Hoppa yfir valmynd

Umferð

Ákvæði umferðarlaga eiga við um umferð á vegum en einnig, eftir því sem við á, umferð ökutækja á lóðum, lendum og afréttum. Frumvarp til gildandi umferðarlaga, nr. 50/1987, var meðal annars samið með það í huga að samræma umferðarlög hér á landi umferðarlöggjöf annarra þjóða og alþjóðasamningum um umferð, eftir því sem kostur væri. 

Í umferðarlögum og stjórnvaldsfyrirmælum, sem sett eru samkvæmt þeim, er að finna hátternisreglur fyrir alla þá sem ferðast í umferðinni. Þar er að finna sérstakar reglur fyrir gangandi vegfarendur, hjólreiðafólk, ökumenn bifreiða, bifhjóla, léttra bifhjóla, torfærutækja o.fl. Þar er einnig að finna reglur um þær kröfur sem gerðar eru til ökumanna, reglur um gerð og búnað ökutækja, reglur um umferðarmerki og yfirborðsmerkingar vega o.fl. Einnig eru sérstakar reglur um grundvöll skaðabótaábyrgðar þegar tjón hlýst af notkun skráningarskylds ökutækis, auk reglna um vátryggingarskyldu skráningarskyldra ökutækja.

Tvær stofnanir á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins hafa hlutverkum að gegna við framkvæmd umferðarlaga, Samgöngustofa og Vegagerðin. Þá hafa aðilar sem ekki starfa undir yfirstjórn ráðherra samgöngumála á borð við lögreglu, sýslumenn, sveitarfélög og ökukennara einnig hlutverkum að gegna við framkvæmd laganna.

Samgöngustofa fer með stjórnsýslu samgöngumála samkvæmt lögum nr. 119/2012 auk þess sem stofnunin annast þau verkefni sem henni eru falin með öðrum lögum. Á vef Samgöngustofu má m.a. finna skýrslur um umferðarslys, fræðsluefni, ýmsar upplýsingar og tölfræði sem tengjast umferðarmálum, upplýsingar um ökunám og svokallað mitt svæði sem býður upp á yfirsýn yfir ökutæki í eigu og umráði innskráðs notanda. Þar er hægt að framkvæma eigendaskipti, panta skráningarskírteini o.fl. Samgöngustofa sinnir m.a. skráningu ökutækja í ökutækjaskrá, skráningu umferðarslysa, setur námskrár fyrir ökunám og hefur eftirlit með ökukennslu, veitir leyfi til skoðunarstöðva sem annast skoðun ökutækja auk þess að hafa eftirlit með starfsemi þeirra o.fl.

Vegagerðin hefur samkvæmt lögum um stofnunina nr. 120/2012, það hlutverk að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins auk þess að annast þau verkefni sem henni eru falin með öðrum lögum. Stofnunin ákveður t.d. hvaða þjóðvegir utan þéttbýlis skuli teljast aðalbrautir þar sem umferð hefur forgang, ákveður hraðamörk á þjóðvegum utan þéttbýlis og sér um að umferðarmerki til stjórnunar á umferð eða leiðbeiningar fyrir umferð verði sett á eða við þjóðvegi utan þéttbýlis.

Ný umferðarlög tóku gildi 1. janúar 2020

umferðarlög, sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2019 og tóku gildi 1. janúar 2020, fela í sér mörg veigamikil nýmæli og breytingar á fyrri löggjöf. Meginmarkmið laganna er að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi þar sem jafnræðis er gætt milli vegfarenda, óháð samgöngumáta, og tillit tekið til umhverfissjónarmiða við skipulagningu umferðar. Lögin eru afrakstur margra ára undirbúnings og heildarendurskoðunar á löggjöfinni í víðtæku samráði við almenning og hagsmunaaðila. Í kjölfar lagasetningarinnar verða ýmsar reglugerðir endurskoðaðar til samræmis við hina nýsamþykktu heildarlöggjöf. Áform um slíkar breytingar verða kynntar í samráðsgátt stjórnvalda.

Umferðaröryggisáætlun 

Í umferðaröryggisáætlun er mörkuð stefna í umferðaröryggismálum á Íslandi. Framkvæmd áætlunarinnar er á forræði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis en ábyrgð verkefna liggur hjá ráðuneytinu ásamt Vegagerðinni, Samgöngustofu og Ríkislögreglustjóra. Allar aðgerðir lúta að því að hámarka öryggi, vernda mannslíf og standa jafnfætis þeim ríkjum er fremst standa í öryggismálum.

Sjá nánar hér:

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira