skólatíma. Engar undanþágur eru veittar og ráðuneytið hefur enga ekki heimild til að veita undanþágur eða setja nánari reglur eða viðmið um mismunandi útfærslu grunnskóla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur að skóli sé ábyrgur fyrir öllu skólastarfi á skólatíma, kennslu sem og öðru starfi sem skólinn kann að bjóða uppá.
Í 28. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir meðal annars að skólastjóri ákveði nánari útfærslu vikulegs kennslutíma í samráði við skólaráð. Við ákvörðun daglegs og vikulegs starfstíma nemenda í grunnskóla skal þess gætt að hann sé samfelldur með eðlilegum hléum og fari ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska. Í ljósi þess telur ráðuneytið að hlé á skóladegi með þeim hætti sem sveitarfélagið hefur í huga verði að teljast innan samfellds skóladags og skólinn ábyrgur fyrir nemendum.

Samkvæmt 2. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 skulu starfshættir grunnskóla mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Skv. 24. gr. laganna skulu markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti.

Skv. 25. gr. grunnskólalaga skal í aðalnámskrá m.a. setja ákvæði um inntak og skipulag náms í trúarbragðafræði. Í aðalnámskrá grunnskóla í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði segir m.a. „Öll kennsla, sem fæst við álitamál, svo sem trú og lífsskoðanir, siðgæði og mannleg samskipti, gerir miklar kröfur til kennarans. Hún þarf að vera málefnaleg og einkennast af víðsýni og vilja til að skilja og virða fólk með mismunandi trúar- og lífsskoðanir.”

Samkvæmt aðalnámskránni er inntak námsgreinarinnar er þríþætt. Í fyrsta lagi fræðsla um kristna trú og menningu og sögu kirkjunnar. Í öðru lagi siðferðileg viðfangsefni. Í þriðja lagi fræðsla um helstu trúarbrögð heims. Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun og er því fyrst og fremst ætlað að miðla þekkingu og auka skilning á kristinni trú og öðrum trúarbrögðum. Liður í því er að nemendur séu hvattir til að setja sig í annarra spor og skoða viðkomandi átrúnað innan frá, með augum hins trúaða. Í vinnureglum um samstarf skóla og kirkju sem Þjóðkirkjan hefur gefið út kemur fram að ef óskað er eftir skólaguðsþjónustu í tengslum við jól eða aðrar hátíðir er það á forsendum kirkjunnar. Það er skólans að setja reglur um hvernig með það skuli fara ef foreldrar óska ekki að börn þeirra taki þátt í slíkum athöfnum.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 eru ákvæði um túlkaþjónustu í 16. og 18. gr. Í 16. gr. eru ákvæði um móttökuáætlanir og ná ákvæði þeirrar greinar eingöngu til atriða sem talin eru mikilvæg vegna móttöku nemenda í grunnskóla. Í 18. gr. eru hins vegar ákvæði um almennan rétt á túlkaþjónustu. Þar segir að eigi í hlut foreldrar sem ekki tala íslensku eða nota táknmál þá skuli skólar leitast við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla skv. greininni. Þar er átt við nauðsynleg samskipti alla skólagönguna, ekki aðeins vegna móttöku nemenda, heldur einnig vegna samskipta heimilis og skóla.

Í greinargerð með frumvarpi til grunnskólalaga segir um framangreinda túlkaþjónustu: "Til að foreldrar geti gætt hagsmuna barna sinna vegna skólastarfsins og að upplýsingagjöf foreldra til skóla og frá skóla til foreldra sé greið er nauðsynlegt að foreldrum sem ekki tala íslensku eða foreldrum sem nota táknmál sé tryggð túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla. Er þá bæði átt við upplýsingar sem tengjast hagsmunagæslu foreldra fyrir börn sín vegna skólastarfsins sem og túlkun vegna upplýsingaskyldu foreldra og skóla. Er því tekið fram í 3. mgr. að leitast skuli við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt greininni. Umfang túlkunar er því háð mati hverju sinni."

Í 15. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir svo: „Skólastjóra er heimilt að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því”. Í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla, sem tók gildi 1. ágúst sl. eru þessi undanþáguákvæði laganna nánar útfærð og segir svo á bls. 59: „Samkvæmt grunnskólalögum er skólastjóra heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því. Þá er t.d. átt við undanþágu nemenda með annað móðurmál en íslensku frá skyldunámi í dönsku. Þetta á einnig við um unglinga sem lengi hafa verið búsettir erlendis. Þá er hægt að veita nemendum með sérþarfir eða fötlun undanþágu frá tilteknum námsgreinum að höfðu samráði við sérfræðinga.. Æskilegt er að nemendum sé boðið upp á önnur námstækifæri í staðinn, t.d. nám í eigin móðurmáli eða íslensku. Einnig er hægt að nýta þessa undanþáguheimild fyrir nemendur sem hafa sýnt afburðaárangur á ákveðnu sviði, t.d. eru í yngri landsliðum í íþróttum eða í listnámi samanber leiðbeinandi reglur fyrir skóla um meðferð slíkra mála. Hafi nemandi fengið undanþágu frá skyldunámsgrein í grunnskóla er eðlilegt að slík undanþága gildi áfram í sömu námsgreinum í framhaldsskóla.” Í aðalnámskrá framhaldsskóla sem tók gildi á sama tíma segir að: „Nemendur sem fengið hafa undanþágu frá námi í námsgrein í grunnskóla, geta einnig sótt um undanþágu frá sömu grein í framhaldsskóla.“

Eins og sjá má á ofangreindu er það á valdi skólastjóra grunnskóla að ákveða hvaða nemendur fá undanþágur frá skyldunámi og ráðuneytið lítur svo á að þær undanþágur gildi áfram í framhaldsskóla enda slíkt beinlínis tekið fram í aðalnámskrá grunnskóla og einnig í aðalnámskrá framhaldsskóla. Ekki er gert ráð fyrir öðru en að undanþágur frá skyldunámi í grunnskóla haldi áfram í framhaldsskóla, óski nemandi eftir því. Hins vegar geta forsendur breyst þannig að nemendur óski í framhaldsskóla ekki áfram eftir slíkum undanþágum, t.d. ef hann er hættur að stunda íþróttir eða listnám af sama kappi og í grunnskóla.

Í aðalnámskrá er í 16. kafla fjallað um undanþágur frá aðalnámskrá í nokkrum liðum, þ.e. samkvæmt heimildum í grunnskólalögum. Þar er fjallað um undanþágu frá skólasókn, viðurkenningu náms sem stundað er utan grunnskóla, undanþágur frá samræmdum könnunarprófum, undanþágur í skilgreindum þróunarskólum, heimakennslu, sjúkrakennslu, fjar- og dreifnám og loks um undanþágur frá skyldunámi í tilteknum námsgreinum.

Við samningu aðalnámskrárinnar var lögð áhersla að ná sem best utan um alla þessa undanþágumöguleika, í flestum tilvikum án þess að setja nákvæmar viðmiðanir um framkvæmdina. Undanþágur frá skyldunámi eru einkum skilgreindar tvenns konar, þ.e. annars vegar vegna nemenda sem vegna sérþarfa, fötlunar eða uppruna og hins vegar vegna nemenda sem sýnt hafa afburðaárangur á ákveðnu sviði. Í aðalnámskránni eru leiðbeinandi reglur um verklag vegna beiðna foreldra um undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein samkvæmt 15. gr. grunnskólalaga. Í reglunum er ekki kveðið á um ákveðna árganga heldur tekið fram að rökstuðningur og skýringar komi fram í umsókninni. Þessar undanþágur eru einkum hugsaðar vegna nemenda af erlendum uppruna sem t.d. fá undanþágu frá skyldunámi í dönsku og hins vegar fyrir nemendur með sérþarfir þar sem talin er ástæða til að draga úr námskröfum. Í þessum tilvikum getur skólinn boðið nemendum annað nám í staðinn, t.d. í móðurmáli nemandans eða viðbótarnám í öðrum skyldunámsgreinum er skólinn er ekki skyldaður að bjóða nemanda annað nám.

Einnig eru í aðalnámskránni leiðbeinandi reglur um undanþágu frá skólaíþróttum á grunnskólastigi, samkvæmt 15. gr. Ekki hafa áður verið sambærilegar viðmiðanir í aðalnámskrá grunnskóla en ítrekað hefur verið óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til undanþágu frá skólaíþróttum. Fyrir nokkrum árum tók ráðuneytið saman leiðbeinandi reglur vegna þessara mála að beiðni ÍSÍ og sendi til skóla og hagsmunaaðila og byggja reglurnar í aðalnámskránni á því. Fram kemur m.a. að skólastjórar veiti að öllu jöfnu einungis þeim nemendum í 8.-10. bekk grunnskóla undanþágu frá skólaíþróttum sem náð hafa framúrskarandi árangri í þeirri íþróttagrein sem þeir stunda. Ekki er heimilt að veita slíka undanþágu ef íþróttaiðkunin hefur þegar verið metin til valgreina. Í þessum reglum eru tilgreindar ýmis konar takmarkanir á að undanþágur af þessu tagi séu veittar.
Í kafla 16.2 í aðalnámskránni er fjallað um heimildir skólastjóra til að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi grunnskólanáms, eða hæfni sem nemandi býr yfir, allt frá upphafi grunnskóla. Ákvæðin í aðalnámskránni eru sambærileg og í grunnskólalögum, en ekki eru settar nákvæmar leiðbeinandi reglur um útfærsluna. Hins vegar er gert ráð fyrir að til þess að undanþága sé heimil þá hafi nemandi stundað nám við t.d. tónlistarskóla eða aðra listaskóla eða málaskóla sem uppfylli skilyrði til að vera metið í stað tiltekins skyldunáms. Auk þess er tekið fram að unnt sé að meta hæfni nemanda með annað móðurmál en íslensku í eigin móðurmáli og/eða í öðrum málum, hvort sem hann fær formlega kennslu eða ekki utan skóla. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir undanþágu frá skyldunámi í íþróttum fyrir nemendur í 1.-7. bekk vegna íþróttaiðkunar sem stunduð er utan grunnskóla.
Skólastjórar grunnskóla hafa í nokkur ár haft þessa heimild í lögum að veita framangreindar undanþágur, en áður þurfti að sækja um allar undanþágur til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Skólastjórar grunnskóla hafa óskað eftir skýrum reglum frá ráðuneytinu um málsmeðferð vegna slíkra undanþágubeiðna og segja má að 16. kaflinn í aðalnámskrá grunnskóla um undanþágur sé svar við þeirri ósk. Hins vegar munu reglurnar aldrei ná yfir öll mál sem upp kunna að koma og þá er mikilvægt að hægt sé að túlka ákvæði aðalnámskrár og mögulega setja nákvæmari leiðbeiningar til að ekki fari á milli mála hvaða heimildir skólastjórar hafa.

Ráðuneytið hefur ekki vald til að taka ákvarðanir um vetrarleyfi í skólum. Ákvörðun um starfsdaga og vetrarleyfi í leik- og grunnskólum liggur hjá sveitarfélögum og einstökum framhaldsskólum og eru almennt samtals á bilinu 2-4 dagar. Í starfsáætlun skóla þarf að tilgreina þessa daga og þarf skólanefnd hvers sveitarfélags í tilvikum leik- og grunnskóla og skólanefnd í tilvikum framhaldsskóla að staðfesta fyrirkomulagið. Það er því á hendi skólanefnda að samþykkja hvenær vetrarfrí eru í einstökum skólum. Foreldrar hafa aðkomu að skipan þessara mála með setu fulltrúa foreldra í skólanefndum, skólaráðum og foreldraráðum. Það er síðan á hendi hvers og eins sveitarfélags að samhæfa vetrarfrí í þeim skólum sem sveitarfélaginu tilheyra.

Starfsfólk grunnskóla

Í lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eru ýmis ákvæði um menntunarkröfur leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Markmið laganna er að tryggja að þeir sem leggja stund á kennslu- og uppeldisstörf í leik-, grunn- og framhaldsskólum hafi menntun í samræmi við störf þeirra og ábyrgð. Ýmis skilyrði eru sett um menntunar- og hæfnikröfur kennara og rétt til að nota starfsheitið leikskólakennari, grunnskólakennari og framhaldsskólakennari og til starfa við skóla á viðkomandi skólastigum hefur sá einn sem til þess hefur leyfi mennta- og menningarmálaráðherra, skv. framangreindum lögum.

Í lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er sérstakur kafli um mat og eftirlit með gæðum skólastarfs á viðkomandi skólastigum. Sambærileg markmiðsgrein um mat og eftirlit með gæðum skólastarfs er í lögum um hvert skólastig. Í greinargerð með frumvarpi til laga um grunnskóla segir um þessa markmiðsgrein: „Lögð er til ný grein um markmið mats og eftirlits með gæðum skólastarfs. Í skýrslu sem vinnuhópur um gæðamál í skólastarfi skilaði til menntamálaráðherra árið 2005 er fjallað um hugtakið gæði í skólastarfi og tekið fram að það sé órjúfanlega tengt settum markmiðum í lögum, reglugerðum og námskrám sem setja ramma um starfsemina hverju sinni. Gæði eru skilgreind með hliðsjón af væntingum og þörfum helstu hagsmunaaðila, nemenda, foreldra, stjórnvalda, atvinnulífs og samfélags. Í mati og eftirliti felst síðan skoðun á því hversu vel skólar ná viðkomandi markmiðum og einnig er horft til framkvæmdar skólahalds. Greint er á milli innra mats/eftirlits sem fer fram innan skólanna sjálfra og ytra mats/eftirlits sem yfirvöld eða aðrir aðilar utan skólans standa fyrir. Markmið mats og eftirlits taka annars vegar til ábyrgðarskyldu skóla og fræðsluyfirvalda gagnvart þeim sem njóta þjónustu skóla og hagsmuni hafa af starfi hans og hins vegar er því ætlað að stuðla að umbótum í starfi skóla og í skólakerfinu í heild.“

Settar hafar verið reglugerðir um mat og eftirlit á framangreindum skólastigum og ákvæði um mat á skólastarfi koma einnig fram í aðalnámskrám skólastiganna.

Aukin áhersla er lögð á ytra mat sveitarfélaga á leik- og grunnskólum og ýmislegt hefur verið gert í þeim efnum í kjölfar gildistöku laganna, bæði af hálfu ráðuneytisins og einstakra sveitarfélaga. Í því sambandi má benda á sameiginlegan verkefnisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytisins og sveitarfélaga sem vinnur að innleiðingu þessa þáttar laganna, í samstarfi við ýmsa aðila, sjá nánar á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga http://www.samband.is

Óheimilt er að ráða einstakling til starfa við grunnskóla sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild skólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá.

Í 11. gr. grunnskólalaga kemur fram að um ráðningu starfsfólks grunnskóla fari eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga og nánari fyrirmælum í samþykkt um stjórn sveitarfélags eftir því sem við á. Samkvæmt greininni er óheimilt að ráða einstakling til starfa við grunnskóla sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild skólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Samkvæmt 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 fer um ráðningu starfsmanna samkvæmt ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Séu þar eigi sérstök ákvæði þessa efnis gefur sveitarstjórn almenn fyrirmæli um hvernig staðið skuli að ráðningu starfsmanna.

Fylgi sveitarfélag framangreindum lagareglum verður ekki séð að ákvörðun þess að fela starfsfólki sundstaða gæslu grunnskólanemenda , meðan á skólasundi stendur , gangi gegn lögum um grunnskóla. Hlutaðeigandi skólastjóri, eða sá aðili sem innan sveitarfélagsins annast ráðningu starfsfólks grunnskóla, ber ábyrgð á því að við ráðningu liggi fyrir nauðsynleg gögn og upplýsingar, þ. á m. um sakavottorð eða heimild skólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá.

Samkvæmt. 4. gr. laga um grunnskóla fer mennta- og menningarmálaráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem undir lögin falla. Í því felst að ráðuneytið fer með almennt eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um. Verður slíkt eftirlit ekki talið taka til annarra atriða en þeirra sem tiltekin eru sérstaklega í lögum um grunnskóla. Á þessum grundvelli getur ráðuneytið tekið til skoðunar einstök ákvæði laganna og látið í ljós álit sitt á túlkun þeirra og framkvæmd. Einstakar ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda samkvæmt lögum um grunnskóla eru á hinn bóginn ekki kæranlegar til ráðherra nema til þess standi sérstök heimild í einstökum ákvæðum laganna, sbr. 47. gr. þeirra. Mál er varða starfsskyldur skólastjórnenda og annars starfsfólks grunnskóla teljast starfsmannamál og lúta eftirliti sveitarstjóra, sem fer almennt með yfirstjórn málefna starfsmanna í sveitarfélaginu, skv. nánari ákvörðun sveitarstjórnar, sbr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í 5. gr. laga um grunnskóla er fjallað um ábyrgð sveitarfélaga á rekstri grunnskóla. Samkvæmt 102 gr. sveitarstjórnarlaga fer innanríkisráðuneytið með málefni sveitarfélaga. Í greininni er kveðið á um að það ráðuneyti fari með eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum.

Ráðuneytið vill vekja athygli á að í 12. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 er kveðið á um þagnarskyldu starfsfólks skóla. Þar segir að starfsfólk grunnskóla skuli gæta fyllstu þagmælsku um hagi barna og foreldra þeirra, sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna og eðli máls. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum. Þagnarskylda starfsfólks grunnskóla nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Skal skólastjóri brýna skyldur þessar fyrir starfsfólki og sérstaklega tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum.

Í lögum um grunnskóla er að finna áherslu á aukið samstarf heimila og skóla. Mikilvæg forsenda góðrar menntunar og velferðar nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og skóla og þarf samstarfið að byggjast á gagnkvæmri virðingu, gagnkvæmu trausti, samábyrgð og gagnkvæmri upplýsingamiðlun. Samkvæmt reglugerð um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín nr. 897/2009 sem sett var við lögin eiga foreldrar rétt á aðgangi að upplýsingum um börn sín. Um takmarkanir á upplýsingarétti þeirra fer samkvæmt fyrirmælum 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Eðlilegt má telja að skólar setji sér reglur um upplýsingagjöf og miðlun milli heimilis og skóla m.a. með hliðsjón af ofangreindum lögum og fjalli um það í skólanámskrá þannig að öllum hagsmunaaðilum skólasamfélagsins sé kunnugt um málsmeðferð og verklag í þessum efnum.

Um það hvort að kennarinn hafi brotið þagnarskyldu í máli því er hér um ræðir og/eða að þér eigið rétt til upplýsinga um framhald málsins leyfir ráðuneytið sér að benda yður á að beina erindi yðar til innanríkisráðuneytis sem fer með málefni sveitarstjórna og stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Stjórnun og rekstur

Já, mennta- og menningarmálaráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða námsbraut innan almenns grunnskóla sem starfa skv. viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan.

Nei, óheimilt er að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda. Þó er heimilt að taka gjald fyrir uppihald í námsferðum nemenda, að höfðu samráði við foreldra. Hér er einkum átt við lengri ferðir eins og skólabúðir og skólaferðalög.

Nei, sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi skólaaksturs þar sem hann á við og standa straum af kostnaði við hann.

Nei, kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skal veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum grunnskólalaga og aðalnámskrá. Sama á við um nám grunnskólanemenda í framhaldsskólaáföngum.

Samkvæmt 31. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 skal kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum grunnskólalaga og aðalnámskrá. Í lögunum er tekið fram að opinberum aðilum er ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír. Ekki er sérstaklega gerð grein fyrir þessari gjaldtökuheimild í greinargerð með frumvarpinu. Mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi orðsendingu til sveitarfélaga og hagsmunaaðila 21. september 2007 þar sem það meginsjónarmið er áréttað að grunnskólanám eigi að vera nemendum að kostnaðarlausu. Er þá m.a. horft til ákvæða stjórnarskrár um jafnræði og rétt til almennrar menntunar. Því hefur ráðuneytið alla jafna túlkað gjaldtökuheimildir þröngt, þ.e. að gjaldtaka sé sem minnst. Ráðuneytið hefur hins vegar ekki sérstaka skoðun á því hvaða ritföng eru nauðsynleg, þar treystir ráðuneytið á fagmennsku kennara og skynsemi.

Bent er á að ákvarðanir um gjaldtöku grunnskóla samkvæmt 31. grein grunnskólalaga eru kæranlegar samkvæmt fyrirmælum 47. gr. laganna.

Ráðuneytinu barst í september 2014 fyrirspurn um gjaldtökuheimildir Hljóðbókasafns Íslands, einkum hvað varðar útlán á hljóðbókum til leshamlaðra grunnskólanemenda. Í erindinu kom fram að Hljóðbókasafn Íslands hafi í upphafi yfirstandandi skólaárs krafist greiðslu frá grunnskólanemendum fyrir aðgang að hljóðbókum safnsins en hingað til hafi þeir ekki þurft að greiða fyrir slíka þjónustu safnsins. Fram kom einnig í erindinu að þjónusta Hjóðbókasafnsins sé talin nauðsynleg fyrir leshamlaða nemendur á grunnskólastigi þar sem ekki sé í boði nægilegt framboð af hljóðbókum hjá Námsgagnastofnun.

Í IV. kafla bókasafnalaga nr. 150/2012 eru sérstök ákvæði um Hljóðbókasafn Íslands og hlutverk safnsins skilgreint, þar sem m.a. kemur fram að safnið sjái þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni, þar á meðal námsgögnum, í sem bestu samræmi við óskir og þarfir nemenda. Í 19. gr. eru gjaldtökuheimildir bókasafna skilgreindar. Þar segir: "Bókasöfnum er heimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sína, svo sem útlánastarfsemi, millisafnalán, afritun, fjölföldun, ljósmyndun, sérfræðilega heimildaþjónustu, heimildaleit í gagnagrunnum og útlán á sérstökum safnkosti." Hvert safn setur skv. lögunum gjaldskrá um alla gjaldtöku að fengnu samþykki bókasafnsstjórnar eða yfirstjórnar stofnunar. Þessi gjaldtökuheimild nær einnig til Hljóðbókasafns Íslands. Bókasöfn þurfa þar af leiðandi ekki sérstaka heimild ráðuneytis til að heimila gjaldtöku vegna útlána.

Hins vegar segir í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 í 31. gr. að kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skuli veitt nemendum að kostnaðarlausu og að óheimilt sé að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laganna og aðalnámskrá grunnskóla.

Ráðuneytið taldi samkvæmt ofangreindu óheimilt að krefjast greiðslu frá grunnskólanemendum fyrir þau námsgögn sem þeim er gert skylt að nota í námi sínu. Nemendur eiga því ekki að þurfa að greiða sjálfir fyrir útlán hljóðbóka á Hljóðbókasafninu ef um er að ræða efni til nota í skyldunámi.

Skólastjóri skal samræma innan hvers skóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda er lýtur að skólaþjónustu, námsráðgjöf og skólaheilsugæslu með stofnun nemendaverndarráðs. Æskilegt er að fulltrúi félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags sitji í nemendaverndarráði skóla en mörg mál sem koma inn á borð nemendaverndarráða eru þess eðlis. Nánari ákvæði um nemendaverndarráð eru sett í reglugerð.

Já, sveitarfélögum er heimilt að reka saman grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra. Skal stjórnandi slíkrar stofnunar hafa leyfisbréf til kennslu á leik- og/eða grunnskólastigi. Hinn samrekni skóli skal starfa að öðru leyti samkvæmt lögum um viðkomandi skólastig.

Já, sveitarfélögum er heimilt að hafa með sér samvinnu um rekstur grunnskóla, sbr. sveitarstjórnarlög.

Í lögum um leikskóla og grunnskóla er sveitarfélögum heimilt að reka saman leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla að fenginni umsögn skólanefndar. Það er hlutverk sveitarfélags að sjá til þess að tryggja að faglega sé staðið að slíkum samrekstri þó opinber viðmið um fjölda eða stærð séu ekki lögbundin.

Við samningu laganna var sérstaklega horft til aukinna möguleika á samstarfi og sveigjanleika milli og innan skólastiga. Því var lagt kapp á það í grunnskólalögunum að skólanefnd stuðlaði að samstarfi og tengslum á milli skólastiga. Þá er ekki eingöngu átt við tengsl milli barnanna heldur og milli kennara, kennsluaðferða og námsefnis svo dæmi sé tekið.

Já, grunnskólar sem hljóta viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytis eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í. Um börn sem stunda nám í sjálfsætt starfandi skólum utan lögheimilissveitarfélags er samið milli aðila. Ákvæðið er einkum tilkomið vegna skólahalds í dreifbýli.

Já, um sjálfstætt rekna grunnskóla gilda sömu lög og reglur og um grunnskóla eftir því sem við á. Þar á meðal skal af hálfu viðkomandi skóla fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga við töku ákvarðana sem kæranlegar eru. Það á þó ekki við um ákvarðanir um gjaldtöku. Ráðuneytið hefur sett reglugerð um viðurkenningu á slíkum skólum.

Í 4. gr. reglna um skólaakstur í grunnskólum nr. 656/2009 segir m.a.: „Heimilt er að nýta almenningssamgöngur til skólaaksturs þar sem það á við.” Skýrt er samkv. ofangreindum reglum að sveitarfélögum er heimilt að nýta almenningsvagnakerfi til skólaaksturs, að því gefnu að öll önnur skilyrði sem sett eru skv. reglunum séu uppfyllt. Þá er sérstaklega átt við 2. grein reglnanna um ábyrgð og öryggi barna sem nýta sér skólaakstur sveitafélaga.

Það er túlkun ráðuneytisins að ekki sé heimilt skv. lögunum að sleppa árlegum fundi skólaráðs með stjórn nemendafélagsins.

Skólaráð kemur m.a. í stað kennara- og foreldraráðs. Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólanefnd getur með samþykki sveitarstjórnar falið skólaráðum einstakra skóla ákveðin verkefni þessu til viðbótar. Skólaráð skal skipað 9 einstaklingum: skólastjóri sem stjórnar starfinu, tveir fulltrúar kennara ásamt einum fulltrúa annars starfsfólks í viðkomandi skóla, tveir fulltrúar foreldra, tveir fulltrúar nemenda og einn fulltrúi grenndarsamfélags.

Ekki er heimilt að veita grunnskólum undanþágu frá því að hafa starfandi skólaráð. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur hvatt fámenna skóla að halda úti skólaráði en bent á þann möguleika að sníða stakk eftir vexti.

Ekki er lengur lögbundið að við grunnskóla skuli vera aðstoðarskólastjóri en skólastjóri á að gera tillögur til sveitarstjórnar um fyrirkomulag stjórnunar í grunnskóla með tilliti til þarfa viðkomandi skóla. Skólastjóri ákveður verksvið annarra stjórnenda skólans og skal einn þeirra vera staðgengill skólastjóra. Með þessu er meiri sveigjanleiki innan skóla til að skipuleggja fyrirkomulag stjórnunar en ekki er gert ráð fyrir minna stjórnunarmagni.

Þrátt fyrir þá stefnumörkun sem felst í 1. mgr. 32. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, um rétt þeirra sem lokið hafa grunnskólanámi til að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs, voru ekki sett í lögin sambærilegt ákvæði og er um skyldu foreldra til að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt, sbr. 18. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008. Við mat á þörf fyrir sambærilegar reglur í framhaldsskóla og í grunnskóla verður að líta til þess að ekki er um að ræða skólaskyldu í framhaldsskóla og að hingað til hefur ekki verið talin sama þörf fyrir miðlun upplýsinga frá grunnskóla til framhaldsskóla annars vegar og frá leikskóla til grunnskóla hins vegar. Þá verður einnig að líta til þess að starfssvið framhaldsskólans er landið allt. Dvöl barns í leikskóla og síðar skólasókn þess í grunnskóla er oftar en ekki bundin við sama sveitarfélagið.

Af ákvæðum laga um grunnskóla og framhaldsskóla leiðir að grunnskólum er almennt ekki heimilt að miðla persónuupplýsingum um nemendur til framhaldsskóla án samþykkis foreldra þegar um er að ræða ólögráða nemendur. Af ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 leiðir að miðlun persónuupplýsinga milli skólastiga, sem teljast nauðsynlegar fyrir skólastarf og velferð nemenda í framhaldsskóla, er ekki heimil án samþykkis foreldra nemenda sem eru yngri en 18 ára.

Ráðuneytið telur gagnlegt fyrir nemendur og skólakerfið í heild sinni að persónuupplýsingar, sem taldar eru nýtast skólagöngu væntanlegs framhaldsskólanemenda, berist milli viðkomandi skólastiga. Í þeim efnum verður að líta svo á að ábyrgð á því hvort og hvaða persónuupplýsingar fari til framhaldsskóla er á hendi einstaklingsins og foreldra frekar en skóla. Í þeim efnum er unnt að horfa til innritunarkerfis framhaldsskóla þar sem foreldrum og nemendum undir 18 ára aldri og nemendum yfir 18 ára aldri verði gefinn kostur á að koma slíkum upplýsingum á framfæri við framhaldsskóla.

Ráðuneytið hefur sett reglugerð nr. 897/2009 um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín.

Velferð í skólum

Engin ákvæði eru í grunnskólalögum, reglugerðum sem sett eru við lögin eða aðalnámskrá grunnskóla um að nemendum sé skylt að fara í sturtu að loknum íþróttatíma. Ráðuneytið telur æskilegt að nemendur fari í sturtu að afloknum íþróttatímum af hreinlætisástæðum og eðlilegt er að skólar hvetji nemendur til að fara í sturtu að loknum íþróttatímum en telur að skólar hafi ekki lagastoð til að setja sturtuskyldu á nemendur. Eðlilegt er að setja skýr ákvæði um hreinlæti á sundstöðum og telur ráðuneytið að öðru máli gegni um sturtureglur í tengslum við sundkennslu, þannig að skólar geti krafist þess að nemendur fari í sturtu áður en þeir fara í sund, þ.e. í samræmi við reglur sundstaðarins. Skólar geti hins vegar ekki gert sömu kröfur um íþróttir að öðru leyti, hvort sem þær fara fram í íþróttasölum eða utanhúss. Það getur t.d. staðið þannig á hjá unglingsstúlkum að þær geti ekki farið í sturtu eftir íþróttatíma en geti samt tekið þátt í tímanum á eigin forsendum. Einnig geta verið aðrar ástæður fyrir því að nemendur vilji ekki fara í sturtu, t.d. menningarlegar eða trúarlegar, og skólum ber að virða slíkt. Það er álit ráðuneytisins að skólar geti ekki skyldað nemendur í sturtu að loknum almennum íþróttatíma og alls ekki refsað nemendum sem ekki fara í sturtu með þeim hætti að meina þeim að sækja næsta íþróttatíma. Ráðuneytið vekur athygli á því að íþróttir eru hluti af skyldunámi nemenda og ekki er hægt að reka nemendur úr íþróttatímum af framangreindum ástæðum.

Útfærsla á nestismálum er alfarið í höndum einstakra skóla. Hins vegar geta skólar innan sama sveitarfélags komið sér saman um samræmingu í þeim efnum, kjósi þeir svo, en ráðuneytið mun ekki aðhafast í málum af þessu tagi. Bent er á að samkvæmt 23. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 skulu nemendur grunnskóla eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Því er það greinilega vilji löggjafans að skólar skuli styðjast við opinber manneldismarkmið en lagaákvæðið nær ekki til nestismála.

Í 23. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 eru ákvæði um skólamálsverði. Þar segir að í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið og er sveitarfélögum heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir skv. sérstakri gjaldskrá sem þau setja. Í 20. gr. grunnskólalaga eru ákvæði um skólamannvirki og hefur ráðuneytið sett reglugerð nr. 657/2009 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða. Í þeirri reglugerð eru nánar útfærð ákvæði um lágmarksaðstöðu í grunnskólum. Þar er m.a. kveðið á um rétt nemenda fyrir aðstöðu til að neyta málsverða og til viðveru utan kennslustunda. Réttur nemenda um aðstöðu til að nærast í grunnskólum er því ótvíræður.

Lög um  grunnskóla, nr. 91/2008, leggja ekki lagalega skyldu á sveitarfélög til að kaupa slysatryggingar fyrir börn á skólatíma. Þrátt fyrir að slík skylda hvíli ekki á sveitarfélögum er þó þekkt að sum sveitarfélög hafi kosið að kaupa slíka tryggingu fyrir börn í grunnskólum sínum eða taki á sig þann kostnað sem hlýst af slysum á skólatíma.

Þróun og nýbreytni í skólum

Sprotasjóður skóla styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá. Til sjóðsins renna fjármunir sem veittir eru á fjárlögum hverju sinni. Sjóðurinn verður sameiginlegur fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Spurt og svarað um framhaldsskóla

Það er talið rétt að í íslenskum framhaldsskóla sé kennt á íslensku. Það er meginreglan sem frumvarpið mælir fyrir um og hún miðar að því að treysta stöðu íslenskrar tungu í skólakerfinu og í íslensku samfélagi almennt. Heimilt er að kennsla fari fram á öðru tungumáli ef það leiðir af eðli náms, t.d. gæti tungumálakennsla farið fram á viðkomandi tungumáli, og einnig ef um er að ræða námsbrautir sem ætlaðar eru erlendum nemendum. Dæmi um þetta eru erlenda námsbrautin sem kennd hefur verið við Menntaskólann við Hamrahlíð - svokallað IB nám, sem byggir á námskrá sem notuð eru í skólum víðsvegar í heiminum. Í öðrum tilvikum gæti verið tilskilið að kennsla fari fram á öðru tungumáli en íslensku, svo sem í flugnámi.

Skólaráð er sameiginlegur vettvangur skólastjórnenda, kennara og nemenda og fjallar um dagleg mál, viðburði og reglur skólans. Skólaráð er gróin stofnun í öllum skólum og er skipuð með ólíkum hætti eftir skólum því skólarnir og skipulag þeirra er misjafnt.

Gjaldtökuheimildum skal stillt í hóf. Einungis er heimilt að innheimta innritunar- og efnisgjöld. Skólum er ekki heimilt að krefjast gjalda fyrir þjónustu sem telst hluti námskrárbundinnar kennslu.

Já. Þeir þurfa að sækja um viðurkenningu til menntamálaráðuneytisins og þurfa að uppfylla sömu skilyrði og opinberir skólar.

Í lögum um framhaldsskóla, 32. gr., segir að skólinn beri ábyrgð á innritun nemenda en jafnframt segir í sömu grein að í samningi ráðuneytis og skóla, 44. gr., skuli kveða á um skyldur einstakra framhaldsskóla við innritun nemenda og þær forsendur sem skóli leggur til grundvallar innritun nemenda. Ráðherra getur auk þess sett sérstök fyrirmæli um innritun í reglugerð. Þetta þýðir að einstaka skólar geti ekki einhliða sett skilyrði fyrir innritun nemenda og að skilyrðin séu háð samkomulagi við ráðuneytið.

Í lögunum er lögð áhersla á að nemendur njóti fræðsluskyldu til 18 ára aldurs og að framhaldsskólar bjóði upp á menntun sem henti nemendum með ólíkar þarfir. Nemendur geta framhaldsskólaprófi að loknu 90-120 eininga námi sem sniðið er að einstaklingsbundnum þörfum þeirra samkvæmt námskrá sem ráðherra hefur staðfest.

Í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla er námskröfum í námsgreinum og á námsbrautum lýst. Lýsingar miðast við hæfniramma sem lýsir stigvaxnandi kröfum um þekkingu, leikni og hæfni nemenda. Víða í Evrópu er unnið eftir svona kerfi og ber það skammstöfunina EQF (European Qualification Framework) en vísað er til íslenska rammans með skammstöfuninni ISQF (Icelandic Qualification Framework).  Með kerfinu er unnt að flokka nám á framhaldsskólastigi og auðvelda samanburð og mat á námi milli ólíkra námsbrauta, skóla og landa. Hér má nálgast hæfniramma um íslenska menntun.

Hér er átt við nám sem skipulagt er í framhaldi af skilgreindum námslokum í framhaldsskóla. Það getur t.d. verið viðbótarnám við starfsréttindanám, iðnmeistaranám og nám að loknu stúdentsprófi til aukinna réttinda eða til sérhæfðra starfa.

Hér er um að ræða nám sem skólar skipuleggja en veita ekki ákveðin starfsréttindi. Hér er um að ræða nám til undirbúnings starfa þar sem ekki er krafist lögverndaðra réttinda og listnám af ýmsum toga.

Í eldri námskrá er kjarninn til stúdentsprófs skilgreindur sem 90 einingar af 140. Samkvæmt aðalnámskrá 2011 eru 45 framhaldsskólaeiningar í kjarna sem skiptast á ensku, íslensku og stærðfræði. Með þessu er skólum veitt aukið frelsi til að sérhæfa sig og bjóða upp á námsleiðir sem endurspegla sérstöðu þeirra og styrk. Við staðfestingu námsbrautalýsinga er horft til þess að þær mæti þeim kröfum sem gerðar eru hér á landi og í nágrannaríkjum um undirbúning fyrir háskólanám.

Skólafundur er fundur allra starfsmanna skólans og fulltrúa nemenda eftir nánari ákvörðun skólameistara. Tilgangurinn er að þeir séu upplýstir um verkefni skólans og gefist kostur á að hafa áhrif á starfsemi hans. Þannig vinni allir sem ein heild. Á kennarafundum er fjallað sérstaklega um fagleg málefni skólans, s.s. skólanámskrá, kennsluhætti, námsmat, sérstöðu og framtíðarsýn.

Miðað er við að nemendur ljúki stúdentsprófi á 3 árum. Stúdentspróf miðar að því að undirbúa nemendur fyrir háskólanám og á því að uppfylla kröfur háskóla. Samsetning námsins og lengd þess tekur því mið af ólíkum kröfum háskóla eða einstakra deilda þeirra.

Í aðalnámskrá eru ekki gerðar minni kröfur til stúdentsprófs en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. 

Lögð er áhersla á að nemendur sem tala annað móðurmál en íslensku eigi rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Sama gildir um nemendur sem dvalist hafa langdvölum erlendis og hafa litla kunnáttu í íslensku. Miða skal við að nemendur sem eru ekki með íslensku sem móðurmál fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu sem valgrein, í fjarnámi eða með öðrum hætti.

Á framhaldsskólastigi skal veita nemendum með fötlun, sbr. lög um málefni fatlaðs fólks, nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika og/eða eru langveikir, kennslu og sérstakan stuðning í námi. Veitt skal sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur. Nemendur með fötlun skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er. Nánar er kveðið á um þessi mál í reglugerð um nemendur með sérþarfir.

Einingin mælir vinnuframlag nemanda, ekki einungis tímafjölda í kennslustund, og er miðað við að ein eining sé ígildi um það bil þriggja daga vinnu eða 18-24 klukkutíma vinnu. Miðað við skólaárið, sem er 180 dagar, fást 60 einingar út úr árinu, eða 30 á önn, ef öll skilyrði náms eru uppfyllt, próf staðin o.s.frv. gerður greinarmunur á prófdögum og kennsludögum.

Framhaldsskólar eiga að meta allt fyrra nám sem fellur að námsbrautarlýsingu þeirrar brautar sem nemandinn innritast á. 

Skólanefnd er skipuð fimm fastafulltrúum þar sem þrír eru skipaðir af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og tveir af sveitarfélaginu. Venjan hefur verið að leita til fulltrúa sem búa í grennd við viðkomandi skóla eða í sama sveitarfélagi. Hugsunin er sú að skólanefnd sé eins konar tengiliður sveitarfélagsins og ríkisins við skólann. Að auki eiga skv. núverandi frumvarpi starfsmenn, nemendur og foreldrar áheyrnarfulltrúa. Reynslan hefur sýnt að þessir fulltrúar taka fullan þátt í störfum, skoðanaskiptum og stefnumótun innan nefndarinnar, nema þegar um formlega afgreiðslu er að ræða. Rökin fyrir því að kennarar eigia ekki fastafulltrúa eru þau að ekki þykir við hæfi að starfsmaður sé settur í nefnd sem er sett yfir yfirmann stofnunarinnar.

Fulltrúar starfsgreinaráða eru skipaðir af ráðherra en flestir tilnefndir af hagsmunaaðilum í atvinnulífinu. Starfsgreinaráð gegna lykilhlutverki við mótun starfsnáms og eiga m.a. að veita ráðgjöf og leiðsögn um uppbyggingu námsbrauta og meta hæfi vinnustaða til að annast starfsþjálfun.

Nei. Skólum er skylt að varðveita upplýsingar um námsferil og skila þeim í gagnagrunn til menntamálaráðuneytis, sem mun afla sér heimilda til að vinna með þær, en þó ekki á persónugreinanlegan hátt. Trúnaður gildir um slíkar upplýsingar og skólunum er ekki heimilt að láta þær af hendi nema til foreldra þeirra sem eru ekki orðnir 18 ára gamlir eða forráðamanna þeirra, án umboðs viðkomandi nemanda.

Ábyrgð og skyldur

Telja verður að sveitarstjórn geti gert athugasemdir við að skólanefnd hafi staðfest starfsáætlun skóla ef rökstudd ástæða er til þess að ætla að eitthvað í áætluninni sé ekki í samræmi við ákvarðanir sem sveitarstjórn hefur tekið um fyrirkomulag skólahalds. Framgangurinn er þá væntanlega sá að sveitarstjórn fari fram á það að skólanefnd taki málið fyrir að nýju.

Já, ef forsendur starfsáætlunar hafa breyst er málefnalegt tilefni til þess að endurskoða hana, þ.m.t. ef fjárhagsrammi starfseminnar breytist. Einnig þarf að gæta tiltekinna formsatriða eins og þeirra að fjalla um málið í skólaráði sbr. greinargerð með frv. til 29. gr. laga um grunnskóla þar sem segir: „Bæði skólanámskráin og árlegar starfsáætlanir hvers skóla skulu ræddar í skólaráði eftir þörfum, samkvæmt ákvæðum í 8. gr. frumvarpsins.“ Hafa þarf þetta í huga ef vilji er til þess í sveitarstjórn að fela skólanefnd að endurskoða starfsáætlun á miðju skólaári.

Í reglugerðum um mat og eftirlit í leik- og grunnskólum (nr. 893/2009 og nr. 658/2009) kemur fram að skólanefnd skuli sjá til þess að áætlanir um nauðsynlegar umbætur í kjölfar ytra mats séu gerðar og þeim fylgt eftir. Fyrir skólanefndina þýðir þetta ákvæði að hún þarf að fylgja því eftir að skólinn geri áætlun í kjölfar ytra mats/úttektar þar sem fram kemur hvernig hann ætlar að vinna að umbótum. Ennfremur á hún að sjá til þess að fylgst sé með því, t.d. ári síðar, að áætlunin hafi gengið eftir – það getur verið skólanefndin sjálf sem fylgir umbótaáætlun skóla eftir, eða starfsmaður á hennar vegum.

Skólanefnd ber ábyrgð á að farið sé eftir settum lögum og reglugerðum um öryggi og aðbúnað barna, bæði í leikskólum og grunnskólum, og ber að tryggja að farið sé eftir settum reglum. Í þessu felst að skólanefnd þarf að afla sjónarmiða bæði frá skólastjóra og sveitarstjórn og taka afstöðu á grundvelli þeirra.

Gera verður ráð fyrir að í samþykktum sveitarfélaga og/eða erindisbréfum viðkomandi skólanefnda sé kveðið á um með hvaða hætti mál séu tekin á dagskrá með formlegum hætti. Almennt séð getur skólanefndarfulltrúi fengið mál tekin á dagskrá sem varða velferð og hagsmuni barna og ungmenna skv. lögum um leik- og grunnskóla. Skólanefndarfulltrúi (hvort sem hann er kjörinn af sveitarstjórn eða áheyrnarfulltrúi) getur þannig óskað eftir því að ræða tiltekið mál sem stutt er málefnalegum rökum og gögnum og hefur ekki fengið umfjöllun áður eða ný gögn komin fram í því. Meirihluti nefndar getur hafnað því að taka mál á dagskrá m.a. ef engin ný gögn eða sjónarmið hafa komið fram sem gefa tilefni til nýrrar umræðu. Það ætti hins vegar heyra til undatekninga hafi mál ekki verið rætt áður.

Ef ábending kemur um að skóli fari ekki að lögum og sinni ekki lögbundnum skyldum sínum þá á skólanefndin samkvæmt reglugerðum um mat og eftirlit í leik- og grunnskólum (nr. 893/2009 og 658/2009) að ganga úr skugga um hvort ábendingin eigi við rök að styðjast og sjá til þess að viðeigandi úrbætur séu gerðar ef þess er þörf.

Áheyrnarfulltrúar

Áheyrnarfulltrúar eiga rétt til setu á fundum skólanefndar þegar málefni þess skólastigs er til umfjöllunar og einnig þegar almennt er fjallað um skólamál í sveitarfélaginu. Reyndar er ekki lögbundið að sérstakir áheyrnarfulltrúar frá tónlistarskólum sitji fundi skólanefndar en víða tíðkast að skólastjórar tónlistarskóla séu kallaðir til þegar málefni tónlistarskóla er til umfjöllunar. Mögulegt er að skipta skólanefndarfundum eftir skólastigum og enda síðan eða byrja á almennum málum þar sem allir áheyrnarfulltrúar eru boðaðir. Eins er mögulegt að skipa málum með þeim hætti að áheyrnarfulltrúum sé boðið að taka þátt í umræðum um öll mál óháð skólastigi, m.a. til að fá fram heildstæða umræðu um skólamál.

Já, að því gefnu að um sé að ræða gögn er snerta það skólastig sem þeir eru fulltrúar fyrir.

Já, þeir hafa tillögurétt eins og þeir fulltrúar sem kjörnir eru af sveitarstjórn en þeir hafa ekki atkvæðisrétt.

Mennta- og menningarmálaáðuneytið svaraði sambærilegri fyrirspurn með því að vísa í áður útgefið álit af hálfu samgönguráðuneytis (nú innanríkisráðuneyti) frá árinu 2004. Þar kom fram sú skýra meginregla samkvæmt sveitarstjórnarlögum að starfsemi lögbundinna nefnda sveitarfélagsins á að fara fram á formlegum fundum. Hvorki í sveitarstjórnarlögum né í samþykkt viðkomandi sveitarfélags sem fyrirspurnin varðaði væri að finna ákvæði um heimild nefndar til að halda vinnufundi eða skipa starfshóp úr hópi nefndarmanna.

Telji formaður skólanefndar að nauðsynlegt sé að vinna óformlega að undirbúningi mála milli funda verður að vera hafið yfir allan vafa að með því sé ekki verið að sniðganga skólanefnd eða forðast að áheyrnarfulltrúar fylgist með umræðu. Hluti skólanefndar getur ekki haldið vinnufundi án áheyrnarfulltrúa til að vinna að tilteknu málefni sem fellur undir verksvið nefndarinnar þannig að slíkur fundur teljist fullgildur skólanefndarfundur. Ráðuneytiðð benti á hinn bóginn á að skólanefnd getur falið nefndarmönnum afmarkað verkefni milli funda sem síðan verði lagt fyrir formlegan fund.

Fulltrúar sem ekki eru kjörnir til setu í skólanefnd af sveitarstjórn heldur valdir af foreldrum, kennurum og skólastjóra sem rödd viðkomandi hagsmunahóps með málfrelsi og tillögurétt eru áheyrnarfulltrúar. Þeir geta lagt fram tillögurog tekið þátt í umræðum um mál en ekki greitt atkvæði um þau.

Ef samrekinn leik- og grunnskóli er eini skólinn í sveitarfélaginu þá á skólastjóri skólans, kennari og foreldri rétt til setu í skólanefnd sveitarfélagsins samkvæmt leik- og grunnskólalögum. Til greina kemur að fulltrúar foreldra og kennara verði fleiri en einn og komi af báðum skólastigum eða skólastig sameinist um einn fulltrúa foreldra og einn fulltrúa kennara. Ákvörðun um slíkt er tekin innan skólasamfélagsins.

Í sveitarfélögum þar sem reknir eru margir grunnskólar er æskilegt að áheyrnarfulltrúar foreldra séu tilnefndir af samtökum foreldra í sveitarfélaginu sem mynda samráðsvettvang foreldrafélaga allra skóla. Í Reykjavík eru t.d. starfandi samtök foreldra, SAMFOK, sem velja áheyrnarfulltrúa foreldra og í Hafnarfirði er foreldraráð Hafnarfjarðar. Þar sem ekki eru starfandi slík samtök foreldra í sveitarfélaginu þurfa foreldrar við grunnskóla sveitarfélagsins að finna lýðræðislega leið til að velja áheyrnarfulltrúa foreldra.

Áheyrnarfulltrúar geta tekið þátt í umræðum um öll mál sem tekin eru til umfjöllunar í skólanefnd, nema þegar þeir eru taldir vanhæfir í lagalegum skilningi.

Hæfi og kjörgengi

Börn skólastjóra eru kjörgeng til setu í skólanefnd nema þau starfi við skóla sveitarfélagsins. Hins vegar þurfa þau að gæta vel að reglum um sérstakt hæfi skv. stjórnsýslulögum og sveitarstjórnarlögum þegar málefni sem snerta foreldri þeirra eru til umfjöllunar.

Forðast ætti að upp komi sú staða að kennari sé jafnframt tilnefndur sem fulltrúi foreldra.

Nei, hann getur ekki verið kjörinn ftr. Í skólanefnd. Hins vegar er þröng heimild til frávika í 4. Mgr. 40. Gr. Svstjl. Þar sem segir:„...starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá. Sveitarstjórn getur ákveðið að víkja frá þessu ákvæði ef málefni vinnuveitanda eru óverulegur þáttur í starfi viðkomandi nefndar og starf viðkomandi einstaklings er ekki þess eðlis að hætta sé á hagsmunaárekstrum þrátt fyrir nefndarsetu.“ Helst kemur til álita að beita fráviksheimildinni gagnvart störfum sem ekki eru í beinum tengslum við almennt skólastarf.

Það er ekkert sem mælir gegn því svo fremi sem hann heyrir ekki undir boðvald skólastjóra.

Hér er um tvö aðgreind en skyld atriði að ræða. Fjallað er um hvort tveggja í sveitarstjórnarlögum, annars vegar um vanhæfisástæður (19. gr.) og hins vegar um kjörgengi (40. gr.)

Kjörgengi varðar almennt þá kosti sem talið er nauðsynlegt að þeir búi yfir sem eru fulltrúar sveitarstjórnar í nefndum á hennar vegum. Þannig eru þeir einir kjörgengir í skólanefnd sem eiga kosningarétt í sveitarfélaginu eins og segir í 3. mgr. 40. gr. Með þessum hætti hefur löggjafinn lagt áherslu á að tiltekin tengsl við samfélagið séu eftirsóknarverð. Af lagareglunni leiðir að missi skólanefndarmaður (fulltrúi sveitarstjórnar) þessi tengsl, þ.e. uppfyllir ekki lengur kjörgengisskilyrði um kosningarétt einkum vegna búferlaflutninga, þá missir viðkomandi jafnframt sæti sitt í nefndinni. Ekki leiða hins vegar allir búferlaflutningar til breytingar á kjörgengisskilyrðum og í vissum tilvikum (m.a. ef nám er stundað í öðru sveitarfélagi) getur viðkomandi fulltrúi óskað eftir að fá tímabundið leyfi frá störfum í skólanefnd samkvæmt 4. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga.

Löggjafinn hefur einnig ákveðið að starfsmenn stofnunar á vegum sveitarfélags séu ekki kjörgengir í nefnd sem fer með málefni hennar. Hér eru tengslin mörkuð með öðrum hætti, þ.e. þannig að almennt beri að forðast hagsmunaárekstra sem í því felast að starfsmaður sé að taka þátt í ákvörðun sem varðar starf hans og vinnuaðstæður. Má orða þetta þannig að þegar fyrirsjáanlegt er að nefndarmaður muni oft hafa einstaklingsbundna hagsmuni af úrlausn mála vegna starfa sinna, sé æskilegra að sveitarstjórn feli sætið öðrum einstaklingi sem ekki myndi í sama mæli þurfa að lýsa sig vanhæfan við meðferð mjög margra mála á starfssviði nefndarinnar.

Taki kjörinn fulltrúi við starfi við skóla sem skólanefnd fjallar um, getur það haft áhrif á kjörgengi hans með sama hætti og búferlaflutningar. Þar þarf þó að meta hvers eðlis starfið er en í 4. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga kemur fram að sveitarstjórn geti ákveðið að ráðning í starf valdi ekki missi kjörgengis ef málefni vinnuveitanda eru óverulegur þáttur í starfi viðkomandi nefndar og starf viðkomandi einstaklings er ekki þess eðlis að hætta sé á hagsmunaárekstrum þrátt fyrir nefndarsetu.

Hafa ber í huga að þessi kjörgengisskilyrði um kosningarétt og starf á vegum stofnunar eiga einungis við um þá sem sveitarstjórn kýs sem sína fulltrúa í skólanefnd. Öðru máli gegnir um aðra sem sitja í skólanefnd, t.d. getur unglingur verði fulltrúi skólasamfélags í skólanefnd, enda þótt hann sé ekki kominn með kosningarétt.

Á sama hátt sitja fulltrúar skólasamfélagsins í skólanefnd vegna tengsla sinna við skólann og hefur löggjafinn þar tekið afstöðu til þess að þau tengsl vegi þyngra en möguleiki á hagsmunaárekstrum. Það merkir hins vegar ekki að hagsmunaárekstrar vegna þessara tengsla hafi ekki áhrif. Í því efni reynir á áðurnefndar vanhæfisástæður, en lagareglur þar að lútandi gilda bæði um kjörna fulltrúa sveitarstjórnar í skólanefnd og aðra þá sem sitja fundi skólanefndar sem áheyrnarfulltrúar eða starfsmenn. Kennari við grunnskóla myndi t.d. vera vanhæfur og þurfa að víkja af fundi skólanefndar við umfjöllun um skipulagsbreytingar sem haft gætu áhrif á starf hans.

Ólíkt kjörgengisskilyrðum eiga vanhæfisástæður við um meðferð einstakra mála. Vanhæfisástæða kemur fyrir þar sem málsatvik eða -tengsl varða skólanefndarmann eða annan þann sem situr fundi nefndarinnar svo mikið að almennt má ætla að viljaafstaða hans til niðurstöðu málsins mótist að einhverju leyti þar af. Sé vanhæfisástæða til staðar hefur hún þau áhrif að skylda viðkomandi skólanefndarmann, eða annan þann sem situr fundi nefndarinnar, til að víkja sæti við allan undirbúning, meðferð og afgreiðslu umrædds máls.

Það er hlutverk skólanefndarinnar sjálfrar að skera úr um hvort vanhæfisástæða er til staðar. Nefndin tekur afstöðu til málsins hvort sem það er hlutaðeigandi nefndarmaður eða einhver annar sem vekur athygli á því að vanhæfisástæða sé hugsanlega fyrir hendi. Áríðandi er að afstaða sé tekin til hæfis fundarmanna áður en efnisleg umfjöllun hefst um mál.

Oftast mun liggja ljóst fyrir hvaða tengsl það eru milli nefndarmanns og máls sem valda meintu vanhæfi og má þar hafa í huga hina gamalgrónu reglu um að enginn geti verið dómari í eigin sök. Ágreiningur um stjórnunarhætti innan skóla eru dæmi um mál þar sem stjórnendur myndu yfirleitt víkja sæti vegna tengsla. Í einhverjum tilvikum getur þó þurft að afla nánari upplýsinga um tengslin og er þá rétt að fresta fundi meðan það er gert. Séu tengslin óljós eða mjög langsótt getur komið til álita að nefndin fallist ekki á að vanhæfisástæða sé til staðar. Nefndarmaður á heldur ekki að geta komist hjá því að taka þátt í umfjöllun um óþægilegt mál með því einu að bera við vanhæfi.

Eftir að vakin hefur verið athygli á mögulegri vanhæfisástæðu á skólanefnd að skera umræðulaust úr um það hvort málið sé þannig vaxið að einhver fundarmanna sé vanhæfur. Skólanefndarmaður sem er vanhæfur má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt, en ef afstaða nefndarinnar liggur ljós fyrir er einnig unnt að afgreiða málið án atkvæðagreiðslu. Sé niðurstaðan að vanhæfisástæða sé til staðar á viðkomandi fundarmaður þegar að yfirgefa það rými þar sem fundur fer fram og snúa fyrst aftur þegar allri umfjöllun um málið hefur verið lokið.

Afgreiðslu nefndarinnar, hvort sem hún fæst með atkvæðagreiðslu eða ekki, á alltaf að færa í fundargerð. Slík bókun myndi yfirleitt vera mjög stutt því gengið er út frá því að engin eiginleg umræða fari fram um meint vanhæfi. Nefndarmanni er þó heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni til máls sem hann er vanhæfur í og er rétt að færa inntak hennar til bókar. Nefndarmaðurinn má hins vegar ekki leggja fram neins konar tillögu um afgreiðslu málsins.

Já, þeir eru kjörgengir með vísun til 4. mgr. 40 gr. Sveitarstjórnarlaga svo framarlega sem ekki er um samrekstur þeirra skólastiga að ræða.

Misbrestur á skólasókn

Það er þáttur í meginhlutverki skólanefndar, skv. a-lið 2. mgr. 6. gr. grunnskólalaga, að sjá til þess að öll skólaskyld börn sem rétt eiga á skólavist í sveitarfélaginu njóti lögboðinnar fræðslu. Það leiðir af þessu ákvæði, og öðrum sem fjalla um hlutverk skólanefndar, að stjórnendur mega veita skólanefnd upplýsingar um það ef barn hættir að sækja skóla án þess að sú skylda hvíli á þeim skv. lögum. Hvorki trúnaðarskylda í starfi né ákvæði laga um meðferð persónuupplýsinga koma í veg fyrir að þessar upplýsingar séu veittar.

Samkvæmt grunnskólalögum er ekki gert ráð fyrir aðkomu skólanefnda þegar um misbrest á skólasókn nemanda er að ræða, skv. 19. gr. grunnskólalaga. Skólastjóri á að leita lausna á málinu, taka ákvörðun um úrbætur og tilkynna jafnframt barnaverndarnefnd um málið. Eðlilegt er að skólastjóri upplýsi skólanefnd um mál af þessu tagi. Gæta þarf ákvæða stjórnsýslulaga við afgr. mála af þessari gerð.

Ýmislegt

Sveitarstjórn getur ákveðið að skólaráð, sbr. 8. gr. grunnskólalaga, og foreldraráð, sbr. 11. gr. laga um leikskóla, starfi sameiginlega í einu ráði. Þá er gert ráð fyrir að annar fulltrúi foreldra í skólaráði eigi barn á leikskólaaldri og hinn á grunnskólaaldri (nema hvort tveggja sé ;-).

Þetta skjal á ekki við um starfshætti leikskólans þó svo það endurspegil ákveðnar megienrelgur í starfsháttum beggja skólastiga. Ekki hefur þótt tilefni til þess að útbúa sambærilegt skjal fyrir leikskólann þar sem „erfið ágreiningsmál“ heyra til undantekninga í starfi hans. Ef til kæmi væri mögulegt að setja saman nýtt skjal þar sem skoðuð eru raunveruleg tilvik sem upp hafa komið og draga ályktanir af þeim.

Skólaliðum ber að fara eftir ákvæðum grunnskólalaga um þagnarskyldu, trúnað og vernd persónuupplýsinga eins og annað starfsfólk grunnskóla. Taka má undir gagnsemi þess að halda sérstök námskeið fyrir skólaliða í upphafi starfs um starfsskyldur, ábyrgð, hegðun og samskipti við nemendur o.fl. Engin slík ákvæði eru til um sérstök námskeið en sömu reglur gilda um ráðningarbann og gagnvart öðru starfsfólki grunnskóla.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira