Hoppa yfir valmynd

1.4 Þjálfun starfsmanna

1.4.1 Rekstur og vefumsjónarkerfi

Námskeið

Starfsmenn sem koma til með að vinna við verkefnið verða að búa yfir grunnþekkingu á því kerfi sem verður fyrir valinu.

Ein leið er að óska eftir námskeiðum frá söluaðilum eða öðrum þar sem farið er í gegnum helstu eiginleika kerfisins. Starfsmenn sem vinna við kerfið þurfa að hafa góð tök á eftirfarandi atriðum en það er þó breytilegt milli kerfa og ábyrgðarsviðs starfsmanna.

 • Aðgangsstýringar
 • Innsetning á efni
 • Notkun á sniðmátum
 • Skipulagning á efni og flokkun
 • Stillingar á síðum og virkni
 • Leitarvélabestun
 • Aðgengismál

Handbækur

Hafa verður í huga hvort kerfinu fylgi handbækur eða nauðsynleg uppflettirit fyrir starfsmenn. Áður en til samninga kemur er rétt að hafa þessi atriði í huga til að tryggja að starfsmenn hafi nauðsynlega þekkingu til að vinna að framgangi verkefnisins.

1.4.2 Þjálfun í aðgengismálum

Námskeið

Þrátt fyrir ítarlegar leiðbeiningar á vefnum um aðgengismál er alltaf hætta á að vefumsjónarmenn tileinki sér ekki rétt vinnubrögð til að tryggja gott aðgengi að vefjum sínum.

Sértæk námskeið í aðgengismálum fjalla um mikilvægi aðgengismála og notendur fá þar með einnig reynslu og kynnast frá fyrstu hendi þeim hjálpartækjum sem fatlaðir einstaklingar nýta sér til að skoða vefi.

Á aðgengisnámskeiðum yrði meðal annars fjallað um:

 • Mikilvægi staðla í hönnun vefja.
 • Töflunotkun og stillingar á töflum.
 • Litanotkun.     
 • Meðferð á texta, notkun fyrirsagna og hönnun skýringartexta með myndum.
 • Margmiðlunarefni / textun og fleira.

Einnig hefur ítarlegum leiðbeiningum verið safnað saman í sérstakan kafla um aðgengismál hér í vefhandbókinni.

Ítarefni

Gátlisti W3C - til að tryggja lágmarksaðgengi vefja

Prófunarvélar - settu vefinn þinn í sjálfvirka prófun

1.4.3 Þjálfun í skrifum

Það er sitthvað að skrifa fyrir vef og aðra miðla. Taka þarf tillit til hvernig notendur lesa vef, eðli vefsins, notkunar á tenglum og hafa í huga að mismunandi skjástærðir hafa áhrif á lestur. Á vefnum þarf að leggja höfuðáherslu á að koma sér beint að efninu, fjarlægja öll óþarfa orð og hugsa fyrst og síðast um að aðstoða notendur við að leysa verkefni.

Því er mikilvægt að umsjónarmenn vefsins fái nauðsynlega fræðslu og þjálfun í að skrifa fyrir vefinn. Það má gera með því að sækja námskeið og kynna sér leiðbeiningar í bókum og á netinu. Sjá nánar í kafla 4.4.

1.4.4. Þjálfun í vefstjórn

Starf vefstjóra er enn í mótun. Vefstjóri þarf að þekkja mörg svið og hafa fjölbreytta hæfileika. Nauðsynlegt er að hafa grunnþekkingu á tækni vefsins og eiginleikum hans. Þá þarf vefstjórinn að geta unnið með efni á mismunandi formi, svo sem texta, ljósmyndir og myndbönd.

Starf vefstjóra í lítilli stofnun getur verið gjörólíkt sama starfi í stórri stofnun. Og stundum er starfsheitið annað, til dæmis verkefnastjóri eða vefritstjóri. Minnihluti stofnana er með vefstjóra í fullu starfi en flestir sinna starfinu með öðrum verkefnum. Fyrir þann hóp er erfiðara að fá góða yfirsýn og ná almennilegum tökum á starfinu. Þá skiptir miklu máli að sækja ráðstefnur og námskeið, lesa sér til og eiga kost á því að hitta kollega í öðrum stofnunum og fyrirtækjum.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira