Hoppa yfir valmynd

2.1 Hönnun og uppsetning

2.1.1 Hönnunarferillinn

Gerð kröfulýsingar

Áður en kemur að hönnun og forritun vefsins þarf að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu eins og fjallað er um í kafla 1. Skýr kröfulýsing ætti að liggja fyrir áður en farið er með verkefnið í hönnun. Æskilegt er að skipa stýrihóp sem fær umboð til að leiða verkefnið.

Í kröfulýsingu þurfa markmið stofnunar með vefnum að vera ljós og hvaða hlutverki hann eigi að gegna. Annað sem er æskilegt að hafa í huga í kröfulýsingu er eftirfarandi:

 • Hver er megintilgangurinn með verkefninu?
 • Lýsing á virkni.
 • Hvernig árangur verkefnisins verður mældur.
 • Mat á verkefninu í samanburði við núverandi vef.
 • Skilningur á því hver markhópurinn er.
 • Lýsing á leiðarkerfi.
 • Veftré ásamt lýsingu á efni og virkni hverrar síðu.
 • Lýsing á virkni leitarvélar.
 • Skilgreining á útlitshönnun og sniðmátum.
 • Ákveða hver vafrastuðningur eigi að vera og stuðningur við farsíma og spjaldtölvur.
 • Útlistun á aðgengiskröfum.
 • Skilgreina ábyrgð á efni.

Val á samstarfsaðilum

Oftast er hönnun úthýst til grafískra hönnuða sem hafa sérhæft sig í hönnun vefsvæða. Mikilvægt er að leita til aðila sem sérhæfir sig í vefhönnun. Slíkir hönnuðir starfa á vefstofum og ýmsum auglýsingastofum.

Fyrstu skref - hugmyndavinna

Með kröfulýsingu í farteskinu er næsta skref að leita samstarfs við vefstofur, auglýsingastofur, hugbúnaðarhús eða sjálfstætt starfandi einstaklinga. Þessir aðilar geta einnig aðstoðað við gerð kröfulýsingarinnar og í hugmyndavinnunni. Í slíku ferli hlusta hönnuðir á óskir stofnunarinnar og koma með tillögur að útfærslu.

Vefhönnun og notendaupplifun

Vefhönnun snýst að miklu leyti um takmarkanir, málamiðlanir og forgangsröðun.

Ef vefstjóri gefur eftir gagnvart öllum kröfum sem koma frá hagsmunaaðilum þá mun vefurinn líða fyrir það. Ákveðin verkefni þurfa að hafa forgang. Til dæmis á ekki allt efni erindi á forsíðu vefs. Hafa þarf sérstaklega í huga óþolinmæði notenda á vefnum og hvernig þeir skanna frekar vefi í stað þess að lesa þá frá orði til orðs.

Í bókinni „Don't make me think“ eftir Steve Krug nefnir hann sérstaklega 6 atriði sem mikilvægt er að hafa í huga við vefhönnun:

 • Hafðu skýra virðingarröð á hverri síðu þannig að lykilverkefni séu í forgangi.
 • Hafðu skýrt afmarkaða þætti á síðunni, til dæmis með því aðgreina fréttir og þjónustu.
 • Nýttu þér kosti hefðanna, svo sem varðandi staðsetningu á merki (logo), leiðarkerfi og leit, notkun á táknmyndum (íkonum) til dæmis fyrir myndbandsspilun, leit og svo framvegis.
 • Hafðu augljóst hvar eigi að smella, leyfðu hnöppum að líta út eins og hnappar og hafðu tengla augljósa.
 • Forðastu truflanir á vefnum, með of miklu efni, efni sem er á hreyfingu og upphrópanir.
 • Formaðu efnið þannig að það styðji við skönnun.

Vefur verður aldrei vel hannaður ef ekki er vel staðið að undirbúningi. Góður vefur verður að byggja á skýrri stefnu og markmiðum. Umsjónarmenn þurfa að „þekkja“ notendahópinn, vefurinn verður að vera vel skipulagður og umfram allt að innihalda afbragðs efni. Nauðsynlegt er að vera vel undirbúinn þegar samstarf við vefhönnuð hefst því þá eru góðar líkur á að vefurinn skili því sem til er ætlast.

Skýrasta vísbendingin um góða vefhönnun er hvort hann segi notandanum án umhugsunar hver lykilverkefnin eru um leið og vefurinn er skoðaður. Notendur vilja ekki verja miklum tíma í að skilja uppbyggingu vefsins. Þeir ætla að leysa ákveðin verkefni og vefurinn þarf að aðstoða við að leysa þau fljótt og vel. Reynist svo vera hefur tekist að tryggja góða notendaupplifun.

Rýni og prófun

Þegar liggja fyrir drög að útliti sem eru ekki að fullu útfærð er rétt að staldra við og kalla eftir athugasemdum frá öðrum aðilum innan stofnunarinnar. Ef þess er kostur er einnig gott að fá væntanlega notendur til að rýna útlitið og koma með athugasemdir. Ábendingar þeirra gætu varðað tillögu að leiðarkerfi vefsins, nytsemi hans og aðgengileika.

Aðgengi

Hönnuðir þurfa að huga að ýmsu er varðar aðgengi fatlaðra í sinni vinnu. Ákveðnar leikreglur eru í gildi til að tryggja gott aðgengi blindra og sjónskertra og áður en kemur að nánari útfærslu útlits er nauðsynlegt að ganga úr skugga um að slíkt aðgengi sé tryggt.

Upplýsingar um aðgengi má finna í kafla 3.

Útfærsla útlits

Eftir ítarlega rýni og umfjöllun um útlitsdrögin eru þau þróuð áfram. Reynt er eftir fremsta megni að taka tillit til athugasemda notenda. Hönnuður lýkur útfærslu á útliti og gerir það tilbúið til vefunar.

Uppsetning og vefun

Að lokum skilar hönnuður lokaútliti vefsins til forritara hjá þjónustuaðila stofnunarinnar sem vefar það og setur upp í því vefumsjónarkerfi sem ætlunin er að nota.

2.1.2 Vefun og forritun

Nauðsynlegt er að óska eftir því við þjónustuaðila að forritun vefsins komi til með að fylgja stöðlum. Með því er leitast við að tryggja að þjónustan virki í öllum vöfrum og að allir geti nýtt sér hana.

Ef eingöngu er verið að setja upp einfaldan upplýsingavef er þetta ferli tiltölulega auðvelt. Útlitið er sett upp og forritað í viðeigandi staðli og vefumsjónarkerfið stillt til að senda og viðhalda greinum og efnisflokkum.

Ef huga á að rafrænni þjónustu er líklegt að einhver sérforritun þurfi að eiga sér stað. Setja þarf upp gagnatengingar við önnur kerfi sem þjónustan þarf að eiga samskipti við. Eyðublöð þarf að setja upp í formum á vefnum og krefst slíkt alltaf einhverrar sérforritunar eða aðlögunar.

Ef sérforritun er nauðsynleg er lykilatriði að óska eftir því að kóðinn sé eins óháður vefumsjónarkerfinu og mögulegt er. Þannig er auðvelt að skipta um kerfi seinna meir án þess að að grípa þurfi til sérforritunar aftur.

Þegar vefuninni er lokið er rétt að fram fari prófanir til að tryggja að allt sé eins og það á að vera. Allan kóða fyrir vefinn sem þjónustuaðilinn afhendir stofnuninni þarf að vera hægt að sannreyna í viðeigandi prófunarvélum.

2.1.3 Farsímar og spjaldtölvur

Í könnuninni „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“ er spurt hvort hönnun vefsins taki tillit til farsíma, spjaldtölva og annarra smærri tækja.

Stigagjöf: 0=nei, 1=já.

Snjallsímar eru orðnir útbreiddir og með þeim gefst almenningi kostur á að nýta rafræna þjónustu með farsímum eða spjaldtölvum.
Skjáir á spjald- og lófatölvum og farsímum eru litlir og þarf hönnun að taka mið af því.   Mælt er með því að vefir stofnana lagi sig að öllum skjástærðum og styðjist við skalanlega (e. responsive) vefhönnun; stundum nefnd snjöll vefhönnun.

Smáforrit (e. Apps)

Fyrir snjallsíma og spjaldtölvur er hægt að hanna smáforrit sem kallast á ensku „App“. Með hönnun og notkun smáforrita er hægt að sérsníða þjónustu að ákveðnum snjallsíma- eða spjaldtölvukerfum. 

Helstu kostir smáforrita umfram vefsíður er að hraðinn er oft meiri fyrir endurteknar aðgerðir sem notendur þurfa jafnvel að gera oft á dag, aukinn hraði við að ljúka tiltekinni aðgerð, hægt er að bæta upplifun með því að nýta myndavél, staðsetningarþjónustu (GPS) og fyrir sumar aðgerðir þarftu ekki að vera nettengdur.

Hér á landi hafa smáforrit helst verið þróuð fyrir Android (Google) og iOS (Apple) stýrikerfin en minna fyrir önnur stýrikerfi.

Hönnun fyrir snjalltæki

Nú til dags eru vefir undantekningalítið hannaðir með þarfir snjallsíma og spjaldtölva í huga. Þetta er nefnd skalanleg eða snjöll vefhönnun (e. responsive). Vefirnir skalast eftir skjástærð. Ekki er lengur talin þörf á að vera með sérstaka farsímavefi þó vissulega geti smíði á smáforriti verið góð lausn í ákveðnum tilvikum. Mikilvægt er að koma til móts við væntingar ört vaxandi hóps sem notar snjallsíma og spjaldtölvur.

Með því að smíða einn vef sem notendur geta skoðað í hvaða tæki og upplausn sem er má einfalda rekstrarumhverfið verulega í stað þess að bjóða þjónustu á sér farsímavef og/eða smáforriti.

Með þessari þróun gefst tækifæri til að bæta upplifun notenda með því að endurskoða efnið á vefnum. Þetta á að vera hvatning til að taka til á vefnum, fækka síðum, taka til í leiðarkerfi, minnka efni á hverri síðu, bæta framsetningu með fyrirsögnum, listum og annarri vefvænni framsetningu.

Notkun staðla

Markviss notkun staðla er mikilvæg í þessu samhengi því símar sýna minni „þolinmæði“ en hefðbundnir tölvuvafrar gagnvart villum í kóða. Í þróun er sérstakur staðall XHTML Basic, sem má nota fyrir 3G/4G-síma sem styðja ekki alfarið XHTML staðalinn.

Í útboðsgögnum og verðfyrirspurnum þarf að óska eftir tilboði fyrir farsímaútgáfur af vefnum eða þeim hluta hans sem farsímar eiga að geta nýtt.

Ítarefni

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira