Hoppa yfir valmynd

Samgönguáætlun 2019-2033

Ný heildarstefna í samgöngumálum til fimmtán ára var samþykkt á Alþingi í febrúar 2019. Annars vegar stefnumarkandi samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 og hins vegar aðgerðaáætlun fyrir fyrsta tímabilið, 2019–2023. Við gerð samgönguáætlunar er unnið í takt við fimm meginmarkmið að samgöngur séu öruggar, greiðar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar og að þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.

Samgönguáætlun 2019-2033

Aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023 

 

Samgönguáætlun tímabil

Framtíðarsýn

Samgönguáætlun er mikilvægur hluti af samþættri stefnu í samgöngu-, fjarskipta- og byggðamálum og málefnum sveitarfélaga. Samhliða henni eru gerðar byggðaáætlun og fjarskiptaáætlun til lengri tíma. Löng hefð er fyrir stefnumótun á þessu sviði en samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vinnur nú að samræmingu áætlana sinna þannig að til framtíðar verði áætlanir samþættar í eina stefnu og eina aðgerðaráætlun.

Samþættar áætlanirÞað er framtíðarsýn samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins og að byggðir landsins séu sjálfbærar um land allt. Samgöngukerfið er lífæð hverrar þjóðar og mikilvægi þess verður seint ofmetið. Samgöngur snúast ekki aðeins um flutning fólks og farms á landi, sjó og í lofti heldur hefur samgöngum einnig ávallt fylgt flutningur upplýsinga og hugmynda. Þar hefur orðið mikil bylting og mun upplýsingatæknin ráða miklu um þróun samgangna í framtíðinni.

Framtíðarsýn ráðuneytisins er að þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins.

Skipting framlaga

Stærstum hluta ríkisframlagsins til samgönguáætlunar, 531 ma.kr. af 604 ma, verður varið til vegamála. Á fyrsta tímabili áætlunarinnar 2019–2023 er gert ráð fyrir að um 183,6 milljarðar verði til ráðstöfunar til vegamála, um 205,6 milljarðar á árunum 2024–2028 og 215,6 milljarðar frá 2029–2033. Í samgönguáætluninni eru framlög til almenningssamgangna, viðhalds flugvalla og til hafnabótasjóðs aukin frá því sem verið hefur undanfarin ár.

Framlög til vegamála verða samkvæmt fjármálaáætlun aukin um tæpa 6 milljarða á ári fyrstu þrjú árin, 2019–2021. Lagt er til að 10 milljörðum verði árlega varið í viðhald vegakerfisins fyrstu fimm árin. Eftir það verði framlagið hækkað um 2% árlega út 15 ára tímabilið.

Framlög til vegamála seinni tvö tímabilin hækka miðað við það að framlög til samgöngumála verði um 1,5% af landsframleiðslu. Framlög til vegaframkvæmda hafa verið hækkuð um þriðjung frá fjárlögunum 2017, úr um 17,7 milljörðum kr. í 23,5 milljarða í fjárlagafrumvarpinu.

Nýframkvæmdir á samgönguáætlun 2019-2033

Nýjar fjármögnunarleiðir

Ein leiða til að fá aukið fjármagn í vegakerfið er með gjaldtöku á ákveðnum mannvirkjum, svo sem brúm og göngum. Starfshópur hefur lagt fram skýrslu um fjármögnun samgöngukerfisins.

Samþykki Alþingi að ráðast í nýjar fjármögnunarleiðir mætti hraða mikilvægum vega- og jarðgangaframkvæmdum í áætluninni. Í henni eru nú þrjár framkvæmdir sem eru háðar skilyrði um sérstaka fjármögnun og er sérstaklega minnst á í texta samgönguáætlunar. Það eru Sundabraut, láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall í Mýrdal og tvöföldun Hvalfjarðarganga.

Horft hefur verið til nágrannalanda okkar að fyrirmyndum, t.a.m. í Færeyjum og í Noregi. Norðmenn hafa sett hefur á laggirnar nýja stofnun, Nye Veier, sem fjallar um málaflokkinn.

Grunnnet og almenningssamgöngur efldar

Grunnnet samgangnaÍ samgönguáætluninni er stefnt að því að byggja upp og efla grunnnet allra samgangna. Í skilgreindu grunnneti eru um 5.000 km vegakerfi, 38 hafnir, 13 flugvellir og nokkrar ferju-, skipa- og flugleiðir. Sérstök aukin áhersla er í áætluninni lögð á almenningssamgöngur, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þá verður unnið að því að auka möguleika hjólandi í umferðinni í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Í ráðuneytinu er unnið að stefnumótun um hvernig almenningssamgöngum verður best fyrir komið til framtíðar um allt land.

 

Aðskildar aksturstefnur frá Borgarnesi að Hellu

Í áætluninni er gert ráð fyrir að grunnnet vegakerfis verði uppbyggt í lok tímabilsins fyrir utan hálendisvegi. Áhersla er lögð á að ljúka mikilvægum verkefnum á landsbyggðinni en einnig þar sem umferðarþunginn er mestur á suðvesturhorninu.

Stefnt er að því að í lok 15 ára tímabils samgönguáætlunar verði umferðarmestu vegirnir, Vesturlandsvegur, Suðurlandsvegur og Reykjanesbraut komnir með aðskilda akstursstefnu. Það þýðir að þjóðvegurinn frá Borgarnesi að Hellu verði að fullu með aðskilda umferð og Reykjanesbraut inn að flugstöð á Keflavíkurflugvelli með tvöfaldar aðskildar akbrautir.

Á Vestfjörðum verður komin hringtenging í lok tímabils með Dýrafjarðargöngum og uppbyggðum vegum yfir Dynjandisheiði með tengingu yfir til Bíldudals. Með þessari nýju vegtengingu um göngin styttist leiðin um 27 km. Þá verður einnig kominn nýr uppbyggður vegur um sunnanverða Vestfirði alla leið til Patreksfjarðar.

Langtímamarkmið samgönguáætlunar um að tengja allar byggðir með yfir 100 íbúa með bundnu slitlagi næst með vegabótum áætlunarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum og uppbyggingu vegar til Borgarfjarðar eystri.

Nýr vegur um Öxi í áætluninni styttir leiðina milli Hafnar í Hornafirði og Egilsstaða um meira en 70 km. Áætlunin gerir einnig ráð fyrir að ráðist verði í göng til Seyðisfjarðar að loknum framkvæmdum við Dýrafjarðargöng og aðliggjandi vegakerfi. Starfshópur sinnir málefnum Seyðisfjarðaganga og undirbýr ákvörðun um framkvæmdina, m.a. um legu ganganna.

Eitt meginmarkmið samgönguáætlunar er að leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi þótt þeir uppfylli ekki kröfur um burðarþol og veglínu. Lagt verður bundið slitlag á um 130 km af vegum á fyrsta tímabili. Einnig er lögð áhersla á að setja aukið fjármagn í að byggja upp þá tengivegi þar sem umferðin er mikil en það krefst þess að bæta við auknu burðarþoli, breikka vegi og hanna þá með tilheyrandi öryggiskröfum.

Einbreiðar brýr verða færri

Það er markmið áætlunarinnar að fækka einbreiðum brúm á þjóðvegum landsins. Enn eru 39 einbreiðar brýr á hringveginum en margar þeirra verða endurnýjaðar. Á fyrsta tímabili áætlunarinnar mun einbreiðum brúm á hringveginum fækka um níu. Nýr vegur um Lón á þriðja tímabili mun stytta hringveginn um 4 km og fækka einbreiðum brúm á hringveginum um sex.

Ein stærsta brúarframkvæmdin er ný brú yfir Hornafjarðarfljót og aðliggjandi vegir en með henni styttist hringvegurinn um 11 km. Nokkrar eldri tvöfaldar brýr á hringveginum verða einnig endurnýjaðar, s.s. yfir Ölfusá, yfir Jökulsá á Fjöllum, brúin Lagarfljót, báðar brýrnar yfir Skjálfandafljót í Þingeyjarsýslum og brúin yfir Breiðdalakvísl austur við Kirkjubæjarklaustur.

Á fyrstu fimm árum áætlunarinnar verða lagðar 700 m.kr. til viðbótar í vetrarþjónustu. Er það gert vegna stóraukinnar umferðar á stækkandi vinnusóknar- og skólasvæðum og fjölgunar ferðamanna Að því tímabili loknu er miðað við að framlögin hækki um 2% árlega.

Úrbætur á höfuðborgarsvæðinu

Tillögur um úrbætur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu eru tilgreindar í samgönguáætlun, þar með talið uppbygging almenningssamgöngukerfis. Gert er ráð fyrir að Miklabraut verði lögð í stokk og sömuleiðis Hafnarfjarðarvegur í Garðabæ. Einnig að unnið verði að framkvæmdum við Breiðholtsbrautina, gatnamót við Kleppsmýrarveg og margt fleira.

Starfshópur SSH og ríkis skilaði skýrslu með tillögum að uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu til næstu 15 ára í desember 2018.

Flugvellir og hafnir

Samgönguáætlun gerir ráð fyrir auknum fjármunum til viðhalds flugvalla, eða tæplega 600 m.kr. á ári. Í samgönguáætlun er forgangsraðað til viðhaldsframkvæmda flugbrauta, endurnýjunar brýnasta flugleiðsögu- og fjarskiptabúnaðar og endurnýjunar aðflugs- og brautarljósa.

Mikilvægi flugs fyrir hagvöxt og atvinnusköpun verður seint ofmetið. Í því ljósi hefur farið af stað stefnumótun með þátttöku allra helstu hagsmunaaðila um nýja flugstefnu, reyndar fyrstu flugstefnu fyrir Ísland. Í þeirri vinnu verður farið yfir starfsskilyrði flugs og opinbert umhverfi og sett fram stefna sem ætlað er að styðja við starfsemi og uppbyggingu þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Framlög til hafnabótasjóðs hafa aldrei verið meiri en í núverandi samgönguáætlun og nema um einum milljarði árlega næstu fimm árin, þ.e. samtals fimm milljörðum á fyrstu fimm árum samgönguáætlunar. Áætlaður framkvæmdakostnaður á árunum 2019–2023 í höfnum innan grunnnets er um 7,8 milljarðar og utan grunnnets um 870 milljónir.

Fimm meginmarkmið í samgönguáætlun

Við gerð samgönguáætlunar er unnið í takt við fimm meginmarkmið að samgöngur séu öruggar, greiðar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar og að þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.

Fimm meginmarkmið samgönguáætlunar 2019-2033

Öruggar samgöngur

Í samgönguáætlun er lögð rík áhersla á öryggi í samgöngum. Meginmarkmiðið er að öryggi verði haft til hliðsjónar við allar ákvarðanir, áherslur og aðgerðir í samgöngumálum óháð ferðamáta. Helstu áherslur til að ná þessu markmiði eru:

 • Öryggisáætlanir fyrir allar samgöngugreinar samræmdar og aðgerðaáætlanir gerðar til fimm ára fyrir hverja samgöngugrein með mælanlegum markmiðum og árangursmælikvörðum.
 • Eftirlit með leyfishöfum og tíðni þess taki mið af áhættu og frammistöðu í öryggismálum.
 • Trúverðugleiki Íslands tryggður með því að landið standist allar úttektir alþjóðlegra stofnana á öryggi í samgöngum.
 • Að Ísland verði í fremstu röð í Evrópu að takmarka fjölda látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa.

Greiðar samgöngur

Meginmarkmiðið með greiðum samgöngum er að stefnt verði að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Helstu áherslur til að ná þessu markmiði eru:

 • Allar helstu stofnleiðir og tenging við þéttbýli með fleiri en 100 íbúa verði með bundnu slitlagi og viðunandi burðarþoli.
 • Samgöngukerfið lagað að umfangi ferðaþjónustu og dreifingu ferðamanna um landið. Sérstaklega hugað að vetrarþjónustu á vegakerfinu.
 • Unnið að þróun stofnvegakerfis höfuðborgarsvæðis til að auka öryggi og bæta umferðarflæði.
 • Viðhald stofnvega á hálendi auki öryggi og komi í veg fyrir akstur utan vega.
 • Einbreiðum brúm fækkað á umferðarþyngstu vegum landsins.

Hagkvæmar samgöngur

Meginmarkmiðið með hagkvæmum samgöngum er staðið verði að framkvæmdum, viðhaldi og þjónustu með skilvirkum hætti og fjármunir nýttir með eins hagkvæmum hætti og unnt er. Helstu áherslur til að ná þessu markmiði eru:

 • Fjölbreyttar leiðir skoðaðar til fjármögnunar stórra framkvæmda, m.a. í samstarfi við einkaaðila og með innheimtu veggjalda.
 • Leiðir kannaðar að breyttu fyrirkomulagi gjaldtöku vegna notkunar á vegum og endurspegli þannig að hluta til ekna vegalengd, óháð orkugjafa. Gjöld taki mið af álagi og umhverfisáhrifum sem ökutækið veldur.
 • Rafræn þjónusta efld og innleidd í stjórnsýslu samgöngustofnana.
 • Litið verði á samgöngukerfið sem eina heild. Nýir innviðir skipulagðir og þeim forgangsraðað með hliðsjón af niðurstöðum faglegra greininga.

Umhverfisvænar samgöngur

Ríkisstjórnin hefur sett fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem miðar að því að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Þar má finna margar aðgerðir sem snúa að samgöngumálum og orkuskiptum en samgönguáætlun tekur mið af aðgerðaáætluninni. Meginmarkmiðið með umhverfisvænum samgöngum er að þær verði umhverfislega sjálfbærar og stefnt verði að því að draga úr hnattrænum, svæðisbundnum og staðbundnum umhverfisáhrifum. Helstu áherslur til að ná þessu markmiði eru: 

 • Dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum.
 • Tillit tekið til umhverfissjónarmiða við hönnun mannvirkja.
 • Áframhaldandi stuðningur við uppbyggingu og rekstur almenningssamgöngukerfis á landsvísu.
 • Allar nýjar ferjur verði knúnar umhverfisvænum orkugjöfum.
 • Stuðlað að því að skip verði tengd rafmagni í höfnum.
 • Leitað verði leiða til að bæta staðbundin loftgæði og hljóðvist við þjóðvegi í þéttbýli í samstarfi við sveitarfélög.

Jákvæð byggðaþróun

Meginmarkmiðið er að auka lífsgæði í byggðum um allt land með bættum samgöngum. Helstu áherslur til að ná þessu markmiði eru:

 • Leitast við að styrkja samgöngur þannig að sem flestum landsmönnum verði kleift að nálgast nauðsynlega opinbera þjónustu á sem stystum tíma.
 • Unnið að því að stytta ferðatíma innan skóla- og vinnusóknarsvæða.
 • Framkvæmdir og þjónusta samgöngukerfisins miði að því að auka öryggi og efla skóla- og vinnusóknarsvæði.

Undirbúningur og samráð

Samgönguáætlun verður til í þrepum. Ráðherra lagði fram áherslur sínar fyrir samgönguráð sem mótaði tillögu að samgönguáætlun. Víðtækt samráð var haft við sveitarfélög og atvinnulíf. Samráðsfundir voru haldnir í öllum landshlutum og áætlunin kynnt á samgönguþingi síðasta vor. Samgönguráð vann loks í hendur ráðherra tillögur að samgönguáætlun til fimmtán ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.

Samgönguþing og mat á umhverfisþáttum

Samkvæmt lögum um samgönguáætlun er haldið samgönguþing minnst einu sinni í verkferlinu.

Mat á umhverfisáhrifum samgönguáætlunar

Helstu framkvæmdir

Hér að neðan er tafla með öllum helstu framkvæmdum á samgönguáætlun sem kosta 1 milljarð kr. eða meira. Framkvæmdir skiptast á fimm skilgreind svæði; Suðursvæði (Suðurland), Suðursvæði 2 (Höfuðborgarsvæðið og Reykjanes), Vestursvæði (Vesturland og Vestfirðir), Norðursvæði (Norðurland vestra og eystra) og Austursvæði (Austurland).

Svæði Verkefni Tímabil Kostnaður
Suðursvæði Hringvegur – Selfoss-Hveragerði 2018-2022 5,5 ma.
Suðursvæði Hringvegur, Hveragerði-Kambar 2021-2023+ 1,7 ma.+
Suðursvæði Hringvegur um Mýrdal, göng um Reynisfjall Möguleg einkaframkvæmd 5,3 ma.
Suðursvæði Hringvegur – Hella-Skeiðavegamót 2. tímabil 2,4 ma.+
Suðursvæði Hringvegur – Skeiðavegamót-Selfoss 2. tímabil 2,6 ma.
Suðursvæði Hringvegur – brú á Ölfusá 2. tímabil 5,5 ma.
Suðvestursv. Hringvegur um Kjalarnes 2019-2020 3,2 ma.
Suðvestursv. Reykjanesbraut – Kaldárselsv.-Krýsuvíkurv. 2019-2020 2,4 ma.
Suðvestursv. Hringvegur – Fossvellir-Bæjarháls 2. tímabil 4,7 ma.
Suðvestursv. Reykjanesbraut – Holtavegur-Stekkjarbakki 2. tímabil 2,0 ma.
Suðvestursv. Reykjanesbraut – Álftanesvegur-Lækjargata 2. tímabil 5,0 ma.
Suðvestursv. Reykjanesbraut – Krýsuvíkurv.-Hvassahraun 2. tímabil 3,0 ma.
Suðvestursv. Arnarnesvegur 2. tímabil 1,5 ma.
Suðvestursv. Reykjanesbraut – Fitjar-Flugstöð 2.-3. tímabil 3,5 ma.
Suðvestursv. Miklabraut – stokkur 2.-3. tímabil 10 ma.
Suðvestursv. Hafnarfjarðarvegur – stokkur í Garðabæ 3. tímabil 3,5 ma.
Vestursvæði Vestfjarðavegur um Gufudalssveit 2019-2022 6,7 ma.
Vestursvæði Vestfjarðarvegur um Dynjandisheiði 2021-2023+ 1,8 ma.
Vestursvæði Dýrafjarðargöng 2019-2020 7,2 ma.
Vestursvæði Vestfjarðarvegur um Dynjandisheiði 1.-2. tímabil 5,3 ma.
Vestursvæði Uxahryggjavegur 2. tímabil 1,7 ma.
Vestursvæði Hringvegur – Akrafjallsvegur-Borgarnes 2.-3. tímabil 4,0 ma.
Vestursvæði Snæfellsnesvegur um Skógarströnd 2.-3. tímabil 1,1 ma.+
Vestursvæði Bíldudalsvegur 2.-3. tímabil 4,4 ma.
Vestursvæði Hringvegur um Borgarnes 3. tímabil 1,4 ma.
Norðursvæði Skagastrandarvegur 2021-2022 1,4 ma.
Norðursvæði Dettifossvegur 2019-2021 1,5 ma.
Norðursvæði Bárðardalsvegur vestri 1.-3. tímabil 1,5 ma.
Norðursvæði Hringvegur – Jökulsá á Fjöllum 2. tímabil 2,0 ma.
Norðursvæði Norðausturvegur um Skjálfandafljót 2. tímabil 2,0 ma.
Norðursvæði Norðausturvegur um Brekknaheiði 1.-2. tímabil 1,0 ma.
Austursvæði Hringvegur um Hornafjörð 2021-2023+ 2,3 ma.
Austursvæði Hringvegur um Hornafjörð 1.-2. tímabil 4,5 ma.
Austursvæði Hringvegur um Lagarfljót 2. tímabil 1,9 ma.
Austursvæði Seyðisfjarðarvegur, Fjarðarheiðargöng 2.-3. tímabil 25 ma.+
Austursvæði Hringvegur um Suðurfirði 2.-3. tímabil 2,2 ma.
Austursvæði Axarvegur 2.-3. tímabil 1,4 ma.
Austursvæði Hringvegur um Lón 3. tímabil 1,4 ma.+
Austursvæði Hringvegur – Kotá-Morsá 3. tímabil 2,4 ma.

Samgönguáætlun

Sjá einnig:

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira