Hoppa yfir valmynd

Grænbók um fjarskiptamál

Grænbók um fjarskipti, þar sem metin er staða málaflokksins og lagður grundvöllur fyrir endurskoðaða stefnumótun í fjarskiptum til fimmtán ára, hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar um grænbókina en frestur til að skila umsögn er til og með 11. ágúst 2021.

Grænbók um fjarskipti er hluti af stefnumótunarferli fjarskiptaáætlunar. Viðfangsefni grænbókar er að hvetja til umræðu um stöðumat, viðfangsefni og framtíðarsýn á sviði fjarskipta, og á þeim grundvelli móta áherslur og valkosti. Stöðumatið er í framhaldi lagt til grundvallar stefnumótunar í málaflokknum. Vinna við gerð grænbókar um fjarskipti hófst í upphafi árs 2021. Í apríl 2021 voru haldnir samráðsfundir um land allt í samvinnu við landshlutasamtök.

Grænbókinni er ætlað að veita upplýsingar um núverandi stöðu fjarskiptamála. Stöðumat grænbókarinnar byggir m.a. stöðu verkefna núgildandi fjarskiptaáætlunar, samráðsfundum með landshlutasamtökum, sem og samráðsfundum með öðrum ráðuneytum og samstarfsaðilum. Loks eru drög grænbókar nú birt í samráðsgátt stjórnvalda og óskað eftir athugasemdum og sjónarmiðum.

Í fyrirhugaðri stefnu um fjarskipti er ætlunin að mæta umtalsverðri og fyrirsjáanlegri tækniþróun, breyttum kröfum samfélagsins og taka mið af samhæfingu stefna og áætlana sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins. Undir málaflokkinn fjarskipti falla viðfangsefni Fjarskiptastofu, úrskurðarnefndar fjarskiptamála, fjarskiptasjóðs, Þjóðskrár Íslands og yfirfasteignamatsnefndar eða með öðrum orðum fjarskipti og tiltekin málefni Þjóðskrár Íslands.

Stefna og áætlun á sviði netöryggismála verður áfram hluti stefnu og áætlunar í fjarskiptum. Undirbúningur og vinnsla netöryggisáætlunar hefur þó verið skilin frá undirbúningi fjarskiptaáætlunar, en verður felld inn í stefnu og áætlun um fjarskipti á síðari stigum með það fyrir augum að ráðherra mæli fyrir nýrri samhæfðri fjarskiptaáætlun á fyrri hluta árs 2022. Póstmál verða ekki til umfjöllunar í næstu fjarskiptaáætlun verða þ.a.l. ekki til umfjöllunar í nýrri grænbók um fjarskiptamál.

Grænbók er ætlað að meta stöðu á sviði fjarskipta og vera grundvöllur fyrir endurskoðaða stefnumótun í fjarskiptum til fimmtán ára (fjarskiptaáætlun). Grænbók er umræðuskjal og í henni eru upplýsingar um stöðu málaflokksins, tölfræði, samanburð við önnur lönd og umfjöllun um ólíkar leiðir eða áherslur til að mæta þeim áskorunum sem við blasa. Niðurstöður grænbókar liggja svo til grundvallar svonefndrar hvítbók þar sem mótuð stefna til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.

Opnir samráðsfundir

Í tengslum við grænbókarvinnu stóð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fyrir rafrænum samráðsfundum í flest öllum landshlutum um stöðu í fjarskiptamálum og valkosti til framtíðar. Á hverjum fundi var kastljósi beint að fjarskiptum í viðkomandi landshluta, helstu áskorunum og tækifærum. Fundirnir voru haldnir í samvinnu við landshlutasamtök. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá með erindum og umræðum í minni hópum. Fundirnir voru rafrænir (Teams). Tímasetning fundanna var eftirfarandi:

Dagsetning Landshluti Tími Skráning
12. apríl Austurland 13:00-14:30 Lokið
13. apríl Norðurland vestra 10:00-11:30 Lokið
13. apríl Norðurland eystra 13:00-14:30 Lokið
14. apríl Vesturland 10:00-11:30 Lokið
14. apríl Vestfirðir 13:00-14:30 Lokið
16. apríl Suðurland 10:00-11:30 Lokið
16. apríl Suðurnes 13:00-14:30 Lokið
Tilkynnt síðar Höfuðborgarsvæðið   Frestað

 

Staða aðgerða fjarskiptaáætlunar (31. des. 2020)

Nýlegt efni um framgang mála í fjarskiptaáætlun

Leiðarljós í stefnumótuninni

Ísland er í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengir byggðir og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið. Til grundvallar stefnumótunarvinnunni eru meginmarkið og leiðarljós allra áætlana samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins: 

Þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins

  • Samgöngu- og fjarskiptakerfi mynda samhæfða heild til hagsbóta fyrir einstaklinga og atvinnulíf.
  • Grunnnet samgangna og fjarskipta á landi, í lofti og sjó er skilgreint og byggt upp með hliðsjón m.a. af öryggi, vinnusóknarsvæðum, tengingu landshluta og Íslands við umheiminn. 
  • Samgöngur og fjarskipti geri landsmönnum kleift að nálgast opinbera grunnþjónustu á sem stystum tíma og á öruggan hátt. 
  • Ávallt litið til tækniframfara og nýsköpunar.

Sjálfbærar byggðir um land allt

  • Við forgangsröðun aðgerða verði tekið tillit til óska sveitarstjórna og sóknaráætlana landshluta.
  • Skipulag og forgangsröðun samgangna og fjarskipta um land allt taki tillit til umhverfisgæða og lýðheilsu.
  • Fjármögnun aðgerða stuðli að sem hagkvæmastri nýtingu opinberra fjármuna.
  • Sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga virt og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira