Hoppa yfir valmynd

1.5 Vefstefna

1.5.1 Gerð er vefstefna sem styður við opinbera stefnu stofnunar/sveitarfélags

Vefstefna

Vefstefna er skjal sem stjórnendur vefsins vinna markvisst eftir. Í henni þarf að tilgreina ábyrgð og eigendur verkefna. Óskýrt eignarhald veldur árekstrum og getur hindrað framgang vefstefnunnar. Fyrir vefstjóra er hún mikilvægt haldreipi þegar ólíkir hagsmunir takast á um forgangsröðun á vefnum. Vefstefna á að vera auðskilin og mikilvægt er að hagsmunaaðilar þekki inntakið og vinni eftir henni. Hún á að vera sýnileg og leiðarljós þeirra sem vinna í vefmálum. Skjalið má birta opinberlega eða nota það sem vinnuskjal innanhúss.

Vefur stofnunarinnar er kjarninn í vefstefnunni. Hún þarf hins vegar að taka á fleiri dreifileiðum sem styðja við vefinn. Í stefnunni þarf að skilgreina hlutverk annarra vefja, samfélagsmiðla, og annarra miðla sem styðja við vefinn. Hluti af vefstefnunni er efnisstefna (e. content strategy) en fjallað er nánar um efnisstefnu í kafla 4.4 um skrif fyrir vefinn.

Undirbúningur

Þegar vefstefna er mótuð er mikilvægt að hafa samráð við mikilvægustu hagsmunaaðila vefsins. Til að tryggja stuðning við stefnuna að vinnu lokinni er nauðsynlegt að kalla eftir viðhorfum sem víðast úr stofnuninni. Þetta má gera með viðtölum við einstaklinga og með kynningum fyrir mikilvæga hópa.

Framtíðarsýn

Þegar vefstefna er skrifuð er hugað að framtíðarsýn fyrir vefinn. Við mótun framtíðarsýnar þarf að svara eftirfarandi spurningum: Hvernig á vefurinn að líta út eftir tvö til þrjú ár, hvaða þjónustustig veitir hann og hvernig nýtist hann viðskiptavinum?

 • Ákveða þarf hvaða upplýsingar á að birta á vefnum og hvernig.
 • Hverjir eru markhópar vefsins og hvernig á að veita þeim þjónustu?

Undirmarkmið

Skilgreina þarf undirmarkmið sem stuðla eiga að framtíðarsýn. Þau verða að vera mælanleg. Undirmarkmið vefstefnu geta verið:

 • Stefnt er að því að X fjöldi nýti sér þjónustuna yfir ákveðið tímabil.
 • Stefnt er að því að ná fram hagræðingu innan stofnunarinnar með fækkun afgreiðslna í gegnum eldri leiðir um X%.
 • Að þjónustukönnun leiði í ljós X% aukna ánægju viðskiptavina.

Ef þau markmið sem sett eru í vefstefnunni eru ekki mælanleg verður óljóst hver árangurinn af þeim er. Þess vegna er nauðsynlegt að setja sér mælanleg markmið strax í upphafi og skilgreina beinar aðgerðir til að stuðla að því að þeim verði náð.

Beinar aðgerðir

Beinar aðgerðir eru skilgreindar í framhaldi af undirmarkmiðum til að stuðla að þeim sé náð og byggja enn frekar undir framtíðarsýn. Nauðsynlegt er að tímasetja beinar aðgerðir.

Eftirfarandi eru dæmi um beinar aðgerðir:

 • Aukið verði við þjónustu vefsins með auknum rafrænum umsóknum.
 • Stefnumótunarfundir verði haldnir árlega.
 • Vefurinn og þjónustan verði kynnt með greinarskrifum eða beinum auglýsingum.
 • Farið verði yfir vefmælingar mánaðarlega og þær bornar saman við fyrri mánuði.
 • Hvernig staðið verði að leitarvélabestun en leitarvélar eins og Google og Bing gegna sífellt stærra hlutverki í aðgengi notenda að þjónustu, með öðrum orðum, notendur leita og finna í stað þess að koma beint inn á vef viðkomandi stofnana.

Ýmsar vefstefnur

1.5.2 Ímynd vefsins og kynningarmál

Vefnotendur eru fljótir að mynda sér skoðun á vefnum og getur það haft áhrif á öll samskipti við viðskiptavini. Áður en lagt er af stað út í kynningarstarf fyrir vefinn þarf að vera búið að skilgreina markhópinn og hvar sé auðveldast að nálgast hann.

Eftirfarandi atriði má hafa í huga til að undirbyggja trausta ímynd vefsins

 • Útlit og ásýnd vefsins.
 • Gæði efnis og tíðni á uppfærslu.
 • Öflug leitarvél.
 • Viðmót og aðgengi.
 • Rétt markaðssetning.
 • Gæði og skilvirkni þjónustu.
 • Orðspor og almenn umfjöllun.
 • Þá er mikilvægt að vefurinn sé frá upphafi hannaður með réttan markhóp í huga.

Helstu aðferðir til að kynna þjónustuna

 • Í gegnum leitarvélar.
 • Með reglulegum skrifum og bloggi.
 • Virkni á samfélagsmiðlum og auglýsingum þar.
 • Með vefauglýsingum.
 • Keyptir tenglar á vinsælum vefsíðum.
 • Hefðbundnar auglýsingar í ljósavakamiðlum, blöðum og tímaritum.

Aðrar leiðir sem vert er að skoða

 • Rafrænn markpóstur.
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira