Hoppa yfir valmynd

Alþjóðlegt samstarf

Auglýst eftir íslenskum European Digital Innovation Hub – DIGITAL Europe

Auglýst er eftir aðilum sem hafa áhuga á að taka þátt í að stofna samstarfsvettvang um rekstur evrópskrar miðstöðvar stafrænnar nýsköpunar á Íslandi (European Digital Innovation Hub, EDIH). Markmiðið er að leiða saman þá aðila sem hafa þekkingu og burði sem þarf til að reka slíka miðstöð þannig að það uppfylli þær kröfur sem Evrópusambandið gerir. 

Hlutverk EDIH

EDIH munu gegna lykilhlutverki í áætlun Evrópusambandsins um stafræna Evrópu (DIGITAL Europe) við að hagnýta þekkingu á ofurtölvum, gervigreind og netöryggi og við að auka háþróaða stafræna færni og notkun stafrænnar tækni í samfélaginu. EDIH er samstarfsvettvangur sem rekinn er án hagnaðar og mun veita þjónustu á ákveðnu sérsviði sem styður einkaaðila og opinberar stofnanir á Íslandi við stafrænar og grænar umbreytingar.

Eftirfarandi dæmi eru um þjónustu sem EDIH veitir:

  •  Umhverfi til prófunar og staðfestingar (test before invest): að tryggja aðgang að sérfræðiþekkingu og þjónustu á sviði stafrænna umbreytinga og aðstöðu/tækifæri til prófana og tilrauna.
  •  Menntun og hæfniuppbygging (training and skills development): að hýsa eða veita þjálfun, starfsnám og styðja við þróun námskeiða sem falla undir verkefni DIGITAL „advanced digital skills“.
  • Stuðningur við að finna fjárfestingar (support to find investment): að styðja lítil og meðalstór fyrirtæki, samtök og opinberar stofnanir við að finna fjárfesta.
  • Netkerfi og vistkerfi til nýsköpunar (Networking and ecosystem access): að gegna miðlunarhlutverki, þ.e. leiða saman iðnað, fyrirtæki og stofnanir til að finna réttan samstarfaðila.
 

EDIH mun gegna mikilvægu hlutverki við að virkja samstarf innlendra aðila, t.d. tækniklasa, samtök fyrirtækja og European Enterprise Network (EEN). Það mun einnig veita fyrirtækjum og opinberum aðilum aðgang að tengslaneti evrópskra miðstöðva stafrænna nýsköpunar (Network of EDIHs) svo hægt sé að sækja stuðning frá öðrum sérhæfðum EDIH sem staðsett eru víðsvegar í Evrópu. Að sama skapi skal EDIH vera reiðubúið til að veita þjónustu til fyrirtækja og opinberra aðila frá öðrum samstarfsríkjum sem þurfa á þeirra sérþekkingu að halda. EDIH-tengslanetið mun vera virkur vettvangur fyrir hvert og eitt EDIH til að deila reynslu og sérþekkingu, kynnast öðrum fyrirtækjum og finna samleið með öðrum frumkvöðlum í stafrænni tækni.

Samsetning og skipulag EDIH

EDIH getur verið hópur lögaðila sem gert hefur samstarfssamning og er frjálst að skilgreina hvernig það er samsett og skipulagt. Það þarf að hafa viðunandi stjórnunargetur, starfsfólk og innviði sem eru nauðsynlegir til að halda uppi starfseminni. EDIH þarf að hafa staðbundna viðveru, en getur átt samstarfsaðila í öðrum landshlutum ef það eykur árangur samstarfsvettvangsins.

Fjármögnun EDIH

Framkvæmdastjórnin leggur til að árlega verði fjárfest á bilinu 1 til 2 milljónir evra í hvert EDIH. Styrkir frá DIGITAL munu fjármagna 50% af heildarkostnaði EDIH, sem þýðir að aðilar EDIH þurfa að leggja fram minnst jafn háa upphæð (frá 500.000 til 1 milljón evra), t.d. með vinnuframlagi. Í núverandi fjárlagadrögum ESB er gert ráð fyrir um 200 EDIH og að hvert aðildarríki og EES-EFTA ríki verði með minnst eitt EDIH.

Val á EDIH

Ferlið við að velja EDIH er tvíþætt. Fyrst er innlent ferli, þar sem auglýst er eftir aðilum sem hafa áhuga á að taka þátt í að stofna samstarfsvettvang um rekstur EDIH á Íslandi. Frestur til að senda inn yfirlýsingu er til 31. maí 2021. Samráðshópur ráðuneyta sem vinnur að undirbúningi á þátttöku Íslands í DIGITAL áætluninni mun taka afstöðu til þeirra yfirlýsinga sem berast og boða til samráðsfunda þeirra sem koma til greina sem aðilar að EDIH. Að loknu samráði mun samráðshópurinn tilkynna framkvæmdastjórninni hvaða aðilar eru tilnefndir sem umsóknaraðilar frá Íslandi.

Seinni hluti ferlisins er stýrt af framkvæmdastjórninni. Framkvæmdastjórnin mun birta auglýsingu (restricted call for proposals) í lok maí 2021 þar sem tilnefndir umsóknaraðilar geta sótt um að verða EDIH. Frestur til að sækja um rennur út í lok september 2021 (nákvæm dagsetning er óstaðfest). Framkvæmdastjórnin ásamt utanaðkomandi sérfræðingum meta svo allar umsóknirnar og tilkynna hvaða aðilar uppfylla skilyrði til að verða EDIH.

Sýn íslenska ríkisins um stafræna þjónustu

EDIH er liður í því að auka færni og djúpa sérþekkingu á Íslandi og styður við stefnu og sýn ríkisins um stafræna þjónustu. „Ísland er meðal allra fremstu þjóða heims á sviði stafrænnar þjónustu. Stafræn þjónusta er notuð til þess að skapa öflugt samfélag með aukinni samkeppnishæfni sem leiðir til verðmætasköpunar og myndar grundvöll hagsældar. Stafræn þjónusta er skýr, örugg, einföld og hraðvirk. Almenningur og fyrirtæki í landinu komast bein að efninu, hvar og hvenær sem er, sem sparar dýrmætan tíma fólks og áhrif þjónustunnar á náttúruauðlindir minnka“.

Nánari upplýsingar um EDIH

Nánari upplýsingar um starfsemi og þau skilyrði sem EDIH þurfa að uppfylla má finna í eftirfarandi skjölum frá framkvæmdastjórninni:

Síðast uppfært: 11.5.2021
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira