Stofnanir ríkisins
Starfsemi ríkisins skiptist í þrjá hluta eftir eðli hennar, þ.e. í A-, B- og C-hluta. Í lögum um opinber fjármál er að finna skilgreiningu á flokkun á starfsemi og verkefnum ríkisins.
A-hluti
Til A-hluta ríkissjóðs telst sú starfsemi sem að stærstum hluta er fjármögnuð af skatttekjum ríkissjóðs og skiptir þá ekki máli hvort ráðstöfun þeirra er bundin ákveðnum verkefnum. Flokkun í A-hluta starfsemi tekur bæði mið af verkefnunum og hvernig þau eru fjármögnuð. Hér undir fellur rekstur æðstu stjórnar ríkisins, ráðuneyta og ríkisstofnana auk verkefna af samfélagslegum toga og fjárframlög til ýmissa aðila í hagkerfinu. Ríkisaðilar í A-hluta geta þó haft eigin rekstrartekjur og lögbundnar þjónustutekjur fyrir veitta þjónustu til að standa undir kostnaði af henni. Þá geta þessir aðilar þegið innlend eða erlend fjárframlög til að fjármagna hluta af kostnaði sínum, t.d. rannsóknarstyrki. Almennt er miðað við að ef starfsemi er að stærstum hluta fjármögnuð með tekjum af frjálsum viðskiptum við aðila utan ríkisins skuli hún flokkuð utan A-hluta.
Ríkisstofnanir í A-hluta eru oftast nátengdar ráðuneytunum þótt þeim sé ætlað að starfa sjálfstætt. Um stjórnun þeirra, fjármál, starfsmannahald og rekstur gilda sérstök lög og reglur ásamt sérlögum um hverja stofnun eða stofnanahópa. Yfir hverri stofnun er forstöðumaður, skipaður af ráðherra, en hjá sumum er einnig stjórn sem fæst við stefnumótun og eftirlit með rekstrinum.
Undir A-hluta flokkast um 160 stofnanir ríkisins. Sem dæmi um stofnanir í A-hluta eru framhaldsskólar, háskólar, sjúkrahús, heilbrigðisstofnanir, sýslumanns- og lögreglustjóraembætti.
B-hluti
Til B-hluta teljast fyrirtæki og lánastofnanir sem eru undir beinni stjórn ríkisins og rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs. Þessir aðilar starfa á markaði og standa að stærstum hluta undir kostnaði við starfsemi sína með tekjum af sölu á vöru eða þjónustu til almennings og fyrirtækja. Dæmi um stofnanir í B-hluta eru ÁTVR, og Menntasjóður námsmanna.
C-hluti
Til C-hluta teljast sameignar- eða hlutafélög í meirihlutaeigu ríkisins sem rekin eru á eigin ábyrgð og heyra því ekki með beinum hætti undir ríkið. Dæmi um aðila í C-hluta eru Isavia, Landsnet, Rarik og Landsvirkjun. Auk þess telst Seðlabanki Íslands til C-hluta.
Skipulag og stjórnun ríkisstofnana
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.