Hoppa yfir valmynd

Samgönguöryggi

Markmið um öryggi í samgöngum eru sett fram með aðgerðaáætlun í samgönguáætlun í því skyni að draga verulega úr líkum á alvarlegum slysum eða banaslysum. Í aðgerðaáætlunum eru sett fram mælanleg markmið í flugumferð, siglingum og umferðarmálum. Þær eru hluti af fjögurra ára samgönguáætlun og endurskoðaðar á tveggja ára fresti.

Lögð er áhersla á rannsóknir á slysum á öllum sviðum samgangna til að grafast fyrir um orsakir í því skyni að draga úr hættu á endurteknum slysum svo og á bætta skráningu slysa. Rannsóknirnar eru á sviði Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Umferð

Meginmarkmið umferðaröryggisáætlunar til ársins 2022 eru að fjöldi látinna í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum og að fjöldi látinna og alvarlega slasaðra minnki að jafnaði um 5% á ári. Þá verði stefnt að því að lagfæra staði þar sem mörg slys hafa orðið, bæta umhverfi vega til að draga úr hættu á alvarlegum slysum ef ekið er útaf og að akstursstefna verði aðgreind á umferðarmestu vegunum. Einnig verði viðhaft markvisst eftirlit og áróður verði fyrir notkun bílbelta og öryggisbúnaðar fyrir börn, eftirlit verði aukið með hraðakstri, ölvunar- og vímuefnaakstri og notkun farsíma undir stýri. Síðustu árin hafa á bilinu 3 til 16 látist á ári hverju í umferðarslysum.

Umferðaröryggisáætlun 2019-2033

Flug

Uppfylla þarf alþjóðlegar kröfur um flugöryggi og innleiða hverju sinni kröfur Flugöryggisstofnunar Evrópu, EASA, um flugleiðsögu, flugvelli, flugrekstur, þálfunar- og skírteinamál og fleira. Einnig þarf að uppfylla kröfur eftirlitskerfis Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO. Varðandi flug um fáfarna flugvelli og lendingarstaði og fisflug og fleiri atriði sem ekki er fjallað um í alþjóðlegum kröfum eru settar reglugerðir eftir því sem nauðsyn krefur. Banaslys í flugi hafa verið fátíð síðasta áratuginn. Einn lést árið 2009, tveir 2012, tveir 2013 og þrír árið 2015.

Flugöryggisáætlun 2019-2033

Siglingar

Meginmarkmið um öryggi sjófarenda eru að banaslysum á sjó fækki um 5% til 2022 eða í 1,2 banaslys á hverja tíu þúsund sjómenn og að skipssköðum fækki um 5% á ári á sama tíma. Þá eru í aðgerðaáætluninni sett fram markmið um að fækka slysum um borð í skipum, að auka öryggisvitund sjómanna með innleiðingu öryggisstjórnunarkerfa. Fullgiltar verði nýjar reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO, og innleiddar verði reglur Evrópska efnahagssvæðisins um öryggi siglinga. Banaslysum hefur fækkað undanfarin ár og voru þau að meðaltali 2 á ári á tímabilinu 2004 til 2012.

Áætlun um öryggi sjófarenda 2019-2033

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira