Hoppa yfir valmynd

Árangursstjórnun

Árangursstjórnun er samsafn nokkurra stjórnunaraðferða sem styðja hver aðra og stuðla að betri árangri í rekstri. Aðferðin byggir á ákveðinni heildarhugsun, sem felst í því að stjórnendur hugi að samhengi og gæti samræmis, auk þess sem lögð er áhersla á fagleg vinnubrögð.

Árangursstjórnun er byggð upp af þremur meginþáttum:

  • Skýrri stefnu og markmiðum 
  • Kerfisbundnum mælingum á starfsemi
  • Eftirfylgni með þeirri stefnu og áætlunum sem gerðar hafa verið

Sjá nánar í handbók um árangursstjórnun í ríkisrekstri

Í lögum um opinber fjármál sem tóku gildi í upphafi ársins 2016 er lögð rík áhersla á markmiðasetningu og árangursmælingar:

  • Stjórnvöldum ber að móta skýra stefnu fyrir öll málefnasvið og málaflokka til eigi skemmri tíma en fimm ára (20. gr.)
  • Stofnanir skulu móta stefnu fyrir starfsemi sína til a.m.k. þriggja ára og gera grein fyrir þeim mælikvörðum og viðmiðum sem lögð eru til grundvallar árangursmats (31. gr.)
  • Stefnumótun stofnana skal staðfest að hlutaðeigandi ráðherra sem gætir þess að markmið og áherslur stofnunar séu í samræmi við markmið málefnasviðs (31. gr.)
  • Hver ráðherra skal í ársskýrslu gera grein fyrir niðurstöðu útgjalda innan málefnasviða og málaflokka sem hann ber ábyrgð á og meta ávinning af fjárveitingum til einstakra stofnana og verkefna með tilliti til settra markmiða og aðgerða (62. gr.)

Með þessu er árangursstjórnun styrkt í sessi og stefnumótun, árangursmælingum og eftirfylgni með stefnu gefið aukið vægi í fjárlagaferlinu og við framkvæmd fjárlaga.

Árangursstjórnunarsamningar

Frá því fyrstu skref í átt að árangursstjórnun í ríkisrekstri voru tekin árið 1996 hefur verið byggt á árangurs-stjórnunarsamningum milli ráðuneyta og stofnana þeirra. Samningarnir eru fyrst og fremst rammi utan um samskipti ráðuneytis og stofnunar og eiga að:

  • Vera samstarfs- og samskiptagrundvöllur ráðuneyta og stofnana
  • Fjalla um gagnkvæmar skyldur og ábyrgð,
  • Lýsa hlutverki stofnunar, helstu verkefnum, meginmarkmiðum og áherslum samningsaðila
  • Endurspegla forgangsröðun og sameiginlegar áherslur er varða helstu verkefni stofnunar. 

Árangursstjórnunarsamningur er þannig yfirlýsing stofnunar og ráðuneytis um að vinna í sameiningu miðað við núverandi forsendur að þeim áherslum sem þar koma fram og á grundvelli forgangsröðunar sem gefur svigrúm til aðlögunar að fjárveitingum hverju sinni. Lykilatriði er að samskipti stofnana og ráðuneyta á grundvelli árangursstjórnunarsamnings snúist um aðalatriði, framþróun og áherslumál en ekki daglegan rekstur stofnana.

Úttektir á stöðu árangursstjórnunar

Töluverður munur hefur verið milli ráðuneyta og innan þeirra á virkni árangursstjórnunarsamninga sem stjórntæki. Gerðar hafa verið nokkrar úttektar á stöðu árangursstjórnunar í ríkisrekstri.

Síðast uppfært: 5.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum