Hoppa yfir valmynd

Fjarskipti

Stefna í fjarskiptamálum er mörkuð í fjarskiptaáætlun. Þar eru markmið stjórnvalda skilgreind og lagður grunnur að framþróun íslensks samfélags. Í fjarskiptaáætlun segir að stuðla skuli að aðgengilegum og greiðum, hagkvæmum og skilvirkum, öruggum og umhverfisvænum fjarskiptum.

Íslensk fjarskiptalöggjöf er að miklu leyti byggð á löggjöf Evrópusambandsins á sviði fjarskipta vegna skuldbindinga Íslands í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mælti fyrir frumvarpi til nýrra laga um fjarskipti á Alþingi 20. október 2020, en frumvarpið var endurflutt frá síðasta þingi. Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum um fjarskipti frá árinu 2003 og innleiðingu nýrra samevrópskra reglna, en gildandi lög þarfnast endurskoðunar vegna mikilla framfara í fjarskiptatækni og -þjónustu á síðustu árum. Lagt er til að ný fjarskiptalög taki gildi 1. janúar 2021. Markmið frumvarpsins er að tryggja sem best aðgengileg, hagkvæm, skilvirk og örugg fjarskipti hér á landi. Ennfremur að auka vernd og valmöguleika neytenda og stuðla að virkri samkeppni, hagkvæmum fjárfestingum og nýsköpun á fjarskiptamarkaði.

Póst- og fjarskiptastofnun

Umsjón með framkvæmd og eftirlit með lögum um fjarskipti er í höndum Póst- og fjarskiptastofnunar.

Unnið er að heildarendurskoðun á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Tilgangur frumvarps er að endurskoða starfsumhverfi Póst- og fjarskiptastofnunar, með tilliti til fyrirsjáanlegra og áorðinna breytinga á verkefnum stofnunarinnar. Ráðuneytið hefur birt áform um lagasetninguna og óskað eftir umsögnum frá haghöfum, sjá nánar hér í samráðgátt stjórnvalda.

Telji neytendur fjarskiptaþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta að fjarskiptafyrirtæki brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um fjarskipti eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í almennum heimildum, réttindum eða í rekstrarleyfi getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar um að hún láti málið til sín taka. Þá greiðir stofnunin jafnframt úr deilum á milli fyrirtækja á fjarskiptamarkaði.

Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar eru kæranlegar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Einnig geta aðilar borið ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar og úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála undir dómstóla.

Fjarskiptasjóður

Fjarskiptasjóður hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu fjarskipta á grundvelli fjarskiptaáætlunar, en sjóðurinn heyrir undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira