Hoppa yfir valmynd

Landsarkitektúr upplýsingakerfa

Landsarkitektúr fyrir opinber upplýsingakerfi er nokkurs konar skipulag eða rammi fyrir upplýsingakerfi opinberra aðila og samskipti þeirra á milli. Hann felur í sér framtíðarsýn fyrir opinber upplýsingakerfi og inniheldur ýmsar skilgreiningar, lýsingar, sameiginleg kerfi og aðra þætti sem mynda og lýsa skipulagi og högun opinberra upplýsingakerfa. Til landsarkitektúrs teljast reglur og staðlar sem unnið er eftir við uppbyggingu og rekstur upplýsingakerfanna, lýsingar á ýmsum ferlum og tengingum milli kerfa, sameiginleg upplýsingakerfi og rafrænar þjónustur sem nýtt eru af mörgum aðilum og aðrir sameiginlegir innviðir í upplýsingatækni.  

Undirbúningur fyrir mótun landsarkitektúrs fyrir opinber upplýsingakerfi á Íslandi hófst í innanríkisráðuneytinu árið 2013. Fyrir liggur skýrsla um afrakstur þeirrar vinnu sem gefin var út árið 2014.

Til að útskýra betur þörfina fyrir landsarkitektúr opinberra upplýsingakerfa má líkja þróun upplýsingakerfa hjá hinu opinbera (þar sem kerfin eru þróuð með hliðsjón af landsarkitektúr) við þróun borgarskipulags í borg. Í borginni eru margar verklegar framkvæmdir í gangi á sama tíma. Erfitt er að hafa yfirsýn yfir öll smáatriði, en allar lúta framkvæmdirnar sameiginlegu borgarskipulagi sem miðar að því að stýra framþróuninni í borginni og tryggja að sameiginlegar auðlindir nýtist sem best.

Að sama skapi er nauðsynlegt að hafa stjórn á þróun opinberra upplýsingakerfa. Löndin í kringum okkur hafa flest komið sér upp landsarkitektúr fyrir opinber upplýsingakerfi. Landsarkitektúrinn byggir á formlegri aðferðafræði sem beita má til að útbúa skipulag eða ramma fyrir upplýsingakerfi og þróun þeirra. Aðferðafræðin nefnist „Enterprise Architecture“ á ensku.

Í hugmyndalíkani Evrópusambandsins um samvirkni kemur fram að tiltekin upplýsingakerfi og rafræn þjónusta mynda það sem í þessu samhengi nefnist grunnþjónusta hins opinbera (e. Basic Public Services). Samkvæmt hugmyndalíkaninu teljast grunnskrár (e. Base Registries) til grunnþjónustu. Undir þá skilgreiningu falla grunnskrár ríkisins, þ.e. Þjóðskrá, Ökutækjaskrá, Fasteignaskrá og Fyrirtækjaskrá og hugsanlega fleiri skrár. Til grunnþjónustu telst einnig rafræn þjónusta til að miðla upplýsingum úr grunnskránum, rafræn auðkenning, rafrænar undirskriftir, önnur kerfi og skrár. Upplýsingakerfi og rafræn þjónusta í grunnþjónustuhlutanum eru nefndar grunngerðir.

Landsarkitektúrnum er ætlað að tryggja að grunngerðirnar séu vel skilgreindar byggingareiningar (e. building blocks) og þær myndi þannig traustan grunn fyrir þróun annarra kerfa sem byggja á grunngerðunum. Skipulagi landsarkitektúrsins er ætlað að tryggja samvirkni milli upplýsingakerfanna í grunnþjónustuhlutanum þannig að þau séu samhæfð og vinni vel saman með rafrænum samskiptum samkvæmt skilgreindum ferlum. Landsarkitektúrnum er einnig ætlað að tryggja áframhaldandi samvirkni við þróun nýrra upplýsingakerfa.

Landsarkitektúr miðar að því að „hámarka hagsmuni heildarinnar“ og auðvelda áframhaldandi þróun og heildaruppbyggingu upplýsingakerfa og rafrænnar stjórnsýslu hjá ríki og sveitarfélögum. Þannig er landsarkitektúr ætlað að hámarka nýtingu takmarkaðra auðlinda og tryggja sameiginlega hagsmuni við uppbyggingu og rekstur upplýsingakerfanna, þ.e. hagsmuni íbúa, ríkis og sveitarfélaga.

Kerfi ríkisins eru eðli málsins samkvæmt ólík eftir aðstæðum og forrituð á mismunandi tímum. Tenging þeirra á milli og við önnur ytri kerfi er ýmist með svokölluðum  Aplication Programming Interface (eða API) eða svokölluðum vefþjónustum.  Vefþjónustur hafa rutt sér til rúms á undanförnum árum og þannig hefur aðgengi þróunaraðila að kerfum ríkisins aukist.  Endurnotkun kerfisviðmóta (API og vefþjónusta) hefur einnig aukist til muna, þar sem hægt er að nýta þau í mismunandi aðstæðum við mismunandi kerfi.

Landsumgjörð um samvirkni

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur verið þátttakandi í verkefni á vegum Evrópusambandsins, svokallað ISA2 (ISA square)  eða Interoperability Solutions for public Administrations, businesses and citizens. Markmið þessa verkefnis, sem hefur hlotið íslenska heitið Landsumgjörð um samvirkni, er að:

  • Stuðla að jöfnum tækifærum fyrir alla hagsmunaaðila – einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir – með framboði á opinni, almennri þjónustu sem veitt er öllum án mismunar.
  • Þjónustuaðilar sjái til þess að lausnir þjóni öllum notendum á sem skilvirkastan og hagkvæmastan hátt og gefi mesta virði fyrir útlagðan kostnað.
  • Útfærsla þjónustunnar og þjónustuþættir séu ákvarðaðar út frá þörfum notenda.
  • Lögð er áhersla á að samvirkni geri mögulegt að nýta að fullu þau tækifæri sem ný tækni skapar til að yfirstíga samfélagslega og efnahagslega mismunun og útilokun.
  • Allar lausnir styðji við aðgengi að notendavænni þjónustu á öruggan og sveigjanlegan hátt.
  • Notendur hafi aðgang að þjónustu á einum stað þar sem einungis er þörf á að veita tilteknar upplýsingar einu sinni til sama aðila.

Nokkuð er til af vefþjónustum fyrir kerfi ríkisins sem nýta má í mismunandi tilgangi við þróun lausna gagnvart kerfum ríkisins.  Hér má nefna: 

Unnið er að því að gera þessar þjónustur aðgengilegri gegnum sameiginlega vefgátt www.landsumgjord.is, fyrir þá sem þróa á móti kerfum ríkisins.
Kominn er grunnur að þjónustumiðuðum arkitektúr fyrir ríkið (e. Service Oriented Architecture - SOA) en þó hefur heildstæður arkitektúr fyrir tækniinnviði ríkisins ekki verið mótaður.
Eistar og Finnar hafa mótað sambærilegan arkitektúr fyrir tækniinnviði sína, svokallað X-Road, sem byggir á SOA högun og munu Íslendingar nýta reynslu þessara þjóða. Í grunninn byggir innleiðing slíkrar högunar á því að gera hverja stofnun, og þá aðila sem þróa kerfi fyrir stofnanir, ábyrgar fyrir að forritunarviðmót og snið gagna sé samkvæmt þeim ramma sem skilgreindur er í ISA2 samstarfsverkefninu ásamt því að gera þær aðgengilegar á sameiginlegri miðlægri gátt.


Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira