Hoppa yfir valmynd

3.1 Texti og myndir

3.1.1. Stafakóðun

Mikilvægt er að efnis- og stafakóðun sé tilgreind með réttum hætti, bæði í HTTP-höfðinu og í HTML-meta taginu, samanber:

<META http-equiv="Content-Type" content="text/html;charset=UTF-8">

Ekki má vera misræmi á milli HTTP og HTML-skilgreininganna.

3.1.2 Myndnotkun

Blindir og sjónskertir notendur nota skjálestrar- og skjástækkunarhugbúnað með talgervli til að skoða vefsíður. Þessi búnaður getur ekki túlkað myndir eða annað efni sem sett er fram sem mynd (til dæmis línurit). Til að koma til móts við þennan notendahóp þarf að fylgja skýringartexti með myndum, svokallaður „alt“-texti. Skýringar með myndum þurfa að vera lýsandi.
 
Þegar skjálesarar rekast á mynd, leita þeir að „alt“-texta sem settur er með alt-eigindinu (e. alt attribute). Ef hann er tómur (alt = „ “) hoppar skjálesarinn yfir myndina án þess að minnast á hana. Ef texti er í alt-eigindinu les skjálesarinn textann í stað myndarinnar. Ef alt-eigindið er óskilgreint les skjálesarinn yfirleitt nafnið á myndaskránni, sem er að öllu leyti ófullnægjandi.

Því ber öllum myndum á vefsíðu að hafa alt eigindið sett. Hér á eftir er farið í nokkur dæmi um hvort alt-eigindi eigi að vera tómt (alt = „ “) eða hafa texta og hvers konar texta skal skrifa í eigindið.

Tryggja þarf að vefumsjónarkerfi sem valið er auðveldi þeim sem setja inn efni á vefi að skrifa „alt“-texta með myndum. Þegar myndir eru notaðar sem tenglar á aðrar síður þarf t.d. að lýsa því í „alt“-textanum hvert tengillinn vísar.

Til að lýsa flóknum myndum, sem erfitt er að lýsa í einni setningu, til dæmis skipuritum, línuritum eða köku- eða súluritum, er hægt að nota „longdesc“-eigindið eða tengja á síður sem hafa aðgengilegan texta sem fjallar um efnið.

Almennt gildir að efni og innihald, sem er sett fram í öðru formi en texta, þurfi að vera hægt að kalla fram sem texta. Þegar efni er sett fram á myndrænan hátt dugar að gera stutta samantekt á lengra efni en það þarf þó að þjóna sama tilgangi og ná fram því markmiði að túlka allt efni sem meta má mikilvægt.

Ef upplýsingar á myndefni þykja svo flóknar að ekki er hægt að útskýra þær vel í texta væri ráð að bjóða upp á Excel-skjal með undirliggjandi gögnum.

Einföld mynd

Hér að neðan gefur að líta mynd af húsi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við Skúlagötu 4.

Hús atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins að Skúlagötu 4 í Reykjavík

Ef farið er með músina yfir þessa mynd sprettur upp stutt lýsing ("alt"-texti) á henni: „Hús atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins að Skúlagötu 4 í Reykjavík“ og telst það lýsa myndinni nokkuð vel fyrir. Þegar umsjónarmaður vefs setur inn sambærilegar myndir er mikilvægt að þessi lýsing sé í lagi.

Óljós skýringartexti með myndinni hér að ofan hefði verið: „Hús“, „Skúlagata“, „Mynd“ eða verst af öllu er ef alt-eigindið er óskilgreint. Ef alt-eigindið er skilgreint en haft tómt (alt = „ “) er myndinni ekki lýst af skjálesara. Það er sjálfsagt að skilja eftir tómt alt-eigindi ef um skrautmyndir er að ræða.

Flókin mynd

Hér að neðan gefur að líta þróun skattatekna ríkissjóðs 2011.

Hlutfallsleg skipting skattatekna ríkissjóðs 2011: Tekjuskattur einstaklinga 22%, tekjuskattur lögaðila 8%, fjarmagnstekjuskattur 5%, eignarskattar 3%, virðisaukaskattur 30%, vörugjöld 11%, tryggingagjöld 15% og aðrir skattar 7%.

Í ofangreindri mynd nægir ekki að hafa einfaldan skýringartexta því um flókna mynd er að ræða. Það er lágmarkskrafa að hafa hér „longdesc“-eigindið til að lýsa myndinni. Eða strax í kjölfar myndar að hafa aðgengilegan texta sem fjallar efnislega um myndina. Dæmi um mjög einfaldan texta sem nær að lýsa myndinni betur:

„Myndin sýnir skiptingu skatttekna á árinu 2011. Stærsti skattflokkurinn er virðisaukaskattur sem er 30%, tekjuskattur einstaklinga er 22% og tryggingagjöld eru 15%. Þá eru minni flokkar vörugjöld 11%, tekjuskattur lögaðila 8%, fjármagnstekjuskattur 5%, eignaskattur 3% og aðrir skattar 7%.“

Ofangreindur texti er þó á mörkum þess að vera nægjanlegur til að lýsa þessu línuriti efnislega. Þegar línurit eða flókin rit almennt eru gerð aðgengilegt á vefjum er mikilvægt að þeir sérfræðingar sem vinna að slíku efni fjalli efnislega um það og hafi hrágögn aðgengileg (til dæmis í viðauka í töflu) svo að upplýsingarnar séu alltaf aðgengilegar fyrir þá sem vilja vinna meira úr efninu eða nálgast það á annan hátt en í myndrænni framsetningu.

„Longdesc“-eigindið er almennt afar lítið notað. Notendum er því betur borgið ef meiri tími fer í að gera síðuna almennt aðgengilega, t.d. ef inntak myndanna kemur fram í meginmáli textans, sem oft er raunin.

Mynd með tengli

Einnig er mikilvægt að hafa skýringartexta með tenglum sem settir eru fram í myndrænu formi, til dæmis auglýsingar um ákveðin málefni. Hér að neðan gefur að líta auglýsingu sem birt er á vef forsætisráðuneytisins til að kynna vefinn Starfatorg.is. Skýringartexta má sjá með því að færa músina yfir myndina.

Óljós skýringartexti með þessari mynd væri: „Starfatorg“ eða „laus störf“ eða þá að hafa engan texta. Ef myndin er hluti af tengli og texti er þegar til staðar í tenglinum, er best að setja alt-eigindi myndar alt = „ “. Ef myndin er hluti af tengli og textinn er ekki í tenglinum þarf að setja alt texta myndarinnar þannig að hann lýsi tilgangi tengilsins. Ef hvorugt er til staðar les skjálesari yfirleitt orðið „link“ eða „tengill“ og svo slóðina á myndaskránna.

Skrautmyndir eða myndir sem þjóna efni ekki tilgangi

Ef myndefni er notað til að skreyta efni á vef þá þarf að tryggja að slíkar myndir séu ekki að trufla notendur sem nýta sér skjálesara og er framkvæmdin sú að skilja skýringartexta og titla, sem lýsa slíku myndefni, eftir auðan. Notendur geta þannig hunsað slíkar myndir og einbeitt sér að raunverulegu efni vefsins. Í þessum tilvikum er þó lykilatriði að skilgreina tómt eigindi í „alt“-texta sem fylgir skrautmyndinni.

  • Ef texti er á myndinni sjálfri ber ávallt að afrita hann í alt-eigindi hennar.
  • Ef texti er í titli „title“ myndar er einnig best að afrita hann í alt-eigindið (því skjálesarar lesa ekki alltaf titil-eigindið sjálfkrafa).

3.1.3 Vandræði með CAPTCHA

Mörg vefsvæði hafa á síðustu árum tekið upp myndræna aðferð til að leitast við að tryggja að notendur sem eru á síðunni séu einstaklingar – ekki tölvur. Er þetta gert til að tryggja öryggi þar sem hægt er að nota tölvur til ýmissa árása og er þetta vörn gegn slíkum tilraunum eða svokölluðu SPAMI.

Algeng aðferð er sú að notandi þarf að slá stafi úr brenglaðri mynd sem birtist á skjánum. Mörg dæmi eru um vandræði sem þessu tengjast fyrir almenna notendur en þau aukast gríðarlega ef viðkomandi notandi býr við fötlun.

Það er þekkt aðgengisregla að ekki megi nota staðsetningu eða liti til að koma á framfæri upplýsingum, því hvorugt nýtist skjálesurum. WCAG 2.0 AA-gátlistinn gerir ákveðna undantekningu á CAPTCHA-notkun en nokkur umræða er um að vandræðin séu meiri en fólk gerir sér almennt grein fyrir.

Hægt er að koma með ráð til að tryggja aðgengi blindra að CAPTCHA-myndum en það er að nota hljóðdæmi. Hins vegar má benda á að daufblindir notendur eiga enga leið til að fá aðstoð í þessum efnum. Almennt er talað um að CAPTCHA sé úrelt aðferð til að stemma stigu við tölvuárásum þar sem tölvur eru að komast í gegnum slíka síu. Mörg fyrirtæki og stofnanir eru því að hverfa frá notkun á CAPTCHA. 

Betri tækni en hljóðdæmi eru CAPTCHA sem byggja á spurningum sem notandi þarf að svara. En þá má benda á að hljóðdæmi virka ekki fyrir fólk sem á í erfiðleikum með að skilja tungumálið því orðin geta verið óskýr.

3.1.4 Forritun með Flash og Silverlight

Öll atriði WCAG 2.0 AA sem hér er fjallað um gilda einnig ef vefir eru hannaðir í Flash, Silverlight eða með öðrum sambærilegum tólum. Almenna reglan er þó sú að ef það er hægt að koma tilætluðum upplýsingum á framfæri með því að nota einfalt HTML skal ávallt velja það umfram aðra tækni. En um þessa viðbótartækni gilda eftirfarandi ráð:

Flash Professional-forritið gefur forriturum ýmis ráð til að tryggja aðgengi. Forritarar eru hvattir til þess að setja skýringartexta þar sem Flash Professional gerir þeim það kleift og er til þess fallið að lýsa innihaldi og efni sem er skjálesurum að öðru leyti ekki aðgengilegt.

  • Forritarar eru hvattir til þess að nota aðgengisspjaldið (e. accessibility panel) sem má finna í Window – Other Panels – Accessibility.
  • Í Silverlight 3+ forritunarmálinu er forriturum gert kleift að nota Silverlight AutomationProperties til að gera aðgengilegan stuttan texta fyrir efni sem innifelur ekki texta.

Flash-aðgengi er ekki alslæmt en þó ekki eins vel útfært og HTML-aðgengi almennt. Einnig er mikilvægt að hafa í huga við afspilun að valinn sé Flash-spilari sem hefur merkta hnappa (play, stop, forward o.s.frv.). Oft ber við að Flash-spilarar bjóða ekki upp á þetta, sem veldur notendum miklum óþægindum. Silverlight-stuðningur í aðgengistækni er afar takmarkaður og hingað til hefur verið mælt alveg gegn því að nota Silverlight-tæknina.

Ítarefni

Góð ráð fyrir Flash-forritara til að mæta kröfum WCAG 2.0

WCAG 2.0 Techniques for Silverlight

Silverlight Accessibility Overview

Hands-on exercise for making Silverlight applications accessible

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira